Er lýðræðið að líða undir lok?

Jæja þá standa kosningar fyrir dyrum. Eftir að hafa séð framboðsþætti í fjölmiðlum og heyrt og lesið um framboð og einstaka frambjóðendur, hef ég sannfærst um það sem mig grunaði – kosningar munu engu breyta.

 

Evrópusambandið, eða ekki. Króna, eða ekki. Vinstri eða hægri, skattar eða niðurskurður. Enginn virðist hafa upp á neitt að bjóða sem skipt gæti sköpum fyrir heimilin í landinu og atvinnulífið. Já, ég sagði það þegar menn risu upp og stormuðu niður á Austurvöll að ekki væri nóg að skipta út fólki eða flokkum. Það er eitthvað mikið rotið í stjórnkerfinu. Við erum að fá upplýsingar um ofurstyrki til handa stjórnmálaflokkum sem augljóslega eru mútur og tengjast því að einkaaðilar höfðu komið auga á leið til að komast yfir orkuauðlindir þjóðarinnar. Fiskurinn í sjónum er fyrir löngu orðin einkaeign fárra og ríkisfyrirtæki sem eitthvað gáfu af sér hafa verið einkavædd. Bankarnir voru afhentir örfáum einstaklingum sem græddu á tá og fingri, rústuðu efnahag og orðspori þjóðarinnar en teknir til baka til ríkisins þegar tap var orðið á rekstrinum – einkavæddur var gróðinn en ríkisvætt tapið.

Samfylkingin, sem var í ríkisstjórn þegar allt hrundi og þáði fjárstyrki einkafyrirtækja sem fáheyrðir voru til þess tíma, er orðinn stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Vinstri græn, sem er flekklaus, hvað varðar hrunið vinnur á og líklegt að þessir tveir flokkar myndi næstu ríkisstjórn en allir sjá að Evrópumálin eiga að gera það ómögulegt ef að flokkarnir standa á sínu. Það mun, að sjálfsögðu engu skipta þegar á hólminn er komið. Enn og aftur munum við fá fólk í ráðuneytin sem enga faghæfni hefur. Þægir flokkshundar munu fá sína bitlinga og svona mun lestin áfram bruna. Í raun situr allt við það sama. Einhverjir munu færa fyrir því rök að réttlætið muni nú ná fram að ganga, aðrir halda fram hinu gagnstæða.

 

Það kerfi sem gerði örfáum einstaklingum kleift að gera íslenska þjóð gjaldþrota er vandinn sem íslendingar eiga við að etja, en stjórnmálaflokkar munu ekki standa að breytingum á því. Það kerfi er þeirra kerfi.

Stjórnlagaþingið er nú blásið af. Sama ósanngjarna kjördæmaskipanin er við líði. Þeir flokkar sem komið hafa sér fyrir fá óeðlilega fyrirgreiðslu úr sjóðum almennings og ný framboð munu, um óséða framtíð, eiga erfitt uppdráttar. Samtryggingarkerfið heldur áfram.

 

Það sem er ljósið í myrkrinu er myrkrið sjálft. Það sjá það allir, sem vilja sjá, að ef að kerfið breytist ekki þá mun allt, fyrr eða síðar, fara í sama horf. Það er ekki nóg að skipta út fólki og flokkum, það þarf að skipta út kerfinu. Ef að það er ekki gert, og enginn vilji virðist til þess, þá mun allt hrynja, aftur og aftur þangað til menn átta sig vonandi – það er ljósið í myrkrinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: corvus corax

Það er bara eitt ljós í þessu svartnættismyrkri í pólitíkinni og það er að VG fái hreinan meirihluta ...en því miður fjarlægur draumur.

corvus corax, 15.4.2009 kl. 15:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband