Eigið fé þér?

 

Frá eiginfjárþætti A dragast eigin hlutabréf (stofnfjárbréf í tilviki sparisjóða),

viðskiptavild og aðrar óefnislegar eignir og tap og samþykkt arðsúthlutun. Í

ályktunum rannsóknarnefndar Alþingis í kafla 11.2.12, þar sem fjallað er um

reikningsskil bankanna og ytri endurskoðun þeirra, er því lýst að veigamikil

rök leiði til þeirrar niðurstöðu að draga hafi borið lán, sem einvörðungu

voru tryggð með veði í eigin hlutabréfum, frá eigin fé fjármálafyrirtækis

samkvæmt reglu 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002.5 Þessi sjónarmið eru

jafnframt reifuð í rammagrein um túlkun á því hvað teljist til eigin hlutabréfa. Bls. 10, 3. bindi

Er þar sérstaklega horft til þess að ef eigin hlutir, sem teknir hafa verið að veði

gegn lánum, eru ekki dregnir frá innborguðu hlutafé lítur út fyrir að eigið

fé viðkomandi fjármálafyrirtækis sé hærra en það raunverulega er ef á það reynir. Bls 11, 3. bindi.  Feitletranir mínar.

 

Í þessari tilvitnun, úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, er rannsóknarnefndin beinlínis að tala um að stjórnendur ákveðinna fjármálafyrirtækja hafi brotið lög, á þeim tíma er skýrslan tekur til. Það er sem sagt verið að segja að það sé ekki löglegt að banki geti haft áhrif á verðgildi eigin hlutabréfa, með því að skapa eftirspurn eftir þessum bréfum, með því að lána sjálfur fyrir kaupum á þessum sömu bréfum, gegn engum veðum öðrum en í bréfunum sjálfum, og draga það svo ekki frá eigin fé bankans.

Á mannamáli þýðir þetta að það er ólöglegt að fyrirtæki hafi áhrif á verð (eftirspurn) eigin hlutabréfa með því að lána fyrir hlutabréfunum með veði í bréfunum og bókfæra það síðan sem eign (eigið fé) en ekki skuld. Bankinn á, að sjálfsögðu, þegar á reynir, sjálfur hlutabréfin; þó formlega sé búið svo um hnútana að einhver annar sé skráður fyrir þeim. Fjármálafyrirtækið á að draga eigin hlutabréf frá eigin fé en hér stofnuðu fyrirtækin bara til málamyndagjörnings til að fara á svig við lögin. Ef þú hagar málum svona ertu í raun að ljúga á tveimur vígstöðvum.

Í fyrsta lagi með því að hafa áhrif á verð félagsins með því að skapa falska eftirspurn og í öðru lagi með því að segja að félagið sé betur stætt en það í rauninni er með því að falsa eiginfjárstöðuna.

Ég held að við séum flest öll sammála því, nema þá fyrrverandi stjórnamenn fjármálafyrirtækjanna að sjálfsögðu, að þessi háttur sé afar óeðlilegur svo ekki sé meira sagt. Það verður gaman að fylgjast með því þegar þeir reyna að snúa sig út úr þessu fyrir dómstólum.

Við sjáum nú að það var mikill hvati fyrir stjórnarmenn að standa svona að málum þar sem þetta hafði bein áhrif á launakjör þeirra í gegnum bónusgreiðslurnar. Þetta sama er að gerast úti í hinum stóra heimi og eru málin um Lehman bankann, undirmálslánin og nú síðast Goldman Sachs einungis toppurinn á ísjakanum. Ég vona nú að menn fari að átta sig á því að kaupaukar, bónusgreiðslur og arðsemiskröfur eru nú ekki alveg eins mikil "tær snilld" eins og af er látið, þegar grannt er skoðað.

 

 

p.s

Í grunninn eru bókhaldsreglurnar þannig að þegar fyrirtæki gefur út (selur) hlutabréf í sjálfu sér, þá skuldar fyrirtækið þeim sem keypti bréfin nafnverð bréfanna. Hjá íslensku fjármálafyrirtækjunum virðist snúningurinn hafa verið þannig: Fyrirtækið gefur út bréf og skapar við það skuld, en á meðan bréfin eru ekki seld þá á fyrirtækið bréfin á móti skuldinni og nettóstaðan er óbreytt. Síðan ”lánar” fyrirtækið einhverjum fyrir kaupverði bréfanna og við það myndast eign í bókum félagsins.

Fyrirtækin voru í raun að búa til peninga. Við vitum flest öll að verðmæti hlutafélags eykst ekki við það eitt að geta út fleiri hlutabréf. Eigið fé þess eykst ef að bréfin eru seld, en skuldir fyrirtækisins aukast á móti. Við sjáum, hins vegar, að við þennan snúning (að lána fyrir kaupum á bréfum í sjálfu sér með veðum í bréfunum) þá hefur eiginfjárstaðan batnað.

Það sem rannsóknarnefndin er að benda á að sé ólöglegt er að, ef að bréfin eru ”seld einhverjum” (í raun lánuð), með engum veðum öðrum en í bréfunum sjálfum, þá beri að líta svo á að bréfin séu enn í eigu félagsins og því beri að draga þau frá eiginfjárstofni eins og lög gera ráð fyrir; það er talað um ábyrgð og hugsanlegan fjárhagslegan skaða ef eignin rýrnar. Það er svo augljóst að verið er að standa í þessu einungis til að láta svo líta út að meira eigið fé sé til staðar en raunin er – og það er að ljúga til um stöðu fyrirtækisins og það er ólöglegt. Skák og mát ;)

Lítum á þetta í hnotskurn út frá sjónarhorni bankans:

Hlutabréf eru gefin út

Hlutafbréf = skuld

Ónefndur Holding (ÓH) fær lánað X-krónur (fyrir bréfunum) = eign

(ÓH) kaupir bréfin (fyrir peningana sem hann var að fá lánaða) = skuld

Eftir stendur X-krónur (það sem bréfin voru seld á) í bókum félagsins sem aukið eigið fé þó ekkert utanaðkomandi fé hafi runnið inn í bankann.

Bankinn á nú skuldaviðurkenningu frá (ÓH), en skuldar á móti hlutabréfin. Það sem er aðalatriði er að það sýnist eins og bankinn hafi aukið eigið fé sitt um og X-krónur (söluandvirði bréfanna), þó í rauninni hafi engir peningar komið í kassann og bankinn á í raun enn bréfin, þar sem ekkert hefur verið greitt fyrir þau og allt lánað með 100% veðum í bréfunum.

Við sáum svo á síðustu metrunum hvar bankarnir (sérstaklega Kaupþing) hreinlega afskrifaði þessar skuldir Óháanna um leið og virði bréfanna hrundi. Það er í sjálfu sér einnig ólöglegt þar sem stjórnendur félaganna voru þar með að gefa eignir félaganna; eitthvað sem þeir hafa ekkert leyfi til og ætti að vera algerlega fráleitt að gera. Þeir afskriftargjörningar sanna meira en allt annað hversu mikil sýndarmennska þessi "lána-sala" í rauninni var, og er í rauninni viðurkenning stjórnendanna á markaðsstýringu og verðfölsunum.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband