Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Er ekki allt í lagi?
21.1.2008 | 09:22
Nei, nei, nei, NEI.
Ég var hrifinn af því þegar íslendingar buðu Bobby Fischer ríkisborgararétt til að hann kæmist hjá því að enda ævina í bandarísku fangelsi. Maðurinn var vissulega snillingur á sínu sviði og allt gott um karlinn að segja. Besta mál að hann fái að hvíla í íslenskri mold en að ætlast til þess að maður sem hafði íslenskan ríkisborgararétt í þrjú ár sé jarðsettur í þjóðgarði í þjóðargrafreit er að fara langt, langt yfir strikið. Þið þarna hjá stuðningshóp Bobby - hvað er að ykkur?
Hann vildi verða íslendingur og hann virtist ekki kunna vel við frægð og sérmeðferð, heldur vildi hann vera látinn í friði og fá að vera. Látiði karlinn nú vera í friði. Jarðið hann í almennum kirkjugarði eins og við hin verðum að láta okkur linda fyrir okkur og okkar og finnið ykkur svo eitthvað þarfara að gera.
Þór Þórunnarson
Grafreiturinn fái að hvíla í friði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Púki, Púki bjargaðu mér!
21.1.2008 | 08:42
Eruð þið ekki með villuleiðréttingaforrit þarna hjá mbl.is?
Jafnvel þó að sá er ritar þessa stuttu frétt sé illa talandi og skrifandi á íslensku, þá ætti að vera mögulegt að komast skammlaust frá stuttri frétt eins og þessari með leiðréttingarforritinu Púkanum - sem öllum býðst að nota frítt á blogginu.
Það er að verða gersamlega óþolandi hvað meðferð íslenskunnar fer hrakandi. Það er sérstaklega sorglegt þegar kemur að vinsælum miðli eins og mbl.is. Í þessum stutta texta tel ég þrjár stafsetningarvillur, fyrir utan hversu illa er farið með íslenskuna í þessum texta almennt. Það er kannski ekki krafa þarna hjá ykkur hjá mbl.is að menn hafi meira en lágmarks færni í meðferð íslenskunnar? Er manneklan ef til vill þannig hjá ykkur að þið neyðist til að ráða útlendinga í prófarkalesturinn eða er verið að spara þannig að enginn er í því?
Björgum íslenskunni frá FM-hugsunarhætti.
Þór Þórunnarson
Obama í stríð við Clinton | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Far vel Framsóknarflokkur – farið hefur fé betra.
20.1.2008 | 16:20
Það verður að segjast að ég hef enga samúð með Framsóknarflokknum, nú þegar hann virðist engjast í andarslitrunum. Þessi flokkur, hentistefnu- og tækifærissinnuflokkur helvítis, hefur vaðið hér uppi í valdastöðum íslenska lýðveldisins alltof lengi. Það er grátlegra en tali taki að fara yfir stjórnmálasögu Íslands síðustu áratuga og sjá hvernig Framsóknarflokkurinn hefur troðið sér í valdastöður í öllu ósamræmi við atkvæðamagn og ekki vílað fyrir sér að láta öll prinsipp lönd og leið þegar ráðherrastólar voru annars vegar.
Það má segja að þegar einræðistilburðir Halldórs Ásgrímssonar, valdahroki hans og óforskammfeilni, ekki síst í tengslum við innrásina í Írak, hafi orðið lýðum ljóst, hafi fólk loks áttað sig og því hylli nú loks undir lok þessa niðurlægingartímabils í sögu íslenska lýðveldisins sem einkennst hefur af ríkisstjórnarsetu framsóknarmanna.
Við sjáum nú að fólk virðist segja sig úr Framsóknarflokknum eins og rottur sem yfirgefa sökkvandi skip. Nú síðast gaf eini borgarfulltrúi Framsóknarflokksins það í skyn að hann íhugaði að yfirgefa flokkinn. Það er aumkunarvert að heyra talsmenn Framsóknarflokksins tala um ástæður úrsagna; að ekki sé vært í flokknum vegna gróusagna, innri ágreiningsmála o.s.frv. Hér fara framsóknarmenn, eins og jafnan, líkt og köttur í kring um heitan graut til að þurfa ekki að horfast í augu við raunveruleikann.
Hvers vegna er öll þessi innaflokksátök í flokknum? Það skyldi þó ekki eiga rætur sínar í valdaátökum?
Guðjón Ólafur Jónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við Björn Inga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og skyldi svo sem engan undra eftir að hafa séð framgöngu Björns Inga í REI-málinu svokallaða. Það sem er að gerast innan Framsóknarflokksins er ekkert annað en barátta um völd og er það ein miskunnarlausasta valdabarátta sem ég hef orðið vitni af í íslenskum stjórnmálum.
Í bók Guðna Ágústssonar formanns Framsóknarflokksins er þessi valdabarátta og kúltúr Framsóknarflokksins opinberaður. Sé Framsóknarflokkurinn svo skoðaður í ljósi íslenskrar stjórnmálasögu þarf engan að undra hvernig komið er. Hér er á ferðinni lítill flokkur sem til langs tíma hefur haft mun meiri völd en atkvæðamagn segir til um. Það hefur m.ö.o. verið tiltölulega greið leið metnaðarfullra aðila að komast til valda í íslensku samfélagi með því að ganga í Framsóknarflokkinn. Nú þegar aðgengi Framsóknarflokksins að völdum, blessunarlega, er takmarkað, sést vel úr hverju stór hluti framsóknarmanna er í raun gerður. Nú sjá menn ekki lengur tilgang í því að starfa innan flokksins, þar sem ekki lengur er að ræða um stutta, hentuga, leið á valdatopp íslenskra stjórnmála, heldur einungis um eðlileg félagsstörf í litlum stjórnmálaflokki með litla von um áhrif og völd. Þegar svo saman fer að Framsóknarflokkurinn hefur enga raunverulega stefnu í stjórnmálum, eins og sést best af því að hann getur starfað með öllum og hefur einfaldlega engin grundvallarsjónarmið að beygja eða brjóta, þá geta menn bara farið í aðra flokka. Það hefur jú verið raunin margoft í gegnum tíðina. Er virkilega nokkur þarna úti sem getur sagt um hvaða grundvallarstefnu Framsóknarflokkurinn annars snýst?
Nei ég er ekki sá eini sem fagna því að Framsóknarflokkurinn, hugsanlega, sé að líða undir lok. Þessi flokkur hefur komið í veg fyrir það í áratugi að á Íslandi hafi verið hægt að kjósa um málefni og stefnur. Framsóknarflokkurinn hefur hoppað upp í sæng hjá frjálshyggjunni og félagshyggjunni eftir því hvar mestu völdin var að hafa tilhanda þeim eiginhagsmunapoturum sem fyrir flokknum fóru hverju sinni. Sjaldan hefur þessi taumlausa valdagræðgi opinberast meir en í REI-málinu. Það hlaut að koma að því að fólk fengi nóg af slíku, fólk vill skýrar línur og geta treyst því að það sé að kjósa ákveðna stefnu þegar það mætir á kjörstað.
Far vel Framsóknarflokkur farið hefur fé betra.
Þór Þórunnarson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Það kemur svo ekki á óvart að þessi eini framsóknarmaður sem rétt slapp inn í borgarstjórn Reykjavíkur íhugi nú að segja sig úr flokknum sér líklega sem er að það sé nokkuð vonlaust að hann muni ná inn í borgarstjórn næst þegar kosið verður.
Þór Þórunnarson
Ráðningar i opinberar stöður eru ekki einkamál.
18.1.2008 | 21:38
Jæja þá ætla ég að tjá mig um embættisveitingar íslenska ríkisins og ekki vanþörf á þar sem þær eru í algerum ólestri og grafa alvarlega undan lýðræðinu og tiltrú almennings á því kerfi er við búum við.
Aðeins til að byrja með; skipan Þorsteins Davíðssonar er sérstaklega vandræðaleg og hefur vakið upp mikinn hita í umræðunni vegna þess að um son Davíðs Oddssonar er að ræða. Hér er ekkert verið að ráðast sérstaklega á son Davíðs Oddsonar heldur er hér á ferðinni svo augljós misnotkun á aðstöðu að mönnum ofbíður einfaldlega. Halda menn virkilega að einhver almennur lögfræðingur sem metinn var aftarlega hvað varðar hæfni hefði virkilega verið ráðinn umfram aðra hæfari einstaklinga? Eru virkilega einhverjir þarna úti sem halda því fram, að sú staðreynd að maðurinn hefur þessi ættartengsl hafi EKKERT haft með ráðningu hans að gera? Trúir einhver bætiflákaþvælum ráðherra um að Þorsteinn Davíðsson hafi einhverja reynslu sem aðstoðarmaður ráðherra og það geri hann sérstaklega hæfan. Er einhver svo barnalegur að halda að hægt sé að líta fram hjá þeirri staðreynd að Þorsteinn Davíðsson hafi tengsl inn í dýpsta kjarna Sjálfsæðisflokksins og að hann hafi ekki verið hæfasti aðilinn fyrir stöðuna að mati lögskipaðrar nefndar sem fjallar um málið. Það er svo, útaf fyrir sig, rök fyrir hagsmunatengslum að hann hafi verið aðstoðarmaður ráðherra og það eitt og sér séu rök fyrir að ráða hann ekki. Hvernig á nýráðinn dómari að dæma í hugsanlegu máli gegn núverandi dómsmálaráðherra? Hvernig sem á málið er litið hlýtur það að vekja grunsemdir um valdníðslu og klíkuskap og rýra álit manna á stjórnkerfinu.
Það verður að líta til þess að alltof lengi, og það er löngu viðurkennt, hafi verið ráðið í stöður hins opinbera eftir öðrum leiðum en þeim sem hlutlausar þykja. Ein aðalrökin fyrir einkavæðingu opinberra fyrirtækja og stofnanna er einmitt sú að stjórnmálamenn hafi verið að misnota aðstöðu sína og ráða fyrrverandi samstarfaðila, vini og ættingja í stöður innan þessara stofnanna. Má ég minna á að Davíð Oddson var ráðinn seðlabankastjóri, ekki sem hæfur maður, heldur sem fyrrverandi stjórnmálamaður; ætlar einhver að halda því fram að maður sem enga menntun hefur í viðskiptum eða hagfræðum sé bara ráðinn seðlabankastjóri af því að hann hafi almenna reynslu sem geti nýst í starfi? Við hugsum til þess flest með hálfgerðum hryllingi þegar afdankaðir stjórnmálamenn voru ráðnir bankastjórar ríkisbankanna hér á árum áður án þess að hafa nokkra sérstaka hæfileika til að stýra slíkum fyrirtækjum. Það var svo fyrst eftir að bankarnir voru einkavæddir sem sérmenntaðir aðilar og menn með sérþekkingu voru ráðnir í stjórnunarstöður í bönkunum og það var ekki að sökum að spyrja ... söguna þekkja allir.
Það sem verður að líta til í þessu sambandi er það hvernig best er að skipa í embætti á vegum hins opinbera. Ég vil meina að það þurfi að taka allar mannaráðningar á vegum hins opinbera til endurskoðunar frá grunni. Það er gersamlega óþolandi að menn geti vaðið uppi sem stjórnendur opinberra fyrirtækja og ráðið á grundvelli frændsemi og vinskapar og klíkuskapar í lausar stöður, oft án þess að, svo mikið sem að, auglýsa lausar stöður til umsóknar.
Tökum dæmi af Ríkisútvarpinu, og það áður en því var breytt í opinbert hlutafélag. Ég man ekki til þess að stöður t.d. í Kastljósinu hafi verið auglýstar lausar. Ég hef séð fyrrverandi fegurðardrottningu, óþekktan leikara og starfsmenn samkeppnisaðilans vera ráðna án þess að hafa orðið var við auglýsingar um lausar stöður, sem ég er viss um að þó er skilda þegar kemur að opinberum mannaráðningum. Hvenær varð það þannig að menn geti hagað sér, þegar kemur að opinberum fyrirtækjum, eins og um þeirra einka fyrirtæki væri að ræða?
Það er algert skilyrði, þegar kemur að opinberum mannaráðningum, að auglýsa lausar stöður og ráða í stöðurnar eftir almennum reglum og víkja mönnum úr sæti þegar grunur leikur á hagsmunatengslum, eins og stjórnsýslulög íslenska ríkisins gera ráð fyrir.
Þá að ráðningum dómara sérstaklega. Við búum í lýðræðisríki sem byggir á þrískiptingu valdsins: löggjafar- dóms- og framkvæmdarvaldi. Þetta er grundvallað í stjórnarskrá lýðveldisins og er hún æðstu lög lýðveldisins og ber að fara eftir í hvívetna. Allar gerðir opinberra aðila, veri það stjórnmálamanna, embættismanna eða annarra, í nafni íslenska ríkisins, verða að vera þess eðlis að allur vafi um brot á stjórnarskránni falli stjórnarskránni í vil. Tilskipan þeirrar nefndar sem ráðherra er til álitsgjafar, varðandi dómararáðningar er tilorðin til þess að aðgreina framkvæmdarvaldið frá dómsvaldinu. Ég vil meina að mikill vafi leiki á því að ráðherraráðning dómara uppfylli skilyrði stjórnarskrárinnar um aðgreiningu og þrískiptingu ríkisvaldsins og í þeim anda að vera frekar réttum megin við línuna í vafaatriðum hefði Árni M. Mathiesen átt að fara eftir áliti þeirrar nefndar sem lögskipuð er til að fjalla um dómararáðningar.
Það er mjög mikilvægt að dómarar haldi hlutleysi sínu gagnvart einstaka alþingismönnum og ráðherrum. Það er sömuleiðis mjög mikilvægt að ekki séu einungis ráðnir dómarar sem séu einstaka ráðherrum þóknanlegir. Á það hefur verið bent af mér fróðari skrifurum hversu mikilvægt það sé að dómsvaldið sé óháð og aðskilið öðrum stjórnsýslustigum að ég ætla ekki að fjölyrða meira um það hér. Það sem ég vil hér segja, hins vegar, er að þegar ráða skal í stöður hjá hinu opinbera eigi í sem flestum tilfellum að láta vinnuveitendurna hafa eitthvað um það að segja hver sé ráðinn og þá meina ég almenning í landinu. Sérstaklega á þetta við um dómara. Ég er hér að benda á þá leið sem farin er í Bandaríkjum Norður Ameríku, en hún er sú að ráðið er í lausar stöður að undangenginni almennri kosningu. Menn þurfa, m.ö.o. að bjóða sig fram rétt eins og til Alþingis vilji menn verða dómarar. Menn sitja svo ákveðið kjörtímabil líkt og alþingismenn og þurfa að sækja um framlengingu umboðs til almennings vilji menn halda störfum áfram sem dómarar. Með þessu vinnst tvennt: Þetta veitir mikið aðhald og þetta virkjar hinn almenna borgara, hvort tveggja mjög svo mikilvægt þegar til lýðræðis lítur. Vestur í bandaríkjunum er svo víða einnig kosið um lögreglustjóra, presta og önnur mikilvæg embætti. Ég er ekki að segja hér að það þurfi að kjósa í allar stöður á vegum ríkisins en mér finnst sjálfsagt að kjósa í æðstu embætti allra þriggja þátta stjórnkerfisins, löggjafar- framkvæmdar- og dómsvalds. Það er lýðræðislegt í mínum huga og það eina sanngjarna. Það virkjar hinn almenna borgara og er lýðræðinu til framdráttar og veitir aðhald og valddreifingu og minnkar möguleika á misnotkun aðstöðu eins og hér hefur verið landlægt til allt of langs tíma. Það er augljóst að núverandi kerfi er meingallað og er ekkert annað en afturómur þess tíma þegar þeim sem við valdastóla sátu þótti sjálfsagt að misnota aðstöðu sína og fara með valdið eins og um persónuleg eignayfirráð væri að ræða yfir þeim stofnunum og fyrirtækjum sem þeim var treyst fyrir af almenningi.
Það er gersamlega óþolandi að ráðherrar geti hagað sér eins og Árni M. Mathiesen hefur gert í þessu máli. Það er aumkunarvert að sjá þennan mann vera að reyna að réttlæta þessa mannaráðningu sem sanngjarna og eðlilega. Það verður að koma í veg fyrir að stjórnmálamenn geti hagað sér á þennan hátt með því að breyta lögum um það hvernig ráðið er í stöður eins og dómara.
Ég vil nota hér tækifærið og minna almenning á þá leið sem við eigum, til að veita stjórnmálamönnum aðhald og er sú leið sem við höfum til að minna þá aðila á sem troðið hafa sér fram fyrir skjöldu og vilja fara með almannavald, hver það er sem raunverulega ræður, en það eru kosningar. Munið þetta við næstu kosningar, munið þessa valdníðslu og aðstöðumisnotkun. Kjósið ekki þá sem svo augljóslega misnota aðstöðu sína, því sá hefur sýnt að honum er ekki treystandi til að fara með almannavald. Notum kosningarréttinn til að veita nauðsynlegt aðhald og virkjum lýðræðið til þess er það.
Þór Þórunnarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Úthlutun fiskveiðikvóta
18.1.2008 | 16:08
Það sem umræðan snýst um er eignaréttur. Ég las nýverið í góðri bók að tilvist ríkisins hafi orðið í tengslum við eignaréttinn; það var, með öðrum orðum, til að vernda eignarréttinn sem þörf skapaðist á ríkisskipulagi. Til að vernda eignir þurfti skrásetningarkerfi sem sannað gat eignarrétt ákveðinna einstaklinga á ákveðnum eignum. Sömuleiðis þurfti löggæslu til að koma í veg fyrir stuld og yfirgang. Þetta er sem sagt nátengt, eignarrétturinn og ríkið og getur hvorugt án hins verið, sem er í rauninni hálf vandræðalegt þegar hugsað er til kennimanna frjálshyggjunnar sem vilja hlut ríkisins sem minnstan en hlut eignaréttarins sem mestan á sama tíma.
Lítum nú á kvótaúthlutun á Íslandi. Það var tekið fram í íslensku stjórnarkránni að fiskistofnar við Íslandsmið væru sameign þjóðarinnar en það er búið að strika það út (athugið það sjálf - http://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html).
Þetta er gert, án efa, vegna þess að de facto eru fiskistofnarnir við Íslandsmið eign útgerðanna sem sölsað hafa undir sig þeim kvótum sem í boði eru. Umræðan í dag snýst aðallega um úthlutun hugsanlegrar aukningar kvóta. Eiga þeir sem misstu kvóta þegar kvótaskerðingin varð, að fá aftur úthlutað í hlutfalli við það sem þeir misstu eða á að úthluta eftir öðrum leiðum?
Til að svara þessari spurningu verðum við að svara spurningunni hver á óveiddan fiskinn í sjónum og þá sérstaklega hver á óúthlutaðan kvóta? Er það Íslenska ríkið eða einhver annar. Ég vil halda mig við það að auðlindir á borð við fiskistofna við Íslandsmið séu sameign þjóðarinnar og þá, í raun eign íslenska ríkisins. Fylgjandi almennri reglu um eignarrétt þá er það, í öllum aðalatriðum, þeim sem eignarrétt hefur að ráðstafa eign sinni eins og viðkomandi kýs. Það er þ.a.l. algerlega óþolandi að einhverjir aðilar úti í samfélaginu haldi sig geta gert einhverja kröfu, og eiga einhvern rétt á, að fá úthlutað kvóta fremur örðum, hvort sem sá hinn sami hafi misst spón úr aski sínum vegna kvótaskerðingar eður ei.
Ég tel það vera algerlega hafið yfir allan vafa að íslenska ríkið hafi eignarrétt og þar með yfirráðarétt yfir fiskistofnum við Íslandsmið og geti þar af leiðandi ákveðið hvernig fiskveiðikvótum sé úthlutað. Um þetta er meirihluti almennings sammála sem og stærstur hluti lögspekinga. Eftir stendur þá spurningin um hvernig best sé, og þá væntanlega réttlætanlegast, að úthluta fiskveiðikvótum. Ég vil sjá að úthlutun fiskveiðikvóta leysa mál sem uppi eru á borðinu, sé það mögulegt, og skuli það haft að leiðarljósi í öllum gjörðum hins opinbera. Ef að við lítum til fiskveiðistjórnunarkerfisins þá eru tvö atriði sem standa upp úr og kerfið hefur brugðist og gert ógagn. Í fyrsta lagi hefur kvótakerfið unnið gegn byggð í landinu. Ástæða þess er að kvóti getur með einni einfaldri ákvörðun einstaklings flust úr byggðarlagi og kippt stoðum undan öllu atvinnulífi og þar með grundvelli heils byggðarlags (haft áhrif á verð fasteigna, þjónustustig sveitarfélagsins og tekjur o.s.frv.).
Annað atriði er að eignarréttur fiskistofnanna hefur færst frá þjóðinni (ríkinu) til eigenda útgerða og aðila sem oft á tíðum eru ekki einu sinni í útgerð. Upp hefur komið hópur manna sem hefur tekjur af því að leigja þeim sem lifibrauð hafa af útgerð og vinnslu kvóta. Hér er rétt að hafa í huga að þegar talað hefur verið um svokallaðan auðlindaskatt er oft hamrað á því af hálfu útgerðanna að það skekki rekstrarstöðu útgerðanna að greiða skatt af auðlindinni en sjaldan heyrist nein gagnrýni á að greiða einstaklingum sem de facto eignarrétt hafa yfir auðlindinni leigu fyrir aðgang að auðlindinni, sem er ekkert annað en einskonar skattur, eða hefur í það minnsta sömu rekstrarlegu áhrif fyrir fyrirtækin. Það eru svo óhrekjanleg rök, í mínum huga, að réttara sé, á allan hátt, að ríkið (samfélagið) fái leigutekjur af kvóta fremur en einhverjir einstaklingar.
Það er því tillaga mín að allur kvóti verði innkallaður og nýtt úthlutunarkerfi verði tekið upp. Ég legg það til að kvóta verði úthlutað til landsfjórðunganna og tekið mið af því hvar fiskimið eru þegar ákvörðun er tekin af samsetningu fiskitegunda kvótaúthlutunar. Síðan er sá kvóti sem til fellur hverjum landsfjórðungi einfaldlega boðin upp og seldur hæstbjóðanda. Skilyrði fyrir því að mega bjóða í kvótann sé að viðkomandi stundi útgerð og útgerðin eigi lögheimili í fjórðungnum. Þessi einfalda meðhöndlun gerir meira en að koma á meira réttlæti en núverandi kerfi bíður upp á, sem er eitt og sér nægjanleg rök til að koma þessu á, heldur hjálpar þessi tilhögun á öðrum sviðum einnig eins og á sviði byggðarmála. Þessi tilhögun myndi tryggja það að á meðan kvóta væri úthlutað af ríkinu þá væri sá kvóti innan fjórðungsins ekkert gæti breytt því. Þegar talað er með núverandi kerfi, og það eru nær eingöngu útgerðarmenn sem það gera, þá eru gjarnan ein rökin þau að nauðsynlegt sé að hafa kerfi sem hægt sé að stóla á og fyrirtæki geti gert áætlanir eftir. Það heyrist, aftur á móti, sjaldnar að það sé ekki síður mikilvægt að fólk og sveitarfélög þurfi að geta gert framtíðaráætlanir og stólað á tekjur og atvinnu. Þessi tilhögun, að binda kvóta alfarið við landsfjórðunga, tryggir atvinnu og tekjur af föstu hlutfalli úthlutaðs kvóta í byggðum landsins og leysir þar með stærsta vandan sem núverandi kvótakerfi hefur skapað s.s. þann að kvóti geti fyrirvaralaust horfið úr byggðarlögum og kippt þar með stoðum undan atvinnu og lífsviðurværi fólks.
Það sem þetta gerir svo að auki er að þetta eykur valddreifingu. Heildarkvóti er ákveðinn af fiskistofu samkvæmt nákvæmustu mælingum og út frá ákvörðunum fiskifræðinga en úthlutun fjórðunganna er bundin ákvörðunum heimamanna og er á stjórnsýslustigi sveitastjórna. Það er þeirra að tryggja að sem best nýting fáist úr auðlindinni með því að bjóða aðgang að henni út og taka tilboðum hæstbjóðenda sem annars er líklegastur til að ná aflanum og landa landsfjórðungnum til heilla og mestra tekna.
Að lokum er þessi tilhögun tekjuuppspretta fyrir landsfjórðungana, sem svo aftur tengist inn á valddreifinguna. Það er sveitastjórnanna á hverjum stað að nota þær tekjur sem sala kvótans gefur, veri það til að lækka skatta, byggja og reka skóla, bæta samgöngur, eða setja í heilbrigðiskerfið svo eitthvað sé nefnt.
Ég held því fram að með því að innkalla alla úthlutunarkvóta til ríkisins og úthluta þeim upp á nýtt eins og ég hef útlistað hér myndi nást nákvæmlega sami ávinningur og er í núverandi kerfi varðandi fiskveiðistjórnun sem er aðalatriði og megintilgangur kerfisins en að auki myndi þessi tilhögun bæta úr annmörkum núverandi kerfis sem og ná fram öðrum markmiðum eins og í byggðarmálum. Það eru þrjú atriði sem ég tel að muni standa upp úr og réttlæta muni að taka upp þessa tilhögun á úthlutun fiskveiðikvóta:
1. Þessi tilhögun myndi útiloka það að til séu aðilar sem geti haft tekjur af því að leigja sjómönnum og útgerðarmönnum kvóta sem er eitthvað sem ég fullyrði að hafi aldrei verið meiningin og sé ekkert annað en klár og óréttlætanleg misnotkun á kerfinu.
2. Þessi tilhögun myndi styrkja byggðir landsins.
3. Þessi tilhögun myndi stuðla að valddreifingu.
Þór Þórunnarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Erfitt er að spá – sérstaklega um framtíðina
16.1.2008 | 14:34
Ég vil benda hér í þessu sambandi á verðlaunað útskriftaverkefni frá CBS (Copenhagen Business School). Í því verkefni var könnuð fylgni þess sem svokallaðir verðbréfasérfræðingar sögðu og mæltu með varðandi verðbréfakaup og raunverulegs gengis bréfa á sama tímabili. Þetta er í raun tölfræði rannsókn á svokallaðri pílukastskenningu en hún segir að takir þú kvótabréf skráðra félaga í kauphöll og festir þau upp á vegg, kastir síðan pílum í vegginn og fjárfestir í þeim félögum sem pílan lendir á ertu jafn líklegur til að græða eða tapa og ef að þú fylgir ráðleggingum hinna svokölluðu sérfræðinga. Það þarf því ekki að koma á óvart að lokaverkefni nemendanna við CBS sýndi fram á algert markleysi sérfræðinganna þú varst jafn líklegur til að græða og ef að þú lést algera tilviljun ráða því hvernig þú fjárfestir.
Fjármálafræðin (e. finance) hafa einnig verið að rannsaka tölfræðileg módel sem hugsanlega gætu veitt þetta forskot sem gerði manni kleift að græða með sérþekkingu. Málið er bara það að allt slíkt felur í sér útilokun á sjálfu sér. Það er m.ö.o. ekki hægt að græða á einhverri sérþekkingu, þegar kemur að fjárfestingum, því tölfræðilega munu með tímanum allir slíkir núansar (ef þeir hafi þá verið til) þurrkast út þar sem aðrir munu að sjálfsögðu fjárfesta á sama hátt og þar með forskotið þurrkast út og fjárfestingin skila meðaltals arði á markaði.
Þetta er algildur sannleikur og ber að hafa að leiðarljósi þegar fjölmiðlafólk fær sérfræðinga til að spá í markaðinn eða hvað annað sem það nú kann að vera að fjölmiðlafólki dettur í hug að fá sérfræðingatil að spá í. Lítum bara til baka munið þið eftir einhverjum fjármálasérfræðingi, einhverri greiningardeild, sem sá fyrir þá fjármálakreppu sem við nú erum að sigla inn í? Fyrir utan nú það að ef að einhver sérfræðingurinn fyrirfinnist sem hefði tök á því að sjá fyrir það sem raunverulega yrði myndi sá hinn sami aldrei gefa það upp hver kúrsinn væri þar sem þessi vitneskja hans væri undirstaða að óumræðanlegri velferð og mikilvægi þess sérfræðings.
Þór Þórunnarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.1.2008 kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
North American Union and the Amero currency
15.1.2008 | 02:01
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sérfræðingaveldi – prestaveldi samtímans.
15.1.2008 | 00:23
Við lifum í hræðilegu sérfræðingaveldi nú á dögum. Á miðöldum voru það prestar sem sögðu okkur hvernig heimurinn væri og hvað væri satt og hvað ekki. Nú eru það sérfræðingar sem segja okkur hvernig heimurinn lítur út og hvað sé satt og hvað ekki. Þú, þarna úti, átt að hlusta og taka mark á því þegar hinir vísu tala og láta álit sitt í ljós. Við höfum sérfræðinga og álitsgjafa á öllum sviðum, meira að segja á menningarsviðinu. Hver hefur ekki heyrt fólk segja þegar kemur að listum: Ég hef ekkert vit á þessu... Hver getur í raun haft vit á listum? Það er ekki hægt, það er einungis hægt að hafa álit og eitt álit er ekkert betra en annað.
Ég vil segja þetta við alla: Vitið það að ALLTAF, að einum eða tveimur áratugum liðnum, mun koma einhver nýr álitsgjafi, nýr sérfræðingur, með nýjan sannleik, sem umbreytir því sem áður var haldið fram.
Hugsið ykkur að fyrir einungis 100 árum (það er ca. einn mannsaldur) þá skiptu læknar um blóð í fólki við flestum kvillum en höfðu ekki hugmynd um blóðflokka. Við getum alltaf litið til baka og séð hversu barnaleg vitneskja sérfræðinganna var, en samt var henni haldið fram á sínum tíma sem grjóthörðum sannleik og þekking. Sanniði til svo munu niðjar okkar einnig líta til sérfræðinganna sem gefa okkur álit og hina réttu heimsynd daglega í fjölmiðlum um allan heim; til þeirra verður litið með aumkunarbliki og til okkar verður litið með undrun yfir því að hafa hlustað á og kyngt öður eins bulli og firru. Þetta er slæmt, mjög, mjög slæmt, þar sem þessi hugsunarlausa eftirfylgni við sérfræðinganna firrir manneskjuna og gerir hana að enn dofnari neytenda en hún annars er. Svefnvana tómarúmi sem tekur hugsunarlaust við öllu sem að henni er rétt.
Þú og ég vitum jafn mikið um allt sem maðurinn getur vitað og ef að þú veist ekki allt um eitthvað mál, þá er það sjálfsagt og heilbrigt að tjá sig um það, taka þátt í samræðu til að ná til þekkingarinnar sem býr innra með okkur öllum eins og Plato benti á. Plato benti einmitt sérfræðingum á hversu lítið þeir í raun vita og varaði við ræðusnillingum sem ekkert eru annað en yfirborðsmennska og falsaheit.
Elsku vinur ekki láta blekkjast þú ert jafn mikill maður og maður getur verið og þú veist jafn mikið og maður getur vitað um nokkurn skapað hlut.
Taktu sérfræðingum með fyrirvara líkurnar eru á að hann sé að dáleiða þig til að trúa á eigin þekkingu; sú þekking þarf ekki að vera rétt og líklega er hún það ekki í alheimssamhengi hlutanna.
Þór Þórunnarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lýðræði – milliliðalaust!
12.1.2008 | 20:09
Ég hef oft talað fyrir því, þegar lýðræði ber á góma, að lýðræði sé í raun blekking. Allir vita að það þarf mikið fjármagn til að komast til þings. Það þarf líka ýmislegt annað eins og veru í stjórnmálaflokki, tengsl og velvild ákveðinna afla innan samfélagsins og ef vel á að vera, eitt háskólapróf helst í lögfræðum. Við sjáum undarlega oft að seta á Alþingi, meira að segja seta í ríkisstjórn, virðist ganga í erfðir. Þetta er allt gott og blessað þegar við erum að tala um kjör á foringjum, þeim sem leiða skulu vagninn, þeim sem hæfileikaríkari eru en við flest hin; en eru alþingismenn foringjar? Hvers vegna kjósum við alþingi?
Eins og alltaf verðum við að grípa til sögunnar þegar við ætlum að átta okkur á því hvar við erum; förum fljótlega yfir sögu: Þegar landnámsmenn voru búnir að skipta með sér Íslandi og koma sér fyrir þá fundu með það fljótlega að nauðsynlegt var að koma saman og sameinast um lög og reglur til að allt færi ekki hér í bál og brand (reyndar fór allt í bál og brand engu að síður, en þingsamkomur urðu til að sætta menn og bera klæði á vopn). Allavega var öllum frjálsum karlmönnum sem fasteign áttu heimilt að ríða til þings og bera þar upp mál. Þinghaldið var þannig bæði löggjafarsamkunda og dómsamkunda. Þar sammæltust menn um lög og ef ágreiningur varð þá réð meirihluti. Menn voru svo dæmdir fyrir brot gegn lögunum og þar var einnig skorið úr um ágreiningsmál manna í millum. Það sem þetta fyrirkomulag á skylt með öðru lýðræði fornu, hinu gríska, er að lýðræðið byggðist á beinni þátttöku þegnanna. Menn komu saman og tóku málefnalega afstöðu til atriða er snertu samfélagið milliliðalaust!
Þegar svo lýðræðið hefur legið í dvala í aldir í Evrópu, en sívaxandi millistétt fer að þrýsta á aðalsstéttirnar um aukna þátttöku í samfélagslegum ákvörðunum, vaknar hugmyndin um fulltrúalýðræði. Konungar við hirðir Evrópu neyðast til að leyfa tilvist nokkurskonar álitsþinga til að friðþægja hina sístækkandi millistétt; millistéttin á sér s.s. fulltrúa við hirðina. Seinna þegar mörgum konungum og drottningum hefur verið steypt og lýðveldum komið á þá stendur eftir sú hugmynd að ákveðið þing komi saman sem ráði ríkinu. Þetta þing samanstandi af kosnum fulltrúum sem kjörbærir menn kjósi með reglulegu millibili. Smám saman þróast svo hugmyndin um aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, þ.e. einn armur þingsins á að setja lög en annar á að sjá til þess lögunum sé framfylgt. Dómsvaldið var aðskilið áður og er hvergi mér vitanlega nema í Bandaríkjunum lýðræðislega kjörið. Svona hefur lýðræðið verið um allar jarðið síðan á átjándu öldinni. Þegar svo þjóðríkin stækka og sameinast í bandalög þá höfum við fjárlægst möguleikann á að sjá milliliðalaust lýðræði í líkingu við það sem forfeður okkar bjuggu við og álitu sjálfsagt.
Nú horfir hins vegar til betri vegar þökk sé tækninni. Nú er tæknilega ekkert því til fyrirstöðu að koma á milliliðalausu lýðræði, það gera byltingarkenndar framfarir í fjölmiðlun og samskiptum. Nú sjáum við möguleika á að kjósa ríkisstjórn til að fara með framkvæmdarvaldið en sleppa að kjósa fulltrúa til Alþingis. Þess í stað sjáum við nú aftur fram á að þegnarnir geti farið að taka þátt í ákvarðanatökum beint, líkt og gert var, og sjálfsagt þótti, til forna. Leifið mér að draga upp fyrir ykkur áhugaverða mynd.
Hugsið ykkur að á fyrirframákveðnum tímum mælir einhver ráðherrann (ríkisstjórinn?) fyrir frumvarpi til laga og frumvarpinu er sjónvarpað beint á vegum Alþingis. Þessi framsaga er svo aðgengileg öllum þegnum til að taka afstöðu til á veraldarvefnum. Á vefnum fer svo fram umræða um frumvarpið þar sem allir geta tjáð sig um málið. Að lokum veita síðan þegnarnir þessu frumvarpi atkvæði sitt til samþykkis eða synjunar; ekkert tal um ofríki flokka, ekkert tal um þjóðaratkvæðagreiðslur ekkert tal um ofríki lítilla flokka sem ráði miklu meira en atkvæðamagn bakvið segir til um (ég ætla ekki að fara hér út í tæknilega útlistun á því hvernig þetta gæti orðið en fullyrði að ef að verslun er möguleg á vefnum þá eru kosningar það sömuleiðis). Hin almenni þegn getur svo, rétt eins og almennur þingmaður getur í dag, barist fyrir því að koma eigin málum á framfæri; hægt er að hugsa sér að fái hann stuðning, segjum, 5.000 annarra þegna við tillögu sína skuli ríkisstjórnin bera hana fram sem frumvarp til laga fyrir alþjóð til að taka afstöðu til í almennri atkvæðagreiðslu til meirihlutasamþykkis, eða synjunar. Auðvitað eru mörg mál sem alger óþarfi er að kjósa um og eru þau ákvörðuð með reglugerðum rétt eins og gert er í dag en þið sjáið að ástæða þess að vera að kjósa einhvern fulltrúa á þing til að greiða atvæði fyrir mig og þig er alger óþarfi í dag. Auðvitað á í raunverulegu lýðræði það að vera fullkominn réttur allra þegnanna að bera upp mál sem þeir telja samfélaginu til bóta, milliliðalaust fyrir meðborgarana að taka afstöðu til. Það á ekki og getur ekki verið, eitthvert einkamál fárra sem komið hafa sér fyrir í löngu úreltu flokkakerfi, í skjóli tengsla og fjármagns, að bera fram mál sem koma okkur öllum við.
Þetta myndi svo, með tíð og tíma, ýta undir þroska einstaklingana, og þar með samfélagsins í heild. Í gegn um samræðu og rökræðu væri fólki kippt út úr þeirri firringu og áhugaleysi sem það lifir við í dag. Fólk er dofið af áhugaleysi um umhverfi sitt, einmitt vegna þess að því finnst það ekkert hafa að segja og engu ráða um það sem gerist í þess nánasta umhverfi, hvað þá heiminum almennt. Við sjáum þetta í lítilli kosningaþátttöku og viðhorfinu: "Hvers vegna að kjósa - það er sami rassinn undir þessu öllu - hverju breytir það svo sem?".
Ef að við myndum ýta þessu úr vör og virkja þannig einstaklinginn spái ég, að við sæjum fram á gullöld svipaða og Grikkir upplifðu til forna, með hátindum mannlegrar hugsunar og sköpunargáfu í stað þeirrar úrkynjunar og doða sem víða blasir við í dag og birtist m.a. í sjálfsmorðum, fíkniefnum, barnaníði, taumlausri græðgi, almennri eymd og eyðileggingu, doða og hatri.
Þið sjáið að þetta er fullkomlega framkvæmanlegt, bæði tæknilega sem og félagslega og ekkert annað en bein þátttaka þegnanna í ákvarðanatökum og lagasetningum getur kallast lýðræði. Það að fá að kjósa misvitra einstaklinga (flokka), til að taka fyrir sig ákvarðanir næstu fjögur árin, er ekki lýðræði í mínum huga, fyrir utan það að ekki er einu sinni hægt að kjósa einstaklinga heldur einungis flokka.
Ég hvet ykkur nú góðu Íslendingar, sameinumst um að koma hér á raunverulegu lýðræði, þar sem að ég og þú getum haft allt um það að segja hvernig þjóðfélaginu er stjórnað og við hvaða lög við búum við. Hættum að sitja hjá og kvarta yfir hinu fáránlega Alþingi, krefjumst þess að fá að taka þátt í ákvarðanatökum sem snerta alla í þessu þjóðfélagi. Það er vel hægt að koma hér á beinu lýðræði og það er eina formið sem raunverulega getur kallast lýðræði.
Kæru Íslendingar: Komum á lýðræði á Íslandi líkt og var á Íslandi til forna!
Lifið heil og látið í ykkur heyra!
Þór Þórunnarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.1.2008 kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)