Jöklabréfavandamálið

Hvað eru Jöklabréf?

 

Jöklabréf eru í eðli sínu lántaka íslenska ríkisins á erlendu fjármagni, þannig útbúið að ríkissjóður sýnir ekki erlenda skuld í bókhaldi heldur íslenska. Jöklabréfakerfið er ákaflega óhagstætt þjóðinni og kostnaðarsamt og hannað með hagsmuni fjármagnseigenda að leiðarljósi þannig að það skapar sem mestan vaxtahagnað á hverja lánaða einingu.

 

Lítum á hvernig ferlið lítur út.

 

 

1. þrep

Íslenska ríkið gefur út Jöklabréf sem það fær íslenskan banka til að höndla með fyrir sig. Íslenski bankinn tekur lán hjá erlendum banka í erlendri mynt, með ríkið sem bakhjarl. Íslenski bankinn lætur síðan íslenska ríkið hafa andvirði erlenda lánsins í skiptum fyrir jöklabréfið. Íslenski bankinn selur nú Jöklabréfið á erlendum hlutabréfamarkaði og kaupandinn greiðir fyrir það í íslenskum krónum.

Í bókhaldi ríkisins er bókfært nafnverð Jöklabréfsins í íslenskum krónum sem skuld en eign á móti í erlendu fé. Nettó eignastaða ríkisins er núll og efnahagsreikningurinn segir að erlendar skuldir séu engar. Ríkið hefur komist yfir erlent fé sem það getur notað í framkvæmdir t.d. Kárahnjúkavirkjun.

Bókhald íslenska bankans sýnir erlenda skuld við erlenda bankann en eign á móti í íslenskum krónum sem er söluandvirði Jöklabréfsins.

 

Lítum nú hvernig kerfið virkar.

 

joklabrefsala2skref.jpg

 

 

 

2. þrep

Ríkið greiðir vexti og afborganir af erlendu láni íslenska bankans sem bankinn kemur svo til skila til erlenda bankans. Þetta skýrir hvers hinar miklu vaxtagreiðslur ríkissjóðs (90 milljarðar smkv. fj.lögum 2009) án þess að sýna neinar markverðar erlendar skuldir.

Íslenski bankinn ávaxtar nú þær íslensku krónur sem fengust fyrir sölu Jöklabréfsins með því að lána þær íslendingum.

Íslenski bankinn greiðir eiganda Jöklabréfsins vexti af bréfinu.

 

Grunn-niðurstaða

Íslenska ríkið hefur fengið erlent fjármagn að láni. Íslensku bankarnir hafa fengið innlent fjármagn að láni erlendis frá. Aukning hefur orðið á eftirspurn eftir íslenskri krónu sem hækkar gengi íslensku krónunnar. Það gerir ríkissjóði auðveldara fyrir með að endurgreiða erlent lán.

Til að dæmið gangi upp þarf íslenski bankinn að ávaxta sitt fé en ríkissjóður greiðir sínar afborganir og vaxtakostnað af almannafé. Íslenski bankinn þarf því að lána íslendingum söluandvirði Jöklabréfsins á hærri vöxtum en hann borgar til eiganda Jöklabréfsins. Til að gera Jöklabréfin að aðlaðandi fjárfestingakosti þarf að bjóða tiltölulega háa ávöxtun, þetta skýrir að hluta til háan vaxtakostnað hér á landi.

 

Hver er raunverulegur tilgangur með útgáfu Jöklabréfa?

Ríkið er að taka erlent lán (t.d. að fjármagna Kárahnjúkavirkjun). Til að sýna jákvæðari skuldastöðu ríkissjóðs, gagnvart útlöndum, tekur ríkissjóður ekki lánið sjálfur heldur “selur” íslenskum banka Jöklabréf. Við sjáum því, að í stað þess að ríkissjóður taki beint lán frá erlendum banka, sem myndi sýna ríkissjóð skulda í erlendri mynt, þá skuldar ríkissjóður nú íslenskum banka sem bókfært er á nafnverði bréfsins, þ.e.a.s. í íslenskum krónum. Íslenskur banki tekur svo sjálft lánið, og er skuldarinn í erlendu myntinni, en ríkissjóður fær útlendu peningana og greiðir afborganir og vexti af láninu. Í staðinn selur íslenski bankinn Jöklabréfið á erlendum verðbréfamarkaði og fær greitt fyrir í íslenskum krónum.

Íslenski bankinn virkar því sem eins konar “cover” fyrir ríkissjóð. Bankinn virðist skulda erlent lán sem ríkissjóður hefur í raun tekið. Ef að allt er með felldu þá á bankinn að una vel við sitt því hann á að geta selt Jöklabréfið fyrir íslenskar krónur sem hann getur svo aftur lánað íslendingum. Bankinn fær þjónustuþóknun fyrir að standa í erlendum lántökum fyrir ríkissjóð og öruggari greiðanda er vart hægt að finna, það er nánast öruggt að íslenski bankinn geti staðið í skilum við að borga af erlenda láninu. Íslenski bankinn fær einnig vaxtamuninn þegar hann endurlánar íslendingum á hærri vöxtum en Jöklabréfið ber.

Þessi snúningur er því að gefa af sér þrefalda vexti. Í fyrsta lagi greiðir ríkissjóður, í gegnum íslenska bankann, vexti af erlenda láninu. Í öðru lagi greiðir íslenski bankinn vexti af Jöklabréfinu til eiganda Jöklabréfsins. Og í þriðja lagi greiða íslenskir lántakendur vexti til íslenska bankans.

 

Er þetta góð leið fyrir þjóðina?

Það eru réttlæt gagnrýnisrök, á þessa aðferð, að mun ódýrara væri fyrir ríkið og þjóðina að ríkið tæki beint lán hjá erlenda bankanum og lánaði síðan sjálft íslendingum krónur. Með því væri algerlega hægt að sneiða hjá því að greiða Jöklabréfaeigandanum vexti sem og mögulegt væri að bjóða íslendingum lægri vexti en ella.

 

Skoðum þetta  með tölum.

Byrjum á að líta á hvernig dæmi með Jöklabréfaútgáfu lítur út:

Segjum að ríkið gefi út Jöklabréf fyrir kr. 1.000.000,-, Jöklabréfið ber 5% vexti og er ríkistryggt til fimm ára.

Sá sem kaupir bréfið fær því kr. 50.000,- á ári í fimm ár og kostnaður við lántökuna er því kr. 250.000,-; þessi kostnaður fellur á íslenska bankann.

Íslenski bankinn tekur lán í erlendri mynt sem samsvarar einni milljón íslenskra króna einnig á 5% vöxtum til fimm ára; kostnaður er kr. 250.000,- sem fellur á ríkissjóð.

Íslenski bankinn endurlánar söluandvirði Jöklabréfsins til íslendinga á 7% vöxtum til fjögurra ára; kostnaður kr. 350.000,- sem fellur á íslenskan almenning.


Vaxtakostnaður ríkisins kr. 250.000,-

Vaxtakostnaður íslenska bankans kr. 250.000,-

Vaxtakostnaður íslensks almennings kr. 350.000,-

Samtals vaxtakostnaður kr. 850.000,-

Samtals vaxtakostnaður greiddur úr landi: 250.000 + 250.000 = kr. 500.000,-

 

Vaxtahagnaður:

Erlendur banki kr. 250.000,-

Íslenskur banki kr. (350.000 – 250.000) 100.000,-

Eigandi Jöklabréfs kr. 250.000,-

Samtals: kr. 600.000,-

 

Fé fengið að láni:  

Ríkið kr. 1.000.000,-

Íslenskur banki kr. 1.000.000,-

Íslenskur almenningur: kr. 1.000.000,-

Samtals: kr. 3.000.000,-

Samtals fé í umferð: kr. 2.000.000,-

 

Hagstætt lánakerfi?

Við sjáum að raunverulega hefur ríkissjóður fengið eina milljón lánaða og almenningur eina. Íslenski bankinn er í raun aðeins miðlari. Að öllum brellum sleppt þá hefur ríkissjóður fengið eina milljón, í erlendri mynt, lánaða hjá erlenda bankanum og almenningur fengið eina milljón lánaða hjá eiganda Jöklabréfsins; innstreymi fjár í hagkerfið er því aðeins tvær milljónir. Eins og sést er vaxtahagnaður nettó 600.000,- hvar af 350.000 lendir á almenningi beint en 250.000 óbeint í gegnum skattkerfið.

Íslenski bankinn græddi kr. 100.000,- en ríkissjóður þarf að greiða kr. 250.000,- og almenningur kr. 350.000,- sem gefur nettó töluna 500.000,- sem er það sem þjóðin greiðir í vaxtakostnað úr landi og það þrátt fyrir að helmingur lánsfjárhæðarinnar, 1.000.000,- sé í innlendum krónum. Kostnaðurinn við að fá tvær milljónir lánaðar, þar af eina íslenska, er því, fyrir þjóðarbúið, kr. 600.000,- hvar af  500.000,- fer úr landi – og það þrátt fyrir að helmingur lánsfjárupphæðarinnar var í íslenskum krónum.

Þetta kerfi er því sannarlega mun hagstæðara fyrir fjármagnseigendur en íslenska þjóðarbúið; í raun er það hannað af fjármagnseigendum, fyrir fjármagnseigendur, og fyrirfinnst víðar en á íslandi og kallast þá ýmsum nöfnum eins og Kengúrubréf og Kívíbréf.

 

Það er því alvarleg spurning hvort nauðsynlegt sé fyrir íslenska þjóð að taka lán með þessum hætti. Er ekki, í raun, hagstæðara fyrir þjóðarbúið að haga lántökum, erlendum sem innlendum með öðrum hætti?

Lítum nú á ef að ríkið tæki beint lán frá erlenda bankanum og lánaði íslendingum beint. Ímyndum okkur að við myndum sleppa því að gefa út Jöklabréf og sleppa miðlaranum, þ.e. hinum íslenska banka, þá liti dæmið svona út.

 

enginjoklabref.gif

 

 

Ríkið fær lánað kr. 1.000.000,- í erlendri mynt á 5% vöxtum til fimm ára og kostnaður er kr. 250.000,-

Ríkið lánar íslenskum almenningi kr. 1.000.000,- á 5% vöxtum til fimm ára, kostnaður kr. 250.000,-

Samtals vaxtakostnaður kr. 500.000,-

 

Vaxtahagnaður:

Erlendur banki: 250.000,-

Ríkið: 250.000 – 250.000 = 0,-

Samtals vaxtahagnaður kr. 250.000,-

Samtals vaxtagreiðslur úr landi kr. 250.000,-

Samtals vaxtakostnaður ríkissjóðs: 250.000 – 250.000 = 0,-

 

Fé fengið að láni

Ríkið kr. 1.000.000,-

Íslenskur almenningur: kr. 1.000.000,-

Samtals: kr. 2.000.000,-

Samtals fé í umferð: kr. 2.000.000,-

 

Er réttlætanlegt að gefa út Jöklabréf?

Við sjáum að með því að sleppa Jöklabréfunum og mr. Foreigner úr dæminu erum við að taka einn vaxtaliðinn út úr dæminu en erum enn með jafnmikið fé að láni eða jafnmikið peningamagn í umferð, veltutalan hefur hins vegar lækkað um eina milljón. Nú er hægt að lána íslenskum almenningi fé á lægri vöxtum þar sem ekki þarf að ávaxta féð til að toppa Jöklabréfaávöxtunarkröfuna. Þar sem íslenska ríkið er eitt fært um að prenta íslenskar krónur og íslenskur almenningur þarf íslenskar krónur til að eiga viðskipti er eðlilegast að íslenska ríkið láni íslenskum almenningi beint og fái þar með vaxtatekjur af þeim peningum. Við erum í raun að láta almenning í landinu greiða vextina fyrir ríkissjóð af erlenda láninu en fáum lánað vaxtalaust sjálf ef lifið er á dæmið út frá þjóðarheildinni.

Það er nefnilega alltaf spurning um hver á peningana. Það sést að í dæminu með Jöklabréfið þá fékk íslenskur banki lánaðar íslenskar krónur til að endurlána íslendingum. Alvanalegra er þó að Seðlabanki Íslands láni viðskiptabönkunum sem síðan endurlána til almennings. Í síðara dæminu var gert ráð fyrir að ríkið lánaði íslenskum almenningi beint sem er eðlileg forsenda þar sem íslenska ríkið á í dag alla helstu viðskiptabanka landsins. Það væri langhagstæðast fyrir almenning og þjóðarbúið að sleppa þeim millilið sem einkabankar eru og láta ríkissjóð hagnast á vaxtatöku fremur en að einkafyrirtæki gerði það. Aftur á móti, ef að dæmið er sett upp með því sniði sem almennt þekkist, þá liti það svipað út nema að Seðlabanki myndi lána viðskiptabönkum t.d. á 1,5% vöxtum sem síðan myndu lána almenningi á t.d. 5% vöxtum. Það sem einkabankakerfið gerir er í raun að taka til sín vaxtahagnað og hækka verð á lánsfé til almennings sem því nemur. Við höfum þá fengið einn auka millilið milli þess sem á peningana og þess sem þarf á þeim að halda -  og auka milliliður þýðir alltaf auka kostnaður.

 

Jöklabréf rányrkja eða eðlileg lánaviðskipti?

Ég vona að ég hafi hér varpað ljósi á það sem ég vil kalla alvarlegustu blekkingu íslandssögunnar og eitt stærsta rán. Í fyrsta lagi var almenningi tjáð að ríkissjóður væri nánast skuldlaus þrátt fyrir gífurlega sölu Jöklabréfa á sama tíma. Sala á Jöklabréfum er ekkert annað en lántaka og lán = skuld.

Í öðru lagi er Jöklabréfakerfið, eins og ég hef sýnt fram á, gífurlega dýrt og óhagstætt fyrir þjóðarbúið og skapar mikinn óþarfa vaxtakostnað. Það er eins og kerfið sé beinlínis hannað til þess að skapa sem mestan vaxtakostnað fyrir íslendinga og þar með mestan vaxtahagnað, sérstaklega fyrir erlenda fjármagnseigendur. Við sjáum að í dæminu með Jöklabréfinu er vaxtakostnaður við að fá lánaðar tvær milljónir, hvar af önnur er íslensk, 850.000 krónur, þar sem 500.000 fara úr landi. Hreinn vaxtahagnaðurinn er 600.000 krónur.

Í dæminu án Jöklabréfs og án miðlarans er vaxtakostnaður við sama fjármagnsinnstreymi einungis 500.000 krónur og einungis 250.000 fara úr landi sem er vaxtahagnaðurinn í því tilfelli.

Ef að við lítum á dæmið út frá fjármagnseigendunum og berum saman annars vegar að láta tvær milljónir gefa af sér 600.000, og svo hins vegar að láta þessar sömu tvær milljónir gefa af sér 250.000, þá er dæmið einfalt; auðvitað er valin leiðin sem gefur af sér 240% meiri ávöxtun. Það er svo auðvelt að fá eigendur hinna íslensku einkabanka til að hoppa á vagninn, þar sem þeir fá bita af kökunni, eða 17%, fyrir það eitt að vera miðlarar; þeir þurfa ekki að leggja til neitt fé og taka nánast enga áhættu.

Við getum nú velt því fyrir okkur hver ræður þegar kemur að stjórnun íslenskra hagmála. Með hag hverra fyrir brjósti var ákveðið að bjóða Jöklabréf? Er það hagstætt íslensku þjóðarbúi að fara slíka leið? Hver ákvað að fara út í það að gefa út Jöklabréf?

 

Heimildir: vísindavefurinn, seðlabanki íslands, fjármálaráðuneytið, hagstofa íslands.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Á mbl 09.04 kemur fram; "Lækki Seðlabankinn stýrivexti um eina prósentu lækka vaxtagreiðslur til útlanda um 2,3 til 2,5 milljarða króna samkvæmt útreikningum sem Morgunblaðið hefur undir höndum. Upphæðin miðast við greiðslu ríkisins og banka til erlendra aðila ef vaxtagjaldagi væri sá sami á öllum ávöxtunarmöguleikum sem útlendingum stendur til boða.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í gær segir að lækkun krónunnar frá 19. mars megi rekja til tímabundinna þátta. Það eigi m.a. við vaxtagreiðslur af krónuskuldabréfum og innstæðum í eigu erlendra aðila. Slíkar greiðslur eru undanþegnar gjaldeyrishöftum.

Með öðrum orðum þýðir þetta að eftir því sem vextir lækka því lægri eru vaxtagreiðslurnar sem renna til útlendinga. Vaxtalækkun ætti því að stuðla að stöðugra gengi krónunnar."

Þar sem  erlendar skuldir eru orðnar að svona miklu leiti tengdar gengi krónunnar, þ.m.t. Jöklabréf.  Hlýtur sú spurning að verða áleitnari með hverjum deginum, hagsmunum hverra er verðið að gæta með gjaldeyrishöftum og háum stýrivöxtum?  og af hverju er IMF fenginn í málið? 

Það verður ekki betur séð en allir stjórnmálaflokkar sem hafa komið að ríkisstjórnum eftir hrunið hafi unnið gegn hagsmunum Íslands.  Því áhættan sem erlendu aðilarnir tóku hún fólst í gengi krónunnar.

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/04/09/vaxtalaekkun_dregur_ur_utflaedi_gjaldeyris/

Magnús Sigurðsson, 10.4.2009 kl. 09:48

2 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Þú ert að hitta naglann á höfuðið með spurningu þinni Magnús. Hátt gengi skaðar fyrst og fremst þá útlendinga sem eiga Jöklabréf og aðrfa fjárfestingu hér á landi. Það er nokkuð ljóst að ekki er verið að halda genginu háu til að innflutningur hækki ekki og ekki er verið að gera það fyrir skulduga íslendinga.

Hér eru það fjármagnseigendur sem ráða för og AGS er þeirra stjórntæki m.a.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 10.4.2009 kl. 11:29

3 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Takk fyrir þessar skilmerkilegu útreikninga. Mér sýnist tvennt nokkuð augljóst ef þessar skýringar þínar eru réttar þ.e. í fyrsta lagi að hærri stýrivextir auka vanda okkar í krónubréfamálum en ekki öfugt og í öðru lagi að þetta er beinlínis sniðið að þörfum útrásarvíkinganna þ.e. ég myndi veðja að þeir eiga stóran og jafnvel stærstan hluta þessara jöklabréfa. Kannski eiga bankarnir þau að stórum hluta sjálfir ? og fóru þau þá í gömlu bankana?

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 10.4.2009 kl. 11:56

4 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Já Adda þú ert á réttu róli þegar þú ert að sjá hversu fjármagnseigendur græða á kerfinu, veri það íslenskir útrásarvíkingar sem eiga Jöklabréf eða aðrir. Stýrivextir koma málinu þó ekki beint við þar sem bréfin eru útgefin með föstum vöxtum. Það sem við erum að upplifa núna í þessu sambandi varðar gengi íslensku krónunnar. Það sem menn veðjuðu á, fyrst og fremst, varðandi kaup á Jöklabréfum, er gengishagnaðurinn. Ég benti á að mikil sala Jöklabréfa kallaði á aukna eftirspurn eftir íslenskum krónum sem aftur jók verð hennar og hækkaði þar með gengið. Bréfin eru í íslenskum krónum og því er það hagur eigenda Jöklabréfa að gengi haldist hátt. Nú hefur krónan hrunið (ég hef bent á ástæður þess í fyrri greinum en stór ástæða þess er einmitt innleysing Jöklabréfa) og hagnaður Jöklabréfaeigenda þar með. Það sem nú er uppi á borðinu er að fá sem mest út úr fjárfestingunni og því er verið að reyna að halda gengi krónunnar uppi með háum stýrivöxtum, að minnsta kosti þar til búið er að innleysa sem mest af Jöklabréfum.

Þegar við tölum um bankanna þá snýr málið að skuldum þeirra við eigenda Jöklabréfanna. Ég hef bent á 24.gr. efnahagsáætlunar íslenska ríkisins og AGS, en þar er lagt til að íslenska ríkið þurfi að taka 24. milljarða bandaríkjadali að láni á næstu tveim árum vegna gjaldþrota gömlu bankanna þriggja til að greiða "eftirstöðvar af kröfum í gömlu bankana þrjá", eins og segir orðrétt í efnahagsáætluninni. Hér er verið að fara fram á að ríkið borgi eigendum Jöklabréfanna sínar fjárfestingar þegar þau eru innleysanleg, þó að formlega sé það bankanna að greiða þar sem bankarnir seldu bréfin og endurlánuðu síðan andvirðið.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 10.4.2009 kl. 16:47

5 Smámynd: Björn Friðgeir Björnsson

Þetta er allt bandvitlaust hjá þér. Ekki ein lína rétt.

Sýnir kannske best hvað íslenskir fjölmiðlar hafa klúðrað  gjörsamlega að skýra út hvað 'jöklabréf' eru.

Björn Friðgeir Björnsson, 10.4.2009 kl. 18:15

6 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Hvað er vitlaust?

Ef að þú veist betur endilega láttu það uppi. Mínar heimildir um Jöklabréfin eru beint frá Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra og prófessor.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 10.4.2009 kl. 18:57

7 Smámynd: Björn Friðgeir Björnsson

Fyrst: Allar vaxtatölur sem þú gefur upp eru bull og vitleysa og uppskáldaðar og ekkert mark á þeim takandi. Allar upphrópanir þínar um hvað þetta sé að kosta eru því ómarktækar.

Málið er flókið (augljóslega, meira að segja fjölmiðlafólk nennir ekki að skilja þetta). Það var grein í Viðskiptablaðinu í fyrra sem skýrði þetta nokkuð vel, hún var heil opna, ekki ætla ég að fara að skrifa aðra slíka.

Einfalda útgáfan:

Jöklabréf er skuldabréfaútgáfa erlendra aðila, seld beint til erlendra fjárfesta.

Erlendu aðilarnir gerðu ýmist skiptasamninga við íslenska banka þannig að erlendur aðilarnir fengu ISK vaxtagreiðslur en greiddu erlenda vexti á móti, eða þeir keyptu íslensk ríkisskuldabréf á markaði. Þetta var vörn útgefendanna. Fyrrnefndu samningarnir eru væntanlega brunnir inni í þrotabúum bankanna, en síðarnefnda eignin (eign erlendra banka/verðbréfafyrirtæka) er vandamálið sem krónan er nú að stríða við.

Ríkissjóður gaf ekki út skuldabréf sem hægt  er að kalla jöklabréf. Það var engin falin lántaka ríkissjóðs í jöklabréfaútgáfunni.

Þegar þú hefur Gylfa fyrir þessari grein þinni, er það úr fréttum eða prentuðum heimildum, eða samtölum við hann?

Björn Friðgeir Björnsson, 10.4.2009 kl. 19:16

8 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Ég setti sjálfur 5% vaxtatölu einungis til að sýna einhverja tölu; það skiptir akkúrat engu máli í þessu samhengi hver nákvæmlega vaxtatalan er. Ég trúi því varla að þú hafir tekið það dæmi sem ég sett upp sem einhverja tilraun til að sýna hvað þetta kostar nákvæmlega fyrir ríkissjóð eða þjóðarbúið!!! Ég er einungis að reyna að skýra það út út á hvað kerfið gengur og það er betra að nota tölur til þess.

Jæja snillingur hérna er bein tilvitnun í útskýringu núverandi viðskiptaráðherra og prófessors í hagfræði við HÍ:

"Í grundvallaratriðum er enginn munur á jöklabréfum og skuldabréfi sem íslenskur banki hefur gefið út í sömu mynt, nema hvað útgefandinn er erlendur í öðru tilfellinu og innlendur í hinu. Í báðum tilfellum á sá sem kaupir bréfið kröfu á útgefandann um greiðslu á vöxtum og höfuðstól í íslenskum krónum. Erlendir aðilar hafa hins vegar yfirleitt ekki mikinn áhuga á að skulda í krónum og þurfa þar með bæði að búa við gengisáhættu og háa vexti. Því semja útgefendur jöklabréfa alla jafna við íslenskan banka um vaxta- og gjaldmiðilskipti. Með því er átt við að íslenski bankinn tekur að sér að greiða vexti og afborganir í krónum. Íslenski bankinn tekur á sama tíma lán í erlendri mynt sem útgefandi jöklabréfsins tekur að sér að greiða af í staðinn. Íslenski bankinn fær síðan krónurnar sem fengust fyrir sölu jöklabréfsins en útgefandi jöklabréfsins fær andvirði erlenda lánsins."

Aftur vitna ég í Gylfa ..."Þannig gæti útgefandi jöklabréfs verið talinn það góður lántakandi að hann gæti selt slík bréf með lægri vöxtum en íslenskur banki". Hver getur verið það góður lántakandi að hann geti selt bréf með lægri vöxtum en íslenskur banki á Íslandi? Vífilfell eða Hp Grandi? Nei það er annaðhvort ríkissjóður sjálfur eða eitthvert ríkisfyrirtækið eins og t.a.m. Landsvirkjun.

 Þessar tilvitnanir í Gylfa er að finna á vísindavefnum og eru svar hans sem hagfræðiprófessors við spurningunni: "Hvað eru Jöklabréf?"

Þór Ludwig Stiefel TORA, 10.4.2009 kl. 19:39

9 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Þór

Takk fyrir mjög góða samantekt.

Þú kynnir þetta mál með allt örðum hætti en ég hef séð áður. Þú fullyrðir að það hafi verið Seðlabankinn/ríkið sem hafi haft frumkvæðið að útgáfu Jöklabréfanna. Þetta er mjög áhugaverður vinkill. Hingað til hafa menn sagt að þessi bréf séu alfarið á ábyrgð erlendra banka og séu gefin út að frumkvæði erlendra banka.

Ég hef efast um það og taldi að það væru íslensku bankarnir að ná sér í rekstrarfé í íslenskum krónum. Sjá greinar þar um hér og hér.

Nú fullyrðið þú að frumkvæðið sé frá íslenskum stjórnvöldum og tilgangurinn að falsa raunverulega stöðu ríkissjóða.

Getur þú upplýst hvaðan þessar heimildir þínar koma? Ertu viss um að þetta sé rétt hjá þér?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 10.4.2009 kl. 19:45

10 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Blessaður Friðrik.

Nei ég er ekki viss því erfitt virðist vera að fá þetta fullkomlega á hreint en ég skoða dæmið út frá  því að hér sé um fjármögnun að ræða sennilega fjármögnun á Kárahnjúkavirkjun; Jöklabréfin eru í raun ríkisskuldabréf, allavega ríkistryggð og þar með endanlega falla þau á ríkið ef illa fer.

Það er staðreynd að samfara útgáfu Jöklabréfanna hækkaði gengi íslensku krónunnar mikið sem sýnir aukna eftirspurn eftir krónum. Bankarnir seldu Jöklabréfin og fengu mikið fé og það skýrir hversu auðfúsir þeir voru að lána og hversu auðvelt var að fá lánað hjá bönkunum. Þetta er algerlega í samræmi við útskýringu Gylfa Magnússonar.

Einhvern vegin var milljarða fjárfestingin í Kárahnjúkum fjármögnuð og ekki sýnir ríkissjóður miklar erlendar skuldir; samt eru 90 milljarðar í vaxtakostnað á fjárlögum fyrir árið 2009 og það er ekki vegna bankahrunsins. Nú er talað um vandamál með endurfjármögnun Landsvirkjunar og kæmi mér ekki á óvart að verið væri að tala um þau Jöklabréf sem eru, eða eru að verða innleysanleg.

24. grein efnahagsáætlunar íslensku ríkisstjórnarinnar og AGS segir orðrétt:

Hrun bankakerfisins hefur leitt af sér talsverða þörf fyrir erlent lánsfé [?!?]. Við gerum ráð fyrir að þessi þörf sé 24 milljarðar Bandaríkjadala á tímabilinu til loka ársins 2010. Þar af eru um 19 milljarðar vanskil vegna skulda yfirteknu bankanna þriggja, svo og fjármagn til að gera upp nauðsynlegar greiðslur tengdar erlendum innstæðum, en afgangurinn er sjóðsþörf að fjárhæð 5 milljarðar Bandaríkjadala. Við gerum ráð fyrir að 2 milljarðar Bandaríkjadala fáist með láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem skilur eftir afgangsfjárþörf er nemur 3 milljörðum Bandaríkjadala. Við gerum ráð fyrir að þetta bil verði brúað með tvíhliða lánssamningum og munum ljúka viðræðum þess efnis áður en stjórn sjóðsins tekur mál okkar fyrir. Mat á því hvernig gengur að mæta fjárþörf okkar verður hluti af ársfjórðungslegum endurskoðunum okkar og sjóðsins.

24. Í þessu yfirliti um þörf ríkisins fyrir erlenda lánsfjármögnun á því tímabili sem áætlunin tekur til (til ársloka 2010) er fyrst nefnd heildartalan 24 ma. USD. Inni í henni eru um 19 ma. USD sem eru eftirstöðvar af kröfum í gömlu bankana þrjá og eins og ráða má af liðum 7, 12 og 20 munu heimtur ráðast af eignum þeirra. Eftir stendur lánsfjárþörf samkvæmt þessari áætlun upp á 5 ma. USD. Af þeim er farið fram á 2 ma. USD að láni frá IMF, 3 ma. USD eru fengnir með tvíhliða lánasamningum við önnur ríki. Árangur við að tryggja fjármögnun er hluti af ársfjórðungslegu mati á framgangi áætlunarinnar í heild.

...eftirstöðvar af kröfum í gömlu bankana þrjá... Mér sýnist að eigendur Jöklabréfanna séu að vísa til þess að raunverulegur útgefandi Jöklabréfanna sé ríkissjóður en bankarnir hafi einungis verið miðlarar og því skipti gjaldþrot þeirra ekki máli; ríkissjóður eigi að borga.

En, eins og ég segi, ef einhver er með haldbetri upplýsingar en ég hef þá fagna ég þeim. Greinilega er hér eitthvað á ferðinni sem ég tel að beri að upplýsa almenning betur um.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 10.4.2009 kl. 20:08

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þór, hann Björn Friðgeir hittir naglann á höfuðið.  Þú snýrð þessu á haus.  Svo vitnað sé í heimild þína á Vísindavefnum, þá svarar Gylfi Magnússon, núverandi viðskiptaráðherra, spurningunni:  Hvað eru Jöklabréf? á eftirfarandi hátt:

Í grundvallaratriðum er enginn munur á jöklabréfum og skuldabréfi sem íslenskur banki hefur gefið út í sömu mynt, nema hvað útgefandinn er erlendur í öðru tilfellinu og innlendur í hinu. Í báðum tilfellum á sá sem kaupir bréfið kröfu á útgefandann um greiðslu á vöxtum og höfuðstól í íslenskum krónum. Erlendir aðilar hafa hins vegar yfirleitt ekki mikinn áhuga á að skulda í krónum og þurfa þar með bæði að búa við gengisáhættu og háa vexti. Því semja útgefendur jöklabréfa alla jafna við íslenskan banka um vaxta- og gjaldmiðilskipti. Með því er átt við að íslenski bankinn tekur að sér að greiða vexti og afborganir í krónum. Íslenski bankinn tekur á sama tíma lán í erlendri mynt sem útgefandi jöklabréfsins tekur að sér að greiða af í staðinn. Íslenski bankinn fær síðan krónurnar sem fengust fyrir sölu jöklabréfsins en útgefandi jöklabréfsins fær andvirði erlenda lánsins.

Ég hef m.a. fjallað um þetta í færslu á blogginu mínu (sjá Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar

). Útgefendur jöklabréfa eru erlendir aðilar að spila inn á gengið og háa vexti.  Íslendingar gáfu út skuldabréf í Japan eða Evrópu til að spila inn á gengið og lága vexti.  Síðan voru gerðir vaxtaskipasamnignar, þannig að erlendi aðilinn greiðir erlenda lánið, en innlendi aðilinn innlenda lánið.  Þeir sem keyptu jöklabréfin geta verið hvaðan sem er úr heiminum, en stór hluti þeirra er íslenskur.  Hve stór virðist enginn vita eða ekki er gefið upp?  Best væri, ef komið væri á samningum milli innlendra aðila með erlendar eignir og erlendra aðila með innlendar eignir, að þessir aðilar hreinlega víxluðu eignarhaldi.  Þetta virðist AGS vera á móti og skil ég ekki hvers vegna.

Ef þú lest skýringu Gylfa og færsluna mína, þá sérðu hvar þú ferð út af leiðinni, þó hugsanlega séu allar röksemdarfærslur rétt miðað við þær forsendur sem eru gefnar.

Marinó G. Njálsson, 10.4.2009 kl. 23:08

12 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Takk fyrir þetta Marinó - ég ætla að fara yfir þetta.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 10.4.2009 kl. 23:35

13 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

 

Allt í lagi, byrjum á byrjuninni: Af hverju er verið að gefa út Jöklabréf?  Mér þótti líklegt að ástæðan væri sú að verið væri að draga að erlent fjármagn inn í landið. Menn hafa bent mér á að þetta sé alrangt og að útgáfa Jöklabréfa sé alfarið drifin af erlendum bönkum. Flestir segja ástæðuna vera þá að verið sé að nýta sér vaxtamun og að einhverju leyti verið að veðja á gengishagnað.

Ef að verið er að nýta sér vaxtamun þá hlýtur málið að vera að setja peningana inn í íslenskt hagkerfi, annað hvort kaupa ríkisskuldabréf, leggja peningana á íslenska bankareikninga eða nýta sér á annan hátt háa vexti á Íslandi. Gott og vel, þá þarf þessi erlendi aðili íslenskar krónur. Þá er sagt að íslenskur banki taki erlent lán hjá þeim sem gefur út jöklabréfið og greiði afborganir og vexti af því láni með íslenskum krónum; þannig hafi útlendi jöklabréfaútgefandinn komist yfir íslenskar krónur. Nú er erlendi útgefandinn kominn með íslenskar krónur og leggur inn á reikning í íslenskum banka. Hann getur nú fengið vaxtamun, segjum að í heimalandinu kosti 2% að taka lán en hann fær 10% á Íslandi. Hann selur jöklabréfið til einhvers kúnna með, kannski 7% vöxtum.

Hvað er skakkt í þessu dæmi? Til að erlendur fjárfestir geti nýtt sér háa vexti á Íslandi þarf íslenskur banki að skuldsetja sig með tilheyrandi kostnaði?!?

Rétt er það að íslenski bankinn getur á sama tíma endurlánað einhverjum íslendingnum erlenda lánið á t.d. 3% vöxtum og sjálfur fengið vaxtamun. En til hvers? Af hverju ekki bara að taka lán erlendis, án þessa jöklabréfa ævintýris og endurlána íslendingum? Það sem ég skil ekki er af hverju geta ekki útgefendur Jöklabréfa einfaldlega keypt íslenskar krónur á gjaldeyrismarkaði til að fjárfesta á Íslandi með vaxtamun að gróðamarkmiði?

 

En eins og ég segi þá er allt í sambandi við Jöklabréfin hið undarlegasta mál.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 11.4.2009 kl. 02:55

14 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Jöklabréfin eru í íslenskum krónum og því eðlilegt að þeir sem ætluðu að græða á gengi og vaxtamun tapi, þegar staðan er Game Over.  Svo einfalt er það. 

Ef íslenskir stjórnálamenn hafa flækt ríkinu í þetta er eins gott að þeir geri það opinskátt strax.  Því það er verra en landráð ef þeir ætla að leiða saklausar sálir inn í ártuga skuldaþrældóm.

Magnús Sigurðsson, 11.4.2009 kl. 08:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband