Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fiskistofnarnir við íslandsmið ekki lengur sameign íslensku þjóðarinnar samkvæmt stjórnarskránni – athugið það!
11.1.2008 | 23:20
Þá langar mig aðeins að tjá mig um kvótamálin. Nú er verið að tala um álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna á íslenska kvótakerfinu og það er eitthvað í loftinu sem segir mér að nú sé lag að fylgja eftir.
Í fyrsta lagi þá var ég, á sínum tíma, mjög svo samþykkur því að koma á fiskveiðistjórnunarkerfi, því að klárlega var um mikla sóun og ofveiði að ræða. Ég var hins vegar aldrei á því, frekar en nokkur annar ég veit, að koma hér á kerfi sem veitti sumum einhvern forréttindaaðgang að auðlind sem, þangað til, var sögð tilheyra okkur öllum.
Það er, sem sagt, verið að tala um tvö kerfi, eða í það minnsta, tvíbent kerfi; annarsvegar kerfi sem snýr að stjórnun á fiskveiðum og hins vegar, kerfi er lítur að eignarétti. Þangað til kvótakerfið var sett á átti sá fiskinn er fangaði hann og landaði, en eftir að kerfinu var komið á myndaðist eignaréttur á fiskinum sem synti í sjónum og upp spannst það fáránlega fyrirkomulag að sjómenn (þeir sem hafa lifibrauð sitt af fiskveiðum) gátu nú leigt[?] fiskinn í sjónum (og við sitjum uppi með einskonar leiguliðafyrirkomulag líkt og þekktist á miðöldum). Áður en lengra er haldið ætla ég stuttlega að staldra við og kryfja þetta kerfi lítið eitt.
Kerfið heitir kvótakerfi og byggir á því að sett er fram heildarmagn sem veiða má upp úr sjó og því síðan skipt á milli manna og sá kvóti er hver fær kallaður veiðiheimild. Til að mega veiða fisk í íslenskri lögsögu þarf að hafa yfir veiðiheimild að ráða, annars er um lögbrot að ræða. Þegar kvótakerfinu var komið á, var miðað við undanfarin 3 fiskveiðiár (sept-sept) og gefinn út kvóti til handa viðkomandi útgerð (gefinn út kvóti) miðað við það sem veitt hafði verið og reiknað sem hlutfall af heildarafla.
Eins og er með allar takmarkaðar auðlindir er um verðmæti að ræða í þessum gefna kvóta og eins og með öll verðmæti má veðsetja þessi verðmæti. Einnig má vel selja þessi verðmæti, leigja eða gera hvað annað sem eigenda þessar verðmæta sýnist. Það er til að mynda mögulegt að veiða ekki (eitthvað sem áhugavert væri að útfæra varðandi friðun/hvíld/uppbyggingu á fiskistofnunum; áhugavert væri t.d. að hugsa sér að ríkið keypti einfaldlega kvóta og frysti þegar friða þyrfti stofnanna og setti síðan á markað þegar vísindamenn álitu að hægt væri að auka ásókn í stofninn).
Kvótakerfið hefur alla tíð verið mikið gagnrýnt og sýnist mér að gagnrýnin sé í aðalatriðum varðandi þrjú atriði og ætla ég að fara yfir þau hér:
1. Gjafakvóti.
Ein aðal gagnrýnin á kvótakerfið að um gjafakvóta var að ræða í upphafi; gjöf sem var afar verðmæt og höndlast nú með á markaði fyrir milljarða króna.
2. Eignarhald.
Önnur megin gagnrýni fjallar um að eignarhald á sameiginlegri auðlind og ekki síst eignarhald á óveiddum fisk í sjónum. Þetta eignarhald hafi haft ófyrirsjáanlega byggðaröskun í för með sér þar sem hentisala einstaklings, eða fyrirtækis, á kvóta kippi atvinnugrundvelli heils byggðarlags burtu í einni andrá.
3. Fiskveiðistjórnun.
Þriðja gagnrýnin, sem oft heyrist, bendir svo á að sem fiskveiðistjórnunarkerfi sé kvótakerfið ekki að virka, sem var jú ástæða þess að kerfinu var komið á í upphafi. Þessi gagnrýni er byggð á veikustu rökunum þar sem, til að fiskveiðistjórnunarmarkmið kerfisins náist, þarf að fara eftir aflamagnstillögum vísindamanna en það hefur nær undantekningarlaust ekki verið gert; sömuleiðis verður tillögustjórnun aldrei betri en það gangamagn sem sett er inn í tillöguhönnunarmódelið og til að fá sem besta yfirsýn yfir það hvað veiða má, þarf að leggja mikið fé og mannkraft í rannsóknir en þar hefur nokkuð skort á.
Og er þá komið að meginefni þessa pistils, sem sagt gagnrýni á kvótakerfið og hvað sé til bóta.
Ég er nú, eins og áður, á því að nauðsynlegt sé að hefta aðgang að fiskistofnunum og að nauðsynlegt sé að vernda fiskistofna frá atgangi manna. Til eru tvær þekktar meginleiðir til aðgangsstjórnunar og þær eru kvótakerfi og sóknarkerfi. Færeyingar leggja meiri áherslu á sóknardagakerfi sem byggir á því að þú mátt veiða eins mikið og þú finnur af fiski á ákveðnum dögum. Þetta er í raun réttlátara kerfi en það sem við búum við þar sem sama grundvallarmálið varðandi eignarétt er viðhaldið og var áður en fiskveiðistjórnun var komið á, þ.e. sá á fiskinn sem veitt hefur hann og landað; þangað til á hann sig sjálfur eða við öll. Gallinn við þetta kerfi er sá að ekki er verið að vinna út frá ákveðnum aflatölum. Segjum t.d. að fiskifræðingar væru sammála um að veiða mætti 300 þúsund tonn. Þá er ósvarað hversu marga daga þarf flotinn til að ná þessum tonnum og hversu stór þarf flotinn að vera, hætt er á að ekki náist að veiða allan aflann sem óhætt er að veiða. Einnig er það innbyggður galli í kerfinu að mónitoring og afstemmning á kerfinu hlýtur alltaf að koma eftir á og sé aflanum náð áður en árið er liðið er ekki stoppað fyrr en veitt hefur verið umfram heimildir. Þrátt fyrir þessa annmarka, sem og aðra sem ekki hefur verið getið hér, er þetta kerfi mun réttlátara en kvótakerfið og hefur í raun verið tekið hér upp varðandi minnstu bátana. Það þykir, hins vegar, ekki henta þegar að meginaflastjórnun kemur.
Ég sagði áður að aðalgagnrýnin á kvótakerfið íslenska væri ekki varðandi fiskveiðistjórnunina heldur yfirráðaréttinn. Gefum okkur nú að fiskistofa fái sem mest tækifæri til að gera sem fullkomnust módel þannig að aflatillögur hennar séu hvað næst því sem er raunhæft og sannarlega gagnlegt til viðhalds fiskistofnunum og gefum okkur það einnig að stjórnamálamenn fari eftir þessum sömu tillögum, þá sé ég ekkert að sjálfu fiskveiðistjórnunarkerfinu og held í raun að kvótaúthlutun sé hagkvæmasta og besta leiðin til þess að vernda stofnana og stuðla að sjálfbærri þróun í fiskveiðum. Þá stendur eftir hin hliðin á málinu, sem sé sú hlið er snýr að eignarhaldinu.
Fyrsti liður gagnrýninnar var að um gjafarkvóta hafi verið að ræða. En hér er einnig falin lausnin á því hvernig hægt er að laga kerfið. Til að ná sátt um kerfið þarf klárlega að breyta því þannig að fiskveiðistjórnunarmarkmiðin náist fram en eignahaldsmyndunin hverfi. Þar sem um gjafakvóta var að ræða í upphafi er ekkert því til fyrirstöðu að taka allan kvóta til baka til ríkisins og má þá einu gilda hvað gerst hefur varðandi verslun með kvóta á markaði; þar munu sumir hafa tapað og aðrið grætt eins og gengur þegar málið verður gert upp. Það þarf því að innkalla allan kvóta til ríkisins og þurrka þar með út gamla kerfið til að byrja upp á nýtt. Því næst er að úthluta aflaheimildum upp á nýtt en að þessu sinni þarf að fara að æðstu lögum þessa lands, sjálfri stjórnarskránni en ekki brjóta gegn henni og breyta síðan í skugga nætur og skjóli annarra mála (það er búið að fjarlægja þá grein úr stjórnarskrá íslenska lýðveldisins að fiskistofnarnir á íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar athugið það en þessi grein var inni þegar kvótakerfinu var komið á; kannast einhver við að hafa kosið um það í almennum kosningum að afnema þessa grein sem er þó grundvallarskilyrði fyrir breytingum á stjórnarskránni). Í nýju kerfi þurfum við að binda aflaheimildir við staði, ekki fyrirtæki og enn síður við fólk. Við höfum snefil af þessu þegar kemur að byggðakvótum en þar sem kerfið hefur nú í sér svo gífurlega mikil eignarréttindi og hagsmuni aðila sem mikil ítök hafa innan stjórnsýslunnar þá er nánast alltaf litið fram hjá þessari lausn þegar litið er til heildarlausna.
Ég er að leggja það til að öllum úthafsaflaheimildum sé úthlutað til landshluta ekki fyrirtækja og enn síður til einstaklinga.
Þannig er það sveitarstjórna að úthluta aflaheimildum sem falla landsfjórðungnum í skaut. Hvaða útgerð sem skráð er með lögheimili í viðkomandi fjórðungi getur boðið í hlutinn og hæstbjóðandi fær að veiða aflann og hagnast á honum. Skilyrðið er að útgerðin sé skráð í fjórðungnum og að aflanum sé landað í fjórðungnum. Þetta leysir margt af því sem nú er verið að fást við eins og óstöðugleika byggðarlaga vegna þess að kvóti er seldur úr byggðarlaginu og vinnsla og löndun hverfur annað. Sömuleiðis er þetta tekjuöflun fyrir sveitarfélagið þar sem kvótinn er boðinn upp árlega og tryggt er að opinber gjöld af atvinnustarfseminni sem skapast af fiskveiðunum skila sér heim í hérað. Þetta þarf á engan hátt að þýða að þau fyrirtæki sem í dag eru framarlega í veiðum og vinnslu missi spón úr aski sínum, þau bjóða einfaldlega eins og aðrir í þann kvóta sem í boði er. Það sem myndi breytast er það að við hefðum, að lágmarki fjögur stór fiskvinnslufyrirtæki þar sem þau myndu byggjast upp í kring um kvótana sem landsfjórðungarnir hefðu yfir að ráða; við fengju í raun aftur fyrirtæki sem væru staðbundin og trú sinni heimabyggð í stað þess að hafa fyrirtæki sem starfa allstaðar og hvergi og eru ekki trú gagnvart neinum nema eigendum sínum. Sömuleiðis myndum við losna við sníkjudýrin sem lagst hafa upp á vinnandi fólk og fyrirtæki í sjávarúrveginum með því að lifa á því að leigja til þeirra kvóta eitthvað sem er óforskammarlegt og nóg í sjálfu sér til að afnema núverandi kerfi.
Síðan myndum við hafa sóknardagakerfi fyrir smærri báta og útgerðir sem væri eins nálægt því og var fyrir daga stjórnunarkerfisins og byggði á því einfalda lögmáli að allir hefðu rétt á því að sækja sjóinn í ákveðna daga á ári. Augljóslega yrðu vönustu og bestu sjómennirnir þeir sem mest bæru úr býtum og þar með þeir sem gætu gert sér lifibrauð af þessu en aðrir gætu samt sem áður stundað sjóinn engum væri það bannað. Sóknardagar yrðu síðan endurskoðaðir með tilliti til afla síðasta árs.
Ég vona að þessi stutti pistill hafi varpað inn hugmyndum hjá fólki um að hægt sé að hafa kvótakerfi sem vinnur að því að vernda fiskistofnana og á sama tíma sé réttlátt og tryggi sameiginlegan aðgang íslendinga að auðlindinni sem er fiskurinn er hrygnir í kringum landið.
Þór Þórunnarson
Losum okkur við þessa peningahít.
3.1.2008 | 09:29
Það hefur verið á það bent í umræðunni um forsetaembættið að erlendir þegnar og jafnvel erlendir þjóðarleiðtogar átti sig ekki í öllum tilfellum á hlutverki forseta Íslands. Sumir halda jafn vel að embættið hafi einhver völd og skipti einhverju máli fyrir stjórn landsins sem mér finnst afar slæmt, sérstaklega þegar forsetinn er á þeytingi um allar jarðir á einkaþotum auðmanna.
Ég er einn af þeim sem finnst Ólafur Ragnar EKKI góður forseti. Mér finnst hann snobbaður, tilgerðarlegur og yfir aðra hafinn. Þegar svo við bætist að RAUNHÆKKUN á rekstri embættisins hafi verið 142% er mér hreinlega nóg boðið. Vigdís var góður forseti og gerði, að mínum dómi, betri hluti en Ólafur fyrir minni pening. Það versta við þetta er að það kostar þjóðina í raun bara meira að fá annan forseta þar sem forsetar fá laun ævilangt - hvað réttlæti er í því? Af hverju á forseti einhvern frekari rétt á því að fá laun EFTIR að hann lýkur störfum en ég og þú? Af hverju nægir honum ekki eftirlaunakerfi eða önnur vinna? Við hin verðum að láta okkur það linda. Ég neita að sitja hjá hljóður þegar verið að búa hér til einhver forréttindi fárra.
Ég held að það væri réttast og allrafarsælast að hreinlega leggja niður þetta embætti og nota féð sem við það sparast í þarfari mál en að halda uppi einhverri sýndarelítu á Bessastöðum.
Þór Þórunnarson
Æ dýrara í rekstri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Og loks þá hann hrópaði var enginn eftir til að hlusta ...
3.1.2008 | 08:57
Ég heyrði eitt sinn góða sögu af þriðja ríki Hitlers. Sagan gekk út á það að kaþólskur prestur gerir upp líf sitt eftir að bandamenn hafa ráðið niðurlögum nasismans. Í stuttu máli gengur sagan út á að prestur er spurður hvers vegna hann hafi ekkert látið í sér heyra til að mótmæla þeim grimmdarverkum sem nasistar höfðu í frammi og hann svarar:
"Fyrst tóku nasistarnir úr umferð kommúnista og aðra pólitíska andstæðinga og ég sagði ekki neitt því ég var ekki pólitískur andstæðingur; þá tóku nasistarnir að fjarlægja gyðinga úr samfélaginu og ég sagði ekki neitt af því að ég er ekki gyðingur; því næst tóku nasistarnir sígauna úr samfélaginu og ég sagði ekki neitt af því að ég er ekki sígauni; þessu næst tóku þeir samkynhneigða úr umferð og ég sagði ekki neitt af því að ég er ekki samkynhneigður; eftir þetta fóru þeir að snúa sér að öðrum hópum, fötluðum, öldruðum, sjúkum og enn sagði ég ekkert því ég var ekki einn af þeim. Að lokum snéru þeir sér að mér og ég hrópapi hástöfum gegn óréttlætinu ... en þá var bara enginn eftir til að hlusta".
Ég segi frá þessari sögu hér, í sambandi við þessa frétt, vegna þess að ég vonast til þess að hún veki einhvern til umhugsunar um að við verðum öll að standa vörð um velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið, og þá ekki síst þegar við erum heilbrigð og þurfum ekki á því að halda persónulega, því að þegar á hólminn er komið gæti farið svo að það væri orðið of seint.
Ég hef sagt það áður á þessu bloggi og ég segi það enn:
STÖNDUM VÖRÐ UM HEILBRIGÐISKERFIÐ ÞAÐ GERIR ÞAÐ EKKI SJÁLFT OG ER Á ENGAN HÁTT SJÁLFSAGT, VIÐ SKULDUM ÞAÐ SJÁLFUM OKKUR, AFKOMENDUM OKKAR, EN EKKI SÍST ÞVÍ FÓLKI SEM BARÐIST HARÐRI BARÁTTU VIÐ AÐ KOMA ÞVÍ Á.
Þór Þórunnarson
Hækkunin daprar fréttir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um samhengi hlutanna.
30.12.2007 | 14:49
Mamma hvað er kreppa?
Á unga aldri byrjaði ég á að furða mig á því hvað efnahagskreppa eiginlega væri og hvers vegna slík fyrirbæri fyrirfyndust. Ég byrjaði náttúrulega á því að spyrja hana móður mína en þar var fátt um svör. Þá snéri ég mér að kennurunum en ekki voru svör þeirra mikið meira fullnægjandi. Síðan hef ég spurt margan manninn og lesið margan textann, til að reyna að átta mig á því hvað kreppa eiginlega sé og hverjar séu orsakirnar já meira að segja náð mér í háskólapróf í hagfræði. Það sem ég hef sannfærst um í gegnum tíðina er að fæstir vita hvað kreppa er og enn færri vita hvers vegna kreppir að. Það er jú nokkuð lógískt, þar sem að svar við spurningunni: hvers vegna kreppir að, myndi gera okkur kleift að komast fyrir rót vandans og þar með afstýra kreppum. En eins og allir vita þá koma þær kreppurnar, svona eins og lægðirnar og menn eru farnir að taka því sem gefnum hlut. Já ég valdi líkinguna ekki af handahófi, því kreppa er EKKI náttúrulegt fyrirbæri. Með þrautseigju og tíð og tíma hefur mér tekist að púsla saman vitneskju, héðan og þaðan og tel mig nú vita af hverju kreppa stafar og hvað kreppa sé egentlig for noget.
Byrjum á því að skilgreina hvað kreppa sé:
Fjármála-kreppa, fjármagns-kreppa, kreppa. Hugtökin, sem ég ætla öll að jöfnu, lýsa SKORTI á fjármagni.
Þessi skortur, og haldið ykkur nú fast, getur lýst sér í alltof mörgum peningum?!? Með öðrum orðum, verðlausum eða verðlitlum gjaldmiðli (fyrir þá sem ekki eru vel að sér í hagfræðum verður að geta þess að mikið framboð af peningum = lítið verðgildi peninga, rétt eins og mikið framboð af eggjum þýðir ódýr egg). Það glittir hér s.s. í þann grunn sem peningakerfið byggir á. Við þurfum því að bæta við einni skilgreiningu og svara spurningunni:
Á hverju byggir peningakerfið?
Peningar, eða gjald-miðill, eins og íslenskan nefnir það svo lýsandi, er ávísun á verðmæti; verðmæti verandi eitthvað eftirsóknarvert í takmörkuðu magni. Það eru svo þessi verðmæti, í takmörkuðu magni, sem samansetja hagkerfin; land er eitt dæmi, gull er annað. Maður getur sem sagt skipt peningum fyrir land, gull o.s.frv.
Og þá aftur að kreppunni. Ég sagði áðan að kreppa væri skortur á fjármagni og skortur á fjármagni og offramboð á peningum gæti farið saman. Við þurfum því að bæta við einni skilgreiningunni enn og spyrja:
Hvað er þá fjármagn?
Fjármagn stendur fyrir þau verðmæti sem peningar geta keypt.
Nú skulum við taka dæmi til að skýra aðeins betur. Í kreppunni í Þýskalandi, sem fylgdi í kjölfar fyrri heimstyrjaldarinnar, kostaði brauðhleifur nokkrar milljónir marka. Menn hlupu til bakarans með hjólbörur fullar af peningum til að kaupa brauð áður en peningarnir í hjólbörunum urðu verðlausir. Það var sem sagt óðaverðbólga í landinu og hvers vegna? Jú peningarnir Markið vísaði nánast ekki á nein verðæti; stór hluti auðlinda Þýskalands var hirtur af sigurvegurum styrjaldarinnar sem stríðsskaðabætur, og þar sem fjármagn stendur fyrir þau verðmæti sem peningar geta keypt og verðmætin voru að skornum skammti, þar sem þau voru hirt af sigurvegurunum, skapaðist kreppa í Þýskalandi. Hvers vegna stjórnvöld í Þýskalandi héldu að aukin útgáfa peningaseðla gæti leyst vandann er ráðgáta sem ég ætla ekki að svara hér. Aðalatriðið er að stór hluti verðmætanna í hagkerfinu hurfu úr því til sigurvegaranna og útgáfuæði peningaseðlanna gerði ekkert annað en að rýra verðgildi gjaldmiðilsins og skapa óðaverðbólgu.
S.s., kreppa = skortur á fjármagni, eins og áður sagði.
Við sáum í dæminu hér á undan að kreppa skapaðist í Þýskalandi þegar fjármagn (verðmæti) voru tekin úr hagkerfinu. Hvers vegna skapast þá kreppa þegar ekki verið að borga stríðsskaðabætur?
Góð spurning og afar mikilvæg ef að menn vilja skilja hvað það er sem drífur þennan heim og þetta kerfi sem við búum við.
Þá er það þetta með verðmætin og nútíma kreppu og hvers vegna þær verða. Núna er mikið í umræðunni hin svokallaða undirmálslánakreppa sem orsakaðist af áhættulánum á bandaríska húsnæðismarkaðnum. Málið er okkur skylt hér á Íslandi og er það sagt að lækkun Kauphallarvísitölunnar megi rekja að stærstum hluta til þessarar undirmálslánakreppu.
Í stuttu máli gengur sagan út á að lánað var til fólks sem annars var álitið vanhæft en með hærri vöxtum en gengur og gerist. Hugsunin var að um áhættufjárfestingu væri að ræða og aukinni áhættu fylgja hærri vextir. Þessi fjárfesting er réttlætt, rétt eins og aðrar áhættufjárfestingar út frá tölfræðilegum módelum sem sýna fram á að þó að stór hluti fjárfestinganna tapist þá nægi sá hluti sem skilar sér, til að dekka bæði tap og skila gróða, vegna hinna háu vaxta sem lánin bera. Það þótti síðan vera gulltrygging í dæminu að á bakvið lánveitingarnar lágu þær fasteignir sem einstaklingarnir fengu lánað til að kaupa. Vandamálið var ekki að lántakendurnir gátu ekki staðið í skilum, það var vitað fyrir fram að flestir réðu ekki við afborganir af þessum lánum (hvernig mætti annað vera þegar almenna lánakerfið hafði hafnað þeim á þeim forsendum að þeir gætu ekki staðið í skilum með afborganir af lánum á lægri vöxtum?). Vandamálið sem er að skapa þessa kreppu er að nánast engin eftirspurn er eftir þeim fasteignum sem bankarnir hafa gert upptækar af fólki sem er í vanskilum. Við erum að tala um fleiri þúsundir fasteigna. Fasteignamarkaðurinn í Bandaríkjunum er hruninn; og munum: kreppa er skortur á fjármagni og fjármagn er ávísun á verðmæti.
Við sjáum þá að bankarnir (fjárfestar) hafa bundið mikið fé í fasteignum sem þeir geta ekki leyst út nema með miklu tapi. Morgan Stanley afskrifaði 4.900.000.000 dollara, UBS(Union Bank of Switzerland) afskrifaði 22.600.000.000 dollara, Merryl Lynch 7.900.000.000 dollara, Citigroup 3.200.000.000, Goldman Sachs 1.500.000.000, Bank of America 1.400.000.000, Wachovia 1.300.000.000, HSBC(Hongkong and Shanghai Banking Corporation Limited) 10.600.000.000. Samtals hafa bara þessir bankar afskrifað því um:
53.000.000.000 dollara,
fimtíuog þrjúþúsundmilljón dollara eða 53 milljarða,
sem eru u.þ.b. 3.311.868.000.000 íslenskar krónur eða 3,3 billjónir ef að metric kerfið hjá mér er rétt. Til að setja þessar tölur í samhengi þá voru skatttekjur íslenska ríkisins samkvæmt fjárlögum 2007 - 343.222.600.000. Við erum sem sagt að tala um nær tífalda þá upphæð og þetta er bara afskriftirnar á árinu fyrir þessa banka. Hvað er að gerast hérna?
Það er einhver að tapa peningum en þeir hverfa bara ekki, þetta er jafna og ef að það er tap öðru megin er gróði hinum megin. Við munum eftir kreppudæminu frá Þýskalandi þá græddu sigurvegararnir fé en þjóðverjar töpuðu fé. Hver er að græða á undirmálslánakreppunni núna og hverjir eru að tapa?
Nú er komið að því að útskýra eitt grundvallaratriði í hagfræði: Hagkerfið er lokað kerfi. Rétt eins og er um rafrás eða vatnskerfi í bíl þá er um hringrás að ræða í lokuðu kerfi. Fjármagncirculerar í kerfinu og hverfur einfaldlega ekki þegar um tap er að ræða; það getur, hins vegar, skipt um hendur. Sömuleiðis vex fjármagn ekki í kerfinu, því eins og við munum er fjármagn ávísun á takmörkuð gæði, þ.e. verðmæti. Á löngum tíma getur það breyst hvað er verðmæti og staðbundið getur eitt þótt verðmætara á einum stað en öðrum, t.d. er vatn verðmætara á þurrum eða menguðum stöðum en t.a.m. Íslandi. Aðalatriðið, í þessu sambandi hér, er hins vegar að verðmæti aukast ekki yfir nótt í hagkerfinu og hverfa ekki heldur. Í hagfræði er talað um framleiðslu sem einn grunnþátt verðmæta og þá verðmætaframleiðslu. Í okkar dæmi og skýrir það fyrirsögn þessara skrifa, við verðum að líta til samhengis milli framleiðslu (verðmætanna) og kreppunnar (fjármagnsskortsins). Þessar afskriftir undirmálslánanna (e. subprime writedown) eru fyrst og fremst í Bandaríkjunum. Það er hrun fasteignamarkaðarins í Bandaríkjunum sem málið snýst um. Hvers vegna er sá markaður að hruni kominn? Hann er að hruni kominn vegna þess að kaupmáttur almennings nær ekki að dekka hann. Fólk getur m.ö.o. ekki keypt sér fasteign í síauknum mæli. Hvers vegna ekki? Jú, það er vegna þess að aukið atvinnuleysi herjar á. Framleiðslan(verðmætasköpunin) er í síauknum mæli búin að færast til Kína, Mexikó og annarra láglaunalanda þetta er samhengi hlutanna.
Það getur verið hagkvæmt fyrir fyrirtækin að færa framleiðsluna til láglaunalanda og það getur komið sér fyrir vel neytandann að þurfa að borga minna fyrir vöruna, en allt er það til einskis ef að fólk missir atvinnuna og þar með kaupmáttinn. Markaður hefur tapast og framleiðslan(verðmætin) hefur færst til. Það er sem sagt samhengi milli þess að æ fleiri Kínverjar efnist og þess að æ fleiri bandaríkjamenn geti ekki keypt sér húsnæði. Þessi kreppa á húsnæðismarkaðnum í Bandaríkjunum veldur svo keðjuverkun. Fjárfestar, eins og áðan sagði hugðu sig trygga með fasteignaveðum en þar sem enginn er til að kaupa þessar uppítökufasteignir verður að lækka verðið og fjárfestingin glatast. Eins og ég sagði áðan varðandi mismunandi verðgildi vatns eftir stöðum, þá gildir það sama hér að fasteignirnar eru verðmætar þegar markaður er fyrir þær en verðlausar ef að enginn er eftirpurnin. Þetta er það sem Adam Smith kallaði hina ósýnilegu hönd. Það þýðir m.ö.o. ekkert að ætlast til að fá 50 milljónir fyrir hús ef að fólk getur bara borgað 25. Í hagfræðinni er það kallað að markaðurinn sé í jafnvægi (equilbrium), þegar verðið er það sama og neytendur eru tilbúnir að (geta) borga.
Við sáum þetta sama gerast hér á íslenska íbúðamarkaðnum nýverið. Lánaframboðið jókst skyndilega og tímabundið lækkuðu meira að segja vextir, þetta leiddi til þess að fleiri gátu keypt sér húsnæði, sem aftur varð til þess að húsnæði á markaðnum óx í verði. Aðalatriðið sem huga verður að í þessu sambandi er að kaupmáttur fólks óx ekki og það gat því ekki borgað meira (eftirá varð aukin eftirspurn vissulega til þess að menn fengu aukna vinnu við að byggja húsnæði, sem jók kaupmáttinn á meðan það varði, en til langs tíma eykur það ekki kaupmáttinn og ýfir í raun bara vandann á heildina litið).
Það sem gerðist var að fólk gat fengið lánað meira fé og lánað verandi lykil orðið. Markaðsmódelið segir að kaupmáttur ráði verði og þar með framboði en hér, eins og í Bandaríkjunum, óx kaupmáttur ekki en verðið óx. Búmerangið í dæminu er svo að eftir því sem fleiri vildu kaupa, óx eftirspurn eftir fjármagni sem kallaði svo aftur á hærri vexti, sem aftur kallaði á meira framboð á fjármagni(fjárfestar sáu sér gróðavon í því að lána eftir því sem vextir hækkuðu). Það sem síðan gerist, þegar blaðran springur, er að menn hætta að geta borgað af lánunum (aukið framboð af fjármagni varð til þess að fleirum og fleirum var lánað, meira og meira, sem á endanum verður auðvitað til þess að byrjað er að lána þeim sem ekki geta borgað, samfara því að fólk reisir sér burðarás um öxl, samdráttur verður og kaupmáttur fellur og dómínóast upp eftir kaupmáttarstiganum). Bankarnir taka svo fasteignirnar til sín, en það er bundið fé og þeir reyna því að selja. Vandamálið er bara að markaðurinn er þar með hruninn. Þegar lánað var til fasteignakaupanna var verð í hámarki þar sem næg var eftirspurnin. Þegar hingað er komið er aftur á móti hverfandi eftirspurn en framboð í hámarki og, þar með, verð í algeru lágmarki. Bankarnir neyðast til að selja fasteignirnar á útsölu og fjárfestirinn hefur tapað fénu. En hvað varð um allt féð og hverjir græddu á móti tapinu? Hér verður við að bakka til skilgreininganna um hvað sé fjármagn: Fjármagn = ávísun á verðmæti. Við verðum s.s. að spyrja okkur að því, hvert sé verðmæti fasteignanna. Einfeldningur gæti haldið að verðmætið væri það sem það kostaði að byggja + landið + það sem það kostar að selja + skattar. En það er ekki svo eins og ég hef ýjað að, heldur er verðmæti fasteignarinnar aðeins eins mikið og markaðurinn er tilbúinn/getur borgað.
Til að átta sig á því hvað hér er að gerast þurfum við að búa okkur til smá dæmi:
Ímyndum okkur að við værum svolítið gáfuð og ættum fullt af peningum en myndum vilja ávaxta peningana vel. Væri ekki sniðugt að kaupa fullt af fasteignum á ákveðnu svæði þar sem þær væru ekki sérlega dýrar vegna lítillar eftirspurnar og skapa svo í kjölfarið mikla eftirspurn með því að veita öllum sem vildu lán? Þetta yrði til þess að hækka verðið á fasteignunum og við myndum græða helling, en ofan í kaupið, myndi búmeranginn leiða til hækkandi vaxta sem myndi draga gráðuga fjárfesta inn í dæmið sem enn yki eftirspurnina eftir fasteignum, við myndum upplifa endursölur á markaðnum en að þessu sinni yrði nýi kaupandinn að endurfjármagna og greiða upp gamla lánið sem við sáum um að veita. Þetta yki enn og aftur eftirspurnina og verðið. Á endanum væri verðið komið upp úr öllu hófi og enginn gæti keypt sér húsnæði og enginn gæti staðið í skilum vegna allt og hárra vaxta og allt myndi hrynja nema að ég myndi hafa ávaxtað fé mitt um, segjum ... 53.000.000.000 dollara!
Ég held að ef að ég væri nógu sniðugur og ætti nóga peninga, myndi ég gera þetta til að ávaxta mitt fé.
Ég sagði áðan að verð fer eftir eftirspurn en verðmæti fer eftir framboði. Flestir þekkja til OPEC samtaka olíuframleiðsluríkja. Þessi samtök eru mynduð til að stjórna framleiðslu/framboði á olíu til að hafa áhrif á verð, vanalega til hækkunar. Hitt þekkir svo hver markaðsfræðingur og sölumaður að líka er hægt að hafa áhrif á eftirspurn til að hækka verð. Í markaðsfræðum er það kallað að búa til virðisauka. Tökum dæmi af gallabuxum. Allir vita að gallabuxur eru ekki það sama og gallabuxur; við erum að tala um það sem á ensku er kalla branding. Diesel gallabuxur eru t.a.m. mun dýrari en sambærilegar gallabuxur sem heita Auto.
Það er sköpun aukinnar eftirspurnar sem við erum að fást við í okkar dæmi. Að þessu sinni var ekki um branding að ræða, heldur jók aukinn aðgangur að lánsfé eftirspurnina. Eftirspurnin var aukin og verðið óx þar með. En þetta var aðeins tímabundin aukning sem gat ekki annað en haft hrun í för með sér = kreppu.
Það sem að við verðum að líta til þegar við svörum spurningunni: Hver græddi á móti tapinu er hver átti fasteignirnar fyrir, hver keypti þegar verðið var lágt en seldi þegar verðið var hátt og við vitum að það var ekki undirmálsfólkið sem fékk undirmálslánin til að kaupa.
Þór Þórunnarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Helvítis skítapakk.
29.12.2007 | 19:44
Það er gjarnan sagt þegar leysa skal glæpi að líta bera fyrst til þess er mestan hagnað hafi af glæpnum. Það augljóslega Pervez Musharraf, einræðisherra og bandamaður BNA sem mestan hag hefur að því að ryðja Bhutto úr vegi. Síðan er hægt að nota morðið á henni sem afsökun til að herða enn tökin á stjórnartaumunum og þrengja enn um stjórnarandstöðuna og frelsi einstaklinganna, allt í nafni baráttunnar gegn hryðjuverkum. Ef grunur minn reynist réttur er hér á ferðinni ein svívirðilegasta aðgerð sem ég hef séð og allt í nafni valdagræðgi. Réttast væri að alþjóðasamfélagið tæki höndum saman og útskúfaði þessum manni og gerði allt sem í sínu valdi stæði til koma á hlutlausri utanaðkomandi rannsókn og, ef að líkum lætur, draga hann fyrir rétt.
Okkur ber öllum skilda til að standa ekki aðgerðalaus hjá sem áhorfendur af þessum hildarleik. Við eigum líka að mótmæla harðlega herforingjastjórninni í Burma sem og öllum slíkum stjórnum alls staðar þar sem þær viðhafast. Hvert og eitt okkar getum við lítið gert en öll saman erum við máttugri en nokkur herforingjastjórn.
Niður með Pervez Musharraf niður með alla þá sem hann styðja - lifi lýðræðið!
Þór Þórunnarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um útlendinga
29.12.2007 | 13:06
Þó svo vart sé hægt að tala um undirheima, þegar ekið er á fólk með dauðalvarlegum afleiðingum, stungið af og fólk fengið til að ljúga upp fjarvistasönnun, þá sýnist mér að slík dæmi bendi til þess að fólk, sem svona geri,i beri sáralitla virðingu fyrir samfélaginu og því fólki sem það byggir. Flestir vita að austur-Evrópumenn ráða mest öllum eiturlyfjamarkaðnum hér á landi og nýleg frétt í Fréttablaðinu fullyrðir að, merkja megi aukið áræði þegar kemur að smygli eiturlyfja til landsins. Í sama blaði, sama dags, segir að aldrei hafi verið gert upptækt jafn mikið magn kókaíns en á því ári sem nú er að líða.
Við heyrum af litháum sem dæmdir eru fyrir stórfelldan búðaþjófnað (þjófnaður er stærsti þáttur rýrnunar í smásöluverslunum og þessi rýrnun er að sjálfsögðu sett inn í vöruverðið sem ég og þú borga). Þessir litháar fengu síðan væga dóma og stungu af af landi brott um leið og tækifæri gafst án, þess að afplána dóma. Bótakröfum verslananna var svo vísað frá dómi hvaða skilaboð er hér verið að senda?
Ég las um daginn frétt um að erlendir ríkisborgarar fengu ekki lengur að versla á raðgreiðslum kreditkorta, vegna fjölda dæma um að þeir stæðu ekki í skilum, heldur hyrfu af landi brott eftir að hafa keypt fyrir stórar upphæðir. Sögur ganga í samfélaginu um nauðganir og ofbeldi sem tengjast austur-Evrópumönnum. Nýverið var sagt frá því í fréttum að maður hafi verið handtekinn, ofurölvaður, við eignaspjöll á Hverfisgötunni í Reykjavík á Þorláksmessu. Maður þessi hafi svo kinnbeinsbrotið lögreglumann, er hann varðist handtöku; ofbeldismaðurinn reyndist vera af austurevrópsku bergi brotinn. Það er svo áberandi í fréttaumfjöllun að reynt er að taka það ekki fram hverrar þjóðar ofbeldismenn, innbrotsþjófar og eignaspellvirkjar séu; væntanlega til að skapa ekki úlfúð milli aðfluttra og okkar sem hér eru fyrir. Stutt leit á vefnum gefur þó fjöldann allan af niðurstöðum, sem renna stoðum undir að víða er pottur brotinn þegar kemur að austur Evrópubúum búsettum hér á landi. Hér eru bara nokkur nýleg dæmi úr fréttavefjum:
Víkurfréttir | 25. des. 2007 00:00
Rússi gerði fimm lögreglubíla óstarfhæfa
mbl.is/Innlent | 21. des. 2007 00:00
Tveir Litháar ákærðir fyrir nauðgun
Vísir, 14. nóv. 2007 16:44
Hæstiréttur staðfestir gæsluvarðhald í nauðgunarmáli
Hæstiréttur staðfesti í dag að tveir Litháar sem grunaðir eru um að hafa nauðgað konu í í húsasundi ...
mbl.is/Innlent | 22. nóv. 2007 00:00
Fíkniefnabrotum fjölgaði um 25% á milli ára
Allt í lagi, höfum eitt á hreinu; ég er ekki að segja að pólverjar, litháar, eða erlendir ríkisborgarar almennt, séu eitthvað verra fólk eða hneigist almennt til afbrota. Það sem ég er að segja er að það sé lágmarkskrafa að menn brjóti ekki af sér ætli þeir sér að búa hér. Geri menn það þá finnst mér að refsa eigi harkalega fyrir það, senda menn úr landi og setja í endurkomubann; og þá meina ég SENDA MENN ÚR LANDI! Ég er ekki sá eini sem skil ekki þessa linkind gagnvart Litháanum sem kom hingað til lands eftir að hafa afplánað hluta dóms, í alvarlegu líkfundar og fíkniefnamáli, í trássi við endurkomubann, með amfetamín á sér, augljóslega ætluð til sölu. Ég segi: við eigum nóg með okkar lögbrjóta, nauðgara, ofbeldismenn og þjófa við þurfum ekki að flytja slíkt pakk inn. Svo er það þetta með fangelsi. Fælingarmáttur íslenskra fangelsa er nánast enginn. Ég fullyrði að þar hafi menn það tiltölulega gott; menn fá frítt að eta, frítt húsaskjól, geta stundað tómstundir og líkamsrækt án þess að hafa áhyggjur af því að mæta til vinnu. Ef að menn er þreyttir, þá sofa menn út og ef að veður eru vond, þá hanga menn inni þetta er betra en margur frjáls maðurinn býr við. Þegar svo litið er til fangelsa austur Evrópu, þá sér það hver sá er vill, að það að vera dæmdur til fangelsisvistar á Íslandi, er hreint ekki svo slæmt. Tökum svo inn í dæmið að ef þú ert lithái sem getur keypt amfetamín, á nokkur hundruð krónur grammið í Litháen og selt á Íslandi fyrir mörg þúsund, þá er sá fórnarkostnaður, sem hugsanleg fangavist í íslensku fangelsi er, hreint ekki svo óásættanleg hugmynd.
Mér gremst það einfaldlega, að menn sjái gróðavon í því að koma til Íslands, í glæpsamlegum tilgangi en hræðist það ekki að verða gripnir. Hvort sem við erum að tala um aukningu í nauðgunum eða ekki, hvort sem við erum að tala um skipulagða glæpastarfsemi, eða ekki, þá erum við hér að tala um fórnarlömb. Ungmenni verða fórnarlömb fíkniefnasala og konum er nauðgað, eignaspjöll unnin og líkamsmeiðingar gerðar. Sé um að ræða erlenda ríkisborgara, eða ekki, þá skal refsað harkalega fyrir þetta; sé hins vegar um að ræða erlenda ríkisborgara, þá geri ég þá kröfu að, brot gegn hegningarlöggjöfinni, kalli á útskúfun úr íslensku samfélagi, til frambúðar. Það er lágmarkskrafa af þeim sem hér vilja búa og starfa, að þeir fari að íslenskum lögum. Geri menn það ekki, þá hafi þeir þar með fyrirgert rétti til að búa hér og starfa. Það þarf að senda skýr skilaboð til aðfluttra: Brjótir þú gegn hegningarlöggjöfinni, er þér refsað harkalega og þú útskúfaður frá Íslandi, til frambúðar.
Mér finnst að við þurfum að endurskoða allt varðandi atvinnu- og dvalarleyfi hér á Íslandi. Samningur okkar við Evrópusambandið ætlar að hafa þær alvarlegu aukaverkanir sem margir bentu á á sínum tíma. Ég sé ekkert að því að fólki sé gert að framvísa hér sakavottorði og að íslenskum stjórnvöldum sé gert kleift að útiloka að glæpamenn setjist hér að. Hvaða vit er í því að dæmdir kónar geti komið hér með hreinan skjöld og athafnað sig hér í friði með eiturlyfjasölu, mannsal, ofbeldi og annað fyrirlitlegt? Ég er að fá upp í kok af pólitískri rétthugsun og fáránlegu hugsjóna-frjálslyndi sem orsakar það að líf okkar allra er verra en það þyrfti að vera.
Bjóðum fólki að setjast hér að, sé vinnu fyrir það að hafa, en fyrirmunum okkur að fá hingað til lands glæpalýð sem enga virðingu hefur fyrir íslensku samfélagi; sem ekki ætlar sér að vinna fyrir sér á heiðarlegan hátt og hefur enga ætlan eða vilja til að aðlagast. Sjáum til þess að þeir sem hingað flytjist geti aðlagast íslensku samfélagi og læri að tjá sig á íslenskri tungu, látum hina fara. Íslenskan ríkisborgararétt á ekki að gefa léttvægt. Það á að vera erfitt að öðlast ísenskan ríkisborgararétt og einungis að veita hann þeim sem sýnt hafi vilja og viðleitni til að verða íslenskir. Þetta misskilnings frjálslyndisprútt er að leysa hér upp samfélagið og það er bara rétt að byrja sanniði til.
Af hverju þurfum við íslendingar alltaf að gera sömu mistökin og hafa áður verið gerð af öðrum? Viljum við fá hér samfélag sem stendur saman af þjóðarbrotum sem ekki lyndir saman? Viljum við fá hér innflytjenda-gettó? Viljum við upplifa hér annarrar- og þriðjukynslóðar innflytjendur sem finna sig ekki í samfélaginu og lenda því upp á kant? Er ekki hægt að líta til nágrannalandanna og koma í veg fyrir að gera sömu mistökin og þau? Ég fullyrði það að ef að ekki verður tekið til í þessum málum, á skörulegan hátt og það fljótt, þá mun skapast hér grundvöllur fyrir öfgafulla þjóðernishyggju. Við sjáum þetta vera að gerast í nágrannalöndum okkar og þetta er hrein og klár afleiðing þessarar fáránlegu misskilnings-frjálslyndisstefnu í innflytjendamálum.
Með því að hleypa hér óheft inn í landið innflytjendum og sýna lindkind er kemur að lögbrotum gegn íslenskum lögum er ekki neinum greiði gerður hvorki íslendingum né þeim sem hingað flytjast.
Þór Þórunnarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.12.2007 kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Stríð og gróði.
19.12.2007 | 13:48
12% fjárlaga bara í hernaðarreksturinn í Afganistan og Írak. Þá á eftir að reikna með hefðbundnum rekstri alls herafla BNA, rekstur Pentagon, CIA, NSA o.s.frv. Þessi tala er svo stjarnfræðilega há að ég skil hana ekki. Við erum að tala um 4.431 milljarð íslenskra króna. Þá er að sjálfsögu ekki búið að minnast á kostnaðinn í mannslífum, kostnað annarra ríkja (t.d. Íslands) í þessum stríðum. Þetta er svívirðilegt, ekki síst í ljósi þess að ákveðnir aðilar sem ráða fjármálamörkuðum heimsins maka krókinn á stríðsrekstrinum.
Ég get ekki skammast mín nógu mikið fyrir Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson sem spyrtu íslendinga við þennan stríðsrekstur. Stríð leysir ENGAN vanda eins og hefur sýnt sig í þessu sambandi.
Ég ætla að benda enn og aftur á myndina Zeitgeist (linkur hér á síðunni) sem fjallar um stríðsgróða og mennina sem standa á bak við hann. Þetta er argasta skömm og hin mesta mannfyrirlitning sem hægt er að hugsa sér. Varlega áætlað er talið að um 80 þúsund Írakar hafi látið lífið vegna innrásar BNA og hinna viljugu þjóða, aðrar heimildir herma 785,957 , 3.894 bandaríkjamenn og um 300 hermenn annarra ríkja.
Enginn veit með vissu hversu margir Afganir eru fallnir en talað er um 3.485 óbreyttir borgarar hafi fallið fyrir sprengjum NATO nokkru fleiri en bandaríkjamennirnir sem létust 11. september.Talið er að 8.587 afganskir hermenn fallið í stríðinu við Talibana. Kynnið ykkur tölurnar þær eru á netinu og svo vil ég vekja athygli á því að þessar tölur koma aldrei fram í fréttatímum stóru fréttastöðva heimsins - af hverju skyldi það nú vera?
Það verður að stoppa þessa hernaðarhauka í Washington sem græða á mannlegum harmleik og bera enga virðingu fyrir lífi manneskjunnar.
Þór Þórunnarson
Öldungadeildin samþykkir fjárlagafrumvarp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Zeitgeist
18.12.2007 | 23:35
Nú hefur mikið verið bloggað um trúmál og siðferði undanfarið. Ég hef aðeins tjáð mig um þetta hér á blogginu mínu en vil benda fólki á áhugaverða mynd "Zeitgeist". Þessi mynd fjallar ekki einungis um trúmál en bendir samt á það hvernig trú er tengd stjórnmálum. Það er besta leiðin til að stjórna fólki að fá það til að trúa alsjáandi, alvitandi veru sem refsar ef að brotið er gegn boðorðum. Trú er svo líka ekki bara spurning um guð eða spámenn heldur líka hvað er rétt og rangt, hverjir eru vondu kallarnir og hverjir eru þeir góðu.
Allavega þetta er sagt á snilldarlegan hátt í myndinni svo að endilega kíkið á hana á netinu!
http://zeitgeistmovie.com/
Þór Þórunnarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.12.2007 kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um Evru og Evrópusambandið
16.12.2007 | 12:14
Jæja þá er best að tjá sig um þá fullyrðingu margra að upptaka Evrugjaldmiðilsins á Íslandi geti einungis átt sér stað samfara inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
Ég verð að segja að aldrei hef ég heyrt nein haldbær rök fyrir þessu samhengi - af hverju? - Spyr sá sem ekki veit. Ég ætla hér, hins vegar, að telja upp nokkrar ástæður fyrir því að fullkomlega eðlilegt sé að taka upp Evru á Íslandi án þess að þurfa að ganga í Evrópusambandið:
Það er í fyrsta lagi staðreynd að nokkur ríki, t.a.m. Monako, Andorra og Vatíkanið nota Evru án þess að vera í Evrópusambandinu.
Í öðru lagi er það okkur í sjálfs vald sett, bæði sem einstaklingar og sem þjóð, með hvaða gjaldmiðil við verslum; við gætum notað kríubein ef að við kysum svo. Það getur enginn bannað okkur að nota Evru eða nokkurn annan gjaldmiðil - málið er bara svo einfalt. Tæknileg útlistun á því hvernig hægt væri að skipta frá íslensku Krónunni í Evru er ekki hlutverk þessara skrifa en ég fullyrði að það er hægt án mikilla vandkvæða.
Í þriðja lagi þá erum við í efnahagsbandalagi við Evrópusambandið (EEA) í gegn um EFTA og því full rök fyrir því að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil á sameiginlegu efnahagssvæði.
Heimsvæðing (globalisering); við búum við aukin alheimsviðskipti og smækkandi heim. Til langs tíma stefnir allt í einn gjaldmiðil, sem er, þegar grannt er skoðað, eðlilegt og auðveldar viðskipti til muna. Ef að menn setjast niður og hugsa málið í gegn sjá menn að í dag er sameiginlegur gjaldmiðill notaður þegar lönd eiga með sér viðskipti, hvort heldur lönd innan sama efnahagsbandalags eður ei; alþjóðaviðskipti með olíu t.d. höndlast með dollar engum dettur í hug að fullyrða að íslendingar geti ekki greitt fyrir olíu með dollar vegna þess að íslendingar eru ekki í Bandaríkjunum. Þannig að ef að við getum skammlaust notað Evru eða Dollar í milliríkjaviðskiptum án þess að vera í þessum bandalögum mælir EKKERT á móti því að við getur notað þessa gjaldmiðla einnig í innanríkisviðskiptum án þess að vera í þessum bandalögum
Þetta eru örfá rök sem sterklega benda til þess að á Íslandi sé vel hægt og jafnvel eðlilegt og rökrétt að versla með Evru án þess að þurfa að ganga í Evrópusambandið, hvað þá meira að segja, þurfa að taka afstöðu til Evrópusambandsins.
Stundum hefur mér fundist sem að þeir aðilar, sem halda því fram að ekki sé hægt að versla hér með Evru án þess að ganga í Evrópusambandið, slái þessu fram til þess eins að eyða umræðunni, svona eins og að þurfa ekki að verja sína afstöðu. Það er bara sagt, vitandi það að meirihluti þjóðarinnar er mótfallin inngöngu í Evrópusambandið: Til að taka upp Evru þarf að ganga í Evrópusambandið! og þar með þarf ekki að ræða það meir. Upphrópunarsleggjudómur til að afvegaleiða umræðuna og slá ryki í augu fólks. Staðreyndin er, hins vegar sú, að það þarf EKKI að ganga í Evrópusambandið til að versla hér með Evru eða að nota Evru í milliríkjaviðskiptum, eins og ég hef hér fært rök fyrir. Spurningin um inngöngu í Evrópusambandið er því algerlega allt annað mál og ber að ræða sérstaklega. Það er því fullkomlega eðlilegt, málefnalegt og sjálfsagt að hafa þá afstöðu t.d. að vilja ekki ganga í Evrópusambandið en samt taka hér upp Evru sem gjaldmiðil.
Og þá, lítillega, að spurningunni um það hvort Íslendingar ættu að ganga í Evrópusambandið. Lítum á nokkrar fullyrðingar sem oft eru hafðar uppi þegar umræðuna ber á góma:
Staðreyndin er sú að við erum í efnahagsbandalagi við Evrópusambandið og þurfum þess vegna að aðlaga okkur að Evrópusambandinu og taka hér upp allar reglur, lög og reglugerðir sem Evrópusambandið setur varðandi markaði hvort sem okkur líkar betur eða verr. Margir hafa bent á að eins og staðan er í dag þurfum við að beygja okkur í öllu undir ákvarðanir Evrópusambandsins en höfum nánast enga möguleika til að hafa áhrif á hvaða ákvarðanir séu teknar þetta eru vissulega rök fyrir því að betra sé að vera innan Evrópusambandsins en utan.
Full aðild að Evrópusambandinu veitir, ekki bara áhrif og atkvæðarétt, heldur aukin rétt og tækifæri, t.a.m. til náms og styrkja.
- Að ganga í Evrópusambandið er að afsala sér einhverju af sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar.
Já vissulega, en de facto er að það höfum við þegar gert það með inngöngu í EFTA og EEA samningnum við Evrópusambandið. Íslendingar missa yfirráðaréttinn yfir auðlindum Íslands ef að við göngum í Efnahagsbandalagið t.d. sjávarafla og jarðvarma.
Satt best að segja er það liðin tíð að fiskistofnarnir við íslandsmið tilheyri þjóðinni allri og má það mig einu gilda sem almenns borgara þessa lands hvort að gróði fiskveiðanna fer í vasa íslendings eða útlendings. Ég er sannfærður um það að, segjum að t.d. Portúgali ætti hér kvóta í stað Íslendings, þá kæmi það út á eitt fyrir það fólk sem hefur atvinnu sína af fiskveiðum og vinnslu. Íslendingurinn reynir að skera niður hjá sér og hagræða, er jafn nískur eða örlátur við starfsfólk sitt og Portúgalinn. Hver á fyrirtækið Granda og hve stóran hlut, Íslendingur eða ekki, kemur á sama stað niður fyrir mig og allan almenning.
Annað mál gildir um jarðvarma og raforkuframleiðslu. Þessar auðlindir eru að stórum hluta til í almannaeigu. Hér eru þó blikur á lofti og margt í því sambandi sem að við þurfum að aðlaga okkur að vegna EEA samningsins og tilskipanna Evrópusambandsins. Við þurfum að einkavæða á mörgum sviðum og aðskilja dreifiveitur frá framleiðslu. Í rauninni myndum við þurfa að beygja okkur undir einkavæðingarkröfu raforkuframleiðslunnar ef að hún kæmi frá Evrópusambandinu. Menn tala um vatnsréttindi og hverjir eigi þau. Menn tala um hverjir eigi hálendi Íslands. Ég hef ekkert á móti því að land, jarðvarmi, fallvötn, strandir, fiskistofnar, hálendið og vatnsból séu í almennings eigu Íslendinga, en ef að einkaeignarétti verður komið á þessu þá er mér alveg sama hvort það er Jón Ásgeir eða Richard Branson sem eignast þetta. Spurningin um yfirráðarétt auðlinda Íslands er því ekki endilega spurningin um Evrópusambandið eða ekki, heldur jafnframt EFTA eða ekki og um einkavæðingu eða ekki.Valdið fer frá fólkinu, allt drukknar í skrifræði og fáir eða nokkrir hafa raunverulega yfirsýn yfir það sem er að gerast.
Hérna eru sterkustu rökin sem ég sé gegn því að ganga í Evrópusambandið. Það get ég hreinlega vitnað fyrstu hendi. Ég fór einu sinni í námsferð til Brussel þegar ég var í námi til að kynnast innviðum Evrópusambandsins og hvílíkt skrifræði. Það er veruleg hætta á því að embættismannakerfið sé hreinlega of valdamikið og of þungt. Kostnaðurinn er gífurlegur og Evrópuþingið er of langt frá fólkinu og nánast ómögulegt að hafa eitthvert aðhald.Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins.
Hagfræðilega og stjórnsýslulega er Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins fáránleg svo að það sé sagt hreint út. Í stuttu máli gengur hún út á styrki til handa bændum, bæði í formi niðurgreiðslna sem og sölutrygginga á tilteknu magni framleiðslunnar. Að auki eru alls kyns ákvæði varðandi framleiðslustýringu t.a.m. ef að sambandið vill draga úr framleiðslu á einhverri matvælategund þá fá bændur borgað fyrir hvern hektara lands sem ekki framleiðir þessa tilteknu matvælategund. Þetta ásamt því að Evrópusambandið greiðir landeigendum fyrir að rækta skóg á landareignum sínum gerir það t.d. að verkum að ríkasta manneskja Bretlandseyja, drottningin sjálf, er stærsti styrkþegi landbúnaðarstyrkja í Evrópusambandinu. Taka verður þó tillit til þess að landbúnaðarstefnunni var komið á í kjölfar síðari heimstyrjaldar til að tryggja næga matvælaframleiðslu innan Evrópu og koma í veg fyrir hungursneið, sem og þess að nýjar þjóðir Evrópusambandsins njóta ekki þessara styrkja á sama hátt og þær eldri. Sömuleiðis verður við að líta til þess að mikill vilji er innan sambandsins að breyta landbúnaðarstefnunni og láta markaðinn stýra á mun meiri hátt en nú er. Það er aftur á móti stór spurning hvort raunverulega sé hægt að breyta þessu og enn stærri spurning hversu hratt það gæti gerst. Hér eru þó innifalin tvö veigamikil atriði sem ber að taka tillit til þegar hugsanleg aðild Íslands er skoðuð. Í fyrsta lagi er nú kominn vísir að lagskiptingu innan sambandsins (sumar þjóðir njóta hærri styrkja en aðrar) og í öðru lagi; þeir styrkir sem þó enn bjóðast myndu vel nýtast íslenskum bændum þar sem styrkir til jaðarbyggða eru talsverðir.Valdahlutföll.
Það er ákveðin skekkja þegar kemur að vægi þjóða innan Evrópusambandsins. Sumar þjóðir eru valdameiri en aðrar og er það eðlilegt í ljósi stærða þeirra. Sumar þjóðir hafa þó óðeðlilega mikið vald miðað við stærð sína a.m.k. að áliti margra. Þetta gæti verið gott fyrir litla þjóð eins og íslendinga en vont ef að t.a.m. atkvæðavægi á aðildarþjóða á Evrópuþinginu réðist fyrst og fremst af fólksfjölda viðkomandi þjóðar eins og háværar raddir eru um innan sambandsins. Það er líka varhugavert að upp sé kominn vísir að gömlu þjóðunum og nýju þjóðunum, sem hafa mismunandi réttindi innan sambandsins.
Hér hefur verið farið yfir nokkur rök, með og á móti aðild að Evrópusambandinu, og auðvitað ekki hægt að segja að aðild væri bara til bóta eða bara til vansa. Þetta er margslungið mál og ber að fara yfir það af yfirvegun. Persónulega vildi ég gjarna sjá Ísland sem algerlega sjálfstæða þjóð og það yrði þá að ganga úr EFTA. Ég sé fyrir mér að taka upp viðræður um fríverslun beint við Evrópusambandið í stað þess að gera það í gegnum EFTA, jafnframt því að leggja meiri áherslu á viðræður við NAFTA, Kína og fleiri aðila. Ég held að við ættum að geta náð fram ásættanlegum fríverslunarsamningum við Evrópusambandið án þess að þurfa að gangast undir allt það regluverk sem að EEA hefur í för með sér. Þannig að málið fyrir mér er þetta: Annað hvort raunverulegt sjálfstæði og ganga þess vegna úr EFTA og rifta efahagssamningnum við Evrópusambandið, eða hreinlega að ganga í Evrópusambandið. Ég er meira á því að viðhalda sjálfstæðinu. Ég held að Íslendingar myndu hagnast á því sem og heimurinn allur að hafa hérna litla eyju á miðju Atlantshafinu sem er sjálfstæð og utan bandalaga; rétt eins og Sviss er sjálfstæð eyja í miðri Evrópu.
Það góða í þessu er samt það, eins og ég sagði í upphafi, að spurningin um upptöku Evru er ekki spurningin um inngöngu í Evrópusambandið.
Þór Þórunnarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Króna og vextir
15.12.2007 | 18:34
Þá ætla ég að tjá mig aðeins um íslensku Krónuna og hugsanlega upptöku Evrunnar.
Það er staðreynd að fleiri og fleiri fyrirtæki, sumir segja öll stóru útrásarfyrirtækin svo kölluðu, sem og mörg meðalstóru fyrirtækin, séu að fjármagna sig í dag í erlendum gjaldmiðlum t.d. Evru, Jenum eða Dollar. Hvers vegna það? Jú vegna þess að leitað er í lægri vexti erlendis sem og aukinn stöðugleika, en eins og allir vita hefur Krónan sveiflast svakalega sem gerir allar áætlanir og viðskipti erfið þegar átt er í viðskiptum við útlönd. Ef að fyrirtæki hagnast á því að leita til útlanda eftir fjármögnun þá gildir hið sama að sjálfsögðu um alla aðra aðila í hagkerfinu, vegna þess að þegar allt kemur til alls höfum við öll tekjur okkar af viðskiptum við útlönd og greiðum stóran hluta gjalda okkar til útlanda. Vandamálið er s.s. óstöðugleiki krónunnar og háir vextir. Háir vextir eru vegna þensluhömlunartilrauna Seðlabankans og þenslan er vegna pólitískrar stefnu stjórnvalda og já ... lágra húsnæðisvaxta?!? Sveifla krónunnar fer svo eftir eftirspurn eftir henni, sem tengist að einhverju leiti útgáfu krónu- og jöklabréfa sem og eftirspurn íslendinga (þ.e. framboði krónunnar) í erlenda mynt, m.a. vegna þessara háu vaxta sem og verðbólgu- og vaxta- og gengisvæntingum erlendra fjárfesta. Nú síðast koma svo fréttir af því að A.S.Í. vill líta á möguleika þess að semja fyrir sína umbjóðendur að þiggja a.m.k. hluta launa í Evrum og fer sú umræða í kjölfar þess að fleiri og fleiri starfsmenn, ekki síst hærra upp í metorðastiganum, þiggi nú þegar stóran hluta launa sinna í erlendri mynt; nú tala menn um að Evran hafi komið inn um bakdyrnar.
Það er e.t.v. ekki von að maður botni mikið í þessari umræðu. Skoðum þetta aðeins nánar.
Það er ótvírætt að stór hluti þeirrar þenslu sem við búum við í dag á sér tvær meginrætur:
Um það var tekin ákvörðun að auka lánahlutfall íbúðarlána hjá Íbúðarlánasjóði í 90%. Þetta ásamt því að einkabankarnir tóku að lána til íbúðarkaupa, á lægri vaxtakjörum en tíðkast hafði, varð til þess að auka eftirspurn eftir fasteignum, sem leiddi til þess að íbúðarverð hækkaði. Þetta hafði auðvitað þensluáhrif; menn fóru að byggja í gríð og erg sem varð til að auka eftirspurn eftir iðnaðarmönnum og þenja byggingariðnaðinn. Sömuleiðis varð þetta til þess að margur ákvað að endurfjármagna hjá sér og nota í hreina neyslu (kaupa bíla, fara til útlanda o.s.frv.).
Bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði; það eitt og sér í okkar litla hagkerfi varð til þess að auka gífurlega eftirspurn eftir vinnuafli og auka þar með launaskrið í hagkerfinu. Svæðið á austurlandi upplifði aukna atvinnu, aukna eftirspurn eftir lóðum og húsnæði þar sem aðilar tóku að flykkjast þangað til að vinna við framkvæmdirnar og margfeldisframkvæmdirnar sem fylgdu.
Þessar tvær meginástæður þenslunnar og þar með hárra vaxta eru s.s. afleiðing pólitískra ákvarðanna. Það er með öðrum orðum ríkistjórninni að kenna að við búum við þetta háa vaxtastig sem er að sliga alla í hagkerfinu.
Nú verður að taka það fram að gjaldmiðillinn breytir ekki afleiðingum pólitískra ákvarðanna. Þensla og þar með verðbólga og þar með háir vextir hefðu orðið hvort við búum við Evru eða Krónu. Breytir það þá einhverju að taka hér upp aðra mynt t.d. Evru? Já; það myndi klárlega útiloka hinar slæmu sveiflur sem eru á Krónunni, sömuleiðis ef að erlend fyrirtæki sjá sér hag í því að taka lán í Evrum vegna betri vaxtakjara og þá sérstaklega þau sem hafa tekjur sínar í Evrum og þurfa þar með ekki að búa við gengissveiflur hvað endurgreiðslu varðar, þá hlýtur hið sama að gilda um alla í hagkerfinu. Aðalástæða þess að við hin ættum að varast erlenda lántöku er sú að tekjur okkar eru í Krónu sem sífellt eykst eða rýrnar í verði og hefur þar með sífeld áhrif á greiðslubyrðina. Ef að við fengjum tekjur okkar í Evrum eins og téð fyrirtæki væri það vandamál þar með úr sögunni og við myndum hagnast á því á sama hátt og þau að taka erlend lán.
Ef að við almenningur myndum í auknum mæli taka lán erlendis eins og fyrirtækin ynnist tvennt:
Í fyrsta lagi er líklegt að við fengjum sambærilega vexti og almenningi býðst á þeim markaðssvæðum sem við myndum sækja um lánið á, sem er eins og vitað er talsvert lægri en hér er.
Í öðru lagi myndi þetta í raun þýða aukna samkeppni um lántakendur á íslenska markaðnum sem aftur yrði væntanlega til þess að lækka hér vexti.
Nú togar þetta í skottið á sér og margir myndu segja að þetta myndi síðan hækka íbúðarverðið og auka þenslu sem myndi kalla á verðbólgu. En þar með stoppar líka lestin. Við sjáum að upptaka Evru myndi í raun þýða afnám Seðlabanka Íslands sem er sá aðili í þessari jöfnu sem er að hækka vextina. Það er í raun markvert að hafa í huga að samkvæmt hagfæðinni eru vextir í raun verð gjaldmiðilsins; peningar kosta og vextir endurspegla það. Þannig getur Seðlabankinn beitt tveimur aðferðum við að slá á þenslu; að hækka stýrivexti með handafli, og/eða að draga úr peningamagni í umferð. Hingað til hefur Seðlabankinn einungis beitt fyrri aðferðinni sem að hefur haft takmarkaða þensluhjöðnun í för með, bæði vegna þeirrar staðreyndar að margir hafa kosið að taka erlend lán sem og þess að aukinn kaupmáttur vegna framkvæmdanna og lægri vaxta, þegar einkabankarnir komu á húsnæðismarkaðinn kom á móti þensluhjöðnunartilburðum Seðlabankans. Nokkrir hagfræðingar hafa bent á þann kostinn að draga úr peningamagni í umferð sem mun vænlegri til árangurs og leikur mér, að minnsta forvitni á að vita hvers vegna sá kostur ekki hefur verið valinn.
Við erum fyrst núna að sjá að vextir eru farnir að bíta þegar framkvæmdunum fyrir austan er lokið og stórhækkun íbúðarverðs hefur séð til þess að draga úr eftirspurninni á húsnæðismarkaðnum. M.ö.o. hækkanir stýrivaxta virðast fyrst virka eftir að þenslan er gengin hjá. Það má því færa fyrir því nokkur rök að sú stefna Seðlabankans að hækka hér vexti, í mikilli óþökk almennings og iðnaðarins í landinu, hreinlega virki ekki eða illa og allt of seint.
Allt um það segjum að hér væri gjaldmiðillin Evra í stað Krónu og allt annað væri óbreytt hvernig hefði farið þá?
Við skulum leika okkur að því að segja að stóriðjuframkvæmdirnar hefðu farið af stað með tilheyrandi aukningu á eftirspurn eftir vinnuafli og launaskriði. Nú vilja Krónumenn segja að í þessari stöðu væri gott að hafa Seðlabanka til að hækka stýrivexti en til hvers? Í klassísku verðmyndunarmódeli þýðir aukin eftirspurn einfaldlega aukið verð og auknar framkvæmdir kalla á aukna eftirspurn eftir vinnuafli þetta er allt samkvæmt bókinni. Það eina sem er hægt að setja út á hér er það að spýta stórum framkvæmdum á stuttum tíma inn í lítið hagkerfi Seðlabanki eða ekki, Króna eða Evra.
Síðan getum við tekið hitt dæmið að auka lánshlutfall til íbúðarkaupa og hleypa einkabönkum á íbúðarlánamarkaðinn - bæði góðar aðgerðir í sjálfu sér en aðferðin eins vitlaus og hægt er að hugsa sér. Þetta þarf að gera í litlum skrefum ef koma á í veg fyrir þenslu. Og aftur er Seðlabankinn að reyna að bera í bætifláka fyrir vitleysuna.
Það að segja að Seðlabanki sé nauðsynlegur í þessu sambandi til að taka á þenslu er eins og að segja að nauðsynlegt sé að hafa ilmúðann við höndina þegar barnið gerir í bleyjuna svo ekki finnist lyktin. Væri ekki bara best að skipta á barninu og koma þar með í veg fyrir lyktina? Ég held því hikstarlaust fram að við Íslendingar getum vel án lítils innlends Seðlabanka og innlendra stýrivaxta verið. Við lifum í alþjóðlegu hagkerfi og búum við frjálst streymi fjármagns. Stór hluti tekna og gjalda stórra fyrirtækja, sem hér hafa aðsetur og íslendingar vinna hjá og eiga, eru í erlendri mynt. Við búum við gerbreytta heimsmynd frá því er Seðlabanki Íslands var stofnaður og þegar hin íslenska mynt var tekin upp þarf ég að segja annað en greiðslukort og veraldarvefur?
Þetta á ekki að flækjast fyrir neinum og látið enga sjálfskipaða spekúlanta afvegaleiða ykkur; ef að fyrirtæki, að ekki sé talað um stór vel rekin fyrirtæki, hagnast á því að fjármagna sig í Evrum frekar en Krónum þá munuð þið líka hagnast á því Jón og Gunna! Krónan kom ekki í veg fyrir þensluna en Krónan gerir það að verkum að flest okkar búum við allt of háa vexti þetta er staðreynd!
Það sem er aumkunarverðast í þessari þenslu/verðbólguumræðu er e.t.v. þetta: Í rauninni er verið að segja að aukinn kaupmáttur leiði til aukinnar neyslu, sem leiði til þenslu, sem leiði til verðbólgu og seðlabanki og þ.a.l. íslensk Króna sé nauðsynleg til að sporna við því með því að hækka vexti og draga þannig úr auknum kaupmætti. Ef að þetta rétt er þá ekki bara málið að koma í veg fyrir að fyrirtækjum vegni vel og geti borgað starfsfólki hærri laun þar sem þessi sömu hærri laun leiði til aukins kaupmáttar og þar með verðbólgu? Það er í raun nákvæmlega þetta sem verið er að reyna en fyrirtækin, öll sem geta, sneiða hjá þessari aðgerð með því að sniðganga einfaldlega íslenskan lánamarkað og eftir situr sauðsvartur almúginn. Allir vilja aukinn kaupmátt og aukinn kaupmáttur þýðir akkúrat það að fólk kaupir meira, sem eðlilega þýðir meiri velta í hagkerfinu, sem er ekkert annað en þensla! Menn geta því með einfaldri rökfræði séð að upptaka Evru kæmi í veg fyrir að Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti sem yrði aftur til þess að auka hér kaupmátt (fyrir utan nú öll bankastjóralaunin sem ríkissjóður myndi spara og hægt yrði að nota í til að mynda heilbrigðiskerfið). Mér hefur oft fundist sem að mammonsmusterisriddararnir í seðlabankanum séu að verja svolítið annað og persónulegra en íslensku Krónuna þegar þeir tala gegn upptöku Evrunnar, en það er bara svona tilfinning.
Til að hafa þetta ekki lengra að sinni ætla ég að geyma umræðuna um Evru og Evrópusambandið, þar sem ég ætla mér að ræða enn ein fásinnurökin sem beitt er gegn því að skipta hér um gjaldmiðil - svo að þangað til í næsta pistli ...
Þór Þórunnarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2007 kl. 08:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)