Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

The Icesave did not collapse because of the global financial meltdown mr. Jonny Dymond - it collapsed because it was totally unrealistic and a fraud.

Það er óþolandi dapurlegt hversu illa íslendingar, og þá íslensk stjórnvöld, standa sig í því að upplýsa umheiminn um hvað eiginlega er að gerast á Íslandi. Þó er sérstaklega aumkunarvert að fylgjast með eftiráútskýringum íslenskra stjórnmálamanna, fréttamanna og, svo kallaðra sérfræðinga, á því hvað átti sér stað í aðdraganda hrunsins. Ég ætla að vitna hér í frétt BBC um þjóðaratkvæðagreiðslu íslendinga á Icesave lögunum.

“Britain and the Netherlands want the money as repayment for bailing out customers in the Icesave online bank, which folded in 2008 due to the global financial meltdown.”

“Bretland og Holland vilja féð sem greiðslu fyrir að tryggja innistæður viðskiptavina Icesave netbankans, sem féll árið 2008 vegna alheims efnahagskreppunnar.”

Takið eftir því að, eðlilega, heldur blaðamaðurinn því fram að Icesave bankaævintýrið hafi fallið vegna heimskreppunnar. Sem íslendingur þá skil ég svo sem vel að ekki sé mikill vilji meðal ráðamanna og svo kallaðra sérfræðinga að leiðrétta þetta hjá blaðamanni BBC eða nokkrum öðrum ef út í það er farið, en fræðimenn ættu að sjá sóma sinn í því. Í raun ættu allir íslendingar að sjá sóma sinn í því vegna þess að það eitt getur bjargað æru okkar. Það var nefnilega svona æðruleysi og –já- heimska sem kom okkur um koll.

Icesave bankinn, kæri blaðamaður Jonny Dymond hjá BBC, féll ekki vegna alheims efnahagskreppunnar heldur vegna þess hvernig Landsbanki Íslands hf. var rekinn og vegna þess að algerlega óraunhæf vaxtakjör voru í boði á Icesave reikningunum.

Svo einfald er nú það og það er sannleikurinn í málinu. Hitt lýtur mun betur út, að sjálfsögðu, að segja að þetta hafi allt hrunið vegna heimskreppunnar, en er ekki nóg komið af blekkingum, og þá sérstaklega sjálfsblekkingum?

 

Lesa má frétt BBC hér


Er þjóðaratkvæðagreiðslan markleysa?

“Menn komu að ákveðinni stöðu og gerðu sitt besta til að leysa úr því máli. Svo gerðist EITTHVAÐ sem bætt hefur samningsstöðuna og þá er komin upp ný staða”.

Hugsið ykkur þetta segir einn þingmaður stjórnarinnar í sjónvarpsfréttum í kvöld, og sér ekki að þetta “eitthvað” er það að fólkið krafðist þjóðaratkvæðagreiðslu og líklegast er að í henni verði Icesave-lögum ríkisstjórnarinnar hafnað. Sem sagt, þetta “eitthvað” var það að þjóðin hafnaði klúðri ríkisstjórnarinnar - sem betur fer. Þingmaðurinn sem vitnað var til, og flestir þingmenn ríkisstjórnarinnar virðast ekki skilja að þetta “eitthvað” var það að þjóðin hafnaði afgreiðslu og meðferð ríkisstjórnarinnar á Icesave málinu. Svo að við höldum áfram með þetta og reynum að útskýra fyrir þingmanninum að ef þetta “eitthvað” (þ.e. höfnun forseta Íslands á því að undirrita Icesave-lögin), þá hefði Ísland ekki betri samningsstöðu í dag og sæti uppi með vondan samning sem er verri en það tilboð sem liggur fyrir í dag og það jafnvel áður en eiginlegar samningaviðræður fara af stað.

Hugsið ykkur þessi þingmenn skilja ekki – eða neita að horfast í augu við – það að afgreiðsla þeirra á Icesave málinu, með öllum þeim rökum, hræðsluáróðri og hótunum, stefndi í það að stórskaða þjóðarbúið að ósekju.

Sem betur fer skeði “eitthvað”, sem betur fer hafnaði forseti Íslands Icesave-lögunum staðfestingar og bara það eitt (jafnvel áður en þjóðin hefur hafnað lögunum) hefur stórbætt samningsstöðu íslendinga og sparað þjóðarbúinu fleiri milljarða. Hvað verður hægt að fá fram þegar samningaviðræðurnar hefjast eiginlega? Sjáið til, í þessu tilfelli hefur okkur sem þjóð farnast betur en á horfðist þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Góðir Íslendingar; þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-lögin fer fram á laugardaginn kemur. Þá átt þú kost á því, sem almennur borgari í þessu landi, að hafa eitthvað um það að segja hvernig þessu landi er stjórnað. Bara það eitt ætti að vera nóg til að hver einasti Íslendingur flykktist á kjörstað. Hitt er svo ekki síður mikilvægt, en það er að þrátt fyrir að þegar liggi betra tilboð á borðinu frá Bretum og Hollendingum, þá skulu menn minnast þess að ÞAÐ ER EINUNGIS VEGNA ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLUNNAR sem þetta betra tilboð liggur á borðinu. Ef að ríkisstjórnin, og meirihluti Alþingis Íslendinga hefði fengið að ráða lægi ekki þetta betra tilboð á borðinu, heldur væri það frágegnið að við Íslendingar værum að borga fleiri milljarða í vexti en við nú þurfum að borga.

Menn skulu hafa þetta í huga þegar spjátrungarnir eru að gjamma um tilgangsleysi þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu. Tilgangur þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu var og er tvíþættur: annars vegar að hafna vondum Icesave-sögum og fá þannig fram betri samning við Breta og Hollendinga, og hins vegar að sýna vondum og vanhæfum stjórnmálamönnum að þjóðin getur tekið fram fyrir hendurnar á þeim þegar þeir eru að fara að steypa þjóðinni í ógöngur.

Aldrei framar skal vanhæf ríkisstjórn komast upp með að steypa landinu í skuldir og ógöngur. Við viljum aukna þátttöku almennings í stjórnun lands og þjóðar.

Til hamingju íslendingar með að fá að taka þátt í að ákvarða framtíð ykkar, látið ekki þetta tækifæri ykkur úr höndum renna.

 

Lifi lýðræðið – Lifi Byltingin – Valdið til fólksins.


Skuggamyndir eiga sér fyrirmyndir

Það er sagt að djöfulsins besta trikk hafi verið að telja mannfólkinu trú um að hann sé ekki til. Á sama hátt finnst mér margt afgreitt er lítur að því er fram fer á bak við tjöldin úti í hinum stóra heimi. Þegar minnst er á það að til séu aðilar sem hugsi stórt og algerlega út frá eiginhagsmunasemi, já að til séu aðilar sem vilji, og ætli sér að ná völdum í heiminum, þá er allt slíkt afgreitt sem samsæriskenningar og rugl.

Það sem við getum gert til að komast fram hjá þess konar útilokun og meinloku er að setja – það sem við teljum sannleika – fram í skáldsagnaformi. Þannig hafa merkir menn á borð við Aldus Huxley og Georg Orwell sett fram sýn á sannleikann sem fær alla þá er skrif þeirra lesa til að hugleiða og sjá hlutina eins og þeir eru.

Segjum sem svo að til séu gáfaðir menn, en jafnframt eigingjarnir og vanþroska menn, því gáfur og þroski fer langt í frá alltaf saman. Segjum sem svo að til séu slíkir menn og að þeir hafi sett sér það að stjórna heiminum með því að ná að leggja undir sig auðlindir jarðarinnar. Þeir hafa ákveðið að tryggja sér og afkomendum sínum ævarandi völd og tryggja afkomu sína með því að stjórna fremur en að vera stjórnað. Þess konar menn, sem hafa vit til, sjá að maðurinn er ekkert annað í eðli sínu en hópdýr sem hægt er að smala og stjórna, rétt eins og hverri annarri dýrahjörð. Þessir menn átta sig á því að dýr sem alið er upp í dýragarði hefur alls enga uppföttun á öðru lífi en því að lifa bakvið rimla og vera fóðrað. Slíkt dýr er jafnvel hrætt við frelsið og hreinlega kýs að vera í búri sínu jafn vel þegar hlið þess er opnað. Þetta dýr er algerlega skilyrt manngerðum lífsskilyrðum og hreinlega getur ekki lifað á annan hátt.

Ég ætla nú að fantasera eilítið um að til séu menn, hættulegir, gáfaðir og eigingjarnir menn sem hafi fattað þetta og, bæði geti, og hafi, yfirfært þessa þekkingu yfir á mannsamfélagið – hinn mannlega dýragarð.

Hugsið ykkur að það séu til menn sem hugsi á þann hátt að þeir segi sem svo: “Mannskepnan er rétt eins og aðrar skepnur. Hana þarf að fóðra og hún þarf að fá að fjölga sér. Ef að henni er haldið í fjötrum og henni haldið niðri á andlega sviðinu með fíkniefnum og afþreyingu, þá getum við blóðmjólkað þessa skepnu til eilífðarnóns rétt eins og hvert annað húsdýr. Á meðan mannskepnan ekki þekkir neitt annað, þá mun henni ekki einu sinni hugnast neitt annað lífsmynstur en það sem við bjóðum henni upp á. Við setjum henni reglurnar, við fóðrum hana og sjáum henni fyrir grundvallarþörfum og afþreyingu og þá mun mannskepnan haga sér eins og við viljum og hún mun vera þæg og hún mun staldra við í helsi sínu án nokkurra rimla. Hún mun sjálf sjá um að tukta sína meðlimi til hlýðni, því hún á erfitt með að hugsa sér lífið á annan hátt en þann sem við höfum veitt henni.”

Hugsum okkur nú að til séu menn sem hugsi á þennan hátt og hafi hugsað á þennan hátt: “Ef að við nálgumst mannlegt samfélag út frá hjarðeðli þess og notfærum okkur þekkingu okkar á þessu eðli, þá getum við náð stjórn á þessari hjörð og stýrt henni í þá átt er okkur þóknast til þess að hún dansi okkur til dýrðar og hagsmuna.”

 

Hugsaðu þér nú, lesandi góður; það er ef til vill möguleiki á því að einhver þarna úti í hinum stóra heimi, hugsi á þennan hátt og hafi til þess aðstöðu að láta á það reyna hvort ekki sé það mögulegt að framkvæma.

Ert þú mannvera sem virðir fyrir þér skuggamyndir eða veltir fyrir þér hvaðan skugginn kemur?     


Lög og reglur eru bara rugl og fyrir aðra.

Ég bjó áður í litlu landi hvar íbúarnir þjáðust af minnimáttarkennd. Þetta land var þó stærra, í íbúum talið, en Ísland. Það var alveg einkennandi hvað íbúarnir þar, og alveg eins er það hér, þurftu að sannfæra sjálfa sig um að þeir væru bestir í heiminum. Ef ekki bestir, þá á meðal hinna bestu, allavega miðað við höfðatölu.

Það er samt ákveðinn munur á þessum löndum og það stórvægilegur. Hann er sá að hin þjóðin kann að fara eftir reglum en Íslendingar ekki. Það er erfitt að stilla sér upp við hliðina á einhverju og fá mat á því hver er bestur á meðan ekki er farið eftir sameiginlegum reglum. Það er svona eins og að keppa í fótbolta án þess að hafa dómara og leikreglur. Íslendingurinn er alla daga að keppa í þannig fótbolta.

Íslendingar kunna ekki, vilja ekki og skilja ekki að fara eftir reglum. Á götum Reykjavíkur sér maður lögregluþjóna aka yfir á “bleiku”. Allir, sem það dettur í hug, tala í farsíma á meðan þeir aka bíl, líka lögreglumenn, meira að segja þegar þeir eru í vinnunni. Á Íslandi sjá menn ekki samhengi á milli hárra tryggingariðgjalda og því að fara ekki eftir umferðarlögum. Að fara yfir á “bleiku” er mönnum í sjálfsvald sett, að tala í farsíma undir stýri kemur engum við nema viðkomandi ökumanni, að halda löglegu bili milli bíla í umferðinni fer eftir mati hvers og eins og hvar menn leggja bíl sínum kemur engum við nema viðkomandi bíleiganda. Á Íslandi setja menn lög um hlutina, meira af því að það er gert í öðrum löndum en að þeir sjái á því þörf.

Á Íslandi sjá menn ekki samhengi hlutanna.

Þegar samfélagið hrynur er kallað eftir rannsóknarskýrslu og ákveðin nefnd skipuð í því skyni. Nefndinni er sett dagsetning til að opinbera skýrsluna. Nefndin getur síðan sjálf ákveðið að gefa ekki út skýrsluna fyrr en henni sjálfri sýnist. Þetta er að sjálfsögðu eðlilegt þegar sama taðið er notað til að kveikja nýtt bál.

Þegar allt fer hér úr skorðum ákveða ráðamenn á Íslandi að engir opinberir starfsmenn skuli þiggja hærri laun en forsætisráðherra. Málið er leyst þannig að laun þeirra forstjóra, sem hingað til hafa þegið mun hærri laun en forsætisráðherra, eru lækkuð en óunnin yfirvinna hækkuð. Laun tuttugu forstjóra eru nú hærri en forsætisráðherra. Af hverju skyldu menn taka mark á þessum fyrirmælum fremur en þeim að fara ekki yfir á gulu ljósi; meira að segja löggan fer yfir á gulu og löggan talar í farsíma undir stýri, af hverju skyldi ég hegða mér eitthvað öðruvísi?

Það er þannig hér á landi að menn ákveða sjálfir hvaða lögum þeir fylgja. Ef að það hentar ekki að fara að einhverjum lögum þá fylgja menn einfaldlega ekki þeim lögum.

Á Íslandi skilja menn ekki gildi og tilgang reglna. Það eru til dæmis lög í landinu en að eftir þeim sé dæmt fer svona eftir veðri. Meira að segja dæmdir lögbrjótar fullyrða í fjölmiðlum að dómar í þeirra málum sé “bara grín” og algerlega tilgangslausir. Ef að menn eru dæmdir fyrir lögbrot þá er dæmt jafnvel árum eftir að brot var framið. Sagt er að Íslendingar búi í réttarríki og lýðræðisríki hvar ein af stoðunum sé sjálfstætt dómsvald. Ekki þykir, hins vegar, mikilvægt að fylgja því eftir að dæmt sé í málum, allavega þarf ekki að hasta að neinu. Lögreglu er það svo í sjálfsvald sett að forgangsraða. Það þýðir að einhver skrifstofublókin á lögreglustöðinni ákveður hvort eigi að senda lögreglu á staðinn ef að eftir henni er kallað. Fólk á Íslandi er fyrir löngu hætt að nenna að hringja á lögregluna ef að það verður vart við lögbrjóta eða ef að á því er brotið. Ef að lögreglan mætir á staðinn er það alltaf of seint og ef að dæmt er í málinu eru vitni öll líklega fyrir löngu dauð úr elli, eða muna ekki lengur eftir atvikum.

Á Íslandi skilja menn ekki gildi þess að fara eftir reglum, hvað þá lögum, þar sem það hefur engar afleiðingar að gera það ekki. Ekkert samhengi er á milli þess að fara ekki að lögum og þurfa að gjalda fyrir, eins og sést nú best á öllu því er tengist þessu svo kallaða bankahruni. Jafnvel ef að svo ólíklega vildi til að menn á Íslandi séu dæmdir fyrir lögbrot og pláss sé fyrir menn í fangelsum, þá er það lítil refsing, meira eins og frí. Menn fá meira að segja ókeypis sálfræðiaðstoð í fangelsi, eitthvað sem menn þurfa að borga fyrir annars. Menn geta síðan haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist, eftir að hafa afplánað hluta af refsingunni. Gildir þá einu hvort það er að fara á þing eða reka einhvern bisness eins og  innflutning á einhverju sem er bannað.

Það er því eðlilegt að fólk á Íslandi sé ekki að ómaka sig yfir því að fara að lögum. Til hvers ættu menn að vera að því?

 


 

 


Þeir Alþingismenn er samþykktu Icesave samninginn um áramót hafa lýst sig vanhæfa til að verja hagsmuni Íslands.

Það er alveg makalaust að heyra ákveðna stjórnmálamenn tala nú um að raunhæft sé að ná betri samningum um Icesave. Menn eins og utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson sem gerði allt sem í hans valdi stóð til að þvinga samninginn í gegn og gerði allt sem hann gat til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.

Nú er það að sýna sig að það ætlar að vera hin mesta blessun að almenningur í landinu hefur meira undir sér en afdankaðir og vanhæfir stjórnmálamenn. Í því ljósi er ótrúlegt að heyra eintaka stjórnmálamenn voga sér að tjá sig eftir að hafa verið vitni að því að þessir sömu aðilar hömruðu á því að koma fyrri Icesave samningi í gegnum þingið. Hömruðu svo á því að þeir, í algerri heimsku sinni sem fyrr, reyndu hjáróma að koma inn ótta hjá þjóðinni um að allt færi hér til fjandans nema samþykkt yrði og “þó fyrr hefði verið” eins og spjátrungurinn Helgi Hjörvar sagði í ræðustól Alþingis.  Allir þessir aðilar vildu alls ekki að þjóðin fengi að tjá sig um þennan vonda samning vegna þess að allir vissu að þjóðin myndi fella. Nú þegar forseti Íslands þorði að taka af skarið og veita þjóðinni sjálfsagðan rétt til að tjá sig, koma ræflarnir fram og vilja nú tjá sig um betri samning, sem þeir koma fram, án þess svo mikið sem að skammast sín, og segja að “allar líkur séu á að hægt sé að fá betri”?!?.

Hvað er í gangi?

Það er sjálfsögð krafa að þeir ræflar sem ætluðu að þvinga vondan Icesave samning í gegnum þingið segi tafarlaust af sér þingmennsku. Þeir hafa lýst sig algerlega vanhæfa til að vinna að hag lands og þjóðar með því að styðja og samþykkja samning sem nú er að sýna sig að ekki er mikið mál að fá bættan – og það til muna. Það er eftir því tekið og viðurkennt að samningsstaða íslendinga er betri vegna þess að forseti vísaði málinu til þjóðarinnar. Þannig hafa allir þeir þingmenn sem hafa greitt atkvæði gegn því, og talað gegn því, að málinu sé vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu hreinlega unnið gegn þjóðinni beint og óbeint.

Ætlar þú góði íslendingur að láta endalausa vanhæfni yfir þig ganga? Þá sömu vanhæfni og leiddi til hins mikla efnahagshruns og efnahagsóstjórnar sem við höfum þurft að þola?

Hafa ekki þeir Alþingismenn sem greiddu atkvæði með hinum vonda Icesave samningi gefið það upp að þeir hefðu gjarna látið þær hörmungar yfir þjóðina ganga ef að þeir hefðu ekki verið stöðvaðir af þjóðinni og Forseta? Sjá menn það ekki að sú afgreiðsla á Icesave óhróðrinum eru enn ein mistökin í anda þess er leiddi okkur í þann vanda sem við er að eiga?

Eiga þeir aular bara að fá að sitja enn á þingi eins og ekkert sé? Til að gera enn ein mistökin ? Hvað í ósköpunum þarf til til að þessir vesalingar fari frá?

Ef að íslendingar fá betri samning en þann sem Alþingi samþykkti um áramótin síðustu hafa allir þeir alþingismenn sem samþykktu þann samning lýst sig vanhæfa – það segir sig sjálft.

Góðir íslendingar – látum ekki aumingjaskapinn endalaust yfir okkur ganga, nú er nóg komið!

 

Lifi Byltingin!


Góðir Íslendingar, látum ekki hugfallast

Nú eru menn farnir að velta fyrir sér í auknum mæli hvers vegna lítið sem ekkert hefur gerst frá bankahruninu haustið 2008.

Rannsóknarskýrsla Alþingis tefst nú sí og æ og fólk spyr sig hvort verið sé að tefja útgáfu hennar vegna ritskoðunar; hver dagur sem útgáfan tefst dregur úr gildi skýrslunnar sem upplýsinga- og endurskoðunartæki og trú á því að hún sé nothæf til að ná fram réttlæti í íslensku samfélagi.

Fólk finnur ekki að verið sé að leysa skuldavanda heimilanna á varanlegan hátt. Þvert á móti sér fólk að Samskipa Ólafur, Baugs Jón, Exista bræður og Actavis Björgúlfur virðast allir halda sínu og fá gríðarlegar afskriftir – almenningur virðist ekki fá krónu afskrifaða.

Kröfurnar um stjórnlagaþing og beinna, betra lýðræði hafa ekki náð fram; eðlilega eins og sagt var – það er ekki hægt að ætlast til þess að Alþingismenn taki slíkt upp á sína arma þar sem það gerir ekkert annað en að minnka völd þeirra og vægi.

Með þessu efnahagshruni fór almenningur að velta upp ákveðnum grundvallarspurningum eins og auðlindum og eignaskiptingu. Krafan um að taka aftur sameign þjóðarinnar sem útgerðarbarónar höfðu eignað sér var sterk. Að sjálfsögðu svöruðu útgerðarmenn með grátkór og áróðurstríði um að allt færi á hausinn ef hróflað yrði við kvótakerfinu. Menn verða að átta sig á því að útgerðarmenn gefa að sjálfsögðu ekki þau forréttindi að hafa yfirráðarétt yfir fiskveiðiauðlindinni eftir þegjandi og hljóðalaust. Já einhver útgerðarfyrirtæki munu fara á hausinn og hvað með það? Fiskurinn hverfur ekki við það og fólkið í landinu mun að sjálfsögðu fá að veiða fiskinn áfram, þó að illa rekinn útrásarfyrirtæki í útgerð fari á hausinn. Gleymum ekki því að fyrstu milljónirnar sem fengust til að braska með í útrásinni voru kvótapeningar.

Ég heyrði viðtal við forseta Alþingis Ástu Ragnheiði um það hvort ekki væri eðlilegt að þingmenn gerðu grein fyrir skuldum sínum eða viðskiptum maka. “Nei” sagði þessi treggáfaði þingmaður” þannig er þetta ekki í nágrannalöndum okkar”. Hvílíkur endemis hroki og það eftir hrunadans íslensk efnahagslífs sem einmitt á rætur að rekja til ógegnsæis, hagsmunatengsla, embættisafglapa og heimsku þeirra sem með stjórnina fóru. Þetta vogar þingmaður sér að halda fram fyrir þjóðinni, þingmaður sem rétt skreið inn á þing og talar ekki fyrir neinn nema sjálfan sig.

 

Það er ein ástæða fyrir því að ekkert hefur gerst frá því að mótmælunum við Austurvöll lauk snemma árs 2009. Búið er að sundra fólki og samstaðan er rofinn. Ingibjörg Sólrún gerði sín dauðamistök í stjórnmálum er hún vanmat samstöðu fólks í mótmælunum og sagði “þetta er ekki þjóðin”. Það var með samstöðu almennings á Austurvelli árið 2009 sem vond ríkisstjórn var sett af og það var vegna þrýstings frá almenningi að farið var að rannsaka hvað farið hefði úrskeiðis. Nú er ekki þessi þrýstingur út á torgi og samstaðan er rofin og því er akkúrat ekkert að gerast. Hvorki er verið að taka á skuldastöðu heimilanna, rannsóknarskýrslan er ekki komin út og mun ekki koma út með allt sem hún fann og höfuðpaurar íslenska gjaldþrotsins munu ekki þurfa að vera ábyrgir gjörða sinna.

 

Það er eitt sem ég vil benda hér á um leið og ég hvet nú fólk til að rísa upp og sýna samstöðu enn á ný. Margt hefur verið sagt misjafnt um bloggið en vitið það, góðir hálsar; það var Alnetið og bloggið sem samstillti strengi og skapaði þá samstöðu sem gerði gæfumuninn Þorra 2009. Þess vegna ritaði ég bréf til Páls Magnússonar útvarpsstjóra um að fjölmiðill allra landsmanna RÚV, myndi á sínum vefsíðum setja upp blogg líkt og það sem mbl.is hefur. Því bréfi hefur þessi embættismaður ekki einu sinni svarað hvorki persónulega né opinberlega. Já ég vil árétta mikilvægi þeirra skoðanaskipta og upplýsingagjafar sem blogg er og benda á óneitanlegt mikilvægi þess í framvindu lýðræðisins eins og sýndi sig snemma árs 2009. Þess vegna er það einmitt hlutverk almanna fjölmiðils eins og Ríkisútvarpsins, já skylda þess, að koma á blogg vettvangi á sínum netsíðum.

 

Góðir Íslendingar, látum ekki hugfallast – höldum vöku okkar, krefjumst réttlætis. Rannsóknarskýrsluna strax! Höfuðstól skulda niður í janúar 2008! Nýja stjórnarskrá STRAX! Ófrávíkjanlegt eignarhald þjóðarinnar á óveiddum fiski, varmaorku, miðhálendinu og vatnsafli.

 

Lifi Byltingin!  


Einkaeign eða samfélagseign? Það er spurningin.


 

Við erum komin á það stig mannkynið, að við verðum að fara að spyrja okkur ákveðinna grundvallaspurninga. Ég á við spurninga er varða rétt manna til lífs, rétt manna til auðs, rétt manna til að eiga og ráða yfir auðlindum. Þessara spurninga hefur verið spurt áður og kristallast þær í þær andstæðu fylkingar sem kenndar hafa verið við vinstri og hægri. Undanfarna tvo áratugi, eða frá falli kommúnistastjórna austur Evrópu, hefur lítið borið á umræðu um grundvallaratriði þessi og vanþroska einstaklingar hafa haldið því fram að hægristefna, svo kölluð frjálshyggja eða það sem Karl Marx kallaði kapítalisma hafi sannað yfirburða ágæti sitt yfir vinstri stefnu eða því sem kallað hefur verið sósíalismi eða sameignastefna.

Ég ætla ekki hér að fara út í strangar skilgreiningar á því hvað kalla beri kapítalisma og sósíalisma en læt nægja að segja hér að um sé að ræða andstæð sjónarmið á því hvernig best sé að fara með auðlindir jarðar. Þeir sem aðhyllast kapítalisma styðja þá skoðun, sem sett var meðal annars fram af heimspekingnum og hagfræðingnum Adam Smith, að best sé að fara með auðlindir jarðar þegar þær eru í einkaeigu. Einungis þegar menn eru drifnir áfram af eiginhagsmunasemi þá fari menn vel með auðlindir; einungis þá reyni menn að hámarka gróða og lágmarka kostnað og eyðslu. Þeir sem aðhyllast þessa skoðun halda því þannig fram að ef að ekki sé um persónulegt eignarhald á auðlindum að ræða sé lítill sem enginn hvati að hámarka arð af auðlindum eða þá að fá sem mest út úr þeim takmörkuðu gæðum sem jörðin hefur upp á að bjóða.

Eftir að kommúnistastjórnir austur Evrópu féllu hafa margir tekið það sem sönnun þess að sameignaformið sé úrelt útópískt fyrirbæri og hið besta mögulega samfélagsform sé það sem hafi sem víðtækasta persónulega eignastýringu. Það eru sorglega fáir sem gera sér grein fyrir samhengi þeirrar frjálshyggjuflóðbylgju, sem riðið hefur yfir heimsbyggðina frá lokum kalda stríðsins, og afhyggju sameignarforms austur Evrópu. Það er, með öðrum orðum, orsakasamhengi milli afnáms kommúnisma austur Evrópu og einkavæðingarinnar í vestur Evrópu.

Það sem ég ætla með þessum skrifum er að spyrja þeirrar grundvallarspurningar hvort samfélagi okkar sé betur borgið með áherslu á einkaeign eða sameign; eða svo notuð séu kunnugleg hugstök – kapítalisma eða sósíalisma.

 

Um það verður ekki deilt að samfélagsform það sem kommúnistastjórnir austur Evrópu byggðu á hrundi vegna vanhæfni þess skipulags. Það má, aftur á móti, deila um það hvort þar hafi verið á ferðinni sósíalismi. Óneitanlega var um að ræða ríkisvæðingu og ríkiseinokun en þeir sem raunverulega þekkja til kennisetninga sósíalismans myndu ekki vilja skrifa upp á að þar hafi raunverulegur sósíalismi verið á ferð. Um þetta hefur verið ritað ítarlegar á öðrum vettvangi og ætla ég að láta nægja hér að segja að þar austur í Evrópu hafi menn lagt meiri áherslu á orðið alræði en orðið öreiganna og ákveðin valdaelíta notfært sér kennisetninguna til að komast til valda og viðhalda völdum sínum líkt og Georg Orwell lýsti svo snilldarlega í bók sinni Dýragarðinum.

En eftir stendur spurningin: Er persónulegt eignarhald auðlinda betra en samfélagslegt? Ég ætla ekki hér að tyggja á því hversu illa rekin kommúnistaríkin voru en er þessu svo miklu betur farið hér? Einkavæðingin er víðtækari en margan grunar við fyrstu sýn. Menn verða að átta sig á því að það eitt og sér að einkavæða er ekki nema hálf sagan sögð. Hin hliðin á peningnum er afskiptaleysi (e. deregulation) stjórnvalda af því hvað einkaaðilar gera með sínar eignir; menn eiga jú sínar eignir og eiga að fá að gera við þær það sem þeim sýnist, um það snýst það að eiga eitthvað og hafa yfir því yfirráðarétt. Þannig hefur frjálshyggjan leitt af sér einkavæðingu og afskiptaleysi stjórnvalda. Það hljóta að fara saman hugmyndirnar um yfirburði einkaeignarformsins og afnám regluverks ríkisins. Ef að eignum er betur borgið í höndum einstaklinganna þá er fáránlegt að ætla að sameiginlega sé gott að ákveða hvernig best sé að fara með þessar sömu eignir.

Við erum nú að upplifa afleiðingar þessarar stefnu í þeirri fjármálakreppu sem nú ríður yfir landsbyggðina og kostað hefur samfélögin – ríkin – almenning meiri upphæðir en nokkur einstaklingur fær skilið. Kostnaðurinn við afskriftir og gjaldþrot einkabankanna lendir jú algerlega á almenningi - einkavæddur var gróðinn en ríkisvætt tapið. Við erum að tala um trilljónir bandaríkjadala af almannafé bara í Bandaríkjunum einum saman. Allir vita að kostnaður almennings hér á landi verðu gífurlegur og sömu sögu er að segja alls staðar annars staðar.

 

Það er því tímabært að spyrja þeirrar grundvallarspurningar enn á ný: “Er auðlindum jarðarinnar betur komið í höndum einstaklinganna en samfélaganna? Er einkaeignarformið betra en sameignarformið?”   


Bylting eða bara kröftug mótmæli?

Það vekur hjá mér undrun að fylgjast með opinberri umræðu um hið íslenska efnahagshrun. Að fylgjast með þeim sem tjá sig á opinberum vettvangi furða sig á því hvað lítið hefur gerst frá efnahagshruninu og hinni séríslensku bankakreppu er, einhvern veginn dapurlegt. Það hefði, aftur á móti, vakið undrun mína ef að eitthvað raunverulegt hefði gerst. Annað hvort eru menn svona barnalegir, heimskir nú eða óskhyggnir.

 

Auðvitað hefur ekkert gerst – það eru sömu snillingarnir að rannsaka málið og komu algerlega af fjöllum þegar allt hrundi.

 

Nú er enn búið að fresta birtingu skýrslunnar um hrunið; það vantar einn mánuð enn, sennilega til að hreinsa út og ritskoða.

  

Tölum aðeins um þessa svokölluðu búsáhaldabyltingu. Þessi nafngift segir allt sem segja þarf. Það sem gerðist fyrir um ári síðan á Austurvelli var EKKI bylting. Mér datt í hug að nefna það sem var að gerast trumbuslagarabyltinguna, hér á þessari bloggsíðu á sínum tíma, vegna þess rytma og hópeflis sem að við trommararnir komum með á völlinn og uppi við Þjóðleikhús. Ég hef sannfæringu fyrir því að sá kraftur og stuð sem að við trommararnir komum með efldi fólki móð og olli gæfumuninum hvað varðar það að ná upp þeirri stemmningu sem í MÓTMÆLUNUM varð. Einhver annar bloggari greip þetta á lofti en líkaði ekki nafngiftin og vildi kalla þetta búsáhaldabyltingu í staðinn fyrir trumbuslagarabyltingu og fjölmiðlafólk greip hugmyndina og nafngiftin festist. Málið er bara að það sem var í gangi var mótmæli – ekki bylting. Á þessu tvennu er reginmunur og ein ástæða þess að ekkert er að gerast og fólk fyllist nú vonleysi er einmitt sú staðreynd að heimskir fjölmiðlamenn kalla mótmæli fyrir byltingu; ef að þetta var bylting þá áorkar bylting engu og þá er vissulega engin von um breytingu eða bjartari framtíð.

Nei, það sem átti sér stað var að fólk hafði fengið nóg af vanhæfum stjórnvöldum og strunsaði því niður á völl að mótmæla og krefjast ákveðinna hluta. Í fyrsta lagi vildi fólk að ríkisstjórnin færi frá og í öðru lagi að Seðlabankaráð og topparnir í Fjármálaeftirlitinu færu frá. Þetta fékkst í gegn en það eitt og sér er að sjálfsögðu ekki bylting, langt í frá. Bylting er það þegar kerfi (stjórnkerfi) er breytt – það er ekki bylting að skipta um stjórnendur í einhverju kerfi.

Ég skil vel að einhverjir falli í þá gryfju að kalla það sem gerðist byltingu. Ástæðan er sú að ósk fólksins var að fá nýtt kerfi; allir sáu að kerfið var meingallað og ónýtt. Takið eftir góðir hálsar; hin almenna hugsun var að ríkið hefði brugðist, bæði ríkisstjórnin sem og embættismennirnir. Þess vegna var hin háværa krafa um afsögn höfuðpauranna Geirs Haarde og Davíðs Oddsonar. En þessir menn eru einungis persónugervingar meingallaðs kerfis. Undirliggjandi var, að sjálfsögðu, ekki einungis krafa um að meginleikendur myndu fara af sviðinu, heldur að aldrei myndu einhverjir álíka geta skapað álíka hryllilegar aðstæður og raun ber vitni fyrir heila þjóð. Og það sem meira er: aldrei ættu jafn fáir að geta vaðið hér uppi.

Staðreyndin er nú ári eftir hin miklu mótmæli, eftir Alþingiskosningar og þegar hlutirnir eru að skýrast smátt og smátt að akkúrat ekkert hefur breyst – vegna þess að um enga byltingu var að ræða, einungis kröftug mótmæli.

Það sjá það allir að skipta út andlitum á Alþingi (og það tiltölulega fáum) breytir nákvæmlega engu um það hvernig hlutum er hér stjórnað og ástæða þess að svo illa er fyrir þessari þjóð komið er einmitt stjórnunarhættirnir. Það að skipta út örfáum stjórnendum í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti (eins nauðsynlegt og það nú annars var) breytir ekki þeim “kúltúr” sem í íslenska embættismannakerfinu ríkir og er ein aðal ástæða þess hvernig fyrir okkur er komið og skýrir, nánast alfarið, hinn séríslenska hluta kreppunnar.

Ég hef áður talað um hversu mikil vanhæfni er í íslenska embættismannakerfinu (og það eitt og sér ætti að fá hvern og einn til að hrylla við því að láta íslenska embættismenn um að fara með málefni Íslands í Icesave samningaviðræðunum). Það er nánast sama hvar við bregðum niður fæti, alls staðar úr daglegri umræðu sjáum við herfileg embættismannamistök og vægast sagt vafasamar ákvarðanir.

Það verður að vekja fólk til meðvitundar um það hvernig lýðræði virkar og hvernig okkar stjórnkerfi er samansett. Ég sveia á fólk sem agnúast út í það að ekkert sé að gerast og þá sem aumka sér yfir því hvernig allt er án þess að hafa rænu né nennu til að átta sig á því við hvað er að eiga.

Í fyrsta lagi þá er lýðræði ekki bara það að kjósa þing og forseta. Við sjáum, bæði í aðdraganda efnahagshrunsins sem og í kjölfar þess hlut embættismannakerfisins. Það verður ekki lögð nægjanlega skýr áhersla á það að a.m.k. helmingur orsaka þess hvernig fyrir íslenskri þjóð er komið er vegna vanhæfni embættismannakerfisins; bæði kerfisins sem heildar sem og einstakra embættismanna. Við getum tekið sem dæmi að ákvarðanir seðlabankastjórnar eru beinlínis orsök gjaldþrots Seðlabanka Íslands; lán til bankanna upp á milljarða með engum veðum er beinlínis ástæða þess hvernig komið er – reikningurinn lendir á íslenskum skattgreiðendum og Icesave er lítið í samanburðinum. Sömuleiðis getum við fullyrt að vottorð hins íslenska fjármálaeftirlits til handa Landsbanka íslands hf. sem gerði þeim banka kleift að opna útibú í Hollandi og Bretlandi (í trássi við skilyrði reglna um “financially sound banking institution”), séu embættismannaafglöp sem kosti íslenska þjóðarbúið milljarða. Best er að taka það fram að fyrrverandi Seðlabankastjórar eru nú í góðum stöðum og fyrrverandi forstjóri fjármálaeftirlitsins var “leystur frá störfum” (ekki rekinn) með starfslokasamningi upp á fleiri milljónir króna.

Eru menn síðan að undrast það að ekkert hafi gerst!

Annað lítið dæmi, af öðrum vettvangi, af íslenskri embættismanna skilvirkni:

Ákveðinn útlenskur ríkisborgari hafði verið dæmdur vegna eiturlyfjamisferlis og illrar meðferðar á líki. Þessi ákveðni einstaklingur hafði setið í stuttan tíma í fangelsi og síðan verið vísað úr landi og settur í endurkomubann. Um daginn kom svo í ljós að maðurinn var búinn að vera hér í allnokkurn tíma og ÞÁÐI HÉR ATVINNULEYSISBÆTUR.

Vilja menn láta þetta kerfi, þetta fólk, þessa embættismenn um að semja um Icesave?

Nei, fólk verður að átta sig á því að í raun skiptist lýðræðið í tvennt: kjörna fulltrúa og svo embættismenn. Einhver heimspekingur fyrir allnokkru vildi tala um þrískiptingu, þ.e. löggjafar- dóms- og framkvæmdarvald. Það er allt gott og blessað en meginskiptingin, sem okkur varðar í dag, er kjörnir fulltrúar fólksins annars vegar, og svo ráðnir fulltrúar fólksins hins vegar; þ.e. fulltrúar og embættismenn.

Það sagði góður háskólamaður um daginn eftirfarandi setningu um daginn:

“Fyrstu tíu árinn sem ákveðinn prófessor var ráðinn gerði hann góða hluti, síðustu tuttugu ár hans í starfi var beðið efir að losna við manninn.”

Það er meingalli á íslensku stjórnkerfi að embættismenn, sérstaklega hátt settir, þurfi ekki að svara fyrir verk sín og geti setið nær endalaust í starfi.

Ég legg til að tekið verði upp það fyrirkomulag sem er við lýði við ráðningu Þjóðleikhússstjóra og ráðið í öll æðri embætti hjá hinu opinbera tímabundið og að kjörnir fulltrúar sjái um ráðningar. Það á að gilda um dómara sem og aðra æðri embættismenn bæði ríkis og sveitarfélaga.


Aðeins um þennan svokallaða “stöðugleikasáttmála”.

 Þegar ég var að alast upp, þá var það hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að verja kjör og kaupmátt. Það snertir mig ankannalega því að heyra talað um að þegar bankakerfið á Íslandi hrynur, og gengi íslensku krónunnar fellur um rúm eitt hundrað prósent, að þá taki verkalýðshreyfingin það að sér að koma hér á stöðugleika?!?

Þegar ég var að alast upp bjó Ísland við óðaverðbólgu. Oftast var ferlið þannig að verkalýðsforystan fór fram á launahækkanir og þegar að það náðist fram þá var gengið fellt. Þannig hækkaði allt: laun, sem og innflutningur. Þetta hentaði mörgum og gekk í áratugi eða allt þar til Þjóðarsáttarsamningarnir svo kölluðu komu til.

Eitt kenndi þetta mér og það var hversu bölvað það væri að búa við þessa íslensku krónu sem stjórnmálamenn (lesist: hagsmunaaðilar í sjávarútvegi) gátu fellt að vild.

En nú er öldin önnur og ég er nokkurn veginn búin að alast upp. Dæmið hefur nú snúist við og það sem áður var krafa um launahækkanir sem kölluðu á gengisfellingu sem kallaði á verðhækkanir á innflutningi er nú: Gengið er fallið, verðhækkun á innflutningi er staðreynd og þar með fleiri krónur til handa útflutningsgreinunum en verkalýðshreyfingin stendur að einhverjum stöðugleikasáttmála sem tryggir það að allt hækkar (lán til heimila, matvara o.s.frv.) nema laun hins vinnandi manns.

Öðruvísi mér áður brá.

Það sem þarf að gera og það er það eina sem getur “leiðrétt” þetta gengishrun íslensku krónunnar með tilheyrandi verðbólgu eru launahækkanir. Ef að heimilin í landinu eru að sligast undan því að lánin hafi hækkað og innflutt vara hafi hækkað þá er ekkert annað að gera en að hækka launin – af hverju í ósköpunum fer verkalýðshreyfingin ekki fram á það?

Það að verkalýðshreyfingin standi hér að svokölluðum stöðugleikasáttmála er í raun andstæða alls stöðugleika. Það getur aldrei stuðlað að stöðugleika að slíta í sundur laun og útgjöld, þvert á móti kallar slíkt á óstöðugleika, gjaldþrot heimila, landflótta og aðra óáran.

Nú liggur aðeins eitt fyrir og það er að hækka laun í íslenskum krónum svo að þau séu nokkurn veginn á pari við það sem var fyrir hrun. Ef að ég gat keypt mér kíló af innfluttu nautakjöti fyrir klukkustunda kaup fyrir hrun en get aðeins keypt mér hálft kíló í dag þá þarf að fjölga krónunum í launaumslagi mínu og það strax. Ef að lán mitt hefur hækkað vegna verðbólgu og gengisbreytinga þá þarf að hækka laun mitt til samræmis og það strax – það er stöðugleiki, allt annað er það ekki.


Íslenskar skuldir?

Það eru eitt eða tvö atriði sem mig langar til að nefna hér á nýbyrjuðu ári.

Fyrst aðeins varðandi Icesave óskapnaðinn.

Í kastljósi Rúv var verið að ræða við tvær manneskjur um hugsanleg viðbrögð forseta Íslands við áskorun um að synja lögunum. Mér fannst annar viðmælandi Kastljóssins hnoða þetta allt saman niður í kjarna sinn þegar að hún sagði að ef að forseti synjaði þá myndi kostnaður vegna Icesave falla á enska og hollenska skattgreiðendur og það væru þeir að sjálfsögðu ekki ánægðir með. Að sjálfsögðu ekki, en af hverju er þá verið að ætlast til þess að það sé sjálfsagt mál að kostnaðurinn lendi á íslenskum skattgreiðendum? – ég bara spyr.

Sko það eru nokkur atriði sem hægt er að deila um í þessu máli og um þau er deilt vegna þess að um hagsmunamál er að ræða og ekkert annað.

Fyrst er að tilnefna spurninguna: “Ef að erlendir bankar myndu opna hér útibú og síðan fara á hausinn, myndu íslendingar ekki vilja að innistæður þeirra fengust greiddar?” Þessi spurning hefur glumið fjöllunum hærra í umræðunni sem einhverskonar rök fyrir því að kostnaður vegna skuldbindinga einkafyrirtækisins Landsbanka Íslands ehf. lendi á íslensku þjóðinni.

Lítum aðeins á málið í heild. Byrjum á að spyrja: “Er það einhver óumræðanleg krafa að samfélagið (ríkið) ábyrgist innistæður í bönkum? Nei, það er það að sjálfsögðu ekki, það er pólitísk ákvörðun stjórnvalda að gera það. Rökin eru yfirleitt þau að þannig sé byggt upp traust á bankakerfið, en þar er einmitt hnífurinn í kúnni. Það er ekkert í hagfræðikenningum, hvorki klassískum, marksískum né frjálshyggju sem mælir með ríkisábyrgð á bankainnistæðum. Í raun er mælt á móti slíku. Velji einstaklingurinn að setja fé sitt inn á bankareikning þá fær hann hærri vexti en ef að hann myndi kjósa að kaupa ríkisskuldabréf og sá vaxtamunur á einmitt að sýna aukna áhættu á því að setja fé sitt inn á bankabók í stað þess að festa það í ríkisskuldabréfum. Það að ríkið ábyrgjast bankainnistæður er í raun jafn vitlaust og ríkið myndi ábyrgjast hlutabréf. Eins og kerfið á að virka þá eiga menn að velja milli ríkisábyrgðra skuldabréfa með litlum vöxtum, bankareikninga með meðalvöxtum og svo hluta-og verðbréfa með miklum vöxtum og mikilli áhættu.

Svo er það spurningin: “Hver á að ábyrgjast það þegar erlendur banki opnar hér útibú?” Ef að við gefum okkur það (og það gera flestir í dag) að sjálfsagt sé að ríkisábyrgð sé á bankainnistæðum, hver á þá að ábyrgjast hana? Er ekki, í raun, langsótt að ætlast til þess að heimaland (lesist: skattborgarar)  bankans ábyrgist innistæðurnar? Er ekki alveg eins eðlilegt að ætlast til þess að það land sem bankinn starfar í hverju sinni ábyrgist innistæðurnar? Bankinn starfar jú samkvæmt leyfum þess lands er hann starfar í og þarf að uppfylla ákveðnar kröfur þess lands til að setja upp starfsemi o.s.frv. Með öðrum orðum, þá er ég alveg eins á því að það ætti að vera íslenska ríkið sem ætti að sjá um að tryggja mínar innistæður í einhverjum erlendum banka sem hér myndi hefja starfsemi. Það væri svo íslenska ríkisins að sjá um að reyna að endurheimta það fé frá viðkomandi banka – ekki endilega skattgreiðendum í því landi sem viðkomandi banki vildi svo til að hafa lögfesti sitt.

Reynum svo að hafa þetta á hreinu: Icesave skuldirnar eru skuldir Landsbanka Íslands ehf. Við skuldum þær ekki – þær eru ekki íslenskar skuldir. Við erum ekki að reyna að komast hjá því að greiða neitt – það eru einhverjir að reyna að láta okkur (íslenska skattgreiðendur) greiða fyrir eitthvað sem kemur okkur ekkert við.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband