Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mamma, hvað eru vextir?
18.2.2009 | 15:01
Maður verður að setja sig í spor barnsins ef að maður vill leifa sér að spyrja spurninga um atriði sem þykja svo sjálfsögð og eðlileg að allur þorri manna efast hvorki um réttmæti þeirra né tilgang. Hvað eru vextir og hvers vegna borgar maður vexti?
Æ, elskan mín byrjarðu nú enn og aftur að spyrja, nú jæja, byrjum á byrjuninni. Vextir eru leiga á peningum. Ef að maður fær peninga að láni hjá öðrum þá borgar hann til baka upphæðina sem hann fékk að láni ásamt leigugjaldi sem kallaðir eru vextir.
En, mamma, af hverju þarf að borga leigu fyrir peninga sem maður fær lánaða og borgar svo til baka að fullu?
Jú , lambið mitt, það er vegna þess að ... Hérna vefst móðurinni tunga um tönn og telur best að fara í örlitla söguskýringu til að útskýra tilkomu vaxta í mannlegu samfélagi.
Sjáðu til, fljótlega, þegar menningin fór að koma fram á sviðsljósið, fóru mennirnir að versla hverjir við aðra. Til urðu kaupmenn er ferðuðust til fjarlægra staða og keyptu þar vörur og fóru með heim og seldu. Kaupmennirnir seldu vöruna heimafyrir á hærra verði en þeir keyptu vegna þess að þeir þurftu að fá upp í þann kostnað sem þeir lögðu út fyrir til að ná í vöruna. Þeir ferðuðust um langan veg og þoldu oft á tíðum mikið harðræði og mættu ýmsum hættum á leiðinni. Ef að kaupmaðurinn fengi ekki meiri pening fyrir að selja vöruna en hann keypti hana á þá myndi hann ekki fara í kaupleiðangurinn og þar með fengju heimamenn ekki hina framandi vöru. Nú eldist kaupmaðurinn og á sinn pening en á erfitt sjálfur með að fara í verslunarferðir vegna hrumleika. Yngri maður með ævintýraþrá vill hins vegar gjarna fara en hann á engan pening til að versla fyrir. Yngri maðurinn fer því til hins aldna kaupmanns og biður hann að lána sér svo hann geti keypt vörur í framandi löndum og komið með heim til að selja löndum sínum. Gamli kaupmaðurinn hugsar sig um og segir svo: Ég vil gjarna lána þér pening en ef að ég geri það þá hef ég ekki efni á að fara sjálfur eins og ég hafði hugsað mér. Ef að ég færi sjálfur mundi ég versla fyrir hundrað peninga og selja fyrir tvöhundruð. Fimmtíu færu í kostnað og ég hefði ávaxtað fé mitt um fimmtíu peninga. Ef að ég lána þér peningana mína get ég ekki ávaxtað peningana mína en það munt þú gera. Mér þykir því sanngjarnt að ég fái einn tíunda af því sem þú ávaxtar peningana mína í vexti. Að þessu gekk hinn ungi maður þar sem hann hefði ekki getað farið í verslunarleiðangurinn félaus og þannig er ástæðan fyrir því, lambið mitt, að við borgum vexti af peningum sem við fáum að láni.
Já en mamma hvers vegna átti upphaflegi kaupmaðurinn peninga en ekki hinn ungi? Af hverju gat gamli kaupmaðurinn farið í sinn fyrsta leiðangur án þess að taka lán en hinn ungi þurfti að taka lán, af hverju það mamma?
Nei lambið mitt, hinn aldni kaupmaður tók á sínum tíma einnig lán og ávaxtaði fé sitt og koll af kolli hefur það gengið svo í ómunatíð.
En elsku mamma mín, einhver hefur farið í fyrsta verslunarleiðangurinn; hvernig fékk hann sinn pening til að versla með fyrstu vöruna?
Ja sjáðu til lambið mitt, einhver skeggjaður fræðimaður er sagður hafa látið frá sér fara að bak við sérhvern auð glitti í glæp og átti hann þar við að upphafleg auðsöfnun hafi átt sér stað með ránum og gripdeildum og þannig hafi fyrsti kaupmaðurinn geta fengið lánað hjá einhverjum sem rændi aðra og eignaðist þannig peninga við viljum hins vegar ekki trúa því og teljum algerlega óþarft að líta svo langt aftur. Okkur nægir, lambið mitt að líta á að menn taka fé að láni, hvernig svo sem það er tilkomið upphaflega, og borga af því vexti eins og ég hef útskýrt fyrir þér og hætti svo að spyrja þetta endalaust.
En mamma það er eitt sem ég skil ekki. Ef að hver kaupmaður ávaxtar fé sitt um fimmtíu peninga og þarf að borga fimm peninga fyrir að leigja peningana af gamla kaupmanninum eykst þá ekki alltaf peningamagn í umferð við hverja ferð?
Hvað í almáttugs bænum áttu nú við barn?
Jú sjáðu til mamma; það þarf að fá hundrað peninga til að fara í verslunarleiðangur til að kaupa vörur sem seldar eru fyrir tvöhundruð hvar af fimmtíu fara í kostnað og fimm í vexti. Þá á kaupmaðurinn fjörutíu og fimm peninga eftir en lánveitandinn hundrað og fimm sem gerir samanlagt hundrað og fimmtíu. Peningarnir eru nú orðnir helmingi fleiri en áður ekki satt mamma?
Jú það lítur út fyrir það.
Þannig að eftir rúmlega tvær ferðir getur þá sá kaupmaður sem þurfti að taka peninga að láni ekki farið af stað sjálfur án þess að taka lán?
Nei barnið mitt vegna þess að hann þarf að sjálfsögðu að lifa og það kostar hann peninga. Hann eyðir öllum sínum tíma í að versla með vörur og getur því ekki aflað sér matar og verður því að kaupa í matinn af bóndanum, það er hugsanlegt að hann geti lagt til hliðar tíu peninga í hverjum hring og farið lánalaust af stað eftir tíu ferðir.
Þannig að verðmætaaukningin í samfélaginu er tíu peningar plús fimm eða fimmtán peningar eftir hverja ferð ekki satt mamma?
Í almáttugs bænum barn hvaðan hefurðu þessi hugtök eiginlega, en já, það má segja það.
Með vinnu sinni hefur þá unga kaupmanninum tekist að gera sig ríkari um tíu peninga með hverri ferð ásamt því að gera gamla kaupmanninn ríkari um fimm það er sem sagt þannig mamma?
Já einmitt lambið mitt.
En mamma pabbi segir að ef eitthvað eykst þá verði það verðminna.
Hvað áttu nú við?
Jú, alla langar í súkkulaði og eru til í að borga peninga fyrir það, en ef súkkulaði mundi vaxa út í skógi og allir gætu týnt eins mikið af því og þeir vildu þá mundi enginn að sjálfsögðu borga fyrir það ekki satt?
Jú alveg rétt.
Menn borga bara fyrir eitthvað sem er í takmörkuðu magni segir pabbi.
Ohh hann pabbi þinn þykist allt vita, en satt er það og hvað eru nú að fara með þessu barn?
Jú þú sagðir áðan að vextir væri eins konar leiga fyrir afnot af peningum. Pabbi segir að leiga sé kaup á einhverju í fyrirfram tilgreindan tíma rétt eins og með íbúðina okkar. Við eigum hana ekki en við kaupum hana í mánuð í senn og því borgum við mánaðarhúsaleigu. Ef að við gætum bara farið í helli og búið þar og það væri meir en nóg af hellum fyrir alla þá mundi enginn borga leigu fyrir íbúðarhúsnæði frekar en að kaupa súkkulaði sem nóg væri af á trjánum ekki satt mamma?
Já en hvað með það?
Jú sjáðu til mamma, ef að peningamagnið í umferð eykst um fimmtán í hverri ferð kaupmannsins og það er kannski tíu kaupmenn að fara í ferðir á hverjum tíma þá eykst peningamagnið um hundrað og fimmtíu á hverjum tíma. Samkvæmt því sem pabbi segir ættu peningarnir því að lækka í verði eftir því sem meira verður af þeim.
Og það er líka satt hjá honum pabba þínum, við höfum meira að segja orð yfir það og það er verðbólga.
Verðbólga? Það hljómar eins og sjúkdómur, svona eins og lungnabólga ojbarasta.
Jæja lambið mitt leyfðu mér nú aðeins að útskýra fyrir þér. Peningar eru ekkert annað en mælikvarði á verðmæti. Sjáðu til, í dæminu okkar um kaupmanninn þá kostaði hundrað peninga að fara í verslunarferð og það gaf af sér fimmtán peninga. Ef að mikið er til af þessum peningum þá verða þeir vissulega verðminni eins og pabbi þinn hefur bent þér á en það kostar það sama að kaupa vörurnar í útlandinu. Segjum sem svo að kaupmaðurinn hafi keypt tíu teppi í fyrstu verslunarferðinni fyrir fimmtíu peninga. Heima hefði hann getað keypt hundrað kindur fyrir þessa sömu peninga. En heima fyrir, vegna aukins peningamagns í umferð vegna hagvaxtarins, þá getur hann einungis keypt sjötíu kindur nú fyrir fimmtíu peninga. Þetta breytir engu fyrir útlenda sölumanninn sem vill selja teppin, hann vill enn fá það sem samsvarar hundrað kindum og því fer hann nú fram á sjötíu peninga kaupmannsins okkar í stað fimmtíu áður; þetta elsku lambið mitt er kallað gengisfall peninganna.
Já mamma, ég skil, og gengisfall peninganna orsakaðist af auknu peningamagni í umferð í raun af hagvextinum?
Já það lítur út fyrir það lambið mitt. Raunveruleg verðmæti breytast ekki þó að hagvöxtur verði í einhverju hagkerfi.
En mamma við erum alveg búin að gleyma upphaflega gamla kaupmanninum, hann er búinn að taka vexti allan tímann og átt sinn þátt í verðbólgunni með því.
Já nú skilurðu elskan mín að vextir eru ekkert annað en hin hliðin á verðrýrnun gjaldmiðils. Við það eitt að gamli maðurinn tók fimm prósent í vexti jók það peningamagnið í umferð um fimm prósent og þar með verðbólguna um fimm prósent. Það er okkur mikil ógæfa, lambið mitt, að æðstu stjórnendur peningamála í okkar hagkerfi hafa ekki áttað sig á þessu. Þeir tala um verðbólgumarkmið og setja sér að halda verðbólgu lágri með því að hækka vexti en skilja ekki að háir vextir kalla á háa verðbólgu og öfugt.
En nú þurfum við lambið mitt að fara að útbúa í matinn, hann pabbi þinn fer að koma heim úr vinnunni og ekki trufla hann með spurningum hann hefur haft svo erfiðan dag í Seðlabankanum.
Enn einn ónytjungurinn mættur til leiks?
17.2.2009 | 19:55
Hvers konar vesalingur er þessi sérskipaði saksóknari eiginlega? Hann er settur til að rannsaka stærsta gjaldþrot íslandssögunnar og ALLIR málsmetandi aðilar (hann sjálfur m.a.) viðurkenna að það þurfi að hafa hraðann á. Ég spyr: Af hverju er ekki búið að kalla NEINN til yfirheyrslu eftir 5 mánuði frá hruni íslenska efnahagskerfisins? Hvað eigum við í ósköpunum að bíða lengi? Þessi saksóknari kemur fram í Kastljósi og situr þar salírólegur og segir að hann hafi bara starfað í 16 daga og EKKERT hafi gerst enn!
Það þarf að fara að taka til hendinni, það er forsenda þess að hér sé hægt að laga aðstæður og það er lykilatriði. Það á að setja allt á fullt. Aðrar þjóðir eru komnar mun lengra í sínum rannsóknum þó að hrunið hafi verið fyrst hér hvað er eiginlega í gangi? Er sama heilaleysið og getuleysið í gangi enn og varð til þess að hér hrundi allt. Er ekki til einn einasti dugandi einstaklingur neins staðar í kerfinu. Er ekki til einhver í þessu kerfi sem getur farið af stað og gert eitthvað í málunum; ekki bara beðið endalaust og séð til.
Það þarf að kalla helstu stjórnendur gömlu einkabankanna og núverandi skilanefndir fyrir rannsóknarnefnd á vegum alþingis strax fyrir helgi og spyrja þá út í rekstur bankanna og aðrdaganda hrunsins og það á að útvarpa þeim yfirheyrslum beint í sjónvarpi og á netinu svo að almenningur geti fylgst með.
Ef að ekki fer eitthvað að gerast STRAX þá veit ég að menn missa þolinmæðina með ALVARLEGUM afleiðingum. Farið að drattast til að sinna því sem krafist er af ykkur STRAX!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þegiðu bara og borgaðu.
16.2.2009 | 18:13
Snemma árs 2008 viðraði ég þær áhyggjur mínar við alþingismenn að í það stefndi að miklar skuldafjárhæðir legðust á ríkissjóð vegna stóru bankanna þriggja. Það sem var í fyrirrúmi hjá mér var spurningin:
Hvers vegna á ríkissjóður að standa í ábyrgðum fyrir einkafyrirtæki?
Ég fékk fáránleg svör frá Ágústi Ólafi varaformanni Samfylkingarinnar (sjá bloggfærslu frá 26.1.2009), ekkert svar fékk ég frá Ögmundi Jónassyni þingflokksformanni VG enda sendi ég honum ekki beina fyrirspurn heldur skrifaða grein er lýsti áhyggjum mínum og birti Ögmundur þá grein á heimasíðu sinni.
Nú þegar allt fór á versta veg og áhyggjur mínar reyndust réttmætar eru menn að fara yfir sviðið og kanna hvað fór úrskeiðis. Ágæt skýrsla þeirra Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega lýsir skorinort því er gerðist og hvað betur hefði mátt fara. Það er eitt atriði sem ég ætla að draga út og vekja enn og aftur athygli á en það er:
Hvers vegna á ríkissjóður að standa í ábyrgðum fyrir einkafyrirtæki?
Það er eins og menn annaðhvort geti ekki eða hreinlega neiti að svara þessari einföldu spurningu. Ég ætla að leifa mér að vitna í ofannefnda skýrslu hagfræðinganna:
Heimild til að opna innistæðureikninga í tilviki Icesave sýnir að misbrestir eru í
ákvarðanatökuferli eftirlitsaðila á Íslandi og í viðkomandi löndum, Bretland og Holland,
og í reglugerðum ESB/EES. Eftirlitsaðilum í löndunum þremur hefði mátt vera ljósar
hætturnar og áttu að bregðast við til að hindra hina öru útþenslu Icesave. Þegar upp er
staðið var það eftirlitið sem brást. Sú hugmynd að þjóð með 300.000 íbúa geti borið
ábyrgð á innlánatryggingu af þeirri stærðargráðu sem innlán Icesave fólu í sér er
fjarstæðukennd.
Hér þarf að kafa dýpra en svo að sætta sig við það svar að reglur og samningar kveði á um að ... Hvers vegna er ætlast til þess að ríkissjóður í því landi sem einkabanki á sér höfuðstöðvar sé bakhjarl þessa einkabanka? Hver vegna? Hvaða réttlæting er fyrir því? Ef að um ríkisbanka væri að ræða gildir öðru máli en - einkafyrirtæki? Af hverju á ég að sætta mig við, sem skattborgari, að greiða fyrir eitthvað sem einkaaðilar stóðu fyrir og mökuðu krókinn á í leiðinni? Getur einhver sagt mér það? Það virðist ekki vera að neinn geti svarað fyrir þetta atriði og hef ég vissu fyrir að líkt gildir um sömu spurningu borna upp af borgara annars lands. Það er búið að lauma þessum átkvæðum inn í reglufrumskóg fjármálkerfis landanna án samþykkis og almennrar vitundar borgaranna og er þetta, eins og ég hef bent á áður í mínum skrifum hér, einskonar þegjandi samkomulag fjármagnseigenda og stjórnmálaafla en á sér í raun enga lagalega stoð. Ég vil benda á 77. grein Stjórnarskrár íslenska lýðveldisins, en þar segir:
77. grein
Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.
Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.
Sömuleiðis vil ég benda á athyglisverðan punkt í opnu bréfi Ingimundar Friðrikssonar fyrrverandi Seðlabankastjóra um aðdraganda hruns íslenska fjármálakerfisins. Þar talar Ingimundur m.a. um það regluverk er gildi innan EES svæðisins varðandi tryggingar innlána og eftirlit og segir svo orðrétt:
Þær[reglurnar] kváðu á um að stjórnvöld skyldu koma á slíku kerfi en ekki er vikið að ábyrgð stjórnvalda á skuldbindingum þess og alls ekki í kerfisáfalli. Um það vitna opinber gögn stofnana í Evrópusambandinu.(feitletrun mín).
Það er sem sagt eitthvað málum blandið hvort ríkið eigi að bera ábyrgð á starfsemi bankanna, og því spyr ég enn og aftur: Af hverju á ríkissjóður að gangast í ábyrgðir fyrir einkafyrirtæki?
Ef ég væri forsætisráðherra.
16.2.2009 | 10:45
Ef ég væri forsætisráðherra, með ótakmörkuð völd, hvað myndi ég gera nú?
Ég held að öllum væri hollt nú að spyrja sig þessarar spurningar og reyna sig við að svara. Hvað myndi ég gera?
Það er nú flestum að verða ljóst að tiltölulega fáir eiga sök á efnahagshruni því er við stöndum frammi fyrir. Það kerfi er við höfum búið við er hrunið og augljóst öllum sem það vilja sjá að ekki verður um neina endurreisn að ræða heldur verður að skapa nýtt fjármálkerfi frá grunni og það gildir ekki bara á Íslandi.
Það sem aflaga hefur farið á sér eina orsök og hún er samþjöppun fjármagns og valds. Þessi þróun var fyrirséð af mörgum vegna þess að var innbyggð í fjármálakerfið. Það eina sem hægt er að gera er að snúa þessari þróun við og það verður ekki gert með tilmælum eða með því að höfða til góðra kennda það þarf valdboð til.
Ég myndi tafarlaust kalla þá sem stjórnuðu stærstu bönkunum og aðra er stærstan þátt áttu í hinni svokölluðu útrás til yfirheyrslu fyrir viðskiptanefnd Alþingis. Í kjölfarið myndi ég láta þá aðila, sem þurfa þykir, fá réttarstöðu sakbornings og hugsanlega frysta þeirra persónulegu eigur. Ég myndi fyrirskipa skattstjóra að rannsaka viðskipti Íslendinga í svokölluðum skattaskjólum og höfða til allra að gera hreint fyrir sínum dyrum er það varðar að viðurlagðri harðri refsingu og upptöku eigna.
Ég myndi krefjast þess að innan einnar viku myndi sérskipaður saksóknari svara því: - Hvað varð um alla fjármunina? Peningar hverfa bara ekki. Því næst myndi ég nota þær niðurstöður sem fengjust með yfirheyrslum, rannsókn skattstjóra og saksóknara, ef að tilefni er til, til að höfða mál og, eftir atvikum, láta menn sæta refsingum með fangelsisvistun og eignaupptöku eða sektum. Einnig myndi ég kalla á tafarlausar niðurstöður sérstakrar rannsóknarnefndar þingsins strax og hugsanlega auka umboð þeirrar nefndar eða breyta lagaákvæðum þannig að nefndin gæti skilað endanlegum niðurstöðum innan mánaðar. Ef að satt reynist að efnahagsbrotadeild situr aðgerðalaus þá þarf tafarlaust að bæta úr því, annað hvort með nýrri stjórn eða auknu umboði.
Miklar líkur virðast á að ákveðnir aðilar hafi stungið undan svo stórum upphæðum að það eitt og sér hafi átt veigamikinn þátt í bankahruninu og gæti innheimting slíkra upphæða í ríkiskassann skipt miklu fyrir ríkissjóð og þjóðarbúið.
Ég myndi innkalla allan kvóta, tengja hann við landsfjórðunga og innheimta leigugjald sem bæjarfélög viðkomandi fjórðungs fengju til ráðstöfunar. Leiga væri mishá eftir fullvinnslu afla innanlands þannig að leiga fyrir kvóta sem fullunninn yrði innanlands yrði lægri en annars.
Ef að líkum lætur myndu þessar aðgerðir rétta af ríkissjóð og myndi ég þá setja fé í framkvæmdir til að koma lífi í atvinnulífið. Ráðast strax í gerð Sundabrautar og tvöföldun Suðurlandsvegar milli Reykjavíkur og Selfoss. Sveitarfélög ættu svo með kvótatekjum að geta farið í staðbundnar framkvæmdir. Til að létta á með fyrirtækjum og heimilum myndi ég láta lækka raforkukostnað um 10 20%.
Samfara þessu myndi ég láta íbúðarlánasjóð taka yfir íbúðarlán einstaklinga til að tryggja að fólk yrði ekki borið út úr eigin húsnæði. Bjóða þarf fólki að íbúðarlánasjóður taki yfir íbúðarhúsnæði þess og fólk geti svo leigt áfram af íbúðarlánasjóði og hafi óskoraðan rétt til að búa í húsnæðinu og hafi forkaupsrétt á því. Gæta verður sanngirnis og réttlætis í þessu þannig að tryggt sé að ekki sé verið að hjálpa þeim er reistu sér óhófshallir heldur á markmiðið að vera að tryggja öllum íbúðarhúsnæði. Hægt væri að miða við þak á fermetrafjölda og verð á einstakling sem Íbúðarlánasjóður tæki yfir.
Þetta er svona það sem ég myndi gera á fyrstu vikunni, seinna myndi ég svo leggja áherslu á að finna þá sem sök eiga á ástandinu pólitískt og láta þá svara til saka fyrir það.
Að fljóta sofandi að feigðarósi.
12.2.2009 | 08:20
Þegar ég var ungur og saklaus las ég mér oft til skemmtunar teiknimyndasögur um Lukku nokkurn Láka. Þar var á ferðinni kúreki nokkur sem skjótari var en skugginn sinn að skjóta. Ein er sú saga er mér er minnisstæðari en aðrar um Láka en það er sagan um Nefjólana og Eyrnalangana. Þetta voru svona sveitalúðar í vestrinu sem hötuðust hvorir út í aðra og voru fyrir löngu búnir að gleyma út af hverju. Þeir bara þoldu ekki hvorir aðra. Engin rök, engar ástæður, það var bara eins og þeir þrifust á þrasi og best leið þeim ef að þeirra litla egó gat á einhvern hátt fundið sér fróun í því að niðurlægja andstæðinginn.
Jæja, þrjátíuogeitthvað árum síðar er ég að upplifa þessa sögu þar sem ég er staddur mitt í atburðarásinni. Þetta, verð ég að segja, er ótrúlega óþægileg hræðileg veruleikatilfinning. Við erum stödd í alvarlegustu kreppu í manna minnum og það sem ber hæst er þrasið í Nefjólunum og Eyrnasneplunum um eigið ágæti og hinna fágæti. Sandkassinn er sandlaus að verða vegna sandkasts miður viturra manna á Alþingi sem og annarsstaðar í þjóðfélaginu. Akkúrat núna þegar við þurfum að nota kraftana í eitthvað uppbyggilegt eru nánast allar tillögur slegnar út af borðinu vegna gruns um flokkspólitíska undirlægju. Og hér þrasa men og þrátta um keisarans skegg og sjá ekki að þar stendur hann nakinn hvílík eymd!
Skútan er að sökkva og Nefjólar og Eyrnalangir þessa lands tuða sem aldrei fyrr. Að koma höggi á pólitískan andstæðing er mikilvægara en að koma með tillögur til úrbóta. Framapotarar eru komnir í kosningaham og trúa því greinilega einlægt að kerfið geti gengið áfram eins og áður, maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta.
Hvernig væri nú að vakna kæru landar? Þetta hægri vinstri kjaftæði, þessi fjórflokka pólitík ER LIÐIN UNDIR LOK. Henni lauk með efnahagshruninu og það eru liðnir upp nýir tímar. Þetta er ekki tími vonbiðla með alþingismann í maganum til að koma sér að. Þetta er tími til að afnema eiginhagsmuni og vinna að heildarhagsmunum, reynið að skilja það. Ef að þið gerið það ekki sökkvum við öll með manni og mús.
Vaknið nú, hættið að spóla í sama hjólfarinu og förum að vinna saman að því að sigla þjóðarskútunni. Við erum ein stór familí og förum að hegða okkur á ábyrgan hátt, nóg er nú komið af bullinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Uppgjör og ný hugsun
11.2.2009 | 14:09
Nú stöndum við Íslendingar frammi fyrir óhjákvæmilegu uppgjöri. Margir eru hálf dofnir og skilja hvorki upp né niður í því hvað gerðist eiginlega, né hvernig. Sumir neita einfaldlega að horfast í augu við ástandið og enn aðrir geta það einfaldlega ekki. Ég hef heyrt að sumum finnist ekki tímabært nú að kalla eftir stjórnlagaþingi eða einhverju því um líku á þessari stundu, nú eigi að einbeita sér að því að endurreisa efnahaginn og síðan megi snúa sér að því að endurgera stjórnarskránna. Þetta viðhorf, ætla ég að fullyrða, ber í sér rótina að þeim vanda sem við eigum við að stríða og allar aðgerðir sem við grípum til, á meðan stjórnunarhættir eru hér samir og áður, munu ekki vera neitt annað en plástur á sárið.
Það sem fór úrskeiðis, og það ekki bara hér á Íslandi, orsakaðist af samþjöppun. Samþjöppun valds samþjöppun fjármagns. Mun merkari menn en ég hafa bent á þennan innbyggða sjálfseyðingarþátt þess kerfis er við búum við og hefur verið nefndur kapítalismi. Nú er því ekki bara lag heldur nauðsyn að fara rækilega í saumana á því hvaða kerfi við búum við og hvaða kerfi við viljum búa við. Því miður hefur fólki verið haldið í gíslingu vanþekkingar þegar kemur að öðru fyrirkomulagi en því sem nú er ríkjandi og eru mín skrif hér ætluð sem tilraun til að bæta úr því.
Ég ætla að byrja á því að leggja höfuð áherslu á að ekki er til neitt sem heitir frjáls markaður en eins og flestum ætti að vera kunnugt byggir efnahagskerfi heimsins á þeirri forsendu að hinn frjálsi markaður sjái til þess að takmörkuðum auðlindum sé best varið í höndum hins frjálsa markaðar. Þessi kenning stemmir frá hagfræðingnum og heimspekingnum Adam Smith og hefur stundum verið kennd við hina ósýnilegu hönd. Í stuttu máli gengur hún út á það að í frjálsri samkeppni beinist viðskipti til þess aðila á markaðnum sem á hagstæðastan hátt sinnir sínum rekstri og þar með nýtist hinar takmörkuðu auðlindir best fyrir fjöldann veri það vinnuafl, fjármagn, jarðnæði eða hrávara, jafnvel þó að hver og einn aðili á markaðnum vinni í hreinni eigingirni. Þessi kenning er góð svo langt sem hún nær en þetta er kenning sem ekki fær staðist í raunveruleikanum. Á henni eru þeir annmarkar að hin ósýnilega hönd virkar ekki nema á því sem kallað er í hagfræðunum algerlega frjáls markaður og hann góðir hálsar fyrirfinnst ekki. Um þetta eru hagræðingar algerlega sammála um og þarf ekki hagfræðing til að sjá. Frjáls markaður er í besta falli útópískt markmið sem beri að stefna að en að byggja samfélagsstrúktúr á slíku er blekking ein. Blekking til þess fallinn að réttlæta auðsöfnun og þar með vald.
Nú höfum við búið við það hér á vesturlöndum alveg frá Thatcherismanum að nánast allri starfsemi samfélagsins væri betur borgið í höndum einkaaðila vegna þess að markaðurinn sæi til þess að auðlindunum væri best borgið á þann hátt. Þessu var haldið fram af krafti samhliða hruni kommúnismans í austur-Evrópu og á það hrun bent sem staðfestingu á yfirburði hins frjálsa markaðshagkerfis. Eftirmálann þekkja svo flestir einkavæðing.
Við Íslendingar erum nú að sjá hvílíkar hörmungar afleiðingar þessi einkavæðing og hin svokallaða laizzes faire (fra.: látum vera) stjórnunarstefna hefur á samfélagið. Jafnvel harðir sjálfstæðismenn eru nú farnir að láta í sér heyra og segja að stjórnarstefna undanfarinna ára og áratuga hafi verið mistök. Menn eru sem sagt farnir að átta sig á því að það þarf að stjórna markaðnum og ég get ekki undirstrikað það nóg hversu mikilvægt þetta atriði er! Þetta þýðir, með öðrum orðum, að samfélagið sem heild, sem aðili, þarf að ákveða hvernig markaðurinn vinnur; hin ósýnilega hönd er ófær um það. Ef að það er rétt þá er, að sjálfsögðu, alveg eins hægt að segja að samfélagið sem heild eigi að starfa á markaðnum, á því er jú einungis stigs munur en ekki eðlis. Það er hægt að orða þetta á þennan hátt: Ef bankar geti ekki starfað á markaði án ríkisafskipta þá geta bankar rétt eins verið ríkisbankar; ef fyrirtæki á markaði verða að starfa undir eftirliti samfélagsins (ríkisins) þá er hugsanlega eðlilegra að fara alla leið og reka þessi sömu fyrirtæki einfaldlega á samfélagslegum forsendum. Það stórkostlega í þessu efnahagshruni sem við erum að upplifa nú og það ekki einungis hér á landi, er að menn eru að átta sig á að hinum takmörkuðu auðlindum er ekki betur komið í höndunum á einkaaðilum og það er nauðsynlegt að samfélagið, ríkið, sé í raun með yfirhöndina í því hvernig auðlindunum best verður varið.
Þá stöndum við frammi fyrir þeim vanda er kommúnistastjórnir austur-Evrópu lentu í og við þekkjum svo sem hér á landi en það er spilling. Ég undraði mig oft á þeirri mótsögn að stjórnmálamenn á Íslandi börðust margir hverjir hatrammri baráttu gegn ríkisrekstri af þeirri aðalástæðu að stjórnálamönnum væri ekki treystandi fyrir rekstri ríkisfyrirtækja. Það má hugsanlega til sanns vegar færa en hvernig staðið er að stjórnun ríkisfyrirtækja er annað mál en spurningin um ríkisfyrirtæki eður ei. Í stað þess að kasta hugmyndinni um ríkisfyrirtæki fyrir róða vegna þess að þau voru svo illa rekin væri allt eins eðlilegt að fara að reka þau betur. Af hverju getur ríkið ekki sem eignaraðili gert sömu kröfur um góðan rekstur og einkaaðili? Síðan hefur það jú sýnt sig hér á Íslandi, sem og víðar, að stór hluti fyrirtækja er ansi illa rekin, eins og met taprekstur sýnir óneytanlega fram á. Í hlutafélögum er kosin stjórn sem síðan ræður stjórnunarteymi; þetta form getur að sjálfsögðu átt beint við ríkisfyrirtæki. Að einhverju leiti var þessi háttur á, en þar kom að í þessar stjórnir réðust flokksgæðingar og spillingin raktist upp frá því. Meinið í okkar kerfi var því flokkakerfið sem rekja má til kosningakerfisins - og því, kæru hálsar, er það nauðsynlegt nú ekki gæluverkefni að losa okkur við flokkakerfið; það sem kallað hefur verið fjórflokkurinn á Íslandi.
Það er forsenda allrar uppbyggingar á Íslandi að auka vægi almennings í almennri stjórnun samfélagsins og taka hana úr höndum atvinnustjórnmálamanna. Ekki með því að afhenda þessa stjórnun einkaaðilum á markaði heldur með beinni ákvarðanatöku almennings. Nú kemur aftur að uppfræðslu og skilyrðingu kynslóðanna. Ég hef orðið var við að margir eiga einfaldlega erfitt með að hugsa sér að hægt sé að koma á nýju stjórnkerfi. Fjöldinn allur trúir því að núverandi kerfi sé best einfaldlega vegna þess að núverandi kerfi er núverandi kerfi. Þetta er hin svokallaða dýragarðshugsun og henni er erfitt að breyta og tekur í raun kynslóð. Þess vegna töluðu mætir menn um byltingu og tímabundið alræði; alræði sem væri svo vand með farið að ólíklegt væri að byltingin tækist sem og varð raunin. Við stöndum því frammi fyrir því að reyna í staðinn að breyta samfélagsstrúktúrnum í skrefum. Það þarf að venja fólk við þá tilhugsun að þetta kerfi sem við búum við er ekki náttúrulögmál heldur mannanna verk og sem slíkt bæði gallað og breytanlegt. Það þarf að kenna fólki að lifa í lýðræði og það þarf að ala fólk upp í því að segja skoðun sína. Ekkert af þessu er í lagi í dag. Allt og margir eru vanir því að láta taka fyrir sig ákvarðanir og allt of margir treysta á sérfræðingaveldið sem er ekkert annað en stjórntæki ráðandi afla í samfélaginu; tæki til að fá fólk til að hlíta ákveðnum vilja.
Ég tel því að eftirfarandi tvær tillögur séu raunhæfur kostur sem breytingar á íslenskri stjórnskipan og það innan skamms tímaramma.
1) Mér virðist sú lausn að gera þjóðaratkvæðagreiðslur veigameiri í íslenskri stjórnsýslu vera leiðin sem beri að fara. Það myndi venja fólk við þá hugsun að það bæri sjálft ábyrgð og þeirra skoðun væri ekki verri en hinna svokölluðu sérfræðinga. Ég vil sjá að ef einn þriðji hluti réttkjörinna Alþingismanna fer fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál þá beri að leggja þau mál fyrir þjóðina. Ég vil einnig sjá að ef tíuþúsund ríkisborgarar fari fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál þá beri að leggja það mál undir þjóðina.
2) Ég vil einnig sjá að ráðherrar séu kosnir beint af þjóðinni líkt og forseti er nú. Við eigum að geta valið einstaklinga til að stjórna einstökum ráðuneytum. Menn eiga að bera persónulega ábyrgð á sínum málaflokkum og fólk á að geta tekið afstöðu til verka ákveðinna aðila - ekki flokka.
Ég sé þetta einungis sem skref í átt að algeru afnámi fulltrúalýðræðisins sem ég tel vera barn síns tíma og sé að líða undir lok.
Örlítil raunveruleika áminning.
10.2.2009 | 12:37
Það er hægt og rólega að renna upp fyrir mörgum hversu alvarlegt ástand efnahagsmála raunverulega er hér á landi núna. Ég fullyrði að ástandið sé þannig að það muni geta breytt þjóðarsálinni og þetta elskulega, en því miður barnalega, viðhorf: æ það reddast, muni hverfa.
Það kemur ýmislegt gott úr kreppum einnig; þeim fylgir hið óhjákvæmilega uppgjör. Ég sé að nú er þetta leiðindar og langvarandi tuð hafið enn á ný um þennan Davíð Oddson. Það er mér óskiljanlegt hversu mikla aðdáun og foringjafylgni þessi maður hefur en það er samt augljóst að margur hefur beygt af þeirri leið nú er þeir sjá hvaða afleiðingar stjórnmálaþátttaka þess mans hefur haft fyrir Ísland. Það er óumdeilt að Davíð Oddson sat lengst allra annarra íslendinga hingað til sem forsætisráðherra og það er einnig óumdeild að hann stóð fyrir þeirri samfélagsbreytingu sem við nú erum að upplifa á eigin skinni; á eigin efnahag. Ég hef haft samskipti við marga undanfarið sem segjast áður hafa fylgt Davíð en vilji hann nú burt og ég veit að þeim á eftir að fjölga eftir því sem ástandið versnar. Það er engum hollt að sitja of lengi að völdum og það er ekki gott fyrir þjóð að hafa sama leiðtoga of lengi en það gerðist hér. Það er dæmi um spillingu að menn geti komið sér fyrir í stjórnkerfinu og bara setið þar þar til þeir sjálfir vilja fara. Nú eru uppi háværar raddir um að tími Davíðs Oddsonar sé liðin og tími sé kominn til að hann dragi sig í hlé úr íslenskri stjórnsýslu. Fyrir mér eru það nægjanleg rök að maðurinn hafi verið þátttakandi eins lengi og raun ber vitni en hitt er svo ekki veigaminna að Davíð Oddsyni hættir mjög til (svo ekki sé sterkar að orði kveðið) gerræðis. Sömuleiðis er það mörgum augljóst að stjórnun peningamála undir hans forystu, sem formanns seðlabankastjórnar, hafi gersamlega mistekist og ekki þýði fyrir hann að fyrra sig ábyrgð með að vísa til þess að hann hafi varað við ástandinu; mörgum er það ljóst að slíkar fullyrðingar beri vott um tilraun til að bjarga eigin skinni fremur en að þær séu sannleikanum samkvæmar.
Það eru samt einstaklingar í samfélaginu sem hafa nánast trúarlega sannfæringu á ágæti Davíðs Oddsonar og eru tilbúnir að vaða eld og brennistein fyrir þann mann. Þessir einstaklingar trúa því blint að ákvörðun um að fá nýja yfirstjórn í Seðlabanka Íslands sé persónuleg aðför að Davíð Oddsyni. Engin rök virðast bíta á slíka einstaklinga en ég veit að einhverjir þeirra munu sjá að sér þegar ástand efnahagsmála virkilega fer að sýna sig. Í mars kemur stór hópur inn á atvinnuleysisskrá. Fleiri og fleiri fara af landi brott og farið er að tala um Íslendinga sem hina nýju Pólverja og er þar átt við að nú þurfa Íslendingar að leggjast í farandverkamennsku í fjarlægum löndum. Fleiri og fleiri fyrirtæki eru að komast í þrot. Strax á næsta fjárlagaári koma svo hinar óumflýjanlegu skattahækkanir og niðurskurður á þjónustu hins opinbera. Persónulegum gjaldþrotum mun fjölga ekki síður en fyrirtækja. Ekki sér fyrir endann á hvernig fjármagna eigi hina nýju ríkisbanka og líklegt að önnur bankakreppa muni skella á. Vextir eru hér glæpsamlega háir og ekki er fyrirsjáanleg breyting á því í náinni framtíð og líklegt að þegar og ef að þeir lækka muni það vera lítið og duga skammt. Já líkur eru til þess að ástandið muni versna að mun og vara lengi og það muni ekki bara reddast.
Ég er fylgjandi þeirri skoðun að íslenska þjóðin þurfi nú að taka höndum saman og vinna markvisst, og á samfélagslegan hátt, að því að koma sér út úr þessari kreppu. Ég er sömuleiðis á þeirri skoðun að það verði ekki gert nema með því að gera upp liðna tíma og breyta um stjórnunarhætti og áherslur. Við erum að læra ákveðna lexíu og það á eigin skinni. Ef að þjóðin þarf að fara í algert þrot áður en að lexían verður lærð þá það; eitt er víst að mínu mati: Það verður ekki haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist með sömu einstaklingum í brúnni.
Þetta má ekki fara að snúast um persónu Davíðs Oddsonar!
9.2.2009 | 10:55
Ég er að verða vitni að einum fáránlegasta farsa íslandssögunnar og er þó af nógu að taka, sérstaklega á síðari tímum. Aðalpersónan, sem oft og endranær, Davíð Oddsson, ætlar að sitja sem fastast í því embætti er hann skipaði sig sjálfan í því: vandfundinn er einstaklingur með víðtækari reynslu af stjórn peninga- og efnahagsmála, eins og hann segir um sjálfan sig í nýlegu bréfi til forsætisráðherra.
Ég varð illur þegar þessi persóna neitaði að víkja til hliðar úr stóli bankastjóra Seðlabanka Íslands. Ég ákvað að sýna andstöðu mína með því að mæta fyrir framan húsnæði Seðlabankans við Arnarhól. Ég hafði vonast eftir því að þar yrði fjölmenni samankomið til að mótmæla þessari valdníðslu seðlabankastjóra og til að styðja ríkisstjórn Íslands en mér til sárra vonbrigða var fámennur hópur mótmælenda mættur. Það rann svo skyndilega upp fyrir mér hversu fáránlegur farsi var hér á ferðinni: Davíð Oddsyni hefur tekist það, enn og aftur, að gera sjálfan sig að aðalsögupersónu atburðarrásarinnar. Hann hefur komið því inn hjá mörgum að þetta snúist um ofsóknir gagnvart sér og það að mæta upp í Seðlabanka sé að taka persónulega afstöðu gagnvart sér hvílík sorgarsena! Nú er meira að segja svo komið að Davíð vinnur hvort sem mæta margir eða fáir til að mótmæla. Ef mæta fáir getur hann sagt: Sjáið fólkið vill ekki að ég fari. Ef að mæta margir getur hann aftur á móti sagt: Svakalega hef ég mikil áhrif, fólk hópast að til að segja álit sitt á MÉR.
Ég ákvað að snúa heim og hugsa málið upp á nýtt. Ég hef orðið var við að þó nokkrir eru bara sáttir við svar Davíðs Oddsonar og hafa hugsanlega keypt það að hann eigi enga sök á efnahagsniðurlægingu þjóðarinnar og að hann hafi varað við en ekkert hafi verið gert. Hversu stór þessi hópur er veit ég ekki, get bara vonað að hann sé ekki stór. En það kusu margir þennan mann á sínum tíma og hann var jú forsætisráðherra og borgarstjóri Reykjavíkur í fleiri kjörtímabil en nokkur annar. Já hann á sinn hundtrygga stuðningshóp en það getur ekki útskýrt það hversu fámennt var við Seðlabankann í morgun. Það er jú sagt að fólk eigi skilið þá leiðtoga sem það kýs sér og þar af leiðandi á það væntanlega skilið það ástand sem tilvera þeirra á valdastól hefur skapað. Einhver hluti þjóðarinnar á vissulega, samkvæmt þessu skilið að þjást og þjáningarnar eru rétt að byrja, trúið mér, en við erum jú líka mörg sem höfum ekkert með Davíð eða frjálshyggju hans viljað hafa. Nei ég er sannfærðari um að flestir vilja þennan mann af leiksviðinu, hann hefur fengið sín tækifæri og hann hefur klúðrað miklu; hann ber vissulega sök. Margur vill væntanlega láta ríkisstjórnina einfaldlega koma þeirri lagabreytingu í gegnum Alþingi sem kveður á um endurskipulagningu á stjórn peningamála og tryggir þar með útskiptingu núverandi seðlabankastjóra. Sömuleiðis vil ég trúa því að margur vill ekki, fremur en ég, gera Davíð Oddsyni það til geðs að þetta snúist um hans ómerkilegu persónu. Það að mæta upp í Seðlabanka til að mótmæla er vissulega að gefa hans persónu vægi, vægi sem hann á í engu skilið.
Mótmælt við Seðlabankann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Farðu burt og komdu aldrei aftur!
9.2.2009 | 08:39
Alltaf tekst þessum manni að láta eins og allt snúist um sína persónu. Hann gagnrýnir bréf forsætisráðherra, sem ég lít á sem sáttaleið, og telur það aðför að sér og seðlabankastjórn sem hafi sinnt sínu starfi af óvenjulegum dugnaði og samviskusemi.
Þessi maður er svo gersamlega firrtur, er í svo mikilli afneitun að hann trúir því virkilega að bréf forsætisráðherra sé aðför að sér persónulega og sé drifið af heift út í gamla pólitíska andstæðinga!?!
Síðan þvaðrar þessi aumingja maður, sem minnir óneitanlega á mynd þá sem dregin var upp af einræðisherra nokkrum á síðustu valdadögum sínum í frægri mynd Der Untergang, um að vegið sé að sjálfsæði Seðlabankans!?! eins og þar sé á ferðinni eitthvert fjórða vald ríkisins. Seðlabankinn heyrir undir forsætisráðherra og ber að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar. Rétt eins og með aðrar stofnanir ríkisins hlýtur það að vera hlutverk viðkomandi ráðherra að sjá til þess að stofnanir séu mannaðar hæfum aðilum sem fylgi þeim markmiðum sem ríkisstjórn setji á hverjum tíma. Má ekki frekar segja að nú sé seðlabankastjóri að vega að sjálfstæði ríkisstjórnar og forræði með því að neita að fara að vilja hennar?
Ég get ekki séð aðra leið nú en að mótmæla, og það harðlega, því að embættismaður neiti að víkja úr starfi, eftir að æðsti stjórnandi íslenska ríkisins, og þar með talsmaður þjóðarinnar, æski þess að viðkomandi embættismaður víki. Þessi embættismaður talar um að bón forsætisráðherra sé einsdæmi í hinum vestræna heimi en ég get ekki séð að þvílík þráseta og þrákelkni við að bíta sig fastan í sitt embætti sé einsdæmi í öllum heimum.
Óvenjuleg samviskusemi og dugnaður
8.2.2009 | 18:43
Þetta er með ólíkindum þvílíkur þverhaus er þessi fjandans maður!
Ég var að lesa svarbréf Davíðs Oddsonar til forsætisráðherra og ég er nánast undrandi, jafnvel þótt um Davíð Oddson sé að ræða.
Hann heldur því fram að ástæða þess að hann sé beðinn um að fara sé fyrst og fremst að hann sé lögfræðingur en ekki hagfræðingur!?! Honum er sem sagt gersamlega ómögulegt að skilja að hans starfskrafta sé ekki lengur vænst vegna þess að hann hafi sýnt að hann er ekki starfinu vaxinn sem einstaklingur! Þessi maður er svo blindur að hann sér ekki hjá sér EINA EINUSTU SÖK á því ástandi sem íslendingar eiga við að etja ekki eina einustu.
Lesið þetta kæru lesendur:
Heift út í gamla pólitíska andstæðinga sem einhverjum finnst þeir eiga
óuppgerðar sakir við má ekki blinda fólk svo að það geti ekki séð einni
mikilvegustu stofnun landsins borgið med pvi að hafa lagaumgjörðina
um hana vandaða og unna í sæmilegri sátt, jafnt innan þings sem utan.
- sæmilegri sátt hlægilegt! Heldur maðurinn virkilega að það varði sæmileg sátt við áframhaldandi veru hans sem Seðlabankastjóra? Hvar hefur þetta manngrey alið manninn undanfarið?
Eða þetta:
Fyrir fáeinum vikum urðu mönnum á stjórnsýsluleg afglöp, þegar
brotthlaupinn ráherra skildi Fjármalaeftirlitið eftir stjórnlaust,
Það er sem sagt fyrst þá sem verða stjórnsýsluleg afglöp, þau hafa ekki orðið fyrr og væntanlega ekki á vettvangi Seðlabankans; ekki t.d. þegar aumkunarverð tilraun til að frysta gengið var gerð eða þegar stýrivextir voru lækkaðir í nokkra daga og svo hækkaðir aftur upp í 18% og það var náttúrulega ekkert rangt við viðbrögð Seðlabanka varðandi bankahrunið eða aðdraganda þess?
Hann heldur meira að segja áfram í bréfinu og segir að uppsögn stjórnar Fjármálaeftirlitsins hafi orsakað verulegan skaða!!! Já sem sagt bara ef að það hefði ekki verið gert þá værum við í mun betri málum nú ekki satt?
Davíð spyr: Hvers vegna i ósköpunum ætti
bráðbirgðastjórn, sem þess utan er minnihlutastjórn, að ganga svo til
verks einsog gert er?
Ég skal segja þér það vegna þess að það er órfávíkjanleg KRAFA almennings að þeir sem bera ábyrgð á ástandinu, og þar ert þú svo sannarlega ekki undanskilinn sem Seðlabankasrjóri, veði látnir mæta ábyrgð og víkja. Ertu ekki í jarðsambandi maður? Heldurðu virkilega að þú getir verið stikkfrí ekkert sé þér að kenna að þetta sé bara allt saman út af hinni alþjóðlegu bankakreppu og vegna óheppni? Þú berð ábyrgð og átt að sæta ábyrgð, það er eðli þess embættis er þú hefur sjálfur sett þig í!
Ég hef áður sagt að Davíð Oddson hugsar í sögubókarformi. Hann vill ekki fá þann blett á sinn sigursæla feril í íslenskri pólitík að hann endi á brottrekstri. Þetta sannast á þessum ummælim hans:
Verði sá gerningur sá eini sem upp úr ferli Jóhönnu
Sigurðardóttur stendur sem forsætisráðherra, að flæma vammlausan
embættismann úr starfi, sem hann hafði stundað af óvenjulegri
samviskusemi og dugnaði, þá á hún alla mina samúð.
Hugsið ykkur! Og takið eftir orðalaginu óvenjulegri samviskusemi og dugnaði [sic].
Já Ingimundur og félagar í Seðlabankastjórninni hafa sinnt starfi sínu af svo mikilli samviskusemi og dugnaði að það er barasta óvenjulegt!
Jæja greyið þú hefur nú lýst yfir stríði á hendur þjóðinni og nú muntu fá að sjá hvað í henni býr.