Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Völd og ábyrgð.

landsbankinn_heia_jpg_550x400_q95.jpgNú mun síðasti útferðarvesalingurinn vera farinn út landi. Það mun vera snillingurinn sem keypti einbýlishúsið í Skerjafirðinum og reif. Þar ku nú vera uppfylltur grunnur. Flestir vesalingarnir eru víst búsettir í Englandi (því landi sem helst stendur fyrir því að Ísland sé að fara á hausinn) og lifa þeir þar, í vellystingum, af því fé er þeir sönkuðu að sér í hinu svokallaða góðæri. Við, aftur á móti, lítum fram á versnandi lífskjör og afkomu ef ekki hreint og beint skort.

Það er mikið talað nú um Icesave og þær skuldbindingar sem af þeim ósóma kunna að lenda á íslenska ríkinu. Icesave er, hins vegar, ekki nema brot af því sem útferðarvesalingarnir hafa rústað. Lífeyrissjóðirnir sitja uppi með milljarða tap. Almennir sparifjáreigendur sömuleiðis og þá ber að nefna erlenda banka og fjárfesta. Það er því ekki nema von að menn spyrji: Hvað varð um alla peningana?

Fyrir okkur hérna niðri á gólfi er dæmið voða einfalt. Peningar hverfa einfaldlega ekki, þeir skipta bara um hendur. Tökum Icesave sem dæmi. Landsbanki Íslands hf. ákveður að stofna netbankaútibú í Englandi og Hollandi og bjóða ofurkjör á innlánum til að plata fólk til að leggja inn sitt sparifé. Fjöldinn allur bítur á agnið og samtals eru lagðar inn einhverjar milljón Evrur. Í siðuðum löndum á bankinn að tryggja þetta sparifé. Bankanum ber skylda til að halda eftir í sínum kjöllurum ákveðinni prósentu af innlánum. Síðan ber bankanum að greiða í tryggingasjóð ákveðinn hluta sem á að tryggja innlánseigendum ákveðna lágmarksupphæð ef illa fer. Að lokum kemur svo ríki þess lands er bankinn hefur lögfesti í til skjalanna. Um þetta síðastnefnda eru þó deilur og setti Geir Haarde sérstök neyðarlög til að tryggja það að ríkið myndi greiða allt, sem hin fyrstnefndu úrræðin, næðu ekki yfir. Það er þetta síðastnefnda úrræði sem líklega mun draga íslenska ríkið á hausinn. En segjum svo að íslenska ríkið muni fara á höfuðið og lenda í gjaldþroti, hverjum mun það vera að kenna – bankanum eða stjórnvöldum?

Það er eðlilegt hverju fyrirtæki að starfa innan þeirra laga og ramma sem starfsemi þess er sett. Landsbanki Íslands, ásamt hinum einkabönkunum tveimur störfuðu, að þessu leiti, algerlega, að því er virðist, innan ramma settra laga og reglna. Við getum bölsóttast út í hversu illa þessum einkafyrirtækjum var stjórnað en á meðan allt er innan laganna þá nær það ekki lengra. Það gleymist oftast í þessari umræðu að líta til þess er sökina ber en það eru íslensk stjórnvöld og þeir einstaklingar sem stóðu við stjórnvölinn á þessum tíma. Í ljós er að koma að íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á því að innlánseigendur fái sparifé sitt greitt, en stjórnvöld gerðu ekkert til að tryggja það að til væru peningar til að standa við þá ábyrgð. Ekkert var gert, alls ekkert, til að tryggja ríkið gegn hugsanlegum áföllum. Bent hefur veið á að hægt hefði verið að aðskilja bankana í fjárfestinga- og viðskiptabanka. Talað var um að láta Landsbanka Íslands hf. setja á stofn dótturfélag með lögfesti í Englandi og Hollandi þar sem Icesave ævintýrið myndi heyra undir en það var ekki gert. Bindisskyldan svokallaða var lækkuð þegar þveröfugt hefði verið hið skynsamlega. Rök hafa verið fyrir því færð að óskynsamlegt hefði verið að ríkisvæða bankana, sérstaklega alla þrjá. Eðlilegra hefði sennilega verið að láta þá gossa og láta kröfuhafana um að taka þá yfir. Allt þetta er á ábyrgð ríkisvaldsins og þeirra einstaklinga sem fóru með það vald – ekki bankanna sjálfra og þeirra einstaklinga sem þar fóru með völd.

En þetta svarar ekki spurningunni: Hvað varð um peninganna? Þeim var að einhverjum hluta stungið undan, það er vitað en enn ekki sannað. Aftur er því spurt: Hver ber ábyrgðina á því að endurheimta féð? Svarið er - Ríkisvaldið og þeir einstaklingar sem þar eru með völd. Ég minni á að stór hluti þeirra einstaklinga sem voru við völd þegar bankarnir þöndust út og fóru í fjárfestingarfyllerí og Icesave óráðsíuna eru enn á þingi og einn stjórnarflokkanna sem var í ríkisstjórn þegar allt hrundi að lokum er enn í ríkisstjórn. Er það gæfulegt?


Hið Nýja Ísland

newiceland_copy.jpg

 Sól tér sortna, 
sígr fold í mar, 
hverfa af himni 
heiðar stjörnur, 
geisar eimi 
við aldrnara, 
leikr hár hiti 
við himin sjálfan.

Geyr nú garmr mjök 
fyr Gnipahelli, 
festr mun slitna, 
en freki renna. 

Sér hon upp koma 
öðru sinni 
jörð ór ægi 
iðjagrœna. 
Falla forsar, 
flýgr örn yfir, 
sá er á fjalli 
fiska veiðir. 


Það er vont en það versnar

Jæja ef að einhverjir hafi verið í vafa þá er tekið af skarið nú – engu breyttu þessar kosningar. Nú er liðið tæpt ár frá því að allt hrundi hér og það eina sem er í hendi er að Icesave skuldbindingar einkafyrirtækisins Landsbanka Íslands lenda á íslenska ríkinu. Við erum á þriðju ríkisstjórn síðan bankarnir voru ríkisvæddir og fleiri bankastofnanir hafa farið í þrot og landflótti er orðin áþreifanlegur. Menn farnir að eyðileggja húsin sín og hafa alla samúð meðborgara sinna. Fleiri huga á slíkt, fordæmið er sett.

Það er engin að efast um velvilja þeirra sem sitja við stjórnvölinn en margir efast um getuna. Vonleysið grefur um sig meðal þjóðarinnar. Brostnar vonir. Hvað varð um þetta stjórnlagaþing annars? Ekki heyrst á það minnst nú. Til hvers að minnast á það, kosningarnar eru jú afstaðnar og þarf ekki að hafa áhyggjur af því fyrr en eftir fjögur ár. Hvílíkt dritsker er þetta að verða. Krónan fellur og fellur, gjaldeyrishöft, hækkandi skattar, verri lífskjör og ekkert að gerast í uppbyggingunni. Og síðan þetta Icesave helvíti.

Já, það er vont en það versnar. Mér finnst Evrópusambandsumræðan vera eins og ósk um að við flytjum öll til Evrópu. Hættum þessu striti hér á skerinu og hverfum suður, eins og talað var um hér forðum; á Jótlandsheiðar með skrílinn og málið er dautt. 

Það ganga hér frasar í samfélaginu sem lýsa hugarástandi þjóðarinnar: “Við borgum ekki” og “þetta eru asnar Guðjón”. Góð ræða sem fulltrúi Defence-hópsins hélt á útifundinum í gær. Ef að eignir Landsbankans ná upp í 75% af skuldbindingum Icesave þvingunarsáttmálans þá þarf íslenska ríkið að greiða 400 – 500 milljarða á átta árum, þ.e.a.s. frá 2016 – 2024; þeir sem gaman hafa af vaxtareikningi geta dundað sér við að reikna árlega 5,25% vexti af þeirri ógnarupphæð, ég nenni því ekki, mér rennur í skap við það. Allavega er það ljóst flestum að við ráðum ekki við það, fyrir utan nú það að engum finnst sanngjarnt að við íslendingar eigum að greiða fyrir fávitaskap stjórnenda einkafyrirtækis.

Þá á eftir að pæla í atvinnuleysinu, öðrum skuldum ríkissjóðs, lánshæfismati ríkisins og Landsvirkjunar, töpin í lífeyrissjóðakerfinu, gjaldþrotum heimilanna, færri kennslustundum barnanna, verri kjörum ellilífeyrisþeganna og ... nei ég, eins og fleiri, get einfaldlega ekki hugsað dæmið til enda. Hvílíkir fávitar hafa verið hér við stjórn að láta þetta allt fara svona til fjandans. Hvar er ábyrgðin? Eiga menn að komast upp með þetta? Já, þetta eru andskotans hálfvitar Guðjón og ég borga allavega ekki – fyrr fer ég af landi brott.


Evrópusambandið

title_page_-_flags_of_eu_25.jpg

 

Ég er jarðarbúi. Ég get ímyndað mér heim án landamæra.Við, sem byggjum þessa jörð, erum jöfn og jafn mikilvæg. Þannig hefur hugmyndin um landamæralausa Evrópu höfðað til mín frá því ég kynntist henni fyrst. Hugmyndin um að geta farið hvert sem er innan Evrópu, sett sig þar niður og átt sama rétt og hver annar er mikilvæg og góð, algerlega eðlileg. En ég er líka Anarkisti.

 

Þegar ég fluttist til eins Evrópusambandslandsins og hóf þar nám var ég hlynntur Evrópusambandinu. Samþykkt EFTA samningsins var nýlega orðin og ég sá að ég hafði talsverð borgararéttindi en þó ekki alveg eins mikil og skólasystkin mín frá Evrópusambandinu. Af hverju gátum við ekki bara drullast til að fara alla leið?

 

Þegar á dvöl mína leið og náminu framgekk fóru að renna á mig tvær grímur. Námið var í alþjóðaviðskiptum og mikil áhersla lögð á Evrópusambandið. Ég fékk því að kynnast vel ESB, bæði í námi og daglegu lífi. Hugmyndin sem sýndist svo góð virtist ekki alveg eins í framkvæmd. Þegar dvöl minni erlendis lauk og ég fluttist til Íslands á ný eftir átta ár var ég á öndverðum meiði við það sem ég var er ég í upphafi. Ég ætla nú að segja ykkur af hverju.

 

Upphaflega var European Coal and Steel Community sett á stofn með Parísarsáttmálanum og undirritaður af Belgú, Hollandi, Lúxemborg, Frakklandi, Ítalíu og Vestur Þýskalandi. Þetta var í lok heimstyrjaldarinnar síðari og ber að hafa í huga að fólkið leið skort og Evrópa var í rúst. Samkomulagið var til að tryggja uppbyggingu og viðskipti. Til að gera langa sögu stutta þá hefur þetta samkomulag þróast og aðildarlöndum fjölgað hægt og örugglega í gegnum tíðina. Nú heitir það Evrópusambandið (European Union), hefur sitt eigið þing og framkvæmdarnefnd. Í dag er ESB yfirþjóðlegt vald og setur lög og reglur sem aðildarlöndum (bæði innan ESB sem og EFTA) ber að fara eftir og samþykkja. En, eins og áður sagði, var sambandið upphaflega sett á stofn til að bregðast við sulti og vosbúð sem voru afleiðingar heimstyrjaldarinnar. Þess vegna hefur alla tíð frá stofnun verið lögð megináhersla á landbúnaðarmál innan ESB; markmiðið var að Evrópa yrði sjálfu sér nóg í matvælaframleiðslu. Megnið af fjármagni ESB fer í landbúnaðarmál. Upphaflega var um að ræða styrki til að auka framleiðslu á skortvörum. Fljótlega fór því svo að bændur innan sambandsins gátu vel brauðfætt íbúana og fór að bera á offramleiðslu. Allar götur síðan hafa embættismenn og þingmenn á vegum ESB verið að reyna að hafa áhrif á landbúnaðarmarkaðinn innan sambandsins með, vægast sagt, hæpnum árangri. Nú er svo komið að bændum er greitt fyrir það að rækta ekki á landi sínu. Fræg er sagan um Evrópuþingmanninn sem náði ekki kjöri, keypti sér jörð og fór að rækta landbúnaðarstyrki frá Evrópusambandinu. Að lokum lifði hann mun betur en nágranninn sem ræktaði bygg á sinni jörð.

Til okkar í skólann kom fyrrverandi þingforseti Evrópusambandsins og sagði okkur að farið hefði um þriggja mánaða vinna í það að karpa um hversu bogin agúrkan mátti vera til að mega fara á markað. Niðurstaðan var, eftir mikil fundahöld og nefndarsetur að gúrkan mátti ekki fara yfir 20 gráðu boga, ef svo var var henni hent. Hann sagði okkur einnig frá því að vegna diplómatakarps um hvar höfuðstöðvar Evrópusambandsins ætti að staðsetja hefði náðst það samkomulag að höfuðstöðvarnar yrðu í Brussel Belgíu, nema einu sinni á ári í þrjá mánuði, þá komu heilu bílalestirnar með hundruðum flutningamanna og flutti alla starfsemina til Strassborgar í Frakklandi. Allt var flutt, skrifborð og stólar, möppur og skjöl, tölvur og prentarar – allt. Forsetinn fyrrverandi nefndi einhverjar svimandi háa tölu þegar hann sagði okkur hvað þetta allt saman kostaði. Þessi fyrrverandi þingforseti ESB er nú ráðherra í ríkisstjórn Danmerkur.

Við fórum einnig í námsferð til Brussel. Það var áhugaverð ferð. Þá fyrst maður fer inn í hjartað á bákninu áttar maður sig á því hversu gíganískt allt saman er. Maður áttar sig á hvílík embættismannaparadís hérna er á ferðinni. Þarna getur Jaques, John, Jörgen, Chavier og allir hinir embættismennirnir aðhafst eitthvað “mikilvægt” og engin er til að hafa þar nokkra yfirsjón. Eftirlitslausir blýantsnagarar að eyða tímanum í að karpa um hversu bognar agúrkur mega vera til að fara á markað á súperlaunum – frábært!

Í þessari námsferð tók á móti okkur einn bureaukratinn og var greinilega guðsfeginn að fá eitthvað að gera. Ég skal segja ykkur það, kæru landar; ef að þið hafið einhvern tíma látið það fara í taugarnar á ykkur að íslenska kerfið sé bákn, ef að þið hafið einhvern tíma fárast yfir sóun á almannafé hjá íslenska ríkinu, ef að þið hafið einhvern tíma reynt að ná “í gegn” þá skuluð þið bara reyna að eiga við ESB. Óhugnanlegra monster hef ég ekki á ævinni augum litið. Það er ekki til sá einstaklingur sem hefur nokkra yfirsýn yfir báknið. Ekkert eftirlitskerfi nær yfir stofnanirnar og spillingin er, í einu orði sagt, geigvænleg.

 

Landbúnaðarstefna ESB er kennd í kennslubókum í hagfræði sem dæmi um hvernig alls ekki á að bera sig að í hagstjórn. Ekki er til sá hagfræðingur með viti sem ekki furðar sig á, hlær eða grætur yfir þeirri óstjórn, þeirri eyðsluhít sem landbúnaðarstefna Evrópusambandsins er. Eitt svakalegasta dæmið er að ríkasta kona heims er stærsti styrkþegi landbúnaðarstyrkja Evrópusambandsins en það er Elísabet Englandsdrottning. Hún fær gríðarlega háa styrki vegna þess að hún á gríðarlega mikið land sem hún notar ekki til landbúnaðarframleiðslu og fær þar að auki skógarstyrk þar sem land hennar er að mestu leiti skógi vaxið.

 

Allt þetta og meira til af rugli og bulli gerði það að verkum að ég prísaði mig sælan fyrir að Ísland var ekki í Evrópusambandinu. EFTA samningurinn tryggði okkur fjórfrelsið margumtalaða og þar með var Ísland með allan ávinninginn af þeirri hugsun sem upphaflega var með stofnun kola- og stálsambandsins sem seinna varð ESB.

 

Nú er verið að reyna að telja fólki trú um að allar okkar raunir munu leysast með inngöngu í Evrópusambandið. Ég fullyrði að það er ekki svo. Ekkert af því sem við erum að fást við mun leysast við það. Okkar vandi er smá mynt. Það má leysa á grundvelli EFTA samningsins ef að menn það vilja, en það er kannski önnur saga, önnur grein.

 


Íslenska Efnahagsundrið

Ég rölti mér í bókabúðina í kvöld og settist með kaffibolla með bók sem ég fann. Bók þessi heitir "Íslenska efnahagsundrið" og er eftir Jón F. Thoroddsen hagfræðing.

Við höfum flest verið frekar í myrkrinu þegar kemur að því að skilja hvernig "kerfið" virkaði og því vil ég leifa mér hér að mæla með þessari bók fyrir alla þá sem vilja fá skýra mynd af íslenska "efnahagsundrinu". Frábær lesning og aðgengileg og á mannamáli.

Bókin sýnir, svo ekki verður um villst, að spillingin og svikamyllan náði til allrar elítu Íslands. Allir sem gátu dönsuðu í kringum loftbólubréfin. Við hin horfðum á í forundran og spurðum okkur: Hvaðan komu allir þessir peningar? Já Jón Thoroddsen skýrir það vel í þessari bók hvaðan þeir komu. Peningarnir komu frá mér og þér. Oftast að okkur forspurðum. Verið var að ræna lífeyrissjóðina með svikum og mútum til handa stjórnarmanna. Verið var að blekkja einfeldninga til að setja sparifé sitt í séreignasjóði og peningamarkaðssjóði þrátt fyrir að starfsmenn þessara sjóða hefðu ekki meiri trú á þeim en svo að þeirra eigið sparifé var ekki sett í þá. Meira að segja var vildarviðskiptavinum ráðið til þess að taka fé sitt úr slíkum sjóðum undir það síðasta á meðan enn var verið að auglýsa ágæti þeirra og ná inn nýjum einfeldningum.

Mæli með þessari bók.


Greiðsluverkfall - samstaða - bylting

Nú eru nýafstaðnar kosningar til Alþingis og allt við það að falla í sama horfið. Ég tjáði mig um það hér margoft að kosningar um sömu flokkana og sama fólkið, sama kerfið, myndi engu breyta. Það er alveg makalaust hversu fólk virðist grandvaralaust og barnalegt. Kannski ekki að furða þegar litið er til þess að fólk er uppalið í því að líta til þess kerfis sem það lifir í sem það eina rétta, sem það eina hugsanlega. Já, það er hægt að storma niður að Alþingi og berja þar bumbur og búsáhöld og krefjast breytinga þegar allt hrynur, en svo nær það ekki lengra. Breytingu fékk fólkið á yfirborðinu. Skipt var út fólki og ríkisstjórn og einhverjum embættismönnum en síðan á að halda áfram eins og vanalega. Lappa aðeins upp á kerfið sem hrundi. Þetta er eins og alkóhólistinn sem lofar sér að hætta að drekka eftir síðasta fyllerí en fer síðan að hugsa, þegar frá líður, að þetta hafi ekki verið svo slæmt og sagan endurtekur sig.

 

Nú eru menn farnir að tala um greiðsluverkfall. Algerlega réttmæt aðgerð að mínu áliti. Réttmæt vegna þess að forsendur eru algerlega brostnar fyrir þeim lánasamningum sem gerðir voru. Þegar stofnað er til skuldar þá er gert greiðslumat og lánarinn gengur úr skugga um að lántaki geti greitt. Nú hefur það, hins vegar, gerst að greiðslubyrðin, þ.e.a.s. mánaðarafborganir af lánunum, hefur hækkað hlutfallslega á kostnað greiðslugetunnar. Lánin hafa hækkað (eða öllu heldur haldið verðgildi sínu) á meðan að laun og kaupmáttur hefur lækkað. Við vitum öll hvað hefur gerst; fyrst og fremst hefur verð íslensku krónunnar hrapað, sem aftur hefur orsakað hærra verð á innfluttri vöru og erlendum lánum sem aftur kallar á hækkun verðlagsvísitölu sem kallast aukin verðbólga. Hérna liggur því hundurinn grafinn.

 

Ekki er hægt að sakast við lánastofnanir nema að litlu leiti, sökin liggur hjá stjórnanda peningamála íslendinga, þ.e. ríkisstjórn og endanlega Alþingi.

 

Það er grunnforsenda allra viðskipta að nokkurskonar stöðuleiki ríki í peningaumhverfinu svo að viðskiptasamningar geti haldist. Bæði einstaklingar sem og fyrirtæki verða að geta treyst því að verðlag ekki raskist svo að áætlanir geti staðist. Lán sem tekin eru af yfirvegun og af varfærni eiga að standast samkvæmt greiðsluætlunum, en það gera þau ekki í dag vegna óstjórnar peningamála. Vegna þeirrar óstjórnar geta samningar ekki staðist og því er það á ábyrgð ríkisvaldsins, sem fer með stjórnun peningamála, að ekki er hægt að standa við gerða samninga – það getur ekki verið á ábyrgð þess er tekur lán í góðri trú.

 

Seðlabanki Íslands fer með stjórnun peningamála fyrir hönd ríkisstjórnar íslands og hafði það eitt að meginmarkmiði að halda verðbólgu niðri. Verðbólgu markmið seðlabankans var 2,5%. Það gekk ekki eftir eins og menn vita, heldur var komin upp í um 20%. Annað markmið peningastjórnunar seðlabankans var að viðhalda stöðugu gengi krónunnar. Takið eftir að feitletrað er stöðugu, því að hvorki var það markmið að halda genginu háu né lágu. Stöðugleikamarkmiðið brást algerlega.

 

Ríkisstjórn fer með yfirstjórn efnahags- og atvinnumála. Það er verkefni ríkisstjórnar á hverjum tíma að fara með fjármál ríkissjóðs og haga því þannig að best sé fyrir þjóðarhag  til framtíðar. Nú lítum við fram á 200 milljarða króna halla á fjárlögum, sem kallar á gífurlegan niðurskurð á ríkisþjónustu sem og á hækkun skulda ríkissjóðs og vaxtagreiðslna og hækkun skatta. Ekki verður skýrar kveðið á um það að stjórnun ríkisfjármála hafi gersamlega brugðist. Það er ríkisstjórnar á hverjum tíma að sjá svo um að atvinna geti þrifist í landinu. Nú er prósentutala atvinnuleysis sú sama og vaxtastigsins eða um 20%, enn hefur ríkisstjórn og Alþingi algerlega brugðist.

 

Allt sem Alþingi og ríkisstjórn voru ráðin til að gera brást; halda verðbólgu lágri, halda stöðugu gengi, skila heilbrigðum ríkissjóði og tryggja atvinnu – allt brást. Það var því ekki að undra að fólk hefði fengið sig fullsatt af slíkri vanhæfni og ætt út á götur og sagt nú er nóg komið; en kæru landar, nóg af hverju? Nóg af þeirri ríkisstjórn sem þá sat? Nóg af því Alþingi sem þá sat? Nóg af þeim embættismönnum sem þá sátu? Haldið þið virkilega, mínir elskulegu landar, að það eitt að skipta úr andlitum muni einhverju breyta? Haldið þið að það að láta þá sem fóru með stjórnina fara, og það án þess að bera eina einustu ábyrgð, muni einhverju breyta?

 

Ég hef sagt það áður og segi það enn; það var kerfið sem brast. Það er ekki hægt að lappa upp á það. Ef að það er reynt þá mun allt fara í sama horfið fyrr en síðar.

 

Menn töluðu um byltingu en enga byltingu höfum við upplifað. Bylting er breyting á kerfi – ekki umskipting á einstaklingum. Við búum enn við sama kerfið. Sama flokkakerfið pólitíska, sama peningastjórnunarkerfið, sama ákvarðanatökukerfið – ekkert hefur breyst. Og nú, þegar menn tala um að fara í greiðsluverkfall, er það sama röddin er heyrist um það ekki megi, um að það sé ekki hægt, með undirliggjandi hótununum.

 

Að fara í greiðsluverkfall myndi vissulega vera raunveruleg bylting en forsendurnar yrðu að vera þær sem allar byltingar kalla á – samstaða. Ef að allir myndu hætta að borga yrði ekki hægt að fara eftir hverjum og einum og kerfið myndi hrynja. En hrunið væri ekki afleiðing greiðsluverkfallsins, heldur væri hrunið afleiðing peningaóstjórnunarinnar. Hrunið væri afleiðing hárrar verðbólgu, lágs gengis íslensku krónunnar, halla á ríkissjóði og atvinnuleysis. Það er ekki nóg að skipta út ríkisstjórn. Það er ekki nóg að skipta út fólki á Alþingi og það er ekki nóg að skipta út einstaka embættismönnum. Það þarf að skipta út kerfinu. Það er ljóst hverjum sem það vill sjá að hrun íslensks efnahags er kerfishrun. En kerfið reynir af öllum mætti að viðhalda sjálfu sér. Embættismenn, stjórnmálamenn og í raun þorri almennings vill viðhalda kerfinu því hann þekkir ekkert annað og menn eru alltaf hræddir við hið óþekkta. Margir geta ekki einu sinni hugsað sér annað fyrirkomulag. Því er það á ábyrgð okkar sem sjáum út fyrir hellismunann að benda á að til eru aðrar leiðir. Það þarf að sína alkóhólistanum fram á það að til er líf án áfengis og það í raun mun betra. Það er lífsnauðsynlegt að breyta um lífsstíl, breyta um kerfi. Ef að kerfið þrjóskast við og vill viðhalda sjálfu sér þarf að bylta því og það með öllum ráðum. Greiðsluverkfall er vissulega ein leið í því og þess vegna hrópa nú kerfiskallar úr öllum áttum gegn slíkri aðgerð. Þeir sjá að greiðsluverkfall myndi vissulega ganga af kerfinu dauðu og nýtt yrði að byggjast á rústum þess og eitthvað raunverulega yrði að gera – og það vilja þeir ekki.

 

Lifi byltingin


Lausn heimila í vanda

Þá hafið þið það kæru landar. Nú fara allir að gramsa í geymslunni og háaloftinu til að finna gömlu saumavélina hennar ömmu gömlu. Nýr útflutningsatvinnuvegur er að skapast - saumavélaútflutningur.

Fleiri milljónir fást fyrir stykkið og gert er ráð fyrir að flytja út a.m.k. 700 - 1.200 stykki á ári. Sérstakt embætti hefur verið sett á stofn á vegum iðnaðarráðuneytisins sem góðkennir vélar til útflutnings og þurfa þær að vera 30 ára eða eldri og af Singer gerð, allar nánari upplýsingar er að finna á slóðinni: www.idnadaraduneyti.is/utflutningur/singer/458d6 

Gert er ráð fyrir að verulegar útflutningstekjur geti skapast næstu 10 árin vegna saumavélaútflutningsins og á þessi atvinnugrein að létta á skuldsettum heimilum, sértaklega er bent á þessa lausn fyrir þau heimili er skulda húsnæðis- og bílalán í erlendri mynt.


mbl.is Rautt kvikasilfur í saumavélum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er lýðræðið að líða undir lok?

Jæja þá standa kosningar fyrir dyrum. Eftir að hafa séð framboðsþætti í fjölmiðlum og heyrt og lesið um framboð og einstaka frambjóðendur, hef ég sannfærst um það sem mig grunaði – kosningar munu engu breyta.

 

Evrópusambandið, eða ekki. Króna, eða ekki. Vinstri eða hægri, skattar eða niðurskurður. Enginn virðist hafa upp á neitt að bjóða sem skipt gæti sköpum fyrir heimilin í landinu og atvinnulífið. Já, ég sagði það þegar menn risu upp og stormuðu niður á Austurvöll að ekki væri nóg að skipta út fólki eða flokkum. Það er eitthvað mikið rotið í stjórnkerfinu. Við erum að fá upplýsingar um ofurstyrki til handa stjórnmálaflokkum sem augljóslega eru mútur og tengjast því að einkaaðilar höfðu komið auga á leið til að komast yfir orkuauðlindir þjóðarinnar. Fiskurinn í sjónum er fyrir löngu orðin einkaeign fárra og ríkisfyrirtæki sem eitthvað gáfu af sér hafa verið einkavædd. Bankarnir voru afhentir örfáum einstaklingum sem græddu á tá og fingri, rústuðu efnahag og orðspori þjóðarinnar en teknir til baka til ríkisins þegar tap var orðið á rekstrinum – einkavæddur var gróðinn en ríkisvætt tapið.

Samfylkingin, sem var í ríkisstjórn þegar allt hrundi og þáði fjárstyrki einkafyrirtækja sem fáheyrðir voru til þess tíma, er orðinn stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Vinstri græn, sem er flekklaus, hvað varðar hrunið vinnur á og líklegt að þessir tveir flokkar myndi næstu ríkisstjórn en allir sjá að Evrópumálin eiga að gera það ómögulegt ef að flokkarnir standa á sínu. Það mun, að sjálfsögðu engu skipta þegar á hólminn er komið. Enn og aftur munum við fá fólk í ráðuneytin sem enga faghæfni hefur. Þægir flokkshundar munu fá sína bitlinga og svona mun lestin áfram bruna. Í raun situr allt við það sama. Einhverjir munu færa fyrir því rök að réttlætið muni nú ná fram að ganga, aðrir halda fram hinu gagnstæða.

 

Það kerfi sem gerði örfáum einstaklingum kleift að gera íslenska þjóð gjaldþrota er vandinn sem íslendingar eiga við að etja, en stjórnmálaflokkar munu ekki standa að breytingum á því. Það kerfi er þeirra kerfi.

Stjórnlagaþingið er nú blásið af. Sama ósanngjarna kjördæmaskipanin er við líði. Þeir flokkar sem komið hafa sér fyrir fá óeðlilega fyrirgreiðslu úr sjóðum almennings og ný framboð munu, um óséða framtíð, eiga erfitt uppdráttar. Samtryggingarkerfið heldur áfram.

 

Það sem er ljósið í myrkrinu er myrkrið sjálft. Það sjá það allir, sem vilja sjá, að ef að kerfið breytist ekki þá mun allt, fyrr eða síðar, fara í sama horf. Það er ekki nóg að skipta út fólki og flokkum, það þarf að skipta út kerfinu. Ef að það er ekki gert, og enginn vilji virðist til þess, þá mun allt hrynja, aftur og aftur þangað til menn átta sig vonandi – það er ljósið í myrkrinu.


Jöklabréfavandamálið

Hvað eru Jöklabréf?

 

Jöklabréf eru í eðli sínu lántaka íslenska ríkisins á erlendu fjármagni, þannig útbúið að ríkissjóður sýnir ekki erlenda skuld í bókhaldi heldur íslenska. Jöklabréfakerfið er ákaflega óhagstætt þjóðinni og kostnaðarsamt og hannað með hagsmuni fjármagnseigenda að leiðarljósi þannig að það skapar sem mestan vaxtahagnað á hverja lánaða einingu.

 

Lítum á hvernig ferlið lítur út.

 

 

1. þrep

Íslenska ríkið gefur út Jöklabréf sem það fær íslenskan banka til að höndla með fyrir sig. Íslenski bankinn tekur lán hjá erlendum banka í erlendri mynt, með ríkið sem bakhjarl. Íslenski bankinn lætur síðan íslenska ríkið hafa andvirði erlenda lánsins í skiptum fyrir jöklabréfið. Íslenski bankinn selur nú Jöklabréfið á erlendum hlutabréfamarkaði og kaupandinn greiðir fyrir það í íslenskum krónum.

Í bókhaldi ríkisins er bókfært nafnverð Jöklabréfsins í íslenskum krónum sem skuld en eign á móti í erlendu fé. Nettó eignastaða ríkisins er núll og efnahagsreikningurinn segir að erlendar skuldir séu engar. Ríkið hefur komist yfir erlent fé sem það getur notað í framkvæmdir t.d. Kárahnjúkavirkjun.

Bókhald íslenska bankans sýnir erlenda skuld við erlenda bankann en eign á móti í íslenskum krónum sem er söluandvirði Jöklabréfsins.

 

Lítum nú hvernig kerfið virkar.

 

joklabrefsala2skref.jpg

 

 

 

2. þrep

Ríkið greiðir vexti og afborganir af erlendu láni íslenska bankans sem bankinn kemur svo til skila til erlenda bankans. Þetta skýrir hvers hinar miklu vaxtagreiðslur ríkissjóðs (90 milljarðar smkv. fj.lögum 2009) án þess að sýna neinar markverðar erlendar skuldir.

Íslenski bankinn ávaxtar nú þær íslensku krónur sem fengust fyrir sölu Jöklabréfsins með því að lána þær íslendingum.

Íslenski bankinn greiðir eiganda Jöklabréfsins vexti af bréfinu.

 

Grunn-niðurstaða

Íslenska ríkið hefur fengið erlent fjármagn að láni. Íslensku bankarnir hafa fengið innlent fjármagn að láni erlendis frá. Aukning hefur orðið á eftirspurn eftir íslenskri krónu sem hækkar gengi íslensku krónunnar. Það gerir ríkissjóði auðveldara fyrir með að endurgreiða erlent lán.

Til að dæmið gangi upp þarf íslenski bankinn að ávaxta sitt fé en ríkissjóður greiðir sínar afborganir og vaxtakostnað af almannafé. Íslenski bankinn þarf því að lána íslendingum söluandvirði Jöklabréfsins á hærri vöxtum en hann borgar til eiganda Jöklabréfsins. Til að gera Jöklabréfin að aðlaðandi fjárfestingakosti þarf að bjóða tiltölulega háa ávöxtun, þetta skýrir að hluta til háan vaxtakostnað hér á landi.

 

Hver er raunverulegur tilgangur með útgáfu Jöklabréfa?

Ríkið er að taka erlent lán (t.d. að fjármagna Kárahnjúkavirkjun). Til að sýna jákvæðari skuldastöðu ríkissjóðs, gagnvart útlöndum, tekur ríkissjóður ekki lánið sjálfur heldur “selur” íslenskum banka Jöklabréf. Við sjáum því, að í stað þess að ríkissjóður taki beint lán frá erlendum banka, sem myndi sýna ríkissjóð skulda í erlendri mynt, þá skuldar ríkissjóður nú íslenskum banka sem bókfært er á nafnverði bréfsins, þ.e.a.s. í íslenskum krónum. Íslenskur banki tekur svo sjálft lánið, og er skuldarinn í erlendu myntinni, en ríkissjóður fær útlendu peningana og greiðir afborganir og vexti af láninu. Í staðinn selur íslenski bankinn Jöklabréfið á erlendum verðbréfamarkaði og fær greitt fyrir í íslenskum krónum.

Íslenski bankinn virkar því sem eins konar “cover” fyrir ríkissjóð. Bankinn virðist skulda erlent lán sem ríkissjóður hefur í raun tekið. Ef að allt er með felldu þá á bankinn að una vel við sitt því hann á að geta selt Jöklabréfið fyrir íslenskar krónur sem hann getur svo aftur lánað íslendingum. Bankinn fær þjónustuþóknun fyrir að standa í erlendum lántökum fyrir ríkissjóð og öruggari greiðanda er vart hægt að finna, það er nánast öruggt að íslenski bankinn geti staðið í skilum við að borga af erlenda láninu. Íslenski bankinn fær einnig vaxtamuninn þegar hann endurlánar íslendingum á hærri vöxtum en Jöklabréfið ber.

Þessi snúningur er því að gefa af sér þrefalda vexti. Í fyrsta lagi greiðir ríkissjóður, í gegnum íslenska bankann, vexti af erlenda láninu. Í öðru lagi greiðir íslenski bankinn vexti af Jöklabréfinu til eiganda Jöklabréfsins. Og í þriðja lagi greiða íslenskir lántakendur vexti til íslenska bankans.

 

Er þetta góð leið fyrir þjóðina?

Það eru réttlæt gagnrýnisrök, á þessa aðferð, að mun ódýrara væri fyrir ríkið og þjóðina að ríkið tæki beint lán hjá erlenda bankanum og lánaði síðan sjálft íslendingum krónur. Með því væri algerlega hægt að sneiða hjá því að greiða Jöklabréfaeigandanum vexti sem og mögulegt væri að bjóða íslendingum lægri vexti en ella.

 

Skoðum þetta  með tölum.

Byrjum á að líta á hvernig dæmi með Jöklabréfaútgáfu lítur út:

Segjum að ríkið gefi út Jöklabréf fyrir kr. 1.000.000,-, Jöklabréfið ber 5% vexti og er ríkistryggt til fimm ára.

Sá sem kaupir bréfið fær því kr. 50.000,- á ári í fimm ár og kostnaður við lántökuna er því kr. 250.000,-; þessi kostnaður fellur á íslenska bankann.

Íslenski bankinn tekur lán í erlendri mynt sem samsvarar einni milljón íslenskra króna einnig á 5% vöxtum til fimm ára; kostnaður er kr. 250.000,- sem fellur á ríkissjóð.

Íslenski bankinn endurlánar söluandvirði Jöklabréfsins til íslendinga á 7% vöxtum til fjögurra ára; kostnaður kr. 350.000,- sem fellur á íslenskan almenning.


Vaxtakostnaður ríkisins kr. 250.000,-

Vaxtakostnaður íslenska bankans kr. 250.000,-

Vaxtakostnaður íslensks almennings kr. 350.000,-

Samtals vaxtakostnaður kr. 850.000,-

Samtals vaxtakostnaður greiddur úr landi: 250.000 + 250.000 = kr. 500.000,-

 

Vaxtahagnaður:

Erlendur banki kr. 250.000,-

Íslenskur banki kr. (350.000 – 250.000) 100.000,-

Eigandi Jöklabréfs kr. 250.000,-

Samtals: kr. 600.000,-

 

Fé fengið að láni:  

Ríkið kr. 1.000.000,-

Íslenskur banki kr. 1.000.000,-

Íslenskur almenningur: kr. 1.000.000,-

Samtals: kr. 3.000.000,-

Samtals fé í umferð: kr. 2.000.000,-

 

Hagstætt lánakerfi?

Við sjáum að raunverulega hefur ríkissjóður fengið eina milljón lánaða og almenningur eina. Íslenski bankinn er í raun aðeins miðlari. Að öllum brellum sleppt þá hefur ríkissjóður fengið eina milljón, í erlendri mynt, lánaða hjá erlenda bankanum og almenningur fengið eina milljón lánaða hjá eiganda Jöklabréfsins; innstreymi fjár í hagkerfið er því aðeins tvær milljónir. Eins og sést er vaxtahagnaður nettó 600.000,- hvar af 350.000 lendir á almenningi beint en 250.000 óbeint í gegnum skattkerfið.

Íslenski bankinn græddi kr. 100.000,- en ríkissjóður þarf að greiða kr. 250.000,- og almenningur kr. 350.000,- sem gefur nettó töluna 500.000,- sem er það sem þjóðin greiðir í vaxtakostnað úr landi og það þrátt fyrir að helmingur lánsfjárhæðarinnar, 1.000.000,- sé í innlendum krónum. Kostnaðurinn við að fá tvær milljónir lánaðar, þar af eina íslenska, er því, fyrir þjóðarbúið, kr. 600.000,- hvar af  500.000,- fer úr landi – og það þrátt fyrir að helmingur lánsfjárupphæðarinnar var í íslenskum krónum.

Þetta kerfi er því sannarlega mun hagstæðara fyrir fjármagnseigendur en íslenska þjóðarbúið; í raun er það hannað af fjármagnseigendum, fyrir fjármagnseigendur, og fyrirfinnst víðar en á íslandi og kallast þá ýmsum nöfnum eins og Kengúrubréf og Kívíbréf.

 

Það er því alvarleg spurning hvort nauðsynlegt sé fyrir íslenska þjóð að taka lán með þessum hætti. Er ekki, í raun, hagstæðara fyrir þjóðarbúið að haga lántökum, erlendum sem innlendum með öðrum hætti?

Lítum nú á ef að ríkið tæki beint lán frá erlenda bankanum og lánaði íslendingum beint. Ímyndum okkur að við myndum sleppa því að gefa út Jöklabréf og sleppa miðlaranum, þ.e. hinum íslenska banka, þá liti dæmið svona út.

 

enginjoklabref.gif

 

 

Ríkið fær lánað kr. 1.000.000,- í erlendri mynt á 5% vöxtum til fimm ára og kostnaður er kr. 250.000,-

Ríkið lánar íslenskum almenningi kr. 1.000.000,- á 5% vöxtum til fimm ára, kostnaður kr. 250.000,-

Samtals vaxtakostnaður kr. 500.000,-

 

Vaxtahagnaður:

Erlendur banki: 250.000,-

Ríkið: 250.000 – 250.000 = 0,-

Samtals vaxtahagnaður kr. 250.000,-

Samtals vaxtagreiðslur úr landi kr. 250.000,-

Samtals vaxtakostnaður ríkissjóðs: 250.000 – 250.000 = 0,-

 

Fé fengið að láni

Ríkið kr. 1.000.000,-

Íslenskur almenningur: kr. 1.000.000,-

Samtals: kr. 2.000.000,-

Samtals fé í umferð: kr. 2.000.000,-

 

Er réttlætanlegt að gefa út Jöklabréf?

Við sjáum að með því að sleppa Jöklabréfunum og mr. Foreigner úr dæminu erum við að taka einn vaxtaliðinn út úr dæminu en erum enn með jafnmikið fé að láni eða jafnmikið peningamagn í umferð, veltutalan hefur hins vegar lækkað um eina milljón. Nú er hægt að lána íslenskum almenningi fé á lægri vöxtum þar sem ekki þarf að ávaxta féð til að toppa Jöklabréfaávöxtunarkröfuna. Þar sem íslenska ríkið er eitt fært um að prenta íslenskar krónur og íslenskur almenningur þarf íslenskar krónur til að eiga viðskipti er eðlilegast að íslenska ríkið láni íslenskum almenningi beint og fái þar með vaxtatekjur af þeim peningum. Við erum í raun að láta almenning í landinu greiða vextina fyrir ríkissjóð af erlenda láninu en fáum lánað vaxtalaust sjálf ef lifið er á dæmið út frá þjóðarheildinni.

Það er nefnilega alltaf spurning um hver á peningana. Það sést að í dæminu með Jöklabréfið þá fékk íslenskur banki lánaðar íslenskar krónur til að endurlána íslendingum. Alvanalegra er þó að Seðlabanki Íslands láni viðskiptabönkunum sem síðan endurlána til almennings. Í síðara dæminu var gert ráð fyrir að ríkið lánaði íslenskum almenningi beint sem er eðlileg forsenda þar sem íslenska ríkið á í dag alla helstu viðskiptabanka landsins. Það væri langhagstæðast fyrir almenning og þjóðarbúið að sleppa þeim millilið sem einkabankar eru og láta ríkissjóð hagnast á vaxtatöku fremur en að einkafyrirtæki gerði það. Aftur á móti, ef að dæmið er sett upp með því sniði sem almennt þekkist, þá liti það svipað út nema að Seðlabanki myndi lána viðskiptabönkum t.d. á 1,5% vöxtum sem síðan myndu lána almenningi á t.d. 5% vöxtum. Það sem einkabankakerfið gerir er í raun að taka til sín vaxtahagnað og hækka verð á lánsfé til almennings sem því nemur. Við höfum þá fengið einn auka millilið milli þess sem á peningana og þess sem þarf á þeim að halda -  og auka milliliður þýðir alltaf auka kostnaður.

 

Jöklabréf rányrkja eða eðlileg lánaviðskipti?

Ég vona að ég hafi hér varpað ljósi á það sem ég vil kalla alvarlegustu blekkingu íslandssögunnar og eitt stærsta rán. Í fyrsta lagi var almenningi tjáð að ríkissjóður væri nánast skuldlaus þrátt fyrir gífurlega sölu Jöklabréfa á sama tíma. Sala á Jöklabréfum er ekkert annað en lántaka og lán = skuld.

Í öðru lagi er Jöklabréfakerfið, eins og ég hef sýnt fram á, gífurlega dýrt og óhagstætt fyrir þjóðarbúið og skapar mikinn óþarfa vaxtakostnað. Það er eins og kerfið sé beinlínis hannað til þess að skapa sem mestan vaxtakostnað fyrir íslendinga og þar með mestan vaxtahagnað, sérstaklega fyrir erlenda fjármagnseigendur. Við sjáum að í dæminu með Jöklabréfinu er vaxtakostnaður við að fá lánaðar tvær milljónir, hvar af önnur er íslensk, 850.000 krónur, þar sem 500.000 fara úr landi. Hreinn vaxtahagnaðurinn er 600.000 krónur.

Í dæminu án Jöklabréfs og án miðlarans er vaxtakostnaður við sama fjármagnsinnstreymi einungis 500.000 krónur og einungis 250.000 fara úr landi sem er vaxtahagnaðurinn í því tilfelli.

Ef að við lítum á dæmið út frá fjármagnseigendunum og berum saman annars vegar að láta tvær milljónir gefa af sér 600.000, og svo hins vegar að láta þessar sömu tvær milljónir gefa af sér 250.000, þá er dæmið einfalt; auðvitað er valin leiðin sem gefur af sér 240% meiri ávöxtun. Það er svo auðvelt að fá eigendur hinna íslensku einkabanka til að hoppa á vagninn, þar sem þeir fá bita af kökunni, eða 17%, fyrir það eitt að vera miðlarar; þeir þurfa ekki að leggja til neitt fé og taka nánast enga áhættu.

Við getum nú velt því fyrir okkur hver ræður þegar kemur að stjórnun íslenskra hagmála. Með hag hverra fyrir brjósti var ákveðið að bjóða Jöklabréf? Er það hagstætt íslensku þjóðarbúi að fara slíka leið? Hver ákvað að fara út í það að gefa út Jöklabréf?

 

Heimildir: vísindavefurinn, seðlabanki íslands, fjármálaráðuneytið, hagstofa íslands.

 

 

 

 

 


Úrlausn heimila með erlend lán


 

Nú finnur margur íslendingurinn sig í þeirri stöðu að hafa tekið erlent lán vegna hinna ofurháu vaxta sem krafist var hér. Það gerði einnig margur í þeirri trú að gengi íslensku krónunnar myndi haldast nokkurn veginn stöðugt. Það hefur nú gerst að íslenska krónan hefur gjaldfallið gríðarlega síðastliðið ár (danska krónan t.d. um 70% dýrari nú en fyrir ári síðan).

Mörg heimili í landinu geta ekki lengur staðið í skilum og menn krefjast eðlilega úrbóta. Mönnum þykir það réttlætismál að fá að halda í húsnæði sitt og krefjast þess að fá að greiða nokkurn veginn það sem þeir tóku að láni. Rétt er það að menn tóku nokkra áhættu með því að taka erlent lán en enginn gat séð fyrir það verðfall sem orðið hefur á krónunni og verður að taka það sem gild rök að ekki sé hægt að krefjast þess að menn standi í skilum þegar slíkt hrun hefur orðið. Það verður því að bregðast við þessu ástandi ef að ekki eiga að verða hér fjöldagjaldþrot. En hvað ber að gera?

 

Kryfjum vandamálið fyrst niður.

Setjum upp tilbúið dæmi. Jón Jónsson tók tvö hundruð þúsund Evrur að láni fyrir ári sem þá kostaði 114 íslenskar krónur stykkið. Jón fékk sem sagt 22,8 milljónir íslenskar og gat vel borgað af því láni sem var um 150 þúsund íslenskar eða 1.300 Evrur. Nú er Evran orðin dýrari, eða íslenska krónan verðminni sem munar 70% þannig að Jón þarf nú að borga 255 þúsund kall fyrir þessar sömu 1.300 Evrur og það ræður Jón einfaldlega ekki við. Við sjáum að Jón á í raun enn að borga þessar sömu 1.300 Evrur sem hann samdi um að borga, vandamálið liggur í því að hann þarf að borga svo miklu fleiri íslenskar krónur fyrir þessar Evrur í dag en þegar hann tók lánið.

Nú fær Jón laun í íslenskum krónum og laun hans hafa ekki hækkað um 70% eins og mánaðarleg afborgun hans í íslenskum krónum reiknað. Jón er því í vanda.

Lítum nú aðeins til þess sem Jón vinnur við. Jón vinnur við frumframleiðslu, hann er handflakari hjá fyrirtæki sem selur fisk á Spánarmarkað. Þetta fyriræki fær greitt fyrir afurðir, sem Jón á þátt í að skapa, í Evrum. Nú myndi einhverjir segja: Er þá ekki málið að greiða bara Jóni hluta launa sinna í Evrum og þar með getur Jón staðið í skilum? Jú, það er einmitt málið sem ég ætla að leggja hér til. Það gengur ekki reyndar alveg að greiða Jóni persónulega í Evrum (svolítið flókið mál, en það hefur að gera með kjarasamninga og fleira). Það er hins vegar hægt að fara aðra leið, í raun óbeina leið að þessu. Það gerum við í gegnum ríkið.

Hugsum okkur nú Ísland sem eina heild. Ísland fær Evrur fyrir fisk og Ísland þarf að greiða Evrur af lánum sem það hefur tekið í Evrum. Það skiptir í rauninni ekki máli hvort íslenska krónan er að rokka upp og niður ef að Ísland er ekki að skipta þeim Evrum sem það fær fyrir fiskinn í íslenskar krónur, við getum einfaldlega litið algerlega fram hjá krónunni. Þetta getur Ísland sem heild vel gert en Jón sem einstaklingur ekki. Þess vegna er lausnin fyrir Jón okkar að hann skipti á sínu láni við íslenska ríkið. Hann íslenskar einfaldlega sitt lán á þeim kjörum sem hann tók það, þ.e.a.s. skuldar nú íslenska ríkinu 22,8 milljónir og greiðir þar af leiðandi af þeim sínar 150 þúsund krónur sem var það sem hann ræður við að borga og gekkst að á sínum tíma. Íslenska ríkið tekur á sig skuld Jóns upp á 200 þúsund Evrur og fær í staðinn skuldaviðurkenningu frá Jóni upp á 22,8 milljónir íslenskar. Íslenska ríkið tapar engu þar sem það skuldar nú upphaflega lán Jóns sem hljóðaði upp á 200 þúsund Evrur og getur borgað það með Evrum sem það fær fyrir að selja fisk fyrir Evrur en fær á móti greitt í íslenskum krónum frá Jóni sem það getur notað til að greiða einhvern innlendan kostnað t.d. í heilbrigðiskerfið.

 

Við sjáum á þessu dæmi að lausnin á vandamáli Jóns og annarra sem tekið hafa erlent lán felst í því að íslenska ríkið taki yfir lán hans og borgi í erlendri mynt án þess að vera að blanda íslenskri krónu inn í dæmið, en Jón fær hins vegar að borga ríkinu með sínu íslenska kaupi og íslensku krónum. Það er því aðalatriði að íslenska ríkið taki við öllum erlendum skuldbindingum einstaklinga í landinu og geri einstaklingunum kleift að greiða sín lán með íslenskum krónum. Erlendu lánin verða síðan greidd upp með erlendum tekjum ríkisins en allar erlendar skuldir íslenskra heimila eru nú um 156 milljarðar. Á móti voru heildarútflutningsverðmæti árið 2007 447 milljarðar. Halli var á viðskiptum við útlönd sem skýrist af háu gengi, erlendum lántökum og erlendum fjárfestingum, allt sem hefur nú snarbreyst. Nýjustu tölur sýna jákvæðan halla á viðskiptum við útlönd þannig að svigrúm er til að greiða þessar erlendu skuldir. Þetta lítur svo enn betur út þegar tekið er tillit til þess að innflutningstalan lækkar hratt og viðskiptajöfnuðurinn stóreykst þegar íslenskir fjárglæframenn geta ekki lengur verið á fjárfestingarfyllerí í útlöndum eins og þeir hafa verið að gera. Sömuleiðis eykst útflutningurinn hratt þegar krónan lækkar í verði; gera má ráð fyrir að verulegur plús verði á viðskiptum við útlönd á þessu og komandi árum.

Þegar dæmið er sett svona upp sést að hið, fljótt á litið, óyfirstíganlega vandamál er hreint ekki svo ef að tekið er á þessu út frá heildinni. Þetta er einnig mikið sanngirnisatriði þar sem verfall krónunnar er á ábyrgð ríkisins en ekki einstaklingsins og ber því að leysa það vandamál sem verðfallið skapar út frá ríkisbúskapnum en ekki láta einstaklingin um að leysa það.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband