Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ó þú duglausa, þrælslundaða þjóð.


 

Hvað er með ykkur íslendingar? Í aldaraðir voru þið kúguð og pínd af erlendu konungsveldi og áthagafjötruð óðalsbændum og höfðingjum. Með stofnun lýðveldisins óraði hér fyrir mannsæmandi lífi og sæmilegum jöfnuði – allt þar til nýfrjálshyggjan með Davíð Oddson í fararbroddi hóf hér að einkavæða, skera niður og eyðileggja. Þið kusuð þann mann í mörg kjörtímabil og létuð hann komast upp með óskunda og athafnir sem líkar eru því sem tíðkast í alræðisríkjum. Sjálfur skammtaði hann sér ofur-eftirlaun, setti sjálfan sig í stól seðlabankastjóra og sonurinn fékk dómaraembætti.

 

Já góðir íslendingar nú sjáið þið afleyðingarnar og þið getið sjálfum ykkur um kennt. Nú kvartið þið og kveinið í heitu pottunum og á kaffihúsum og á bloggsíðum en hvað svo? Einhverjir huga á landflótta, nokkrir mæta á mótmælafundi og hvað.....?

 

Sjáiði til: Nú er hálft ár frá hinu svokallaða bankahruni. Það er eitt ár frá því ég skrifaði á þessum vetvangi aðvörunargrein um ríkisábyrgð einkabankanna og ég var ekki einn um það að vara við, það gerðu margir mér merkari aðilar en sauðir sem þið eruð flutuð þið sofandi að feigðarósi. Æ, það reddast. Þetta er allt saman öfundarraddir og bölsýnismenn. Þið hélduð áfram neyslufylleríinu og YKKAR er ábyrgðin. Þið kusuð yfir ykkur þá ríkisstjórn sem þið eigið skilið og hún kemur fram við ykkur af þeirri virðingu sem þið eigið skilið. Hún hunsar ykkur algerlega og ég skil það vel. Hvað viljið þið upp á dekk? Aumingjar með hor sem látið allt yfir ykkur ganga. Ef að þið viljið eitthvað annað sýnið þá einhvern dug og farið að gera eitthvað. Hættið að ganga um með hangandi haus og opnið augun. Þið verðið að krefjast, ekki biðja. Þið verðið að láta til ykkar taka. Hverjum er ekki sama um bænaskjöl, fundarályktanir og annað blaður? Stöðvið samfélagið! Stíflið gangæðarnar. Leggið niður vinnu. Stöðvið bílana ykkar á stofnæðunum. Drekkið ráðuneytunum í tölvuskeytum. Tæmum ruslabílanna í anddyri Alþingishússins. Hættið þessari þrælslund og hrópið: Hér verður stöðnun þar til réttlætið hefur náð fram að ganga! Engu rusli safnað saman, engir skólar opnir, engar vörur afhentar; hér verður ekkert gert fyrr en að landráðamenn verða sóttir til saka, efnt til Alþingiskosninga og óháðir aðilar fengnir til að fara í saumana á því hvernig það mátti verða að íslenska ríkið nú er gjaldþrota!.

 

Hættið þessu væli og farið að gera eitthvað – ef að þið gerið ekki neitt gerist ekki neitt – skiljið það!


Hvað getum við gert?


 

Það sem angrar mig mest við þetta íslenska efnahagshrun er aðgerðaleysið sem einkennir eftirmálann. Þessi doði og ráðaleysi almennings og hinna svo kölluðu ráðamanna og embættismann er algerlega óþolandi og ég verð að segja það - til SKAMMAR. Nú er svo komið að ég ætla að brjóta eigið loforð um að forðast það að skrifa framar á blog.is vegna auglýsingaborðanna sem settir voru inn. Já stundum neyðist maður til að brjóta odd af oflæti sýnu en hér hef ég, í gegnum tíðina náð til margra og það er nauðsynlegt eins og staðan er nú.

 

Jæja þá að aðalatriðinu – Hvað getum við gert?

Ég strunsaði á útifundi Harðar Torfa þegar til þeirra var fyrst boðað og vildi með því sýna hug minn í verki og samstöðu. Ég er hættur því í dag, einfaldlega vegna þess að ég er ósáttur við hvernig þeir eru ræktir og sé engan tilgang í því að hlusta á misgóðar ræður misvitra einstaklinga um að það þurfi að breyta hér þjóðfélaginu; ég veit það og allir aðrir sem vilja vita. Ég vil AÐGERÐIR. ÉG vil vita: hverju á að breyta, hvernig og af hverju. Og hérna kemur mín sýn á það:

 

Hverju á að breyta?

Grundvallarstjórnskipan íslenska lýðsveldisins er meingölluð. Ekki einungis af því að fulltrúalýðræðið sem slíkt er meingallað, heldur er innibyggt í stjórnkerfið illa rotið samtryggingakerfi, auðmanna og stjórnmálaflokka. Flokkakerfið er þannig að ómögulegt er að vita, í raun hvað maður er að kjósa (eins og fleiri en ég hafa margoft bent á). Kjördæmaskipan á Íslandi er úrelt og óréttlát og hún ein og sér er ólýðræðisleg. Það er algert frumskilyrði að á bakvið einn einstakling sé eitt atkvæði og þau séu öll jafngild.

Gott og vel þetta er gömul ræða og ný og þessu þarf að breyta en – hvernig og hvað á að koma í staðinn?

 

1. Byrjum á fulltrúalýðræðinu – burt með það. Það er barn síns tíma og algerlega ónauðsynlegur hjákrókur í okkar tæknivædda samfélagi. Við sendum þessa 63 alþingismenn einfaldlega heim og segjum þeim að fá sér aðra vinnu. Takk fyrir unnin störf en ykkar er ekki þörf lengur; þið hafið einnig sýnt það og sannað að oftar er ekki var tilvist ykkar til að bæta gráu ofan á svart. Hugsið ykkur: Ef hægt er að kjósa um svo lítilvægt og ómerkilegt mál eins og hvaða dægurlag fer í undankeppni söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva – af hverju í ósköpunum er ekki kosið um mál eins og: Kárahnjúka, gengismál, kjaramál, Evrópusambandsaðild, fjárlög og heilbrigðismál?

Það er tæknilega gerlegt (og tiltölulega auðvelt) að kjósa um öll meginmál er snerta þjóðina; tenging kennitölu, farsímanúmer og leyninúmer er allt sem þarf. Þetta er bara spurning um vilja og andstöðu eiginhagsmunasamra, sjálfumglaðra alþingismanna sem ærlega trúa því að allt sé betra í þeirra eigin höndum en vitlauss almennings.

 

2. Þá er það næsta hvernig er virkar þetta í framkvæmd? Hver sér um málin, ýtir þeim úr vör, fylgir þeim eftir o.s.frv. Beint lýðræði, segi ég þar sem almenning tekur allar meiriháttar ákvarðanir í beinni kostningu en framkvæmdarvaldið verður eftir sem áður að vera til staðar. Ég vil sjá ríkisstjórn sem fer með framkvæmdavaldið og sé skipuð færum einstaklingum innan þeirra sviða sem við á. Burt með dýralækna úr fjármálaráðuneytinu, þar á að vera einstaklingur sem er sérhæfður og framúrskarandi í stjórnun peningamála, í heilbrigðisráðuneyti vil ég sjá einstakling sem sérhæfður er í stjórnun heilbrigðismála o.s.frv. Ég vil fá sérfróða aðila til ráðherraembætta. Það sem ég vil ekki sjá, er að ráðherraembætti séu bitlingabeitingar til handa undirlægjum flokksforystu og oft á tíðum í embættinn einhverjir með ekkert vit á viðkomandi málefnum heldur eru í sínum embættum einvörðungu vegna framapots í stjórnmálum; m.ö.o. burt með ATVINNUstjórnmálamenn!.

Þessi ríkisstjórn færi með almenna stjórnun íslenska ríkisins og bæri undir þjóðina allar meiriháttar ákvarðanir í stað þess að bera það undir Alþingi. Hvað bera ætti undir atkvæði væri einfaldlega ákveðið í Stjórnarskrá.

Hverjir væru ráðnir til ráðherraembætta? Með reglulegu millibili, t.d. fjögurra ára, myndu menn bjóða sig fram (eða sækja um) til ráðherrasetu. Þjóðin myndi síðan ráða þann einstakling sem henni þætti hæfastur – einfalt mál, svipað og gert er í BNA en þar bjóða menn sig fram til ýmissa embætta á borð við lögreglustjóraembætti, dómaraembætti  o.fl.(já, við ættum að taka slíkan sið upp hér einnig).

Hafi menn staðið sig að mati þjóðarinnar og vilji gegna störfum áfram yrðu menn endurkjörnir.

Forsetinn væri eini þjóðkjörni fulltrúinn. Hlutverk forseta væri að vera öryggisventill og sjá til þess að ráðherrar sinntu skyldum sínum og legðu fram frumvörp o.þ.h. á tilskyldum tíma. Forseti væri eins konar framkvæmdastjóri íslenska ríkisins.

 

Hvernig á að breyta?

3. Jæja hvernig er hægt að koma þessum breytingum á? Í fljótu bragði sé ég tvær leiðir. Í fyrsta lagi að koma af stað framboði til Alþingis sem hefði það eitt á stefnuskránni að vinna að þessum breytingum og í öðru lagi með byltingu sem hefði óhjákvæmalega í för með sér ofbeldi. Í öllum bænum fullreynum fyrstu leiðina.

 

Af hverju á að breyta?

Að lokum er rétt að impra aðeins á því af hverju á að breyta? Ég hef haldið því fram í mörg ár að fulltrúalýðræðið sé meingallað og óþarft og því þyrfti að breyta; en í ljósi þess sem við nú köllum “hið íslenska efnahagshrun” er það æ fleirum ljóst að við búum við meingallað stjórnkerfi sem ekki einungis ætti að breyta heldur er það nú orðið óumflýjanleg nauðsyn. Allt kerfið brást: Alþingi, forseti, eftirlitsstofnanir, Seðlabanki – allt kerfið brást. Við sáum hvernig kvótakerfið komst á og til hvers það hefur leitt (sjá t.s. Silfur Egils 18. jan. 2009). Einkavæðingarferli bankanna og annarra ríkisfyrirtækja, um það er óþarft að tíunda, hvílík spillingarforapyttir það eru er öllum ljós. Ég fullyrði að ekkert af þessu var í samræmi við vilja þjóðarinnar; Af hverju á t.d. að selja ríkisfyrirtæki sem þjóðin hefur byggt upp á löngum tíma og skilar arði í þjóðabúið?

Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að breyta til að koma réttlæti á. Þeir sem sigldu þjóðaskútunni í gjaldþrot eiga að fara frá og þeir eiga að SÆTA ÁBYRGÐ; þau eiga að sæta þeirri ábyrgð sem þau segja að réttlæti þeirra laun – svo einfalt er það. Það þarf að breyta vegna þess að vanhæfni einstaklinga, eiginhagsmunasemi þeirra og siðblinda skapaði ríkjandi ástand og það er fáránlegt og fjarstæðukennt að sömu einstaklingarnir og orsökuðu efnahagshrun Íslands séu á einhvern hátt færir í að lagfæra ástandið. Það verður aldrei rannsakað til fulls hvað gerðist, hvers vegna og hvað orsakaði þetta allt saman ef að sömu aðilar og bera ábyrgð á þessu sitja við stjórnvölinn.

 

Þannig að lesandi góður; ég auglýsi eftir viðbrögðum, ég auglýsi eftir framboði til alþingis sem hefur það á stefnuskránni að breyta – að koma hér á raunverulegu lýðræði.

Ég vil aðgerðir af rausi hefi ég fengið nóg. Ef að eins er með þig, settu inn athugasemd og stattu með mér í því að gera eitthvað – að breyta.

 

Lifið heil – krefjist breytinga og aðhafist í þá átt.

Þór Þórunnarson.


Ríkissjóður í milljarða skuldbindingu - vegna einkabanka.

Þegar einkavæðing bankanna stóð fyrir dyrum þá var ég örlítið efins.

Ekki það að ég væri ósammála flestum þeim rökum sem beitt var fyrir einkavæðingu. Aðallega fannst mér gott til þess að vita að afdanka stjórnmálamenn hefðu ekki áskrift að bankastjórastöðum þegar þeir nenntu ekki, eða fengu, að vera lengur á þingi. Einnig var ég sammála því að óþarfi væri, í sjálfu sér, að ríkið stæði í bankastarfsemi. Ég ætla ekki hér að rekja þá umræðu frekar, heldur benda á eitt atriði sem að, e.t.v. fleiri en ég, hafi ekki áttað sig á, í tengslum við einkavæðingu bankanna, en það er ríkisábyrgð.


Það var við lestur Fréttablaðsins þann 29. janúar síðastliðinn sem ég rakst á frétt sem bar yfirskriftina:

“Krónan of lítil fyrir bankana”.
Það sem fréttin gekk út á var að Moody´s (lánshæfis-mats-útgefandi) sagði blikur á lofti varðandi lánshæfni RÍKISSJÓÐS. Það er verið að ýja að því að stærð bankanna væri orðin það mikil að áföll einstakra banka gætu haft alvarleg áhrif fyrir ríkissjóð, eða eins og sagði orðrétt í fréttinni:

“Áframhaldandi alþjóðlegur vöxtur bankakerfisins er sagður hafa leitt til þess að ófyrirséðar fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins hafi vaxið upp fyrir æskileg mörk.”


Það sem ég verð að draga athygli að, í þessu sambandi, er tvennt: Í fyrsta lagi – hvernig getur verið um að ræða ÓFYRIRSÉÐAR skuldbindingar ríkissjóðs, þegar um ræðir einkabanka; og í öðru lagi voru ekki ein aðalrökin fyrir einkavæðingu að losa ríkissjóð undan ábyrgðum af starfsemi bankanna? Er það virkilega svo að nú eftir að bankarnir hafa verið einkavæddir, þá má almenningur bera skaðann þegar illa árar í bankastarfsemi en fær engan arðinn þegar betur gengur?

Það hlýtur að teljast vægast sagt óeðlilegt að banki, sem hefur u.þ.b.70% af starfsemi sinni erlendis  (og er þ.a.l. alþjóðlegur banki), geti sett ríkissjóð á hausinn ef hann er illa rekinn eða illa árar af einhverjum orsökum. Það hlýtur að orka tvímælis að starfsemi einkabanka geti rýrt lánskjör ríkissjóðs og þar með lífskjör í landinu.


Ríkissjóður er sjóður sem fer með sameignir landsmanna. Um ríkissjóð ríkir sátt vegna samfélagslegs hlutverks hans. Tilgangur ríkisins, og þar með ríkissjóðs, er að reka hér velferðarsamfélag, sjá um samgöngur og halda uppi lögum og reglu. Ég fullyrði það að það sé hvorki tilgangur ríkissjóðs, né almenn sátt um, að ríkissjóður sé ábyrgðarsjóður fyrir einkabanka. Hver er sá valdhafi eða fulltrúi almennings, sem hefur veitt leifi fyrir því að setja ríkissjóð í ófyrirséðar ábyrgðir fyrir einkabanka?


Ég vil hvetja almenning að kanna þetta mál, því vel gæti farið svo að slæmar ákvarðanir einhvers bankastarfsmannsins, líkt og við vitnum nú hjá Societé General, geti orðið til þess að milljarða skuldbinding dytti á ríkissjóð og þar með þig og mig.

Ég ákalla Íslendinga til að krefjast þess að tafarlaust verði ríkissjóður íslenska ríkisins fríaður, og gerður með öllu skuldbindingalaus, hvað varðar einkabanka af öllu tagi. 


Þór Þórunnarson




Hinir hæglátu og hinir hraðskreiðu.

Íslendingar, eða ætti ég að segja Reykvíkingar, skiptast í tvo hópa þegar kemur að borgarumhverfi. Annarsvegar þeir sem gjarna vilja GANGA um gömul stræti innan um gömul hús og svo eru það þeir sem verða að AKA hvert sem þeir fara. Hinir fyrrnefndu vilja garna búa í gömlum húsum, oft smíðuðum úr timbri, en hinir síðarnefndu vilja ekkert annað en steypuhallir og bílastæði upp að dyrum.

Hingað til hefur þessi skipting gengið stórátakalaust í borginni okkar. Þeir sem vildu gamalt (köllum þá hina hæglátu) fengu að spóka sig, í því sem byrjað var að kalla gamla miðbænum, en hinir (köllum þá hinar hraðskreiðu) gátu ekið bílum sínum um bílastæði kringla og linda alls staðar annars staðar í borginni. Það höfðu reyndar heyrst hjáróma gagnrýnisraddir meðal hinna hæglátu um það hvort nauðsynlegt væri aðalgatan þeirra, sem heitir Laugavegur, þurfti endilega að vera undirlögð bifreiðum og viðeigandi mengun -  en annars voru hinir hæglátu sæmilega sáttir við sitt.

 

Svo undarlega sem það kann að hljóma, þá gátu hinir hraðskreiðu samt ekki unað þeim hæglátu þess að fá að vera í friði með sinn smáa, en aldna borgarhluta, og hófu að kaupa upp húsnæði þar í gríð og erg. Nú mega menn ekki halda að hinir hraðskreiðu hafi viljað breyta um lífstíl og hægja á. Nei, þeir ætluðu ekki að leggja bílum sínum og njóta þess að ganga innan um gömul hús og torg. Það var áætlun þeirra að umbreyta gamla borgarhlutanum í bílastæði, með háhýsum í stíl. Þeim fannst það ótækt að nokkrar götur í borginni væru ekki í stíl við allt malbikið og steypuna sem þeir höfðu byggt upp svo ötullega annars staðar í borginni og þeir þoldu ekki að til væri svæðisbútur þar sem fínu bílarnir þeirra hefðu ekki algeran forgang og laus bílastæði.
Reyndar voru einhver laga- og reglugerðarákvæði að þvælast fyrir áætlunum þeirra en hinir hraðskreiðu voru með skothelt plan.
“Látum húsin sem við höfum þegar náð tangarhaldi á drabbast niður. Leifum útigangsfólki að setjast að í þeim. Hávaði, dópistaumgangur og niðurnídd hús verða svo til þess að hinir hæglátu gefast upp og selja okkur afganginn af þessum kofaræksnum. við munum svo malbika og steypa upp í þetta gat og byggt háhýsi samkvæmt nýjustu tísku. Þá getum við loksins lifað hamingjusöm í borginni OKKAR. Ekkert mun geta heft för bílanna okkar og við munum loksins geta lagt þeim beint fyrir framan þær fáu búðir sem að við getum hugsað okkur að versla í á þessum Laugavegi. Og aldrei þurfum við að ganga annars staðar en á göngubrettum líkamsræktarstöðvanna - Húrra".

Það þýddi ekkert fyrir hina hæglátu að höfða til manngæsku hinna hraðskreiðu, hvað þá benda á að nóg pláss væri á Íslandi til að byggja háhýsi, þannig að alger óþarfi væri að rífa niður gömlu húsin þeirra. Menn sáu á eftir einu timburhúsinu á eftir öðru og í staðin kom einn steypustallurinn á eftir öðrum. Oftast byggður í svo miklum flýti að hann lak og var hreint ekki eins hornréttur og hinir hraðskreiðu höfðu teiknað hann. Fleiri og fleiri bílar kæfðu færri og færri fótgangendur í því sem einu sinni var vinaleg og lítil falleg borg.

Sagan mun svo dæma hvort rétt hafi verið að útrýma hinum hæglátu eða hvort hamingjan hafi verið meiri hjá hinum hraðskreiðu þegar þeir höfðu steypt upp í alla Reykjavík. 

 

Þór Þórunnarson 


Ég fagna baráttu þinni Ólafur F. Magnússon!

Minjar eða gamalt drasl?

Þegar ég var að alast upp þá var að vakna upp meðvitund um sögu og verndun gamalla húsa í Reykjavík. Sjálfur hef ég nær alla mína tíð búið í gömlum húsum. Mér finnst, og hefur alltaf fundist gömul hús ákaflega fallegar byggingar. Þær höfða til fegurðarskyns míns á miklu meiri hátt en nýlegar byggingar úr stáli, steinsteypu og gleri.
Mér er það ákaflega minnistætt, úr æsku, þegar við fjölskyldan, sem þá bjuggum í Grjótaþorpinu, gerðum allt sem í okkar valdi stóð til að koma í veg fyrir niðurrif Fjalakattarins. Fjalakötturinn var ákaflega falleg og söguleg bygging, þó hún hafi verið látin drabbast niður, þegar hér var komið sögu. Ég man að í einum mótmælum okkar félaganna tók eigandi hússins okkur inn og leiddi okkur í gegnum ganga og sali þessa stórfenglega húss. Markmið hans var að sýna okkur allt sem var að; signir bitar, fúi, brotnar spýtur, ónýtar raflagnir. Ég sá allt annað. Ég var staddur í ævintýraveröld, fullri af spennandi rangölum og skúmaskotum. Inni í húsinu var meira að segja GARÐUR. Þetta var rosalegt, stórir salir með svalir, mjóir gangar og endalausar tröppur.

Söguna þekkja víst allir, Fjalakötturinn var jafnaður við jörðu. Þessi sögufræga og fallega bygging var hreinlega rifin í tætlur af jarðýtum og gröfum. Í staðinn reis svo ljótur steinsteypukassi sem engum er augnayndi og er beinlínis ljótur.

 

Nú stendur mikill styr um tvö hús á Laugaveginum. Núverandi borgarstjóri, Ólafur F. Magnússon, hefur látið það í veðri vaka, að niðurrif þessara húsa hafi átt stóran þátt í að ákvörðun hans um að hætta meirihlutasamstarfi með tjarnarkvartettnum svo kallaða.
Á Ólaf hefur harkalega verið ráðist undanfarið, og ekki er ég alls kostar sáttur við þau vinnubrögð sem höfð eru uppi í ráðhúsi Reykjavíkur um þessar mundir.  En hattinn tek ég, aftur á móti, ofan fyrir nýjum borgarstjóra í húsafriðunarmálum – vel gert Ólafur!

Jú þetta kostar borgarbúa peninga en hverjum er það að kenna? Ég fór á almennan borgarafund þegar R-listinn, sem þá var í borgarstjórn, kynnti hið víðfræga deiliskipulag sem hefur með miðborgina að gera. Það fór hátt, á sýnum tíma, hversu mörg hús mátti rífa. Á áðurnefndum fundi tönglaðist Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi á því að það mætti, en ekki ætti, að rífa öll þessi hús. Við vorum allnokkur þarna á fundinum sem vissum, sem var, að ef að það má rífa, þá verður það gert. Það hefur alltaf verið árátta hjá íslendingum að rífa gömul hús og byggja ný í stað þess að gera upp. Afleyðingar þessa deiliskipulags blasa nú við á Laugaveginum. Auðvitað er allt þetta mál hið versta klúður en Ólafur er einungis að standa á sínu og reyna að bjarga því sem bjargað verður.


Ég bý í gömlu húsi og ég elska að gera gömul hús upp. Fátt þykir mér fallegra en að sjá fallega uppgerð gömul hús í gömlum grónum hverfum. Það er eins og endurfæðing, gamalt en samt nýtt. Ég er þess fullviss að byggingar þessar verða hin mesta prýði, og Reykjavík til sóma, þegar þær hafa verið gerðar upp. Hugsið ykkur að fara út að borða í fallegu umhverfi í húsinu sem (svo ömurlega) kennt hefur verið við Nike.
Man einhver eftir því hvernig Lækjarbrekka og Humarhúsið litu út þegar ákveðið var að rífa þau hús? Blessunarlega var barist fyrir verndun þeirra og stofnuð samtök í kjölfarið hin einu sönnu Torfusamtök. Skildi einhverjum detta í hug að rífa þessi hús í dag?


Ég fagna baráttu þinni Ólafur F. Magnússon og styð þig heilshugar í verndun nítjándu aldar götumyndar Lagavegarins. Það þarf að gefa þeim hryðjuverka-verktökum skýr skilaboð, sem kaupa eignir með það að markmiði að láta þær drabbast niður til að geta fengið leyfi til að rífa þær, um að slíkar aðfarir dugi ekki lengur.
Miðborgin lítur út eins og slömm-hverfi í dag. Hvert sem farið er gefur á að líta auð hús, brotnar rúður og heilu húsin undirlögð veggjakroti. Klámbúllur á hverju götuhorni er eitthvað sem ekki sæmir miðborg með virðingu. Víða í heiminum eru eigendur bygginga skyldaðir til að halda þeim við og er það eitthvað sem við þurfum að koma upp hér. Það er nefnilega ekki einkamál viðkomandi ef að fasteign byrjar að drabbast niður. Hinn svo kallaði "broken vindow effect", eða það að einn brotinn gluggi kallar fljótlega á annan brotinn ef ekkert er að gert, gerir það að verkum að eitt hús í niðurníðslu rýrir verðgildi eigna í kring og er ekkert annað en skemmdarstarfsemi sem ekki á að líðast.

Byggjum upp miðborgina með virðingu fyrir sögunni. Höldum í þessi gömlu fallegu hús og gerum þau upp svo sómi sé að. Látum þau skilaboð skýrt út ganga að það sé ekkert pláss fyrir nútíma steypustykki innan um gömlu fallegu timburhúsin okkar – miðborgin er fyrir timbur, steypan getur átt heima annars staðar!


Þór Þórunnarson


Klækjarefur eða lúið lamb?

Undanfarnir dagar hafa verið viðburðaríkir og áhugaverðir í ráðhúsi Reykjavíkur. Við fylgjumst með þegar baktjaldamakk skolast upp á yfirborðið, nýr meirihluti er myndaður að því er virðist með blekkingum og lygum, ungliðar fráfarandi meirihluta mæta og mótmæla með látum og – já, ekki að sökum að spyrja, Björn Ingi segir sig úr borgarstjórn Reykjavíkur. Þetta er alveg makalaust, maðurinn bara verður að vera í sviðsljósinu. Sumir hafa talið Björn Inga til framvarðasveitar íslenskra “spindoktora”, eða klækjarefa, í stjórnmálum og má það, að hluta til, til sanns vegar færa, þegar þetta síðasta útspil hans er skoðað af gaumgæfni.

Á fyrsta degi í borgarstjórnarandstöðu hættir Björn Ingi og það hefur, að sjálfsögðu [sic], ekkert með áhrifaleysi að gera. Hvers vegna er Björn Ingi þá að segja sig úr borgarstjórn?

Nú þegar Björn Ingi er búinn að stofna til eins meirihluta, með sárafá atkvæði á bak við sig, splundra þessum sama meirihluta og stofna til annars og er orðin valdalaus í borgarstjórn, sér hann engan ávinning af því að starfa í borgarstjórn. Hann velur að segja af sér sem borgarstjórnarfulltrúi, og ástæðuna, segir hann vera, árásir á sig innan Framsóknarflokksins. Það verður því að teljast nokkuð undarlegt að hann velji, samt sem áður, að halda áfram að vera í Framsóknarflokknum!

Guðjón Ólafur Jónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í viðtali í Silfri Egils sunnudaginn 20.01.08, að hótun Björns Inga, í fjölmiðlum, um úrsögn úr Framsóknarflokknum væri ekkert annað en "skúespil", hún væri gerð til að vekja samúð hins almenna flokksmanns.

Ég er fullkomlega sammála þessu mati Guðjóns Ó, Björn Ingi er að spila. Hann er, líklega, að búa sig undir næstu Alþingiskosningar og ráðamennsku í Framsóknarflokknum; þess vegna velur hann að segja sig ekki úr Framsóknarflokknum. Það hefði þó verið rökrétt ef hann fylgdi eigin sannfæringu og fullyrðingum að best væri að hann væri ekki lengur “fyrir”, m.ö.o. öll rök hans fyrir úrsögn úr borgarstjórn ættu einnig að eiga fullkomlega við um úrsögn hans úr Framsóknarflokknum.

Björn Ingi hyggst slátra andsæðingum sínum innan Framsóknarflokksins með þessum leik. Andstæðingarnir eiga að fá stimpilinn "eyðileggingarseggir". Hann ætlar að láta líta svo út að andstæðingar sínir, innan flokks, séu ómögulegir aðilar sem dragi stjórnmálin niður á persónulegt plan. Þannig vill hann fá hinn almenna flokksmann upp á móti þeim og, þar með, inn í stuðningslið sitt. Hann ætlar að “vægja eins og sá er vitið hefur”. Það hefur þó ekki alltaf átt við og hafa sumir aðilar beinlínis sagt sig úr Framsóknarflokknum vegna Björns Inga. Ásrún Kristjánsdóttir tjáir sig t.d. um úrsögn úr Framsóknarflokknum vegna starfshátta Björns Inga í Fréttablaðinu 25.01.2008 og menn hafa bent á ákvörðun Önnu Kristinsdóttir, um að taka ekki sæti á lista fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, megi rekja til starfshátta Björns Inga. Guðjón Ó hefur lýst því yfir hvernig honum finnst Björn Ingi hafa komið fram við sig og bent á að fleiri flokksmenn segi farir sínar ekki sléttar eftir samskipti við Björns.

Ef að við lítum á feril Björns Inga út frá klækjastjórnmálum, og setjum upp gleraugu “spindoktorsins”, þá sjáum við að þetta síðasta útspil ætti að veita honum góða stöðu fyrir næstu Alþingiskosningar og, ekki síst, næsta landsfund Framsóknarflokksins. Björn Ingi dregur upp þessa mynd: “Andstæðingar mínir eru þeir sem ekki vægðu og ekki höfðu vitið meira. Það geri ég aftur á móti. Andsæðingar mínir er fólkið sem kemur í veg fyrir að Framsóknarflokkurinn geti sótt fram og náð fram góðum málum. Þetta fólk setur allt púður fór í að rógbera eigin flokksfélaga og er að rífa flokkinn innanfrá. Andstæðingarnir mínir hafa hrakið mig úr borgarstjórn með tárin í augunum. Það er þeim að kenna að Framsóknarflokkurinn er að veslast upp og þurrkast út. Það er þeim að kenna að ungum upprennandi stjórnmálaleiðtogum, á borð við mig, er ekki vært í flokknum”.

Hann getur svo farið fram í næsta formannsslag með slagorð um að kjósi menn sig muni allt þetta breytast og nýir tímar séu í vændum fyrir Framsóknarflokkinn ná hann kjöri. Hann mun, í öllu falli, geta stefnt á þægilegt sæti í næsta prófkjöri til Alþingis og líklega skreiðast inn á þing eins og hann skreið inn í borgarstjórn og valda þar jafn miklum usla og hann olli í borgarstjórn Reykjavíkur.

Síðasta uppákoman varðandi fatapeningana sýnir, svo ekki verður um villst, hvaða mann Björn Ingi hefur að geyma. Hann fullyrðir að það sé viðtekin venja hjá íslenskum stjórnmálaflokkum að gefa fatastyrki og því um líkt. Þessu hefur formaður Vinstri grænna Steingrímur J. mótmælt harðlega fyrir hönd síns framboðs og raunar hafa allir flokkar, nema Samfylkingin, svarið slíkt af sér. Málsmetandi menn hafa tjáð sig um að styrkir af þessu tagi séu án efa skattskyldir, en á meðan ekki hefur verið lagður á það beinn dómsúrskurður, vill Björn Ingi halda því fram að það sé álitamál; allavega hugðist hann ekki gefa þennan styrk upp til skatts og hefði aldrei gert hefði hann komist upp með það. Það að honum datt ekki svo mikið sem í hug að kanna hvort gefa ætti slíkt upp, af sjálfsdáðum, hlýtur að setja spurningarmerki við heiðarleik hans og siðferði, að ekki sé minnst á hvort honum sé treystandi fyrir að fara með opinbert embætti.

Við erum að vitna harkaleg innaflokksátök innan Framsóknarflokksins, átök um völd og stöður. Í þessu stríði er engu hlíft og líklega munu fleiri en einn tapa sínu pólitíska lífi í þessum átökum. Þetta er stríð upp á pólitískt líf eða dauða. Björn Ingi er að skapa meðaumkun og heyja tilfinningastríð, í eigin þágu, til bjargar eigin pólitíska lífi - ekkert annað er hér á ferðinni. Þetta hefur ekkert með það að gera að hann hafi orðið fyrir óréttmætum ásökunum eigin flokksmanna og góður drengur neyðist til að hrökklast frá vegna níðingsskapar.



Þór Þórunnarson



Eru borgarstjórnarskipti í mína þágu eða borgarstjórnarmanna?

Ég veit að það er að bera í bakkafullan lækinn að skrifa um borgarmálin, eins mikið og þau hafa brunnið á mönnum undanfarið og margir um þau ritað. Ég get samt sem áður ekki stillt mig, enda lýðræðissinni, reykvíkingur og maður með álit á málefnum líðandi stundar.

 

Þeir sem lesið hafa skrif mín þekkja að ég er einlægur talsmaður þess að afnema fulltrúalýðræðið, og á það við hvort heldur er á stigi ríkis- sem sveitastjórna. Ég er þess sannfærður að farsi sá er við höfum vitnað undanfarið í borgarstjórn Reykjavíkur, er enn einn vitnisburðurinn um það hversu meingallað og rotið fulltrúalýðræðið er. Ég ætla, hins vegar, ekki í þessum pistli að skrifa sérstaklega fyrir beinu lýðræði. Nú vil ég beina sjónum beint að borgarmálum í Reykjavík 2008, enda ærið tilefni til og mál þannig að eru þau lóð á vogarskál röksemda minna.

 

Það hefur komið fram, á fleiri en einum vettvangi, að málefnaágreiningur sé enginn á milli stjórnmálaflokka þegar kemur að borgarmálum, heldur sé einungir um að ræða lítilsháttar áherslumun. Þetta mun koma skýrt fram í málefnaplaggi því er núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og óháðra hefur undirritað og afhent fréttastofum, en fréttastofurnar hafa fullyrt að málefnasamningurinn sé svo almennt orðaður að allir flokkar hefðu vel getað skrifað undir hann (ég vil vekja athygli á því að, þrátt fyrir allnokkra leit á veraldarvefnum, gat ég ekki fundið þennan málefnasamning, sem mér finnst vera, argasta vanvirðing við okkur borgarbúa). Það er m.ö.o. ekki ágreiningur um að bæta velferð, draga úr mengun, gera úrbætur í samgöngumálum, bæta kjör hinna verst settu o.s.frv. Það eru, aftur á móti, ákveðin mál sem skilja frambjóðendur að.

Eitt aðalágreiningsmál undafarinna ára er staða innanlandsflugvallarins í Vatnsmýrinni. Í því máli gátu kjósendur tekið afstöðu; vil ég flugvöllinn burt, kýs ég m.a. Sjálfstæðisflokkinn, vil ég hann ekki burt kýs ég Frjálslynda og óháða. Þarna, loksins, gat kjósandinn tekið skýra afstöðu. Nú er svo komið að þau framboð sem voru á þessum öndverða meiði eru búin að mynda borgarstjórnarmeirihluta og hvað svo?

Margir hafa bent á það, í tengslum við nýjustu borgarstjórnarskiptin, að þau fáu   grundvallaratriði sem þó aðskilja framboðin skipti akkúrat engu þegar til stykkisins kemur og virðast það orð að sönnu. Enn og aftur verður mér hugsað til þess hve úrelt og óþolandi fulltrúalýðræðið er.

 

Ég vil að lokum spyrja lesendur og kjósendur: Á stjórnun samfélagsmála, eins og borgarstjórnun, að vera vettvangur eiginhagsmunasemi og framapots gírugra einstaklinga, eða á það að ferli sem skilar mestri hagræðingu fyrir samfélagið og þar með þá einstaklinga sem samfélagið samanstendur af? Nú les maður að þrír borgarstjórar séu á launum hjá borginni, hver með ellefu hundruð þúsund á mánuði, og eflaust eru mun fleiri á biðlaunum vegna borgarstjórnarskiptanna. Sífelld breyting á áherslum, sífelldar mannabreytingar í ráðum og nefndum getur ekki talist hagkvæmt fyrir borgina. Það hlýtur að mega færa rök fyrir því að sjö borgarstjórar á átta árum og þrjár borgarstjórnir á tveim árum, jaðri við brot á skildum borgarstjórnarmanna um að bera hag borgarinnar í hvívetna fyrir brjósti.

 

Það sem er jákvætt við allt þetta brölt er það að þetta er, væntanlega og vonandi, einungis einn vegvísirinn í átt að beinu og raunverulegu lýðræði, því af þessu fengið höfum við nóg.

 

Þór Þórunnarson


Ísland er svo sannarlega dýrasta land í heimi.

BigMacÞó að ég sé lítill aðdáandi McDonalds hamborgarakeðjunnar þá verður að segjast að þeir hjá "the Economist" eru með alveg stórgóða mælieiningu í "Big Mac" vísitölunni. Það er varla hægt að bera saman verðlag á raunhæfari hátt en að bera saman "Big Mac". Og eins og þið sjáið þá er ekki að sökum að spyrja, Ísland trónir þarna á toppnum og er með heimsmetið í "Big Mac" verðlagningu eins og öðru vafasömu.

Meðalverðið er 2,76 dollarar en verðið á Íslandi er 7,44. Noregur er næst hæstur með 6,63 og Sviss með 5,05. Ekki er einu sinni hægt að segja að þessi vísitala mæli tengsl efnahagslegrar velferðar og verðlags því danski borgarinn kostar bara 4.84 og sá Sænski 4.59 en það eru lönd með svipaðann lífsstaðal og Ísland.

Til hamingju Ísland! 


Hvað er eðlilegt við það?

Það verður að segjast eins og er að Björn Ingi virðist vera gersamlega siðblindur einstaklingur. Að segja að ekkert sé óeðlilegt við það að fá eina milljón krónur í laun, gefa það ekki upp til skatts, verandi í framboði til að fara með skattfé borgaranna er algerlega út í hött að mínu mati. Að maðurinn lýsi því svo yfir blákalt að hann sjái, "ekkert athugavert við það", er svo bara endanlega til að fylla mælinn. 
Auðvitað eiga menn að greiða eigin garma úr eigin vasa hvort sem menn eru í stjórnmálum eður ei. Það skiptir ekki máli hvort "hinir" gera það líka eða ekki, það gerir ekkert réttara. Síðan eru áhöld um það hvort aðrir stjórnmálaflokkar fari eins að og Framsóknarflokkurinn í þessu máli.

Að lokum vil ég spyrja: Ef að einhver styrkir stjórnmálamann til fatakaupa upp á eina milljón krónur eru það ekki hreinlega mútur?

 

Þór Þórunnarson 


mbl.is Ekkert óeðlilegt við fatakaupin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræði, raunverulegt fyrir alla.

Ég verð aðeins að tjá mig um okkar háttvirta Alþingi.


Til að taka af allan vafa, þá er ég þess nokkuð fullviss að þetta forskeyti – háttvirta, eigi varla við í dag. Meira að segja sjálfir alþingismennirnir virða ekki þessa samkundu mikils að því er virðist. Hvað á þetta sýndarspil eiginlega að fyrirstilla? Þessir þingfundir, sem enginn nennir að hlusta á, eru skopskæling á lýðræðinu. Það má vel vera að þetta fundafyrirkomulag hafi verið hið rétta og eðlilega form á sínum tíma en það sér það hver maður, með augu til að sjá, að það á ekki við í dag. Tómur þingsalur þýðir ekki að þingmenn séu ekki að hlusta á ræðumann. Menn geta fylgst með þingfundi í gegnum beina útsendingu á veraldarvefnum, sjónvarpinu og menn geta lesið ræður þingmanna í þingtíðindum og á vefnum, m.ö.o nýtt sér tækni til að fylgjast með annars staðar en í þingsal. Væri ekki eðlilegast að stiga skrefið til fulls og láta menn einfaldlega lesa sínar ræður og miðla þeim svo á vefnum þar sem aðrir geta svo hlustað á hana beint eða lesið síðar og hætta þessu þingfundarbulli. Það sem ég er að ýja að er þetta: Hafi einhvertíma verið um eiginlega þingfundi að ræða þar sem menn mættu saman og ræddu sig saman til niðurstöðu, þá er það liðin tíð. Þegar ofan í kaupið bætist svo við þessi þunglamalegu fundarsköp, þetta óþolandi ... háttvirtur fimmti þingmaður norðurlands eystra ... (eða er það hæstvirtur?), þá getur útkoman ekki verið neitt annað en fáránleikaleikhús. Maður fylgist með því grátbrosandi þegar aumingja ræðumaður fipar sig niður eftir einhverjum þingmannalista til að númerakenna einhvern þingmanninn örugglega rétt. Þetta rugl er í raun þingræðinu og lýðræðinu til minnkunar. Það tekur enginn þetta fyrirkomulag alvarlega. Raunverulegt vald og árkvarðanataka fer fram á öðrum vettvangi – það vita allir. Alveg er ég viss um að eftirkomendur okkar eiga eftir að skellihlæja að þessum tilburðum og sjá fáránleikann í þessu svipað og við getum ekki annað en hlegið að fáránlegum hárkollum breskra lögmanna og dómara, sem er ekkert annað en afdankaður endurómur úreltra hefða og hefur ekkert með réttlæti eða lögdóm að gera.

 

Menn eru svo kosnir í nefndir og ráð og erum við þá farin að tala um fulltrúa-fulltrúalýðræði, þar sem ég kýs alþingismennina sem svo kjósa nefndarmennina. Í þessum nefndum ræða menn sig svo saman um orðalag og jafnvel áherslur einstakra mála og má því segja að ákvarðanatakan og raunveruleg umræða fara frekar fram í nefndarherbergjum en þingsal. Málið er bara að ég hef með atkvæði mínu, sem mér býðst náðarsamlegast að nýta á fjögurra ára fresti, akkúrat ekkert um það að segja hver er í fjárlaganefnd, eða hver fer með formennsku í heilbrigðisnefnd, eða nokkuð annað sem kemur nefndum og ráðum við.

 

Ég hef áður talað fyrir milliliðalausu lýðræði og þreytist ekki á því að vekja menn til umhugsunar um mikilvægi þess. Það er í raun alger óþarfi, fyrir lýðræðið, að hafa þessa þingfundi. Það eina sem réttilega er hægt að kalla lýðræði er beint lýðræði, þar sem allur almenningur tekur beina afstöðu með atkvæði sínu, til þeirra mála sem taka skal afstöðu til hverju sinni. Flestir, ef ekki allir, sem lýðræði styðja á annað borð, viðurkenna að endanlegt markmið og hugsun með lýðræði er að þegnarnir taki afstöðu í eigin málum og það á sem breiðustum grunni. Allt annað er málamiðlun, sem menn hafa þurft að sætta sig við, oft vegna tæknilegra annmarka á því að koma öllum almenningi að beinni ákvarðanatöku, og óbeint lýðræði er alls ekki takmark í sjálfu sér.

 

Ég fullyrði það að nú loksins, sjáum við fram á að tæknilega sé ekkert því til fyrirstöðu að koma á raunverulegu lýðræði.

 

Við sjáum að hver og einn þjóðfélagsþegn hefur þegar ákveðið númer – kennitölu, sem einkennir hann alla ævi og er hans og einungis hans. Þessi tala veitir aðgang að þjóðfélaginu; menn geta ekki unnið án kennitölu, fá ekki heilbrigðisþjónustu, í stuttu máli eru ekki gjaldgengir. Þessi kennitala getur hæglega veitt aðgang að kosningakerfi og virkað líkt og síma-eða PINnúmer, þar sem hver og einn þegn getur stimplað inn sitt atkvæði í þar tilbúnu kerfi.

 

Við sjáum í síauknum mæli sjónvarpsstöðvarnar beita sjónvarpskosningum og við sjáum einnig netkosningar færast sífellt í aukana. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá að tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu að almenningur í landinu geti hreinlega beint, og milliliðalaust, greitt atkvæði um þjóðþrifamikil mál eins og til að mynda stjórnun fiskveiða, utanríkismál, fjárlög, heilbrigðismál, skattamál o.s.frv. (að ekki sé nú talað um mannaráðningar í mikilvægar stöður hjá hinu opinbera).

 

Umræðan sem nú fer fram í tómum þingsal við Austurvöll myndi þá færast inn í miðlana og yrði í líkingu við þær umræður sem eru á vefnum í dag og við sjáum í myndbirtingum bloggs og greinarskrifa. Það sem gerir þetta svo aðlaðandi, þegar snýr að lýðræðislegri umræðu, er rauntíminn sem umræðan á sér stað í á veraldarvefnum. Það sem hver og einn hefur að segja er í raun útvarpað um leið og viðkomandi ýtir á “enter” takkann á lyklaborðinu. Það þarf ekki að bíða eftir að pappír sé prentaður og honum dreift um allar jarðir, það þarf ekki að bíða eftir að hreyfimynd er framkölluð og henni sjónvarpað. Það er meira að segja hægt að fylgjast beint með atkvæðatalningunni. Allir eiga rétt á að hafa framsögurétt og allir eiga atkvæðarétt í því samfélagi sem með sanni kennir sig við lýðræði – allt annað er blekking og fals.


Ég er að tala um raunverulegt lýðræði í stað þess úrelta fulltrúalýðræðis sem við búum við nú. Fulltrúalýðræði býður ekki upp á neitt annað en eiginhagsmunapot, spillingu og gerræðistilburði, eins og við vitnum nú sterkt hjá meðlimum Framsóknarflokksins og nú síðast í borgarstjórn Reykjavíkur; haldið bara ekki að þetta sé eitthvað einstakt á þeim bæjum. Hér er einfaldlega á ferðinni myndbirting valdabaráttu og eiginhagsmunapots; þess að koma sér að kjötkötlum samfélagsins og ráða yfir öðrum og eignum almennings.

 

Ég segi burt með þessa stjórnmálaflokka, þeir eru ekkert annað en hagsmunasamtök, samtryggingarmafíur og málamyndaræðuriðufélög. Burt með þessa einstaklinga sem telja sig vera þeim sérgáfum gæddir að þeir fullyrða að við ættum að treysta þeim, fremur öðrum, til að greiða atkvæði fyrir okkur hin og ákveða sameiginlega framtíð okkar allra. Hver eru þau sem telja sig sérstaklega vel til þess fallin að ráðstafa almannafé, ákveða skattprósentu, forgangsraða í heilbrigðiskerfinu, ákveða að styðja stríð o.s.frv. Burt með þetta kerfi sem bíður upp á fáránlegan loforðafjöld á fjögurra ára fresti, sem aldrei meiningin er að standa við, og ekkert er auðveldara en að svíkja með tilvísun í óumflýjanlegar málamiðlanir.

 

Kjósum ríkisstjórnir og sveitarstjórnir til að fara með framkvæmdarvaldið. Kjósum beint milli þeirra aðila sem vilja bjóða sig fram. Látum stjórnirnar um að stjórna en veitum þeim beint aðhald með virku lýðræði borgaranna. Allir geta svo barist fyrir ákveðnum málum og breytingum á umhverfinu sem þeim þykir áknýjandi; fái menn meirihlutakosningu þjóðarinnar fyrir sínu máli þá eru það lög.

 

Ég er að varpa hér fram róttækri hugmynd um beint almennt lýðræði og geri mér grein fyrir að að mörgu sé að hyggja og hana þurfi að ræða og þróa áfram. Ég er þess sannfærður að breyting í þessa átt er, ekki bara möguleg, heldur beinlínis æskileg. Hún er hreint og beint aðkallandi ætlum við ekki að glutra niður lýðræðinu. Ég hvet þig lesandi góður til að hugsa um þetta á hlutlausan hátt. Veltu því fyrir þér, einlægt, hvort ekki sé smuga að þú eigir rétt á því, eins og einhver alþingismaður, að taka sjálfur/sjálf ákvörðun um mikilvæg mál er snerta þig, afkomu þína, fjölskyldu og umhverfi og framtíð þessa lands.

 

Það var vissulega óumflýjanlegt, á sínum tíma, að Alþingi þróaðist eins og það hefur gert, með sínum fundum, nefndum, fundarsköpum o.s.frv. En það er ENGIN ástæða fyrir því að hlutirnir séu svoleiðis lengur, engin ástæða önnur en sú að viðhalda því sem er, einungis vegna þess að það er eins og það er.


Þór Þórunnarson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband