Lög og reglur eru bara rugl og fyrir aðra.

Ég bjó áður í litlu landi hvar íbúarnir þjáðust af minnimáttarkennd. Þetta land var þó stærra, í íbúum talið, en Ísland. Það var alveg einkennandi hvað íbúarnir þar, og alveg eins er það hér, þurftu að sannfæra sjálfa sig um að þeir væru bestir í heiminum. Ef ekki bestir, þá á meðal hinna bestu, allavega miðað við höfðatölu.

Það er samt ákveðinn munur á þessum löndum og það stórvægilegur. Hann er sá að hin þjóðin kann að fara eftir reglum en Íslendingar ekki. Það er erfitt að stilla sér upp við hliðina á einhverju og fá mat á því hver er bestur á meðan ekki er farið eftir sameiginlegum reglum. Það er svona eins og að keppa í fótbolta án þess að hafa dómara og leikreglur. Íslendingurinn er alla daga að keppa í þannig fótbolta.

Íslendingar kunna ekki, vilja ekki og skilja ekki að fara eftir reglum. Á götum Reykjavíkur sér maður lögregluþjóna aka yfir á “bleiku”. Allir, sem það dettur í hug, tala í farsíma á meðan þeir aka bíl, líka lögreglumenn, meira að segja þegar þeir eru í vinnunni. Á Íslandi sjá menn ekki samhengi á milli hárra tryggingariðgjalda og því að fara ekki eftir umferðarlögum. Að fara yfir á “bleiku” er mönnum í sjálfsvald sett, að tala í farsíma undir stýri kemur engum við nema viðkomandi ökumanni, að halda löglegu bili milli bíla í umferðinni fer eftir mati hvers og eins og hvar menn leggja bíl sínum kemur engum við nema viðkomandi bíleiganda. Á Íslandi setja menn lög um hlutina, meira af því að það er gert í öðrum löndum en að þeir sjái á því þörf.

Á Íslandi sjá menn ekki samhengi hlutanna.

Þegar samfélagið hrynur er kallað eftir rannsóknarskýrslu og ákveðin nefnd skipuð í því skyni. Nefndinni er sett dagsetning til að opinbera skýrsluna. Nefndin getur síðan sjálf ákveðið að gefa ekki út skýrsluna fyrr en henni sjálfri sýnist. Þetta er að sjálfsögðu eðlilegt þegar sama taðið er notað til að kveikja nýtt bál.

Þegar allt fer hér úr skorðum ákveða ráðamenn á Íslandi að engir opinberir starfsmenn skuli þiggja hærri laun en forsætisráðherra. Málið er leyst þannig að laun þeirra forstjóra, sem hingað til hafa þegið mun hærri laun en forsætisráðherra, eru lækkuð en óunnin yfirvinna hækkuð. Laun tuttugu forstjóra eru nú hærri en forsætisráðherra. Af hverju skyldu menn taka mark á þessum fyrirmælum fremur en þeim að fara ekki yfir á gulu ljósi; meira að segja löggan fer yfir á gulu og löggan talar í farsíma undir stýri, af hverju skyldi ég hegða mér eitthvað öðruvísi?

Það er þannig hér á landi að menn ákveða sjálfir hvaða lögum þeir fylgja. Ef að það hentar ekki að fara að einhverjum lögum þá fylgja menn einfaldlega ekki þeim lögum.

Á Íslandi skilja menn ekki gildi og tilgang reglna. Það eru til dæmis lög í landinu en að eftir þeim sé dæmt fer svona eftir veðri. Meira að segja dæmdir lögbrjótar fullyrða í fjölmiðlum að dómar í þeirra málum sé “bara grín” og algerlega tilgangslausir. Ef að menn eru dæmdir fyrir lögbrot þá er dæmt jafnvel árum eftir að brot var framið. Sagt er að Íslendingar búi í réttarríki og lýðræðisríki hvar ein af stoðunum sé sjálfstætt dómsvald. Ekki þykir, hins vegar, mikilvægt að fylgja því eftir að dæmt sé í málum, allavega þarf ekki að hasta að neinu. Lögreglu er það svo í sjálfsvald sett að forgangsraða. Það þýðir að einhver skrifstofublókin á lögreglustöðinni ákveður hvort eigi að senda lögreglu á staðinn ef að eftir henni er kallað. Fólk á Íslandi er fyrir löngu hætt að nenna að hringja á lögregluna ef að það verður vart við lögbrjóta eða ef að á því er brotið. Ef að lögreglan mætir á staðinn er það alltaf of seint og ef að dæmt er í málinu eru vitni öll líklega fyrir löngu dauð úr elli, eða muna ekki lengur eftir atvikum.

Á Íslandi skilja menn ekki gildi þess að fara eftir reglum, hvað þá lögum, þar sem það hefur engar afleiðingar að gera það ekki. Ekkert samhengi er á milli þess að fara ekki að lögum og þurfa að gjalda fyrir, eins og sést nú best á öllu því er tengist þessu svo kallaða bankahruni. Jafnvel ef að svo ólíklega vildi til að menn á Íslandi séu dæmdir fyrir lögbrot og pláss sé fyrir menn í fangelsum, þá er það lítil refsing, meira eins og frí. Menn fá meira að segja ókeypis sálfræðiaðstoð í fangelsi, eitthvað sem menn þurfa að borga fyrir annars. Menn geta síðan haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist, eftir að hafa afplánað hluta af refsingunni. Gildir þá einu hvort það er að fara á þing eða reka einhvern bisness eins og  innflutning á einhverju sem er bannað.

Það er því eðlilegt að fólk á Íslandi sé ekki að ómaka sig yfir því að fara að lögum. Til hvers ættu menn að vera að því?

 


 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Það væri t,d, hægt að fara millileiðinna. Að lög og reglur séu bara í gildi annaðhvert ár. Það er ekki manni bjóðandi að fylgja öllum reglum á hvíldar frá  þeim af og til...

Óskar Arnórsson, 26.2.2010 kl. 22:37

2 Smámynd: Kama Sutra

Góður pistill.

Menn brjóta ekki lög á Íslandi - heldur gera "tæknileg mistök".  Allavega ef þú ert nógu hátt settur og tilheyrir klíkunni.

Kama Sutra, 27.2.2010 kl. 02:33

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þetta var nokkuð langt hjá þér Tora Viktoria, en rétt í mörgu tilliti. Agi virðist ekki vera í uppáhaldi hjá nútíma Íslendingum. 

Samt kvarta margir yfir agaleysi bæði ungir og gamlir. Eina leiðin sem ég sé er að stofna her.  Hvernig her það er til umræðu.  Allar sjálfstæðar þjóðir hafa her.

Hrólfur Þ Hraundal, 27.2.2010 kl. 06:20

4 Smámynd: Óskar Arnórsson

Her? Já það er alveg stórsnigugt. Hvað þarf maður að æfa lengi í hernum þar til maður fær að skjóta einhvern? Það er ekki amarlegt að geta skotið sig inn í lýðræðið og sjálfstæðið....

Óskar Arnórsson, 27.2.2010 kl. 10:00

5 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Það er rétt að agaleysi er hluti af vandanum en virðingarleysi er svo hinn hluti vandans.

Margir hafa talað um herþjónustu sem einhverskonar leið til að temja íslendingnum aga. Ég held að skólakerfið sé lausnin. Agaleysi og virðingarleysi fyrir lögum og náunganum var ekki eins mikið vandamál hér áður fyrr og þ.a.l. sé ég ekki að herskylda sé forsenda þess að temja íslendingnum aga. Það þarf að innræta ungviðinu aga og virðingu fyrir sjálfu sér, samfélaginu og náunganum í gegnum fræðslu í skólakerfinu. Fólk sem hefur haft viðkynningu af skólakerfum í t.d. Asíu segir algera unun að vitna þann aga og reglu sem þar er að finna í samanburði við agaleysið og brjálæðið sem er algert hjá ungviðinu í skólum á Íslandi.

Vilji er allt sem þarf. Það þarf að ákveða þetta. Ræða þetta. Vilja þetta.

Þetta er ekki langur pistill. Alls ekki miðað við margan pistilinn sem ég hef skrifað hér á þessari síðu. En það þarf aga - og nennu - til að lesa sig í gegnum þá. Það er það sem ég stend fyrir ;)

Þór Ludwig Stiefel TORA, 27.2.2010 kl. 11:39

6 Smámynd: Agla

Kærar þakkir fyrir færsluna.

" Á Íslandi skilja menn ekki tilgang og gildi reglna." er setning sem mér finnst sérstaklega athugunarverð ( og gaman að fá hana frá yfirlýstum anarkista!). Trúlega er mikið til í þessari staðhæfingu og mörg dæmi hægt að nefna henni til stuðnings. Þá liggur kannski næst fyrir hendi að grípa dæmi úr því litla sem við vitum um orsakir "hrunsins".

Við erum fámenn þjóð og flest okkar þekkja einhvern sem þekkir einhvern sem gæti reddað málunum ef á þarf að halda en í fjölmennum þjóðfélögum og á alþjóðlegum vetvangi dugar "kunningjaaðferðin" skammt, sér í lagi ef fjármunir eru í húfi. Reglur verða því að koma í stað persónulegra tengsla og það þarf að fylgjast með að reglum sé fylgt.

Hrólfur gagnrýndi færsluna smávegis fyrir lengdina. Ég kíkti þá á fyrri færslur hjá þér og rakst á færslu frá 1.2.2010 sem var enn (!) lengri en ekki verri fyrir það. Titill færslunnar er "Bylting eða bara kröftug mótmæli". Þar vekur þú athygli á fyrirbærinu " persónugerving vandamála" sem við ættum að kannast við af umræðum í kjölfar hrunsins.

Kveðja

Agla, 27.2.2010 kl. 13:58

7 Smámynd: Óskar Arnórsson

Þetta er góð færsla Tora Victoria. ég bý í Svíþjóð og þar þarf maður bara að skoða umferðina og bera hana saman við á Íslandi til að skilja þetta. ég er algjörlega sammála þér í þessu. Þetta virðist bara svo vonlaust á Íslandi að maður bara hlær að þessu..

Óskar Arnórsson, 27.2.2010 kl. 14:03

8 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Ég þakka fyrir athugasemdirnar.

Það er eitt sem ég verð að benda þér á Agla varðandi Anarkisma, alla vega eins og ég skil þá stjórnmálaskoðun.

-Ef að ég held mig við líkinguna við fótboltann þá er það að vera í anarkísku liði ekki það að allir spila eftir eigin reglum, alls ekki og þvert á móti. Að láta sig dreyma um Anarkískt þjóðfélag gengur út frá því að einstaklingarnir hafi náð það miklum þroska að ekki þurfi að þröngva upp á þá, með lögum og lögreglu eða her, ákveðnum grundvallarreglum sem allir (eða flestir) eru sammála um. Slík þvingunarfyrirbæri eiga að vera óþörf og þ.a.l. ekki lengur tiltæk til að misnota í þágu einhvers dóminerandi einstaklings eða hóps. Að búa í samfélagi gengur jú út á það að vera sammála um ákveðnar grundvallarreglur. Þannig spilum við í anarkista fótboltaliðinu sem ein jöfn heild, vitandi það að sameiginlegt markmið er að vinna og allir skila sínu eftir getu og færni. Á meðan spila hinir undir stjórn einhvers foringja eða kafteins einungis sem peð mis hátt sett. Bæði lið spila fótbolta og fara þ.a.l. eftir þeim reglum sem fótbolti kallar á, en í anarkista liðinu taka allir ákvarðanir (beint lýðræði) á meðan í hinu liðinu taka ákveðnir aðilar sem telja sig betri en aðra ákvarðanir um hvað gera skuli (fulltrúa lýðræði eða einræði).-

Að vera anarkisti er að láta ekki stjórna sér ofan frá og þar gegnið út frá þeirri megin hugsun að einhver annar er ekkert betur til þess fallinn að stjórna en einstaklingurinn sjálfur. Að vera anarkisti er ekki það að engin stjórn eigi að vera, heldur það að stjórnin sé hjá einstaklingunum sjálfum en ekki hjá formlegri ríkisstjórn eða einræðisherra.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 27.2.2010 kl. 17:45

9 Smámynd: Agla

Þakka þér fyrir útleggið á þinni skilgreiningu á anarkisma, Tora, Ég skil þig.

Ég dauðsá eftir að láta kommentið fljóta með um leið og ég ýtti á "senda" því það kemur færslunni þinni akkúrat ekkert við.

Kv

Agla, 27.2.2010 kl. 18:03

10 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég verð nú bara að viðurkenna að ég veit ekki hvað anarkismi er. Það hefur alltaf hljómað sem eitthað neikvætt, enn það er það kanski ekki. Eru ekki Ríkisstjórnir eins og þær eru skipulagðar í dag bara úrelt fyrirbæri? Enn eitthvað verður að vera til að stýra sem ekki er of flókið og dýrt í rekstri..

Óskar Arnórsson, 27.2.2010 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband