Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Jæja - þetta er ekkert annað en stríð!
8.2.2009 | 17:52
Þú skalt bera ábyrgð!
Nú ertu búinn að lýsa yfir beinu stríði við þjóðina. Þetta er þvílík ósvífni að reiðin sýður; þú hefur virkjað hatur, þú hefur bruggað seið sem þú munt sjálfur fá að byrgja á - þú munt fá að sjá eftir þessu!
Mætum upp í Seðlabanka á morgun öll. Þessir maður hunsar vilja ríkisstjórnar Íslands - hann gefur skít í vilja þjóðarinnar! Þetta er ekkert annað en STRÍÐ!
Davíð segir ekki af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugavegur verði göngugata
7.2.2009 | 21:25
Það er augljóst að einhverjir eru enn á móti því að Reykjavík eignist göngugötu, geta allavega ekki hugsað sér að Laugavegurinn verði bíllaus gata. Ég átti í dag spjall við einn verslunarrekanda við Laugaveginn og hún gat séð fyrir sér að gera Laugaveginn að göngugötu á laugardögum. Ég man að það var hugmyndin að loka Laugaveginum fyrir bílaumferð við ákveðnar aðstæður þegar hann var gerður upp á sínum tíma en lítið hefur farið fyrir því, varla að honum sé lokað á Þorláksmessu hvað þá meir.
Allavega þá slæ ég þessari hugmynd hérna fram svo að menn geti tjáð sig um hana. Ég hef svo skissað fjórar útfærslur á kort um það hvernig hægt væri að gera þetta.
Í fyrstu útfærslunni, sem ég held að sé raunhæfust og best, sé ég fyrir mér að loka Laugaveginum fyrir bílaumferð frá Snorrabraut og gera Laugaveginn, Bankastrætið og Austurstrætið að göngugötu þannig að göngugatan myndi enda á Aðalstrætinu.
Önnur hugmynd gengur skemmra og gerir ráð fyrir göngugötu frá Snorrabraut að gatnamótum Laugavegar og Skólavörðustígs. Þessi tillaga gerir fólki kleift að aka frá Skólavörðuholtinu og niður eftir Bankastræti og fer svona bil beggja.
Þriðja hugmyndin gengur skemmst hvað varðar bíllaust svæði en hún gerir ráð fyrir göngugötu frá Vitastíg að Skólavörðustíg. Þessi hugmynd gengur alltof skammt að mínu áliti en væri svona lágmarks krafa þeirra sem vilja fá göngugötu í borgina og gæti verið byrjun, svona eins konar sýnidæmi.
Að lokum er svo ein róttæk hugmynd sem er mín draumahugmynd en hún gerir ráð fyrir göngugötu frá Snorrabraut að Aðalstræti, eins og í fyrstu hugmyndinni, að viðbættum Skólavörðustígnum. Þannig væri að myndast eins konar bíllaus miðbær eins og er að myndast víða erlendis.
Jæja ég kasta þessu svona fram til að opna umræðuna hvað finnst fólki? Einhverjar aðrar tillögur?
Mótmælum við Seðlabankann
7.2.2009 | 14:03
Þetta er EKKI komið. Bankastjórar neita að víkja. Mætum fyrir framan Seðlabankann á mánudaginn og mótmælum! Áfram pottar og pönnur þessa lands - hrekjum afæturnar burt! Hættum ekki fyrr en markmiðinu er náð. Við getum það, við höfum sýnt það!
Mætum öll á mánudaginn fyrir framan Seðlabankann og krefjumst þess að Seðlabankastjórnin víki TAFARLAUST!
Samtaka nú - lifi byltingin!
Mótmælum á mánudaginn við Seðlabankann.
7.2.2009 | 13:14
Þetta er gersamlega óþolandi hroki. Mönnunum er boðið að víkja til að óhjákvæmilegt fráhvarf þessara lúða verði sem sársaukalausast en enginn þeirra svarar á tilsettum tíma og aðeins einn sér sóma sinn í að víkja. Hvað halda þessir menn eiginlega að þeir séu? Ég man vel þegar Davíð Oddson tönglaðist á því að Steingrímur Hermannsson ætlaði sér að þrásitja þegar Davíð sóttist gráðugur eftir því að komast í forsætisráðherraembætti. Nú þrásitur þessi sami maður eins og blóðmaur á skinni. Meiri afætu og valdasjúkleik á ég erfitt með að hugsa mér. Nú dugar væntanlega ekkert annað en að sýna þessum manni að það er þjóðin sem ræður - ekki hann. Þjóðin vill hann burt og það STRAX - með góðu eða illu.
Það er fólk í þessu landi sem hefur manndóm í sér til að koma þér frá þó að forsætisráðherrar séu ragir til þess. Þitt er valið Davíð Oddson og svo virðist sem þú hafir valið kvölina. Við höfum mörg engu að tapa, lengur - gættu að því!
Davíð burt strax - Nýja Seðlabankastjórn strax - Lægri stýrivexti strax!
Eiríkur og Ingimundur hafa svarað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
954.000.000.000
7.2.2009 | 13:03
Hreinlega afskrifað?
Og hvað með skuldir heimilanna?
Ef að létt verk og löðurmannlegt er að afskrifa nærri þúsund milljarða er þá eitthvað stórmál að afskrifa t.d. þá hækkun íbúðarlána sem gengishrun krónunnar olli?Mér þykir einsýnt að slæm stjórnun og alltof mikil áhættasækni sé orsök þess að afskrifa hefur þessar gífurlegu fjárhæðir í bönkunum en við almenningur gerðum ekkert rangt. Það eina sem við gerðum var að sækjast eftir þaki yfir höfuðið. Og það eina sem við förum fram á er að skuldabyrgðin sé nokkurn vegin sú sama og þegar við tókum lánin.
Við förum fram á afskriftir líka - það er bara sanngjarnt.
Afskrifa tæpa þúsund milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ekkert er vikið að ábyrgð íslenskra stjórnvalda í EES samningnum gagnvart innlánum.
6.2.2009 | 12:38
Ég var að lesa áhugavert bréf Ingimundar Friðrikssonar Seðlabanka um aðdraganda hruns íslenska fjármálakerfisins. Þar er hann að fyrra Seðlabana Íslands ábyrgð og benda á orsakir. Eðlilega er þar margt réttmætt og langar mig að varpa athyglinni að nokkrum athyglisverðum atriðum í máli Ingimundar.
Í fyrsta lagi tiltekur Ingimundur öran vöxt bankanna sem eina aðalástæðu hruns þeirra. Bankarnir hafi vaxið of hratt of mikið og á of hæpnum grunni (byggt vöxt sinn á skammtímalántökum). Allt hafi þetta verið gert innan ramma laga sem gilda á hinu evrópska efnahagssvæði og [Þótt afstaða Seðlabankans væri skýr, hafði
hann ekki vald til þess að knýja fram breytingar eða gera kröfur og
raunar var svigrúm annarra íslenskra stjórnvalda mjög takmarkað
innan gildandi laga sem falla að laga- og regluverki Evrópusambands-
ins. ] (feitletrun mín)
Okkur sem nú sitjum í skuldasúpunni og treystum ráðamönnum þessarar þjóðar til að fara með efnahagsmál þykir súrt til þess að vita að hrun bankanna hefur orðið til þess að skuldsetja þjóðina um milljarða króna og er þar vísað til regluverks evrópska efnahagssvæðisins sem kveði á um ábyrgð ríkissjóðs hvar viðkomandi banki hafi lögfesti. En Ingimundur segir hins vegar í grein sinni að skylt hafi verið íslenskum stjórnvöldum að koma á tryggingarkerfi innlána samkvæmt reglum EES en [en ekki er vikið að ábyrgð stjórnvalda á skuldbindingum þess og alls ekki í kerfisáfalli.]
Sem sagt, ekki var lagaheimild til að hafta vöxt bankanna samkvæmt lögum, íslenska ríkið fór að lögum þegar það kom á tryggingarkerfi útlána en ekkert er kveðið á um ábyrgð stjórnvalda á skuldbindingunum. Þetta er mjög mikilvægt atriði sem Ingimundur bendir á. Hann er að segja að við Íslendingar sem þjóðríki erum ekki ábyrg gagnvart innlánseigendum bankanna samkvæmt lögum og reglum EES.
Nú erum við Íslendingar nánast að verða gjaldþrota vegna þeirra skuldbindinga sem fallið hafa á ríkissjóð; getur verið að þessar skuldbindingar séu óréttmætar og við séum í engu skuldbundin að greiða? Það lýtur út fyrir það.
Annað atriði sem ég vil benda á úr bréfi Ingimundar er þessu tengt. Hann ýjar að því í bréfinu að ásókn íslensku bankanna í innlánamarkaði á EES hafi kallað á ólögleg viðbrögð yfirvalda í viðkomandi ríkjum; hann segir:
Sumir sögðu beinlínis að komið yrði í veg fyrir að íslensku bankarnir fengju að taka á móti innlánum eða að þeir fengju að safna frekari innlánum þar sem innlánasöfnun var þegar hafin. Dæmi voru um kröfur um að bankarnir beinlínis minnkuðu innlán. Giltu þá einu ákvæði í tilskipunum Evrópusambandsins um jafnan rétt fjármálafyrirtækja á EES-svæðinu til athafna innan svæðisins. Meintir þjóðarhagsmunir höfðu yfirhöndina gegn Evrópusambandsskuldbindingum. (feitletrun mín)
Það sem er áhugavert hér er tvennt og geta bæði atriðin, ef sönn reynast, verið haldbær rök Íslands til að fyrra sig ábyrgð þeirri sem fallið hefur á ríkissjóð vegna innlánaskuldbindinga bankanna. Í fyrsta lagi er það klárlegt brot á EES samningnum að koma í veg fyrir samkeppni, ekki síst á grundvelli þjóðernis, eða eins og segir í 4. grein hans:
Hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samnings þessa nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans.
Annað atriðið er að ríkin hafi beitt fyrir sig þjóðarhagsmunum og sagt þá hafa yfirhöndina gegn Evrópusambandsskuldbindingum. Ef að satt er þá mun líkt eiga að gilda um Íslendinga. Það eru klárlegir þjóðarhagsmunir okkar að komast hjá því að skuldbinda kynslóðir íslendinga vegna bankahrunsins, að ekki sé nú talað um ef að þær skuldbindingar reynast ólögmætar. Ef að önnur ríki geta beitt fyrir sig þjóðarhagsmunum gegn skuldbindingum laga og reglna EES geta Íslendingar að sjálfsögðu gert það einnig.
Bréf Ingimundar má svo lesa í heild sinni hér.
Mikil andstaða við innlánasöfnun bankanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Gerum Laugaveginn að göngugötu
5.2.2009 | 14:12
Það er sorglegt að sjá hvernig Laugavegurinn í Reykjavík er að drabbast niður. Nær helmingur alls verslunarhúsnæðis stendur autt. Gatan er illa upplýst og slitin. Þar eru fáir á ferli oftast nær en þegar veður er gott, eða sérstaklega vill til, fyllast gangstéttarnar þannig að maður þarf að troðast. Ég er sannfærður um að bjarga megi Laugaveginum með því að gera hann að fallegri göngugötu. Af hverju á Reykjavík að vera ein fárra borga og sennilega eina höfuðborgin í Evrópu sem á enga göngugötu?
Ég legg það til að Laugavegurinn verði gerður að göngugötu. Nú á krepputímum er slíkt verkefni á vegum borgarinnar kærkomið. Ég er þess fullviss að slíkt myndi fegra bæinn og vera jákvætt fyrir ferðaþjónustu og verslun. Alveg er ég viss um að með því að gera Laugaveginn að göngugötu yrði aftur eftirsóknarvert að vera með starfsemi þar.
Sýnum nú í okkur dug.
5.2.2009 | 11:31
Jæja nú er farið að reka menn vegna þess að þeir tjá sig. Það finnst mér nokkuð bogið.
Ég er menntaður í markaðsfræðum og í þeim fræðum hafa menn tröllatrú á því að markaðurinn umbuni eða refsi fyrirtækjum eftir frammistöðu. Það er þó forsenda þess að markaðurinn hafi vitneskju um það sem fram fer í rekstrinum (þessu er mjög ábóta vant eins og dæmin sanna, því miður).
Nú bendir starfsmaður Toyota á Íslandi á eitthvað varðandi áherslur stjórnenda og er látinn fara fyrir vikið. Auðvitað álítur maður sem svo að þessi vitneskja mátti ekki verða opinber - hvers vegna ekki? Það er ótrúlegt að stjórnendur fyrirtækja á Íslandi geti hagað sér svona í dag, eftir allt sem á undan er gengið. Veruleikafirringin er enn til staðar (að sjálfsögðu þar sem um sömu einstaklinga er að ræða). Þetta er með hreinum ólíkindum. Við sjáum þessa fáránlegu lögsókn fyrrverandi forstjóra Eimskips t.d.; það er aumkunarvert að sjá þessa stjórnendur rembast við að halda í óhófslífstíl undanfarinna ára - bjakk!
Ég bjó um árabil í Danmörku þar sem almenningur lætur til sín taka í svona málum. Þar virkar markaðurinn vegna þess að einstaklingarnir finna til ábyrgðar. Þar segja menn - ég tek ekki þátt í svona löguðu, ég skipti ekki við svona fyrirtæki. Þannig getur hver og einn haft áhrif og stuðlað að betri rekstri fyrirtækja og þar með lækkað verð o.s.frv.
Sýnum í okkur dug.
Bloggari rekinn fyrir skrif | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um ófyrirséðar skuldbindingar Íslendinga
5.2.2009 | 11:05
Það sem ég á bágt með að skilja og mig grunar að fleiri eigi við það vandamál að stríða er það hvernig það mátti verða að ófyrirséðar skuldbindingar gátu fallið á ríkissjóðs vegna einkafyrirtækja. Ég stóð alltaf í þeirri meiningu að Alþingi þyrfti að samþykkja skuldbindingar ríkissjóðs, um það snérist jú lýðræði. Er það ekki annars óeðlilegt að einhverjir aðilar út í bæ geti stundað sín viðskipti, oft með vafasömum hætti og vítaverðu kæruleysi, og við almenningur séum svo látin súpa seiðið af þegar illa fer?
Ég benti á það hér á blogginu mínu þegar ég skrifaði bréf til varaformanns Samfylkingarinnar fyrir ári og spurðist fyrir um það hvernig þetta mætti vera. Ekki fékk ég haldbært svar og hef ekki fengið enn. Það lítur út fyrir að Alþingismenn hafi ekki haft hugmynd um (eða neitað að horfast í augu við) þessa staðreynd: Ákveðin einka-fyrirtæki voru rekinn á ábyrgð ríkissjóðs án sérstaks samþykkis löggjafarsamkundunnar. Nú er ég ekki löglærður maður en einhverja menntun hef ég þó og er almennt alinn upp í lýðræðishefðum og get ég ekki séð hvernig þetta getur staðist lög né stjórnarskrá.
Hvernig má það vera að hundruðir milljarða geta fallið sem skuld á almenning án samþykkis almennings eða Alþingis?
Þetta getur ekki staðist lög. Þetta brýtur í raun beint gegn fertugustu grein, fjórða kafla, Stjórnarskrá Íslenska Lýðveldisins en þar segir orðrétt:
Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.
Ég fæ ekki betur séð en að markmið þessarar greinar sé að tryggja að það sé Alþingi, og einungis Alþingi, sem geti skuldbundið ríkið.
Sjötugasta og sjöunda greinin virðist einnig undirstrika það að það sé Alþingis ekki stjórnvalda að setja á skatt.
Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.
Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.
Ef að litið er til þessarar síðasttöldu greinar sést að skýrt er tekið á að engan skatt megi leggja á Íslendinga nema heimild hafi verið fyrir því í lögum ÁÐUR en atvik urðu sem ráða skattskyldu. Hvað þýðir þetta?
Þetta getur ekki þýtt annað en að ekki sé hægt að leggja á mig, sem Íslending, skatt til að greiða eitthvað í dag nema heimild hafi verið fyrir því þegar til skuldbindingarinnar var stofnað. Nú ef að heimild var í lögum, t.d. í gegnum Samningin um evrópska efnahagssvæðið og lögum um banka og sparisjóði, til að gefa út óútfylltan ábyrgðartékka til handa einkafyrirtækjum þá verð ég að segja að það stríði gegn anda stjórnarskrárinnar og hafi því þeir Alþingismenn er standa því farið gegn Stjórnarskránni. Menn hafa talað um landráð af gáleysi og hlýtur það að teljast réttmæli í þessu tilviki.
Ef að Alþingismenn hafa ekki skilið hvað þeir voru að kalla á ríkissjóð þá bera þessir sömu Alþingismenn ábyrgð og verða að teljast vanhæfir og ófærir í að sinna sínu starfi. Hafi aðgerðir, eða aðgerðaleysi, þessara sömu aðila kallað hundruðir milljarða skuld yfir ríkissjóð Íslands hafa þessir aðilar farið gegn anda stjórnarskrárinnar og kallað mikið óréttlæti yfir Íslendinga. Þeir Alþingismenn sem þá ábyrgð hafa verða að sæta þeirri ábyrgð.
Menn munu spyrja: Hverju erum við bættari með því? Ekki geta þessir einstaklingar sjálfir greitt fyrir mistökin.
Á móti má segja: Menn buðu sig fram til Alþingis vegna þess að þeir töldu sig vera betur til þess fallna en aðra og sóttust eftir þeirri ábyrgð ásamt þeim fríðindum og launum sem því fylgir. Þau sögðu treystið okkur til að bera ábyrgð á ríkissjóði og það var gert. Nú hafa þessir aðilar ekki reynst traustsins verðir og á þá bara að láta gott heita? Eigum við sem höldum þessu samfélagi uppi bara að borga milljarða með bros a vör og segja: æ, æ, þetta var nú mikil óheppni en hvað um það.
Það er klárt í mínum huga að hafi verið klásúla í lögum um það að ríkissjóður bæri ábyrgð á innistæðum sparifjáreigenda í bönkunum, þá hafi það verið skýr skylda Alþingismanna að tryggja ríkissjóð gagnvart því. Talað hefur verið um bindisskyldu eða skattlagningu á bankastarsemi sem leiðir til að tryggja ríkissjóð en slíkum aðgerðum var ekki beitt þrátt fyrir viðvaranir! Í raun var bindisskylda lækkuð! Nú er ekki hægt að láta þessa einstaklinga greiða persónulega fyrir þessar skuldir sem fallið hafa á ríkissjóð en eðlilegt þykir mér að þeir einstaklingar sem svona vítavert athæfi hafi sýnt geti ekki, í það minnsta, framar gengt opinberum störfum.
Ég ætla í annarri grein að fjalla um það hvernig, ég sé, að hægt verði að komast út úr þessum skuldbindingum sem svo ósanngjarnt hafa fallið á almenna íslenska borgara.
En það vona ég svo sannarlega
4.2.2009 | 15:28
Jú umskipti hafa orðið og það til hins betra. Fólk sagði: "Hingað og ekki lengra" og stormaði fílabeinsturninn, braut nokkrar rúður en var að mestu friðsamt. Það sem gerðist var að fólk sendi skýr skilaboð og krafðist þess að fulltrúar þess hlýddu einu sinni vilja þess. Það gerði uppreisn gegn alræðistilburðum í anda Davíðs og annarra álíka kauna. Ég vona svo sannarlega að þetta boði breytta tíma og er sannfærður um að þetta er það sem koma skal; farið að vilja fólksins, annað verður ekki liðið.
Ég vek athygli á því að rúmlega fjórir dagar eru nú frá því að forsætisráðherra óskaði eftir því að seðlabankastjórnin viki til hliðar af sjálfsdáðum en ekkert hefur enn gerst. Það má vænta, eftir ummælum Davíðs að ráða, að bankastjóratríóið ætli sér ekki að fara sjálfviljugt fremur en ríkisstjórnin sem við hröktum frá. Það lítur út fyrir að kalla verði til Alþýðuherinn á ný: Trumbuslagarar og aðrir mótmælendur - gerið yður klára á ný, byltingunni er ekki lokið, eitt aðal markmið hennar hefur ekki náðst.
Tölum okkur saman á ný - svælum Davíð og félaga út úr Seðlabankamusterinu!
Lifi byltingin og Nýja Ísland!
Bréf til Davíðs Oddsonar frá forsætisráðherra íslenska lýðveldisins.
Vona að atburðir við þinghúsið boði ekki nýja siði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)