Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Hlutverk forseta íslenska lýðveldisins.
6.11.2010 | 12:42
Það var fyrst með athöfnum Ólafs Ragnars Grímssonar í hlutverki forseta sem fólk fór að velta fyrir sér, í alvöru, stöðu forseta í stjórnskipan íslenska lýðveldisins. Forverar Ólafs í embætti höfðu fyrst og fremst verið samstöðutákn og haldið sig utan við stjórnmálin. Ólafur Ragnar hefur í tvígang neitað að skrifa undir lög sem Alþingi hefur samþykkt og hefur hann verið ötull í að hafa frumkvæðið í samskiptum við önnur ríki. Einhverjir hafa gagnrýnt forsetan fyrir að vera að skipta sér að stjórnarathöfnum og taka fram fyrir hendurnar á Alþingi og ríkisstjórn. Eitt er víst að Ólafur Ragnar fer í einu og öllu eftir Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.
Nú þegar framundan er stjórnlagaþing er áhugavert að velta því fyrir sér hvað Stjórnarskrá eiginlega er og sérstaklega stöðu forseta íslenska lýðveldisins. Sigurður Líndal lagaprófessor hefur til að mynda látið hafa eftir sér að nær væri að menn færu eftir Stjórnarskránni en að menn væru að ráðast í breytingar á henni. Það er einmitt þetta atriði sem mig langar að impra aðeins á í þessum pistli.
Eru menn að fara eftir Stjórnarskránni? Og ef ekki, hversu mikilvægt plagg er þá þessi Stjórnarskrá?
Við lestur Stjórnarkrárinnar er áberandi hversu stór partur fer í útlistun á hlutverki forseta lýðveldisins. Fyrsti kaflinn er einungis tvær greinar, hvar af önnur greinin segir að forseti fari með löggjafarvaldið ásamt Alþingi og að forseti fari með framkvæmdarvaldið ásamt öðrum stjórnvöldum. Síðan fjallar allur annar kaflinn í alls 26 greinum um forseta lýðveldisins. Grasrótarhreyfingar hafa undanfarið skorað á forseta að setja neyðarlög vegna ástandsins í þjóðmálunum og vísa þar til 25. greinarinnar en hún segir:
Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta
Hér er alveg kristaltært að vilji höfunda Stjórnarskrárinnar var að forseti gæti, rétt eins og alþingismenn og ráðherrar, lagt fram lagafrumvörp og tekið þannig beinan þátt í stjórnarathöfnum.
26. greinin fjallar svo um synjunarvald forseta og þjóðaratkvæðagreiðslur, sem flestum ætti að vera kunnugt um en fleiri greinar kveða skýrt á um hlutverk forseta í stjórnskipan lýðveldisins. Ég vil vekja sérstaklega athygli á 21. greininni en þar segir:
Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki...
Ég hef í annarri grein talað lítillega um fyrirmynd íslensku Stjórnarkrárinnar. Bandaríska Stjórnarkráin er fyrirmynd hinnar íslensku, rétt eins og hún er fyrirmynd flestra annarra lýðræðislegra stjórnarskráa. Það er mitt álit, eftir lestur íslensku stjórnarskrárinnar að höfundar hennar hafi haft þá meiningu að forseti lýðveldisins hefði veigameira hlutverk í stjórnarháttum en venja hefur skapast um. Það er auðvelt að lesa Stjórnarkránna og ætla af lestri hennar að hlutverk forseta sé mun meira í átt við bandaríkjaforseta en danakonung.
Það er sérstaklega 13. greinin sem menn hafa túlkað sem svo að vilji höfunda Stjórnarskrárinnar hafi verið að ráðherrar, en ekki forseti fari með framkvæmdarvaldið en hún segir:
Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.
Ég get allavega lesið þetta sem svo að valdið liggi hjá forsetanum sjálfum en hann skipar ráðherra til að fara með þetta vald sitt í daglegum rekstri. Sérstaklega þar sem forseti skipar ráðherra og veitir þeim lausn og ákveður fjölda þeirra (15. grein). Meira að segja er það forseti sem á að skipa embættismenn (20. grein).
Af þessu öllu er mér allavega ljóst að meining Stjórnarkrárinnar var og er að gera embætti forseta mikið og meira í þá átt sem bandaríkjaforseti er í Bandaríkjunum en þá hlutleysisfígúru sem forsetinn hefur verið í íslenskri stjórnskipan.
Við getum síðan velt því fyrir okkur hvort okkur þyki þetta æskilegt eður ei þegar við endurskoðum Stjórnarskránna, en mér er þetta kristaltært meiningin var að forseti hefði veigameira hlutverk í stjórnsýslu lýðveldisins. Persónulega finnst mér það betra fyrirkomulag, vegna þess að það eitt og sér dreifir valdinu og er hin eiginlega skipting framkvæmdarvalds og löggjafarvalds Alþingi fer þannig með löggjafarvaldið en forsetinn með framkvæmdarvaldið, rétt eins og skýrt er kveðið á um í bandarísku Stjórnarskránni.
Þá kemur að öðru mikilvægu atriði sem ég impraði á áðan en það er: Er farið eftir Stjórnarskránni? Og ef ekki hvað er þá til ráða?
Mér er það ljóst að ný Stjórnarskrá þarf að innihalda ákvæði, skýrt og skorinort, sem tryggir það að allir þegnar, allir embættismenn, allir kjörnir fulltrúar, fari eftir Stjórnarskránni. Það er ákaflega bagalegt að ekki sé minnst á það einu orði hvað gera skuli ef að ágreiningur komi upp um að farið sé eftir Stjórnarskránni. Það þarf að leggja niður fyrirfram ákveðið ferli sem fer í gang ef að réttlátur grunur leikur á um Stjórnarskrárbrot. Við þekkjum ákveðin dæmi úr fortíðinni, sem endað hafa sem ágreiningur lögspekinga og stjórnmálamanna og ég minntist á orð lagaprófessorsins um að ekki væri farið eftir Stjórnarskránni. Þessu þarf að breyta í nýrri Stjórnarskrá að mínu mati.
Réttast væri að ný Stjórnarskrá hefðist á viðlíka orðum:
Komi fram réttlátur grunur um að Forseti, Alþingi eða embættismenn fari ekki í einu og öllu eftir Stjórnarskrá þessari, skal leggja málið í dóm þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu. Forseti getur farið fram á slíka atkvæðagreiðslu, helmingur Alþingismanna getur farið fram á slíka atkvæðagreiðslu og meirihluti Hæstaréttar getur farið fram í slíka atkvæðagreiðslu ásamt einum tíunda hluta atkvæðabærra Íslendinga.
Né er ég ekki að segja að einbeittur brotavilji hafi verið á Íslandi til að fara gegn Stjórnarskránni. En varnagla þarf að setja og hann þarf að vera skýr. En skýr Stjórnarskrá, sem tekur af sem mestan vafa um vilja þjóðarinnar til stjórnskipulags er alltaf fyrsta atriðið og það mikilvægasta þegar talað er um að farið verði eftir þeim grunnlögum sem Stjórnarskrá alltaf er.
Til hamingju íslendingar með Þjóðfundinn 2010 Lifið heil!
Þór L. Stiefel / Tora Victoria
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
AGS óttast mjög efnahagsstöðugleika
29.4.2010 | 14:32
Það er ekkert óeðlilegt við það að fólk velti því fyrir sér, nú þegar gjaldþrotahrina fer um heimsbyggðina, hvernig á því standi að á einum tíma flæði allt í ódýru lánsfé en síðan sé eins og það hverfi skyndilega. Akkúrat núna er Grikkland í umræðunni vegna hugsanlegs gjaldþrots. Hvernig stóð á því að Grikkland skuldsetti sig svo mikið að það stendur nú á barmi gjaldþrots? Í raun eru fjölmörg ríki stórskuldug. Til samanburðar við gríska ríkið sem skuldar 113% af sinni þjóðarframleiðslu, þá skuldar íslenska ríkið 95%, ítalska ríkið 115%, japanska ríkið 192%, bandaríska ríkið 87%, breska ríkið 68% og portúgalska ríkið 75%, svo fáein séu nefnd.
Ég ætla í þessum pistli að útskýra, á mannamáli, hvernig stendur á því að fjárhagur heimsins er að fara fjandans til. Bara svo að ekki sé hægt að saka mig um einhverja svartsýni eða vitleysu, þá ætla ég að byrja á því að vitna beint í skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um alþjóða efnahagsstöðugleika frá árinu 2010:
With the global economy improving (see the April 2010 World Economic Outlook), risks to
financial stability have subsided. Nonetheless, the deterioration of fiscal balances and the rapid
accumulation of public debt have altered the global risk profile. Vulnerabilities now increasingly
emanate from concerns over the sustainability of governments balance sheets. In some cases, the
longer-run solvency concerns could translate into short-term strains in funding markets as investors
require higher yields to compensate for potential future risks. Such strains can intensify the shortterm
funding challenges facing advanced country banks and may have negative implications for a
recovery of private credit. Global Financial Stability Report p. 11.
Fyrir ykkur sem skiljið ekki stofnana ensku þá er hér verið að segja að þó að alþjóða hagkerfið hafi skánað, þá hafi efnahagsstöðugleiki minnkað (takið eftir því að sagt er: risks to financial stability have subsided, sem þýðir orðrétt: hættan á enfahagslegum stöðugleika hefur minnkað ?!? já þetta er liðið sem hefur efnahag íslendinga nú í höndum sér og var einhver að tala um að íslendingar kynnu illa ensku?).
Allavega, þá er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, OECD, og nokkurnveginn allir sem um efnahagsmál hugsa, með áhyggjur af þróun skulda fjölmargra ríkja þessa heims. Þess vegna er verið að taka hart á skuldamálum, til dæmis grikkja, og það lagt hart að ríkjum að laga fjárlagahalla sem allra fyrst.
En hvernig stendur á því að þjóðir heims skulda svo mikið í dag að það horfir til svo mikilla vandræða?
Lítum aðeins á þróun ríkisskulda undanfarna áratugi.
Eins og sést á þessu grafi þá hefur meðaltal ríkisskulda verið að hækka jafnt og þétt frá miðjum áttunda áratugnum (sjáið að það stefnir í algert óefni hjá G7 ríkjunum). Við sjáum að skuldirnar fóru niður frá 1950 en þá var verið að vinna á stríðsskuldum vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Eftir miðjan áttunda áratuginn fara skuldir svo hratt vaxandi. Hvers vegna er þetta svo?
Árið 1987 skipaði bandarískur forseti að nafni Ronald Reagan nýjan seðlabankastjóra, mann að nafni Alan Greenspan. Sá maður hefur síðan þá haft stjórnun efnahagsmála Bandaríkjanna, og þar með jarðarinnar á sinni könnu. Það er með ólíkindum hversu lítil gagnrýni hefur verið á mótsögnina sem felst í efnahagsstýringu seðlabanka Bandaríkja Norður Ameríku. Þar í landi er almennt boðuð hin svo kallaða Laissez-faire stefna í efnahagsmálum. Hún gengur út á að markaðurinn eigi að finna jafnvægi og allar þvingaðar aðgerðir muni koma sér illa fyrr eða síðar. Samt sem áður hefur enginn séð ástæðu fyrir því að setja spurningarmerki við það að vaxtastig í bandaríkjunum (og þar með heiminum öllum) er handstýrt af seðlabanka bankaríkjanna. Greenspan þessi notaði vaxtastig sem hagstjórnartæki alla sína tíð sem seðlabankastjóri. Vextir eru ekkert annað en verð á peningum og vekur það mér alveg óendanlega furðu að verð á öllu eigi að ákvarðast á markaði nema verð á peningum! Samt var það markmið með fljótandi gengi gjaldmiðla heimsins að láta verð gjaldmiðlanna ráðast á mörkuðum.
Við skulum nú átta okkur á því sem er undirliggjandi í hagkerfum heimsins, og þá sérílagi hagkerfum vesturlanda. Undanfarna áratugi hefur framleiðsla verið að færast frá vesturlöndum til landa þar sem ódýrara vinnuafl er að finna. Þetta hefur eðlilega kallað á atvinnuleysi á vesturlöndum. Atvinnuleysi kallar svo aftur á tvennt: í fyrsta lagi minnkandi kaupmátt og þar af leiðandi minni hagvöxt og svo í öðru lagi aukin útgjöld ríkisins vegna velferðarmála á sama tíma og ríkið fær minni skatttekjur vegna minni veltu.
Greenspan seðlabankastjóri var maður með ofurtrú á því sem kallað er í hagfræðunum monetary policy eða peningastefnu. Hann hugsaði sem svo: Ef að hagvöxtur hefur minnkað, verður að auka hann á ný. Til að auka hagvöxt þarf að hvetja fólk og fyrirtæki til að fara í framkvæmdir. Til að gera fólki og fyrirtækjum það kleift þarf að veita þeim aðgang að ódýru fjármagni. Þess vegna mun ég lækka vexti svo að það sé eftirsóknarvert að taka lán til að standa í framkvæmdum, sem mun veita fólki vinnu og skapa hagvöxt.
Þetta er allt gott og rétt svo langt sem það nær.
Það sem er að í þessari jöfnu er að framleiðslan var farin úr landi. Það voru ekki lengur framleiddir íþróttaskór, bílar, húsgögn, skip eða jafnvel hugbúnaður í Bandaríkjunum. Lánin sem tekin voru til að setja á stofn fyrirtæki voru aðallega í þjónustu og þá við innanlandsmarkað. Það getur verið að það mælist í hagvexti ef að bandaríkjamenn klippa hvern annan og snyrta en það eru ekki þjóðartekjur. Ríki eru ekkert öðruvísi en fyrirtæki eða heimili, það þarf að kaupa eitthvað inn og í staðinn þarf að selja eitthvað. Undanfarna áratugi hafa vestrænar þjóðir þurft að flytja inn æ meira af þeim iðnaðarvörum sem þær nota. Sú var tíðin að nánast allir bílar í Bandaríkjunum voru framleiddir þar en nú hefur dæmið snúist við. Sama má segja um fatnað, húsgögn, raftæki og yfirleitt allt það sem hægt er að framleiða ódýrar annars staðar en í Bandaríkjunum. Þetta er afleiðing hnattvæðingarinnar. Og rétt eins og á heimilunum þá er freistandi fyrir ríki að taka lán þegar meira er keypt inn en selt út. Ef í ofanálag hægt er að fá helling af ódýru lánsfé í boði Alan Greenspan, nú þá er það ekki spurning. Lán voru tekin og áhyggjur af endurgreiðslu geymdar þar til síðar.
Nú er komið að skuldadögum. Nú fær Grikkland, Ísland, Úkraína, Portúgal og öll hin ekki lengur ódýrt lán. Nú þurfa ríkin að afla fyrir því sem þau eyða. Nú eiga ríkin um tvennt að velja skera niður eða hækka skatta. Velkomin á fætur!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eigið fé þér?
21.4.2010 | 05:53
Frá eiginfjárþætti A dragast eigin hlutabréf (stofnfjárbréf í tilviki sparisjóða),
viðskiptavild og aðrar óefnislegar eignir og tap og samþykkt arðsúthlutun. Í
ályktunum rannsóknarnefndar Alþingis í kafla 11.2.12, þar sem fjallað er um
reikningsskil bankanna og ytri endurskoðun þeirra, er því lýst að veigamikil
rök leiði til þeirrar niðurstöðu að draga hafi borið lán, sem einvörðungu
voru tryggð með veði í eigin hlutabréfum, frá eigin fé fjármálafyrirtækis
samkvæmt reglu 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002.5 Þessi sjónarmið eru
jafnframt reifuð í rammagrein um túlkun á því hvað teljist til eigin hlutabréfa. Bls. 10, 3. bindi
Er þar sérstaklega horft til þess að ef eigin hlutir, sem teknir hafa verið að veði
gegn lánum, eru ekki dregnir frá innborguðu hlutafé lítur út fyrir að eigið
fé viðkomandi fjármálafyrirtækis sé hærra en það raunverulega er ef á það reynir. Bls 11, 3. bindi. Feitletranir mínar.
Í þessari tilvitnun, úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, er rannsóknarnefndin beinlínis að tala um að stjórnendur ákveðinna fjármálafyrirtækja hafi brotið lög, á þeim tíma er skýrslan tekur til. Það er sem sagt verið að segja að það sé ekki löglegt að banki geti haft áhrif á verðgildi eigin hlutabréfa, með því að skapa eftirspurn eftir þessum bréfum, með því að lána sjálfur fyrir kaupum á þessum sömu bréfum, gegn engum veðum öðrum en í bréfunum sjálfum, og draga það svo ekki frá eigin fé bankans.
Á mannamáli þýðir þetta að það er ólöglegt að fyrirtæki hafi áhrif á verð (eftirspurn) eigin hlutabréfa með því að lána fyrir hlutabréfunum með veði í bréfunum og bókfæra það síðan sem eign (eigið fé) en ekki skuld. Bankinn á, að sjálfsögðu, þegar á reynir, sjálfur hlutabréfin; þó formlega sé búið svo um hnútana að einhver annar sé skráður fyrir þeim. Fjármálafyrirtækið á að draga eigin hlutabréf frá eigin fé en hér stofnuðu fyrirtækin bara til málamyndagjörnings til að fara á svig við lögin. Ef þú hagar málum svona ertu í raun að ljúga á tveimur vígstöðvum.
Í fyrsta lagi með því að hafa áhrif á verð félagsins með því að skapa falska eftirspurn og í öðru lagi með því að segja að félagið sé betur stætt en það í rauninni er með því að falsa eiginfjárstöðuna.
Ég held að við séum flest öll sammála því, nema þá fyrrverandi stjórnamenn fjármálafyrirtækjanna að sjálfsögðu, að þessi háttur sé afar óeðlilegur svo ekki sé meira sagt. Það verður gaman að fylgjast með því þegar þeir reyna að snúa sig út úr þessu fyrir dómstólum.
Við sjáum nú að það var mikill hvati fyrir stjórnarmenn að standa svona að málum þar sem þetta hafði bein áhrif á launakjör þeirra í gegnum bónusgreiðslurnar. Þetta sama er að gerast úti í hinum stóra heimi og eru málin um Lehman bankann, undirmálslánin og nú síðast Goldman Sachs einungis toppurinn á ísjakanum. Ég vona nú að menn fari að átta sig á því að kaupaukar, bónusgreiðslur og arðsemiskröfur eru nú ekki alveg eins mikil "tær snilld" eins og af er látið, þegar grannt er skoðað.
p.s
Í grunninn eru bókhaldsreglurnar þannig að þegar fyrirtæki gefur út (selur) hlutabréf í sjálfu sér, þá skuldar fyrirtækið þeim sem keypti bréfin nafnverð bréfanna. Hjá íslensku fjármálafyrirtækjunum virðist snúningurinn hafa verið þannig: Fyrirtækið gefur út bréf og skapar við það skuld, en á meðan bréfin eru ekki seld þá á fyrirtækið bréfin á móti skuldinni og nettóstaðan er óbreytt. Síðan lánar fyrirtækið einhverjum fyrir kaupverði bréfanna og við það myndast eign í bókum félagsins.
Fyrirtækin voru í raun að búa til peninga. Við vitum flest öll að verðmæti hlutafélags eykst ekki við það eitt að geta út fleiri hlutabréf. Eigið fé þess eykst ef að bréfin eru seld, en skuldir fyrirtækisins aukast á móti. Við sjáum, hins vegar, að við þennan snúning (að lána fyrir kaupum á bréfum í sjálfu sér með veðum í bréfunum) þá hefur eiginfjárstaðan batnað.
Það sem rannsóknarnefndin er að benda á að sé ólöglegt er að, ef að bréfin eru seld einhverjum (í raun lánuð), með engum veðum öðrum en í bréfunum sjálfum, þá beri að líta svo á að bréfin séu enn í eigu félagsins og því beri að draga þau frá eiginfjárstofni eins og lög gera ráð fyrir; það er talað um ábyrgð og hugsanlegan fjárhagslegan skaða ef eignin rýrnar. Það er svo augljóst að verið er að standa í þessu einungis til að láta svo líta út að meira eigið fé sé til staðar en raunin er og það er að ljúga til um stöðu fyrirtækisins og það er ólöglegt. Skák og mát ;)
Lítum á þetta í hnotskurn út frá sjónarhorni bankans:
Hlutabréf eru gefin út
Hlutafbréf = skuld
Ónefndur Holding (ÓH) fær lánað X-krónur (fyrir bréfunum) = eign
(ÓH) kaupir bréfin (fyrir peningana sem hann var að fá lánaða) = skuld
Eftir stendur X-krónur (það sem bréfin voru seld á) í bókum félagsins sem aukið eigið fé þó ekkert utanaðkomandi fé hafi runnið inn í bankann.
Bankinn á nú skuldaviðurkenningu frá (ÓH), en skuldar á móti hlutabréfin. Það sem er aðalatriði er að það sýnist eins og bankinn hafi aukið eigið fé sitt um og X-krónur (söluandvirði bréfanna), þó í rauninni hafi engir peningar komið í kassann og bankinn á í raun enn bréfin, þar sem ekkert hefur verið greitt fyrir þau og allt lánað með 100% veðum í bréfunum.
Við sáum svo á síðustu metrunum hvar bankarnir (sérstaklega Kaupþing) hreinlega afskrifaði þessar skuldir Óháanna um leið og virði bréfanna hrundi. Það er í sjálfu sér einnig ólöglegt þar sem stjórnendur félaganna voru þar með að gefa eignir félaganna; eitthvað sem þeir hafa ekkert leyfi til og ætti að vera algerlega fráleitt að gera. Þeir afskriftargjörningar sanna meira en allt annað hversu mikil sýndarmennska þessi "lána-sala" í rauninni var, og er í rauninni viðurkenning stjórnendanna á markaðsstýringu og verðfölsunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jæja þá fer alvarleiki bankasukksins og útrásarinnar svokölluðu að líta dagsins ljós.
Það var ekkert óeðlilegt við það að úr neyslubrjálæðinu drægi. Flestum fannst löngu kominn tími til að um hægðist á byggingarmarkaði og verð á húsnæði færi niður. Atvinnuleysi á Íslandi í dag væri nánast ekki neitt ef ekki hefði verið flutt inn vinnuafl í þúsundatali. Krónan var of hátt skráð og menn biðu eftir lækkun hennar, ekkert óvænt við það.
Það sem er alvarlegt núna og er að fara að skella á íslensku þjóðinni af fullum þunga er lækkun lífeyrisgreiðslna.
Bara fyrir þá sem hafa ekki áttað sig á því þá er rétt að taka það fram hér að bankarnir, útrásarvitleysingarnir og fjárfestingasukkið hefði aldrei getað átt sér stað nema vegna þess að verið var að spila með fé lífeyrissjóðanna. Það er sömuleiðis mikilvægt að menn átti sig á því að stjórnendur lífeyrissjóðanna réttlæta háar launagreiðslur sér til handa vegna þeirrar ábyrgðar sem í því felst að fara með sparifé (og framtíðarlífsgæði) sjóðsfélaga. Nú hafa þessir sömu stjórnendur (já þeir sitja nánast allir enn) kastað fé sjóðsfélaga þannig að nemur milljarða tapi. Þessir stjórnendur áttu einn stærsta þáttinn í því að fjármagna bankanna (og þar með eigendur þeirra og þar með einkalán til stærstu eigenda þeirra).
Ég vil að almenningur í landinu átti sig á margfeldisáhrifum þessara hrikalegu mistaka og vanhæfni stjórnenda lífeyrissjóðanna í landinu.
Í fyrsta lagi var verið að fjárfesta í fyrirtækjum útrásarvíkinganna og bönkunum og sjóðum þeim tengdum. Þannig var verið að kynda undir sukkið og svínaríið og jafnvel verið að gera þetta allt saman kleift sem síðan leiddi til efnahagshruns íslensku þjóðarinnar.
Í öðru lagi þýðir tap og afskriftir upp á milljarða það að útgreiðslur úr lífeyrissjóðunum (ellilífeyririnn sem þú og ég erum að spara fyrir) lækkar. Það þýðir ekki einungis það að við þurfum að búa við verri kjör í ellinni, heldur ekki síður að ríkið þarf að greiða meira. Kerfið virkar sem sagt þannig að ef tekjur einstaklings sem á rétt á ellilífeyri lækka, þá hækkar ellilífeyrinn.
Þannig hafa þessir stjórnendur lífeyrissjóðanna, sem réttlæta himinháar launagreiðslur til handa sjálfs sín, ekki einungis stuðlað að sukkinu sem var, heldur einnig eyðilagt framtíðarhorfur sjóðsfélaganna og, ekki síst, lagt auknar álögur á ríkissjóð (sem sagt hinn almenna skattborgara) vegna aukinna greiðslna úr almannatryggingunum. Þessar auknu álögur á ríkissjóð þýðir aftur að fjárlagagatið stækkar enn sem aftur kallar á niðurskurð o.frv.
Og, nota bene, þessir stjórnenda-aular sitja enn sem fastast og munu gera svo lengi sem þeir verða ekki svældir út eins og rottur úr ræsi.
Hver á bankana í dag?
18.4.2010 | 15:47
Er þá tilgátan um erlenda efnahagsárás dauð með skýrslunni?, spyr Egill.
Já hún er það. Skýrslan sýnir það, þessi kreppa er heimaprjónuð, því miður, svarar Sigrún. Það voru engir vondir útlendingar sem vildu leggja allt undir sig.
Talið berst síðan að því hverjir eigi bankana.
Hver á bankana í dag?, spyr Egill.
Kröfuhafar og hverjir eru það? Það þarf náttúrulega að fá það á hreint, svarar Sigrún. Glitni á til dæmis eitthvert írskt félag, svokallaður trust-fund; einhverskonar sjóður eins og góðgerðafélag; þó það sé náttúrulega ekkert góðgerðafélag.
Já, það er alveg augljóst að tilgátan um erlenda efnahagsárás á sér enga stoð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Og flest var þetta mögulegt vegna laga um bankaleynd.
13.4.2010 | 16:53
Hverjum kemur það við hvað ég geri við peningana mína? Þína?
"Það eftirlit og starfsemi opinberra stofnana, sem komið hefur verið upp til
að fylgjast með að starfsemi banka og annarra fjármálafyrirtækja sé í samræmi
við lög og heilbrigða viðskiptahætti, miðar sérstaklega að því að draga úr
hættunni á því að til áfalla komi í rekstri þessara fyrirtækja með tilheyrandi
afleiðingum fyrir almenning, fjármálastöðugleika og efnahagslíf landsins.
Þetta hefur enn frekar verið undirstrikað með því að tryggja þessum stofnunum,
Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands, sjálfstæði innan stjórnkerfisins
en því fylgir líka sú ábyrgð þeirra sem vörslumanna almannahagsmuna
að grípa til þeirra úrræða sem þeim eru fengin að lögum ef hætta er talin á
að starfsemi fjármálafyrirtækjanna kunni að fara úrskeiðis með tilheyrandi
afleiðingum fyrir almenning. Þessar stofnanir eiga að vera augu og eyru annarra
yfirvalda landsins sem hafa það hlutverk að gæta samfélagslegra hagsmuna,
hvort sem það eru ríkisstjórn eða Alþingi. Sameiginlega er það verkefni
þessara aðila að búa svo um hlutina að hið sérstaka eðli og samfélagsleg
ábyrgð fjármálafyrirtækja sé varðveitt til frambúðar í þágu lands og þjóðar."
Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir bls. 54, bindi 1
Bara þessi rök ein og sér ættu að vera nóg til að vega á móti rökum fyrir bankaleynd. Hver eru annars rökin fyrir bankaleynd?
Ég er saklaus af öllu sem ég hef gert.
13.4.2010 | 02:54
Eitt er að gerast sekur um afglöp og vondar ákvarðanir en hitt er hálfu verra að viðurkenna hvorki, né sjá, hjá sér nokkra sök. Það var aumkunarvert að sjá Geir Haarde í sjónvarpsviðtölum, í tengslum við útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, reyna af öllum mætti að bera af sér sakirnar af íslenska bankahruninu.
Það hefur að sjálfsögðu ekkert breyst og ekki stóð fréttamaðurinn sig vel frekar en fyrri daginn. Af hverju í ósköpunum spurði fréttamaðurinn ekki Geir einfaldlega þegar Geir ítrekað sagði að þetta eða hitt sem hann hafi nú átt ábyrgð á hafi ekki átt þátt í hruni bankana; af hverju í ósköpunum spurði fréttamaðurinn Geir ekki einfaldlega: Hvað orsakaði hrun bankanna að þínu mati? Ef að Geir hefði svarað því til að það hafi einfaldlega verið vondar ákvarðanir bankamannanna, þá hefði verið einfalt að segja að bankamennirnir hegðuðu sér eins illa og þeim var leyft. Ríkisvaldið (og þá sérstaklega forsætisráðherra) bæri svo ábyrgð á því að bankamennirnir gætu ekki skaðað þjóðina með sínum vondu og röngu ákvörðunum. Ef að Geir hefði sagt að það hafi verið af því að bankarnir voru of stórir, þá er hægur vandinn að benda honum á að ef einhver hefði getað (og átt) að hefta stærð þeirra, þá hefði það átt að vera ríkið (og ekki neitt bull um Evrópska efnahagssvæðið heimili ekki slíkt, því yfirmenn peningamála í Bretlandi, Svíþjóð, Danmörku og Noregi lögðu það allir til og norðurlandagjaldeyrisskiptasamningarnir voru, meira að segja, bundnir þeim skilmálum, eins og opinbert er nú gert með skýrslu rannsóknarnefndarinnar).
Það er ótrúlegt að fylgjast með siðleysi og heigulshætti þessa manns, sem ekki finnur hjá sér neina sök. Þrátt fyrir að hafa verið varaformaður Sjálfstæðisflokksins undir Davíð Oddsyni í rúman áratug og formaður í nokkur ár eftir það; og sem slíkur verið í fararbroddi Laissez-faire og frjálshyggjunnar á Íslandi (sem vissulega á sinn þátt í óhóflegum vexti bankanna). Þrátt fyrir að hafa verið fjármálaráðherra þegar ríkisbankarnir voru einkavæddir og sem slíkur átt þátt í að setja regluverkið sem einkavæddir bankarnir áttu að starfa eftir. Þrátt fyrir að hafa áttað sig á slæmum afleiðingum breytinga á lánum Íbúðarlánasjóðs (sem m.a. kallaði á ákveðnar aðgerðir bankanna og orsakaði stækkun þeirra) en samþykkt breytingarnar engu að síður. Þrátt fyrir að hafa áttað sig á slæmum afleyðingum skattalækkana (sem að sjálfsögðu hjálpuðu til við stækkun bankanna, ef þær stuðluðu ekki beinlínis að þeim) en staðið að þeim engu að síður. Og þrátt fyrir að hafa verið forsætisráðherra þegar svo endanlega allt saman hrynur þá sér þessi vesalingur ekki hjá sér neina sök á bankahruninu.
Já svo er það spurning hver samþykkti endanlega að lækka bindisskylduna, og hvort forsætisráðherra hafi ekki eitthvað um það að segja að ríkið (í gegnum Seðlabankann) láni einkabönkum milljarða.
Maður getur ekki einu sinni hlegið að þessu, þetta er bara sorglegt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lánlausir íslendingar?
17.3.2010 | 07:15
Það er svolítið gaman að fylgjast með hversu kærulausir íslendingar eru. Æ, það reddast, eru einkennisorð þjóðarinnar. Skítt með það, kemur svo í öðru sæti. Það sem er miður skemmtilegt við þetta kæruleysi er að tiltölulega auðveldlega er hægt að glutra öllu niður. Það skortir ábyrgðartilfinningu og aga. Einmitt eiginleikana sem þarf til að takast á við kreppu og samkeppni. Sá sem er kærulaus og hugsar að allt muni nú reddast einhvern veginn -, mun verða undir og þjóna hinum sem hefur aga, áætlar næstu skref og skilur ekki allt eftir í höndum tilviljana.
Við sjáum þetta kæruleysiseinkenni íslendinga best á því hvernig almenningur á Íslandi fer með fjármálin. Yfirdráttarlán, bílalán, myntkörfulán, kreditkortalán, erlend lán, í einu orði sagt: lán. Íslendingurinn tekur bara lán undir viðkvæðinu: Æ, það reddast. Þetta var alið upp í honum í gegnum það að alltaf var hægt að ná í meira fé, meiri fisk, meiri aukavinnu, ef að það þurfti að borga eitthvað. Sparnaður og fyrirhyggja hefur ekki átt upp á pallborðið; til hvers? Það var alltaf hægt að ná í meira. Þetta var andinn í útrásargeðveikinni og uppgangsfylleríinu sem hefur átt sér stað hér á landi undanfarna áratugi. En þetta mun nú breytast. Þetta verður að breytast. Fyrir því eru tvær ástæður. Í fyrsta lagi þá er ekki endalaust hægt að ná í meira. Það er ekki hægt að fiska meira og það er ekki hægt að virkja endalaust. Auðlindir eru takmarkaðar og það þarf að ganga um þær af virðingu og með fyrirhyggju. Hin ástæðan er sú að útsjónarsamir aðilar hafa komið auga á Ísland. Áður en útrásarvíkingar vildu fá að vera menn með mönnum og leika sér í stóra sandkassanum, vissu fáir af Íslandi það var, á margan hátt okkar gæfa. Menn sem kunna að græða og ætla sér það hafa komið auga á Ísland. Þessir aðilar sjá hvernig íslendingurinn fer barnalega, illa með auðlindir landsins, hvernig hann sóar þeim. Þessir aðilar sjá sér leik á borði og geta auðveldlega krækt í mjólkurkúna af þeim sem ekki kann hana að meta eða með að fara. Við erum til að mynda að sjá það í tengslum við orkuverðið til Alcoa. Þessir aðilar sáu lítið hagkerfi, á stærð við meðalstórt alþjóðlegt fyrirtæki með eigin litlu mynt. Að taka snúning á slíku hagkerfi er leikur einn og ekki bara það; snúningurinn skal tekinn einfaldlega vegna þess að það er hægt. Og það var gert. Vilji íslendingurinn ekki glata auðlindum landsins í hendur alþjóða risafyrirtækja og ef að íslendingurinn ætlar ekki að verða aftur vesældar kotbóndi í nýlendu útnárans, þá þarf hann að rífa sig upp úr kæruleysinu og fara að hugsa.
Íslendingurinn tók á rás, skítt og laggó, og landlægt neyslufyllerí tók völdin. Lán, lán, lán og meira lán glópalán, erlend lán, myntkörfulán, lán, lán, lán og það reddast allt saman einhvernvegin. Nú er komið að skuldadögum. Nú væla menn í timburmönnum. Maður á fínum bíl kvartar yfir því að það kosti mikið að greiða af láninu. Hann vill leiðréttingu. Hann áttar sig ekki á því að þetta er einmitt rétta-leiðin.
Til að ná yfir eitthvað, veri það fyrirtæki, fasteign, auðlind, land, nú eða þjóð, þá byrjar maður á því að skuldsetja það. Það gerir maður með því að bjóða ódýr lán. Maður kemur því svo fyrir að það sem maður vill eignast veðsetjist og afborganir af láninu (lánunum) séu fjármagnaðar af öðrum lánum (kannast einhver við að velta kreditkorta/yfirdrátta-láni á undan sér og komast ekki út?). Skyndilega er svo skellt í lás. Ekki meira lánsfé til og það litla sem fæst er nú ákaflega dýrt. Það er ekki hægt að velta lánum á undan sér meir, nú þarf að borga. En það er auðvitað ekki hægt og menn fara að kvarta og fara fram á leiðréttingu. Á endanum er svo allt tekið upp í skuld og sá sem átti tapar öllu en skuldar samt.
Ég ætla ekki að blanda mér inn í umræðuna um bílalán landsmanna en vil aðeins tjá mig um lán ríkissjóðs. Ég er ekki þessi skítt-og-laggó týpa og ég veit að þetta mun bara ekki reddast einhvern veginn.
Um daginn tjáði sig einn hákarl (svokallaður speculator á ensku), Alex Jurshevski, að nafni. Téður Jurshevski varaði íslensk stjórnvöld við því að taka þátt í að skuldsetja ríkið. Eitthvað sem maður myndi halda að væri vel þegið ráð og skynsamlegt. Strax í kjölfarið tjá ráðamenn sig sterklega um málið, og taka upp gamla viðkvæðið að þessi útlendingar skilji nú ekki um hvað málin snúist hérna á Íslandi. Meira að segja var farið í ófrægingarherferð gegn téðum Jurshevski eins og lesa má hér. Þessi frétt er í meira lagi undarleg og lýsir ákaflega mikilli heimsku þess er skrifar og þess er ritstýrir. Auðvitað vonast fjármagnshákarl eftir kreppu. Hann gerir meira en það hann reiknar með henni. Hann veit að á eftir þenslu kemur kreppa, rétt eins og á eftir degi kemur nótt; eitthvað sem íslenskir ráðamenn hefðu betur tekið með í reikninginn. Það sem ekki er talað um í þessari fáránlegu frétt, er að hann var að vara íslendinga við mönnum eins og sér, þ.e. fjármagnshákörlum, og hann ætti að vita það. Ég veit það til dæmis, hef fyrir því áreiðanlegar heimildir innanfrá, að í tengslum við Geysir Green Energy ævintýrið hafi verið flogið með menn á borð við Jurshevski til Íslands á einkaþotum í kippum og hákarlarnir bókstaflega beðið í ofvæni eftir að fá að læsa tönnunum í bráðina. Þetta er ekki sögusögn, þetta er sannleikur og ég veit það fyrir víst. Hvað halda menn að hafi verið að gerast hérna á árunum 2000 til 2007?
Ef að þú, lesandi góður, ert með þetta mentalitet æ það reddast, og þú heldur að það sé í lagi að borga lán með lánum, þá vorkenni ég þér. Það var einmitt það sem kom okkur í þennan gífurlega vanda sem við nú eigum í. Við íslendingar erum á hættusvæði hvað þetta varðar. Alla grunar það en fáir geta sett fingurinn á það. Ég vil taka undir með fjármagnshákarlinum er hann varar íslendinga við að taka erlend lán og spyr: Til hvers er verið að taka erlent lán?
Skuldastaða ríkissjóðs er 78% af vergri þjóðarframleiðslu, sem er fyrir utan Icesave, en þar bætast 15% við. Samtals erum við því að tala um 93% af ársframleiðslu allra íslendinga sem ríkið skuldar, eða við skuldum 93 krónur af hverjum 100 sem við framleiðum. Þetta er bara ríkissjóður - það er ekki verið að tala um skuldir einkaaðila, eins og t.d. bílalán, inn í þessari tölu. Þetta ber sérstaklega að skoða með það í huga að það er ekki langt síðan ríkissjóður var lýstur skuldlaus. Ég held það svei mér þá að þetta muni ekki reddast. Ég held að við eigum alls ekki að taka meiri erlend lán og skuldsetja ríkissjóð meira. Þvert á móti þurfum við að herða sultarólarnar og vinna niður erlendar skuldir ríkissjóðs, eins hratt og unnt er; við erum að sligast undan vaxtagreiðslum. Við greiðum 94.320.000.000 í vexti á þessu fjárlagaári; heilbrigðismálin kosta til samanburðar 102.373.200.000. Gjöld umfram tekjur eru 98.843.000.000 sem er rétt það sem við greiðum í vexti. Það sjá það allir að þetta gengur ekki til lengdar og alger fásinna er að vefja okkur enn meir í skuldafen en orðið er.
Ef að við þurfum að borga af erlendum lánum ríkissjóðs, þá þurfum við einfaldlega að semja um lengri frest. Um styrkingu krónunnar í gegnum gjaldeyrisvaraforða hef ég áður sagt að það mun ekki virka, þvert á móti. Við höfum hagstæðan vöru- og viðskiptajöfnuð, þannig að við getum greitt fyrir innflutning og afborganir ef að við fáum afborgunarfrest og svigrúm til að safna. Erlend lántaka er óráð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mikið var að einhver spyr: Til hvers er þetta erlenda lánsfé?
14.3.2010 | 15:48
Mikið var nú gott að fylgjast með Silfri Egils í dag. Loksins, loksins virðist einhver vera að leggjast á sveif með okkur sem höfum undrað okkur á þessari hvínandi þörf á erlendri lántöku. Það hafa verið hjáróma raddir sem hafa spurt um nýju fötin keisarans í þeim efnum. Hjörðin virðist hugsunarlaust trúa því að erlendar lántökur séu lykillinn að velferð, endurreisn og sjálfstæði íslendinga. Það eru fáir sem sjá að erlend lántaka var ákveðin af stjórnvöldum til að verja íslensku krónuna falli. Það var hins vegar of seint og of lítið og skaðinn er nú staðreynd og erlend lántaka mun, úr því sem komið er, alls ekki styrkja krónuna á ný heldur, þvert á móti, veikja hana enn meir. Loksins kom erlendur aðili í íslenskan fjölmiðil og benti á þessa augljósu staðreynd. Ég ber þá von í brjósti að á honum verði tekið mark. Auknar erlendar skuldir þjóðarbúsins leysa ekki vanda sem erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa valdið heldur þvert á móti. Það er búið að koma því inn í hausinn á heimskum íslendingnum að hann bókstaflega verði að taka erlend lán, engum dettur í hug að spyrja sig til hvers? Í hvað eiga þessi lán að fara? Borga erlend lán?
Þetta snertir svo hinn þáttinn, sem imprað var á í Silfrinu í dag, en það varðar íslenska ríkið sem slíkt og hvort hægt sé að endurbæta það og þá hvernig. Nú er það, hægt og hljótt, en að sama skapi algerlega óumflýjanlega, að renna upp fyrir fólki að mótmælin á Austurvelli fyrir ári, og stjórnarskiptin í kjölfarið, snerust ekki um byltingu á nokkurn hátt. Ef að svo hefði verið hefði eitthvað breyst, en ekkert hefur breyst og þess vegna skulu menn passa sig og kalla hlutina sínum réttu nöfnum; þessi svokallaða búsáhaldabylting var ekki bylting heldur snérist málið um mótmæli. Ég held því statt og stöðugt fram að ekkert breytist í íslensku þjóðfélagi nema eitthvað breytist. Aulalegt að segja þetta svona en svona er það nú samt. Þið sem undrið ykkur nú á því að ekkert hafi raunverulega breyst, reynið að átta ykkur á því að það að skipta út einni ríkisstjórn fyrir aðra, að skipta út nokkrum toppum í embættismannakerfinu, að setja á fót nefnd til að rannsaka hvað fór úrskeiðis og uppfæra einhvern kerfiskarlinn í embættis sértaks saksóknara breytir akkúrat engu, heldur er business as usual og viðheldur ríkjandi kerfi og þeim háttum sem við lýði eru. Bylting snýst um að umbylta kerfinu, ekki breyta um fólk í kerfinu. Ef að kerfinu er ekki breytt á Íslandi mun ekkert breytast og allt halda áfram eins og ekkert hafi í skorist, rétt eins og margur virðist vera farinn að átta sig á.
Það var sérstaklega upplýsandi, í þessu sambandi, að hlusta á erindi lögfræðingsins Ólafs Reynis hámenntaðs úr Harvard meðal annars. Þar var sá aðili búinn að setja upp glærur um það hvernig stjórnskipan væri, hvað væri rangt ákvarðanaferli og hvað gott og þar benti hann á leiðir til úrbóta. Ekki ætla ég að gera lítið úr viðleitni þessa hámenntaða lögfræðings en verð að benda sterklega á að hann, og hans líkar og það sem hann stendur fyrir er einmitt vandamálið! Vandamálið er einmitt sérfræðingaveldið. Það er ekkert í hans miklu menntun eða nokkuð sem fylgir hans persónu sem gerir hann á nokkurn hátt hæfari en nokkurn annan til að benda á hnökra kerfisins. Þar með er ég ekki að segja að hann geti ekki lagt eitthvað til málanna, jú það getur hann sem einstaklingur, rétt eins og ég og þú og geðlæknirinn Andrés Magnússon. Það er einmitt þessi gagnrýnisblindni á raddir sérfræðinga sem er undirrót vandans.
Sérstaklega var dapurlegt að sjá þennan einstakling, sem líklegast stefnir hraðbyri á frama í kerfismennsku, ekki minnast einu orði á hversu mikilvægt það sé að láta embættismenn svara fyrir embættisverk sín, sérstaklega ef að um afglöp er að ræða. Þarna fór, þessi hámenntaði maður með glærurnar sínar, eins og köttur í kring um heitan graut, þegar kom að því sem raunverulega skiptir máli varðandi ríkishrun, lélega stjórnun og hvernig hægt er að bæta úr.
Ég segi það, enn og aftur, að þegar við ætlum okkur að líta á stjórnkerfið, hvað hefur farið úrskeiðir, og hvað betur megi fara, þá verðum við að líta á embættismannakerfið. Það er lykilatriði þegar við erum að tala um nýtt Ísland að taka til í embættismannakerfinu og taka upp ábyrgð innan þess.
Lýðræði byggist í sínum algera grunni á tvennu: 1) ákvörðunum, sem teknar eru af fjöldanum og 2) hvernig þessum ákvörðunum er hrint í framkvæmd. Það liggur í því hvernig eftirlitið er með því hvernig lýðræðislegar ákvarðanir eru virtar sem brotalömina í íslensku stjórnkerfi er að finna. Í stuttu máli, þá er eitt að ákveða reglur og annað að sjá til þess að þeim sé fylgt. Við höfum, í öllum aðalatriðum góðar reglur og lög, en eftirlit með því að þeim sé fylgt eftir, að ekki sé talað um hvernig á því er tekið fari menn ekki eftir reglunum sem kerfið okkar bregst.
Við höfum til dæmis lög um það að ekki megi leggja bíl upp á gangstétt en það er, hins vegar, nánast engar líkur á því að eitthvað sé gert í málinu ef að ég legg upp á gangstétt - hvaða skilaboð eru það? Sama má segja um ef að ég tala í farsíma undir stýri, ræð starfsmann svart, hef barinn minn opinn lengur en ég hef leyfi fyrir, veiti ólögráða unglingum aðgang að vínveitingastað mínum, brýt byggingarreglugerð, stunda innherjaviðskipti, hef verðsamráð eða brýt samkeppnislög. Sjáið að á öllum þessum sviðum eru lög skýr það er framkvæmd laganna og eftirfylgni og refsing sem er ábótavant. Og ef að það hefur litlar sem engar afleiðingar að fylgja ekki lögum þá er engin hvati til að fylgja þeim og lýðræðið virkar ekki. Skilaboðin eru ótvíræð það er óþarfi að fylgja reglum, ég þarf þess ekki og þess vegna er það fáránlegt og einungis fyrir einhverja aðra miður gáfaða einstaklinga.
Sjáið til það er ekki nóg að setja reglur, það þarf að fylgja því fast eftir að reglum sé fylgt og þá gildir einu um hvaða lög eða reglur er að ræða. Ef að meirihlutinn setur lög eða reglur verða allir að fara eftir þessum reglum og það þarf að hafa afleiðingar að gera það ekki. Vandinn á Íslandi er sá að fólk fer ekki að lögum og reglum. Annað hvort vegna þess að lögregla og dómskerfið er ekki að standa sig , eða vegna þess að menn kunna að spila á embættismannakerfið og embættismennirnir líta framhjá brotum (beygja reglurnar aðeins). Á Íslandi er málið að þekkja einhvern og geta þannig komist í kringum regluverkið. Hver þekkir ekki einhvern sem þekkir einhvern hjá bílaskoðunarfyrirtæki og vegna þess að hann þekkir einhvern þar kemur bíl í gegnum skoðun? Akkúrat svona komust menn upp með ýmisleg ósiðlegt og beinlínis ólöglegt í fyrirtækjarekstri, með þessum líka svakalegu afleyðingum.
Vandamálið á Íslandi er klíkuskapur, spilling og það að ekki er farið eftir reglum. Ef að við viljum réttlátt samfélag og ef að við viljum breytt samfélag, þá þarf að tryggja að allir fylgi settum reglum. Það þarf að láta þá embættismenn, sem eiga að tryggja að reglunum sé fylgt eftir, svara fyrir embættisverk sín gagnvart almenningi. Það þarf að koma í veg fyrir að ákveðnir aðilar komist upp með að fara ekki eftir reglum vegna þess að þeir hafi persónulegan aðgang, vegna kunningskapar eða skyldleiks við æðstu embættismenn ríkissins. Þetta er grundvallaratriði í því að berjast gegn spillingu, og skapa hér annað og réttlátara samfélag. Það er þetta kunningja og reglubeygingarsamfélag sem kemur í veg fyrir það að hlutirnir breytist hér á Íslandi og ef að ekkert breytist mun framtíðin svört fyrir land og þjóð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.3.2010 kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hefst þá umkvörtunarkórinn.
11.3.2010 | 20:06
Ég hef verið að velta fyrir mér þessu, þegar íslendingar eru að mótmæla því sem kallað er seinagangur ríkisstjórnarinnar. Menn tala um að ekkert sé gert og að hér sé ein alvarlegasta kreppa sem Ísland hefur upplifað. Hverju eru menn eiginlega að mótmæla?
Vandamál íslendinga er offita ekki það að menn séu að drepast úr sulti. Menn kvarta yfir því að bensínverð sé svo hátt og menn kvarta yfir því að afborganir á kaupleigubílnum séu svo háar en að ferðast bara með strætó, dettur ekki nokkrum manni í hug. Það er ekki að sjá að færri bílar séu fyrir utan líkamsræktarstöðvarnar ef að menn kvarta yfir peningaleysi þá ættu menn að skokka á líkamsræktarstöðina og heim aftur, það kostar ekki neitt og lýsið lekur af. Nei, á Íslandi aka menn á líkamsræktarstöðina til að skokka þar á bretti eða hjóla á kyrrstæðu hjóli og kvarta yfir offitu og peningaleysi.
Menn kvarta yfir því að þeir komist ekki til útlanda því gengið sé svo lágt!
Bent er á gífurlegar afskriftir helstu útrásarsukkaranna og menn væla um dýrtíð og efnahagslega óáran. Menn eru að væla, ekki af því að þeir hafi það svo slæmt, heldur vegna þess að einhverjir aðrir hafa það betra og vegna þess að þeir höfðu það sjálfir betra en þeir hafa það nú. Þessar eilífu kvartanir, sem ekki er hægt að komast hjá að heyra á degi hverjum, eru öfundsýkisvæl.
Þessi kvörtunarkór, virðist mér, hæstur hjá þeim sem hafa það gott. Þeir væla hæst sem eiga fína síma, flottar tölvur, smart föt, góða bíla og rúmgott húsnæði vegna þess að þeir þurfa að skera aðeins niður við sig í neyslu.
Það er ekki að sjá að einkabílaumferð hafi minnkað á götum höfuðborgarinnar. Þúsund manns urðu fyrir töfum vegna verkfalls flugvirkja um daginn - þúsund manns á faraldsfæti, ekki á sumarleyfistíma og það á krepputíma? Flugumferðastjórar vilja launahækkun og eru þeir þó langt í frá launalágir miðað við flesta á vinnumarkaði hér á landi. Fjármálaráðherra fullyrðir að nýliðin jólaverslunin hafi verið með eindæmum góð. Ungmenni tala um ljósabekkjafíkn. Þetta hljómar í mín eyru eins og lúxusvandamál - ekki vandamál fólks er skortir fé til nauðþurfta.
Eru menn að mótmæla og kvarta vegna þess að þeir hafi það svo slæmt, eða eru menn að mótmæla og kvarta vegna þess að þeir hafa það verr nú en áður?
Svari nú hver fyrir sig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)