Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Spillingin er ekki bara hér (sem betur fer?)
26.1.2009 | 00:03
Fjármálaeftirlit - skóli fyrir bankamenn.
25.1.2009 | 21:29
Það er merkilegt að fara yfir það hversu stór hluti almennra starfsmanna FME var ráðinn til bankanna. Það skýrir að vísu vel hversu óskilvirkt FME hefur verið. Auðvitað ferðu ekki að agnúast út í aðila sem hugsanlega ræður þig til starfa á mun hærri launum en þú ert á nú. Bankarnir réðu síðan, með glöðu geði, starfsmenn FME í sínar raðir til að fá innanbúðar upplýsingar um vinnuhætti og hvaða vitneskju þessi eftirlitsstofnun hafði yfir að ráða.
Nú kemur í ljós að forystusauðurinn hafði 1,7 milljónir í mánaðarlaun - kannski var það til að hann freistaðist ekki til að sækja um hjá bönkunum? Annars hefði það nú verið frábær sýning á því frauðlýðræði sem við búum við í þessu landi. Já svo fær hann 12 mánaðar laun eftir að hann er hættur að vinna.Við hin fáum þriggja mánaða uppsagnafrest sem við þurfum að vinna - eftir það atvinnuleysisbætur.
Björgvin segir af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvað er rangt við atvinnustjórnmálamennsku?
25.1.2009 | 20:48
Það er talað um nauðsyn uppstokkunar í íslensku stjórnkerfi. Fáir sem tjáð hafa sig um málið geta ímyndað sér að áframhaldandi fjórflokkakerfi geti átt aðild að því að byggja upp nýtt Ísland. Ástæðan er margþætt en mér segir svo hugur að tvennt sé aðallega sem brenni á fólki.
Í fyrsta lagi hefur Alþingi sem slíkt brugðist. Þeir aðilar sem þar hafa setið undanfarin kjörtímabil eiga beina sök á því ástandi sem nú ríkir. Löggjafarvaldið hefur brugðist; sá aðili sem sett hefur leikreglur þær sem spilað var eftir á íslenskum fjármálamarkaði brást. Alþingi hefur sett lög sem leitt hafa af sér það ástand sem nú er að knésetja þjóðina; og má þar nefna kvótakerfið í íslenskum sjávarútvegi, lög um fjármálaeftirlit og Seðlabanka. Alþingi hefur brugðist þeirri skyldu sinni að tryggja það að bankafyrirtæki vaxi ekki íslensku samfélagi svo um höfuð að fall þeirra gæti dregið þjóðarbúið með sér. Það er Alþingis að sjá til þess að gjaldmiðillinn í landinu sé nothæfur. Það er m.ö.o. ekki hægt að kenna fjármálalífinu um hvernig fór, það starfaði eftir þeim ramma sem því var sett ramminn, lögin, reglurnar - Alþingi er það sem brást.
Hitt er sú spilling sem nú er að verða öllum ljós. Spilling sem aldrei gæti viðgengist nema með því að ná inn í sjálft Alþingi íslendinga. Samtryggingarstjórnmál, flokksundirgefni, greiðastjórnmál og foringjaundirlægjuháttur eru þættir sem stuðla að spillingu í valdaþáttum samfélagsins. Fjármögnun flokka og lokað bókhald þeirra eru dæmi af argasta tagi sem ala á vantrausti og eru vettvangur spillingar. Samtvinnun löggjafar- og framkvæmdarvalds og undirtök stjórnmálaflokka í dómsvaldi ríkisins eru einnig til að auka á nálykt þessa flokkakerfis sem fólk sér sig nú tilneytt til að fara út á götur til að mótmæla gegn.
Hægt er að tiltaka fleiri dæmi en læt ég það öðrum eftir, mér nægir að fullyrða að flokkakerfi það sem við búum við á Íslandi er afdankað og úr sér gengið. Það hefur aldrei verið gott og, í raun, dregið úr mætti fólksins til að ákveða hver og hverjir færu með stjórn landsins því þarf að breyta.
Ég ætla að fullyrða það hér að það eitt að fólk hafi starfa af og eigi sér starfsferil í að vera stjórnmálamenn sé undirrót þeirra meina sem nú eru orðin graftakýli á íslensku samfélagi. Framan af lýðsveldistímanum, að ekki sé talað um, áður en Ísland varð nýlenda erlendra konunga var það ekki aðalstarfi þingmanna að sitja þing. Menn áttu sér annan starfa og riðu til þings, eins og það var kallað, til að taka þátt í umræðum og ákvarðanatökum en snéru að því loknu heim til sinna starfa á ný. Hvað er svo mikilvægt í þessu? Jú sú staðreynd að menn höfðu ekki starfa af því að vera Alþingismenn gerði það að verkum að menn voru ekki að berjast fyrir sínu eigin pólitíska lífi heldur voru að berjast fyrir þeim málum sem þeir vildu koma í gegn á þessu er veigamikill og grundvallar munur.
Þegar menn gerast atvinnustjórnmálamenn verður þeirra hagsmunamál fyrst og fremst að halda áfram í stjórnmálum. Meginmarkmiðið verður að viðhalda eigin völdum, hvort sem það felst í því að ná endurkjöri til Alþingis, setu í ríkisstjórn, setu í nefndum eða ráðum á vegum ríkisins eða í öðrum embættum svo sem utanríkisþjónustu eða bankaráðum. Út frá þessu þróast svo samtryggingarstjórnmálin sem síðan leiða af sér þá spillingu og stjórnleysi sem við erum svo óþægilega að upplifa afleiðingarnar af í dag. Allir flokkar á Alþingi í dag hafa tekið þátt í þessu ferli; þessu sem heitir að koma sínum mönnum að.
Ég vil halda því fram að það sé engin ástæða fyrir atvinnustjórnmálamennsku og að það sé í raun hefting á lýðræði og ákvarðanamöguleikum almennings. Ég hef bent á það áður, og mun aldrei þreytast á því, að það er bæði mögulegt og sjálfsagt og eðlilegt að líta á alla borgara samfélagsins sem þingmenn, og að allir borgarar samfélagsins eigi að taka þátt í ákvörðunum er varða samfélagið. Tími fulltrúalýðræðisins er liðinn undir lok og einungis sú staðreynd að, atvinnustjórnmálamenn vilja viðhalda völdum (störfum) og vanþekking almennings á því að vel er hægt að sinna ákvarðanatöku beint og milliliðalaust, er að koma í veg fyrir að ástandið breytist. Tæknilega er í dag vel hægt að bera öll meiriháttar mál beint undir þjóðina til samþykkis eða höfnunar. Af hverju má ekki ég eða þú lesandi góður hafa eitthvað að segja um fjárlög, niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, áherslur í umhverfis- og utanríkismálum og menntamálum svo eitthvað sé nefnt? Hvers vegna þarf ég að ganga í einhvern tiltekinn flokk til að geta haft eitthvað um það að segja hvort kjósa eigi um ákveðin mál er varða þjóðina alla? Það er mjög líklegt að ég sé sammála ýmsu í öllum flokkum en ekki öllu af hverju á ég að þurfa að festa mig við einn stjórnmálaflokk til að hafa áhrif? Af hverju á ég ekki, sem borgari í þessu landi, að geta haft áhrif á það beint hver verður forsætisráðherra eða ráðherra yfir höfuð? Svarið við þessum spurningum er einfalt: Af því að ákveðnir aðilar í landinu vilja ekki láta frá sér það vald sem þeir hafa. Það felst mikið vald í því að ráða yfir stjórnmálaflokki sem getur ráðið því hverjir verða ráðherra og dómarar, hverjir sitji í ráðum, nefndum og embættum ríkisins, stjórnum ríkisfyrirtækja og séu sendiherrar o.s.frv. Þetta vald vilja menn ekki láta frá sér. Það er, aftur á móti, engin praktísk nauðsyn á þessu fyrirkomulagi.
Þú sem ert að lesa þetta, það er undir þér komið að breyta þessu. Það er undir þér komið að krefjast þess að þú fáir að taka ákvarðanir um þína framtíð, þitt líf og að það sé ekki á höndum fárra aðila, sem hafa þann hag fyrir brjósti að viðhalda eigin völdum. Við höfum sýnt það, almenningur í þessu landi, að við getum knúið á um breytingar og það hriktir í stoðum flokkakerfisins vegna þess graftar sem nú vessast upp á yfirborðið. Þetta kerfi er liðið undir lok það er undir þér komið, lesandi góður, hvað tekur við.
Lifi byltingin!
Útilokum ekki breytingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Jæja, nóg af kjaftæði - tillögur takk!
24.1.2009 | 13:35
Þessi vettvangur er æðislegur. Við getum öll tjáð okkur og náð til fjöldans. En ég ætla nú að fara fram á það að við öll reynum að nota þetta dásamlega tæki til að gera eitthvað uppbyggilegt.
Við höfum notað bloggið til að þrýsta á stjórnvöld og krefjast breytinga og það er vel. Nú er það einsýnt að kosningar verða í vor og því kalla ég nú eftir uppbyggilegum, (konkret) tillögum um það hvað fólk vill sjá í aðgerðum. Ekki láta bara mata sig og segja já eða nei - komið með tillögurnar! Ekki bara benda á það sem þið viljið ekki - segið alþjóð hvað það sé sem þið viljið sjá.
Ég er að setja saman mínar tillögur og er fyrsta grein hérna fyrir neðan. Ég hef ekki séð mikið af því hvað þið viljið gera. Það er auðvalt að gagnrýna. Ódýrt að krefjast aukins lýðræðis og krefjast aukinnar þátttöku almennings; en sýnið þá fram á að þið hafið eitthvað upp á að bjóða. Hefjum uppbyggilega umræðu um nýtt Ísland svo að það geti nýst í komandi kosningabaráttu og haft einhver áhrif.
Nú er að taka byltinguna upp á næsta stig.
Ég bendi líka á grein mína :"Um lýðræði", sem eru tillögur mínar um hvernig framtíðarkerfi við getum sett á til að koma í veg fyrir að svona illa fari sem reyndin hefur orðið. Koma nú - tillögur takk.
Lifi byltingin!
Hvað er þetta Raddir Fólksins?
23.1.2009 | 15:36
Eru þetta einhver fjöldasamtök? Eða eru þetta nokkrir einstaklingar sem tala?
Það þarf að vera alveg skýrt að þeir sem hafa mótmælt undanfarið og jafnvel hafa mætt á laugardögum undanfarnar vikur eru ekki meðlimir í einhverjum samtökum sem heita Raddir fólksins, heldur almenningur sem vill mótmæla ástandinu.
Það hefur mætt annarstaðar og mótmælt mun víðar en að mæta á þessa útifundi á laugardögum til að hlusta á ræður og syngja ættjarðarsöngva.
Það að þetta Raddir fólksins hafi verið fyrst í að kalla til útifunda og átt heiður skilið fyrir að viðhalda þeim þýðir ekki að fólk hafi mætt vegna þessara samtaka eða þurfi á einhvern hátt að samsama sig þeim. Ef ekki hefðu verið þessir fundir hefðu aðrir komið til í staðinn. Þetta Raddir fólksins er ALGERT aukaatriði í þeirri byltingu sem farið hefur um þjóðfélagið og nú náð fram því markmiði að kalla fram kosningar í vor.
Það er alveg óþolandi ef að einhverjir einstaklingar, hópar, eða félög ætla að fara að þakka sér þann árangur sem hefur náðst og verða einvherjir sjálfskipaðir talsmenn almennings og málsvarar gegn óréttlæti. Athugið það að slík hugsun (ég-er-svo-mikilvægur-að-ég-er-fólkið) er einmitt stór hluti þess vanda sem við eigum við að etja.
Lifi Byltingin
Hænuskref í rétta átt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hvað þarf ný ríkisstjórn að gera?
23.1.2009 | 15:23
Fyrsta grein:
Þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum eftir 9. maí þarf hún að byrja á því að skilgreina efnahagsvandann og upplýsa almenning um stöðu mála.
Hverjar eru raunverulegar skuldir ríkisins?
Það eina sem almenningur veit er að þær eru líklega gífurlegar og að ríkissjóður var skuldlaus fyrir hrun bankanna í september. Það er augljóst að skýr mynd af skuldastöðu ríkissjóðs fæst ekki fyrr en gengið hefur verið frá uppgjöri gömlu einkabankanna. Það hefur reynst flókið að uppfæra eignastöðu vegna ástands markaða og þeirra fölsku eignamyndunarveða sem tíðkuðust í viðskiptum bankanna. Talað er um að sala eigna þurfi að eiga sér stað fyrst eftir að jafnvægi hefur náðst á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og vel á vera að það muni reynast skynsamlegt. Eitt er þó ljóst að mat eigna hefur oftar en ekki verið fullkomlega óraunhæft og í mörgum tilfellum standa lítil sem engin raunveruleg verðmæti að baki veðum.
Ofan á þetta leggst að greiðslugeta skuldara hefur snarversnað vegna hinnar alþjóðlegu efnahagskreppu og óstöðugleiki og hrun íslensku krónunnar hefur gert íslenskum fyrirtækjum og heimilum ómögulegt að fylgja greiðsluáætlunum og allt greiðsluhæfismat er ónýtanlegt.
Það mun því vera ófrávíkjanlegt að leggja ofuráherslu á ganga frá uppgjöri bankanna. Það þarf að stofna sjóð er fari með allar veðeignir gömlu bankanna og reyni eftir megni að fá sem hæst verð fyrir sölu þeirra.
Samkvæmt reglum evrópska efnahagssvæðisins ber þjóðríki það er banki á lögheimili í ákveðna lágmarksábyrgð á bankainnistæðum sparifjáreigenda; einnig setja neyðarlögin frá því í haust innistæður sparifjáreigenda á Íslandi forgang á aðrar kröfur. Fara þarf yfir hvaða nettóskuldbindingar þetta hefur fyrir ríkissjóð og hvaða kröfur sitja eftir og færa þær kröfur á eignasjóð gömlu bankanna sem áðan var á minnst.
Það þarf að taka öll íbúðaveð gömlu bankanna og setja inn í Íbúðalánasjóð. Það þarf að ganga frá íbúðalánaskuldbindingum þannig að skuldbindingar einstaklinga séu sem næst því er var um mitt sumar 2008 og færa öll erlend íbúðarlán í íslenskar krónur á því gengi.
Með þessu móti ætti að vera hægt að fá nokkuð skýra mynd af skuldastöðu ríkissjóðs er varðar gömlu einkabankana.
Eftir að komin er skýrari mynd af skuldastöðu ríkissjóðs er hægt að fara að huga að greiðsluháttum. Það mun reynast óhjákvæmilegt að auka skattheimtu til að greiða niður þær skuldir sem fallið hafa á ríkissjóð. Ekki má hrófla meira við velferðarkerfinu en vel má athuga að skera niður annarsstaðar hjá ríkinu, má þar nefna utanríkisþjónustuna og í æðstu stjórnun. Koma verður á hátekjuskattþrepi; það er sanngirnisatriði að þeir sem meira mega sín beri meiri kostnað af viðreisn efnahagskerfisins. Auknar tekjur þarf til og það er nánast útilokað að auka skattbyrgði hins almenna launamanns. Ekki skal auka beinan þátt almennings í rekstri almannaþjónustunnar og stefnt skal að því að til langframa verði afnumin með öllu ósanngjarnir skattar eins og komugjöld
heilbrigðisþjónustunnar.
Rétt er að taka það fram að lántökur þær er núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir er ekki hugsuð sem neyslulántaka. Hugsunin er fyrst og fremst sú að efla gjaldeyrisvaraforða og stuðla þar með að eflingu íslensku krónunnar og hafa þannig áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs og efnahagskerfisins í heild. Að einhverju marki mun væntanlega reynast nauðsynlegt að létta á ríkissjóði með greiðslujöfnun í gegnum erlenda lántöku og skal það skoðað. Sérstaklega þarf að huga að erlendri lántöku þeirri er fellur undir hin svo kölluðu Jöklabréf. Óhjákvæmilegt mun reynast að taka erlend lán til að greiða þau eftir því sem tími þeirra rennur út. Leggja þarf því áherslu á að, í samræmi við aðgerðir í gjaldeyrismálum, sé hægt að endurnýja hluta þeirra og dreifa þar með álagi því er þau skapa á gjaldeyrisstöðu íslensku krónunnar.
Það er deginum ljósara að íslenskur gjaldmiðill er of veikburða til að geta þjónað tilgangi sínum. Verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður því að vera að beita einhverjum af þeim erlendu lántökum til að styrkja krónuna á gjaldeyrismarkaði og stefna á upptöku annars gjaldmiðils. Hefur Evra og bandarískur Dollar helst komið til álita í því sambandi. Upptaka Evru hefur haft á sér þann annmarka að hún er sögð skilyrt inngöngu í Evrópusambandið. Það hefur verið á það minnst en ekki litið alvarlegum augum að reyna að ná samningum við Evrópusambandið um upptöku Evrunnar á grundvelli hins evrópska efnahagssvæðis. Það eru haldgóð rök að halda því fram að tilgangur evrópsks efnahagssvæðis sé að auðvelda viðskipti milli landa og veigamikill þáttur í því er að hafa sameiginlegan gjaldmiðil á evrópsku efnahagssvæði. Því ætti aðildarlöndum evrópsks efnahagssvæðis að vera frjálst að taka upp Evru sem er sameiginleg mynt Evrópusambandsins án þess að þurfa að ganga í Evrópusambandið. Þetta gæti þýtt þann annmarka að hafa ekki evrópska seðlabankann sem bakhjarl og missa að einhverju leiti stýringu á peningamagni í umferð en kostir stöðugleika munu vega þungt á móti þessum annmörkum. Ný ríkisstjórn á að reyna til þrautar að ná fram samningum er ganga í þessa átt.
Gangi það ekki á að leggja áherslu á að fara í samningaumræður um inngöngu í ESB. Augljóst er að við núverandi efnahagsástand er ekki hægt að ganga í myntbandalagið en líklegt má þykja að aðildarviðræður og hugsanleg aðild myndi stuðla að hækkandi gengi íslensku krónunnar og efnahags stöðugleika. Augljóst má þykja að aðild að ESB án aðildar að myntbandalaginu leysir ekki þann vanda er íslendingar standa frammi fyrir. Innganga í ESB þyrfti því að snúast um aðild að myntbandalaginu. Stefna á upptöku Evru myndi þýða sársaukafullar aðgerðir til að draga hér úr verðbólgu, auka stöðugleika og draga úr halla á ríkissjóði, sem væri nær ómögulegt eins og staðan er nú. Því er óraunhæft að ætla að upptaka Evru myndi vera möguleg í náinni framtíð og þar með að innganga í ESB myndi vinna á þeim bráða vanda sem íslendingar standa fyrir. Það er því rétt að fara, samhliða aðildarviðræðum um ESB, í viðræður og athugun á upptöku bandaríkjadollars. Vera má að upptaka þeirrar myntar geti átt sér stað án mikilla fyrirvara og innan skamms tíma. Einnig má hugsa sér að slíkar viðræður gæti haft áhrif á samningsstöðu íslendinga gagnvart ESB og ekki síst aukið möguleika á jákvæðri niðurstöðu úr viðræðum um upptöku Evru innan evrópska efnahagssvæðisins.
Einnig hefur verið rætt um myntbandalag við Norðmenn og Svisslendinga. Skal farið í tafarlausar viðræður við þessar þjóðir um möguleika á slíku.
Ekki tel ég fýsilegt í ljósi stöðunnar og undangenginna atburða að viðra hugmyndir um myntbandalag við breska konungsveldið.
Myntbandalag við danska konungsveldið er hæpið vegna stöðu krónunnar gagnvart Evru en það er allra skoðunar vert og ber að athuga með alvöru.
Niðurstaða:
Þessir grein fjallaði einungis um bráðavanda þann er íslenska þjóðin stendur fyrir, aðallega er varðar skuldastöðu einstaklinga, fyrirtækja sem og ríkissjóðs.
Grundvallaratriði er að fá skýra yfirsýn yfir skuldastöðu ríkisins og koma á aukinni skattheimtu til að bregðast við því og greiða niður sem fyrst.
Íbúðalán einstaklinga verður að endurmeta þannig að greiðslubirgði sé sem næst því og hún var rétt fyrir hrun gjaldmiðilsins um mitt sumar 2008.
Tryggja þarf atvinnulífinu þolanlegra starfsumhverfi með stöðugri og áreiðanlegri gjaldmiðli.
Í síðari greinum mun ég fara í gegnum hugmyndir mínar er ég sé varðandi eflingu atvinnulífs og verðmætaaukningu í þjóðarbúinu sem myndu verða næstu skref verðandi ríkisstjórnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áfram með friðsöm mótmæli
22.1.2009 | 16:18
Látum ekki ofbeldisseggi eyðileggja mótmælaþátttöku almennings. Höldum áfram að mótmæla þar til boðað hefur verið til kosninga.
Klæðið ykkur vel og berjið bumbur, potta og pönnur til að halda á ykkur hita - þetta er að hafast.
Táragasi beitt á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lifi trumbuslagarabyltingin - VHR (VanHæf Ríkisstjórn)
22.1.2009 | 15:36
Jæja gott fólk, góðir íslendingar.
Þetta er að hafast en það er EKKI komið enn. Stór hluti Samfylkingarinnar er nú að sjá skaðsemi þess að hunsa vilja almennings um kosningar. Nú er aftur á móti komið það babb í bátinn að það er seint í rassinn gripið fyrir samfylkingarfólk. Nýjasta skoðanakönnun sýnir fylgishrun og það munu einhverjir vilja sitja af sér. Taktískir stjórnmálaskákmenn munu vilja láta nýjabrumið af formanni Framsóknarflokksins líða hjá. Við megum því EKKI LÁTA DEIGAN SÍGA. Höldum áfram að berja potta og pönnur fyrir utan Alþingishúsið. Látum ekki ólátabelgi sem vilja atast í lögreglu þurrka út mótmælin.
Við verðum að halda áfram.
Við höfum sýnt það að eftir því er tekið og það hefur áhrif sem við höfum verið að gera. En við megum ekki hætta fyrr ákveðið hefur verið að boða til kosninga. Sýnum þolinmæði og þrautseigju. Stöndum saman. Lifi trumbuslagarabyltingin - VHR (VanHæf Ríkisstjórn).
Að sjálfsögðu!
22.1.2009 | 09:20
Þetta snýst um það að Alþingi er rúið trausti - ekki einungis ríkisstjórnin.
Fólk þarf að átta sig á því að ríkisstjórnin, Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og allar eftirlitsstofnanir aðrar eru undir Alþingi sett og það er Alþingi sem er æðsta vald þjóðarinnar og ber hina endanlega ábyrgð á ástandinu.
Þetta þing sem nú situr hefur brugðist eftirlitsskyldu sinni. Þetta þing sem nú situr ber ábyrgð á því efnahagsástandi sem ríkir á Íslandi í dag. Þetta þing sem nú situr ber ábyrgð á því að nú er barist á götum Reykjavíkur. Þetta þing þarf að víkja. Það þarf að koma nýju fólki að - strax.
Þingflokkurinn á að víkja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samfylkingin Svarti Pétur
22.1.2009 | 00:05
Þó ég hafi aldrei verið sjálfstæðismaður og muni aldrei verða þá verð ég að minnast á það hversu sá flokkur virðist fá mikinn heiður af núverandi stjórnarsamstarfi og þar með hugsanlegum stjórnarslitum. Það eru tveir flokkar í ríkisstjórn og bera báðir ábyrgð. Það er jafnmikið Samfylkingarinnar að ákveða áframhaldandi tilvist ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins.
Í kvöld beindist, sem betur fer, kastljósið að hlut Samfylkingarinnar í stjórnarsamstarfinu. Það virðist vera nokkur hópur innan þess flokks sem vil taka tillit til þeirra háværu radda sem krefjast kosninga hið fyrsta og það er gott mál.
Nú verður spennandi að sjá hvað forystan gerir - varaformaðurinn talaði um að efna til kosninga hið fyrsta. Ingibjörg er alvarlega veik og Össur vill sitja áfram að því er virðist. Það er undarlegt svona pólitískt að Samfylkingin myndi ekki vilja kosningar. Flokkurinn ætti að geta haldið sínu nokkurn veginn og líklega vera með trygga setu í ríkisstjórn og góðar líkur á forsætisráðuneyti. Kannski er tregi til að takast á við efnahagsvandann?