Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Stopp – ekki meiri sparnað!
14.12.2007 | 10:14
Vaknið Íslendingar! Það er verið að eyðileggja heilbrigðiskerfið okkar. Við verðum að vakna til vitundar um þessa STAÐREYND! Menn liggja á göngum að bíða eftir hjartaþræðingu, menn bíða á BRÁÐADEILD í allt að fimm klukkustundir eftir að fá aðstoð. Ég las að taka ætti lækna úr sjúkrabifreiðum. Hlustaði á forstöðukonu heilsugæslu miðbæjarins um daginn í útvarpinu. Hún sagði að heilsugæsla miðbæjar ætti að þjónusta 13.500 manns en gæti með góðu móti þjónustað 6.000. Það vantaði að ráða fleiri lækna og það vantaði meira pláss.
Er ekki kominn tími til að við spyrjum okkur hvort stefna í heilbrigðismálum snúist um eðlilegt aðhald í rekstri eða hvort hreinlega sé verið að skera niður í þjónustunni? Er það eitthvað sem við viljum? Ég vil að Íslendingar hafi aðgang að fullkomnu og góðu heilbrigðiskerfi. Ég vil ekki kerfi þar sem allt er skorið við nögl.
Kerfið okkar var þannig að hægt var að segja að það væri eins gott og kostur var en nú er hreinlega ekki hægt að segja að svo sé. Í dag er hægt að segja að kerfið sé eins lélegt og hægt er að komast upp með. Það er svo vegna pólitískrar stefnu heilbrigðisyfirvalda. Ekki vegna þess að það skortir fé í ríkiskassann.
Ég skora á ykkur íslendingar stöndum vörð um heilbrigðiskerfið! Krefjumst þess að hér sé eins gott heilbrigðiskerfi og völ er á, því það er ekki svo í dag.
Vaknið bíðið ekki eftir því að þið þurfið á þjónustunni að halda til þess eins að uppgötva að þá sé hún ekki til staðar.
Þór Þórunnarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stöndum vörð um heilbrigðiskerfið - það gerir það ekki sjálft - það er ekki sjálfsagt og það kemur okkur öllum við.
12.12.2007 | 08:49
Aðalástæðan fyrir því að borga skatta er að halda uppi velferðarkerfi. Það er ekkert til sem er ókeypis aðeins eitthvað sem aðrir borga fyrir. Við þurfum því öll að borga fyrir að halda uppi heilbrigðisþjónustu, mennta kynslóðirnar, annast aldraða og aðra sem ekki eru vinnufærir.
Ég ætla ekki hér að skilgreina nákvæmlega hvaða þjónusta skal vera innan velferðarkerfisins en ætla að einbeita mér í þessum pistli að heilbrigðisþjónustunni; sem ég fullyrði að sé sú þjónusta sem hvað mest sátt er um að skuli vera á vegum ríkisins - handa öllum, óháð efnahag og sú besta sem völ er á á hverjum tíma.
Ástæða þessara skrifa er sú að ég hef undanfarið fylgst með fréttum af hugsanlegum niðurskurði innan heilsugæslunnar. Ég hef og séð það og heyrt að mikill halli er á rekstri heilsugæslunnar. Sömuleiðis hef ég vitnað að verið sé að spara innan heilsugæslunnar og að verulegur skortur sé á heilbrigðisstarfsfólki og plássleysi sé víða mikið, bæði hvað varðar sjúklinga og starfsfólk. Þetta hef ég sömuleiðis vitnað persónulega þegar ég nýverið hef þurft að nýta mér þjónustu heilbrigðiskerfisins. Það virðist því vera þannig, á Íslandi í dag, að hvarvetna innan heilbrigðiskerfisins sé verulega skorið við nögl á nánast öllum sviðum.
Við höfum státað af því íslendingar að búa við öflugt og gott heilbrigðiskerfi sem er öllum, sem á þurfa að halda, aðgengilegt ég held að nú séu þar brigður á.
Ég vil leyfa mér að fullyrða að heilbrigðiskerfi okkar í dag sé EKKI eins gott og það gæti verið. Það skortir starfsfólk, það skortir pláss og umfram allt það skortir fjármagn. Afleiðingin er ofureinfaldlega sú að heilbrigðisþjónustan, sem slík, er miður góð - því miður. Langir biðlistar, sjúklingar liggja á göngum spítalanna, starfsfólk sem er útkeyrt og aðstaða öll þröng og hreint út sagt léleg oft á tíðum er það sem einkennir hið íslenska heilbrigðiskerfi á vorum dögum.
Nú verð ég að segja að ég hef glaður borgað mína skatta, hingað til, vegna þess að ég hef talið mig vita að til baka fengi ég góða heilbrigðisþjónustu, þegar og ef að ég og mínir þyrftu á að halda. Ég er líka þannig gerðar að mér getur ekki liðið vel vitandi af öðu fólki sem líður illa. Þannig er það af hreinni eigingirni og í eigin þágu sem að ég hef glaður tekið þátt í því að halda uppi heilbrigðiskerfi fyrir aðra. Það sem er að slá mig núna, hins vegar, er það að samfara fréttum af talsverðum tekjuafgangi ríkissjóðs og töluverðum summum af sölu ríkiseigna, sem liggja inn á bankabók, eru fréttir af fjársvelti heilbrigðiskerfisins. Það er eins og það sé stefna að spara í heilbrigðiskerfinu bara sparnaðarins vegna.
Ég get skilið að það þurfi að spara séu engir peningar til en ég tel fráleitt að spara þegar til eru peningar og þörf er á auknu fjármagni til heilbrigðiskerfisins. Það er eitthvað að og mig grunar að pólitískt sé verið að svelta heilbrigðiskerfið með óhugnað einkavæðingar og tvíkerfis að markmiði það ætla ég þó ekki að fullyrða en minnist á þennan grun minn hér svo að lesendur geti sjálfir tekið til þess afstöðu.
Ég krefst þess að sett verði tafarlaust aukið fé í heilbrigðisþjónustuna.
Ég krefst þess að laun heilbrigðisstarfsfólks séu hækkuð að raungildi þannig að vandalaust muni vera að manna þær stöður sem til þarf að halda uppi góðu heilbrigðiskerfi.
Ég krefst þess að byggt verði, svo að leguplássum fjölgi og biðlistar minnki.
Ég krefst þess að hið íslenska heilbrigðiskerfi verði eitt það besta sem völ er á og ég krefst þess að það verði einungis fjármagnað með sköttum.
Ég hef vitnað það á minni ævi að það er mun verra að fara á bráðamóttökuna nú en þegar ég var yngri. Á biðstofunni er veggspjald sem biður gesti að sýna biðlund vegna langrar biðar þetta var ekki þannig - ég fullyrði það. Þjónustan hefur með öðrum orðum versnað ekki batnað þrátt fyrir almennar framfarir innan læknisfræðinnar og aukna almenna velsæld. Hvernig má það vera þegar við sem þjóð, sem erum orðin efnaðri, höfum yfir að ráða verri þjónustu í dag en fyrir þrjátíu árum? Rökrétt væri að samfara bættum efnahag þjóðarinnar hefði heilbrigðisþjónustan batnað ekki versnað. Ég hef leitt að því líkum, í þessum pistli, að til séu fjármunir til að setja í heilbrigðiskerfið af hverju er það ekki gert?
Það er komin tími til að við stöndum saman og krefjumst þess að heilbrigðiskerfi okkar íslendinga verði bætt og það tafarlaust. Við skuldum það sjálfum okkur, við skuldum það afkomendum okkar og við skuldum það, ekki síst, áum okkar, sem börðust fyrir því með tárum svita og blóði að koma því á.
Gott heilbrigðiskerfi er EKKI sjálfsagt eða sjálfgefið. Það ver sig ekki sjálft gegn pólitískum niðurskurði. Það er komin tími til að við spyrjum okkur þeirrar spurningar: Viljum við gott ríkisrekið heilbrigðiskerfi sem allir hafa aðgang að, þegar þörf krefur, óháð efnahag?
Ef að svarið er já, og það er það hjá mér, skulum við krefjast þess að tafarlaust verði sett aukið fé í kerfið, því að oft var þörf en nú er nauðsyn.
Þór Þórunnarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.12.2007 kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég er heiðingi - og stoltur af því.
1.12.2007 | 11:42
Jæja, þá ætla ég að tjá mig aðeins um þessa kristniumræðu sem hefur verið í gangi undanfarið.
Best að byrja á að taka það fram að ég er ekki kristinn, einn af þeim fáu í mínum árgangi sem ekki fermdist. Ég lít frekar á mig sem heiðinn, þó ég tilheyri ekki neinni trú eða trúfélagi og mun aldrei gera líklega. Ástæðan fyrir því að ég segi mig vera heiðinn er ofureinfaldlega sú að orðið nær yfir flestalla sem ekki eru kristnir.
Þessi umræða sem hefur verið í gangi fjallar að miklum hluta um íslenska arfleið og menningu. Í mínum huga er kristni ekki íslensk, hvað þá heldur, norræn arfleið. Þessari trú var þröngvað upp á íslendinga á sínum tíma. Siðaskiptunum var síðan komið á, einnig, með utanaðkomandi þrýstingi og valdbeitingu. Kristni er ekki einu sinni evrópsk arfleið. Mín arfleið er hin heiðna og ég er stoltur af henni.
Sömuleiðis hafa menn talað mikið um siðferði í þessari umræðu.
Ég gef ekki mikið fyrir kristið siðferði. Menn einblína gjarna á það sem segir í nýja testamentinu í því sambandi en ákveða að gleyma því sem stendur í því gamla af því að það hentar ekki. Saga kirkjunnar fjallar síðan um allt annað en umburðalyndi og kærleik, óþarfi að fjölyrða mikið um það.
Það kemur e.t.v. að því að ég muni berjast fyrir því á opinberum vetvangi að ná fram aðskilnaði ríkis og kirkju; það finnst mér vera réttlætismál.
Þú sem ert kristinn haf þú þína trú en láttu okkur hin í friði. Börn okkar á skólaaldri eiga ekki að þurfa að sitja undir trúboði þínu og áróðri frekar en þín börn að sitja undir áróðri okkar. Þetta snýst um trúfrelsi. Í því felst frelsi til að trúa og að fá að vera í friði fyrir trúboði og trúarlegum áróðri.
Lifið heil og í friði.
Þór Þórunnarson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Kjaramál og ... önnur mál?
30.11.2007 | 12:48
Nú, loksins, fara kjaraviðræður af stað. Ekki það að ég bindi miklar vonir við að þær skili árangri frekar en fyrri daginn. Það er allt eitthvað svo vonlaust þegar þessir aumingjas verkalýðsforingjar eru annars vegar. VR gerir t.d. þá "kröfu" að laun 60% aðildarfélaga hækki ekki neitt næsta samningstímabil. Svolítið furðulegt í ljósi þess að laun margra hafa hækkað ótrúlega undanfarið, t.d. alþingismanna, ráðherra, dómara, útvarpsstjóra og diplómata og þá er ég bara að tala um opinbera starfsmenn sem, eins og sagt er, sitja alltaf á hakanum í samanburði við almenna markaðinn.
Annað finnst mér aumkunarvert. Í Silfri Egils um daginn var formaður Rafiðnaðarsambandsins og kvartaði undan broti á ýmsu þegar kemur að erlendu verkafólki hér á landi. Sagði menn vera á unglingatöxtum, þó iðnmenntaðir væru, menn útselda á fullum töxtum. Hann talaði um aðbúnað á vinnustað og hvernig þessu farandfólki var gert að búa - slæm mynd þar dregin upp. Það fáránlegasta við þetta var, hins vegar, það að þegar aðspurður um hvað verkalýðshreyfingin gerði í málinu kom einhver afkáraleg samlíking um lögreglu og stúta undir stýri - það væri ekki lögreglunni að kenna ef að menn kæmust upp með það að aka undir áhrifum áfengis?!?
Ég verð bara að spyrja: Er það ekki EINA hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að standa vörð um réttindi og kjör launafólks? Er það orðið svo á vorum tímum að verkalýðshreyfingin lætur sér nægja að klaga brot á vinnulöggjöf og ómannúðlega meðferð á verkafólki til yfirvalda og lætur þar með sitja ef að ekkert er að gert að hálfu þessara yfirvalda?
Sú var tíðin, og ég man vel eftir því, að það þýddi EKKERT fyrir einhvern atvinnurekanda að einu sinni reyna að beygja lög og reglur á vinnumarkaðnum. Sú var tíðin að menn hreinlega óttuðust að fá verkalýðshreyfinguna upp á móti sér. Ef að svo varð var vinna einfaldlega stöðvuð og ef ekki dugði að stöðva bara á viðkomandi vinnustað var samstundis farið í samúðarverkfall og allt sett í bið þangað til að leyst hefði verið úr málum. Þá voru dugandi menn í verkalýðsforystunni - nú eru þetta skvattar, kerfiskallar sem eru til einskis nýtir annars en að hanga á fundum og dreyma fyrir framan tölvuskjáinn.
Að lokum; Feitur kall frá verkalýðshreyfingunni sat á móti alþingismanni í Kastljósi Ríkissjónvarpsins um daginn. Verið var að ræða fjölgun skattþrepa. Eitt fyrir fátæklinga og annað fyrir hina. Alþingismaðurinn, Pétur Blöndal, opnaði - ætlaði örugglega að vera svakalega klár og sniðugur - með því að segja að verkalýðsfrömuðurinn ætti að halda sig við kjaraumræðuna. Ef að hann ætlaði að fara að blanda sér í skattamál, sem væru ákveðin með lögum, ætti hann að bjóða sig til þings - hmrbl.... Sko, nú vil ég taka það skýrt fram að eitt skattþrep er meira en nóg og vil ég ekki breyta því. Hitt er svo annað mál að ríkið á og verður að taka þátt í því að bæta kjör - að sjálfsögðu - hvers konar þvæla er þetta. Ákvörðun skattleysismarka er kjaramál en er, að sjálfsögðu innan skattalaga.
Við getum tekið önnur mál; heilbrigðisþjónustuna. Aðkomugjöld eður ei og ef þá hversu há. Á að setja peninga í að byggja tónlistarhús eða bæta kjör heilbrigðisstarfsfólks sem er forsenda þess að geta tekið á móti fleiri sjúklingum og þjónustað þá betur.
Þessi, svokallaði, verkalýðsforingi lét vaða yfir sig á skítugum skónum og það með fáránlega hæpnum málflutningi, fattaði ekki hvaðan á sig stóð veðrið og opinberaði sig sem þann sem hann er: ofurfeitur og dofinn kyrrsetukarl sem er einskis nýtur til að breyta nokkrum sköpuðum hlut, hvorki fyrir sjálfan sig né aðra.
Er það furða að maður er hættur að vera í verkalýðsfélagi og tekur málin bara í sínar eigin hendur - gallinn er bara sá að: Sameinuð stöndum vér - sundruð föllum vér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.12.2007 kl. 07:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um einkavæðingu, markaðshagkerfi, velferðarkerfi og hagkvæmni.
27.11.2007 | 19:19
Lengi hef ég setið hljóður hjá og hugsað um einkavæðingu opinberra fyrirtækja. Séð banka og önnur fyrirtæki vera seld. Ég hef, eins og margir aðrir, undrað mig á því hvernig aðferðafræðin var, og er, varðandi söluna. Af hverju allt þetta pukur, af hverju fá sumir bara að kaupa en ekki aðrir? Nú síðast hefur opnast umræða um hvernig húseignir bandaríkjahers á Miðnesheiði hafa verið meðhöndlaðar. Sömu spurningar er hægt að spyrja sig um sölu ríkisbankanna og öllum er í fersku minni salan á Hitaveitu Suðurnesja. Ég er nokkurn veginn sannfærður um að hér er mygla í mysunni; örlítil þekking á mannlegu eðli segir mér það. Það er ekki það sem ég ætla að ympra á hér, heldur það sem alltof lítið hefur verið rætt í þessu sambandi Af hverju að einkavæða?
Það er búið að tyggja það ofan í almenning að það sé betra rekstrarfyrirkomulag að einkaaðilar sjái um allt (nema, kannski, rekstur lögreglu, dómstóla og ja ... spítala). Menn bentu á þá spillingu sem fylgdi því að stjórnmálamenn væru að vasast í fyrirtækjarekstri. Aðal röksemdin er samt sú að: frjáls samkeppni (hin ósýnilega hönd) myndi skila mesta hagræðinu og þ.a.l. koma sér best fyrir allan almenning. Skoðum aðeins þessa fullyrðingu.
Frjáls samkeppni er hugtak sem notað er í hagfræðinni sem útópískt ástand sem beri að stefna að. Það er, m.ö.o. viðurkennt innan hagfræðinnar að frjáls samkeppni þekkist ekki í raun. Ástæður þess eru að skilyrði frjálsrar samkeppni eru ekki né verða nokkur tíma til staðar. (Þar sem þetta er ekki kennslupistill í hagfræði bendi ég áhugasömum á kennslubækur í hagfræði t.d.: Economics eftir John Sloman).
Stjórnmálamenn eru misvitrir og almenningur ekki síður. Ég hef a.m.k. aldrei heyrt talað um það þegar verið er að predika fyrir einkavæðingu að frjáls samkeppni sé óskhyggja sem standist ekki raunveruleikann og muni ALDREI gera það.
Við skulum, í stuttu máli, fara yfir það hvers vegna aldrei getur verið um að ræða frjálsa samkeppni í veruleikanum.
Gefum okkur það að í byrjun sé frjáls markaður. Það þýðir að við höfum marga nákvæmlega jafnstóra aðila á markaði, sem eru ekki verðsetjarar og hafa fullkominn aðgang að öllum upplýsingum er varða markaðinn og neytendur hafa sömuleiðis fullkomna þekkingu á markaðnum. Og margir vilja bæta við að enginn aðili á markaðnum auglýsir vöru sína eða þjónustu.
Hin ósýnilega handarkenning segir að samkeppni á markaði leiði til þess að neytendur versli þar sem sé ódýrast, til að tryggja eigin hag. Þar með geti enginn einn framleiðsluaðili hækkað verð og sé því, í raun verð-taki. Að sama skapi sjái þetta fyrirkomulag um að hinar takmörkuðu auðlindir samfélagsins nýtist sem best því allir slugsar sem ekki hámarki nýtingu auðlindanna (séu það mannauðlindir, tímaauðlindir, hráefnaauðlindir eða hvað sem er) fari fljótlega á hausinn því þeir geti ekki keppt við hina í verðum sem betur fari með þessar sömu auðlindir.
En hér er falin kerfisvilla í kenningunni.
Gefum okkur áfram að aðilar á þessum ímyndaða frjálsa markaði séu misgóðir í því að fara með auðlindirnar (það hlýtur að vera eðlileg ályktun, því ef menn eru ekki misgóðir í því af hverju þá frjáls samkeppni; hún á jú að vera VEGNA ÞESS AÐ MENN ERU MISGÓÐIR Í ÞVÍ AÐ FARA MEÐ AUÐLINDIR. Annars þyrfti ekki frjálsa samkeppni til að tryggja að fá þá bestu til þess og þar með tryggja hag neytenda og þar með samfélagsins alls). Það gefur því augaleið að einn, eða nokkrir, eru betri enn flestir og kaupa upp þá sem lélegri eru sem svo aftur kaupa upp þá sem lélegri eru og svo koll af kolli þangað til við höfum eitthvað sem nálgast óþægilega raunveruleikann og kallast fákeppni, samráð og einokun. M.ö.o. akkúrat sömu rök og segja að við eigum að treysta markaðnum til að hámarka hagkvæmni auðlinda, og bestu kjör fyrir mig og þig, benda á að frjáls samkeppni getur aldrei orðið neitt annað en í mesta lagi stutt breytingaskeið í átt að einokun.
Það sem menn sáu hér í eina tíð, þegar ríkisfyrirtæki voru stofnsett) var að það er þó skömminni skárra, sérstaklega þegar kemur að nauðsynlegum fyrirtækjum eins og spítölum, skólum og BÖNKUM, að þessi fyrirtæki væru í almannaeigu fremur en í einkaeigu. Þar með væri hægt að tryggja að ekki væri verið að okra á fólki (hringir einhverjum bjöllum þegar ég nefni banka í þessu sambandi) með því að almenningur hefði fullkominn aðgang að öllu er varðar rekstur fyrirtækisins og stefnu þess, t.a.m. arðsemisstefnu. Markmiðið var að allir gætu notið þjónustunnar án persónulegs efnahags. Það vaor álitin sjálfsögð mannréttindi að menn ættu rétt á þaki yfir höfuðið (þetta þýðir að hafa aðgang að sæmilega ódýru lánsfé t.d.), heilbrigðisþjónustu og menntun svo dæmi séu tekin.
Mér finnst ekkert hafa heyrst í umræðunni um samhengi innrásar hinna frjálsu banka á íslenska húsnæðismarkaðinn og hinnar ótrúlegu hækkunar húsnæðisverðs. Það er eins og margur maðurinn álíti þetta hina skrýtnustu tilviljun að rosaleg hækkun húsnæðisverðs gerist á sama tíma. Jú menn segjast skilja að aukið aðgengi að lánum hafi aukið eftirspurn og þar með hækkað verð en síðan ekki söguna meir. Einhverjir spekúlantar hafa meira að segja tjáð að markaðurinn hafi verið að leiðréttast miðað við verð í öðrum stórborgum.
Nú standa menn hins vegar í þeim sporum að bankarnir eru búnir að koma sér fyrir á markaðnum, húsnæðisverð hefur hækkað um 40 50% OG vextir hafa hækkað og eru hærri en áður en að bankarnir komu inn á markaðinn. Hvað varð um hina ósýnilegu hönd sem átti að tryggja hagkvæmni, besta verð og hag neytenda? Bíddu við, átti ekki aukin samkeppni á húsnæðismarkaðnum að bæta hag neytenda? Ef ekki, hvers vegna í ósköpunum þá að hleypa bönkunum inn á markaðinn? Það skildi þó ekki hafa verið til þess að tryggja ákveðnum aðilum einkaaðilum arðsemi af þeirri ófrávíkjanlegu staðreynd að allir þurfa þak yfir höfuðið; fátt er arðvænna en það að lána til íbúðarkaupa, það vita allir sem þora að reikna 40 ára húsnæðiskaupalán til enda. Sem sagt, tilkoma bankanna á þennan markað hefur EKKI bætt hag lántakenda/húsnæðiskaupenda. Empírísk skoðun segir okkur því ofureinfaldlega að opinbert fjármögnunarkerfi til húsnæðiskaupa er betra en einkavætt, í það minnsta ekki verra.
Annað dæmi; Nú er mikið í umræðunni sala ríkisins á orkufyrirtæki suður með sjó. Forstjóri Landsvirkjunar hefur talað fyrir einkavæðingu og Evrópusambandið þrýstir á einkavæðingu dreifingakerfa. Ég var staddur í BNA árið 2003 þegar stór hluti austurstrandarinnar varð rafmagnslaus. Rafmagnsleysi og truflanir eru landlægar alls staðar í BNA. Menn vita ástæðuna; hún er sú að rekstrarfyrirkomulag orkuveitna er á einkaeignargrunni. Skoðun leiðir í ljós að til að fá menn til að fjárfesta í orkufyrirtækjum þarf að laða fjárfesta að með von um arð. Sá arður þarf að vera jafnmikill, helst meiri, en menn geta vænst af fjárfestingum annarsstaðar (hin ósýnilega hönd); þetta kallar hagfræðin að dekka fórnarkostnaðinn við fjárfestinguna. Arðsemiskrafan kemur, aftur á móti, ílla niður á viðhaldi. Sérstaklega hefur úttekt á rafmagnsveitum þar vestra sýnt að dreifikerfið hefur verið vanrækt. Ef að val stjórnenda stendur m.ö.o. á milli þess að endurnýja, segjum 200 km. rafmagnslínu eða borga út 200 milljarða arð, þá er valið að borga út arðinn. Það leiðir til hækkunar bréfa á markaði sem leiðir til hærri launa stjórnenda og mælanlegs árangurs þeirra; afleiðingin kerfið er eins lélegt og menn komast upp með. Kerfið í heild sinni er einfaldlega lélegt og annar ílla þeirri eftirspurn sem er á rafmagni. Smith gamli hefði átt að hugsa þetta með hámarks hagkvæmni aðeins betur.
Myndin sýnir svæði á stærð við Mexíkóflóa ljóslaust.
Ég vona að með þessum stuttu skrifum hafi ég, allavega fengið menn til að setja spurningarmerki við þá fullyrðingu að einkavæðing sé betra fyrirkomulag en opinber rekstur.
Jú einkavæðing er betri en spurningin er bara fyrir hverja; fyrir fáa útvalda eða fyrir fjöldann?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.11.2007 kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)