Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Embættismannahrokinn og afneytunin - Ég er saklaus af öllu sem ég hef gert.

Enn einn embættismaðurinn reynir á aumkunarverðan hátt að verja æruna og gerir sjálfan sig að fórnarlambi, þegar í hámæli berast embættisafglöp og gjörðir sem fara beinlínis gegn vilja atvinnuveitandans. 

Mig rak í rogastans þegar ég las yfirlýsingu embættismannsins og verð að vitna hérna beint í hana:

"Undarfarið ár hef ég varið þorra tíma míns í að reyna að draga úr þeim áföllum sem riðið hafa yfir íslenskt þjóðarbú. Þar má meðal annars nefna að ég er einn af stofnendum InDefence hópsins sem með þrotlausri vinnu tókst að koma í veg fyrir samþykkt eins versta samnings sem til stóð að undirrita af Íslands hálfu."

Takið eftir því að maðurinn heldur virkilega að HANN hafi ásamt Indefence hópnum komið í veg fyrir versta samning sem til stóð að undirrita af Íslands hálfu. Hallelúja og Guði sé lof og dýrð fyrir Magnús og hans ósérhlífnu félaga - annars hefðum við nú aldeilis setið í súpunni - ekki satt?

Ef að maðurinn hefur ekkert gert rangt og varið tíma sýnum í að redda þjóðinni - af hverju er hann þá að segja af sér?


mbl.is Fer fram á lausn frá störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Embættismenn hafa þvegið hendur sínar frá dögum Pontíusar og gera enn.

Það voru aðallega ein rök sem ég gat séð fyrir því að einkavæða opinber fyrirtæki en það voru embættismennirnir. Vegna þess að þegar stofnanir voru einkavæddar þurftu þeir aðilar, hverra störf voru einkavædd, að svara fyrir gjörðir sínar en gátu ekki endalaust komist upp með klúður og aðgerðaleysi. Því miður munu líklega alltaf vera til embættismenn í okkar lýðræðislega kerfi.birt án leyfis

Það verður seint fundin lausn á þeim stóra veikleika á opinberum rekstri sem embættismannakerfið er. Það voru gerðir vinsælir þættir, og sýndir hér á landi, er báru heitið “Já ráðherra” sem lýsa því vel hversu mikill agnúi á lýðræðinu embættismannakerfið er. Sömuleiðis er það frægt hvernig George Lucas fjallaði um embættismannakerfið í Stjörnustríðsmyndunum sínum.

Það var talað um lýðræðisúrbætur í tengslum við bankahrunið og ég slengdi því fram hér á þessu bloggi, að eðlilegast væri að kjósa lykil-embættismenn rétt eins og aðra fulltrúa fjöldans, t.d. lögreglustjóra, dómara og forstjóra opinberra fyrirtækja.

Vandamálið er að embættismenn þurfa oftast ekki að svara fyrir verk sín. Allavega þurfa þeir, í flestum tilfellum, aðeins að svara öðrum embættismönnum fyrir verk sín. Hafi mistök átt sér stað, jafnvel vítaverð, þá sér samtryggingakerfi embættismannanna um að menn haldi þó vinnunni og, í verstu tilfellunum, hylmir það yfir.

Það sem þó er alvarlegast er þegar embættismennirnir hefta, eða fara beinlínis gegn lýðræðinu. Við sáum þetta í bankahruninu, og þá aðallega hjá Fjármálaeftirlitinu. Þeir aðilar erlendir (ég treysti erlendum aðilum betur en innlendum hvað þetta varðar) sem hafa tjáð sig um íslenska bankahrunið, benda á að eftirlitskerfið íslenska, sem og reyndar breska og hollenska, brugðust algerlega (sjá t.d. greinar í the Financial Times). Það er þetta með að gefa út leyfi fyrir bankaþjónustu einungis þeim aðilum sem standa traustum fótum og hafa heilbrigðan (e. sound) rekstur. Þannig hefur það nú komið í ljós að Landsbanki Íslands hf. var í verulegum fjárhagsvandræðum og stofnaði til Icesave sparnaðarreikninganna til þess eins að redda tímabundið sjálfum sér úr gífurlegum lausafjárvandræðum. Það hefur svo einnig komið á daginn – og haldið ykkur nú fast – að embættismenn fjármálaeftirlita allra landanna, en sérstaklega Íslands, höfðu fullar heimildir til að koma í veg fyrir að Landsbanki Íslands hf. stofnaði til Icesave ævintýrsins.

Það er þetta atriði – að láta embættismanninum það eftir að túlka – sem er hinn mikli veikleiki í okkar lýðræðislega kerfi. Í Icesave dæminu, sem og í flestum dæmum öðrum, reynast einstakir embættismenn veikir á svellinu þegar kemur að því að standa frammi fyrir því að hindra vilja stórra fyrirtækja eða auðugra einstaklinga.

Margir hafa ýjað að mútum og bent á laxveiðiferðir, jólagjafir og utanlandsferðir. Sömuleiðis hefur verið á það bent að bankarnir réðu einfaldlega reynslumestu embættismennina til sín; einstaklinga sem höfðu eftir sem áður veruleg persónuleg ítök í embættismannakerfinu.

Það er svo annar agnúi á embættismannakerfinu, en það er að snúa teknum ákvörðunum. Það er við hinn mannlega þátt að eiga, þegar embættismaðurinn loks hefur tekið ákvörðun. Segjum að einhver, sem hafði vott af heilbrigðri skynsemi, hafi bent þeim aðila, sem ákvörðunina tók í Fjármálaeftirlitinu, á að Landsbanki Íslands hf. hafi ekki verið traustur og þar með ekki átt að fá leyfi til að opna útibú í Englandi og Hollandi. Það er, nánast óhugsandi, að ákvörðuninni hefði verið snúið vegna þess að þar með hefði viðkomandi embættismaður verið að viðurkenna mistök sín og benda á eigið vanhæfi. Hér kemur upp dæmigerður hanaslagur, ef að gagnrýnin kemur innanbúðar, eða kokhreysti ef að gagnrýnin kemur utanfrá. Aðalatriðið er að embættismaðurinn stendur við sína ákvörðun, einungis vegna þess að hann tók hana og að víkja frá henni er að viðurkenna mistök – eitthvað sem mannskepnunni reynist afar erfitt, sérstaklega opinberlega.

Ákvörðun þarf að taka og, hvað sem á undan er gengið, þá hefur embættismaðurinn tekið sína ákvörðun og stendur við hana. Skítt með alla gagnrýni, ákvörðunin stendur, hann hefur VALDIÐ.

Til að koma í veg fyrir að vondar ákvarðanir séu teknar af embættismannakerfinu hefur almenningur (löggjafinn) reynt að setja áfríunarreglur. Vandamálið við það er, enn og aftur, samtryggingarkerfi embættismannsins; í þetta sinn heitir það sérfræðiþekking. Í tilfelli Fjármáleftirlitsins og Icesave útibúa Landsbankans er þetta augljóst. Hvað veit almenningur, jafnvel kjörnir fulltrúar, um það hvort Landsbankinn er “sound” eður ei? Almenningur, og kjörnir fulltrúar, gátu meira að segja ekki kynnt sér það til hlítar vegna bankaleyndar.

Þetta er grafalvarlegt mál og ætti að vera áhyggjuefni hverjum einstaklingi með réttlætistilfinningu og lýðræðishugsjónir. Ég vil hvetja menn, nú þegar embættismannakerfið, ekki síst, hefur leikið íslenska þjóð svo grátt til að gleyma ekki þeim lýðræðisúrbótum sem lofað var. Gleymum ekki stjórnlagaþingi og látum ekki bleyður slá persónukjör og aðrar lýðsræðisúrbætur út af borðinu.

Síðast en ekki síst – það þarf að láta embættismenn bera ábyrgð á embættisfærslum sínum. Þar eiga menn ekki að vera stikk-frí.

Verum vakandi yfir því, almenningur, að kosningar eru okkar eina tæki til að láta embættismenn svara fyrir embættisgjörðir sínar og bera ábyrgð og, að mörgu leiti er stutt á milli embættismannsins og hins kjörna fulltrúa.

     


Íslenska Efnahagsundrið

Smá upprifjun með hugmyndafræðingi íslenska frjálshyggjumódelsins Hannesi H. Gissurarsyni.

Nú geta menn litið þennan "fræðimann" hlutlægum augum. Rétt er þó að menn átti sig á því að þessi maður er langt frá því einsdæmi. Það er fremur regla en undantekning að þessir "álitsgjafar" og "sérfræðingar" eru ekkert vitrari en við öll hin.

Þetta er allt saman hluti af sirkusnum um það að hafa áhrif á almenningsálitið.

Þetta er holl og góð upprifjun og áminning um það að fylgja ekki eftir eins og hugsunarlaus sauður hverju sem þessir svokölluðu ráðamenn vilja.

Það er alveg sérstaklega grátbroslegt þegar prófessorinn segir " Hugsið ykkur hvað það væri frábært ef að við héldum svo áfram; ef að við gæfum í!" 

Ja, hugsið ykkur ef að við hefðum fleiri Icesave reikninga að borga ;)


Og svo kom blessuð kreppan – eða hvað?

bonus.jpg

 

Það er alls ekki allt slæmt við það að kreppan knúði dyra hér á okkar litla landi, það finnst mér alla vega. Þetta var nú komið út í algerar öfgar. Lúxusbílar hér fleiri en samanlagt í Noregi og Danmörku. Fleiri bílar, einkaþotur, húsnæðisfermetrar hér á haus en í nokkru landi öðru. Já þetta var komið út í fáránlegar öfgar og það hlaut að koma að því að þetta myndi allt saman hrynja, kannski sem betur fer.

Íslendingar fengust ekki til að vinna þessa venjulegu líkamlegu vinnu og fáir unnu samkvæmt umsömdum launatöxtum; til þess voru fengnir Pólverjar og aðrir útlendingar. Þetta var svo öfgakennt og gerðist svo hratt að ég, sem búið hafði erlendis um skeið, rak bókstaflega í rogastans er ég kom aftur heim á skerið. Maður fékk ekki afgreiðslu á íslensu í matvöruverslun, heldur þurfti að bregða fyrir sig ensku og fékk til baka svör á einhverju sem, einungis með góðum vilja, var hægt að kenna við enska tungu; Pólverjar fengu, aftur á móti, afgreiðslu á sínu móðurmáli í Bónus, Hagkaup og Krónunni.

Sagt var að Íslendingar fegnust ekki í þessi láglaunastörf. Gott og vel en svo kom blessuð kreppan og þá ...

Ég var í matvöruversluninni í dag og lenti að sjálfsögðu á kassanum hjá starfsmanni í þjálfun. Ég leit á næsta kassa, í þeirri von um að komast hjá því að eyða hálftíma í röðinni vegna eðlilegs hægagangs nýliðans en þar var einnig starfsmaður í þjálfun. Maður brynjaði sig því bara þolinmæðinni, það þarf jú að þjálfa upp starfsfólk.

Þegar ég bjó í Danmörku var talsverð umræða um nýbúa og aðlöðun þeirra í dansk samfélag. Dönum þykir það algert skilyrði að þeir sem ætli sér að setjast að í Danmörku tali dönsku. Þar þýðir t.d. ekki að ræða það að fá atvinnu sem snýr að því að þjónusta viðskiptavini nema viðkomandi hafi sæmilegt vald á danskri tungu. Svakalega finnst mér skrýtið að þetta sé ekki viðmiðið hér á landi einnig. Þessir starfsmenn í þjálfun sem ég sá á kassanum í stórmarkaðnum í dag töluðu ekki íslensku. Í öllu þessu atvinnuleysi sem hér á landi ríkir í dag, á þá að segja mér að ekki hafi verið hægt að ráða fólk sem kann að tjá sig skammlaust á íslensku; geti t.d. svarað því hvort til sé skinka frá Goða? Furðulegt.

 

Já, fyrirgefur. Ég ekki skilja íslenskur. Talar ensku?

 

 


Eiga embættismenn ekki að vera ábyrgir gjörða sinna?

Það þarf að skipta um áherslur í miðborginni.

Það þarf að skilgreina upp á nýtt þetta svo kallaða miðborgarsvæði. Embættismenn segja mér að sérstakar reglur gildi um miðborgarsvæði. Þar megi, til að mynda, reka vínveitingastaði. Þegar ég bendi á að miðborgin er fyrst og fremst íbúðarsvæði er fátt um svör. Mest öll verslun er farin úr miðborginni sem og flestar skrifstofur og önnur fyrirtæki. Það sem eftir er í miðborginni eru veitingastaðir og hótel. En miðborgin er fyrst og fremst, og hefur alltaf verið, íbúabyggð. Ekkert tillit var tekið til þeirra íbúa sem á svæðinu búa þegar ákveðið var að gera svæðið að sérstöku vínveitingasvæði. Gífurleg, nánast óheft, fjölgun hefur verið á vínveitingastöðum í miðborginni undanfarinn áratug, en löggæsla hefur engan veginn verið efld til mótvægis. Niðurstaðan er sú að lögreglusamþykktir Reykjavíkurborgar eru margbrotnar um hverja einustu helgi í miðborginni. Íbúar þurfa að þola hávaða, mannaþvag, slagsmál, glerbrot, ælur og eignaspjöll látlaust. Viðbrögð lögreglu eru nánast alltaf þau sömu, þegar íbúar kalla hana til vegna ástandsins; lögregla kemur seint á staðinn, ef hún þá kemur, og ber við manneklu og annríki.

Það þarf, og það á, að taka tillit til íbúa svæðisins, það er sanngirnisatriði. Ekki er eðlilegt að taka eitt hverfi út og setja alla þá hávaðamengandi og skemmandi atvinnustarfsemi, sem rekstur vínveitingahúsa er, í það, einungis af því að einhverjir einstaklingar í borgarkerfinu hafi ákveðið að það hverfi heiti miðborgarhverfi og um það gildi sérstakar reglur. Hvers vegna má bjóða íbúum þessa hverfis hávaðamengun og yfirgang sem öðrum íbúum er hlíft við? Þetta er gróf mismunun. Við skulum átta okkur á því að það er ekki lengur verið að tala um eðlilegt ástand. Þetta kaos, er orðið þekkt út um allan heim og menn furða sig á hvers vegna í ósköpunum þetta viðgangist. Geðveikin í miðbænum er, fyrir mörgum útlendingum, staðbundin lýsing á þeirri geðveiki sem átti sér stað í tengslum við hina svokölluðu útrás og bankasukkið. Þetta gengur ekki lengur og það þarf að breyta þessu ástandi.

Ég legg því til að rekstur vínveitingastaða megi ekki vara lengur en til miðnættis, nema í iðnaðarhverfum og því hverfi sem afmarkast af: Lækjargötu – Vonarstræti – Aðalstræti og gömlu höfninni (ég kalla það Kvosarsvæðið sjá kort).

skemmtista_asvae_i_906476.jpg

 Ástæðan fyrir því að ég legg til að á Kvosarsvæðinu megi reka vínveitingastaði lengur en til miðnættis, er sú að á þessu svæði er nánast engin íbúabyggð. Það svæði sem í dag býður upp á rekstur vínveitingastaða í miðborginni er að stórum hluta til fyrst og fremst íbúðabyggð.

Það eru líka önnur rök fyrir því að einskorða þá vínveitingastaði sem hafa opið fram eftir nóttu við Kvosarsvæðið, en það er að betra verður með alla löggæslu. Þar sem drukknir einstaklingar óneytanlega fylgja starfsemi vínveitingahúsa, sem opin eru langt fram eftir nóttu, og einstaklingar í þannig ástandi eru dómgreindarskertir, truflandi og jafnvel ógnandi, þá verður að auðvelda lögregluyfirvöldum að hafa eftirlit með slíkum og tryggja að slíkir aðilar haldi sig innan ramma laga og reglna sem hér á landi gilda.

Jafnframt væri unnið að því að beina starfsemi vínveitingahúsa, sérstaklega starfsemi næturklúbba, í iðnaðarhverfi borgarinnar, þar sem truflun af starfsemi þeirra væri í lágmarki.

Á þennan hátt væri hægt að sætta sjónarmið og hagsmuni beggja aðila, þ.e.a.s. íbúa miðborgarinnar og þeirra sem reka aðra starfsemi en vínveitingar annars vegar, og þeirra sem hafa hagsmuni af rekstri vínveitingahúsa hins vegar. Starfsemi vínveitingahúsanna, þyrfti ekki að hverfa algerlega úr miðbænum en íbúar myndu losna við þá truflun, sem óneytanlega fylgir rekstri vínveitingastaða langt fram eftir nóttu, úr sínu nánasta umhverfi. Við hefðum staði, eins og matsölustaði rétt eins og áður dreifða um miðbæinn. Við myndum halda í kaffihúsin og notalegu barina sem loka á skikkanlegum tíma. Þeir staðir sem vilja bjóða þjónustu alla nóttina myndu þurfa að færa sig í Kvosarreitinn eða í iðnaðarhverfin.Þannig gætu veitngamenn haldið áfram að reyna að græða, fólk áfram skemmts sér fram eftir nóttu í miðbænum og íbúar fengið eðlilegan frið á nóttunni.

Sá sem ferðast hefur til stórborga Evrópu og BNA mun vitna að álíka stefna, og hér er lögð til, tíðkast alls staðar. Hvergi, í siðuðum borgum, er miðborginni boðið upp á þvílíka nauðgun og miðborg Reykjavíkur er boðið upp á um hverja einustu helgi. Víðast, t.d. í London, Kaupmannahöfn og París, loka megnið af vínveitingastöðum á miðnætti. Vilji menn áfram fá vínveitingar þurfa menn að færa sig út fyrir miðborgina – því í miðborgunum býr fólk! Miðborgir eru víðast hvar eftirsóknaverðar til búsetu, nema ef vera skyldi hér í Reykjavík og þá vegna þess geðveikisástands sem myndast um helgar.

Mig langar að vitna hérna beint í Markmið Þróunaráætlunar miðborgarinnar sem kjörnir fulltrúar hafa samþykkt fyrir hönd borgarbúa. Mig langar að sýna ykkur að kjörnir fulltrúar borgarbúa hafa ályktað gegn því ástandi sem skapast hefur í miðborginni. Ég mun svo í seinni pistlum sýna ykkur fram á að embættismenn skipulagsmála hjá Reykjavíkurborg fari hreint og beint gegn samþykktum og leiðbeiningum kjörinna fulltrúa Reykjavíkur.

 

“Markmið Þróunaráætlunar miðborgar lúta að þremur þáttum:

Efnahagslegum vexti og uppbyggingu

- íbúðar-, atvinnu- og verslunarhúsnæðis,

- reksturs, fjárfestinga og atvinnusköpunar.

Lífsgæðum

- tryggja aðstæður fyrir smásöluverslun og þjónustu,

- bæta aðstöðu til tómstunda og útivistar,

- bæta aðgengi,

- stuðla að aðlaðandi íbúðasvæðum,

- tryggja örugga og aðlaðandi miðborg.

Bættu umhverfi sem felur í sér

- verndun og endurbætur á sögulegum byggingum og minjum,

- styrkingu almenningssvæða,

- að draga fram jákvæða sérstöðu miðborgarinnar.

 

Lítum aðeins á þessi markmið þróunaráætlunar miðborgarinnar. Það er ég sem hef feitletrað í textanum, til að draga fram það sem orkar verulega tvímælis að mínu mati, þegar kemur að framkvæmd þessara markmiða.

Byrjum á vexti og uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í miðborginni. Eins og mál hafa þróast með tilliti til offjölgunar vínveitingastaða þá virkar það fælandi á íbúaþróun miðborgarinnar. Sem dæmi þá get ég nefnt að þegar við íbúar á svæðinu kvörtum til lögreglu t.d. vegna eignarspjalla á grindverkum, þá er viðkvæðið oft: Af hverju býrðu þá í miðbænum? Þetta viðkvæði lýsir almennri afstöðu manna til búsetu í miðbænum. Þeir sem þar kjósa að búa, megi búast við því að frekar sé gengið á eigur þeirra og friðhelgi en íbúum annarra hverfa. Ég fullyrði að þetta var ekki viðkvæðið fyrir tuttugu árum eða svo; áður en fór að bera á offjölgun vínveitingastaða í miðborginni. Augljóslega fer það því ekki saman, fjölgun vínveitingastaða og uppbygging íbúðahúsnæðis. Framkvæmdin er í mótsögn við markmiðin sem sett eru af kjörnum fulltrúum borgarinnar.

Það er minnst á lífsgæði. Það er augljóslega túlkunum háð hvað falli undir lífsgæði, en ég fullyrði að öskrandi fyllibyttur, mígandi í dyragættir og ælandi í garða miðbæjarins eykur ekki lífsgæði þeirra sem í miðbænum búa – þvert á móti.

Að bæta aðstöðu til útivistar og tómstunda. Það er ekki verið að bæta aðstöðu til útivistar barnanna okkar sem hér búum með þeirri stefnu í vínveitingamálum sem keyrð hefur verið. Hver sem fer niður í bæ snemma morguns um helgar getur sannfærst um það; rusl og glerbrot út um allt, ælur og hlandpollar hvívetna og slagandi eftirlegukindur leynast víða.

Það er sama hvar komið er niður í þessum markmiðum... stuðla að aðlaðandi íbúðarsvæðum?!? Bíðið við, hefur einhver embættismaðurinn, sem hefur með það að gera að framfylgja þessum markmiðum, hætt sér niður í miðbæinn nýlega? Er einhver til þarna úti sem er svo gerilsneyddur öllu raunsæi að hann getur haldið því fram að það fari samfara, vírusvöxtur vínveitingastaða í miðborginni, og aðlaðandi íbúðarsvæði????

Þetta finnst mér nú samt allra best: Að draga fram jákvæða sérstöðu miðborgarinnar. Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Það eru flestir sammála um að það eina sem embættismönnum skipulagsmála hjá Reykjavíkurborg hefur tekist er að draga fram neikvæða sérstöðu borgarinnar.

 

Það er augljóst hverjum manni, með heilbrigða skynsemi, að eitthvað þarf að gera. Það sem er sorglegast í því sambandi er að flestir eru algerlega sammála um að ástandið í miðborginni um helgar er gersamlega farið úr böndunum. Allt of margir vínveitingastaðir eru samþjappaðir í miðborginni en ekkert er gert í málinu. Alger óstjórn er varðandi fjölgun vínveitingahúsa í miðbænum. Það er sama hvar borið er niður, við hverja er talað: íbúa miðborgarinnar, íbúa annarra hverfa, íbúa annarra bæjarfélaga, lögreglu, starfsmenn borgarinnar, eigendur og starfsmenn annarrar atvinnustarfsemi en vínveitingahúsa, allir eru sammála um að þetta sé komið út í algerar öfgar – en ekkert er gert? Það virðist einungis vera tekið tillit til þeirra sem vilja græða á því að selja ofurdrukknum viðskiptavinum áfegni alla liðlanga nóttina; starfsemi sem er í hæsta máta hæpin og, svo vitnað sé í fræga Hollywood mynd, – síðasta löglega dópsalan í heimi. Það er því sorglegra, en orð fá almennilega lýst, að meirihluti borgarbúa er búinn að fá sig fullsaddan á þessu ógnarástandi. Vill ekki þessa stöðugu fjölgun vínveitingahúsa en samt heldur ástandið áfram að versna.

Nei, segi ég, og ég er ekki einn um það. Nú eru kosningar framundan og við verðum að taka höndum saman og fæla burtu þau fúlmenni sem hér hafa verið við völd í borgarskipulaginu. Við lítum yfir borgarmyndina og sjáum sviðna jörð: Skuggahverfi, Borgartún, Laugaveg, Gömlu höfnina, Slippsvæðið og svo mætti áfram telja. Nú á að rífa NASA og eyðileggja Ingólfstorg, til að koma til móts við verktaka en fara á móti borgarbúum.

Það verður að moka út skítnum í borgarskipulaginu. Þeir aðilar sem þar hafa komið sér fyrir mega ekki fela sig þar lengur á bak við skrifborð og eigin túlkanir. Á embættismannaafglöpum verður líka að bera ábyrgð. Nóg er um að embættismannaafglöp fjármálaeftirlits og annarra opinberra stofnanna hafi kostað íslenskt samfélag milljarða. Við sitjum nú uppi með misheppnað borgarskipulag og stríðsástand í miðborginni og hverfandi verslun þar. Allt virðist gert í mótstöðu við gildandi, yfirlýst markmið kjörinna fulltrúa. Ekkert hefur heppnast hjá þessu vesældarfólki sem sett hefur sig í hásæti og ákveðið fyrir okkur hin hvernig borgin á að vera og líta út. Það þarf að lofta til, því nályktin er kæfandi.


Göngugötu í Reykjavík - gerum það að kosningamáli

Ég get svarið það, þvílík hræsni!gongugata.jpg

Nú líður að kosningum til sveitar- og borgarstjórnar og ÞÁ er ákveðið að loka Laugaveginum fyrir bílaumferð, eins og gert var í dag. Já ekkert hefur borið á þessu, sem þó var alltaf sett fram sem möguleiki – að gera Laugaveginn að göngugötu á laugardögum; þegar einn vetur er til kosninga, ÞÁ fyrst er það gert. Það síður í mér vegna þessa gengdarlausa hroka; djöfulsins borgarstjórnarhræður!

Ég er búinn að vera með gangandi spurningu hér á blogginu í rúmlega hálft ár, um það hvort gera eigi Laugaveginn að göngugötu. Alveg frá upphafi hefur hlutfallið verið nokkurn veginn það sama – 62% vilja gera Laugaveginn að göngugötu á meðan 38% vilja það ekki, 467 hafa svarað. Það er nákvæmlega sama tilfinningin sem ég hef þegar ég tala við fólk úti á götu, mikill meirihluti vill gera Laugaveginn að göngugötu.

Niðurstaða skoðanakönnunarinnar við spurningunni: "Á að gera Laugaveginn að göngugötu", er:

já 61% eða 288 atkvæði

nei 38% eða 179 atkvæði

Fólk skilur ekki að Reykjavík, ein höfuðborga í Evrópu, skuli ekki eiga bíllaust svæði þar sem fólk geti verslað, spókað sig, hist, drukkið kaffi og notið sín, eins og fyrirfinnst í öllum öðrum löndum Evrópu.

Það var yndislegt að sjá hvað fólk naut sín án þess að þurfa að troðast á mjóum gangstéttum innan um háværar, mengandi bíldruslur.

gongugata2.jpgEins og sést myndunum sem ég tók þá er virkilega þörf á því að fólk fái pláss til þess að athafna sig við Laugaveginn. Þið sem viljið veg verslunarinnar sem mestan við Laugaveginn skuluð einnig átta ykkur á því að fólk hópast í miðbæinn og gengur þar um þegar tækifæri er til þess. Það er fáránleg mýta og bull að halda því fram að fólk fari ekki í miðbæinn nema það geti lagt bíl sínum fyrir framan þá verslun sem það ætlar í.Við sjáum einnig á síðustu myndinni hvernig þar fólk er að troðast innan um bíldruslurnar og þar sést einnig vel, finnst mér allavega, hversu bílar og gangandi vegfarendur eigi akkúrat enga samleið.

 

Meirihluti borgarbúa vill gera Laugaveginn að göngugötu en það er bara ekki hlustað eftir því sem meirihlutinn vill og því skulum við breyta borgarbúar. Þetta borgarstjórnarlið sem hefur hagað sér eins og fábjánar á þessu kjörtímabili er komið í kosningabuxurnar. Það var hlægilegt að heyra Kjartan Magnússon borgarfulltrúa þvaðra um það að ekki ætti að fara að tala um lýðræðislegar ákvarðanir á kosningaári!!! það myndi dreifa umræðunni frá því sem skipti máli.

bilagata.jpg

Munið, kæru Reykvíkingar, hvernig borgarstjórnarfulltrúarnir fóru með það vald sem þeim var veitt og hvernig framapot og hrossakaupmennska, einungis til að halda persónulegnum völdum, hefur verið dagskipunin á þessu kjörtímabili. Gleymum ekki því. Hvað hafa fulltrúarnir og embættismennirnir gert fyrir okkur? Horfið á Laugaveginn, horfið á miðbæinn. Er búið að byggja þar sem brann á horni Austurstrætis og Lækjargötu? Eftir að hafa eytt hálfum milljarði í að kaupa húsin á Laugavegi 2 til 4 hefur ekkert gerst, þar er enn slegið fyrir glugga og engin hreyfing. Það er búið að loka Sirkus en þar gerist ekkert enn, autt húsnæði - hvað lá á að loka Sirkus? 

Miðbærinn er í molum eftir vanhæfa borgarstjórn og ónýta embættismenn - það þarf að taka verulega til í borginni okkar.


Sumum lögum þarf að fylgja, önnur má brjóta - eða hvað?

Við lifum á viðsjárverðum tímum. Menn kvarta opinberlega yfir því að ekki sé farið að lögum í íslensku samfélagi í dag og að Siðrof hafi orðið. Það er nefnt að verið sé að rjúfa bankaleynd og eyðileggja eigur svokallaðra útrásarvíkinga. Samfélagið er að leysast upp og þetta er alvarlegra en fólk almennt er að gera sér grein fyrir.

Ég vil að menn átti sig á alvarleika þessa. Lög, reglur og samþykktir halda samfélögum saman. Við setjum lög einungis vegna þess að það er nauðsynlegt. Ef að lög eru brotin, ef að lögregla framfylgir ekki lögum, þá leysist samfélagið upp.

Það eru ákveðin atriði sem kalla fram Siðrof. Aðalatriðið er óréttlæti. Við erum flest að upplifa mikið óréttlæti tengt bankahruninu og Icesave þvingunarpakkanum. Þetta óréttlæti er, hins vegar, einungis veltipunkturinn; óréttlæti hefur verið í gangi hér mun lengur og er það undiralda þess óréttlætis og misskiptingar sem við höfum vitnað undanfarinn áratug eða svo.

Það er nefnilega engin tilviljun, ekkert undarlegt, að þessi ofurlaun skutu upp kollinum hér á landi. Óréttlæti og misskipting eru systkin. Ákveðin öfl skiptu á milli sín ríkisbönkunum og öðrum opinberum fyrirtækjum sem gáfu arð; nú er svo komið að orkufyrirtækjunum. En þetta ristir enn dýpra en það. Þetta hefur að gera með virðingu fyrir lögunum, virðingu fyrir náunganum, virðingu fyrir siðum.

Á Íslandi ber fólk ekki mikla virðingu fyrir lögum. Það er t.d. í lögum að menn eigi að greiða skatt til samfélagsins en litið er upp til þeirra sem komast hjá því að greiða skatt. Þannig var þetta ekki. Ég man þá tíð að skattakóngar voru stoltir yfir þeim titli. Það er ekki tilfellið lengur heldur eru þeir miklir menn í dag sem komast hjá því að greiða skatt, en – takið eftir; löglega. Í dag eru það hetjur sem geta “snúið” á kerfið og komist hjá því að greiða skatt. En það sem gerist við þetta er óréttlætistilfinning, því hinn almenni launamaður getur ekki komist hjá því að greiða skatt. Þó svo að búið sé að pakka kjaftæðinu inn í lagapappír þá skilur almenningur kjarna málsins sem er – lögin mismuna. Ef að lög mismuna, ef að allir eru ekki jafnir gagnvart lögunum, þá bera menn ekki virðingu fyrir lögunum. Alli reyna því að komast hjá því að greiða skatt og það er talað um skattsvik sem þjóðaríþrótt og þeir sem tekst að “snúa” á kerfið eru sigurvegararnir.

Þessi þjóðaríþrótt hefur, hins vegar alvarlegar afleiðingar; það er verið að grafa undan virðingu fyrir lögunum almennt. Það gerir það á þann hátt að menn taka sér sjálfsvald í því hvaða lögum þeir kjósa að framfylgja og þar með eru öll lög og tilgangur þeirra fokinn út í veður og vind. Ef að það er í lagi að brjóta einhver lög, þá er í lagi að brjóta öll lög.

Það er m.ö.o. alveg eins hægt að sleppa allri lagasetningu og lagaþvingunum eins og að leifa fólki að velja hvaða lögum það vill hlýða. Annað hvort eru lög lög og þeim ber að framfylgja eða ekki. Þess vegna er það mikilvægt að löggjafinn setji sem fæst lög en fylgi þeim eftir. Lög eiga að vera eitthvað sem mönnum ber að fylgja og þau eiga að byggja á réttlæti og jafnræði. Það hafa lög á Íslandi ekki gert í seinni tíð, því miður og því hefur myndast hér Siðrof. Löggjafinn og lögregla mega ekki gera upp á milli laga, það má ekki vera forgangsröðun á því hvaða lögum ber að framfylgja og hvaða lög má brjóta.

Það að efnamenn hér á landi hafi um árabil getað komist upp með að gefa upp lágmarkslaun en samt borist mikið á er dæmi um óréttlæti í löggjöfinni, sem grefur undan virðingu fyrir lögum almennt. Annað dæmi er þegar menn komast upp með að leggja bílum sínum upp á gangstéttir. Það er klárlega bannað með lögum, en yfirvöld gera ekkert og eru þar með að gefa þau skilaboð að ekki þurfi að fara eftir lögunum, borgurunum sé það í sjálfsvald sett hvort þeir fylgi þessum lögum eður ei.

Annars konar mismunun felur svo í sér mismunandi reglur eftir því hvar á landinu menn búa. Gott dæmi er að brugðist er við reglugerð um hávaða mismunandi eftir hverfum borgarinnar. Ég kvartaði t.d. um hávaða frá súludansstað í miðborg Reykjavíkur fyrir nokkrum nóttum síðan. Þetta var í miðri viku og ég hélt að það væri bannað að hafa skemmtistaði opna eftir klukkan eitt á nóttunni í miðri viku. Þegar ég fékk samband við lögreglu á vakt var ég spurður hvers vegna ég byggi í miðbænum og staðurinn lokaði klukkan ellefu um morguninn!!! Annað hvort má hafa staði opna allan sólarhringinn eða þeir þurfa ALLIR að fara eftir þeim reglum og samþykktum sem settar eru. Stöðunum á ekki að vera það í sjálfsvald sett hversu lengi þeir eru opnir og það á ekki að vera eftir hentisemi einstakra lögreglumann hvort eitthvað sé gert í þeim kvörtunarmálum sem inn á borð berast og það á EKKI að vera mismunandi hvort brugðist er við lagabrotum í miðbæ Reykjavíkur eða t.d. á Álftanesinu. Ef að þessi kemst upp með það að brjóta lögin þarna af hverju má ég þá ekki brjóta þau hérna? Þessu er að selja áfengi þegar staðir eiga að vera lokaðir, má ég þá ekki selja áfengi heima hjá mér? Eða selja fíkniefni? Eða gera út á vændiskonur? Eða reka spilavíti?

Ef að ekki er verið að framfylgja þeim lögum sem í þessu landi gilda, ekki einu sinni þegar verið er að benda þar til gerðum yfirvöldum á lögbrot – er þá ekki alveg eins gott að sleppa bara þessum lögum og leyfa fólki að fara bara sínu fram?


Hæst glymur í tómri tunnu

pyramid_of_capitalist_system.gifÞað var frekar aumkunarvert viðtal við Ross Beaty, forstjóra Magma Eneregy, í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Þar var hann að básúna eigið ágæti og reyna að telja okkur trú um að við þurfum á honum að halda. Fyrir þá sem eru í einhverjum vafa um markmið þessa erlenda einkafyrirtækis þá er það nú skýrt: Að verða leiðandi (lesist sitja eitt að) í jarðvarmaorkuframleiðslu í heiminum. Segið mér; hvers vegna á einkafyrirtæki að vera að vasast í því? Einkafyrirtæki eru ekkert betur til eins eða neins fallin, það hefur fjármálakreppan sem nú ríður yfir sannað með öllum þeim ríkisstyrkjum sem veittir eru til að redda einkafyrirtækjum í öllum geirum og álfum.

Ég segi það við forstjóra Magma Energy og ég segi það við alla gíruga einstaklinga sem vilja græða á því að samfélög þurfa orku til að ganga:

Þú þarft á okkur að halda – við ekki þér! Við getum vel rekið okkar orkufyrirtæki á samfélagslegum grunni og öll grætt þar með. Farðu heim, við höfum fengið meira en nóg af einstaklingum sem hafa ofurtrú á eigin ágæti og hafa ekkert – ekkert annað en eigingirni að leiðarljósi þrátt fyrir fagurgala um annað. Svei ´attann!

 

Nú eru gráðuguggarnir farnir í annan ham en áður. Eðlilega eru þeir í vörn nú en hættir að láta eins lítið fyrir sér fara og strax eftir hrun. Lýður Guðmundsson stjórnarformaður Exista mætti í myndver ríkisútvarpsins og lét illa yfir því óréttlæti sem hann taldi sig hafa verið beittan – ja greyið. Ég þekki ekkert til þessa manns annað en það sem ég er að sjá og heyra í fréttum varðandi Exista. Ég les mér til á netinu að:

Lýður stofnaði Bakkavör Group árið 1986 og hefur stýrt fyrirtækinu síðan, ásamt bróður sínum Ágústi Guðmundssyni. Lýður er einnig stjórnarformaður Bakkavarar Group, stjórnarformaður Skipta, varastjórnarformaður Kaupþings banka, stjórnarmaður í Sampo Group, situr í fulltrúaráði Storebrand og er stjórnarmaður í Viðskiptaráði Íslands.

Sem sagt einn af þessum útrásarvíkingum (lesist: útferðarvesalingum). Voru það ekki Bakkabræður sem keyptu Landsímann? Það sem landlægur vandi í íslensku viðskiptalífi, sérstaklega var þetta óhæfa varðandi einkabankanna þrjá sem nú eru liðin tíð, er: samþjöppun valds, samtrygging, krosseignatengsl, blekkingar, innherjaviðskipti, markaðsmisnotkun, vanhæfni og hroki. Bara það að þessi Lýður, sem stofnaði eitthvert matvælapökkunarfyrirtæki árið 1986 sé rúmum áratug síðar orðin varastjórnarmaður stærsta banka Íslands, stjórnarmaður í Viðskiptaráði Íslands og eigandi og stjórnarmaður fleiri stórfyrirtækja segir allt sem segja þarf. Þó að þú sért ágætur í því að pakka matvælum og koma á markað þá þarf það ekki að þíða að þú hafir vit á bankastarfsemi eða fjarskiptarekstri eða tryggingastarfsemi. Af hverju halda menn sig ekki bara við það sem þeir eru góðir í. Maðurinn virðist vera að gera það gott í matvælapökkuninni; er ekki þetta endalausa stjórnarmanna kjaftæði ofmetnaður og remba? Þú ert ekki, fremur en nokkur annar, óumræðanlegur snillingur sem ert betur til þess fallinn en aðrir til að gera alla hluti.

Þetta er eins með Jón Ásgeir og Baug. Faðir Jóns, sem að flestir sjá sem fínan kall, stofnaði lágvöruverslun á Íslandi með tvær hendur tómar og fór að gera það gott. Sonurinn hafði, hins vegar, stóra drauma og nú eru kröfur í þrotabú Baugs 316 þúsund milljónir eða þar um bil. Af hverju var ekki hægt að láta sér nægja að reka þetta ágæta fyrirtæki Bónus og gera það vel? Nei það þurfti að þvælast um heiminn á einkaþotum, fjárfesta í lúxussnekkjum sem Saddam Hussein hefði öfundast út í, kaupa íbúð Kennedys í New York og spila sig stórann kall!

Fínt þetta á ekki að koma mér við; en það KEMUR MÉR VIÐ, VEGNA ÞESS AÐ ÞIÐ HAFIÐ DREGIÐ MIG, OG ALLA ÍSLENSKU ÞJÓÐINA, MEÐ YKKUR Í FALLINU! Þið fáránlegu græðgis fjandar. Og að voga sér að koma fram í fjölmiðlum og tala um nornaveiðar og ósanngjarna meðhöndlun!!! Já það er verið að rannsaka málin en það er vitað mál að þið hafið varið til þess milljónum að dansa á línunni milli þess löglega. Það vita það allir að þið gerið allt sem í ykkar valdi stendur að moka undir eigin rassgat og notið öll göt í löggjöfinni og skattaskjól sem þið finnið. Já, það er ekki búið að sanna neitt ólöglegt á ykkur enn, og óvíst að það verði nokkurn tíma en þið hafið valdið Íslandi skaða. Nafn Íslands er ónýtt. Við erum nú þekkt sem Nígería Norðursins vegna aðgerða gráðugra einstaklinga sem ekki gátu fengið nóg. Manna sem beittu öllum þeim löglegu ráðum sem hægt var til að efnast en gáfu algeran skít í þær afleiðingar sem það gæti haft fyrir íslenska þjóð.

 

Já, vera má að kalla megi það nornaveiðar og ósanngirni að ata þá einstaklinga auri sem eyðilagt hafa mannorð heillar þjóðar; Ég kalla þetta tilraun til réttlætis.

Munið það - við þurfum ekki á ykkur að halda en þið á okkur.

 


Er þetta ekki það sem kallast skítamórall?

drunk.jpgByrjum á þessu með þingmann Samfylkingarinnar Sigmund Erni; hann á að segja af sér AÐ SJÁLFSÖGÐU.

Það hefur orðið verulegur trúnaðarbrestur milli þings og þjóðar vegna vanhæfni þingsins í aðdraganda og eftirmála efnahagshrunsins. Það voru þvingaðar fram þingkosningar í vetur vegna firringar þingmanna og algerrar vanhæfni. Nú er algert LYKILATRIÐI að endurheimta traust á Alþingi og virðingu – þess vegna VERÐUR alþingismaður sem sýnir þingi og þjóð það mikla vanvirðingu að mæta drukkinn í vinnuna að segja af sér.

Það þarf að laga til á þessu landi og það þarf að endurvekja virðingu. Ef að þingmenn komast upp með það að þvaðra fullir í ræðustól Alþingis, hvað er þá að því að aðrir mæti fullir í sína vinnu. Sigmundur segir son sinn hafa skutlað sér í vinnuna, já var það ekki. Voðalega hljómar það nú hagkvæmt en að sama skapi ólíklega. Allavega ef að það á að endurvekja virðingu fyrir Alþingi þá þarf að krefjast þess að menn sem ekki geta látið það vera að drekka sig fullan í vinnutíma, ljúgi svo blákalt að þjóðinni um það, segi af sér. Ef að það er ekki gert þá er endanlega farið með það að nokkur beri snefil af virðingu fyrir þessari imbahalastofnun.

 

Þetta er svo tengt almennu siðgæði hjá þessari þjóð. Æðibunugangurinn og flottræfilshátturinn sem að við upplifðum hér er angi af þessu sama. Frekjan og vanvirðingin sem viðgeggst hér er einmitt sú sama og það að mæta fullur í ræðustól Alþingis og rífa kjaft. Það er það sama og rífa niður gömul húsnæði, til að frekjast fyrir því að byggja háhýsi. Það er það sama og að leggja bílum upp á gangstéttir og, almennt, að taka ekki tillit til annarra. Íslendingar eru sjálfhyggnir og það í alvarlegum mæli. Jú við hjálpum náunganum þegar þörf er á en það er meira til að sýna hversu góðir gæjar við erum en að við séum með einhverja meðaumkun. Okkur er skítsama um allt og alla aðra en okkur sjálf og þess vegna mætum við meira að segja drukkinn í ræðustól hins hlægilega Alþingis.

 

Þetta sést voðalega vel á þeim viðbrögðum sem íslendingar eru að sýna varðandi hinar norðurlandaþjóðirnar og lán þeirra til handa íslenska ríkinu. Hér erum við búin að vera að vaða upp í sukki og svínaríi og gersamlega búin að skíta upp á bak en rífum svo kjaft þegar hinar norðurlandaþjóðirnar hlíða ekki bara og lána okkur þá peninga sem við heimtum, þegar við heimtum þá.

 

Við ætlumst til þess að fá sérstakar undanþágur og flýtimeðferð í umsóknarferlinu inn í Evrópusambandið – að sjálfsögðu við erum jú svo spes.

 

Ég ætla ekki að fara sérstaklega út í það hvernig íslendingar eru í umferðinni – við þekkjum það öll. Íslendingar eru í umferðinni eins og frekustu krakka skrattar sem fjandinn hefur alið. Gangstéttir eru bílastæði ef að það hentar mér, skítt með allt og alla, bara ef það hentar mér. Aðrir vegfarendur eru einungis fyrir mér, fari þeir í fúlan pitt.

 

Nei, ég vona að kreppan kenni okkur eitt, því það er veruleg þörf á; Palli er ekki einn í heiminum og allt gengur betur ef að sýnd er tillitsemi og við þurfum að bera virðingu fyrir náunganum, okkur sjálfum og samfélaginu.


Miðnæturárásir - Mið-ætu-árásir

Birt án leyfis

 

Ég bý í miðbænum. Um hverja helgi, oft byrjar það á fimmtudagskvöldum, þá verðum við sem búum í miðbænum fyrir árásum. Ölvaðir hálfvitar koma þá æðandi úr úthverfum borgarinnar og taka að haga sér eins og vangefnir villimenn, ælandi, öskrandi, skemmandi, meiðandi, dópandi og berjandi. Í stuttu máli sagt hagandi sér eins og þeir myndu aldrei gera í sínu hverfi, en það er allt í lagi, finnst þeim, af því að klukkan er miðnætti og staðurinn er miðbærinn.

Ég veit dæmi þess að fullorðnir einstaklingar, menn og konur í virðulegum stöðum svona dags daglega, taka upp á því við þessar aðstæður að henda bjórflöskum og míga þar sem þeim sýnist. Hvað er að þessum einstaklingum?

Ég bjó um árabil á Skindergade í Kaupmannahöfn sem er eins mikið í miðbæ þeirrar borgar og hægt er að vera og varð aldrei var við aðra eins hegðan, önnur eins ólæti og aðra eins vanvirðingu fyrir lífi, limum og eignum annarra og ég upplifi helgi eftir helgi hér í Reykjavík. Mönnum er svo gjörsamlega sama hvort einhver býr eða starfar á þeim stað þar sem menn kasta þvagi  eða henda rusli að það nær ekki nokkru tali – vanvirðingin er alger.

Þegar kreppan skall á var ég að vonast til þess að draga myndi úr drykkjuólátum í miðbæ Reykjavíkur en það virðist ekki ætla að gerast því miður, kannski að það hafi bara spítt í ef eitthvað er. Á móti kemur svo að löggæsla en nánast ósjáanleg þannig að ekki er það til að draga úr ruddaskapnum.

Já kreppan – ég skil nú hvers vegna íslendingar eru svona og svo gerilsneyddir allri virðingu fyrir náunganum og eignum hans. Við vorum að mæra þá sem voru hvað gráðugastir og siðlausastir sem hetjur vorra tíma. Vertu nógu frekur og ruddalegur, taktu ekkert tillit til annarra og þá mun þér vegna vel vinur minn sögðum við við börnin okkar og þá er að sjálfsögðu ekki að spyrja að því hvers vegna börnin okkar verða slík ungmenni sem við sjáum hér um helgar, öskrandi, ælandi, berjandi, skemmandi í gersamlega sjúku ástandi.

Ég veit það ekki en mér er það til efs að ungmenni í byrjun tuttugustu aldarinnar hefðu hagað sér eins og þessi ungmenni haga sér sem allir sjá ef að þeir bara hætta sér í miðbæinn um helgar eftir miðnættið. Mér er það einnig til efs að þessum ungmennum líði vel, svei mér þá.

Já ég er að fullyrða það að uppeldið hafi gersamlega brugðist og að það samfélag sem við höfum búið okkur til geti af sér sjúka og óhamingjusama einstaklinga sem sést best af framkomu þeirra.

Talandi um samfélag þá langar mig aðeins að minnast á sjálfa miðborgina og hvernig búið er að eyðileggja hana gersamlega. Þessir óhæfu borgarfulltrúar hafa með skipulagsmistökum, á skipulagsmistök ofan, eyðilagt hinn fallega miðbæ sem Reykjavík átti. Laugavegurinn er farinn að minna á Istedgade í Kaupmannahöfn, eins og hún var þegar hún var hvað verst; illa lyktandi barir við hvert götuhorn, tattú búllur, sex sjoppur og hótel – það er Laugavegurinn í dag. Fólk kemur ekki á Laugaveginn til að versla.

Við sem að höfum búið í miðbænum og ólumst upp við það að Laugavegurinn var aðal verslunargata Reykjavíkur munum tímana tvenna. Þá bar fólk virðingu fyrir Laugaveginum og ældi ekki þar né meig eða komst upp með það að leggja bíl sínum á gangstétt Laugavegarins – það var bara fáheyrt og óhugsandi. Þegar við, íbúarnir, ætlum svo að malda í móinn við borgarapparatið er okkur sagt að við búum í miðbænum og þar gildi ákveðnar reglur. Við höfum sem sagt samþykkt það með því að festa kaup á húsnæði í miðbæ Reykjavíkur að við getum ekki sofið á næturnar um helgar, að við megum bara byrja morgnanna á því að þrífa ælur og hland af útidyratröppunum, að bílar okkar eru rispaðir – það er bara allt hluti af því að búa í miðbænum!!!

Þessar borgarstjórnir og þetta borgarapparat hér er svo gersamlega fyrir neðan allar hellur að það er ekki hægt að koma orðum yfir það. Þegar mörg okkar settumst að í miðbænum var ekki bar á öðru hverju götuhorni og það var svo sannarlega ekki þetta stríðsástand um hverja einustu helgi – ég fullyrði það.

Í hvaða hverfi öðru myndi það líðast að atvinnustarfsemi, og það hávaða atvinnustarfsemi, myndi fara í gang um miðnættið? Er ekki eðlilegt, og tíðkast það ekki í öllum siðuðum löndum, að hávaðamengandi atvinnustarfsemi er sett í sér iðnaðarhverfi? Ég man þá tíð, þegar Reykjavík var góð borg að búa í og gamalmenni voru ekki hrædd að fara hér um göturnar á kvöldin, ég man þá tíð að þá voru skemmtistaðir staðsettir í þeim hverfum sem ekki bjó fólk. Hver man ekki eftir Hollywood, Klúbbnum, Broadway og Sigtúni? Af hverju hefur þetta breyst? Hver kaus um það að setja skemmtistaði borgarinnar í miðbæinn? Bari og veitingastaði, sem loka á skikkanlegum tíma, er eðlilegt að hafa  í miðbænum, en staði þar sem er dúndrandi tónlist, haugdrukknir kúnnar og öskrandi og ælandi vesalingar að dópa sig og búsa – staðir sem kalla á slíkt eiga að vera í iðnaðarhverfum borgarinnar, þar sem háfaði frá þeim truflar ekki sofandi fólk og lítil hætta er á að verið sé að traðka á pottablómum og snýta sér í snúruþvott. Hvað er að þessum borgarskipulagsidíótum?  

Ég hef starfað í ferðaþjónustunni og hef talað við margan ferðamanninn erlendan sem furðar sig á því ástandi sem skapast í Reykjavík um helgar; lögreglumaður í New York sagði að slík mannfjöldasamsöfnun myndi aldrei líðast þar. Enda sér maður nánast ekki lögreglu á ferð í miðborginni eftir miðnætti fram á morgun; lögreglan hættir sér ekki nema brýna nauðsyn beri til og varla það. Við á mínu heimili urðum vitni að nauðgunartilraun sem að við skiptum okkur að – lögreglan kom ekki á staðinn þrátt fyrir að ítrekað hafi verið hringt. Eitt sinn var skemmt hjá okkur grindverk og vöknuðum við við atlætin, hringt var í lögreglu sem kom hálftíma síðar og þá var gerningsmaðurinn á bak og burt en þá einungis nýfarinn, það var eins og hann vissi að hann þyrfti ekkert að flýta sér burt því lögreglan myndi ekki vera að flýta sér á staðinn eða svo upptekin að hún kæmist ekki til að sinna þessu. Við bárum svo persónulega fjárhagsskaðann sem af eyðileggingunni hlaust – en það er jú bara hluti af því að búa í miðbænum ekki satt?

 

Nei kæru Íslendingar – kæru Reykvíkingar, það þarf að athuga það hvernig fólk veður uppi með frekju og vanvirðingu gagnvart náunganum og umhverfinu. Fólk er svín sagði starfsmaður í þrifadeild borgarinnar eftir hina svokölluðu Menningarnótt. Umgengi sýnir innri mann og það þarf að ala það upp í fólki að ganga um af virðingu fyrir því að þú ert ekki einn í heiminum og drasl, æla og hland hverfur ekki af sjálfu sér heldur þarf einhver annar að þrífa það upp.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband