Ekki Stjórnarskránni að kenna

Ég verð aðeins að tjá mig um þá gagnrýni sem komið hefur fram varðandi það að ráðast í breytingar á Stjórnarskránni. Ég heyrði það í útvarpsþætti í dag að einhver hefði sagt að hann sæi ekkert í Stjórnarskránni sem hefði orsakað, eða hefði getað komið í veg fyrir bankahrunið. Með öðrum orðum það væri ekki við Stjórnarskránna að sakast að það fór sem fór.

Nú er það eðli Stjórnarskrárinnar að hún er grunnlög og rammi utan um stjórnskipan. Stjórnmálamenn, embættismenn eða aðrir sem hafa með það að gera hvernig þessu landi er stjórnað eiga ekki að geta sett lög eða reglugerðir sem brjóta í bága við Stjórnarskránna. Vandamálið er bara að ef að Stjórnarskráin bannar ekki eitthvað þá er það sem sagt leyft.

Til að átta okkur aðeins á þessu bankahruni sem hér varð skulum við aðeins líta til baka. Það eru ákveðin atriði sem eru grundvallaratriði þegar kemur að stjórnskipan og réttarríki. Eitt er til að mynda einkaeignarétturinn. Annað er velferð ríkisins og það þriðja er sameign þegnanna. Fleiri atriði eru auðvitað Stjórnarskrárinnar að fjalla um en látum þessi þrjú atriði nægja hér samhengisins vegna.

Hvað orsakaði bankakreppuna, og sérstaklega, hvers vegna varð dívan mun alvarlegri hér en víðast hvar annars staðar?

 

Kvótakerfið og veðsetning

Góðir og mætir menn hafa bent á þá staðreynd að upphaf hinnar svokölluðu útrásar hafi átt sér stoð í kvótakerfinu. Þaðan hafi upphaflega fjármagnið komið sem notað var til að fjárfesta í bönkunum og það fjármagn átti veigamestan þátt í upphaflegri stækkun þeirra. Það liggur í þeirri staðreynd að íslenskir stjórnmálamenn, sumir vilja meina, spilltir stjórnmálamenn, úthlutuðu ákveðnum aðilum fiskveiðiauðlindir þjóðarinnar á silfurfati. Þetta var upphaflega gert með lagasetningu en leyfi til veðsetningar óveidds fisks var síðan afgreidd sem reglugerð. Svona veigamikið atriði sem ákveðið var af örfáum aðilum, sem hafði eins afdrifaríkar afleiðingar eins og raun hefur orðið er eitthvað sem einungis grunnlög eins og Stjórnarskrá getur komið í veg fyrir að lendi á fáeinum höndum.

Ef að skýrt hefði verið tekið fram í Stjórnarskrá að fiskveiðiauðlindirnar í íslenskri fiskveiðilögsögu séu ófrávíkjanleg sameign þjóðarinnar og engin geti veðsett þær nema íslenska ríkið, hefði augljóslega ekki komið til þess að örfáir útvaldir hefðu getað braskað með óveiddan fisk með þvílíkum upphæðum sem raunin varð.

 

Lífeyrissparnaður og eignarréttur

Annað atriði, sem einnig átti veigamikinn þátt í ofurvexti bankanna, er lífeyrissparnaður þjóðarinnar. Lífeyrissjóðirnir voru með stærstu fjárfestum og kom líklega til að tapa mest þegar allt verður gert upp. Nú er mikið talað um að ekki sé hægt að fara í almennan flatan niðurskurð á fasteignalánum þar sem þá sé verið að ganga á Stjórnarskrárbundinn eignarétt, sérstaklega lífeyrissjóðanna. Þó er tekið fram að það megi gera ef almenningsþörf krefji. Um þetta atriði er augljóslega deilt og óljóst orðalag í Stjórnarskránni er miður, en greinin sem um þetta fjallar er úr sjöunda kafla, 72. grein, en hún hljóðar svo:

“Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hend eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.”

Við getum augljóslega velt því fyrir okkur hvort launamaður, sem þvingaður er til sparnaðar, sé ekki að láta eign sína af hendi, að minnsta kosti tímabundið. Ef að stjórn lífeyrissjóðs þessa launamanns síðan fjárfestir óviturlega (eins og raunin var í mörgum tilfellum) og sjóðsfélagi missir þar með stóran hluta lífeyrissparnaðar síns – er þá ekki verið gera eignaupptöku á launum þessa manns? Lífeyrissparnaður er lögþvingaður. Á ekki að koma fullt verð fyrir? Hvað er fullt verð? Af hverju er í lagi að hann láti sparnað sinn af hendi í fjárfestingabraski en ekki almennum aðgerðum til að leiðrétta kerfishrun?

Það er mér allavega ljóst að ef að Stjórnarskráin væri skýrari þegar kemur að einkaeignarrétti og, ekki síður sameignarétti, þá hefði mátt koma í veg fyrir margt er gerði þessa útrás, bankanna sem og annarra útrásarvíkinga mögulega. Einnig virðist mér að gleggri útlistun á eignarétti myndi verða til þess að betur væri hægt að halda hér áfram og byggja upp efnahagskerfið að nýju. Gefum okkur mjög einfalt dæmi:

Maður nokkur tekur lán fyrir íbúðarhúsnæði upp á ellefu milljónir króna. Hann borgar mánaðarlega af þessu láni en eftir þrjú ár er upphæðin komin upp í fjórtán milljónir – er þetta ekki eignaupptaka? Sérstaklega þar sem lánið er nú hlutfallslega hærra en bæði verðmæti fasteignarinnar og launa? Lausnin gæti falist í því að hlutfallsbinda vísitölu húsnæðislána við verðgildi fasteignarinnar og/eða launa.

 

Einkavæðing ríkisfyrirtækja

Við getum velt því fyrir okkur hvort Stjórnarskráin eigi ekki að fjalla um eignir ríkisins og hvernig þeim sé ráðstafað af ráðamönnum. Stór ástæða þess hvernig fór hér á landi liggur í einkavæðingu ríkisbankanna og annarra ríkisfyrirtækja. Ég sem íslenskur þegn átti minn hlut í ríkisbönkunum, Landssímanum og öðrum fyrirtækjum – var ég ekki þvingaður til að láta hana af hendi? Enginn spurði mig álits og ég fékk ekki fullt verð fyrir. Ríkið fékk ekki fullt verð fyrir að flestra áliti.

Það eru þessi atriði:  meðferð og yfirráð auðlinda, velferð ríkisins og eignarétturinn, sem eru lykilatriði varðandi efnahagshrunið. Stjórnskipan Íslands var, og er, þannig að örfáir einstaklingar geta farið fram með vilja sinn og haft áhrif á þessi atriði, með alvarlegum afleiðingum eins og dæmin sanna. Það þarf að koma í veg fyrir það – þess vegna er lykilatriði að koma því þannig fyrir í Stjórnarskrá að ekki sé hægt að spila með auðlindir íslendinga, að ekki sé hægt að “gambla” með lífeyrissparnað íslendinga og að ekki sé hægt að útbýtta eignum ríkisins og ríkisfyrirtækjum til sjálfs sín eða einhverra vildarvina eða flokksfélaga, með einföldum lagasetningum eða reglugerðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég myndi ekki heldur treysta íslenska ríkinu en þú segir: og engin geti veðsett þær nema íslenska ríkið, Ef þeir mættu gera það þá framselja þeir því áfram. Hef áhugs fyri þér en nafnið á síðunni er dálítið villandi. Ert þú Þóra Viktoría hvers dóttir. Þú ættir að hafa uppýsingar um þig sem þegn landsins.

Valdimar Samúelsson, 9.11.2010 kl. 10:40

2 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Takk fyrir það Valdimar

Aðeins fyrst að þessu með veðsetninguna. Ég treysti svo sem ekki Alþingismönnum í dag, frekar en margur annar, hvorki til að veðsetja auðlindir né til annarra hluta. Þetta yrði þó að skoðast í ljósi breyttrar Stjórnarskrár, sem vonandi takmarkar völd Alþingis og setur aukna varnagla t.a.m. með því að þjóðin geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um mikilvæg mál eins og það að veðsetja auðlindir. Auðvitað má síðan hreinlega banna veðsetningu auðlindanna. Það sem er þó kosturinn við að leyfa veðsetningu er að slíkt er fjáröflunarleið (í raun lántaka).

Hitt atriðið sem þú nefnir Valdimar. Efst hér á síðunni er lítið box um höfundinn mig. Ef að þú smellir á hlekkinn "Höfundur" færðu upp frekari upplýsingar um mig; hvar ég fæddist, hvar ég gekk í skóla o.s.frv.

Þar segir að ábyrgðarmaður samkvæmt Þjóðskrá sé Þór Ludwig Stiefel. Það er nafnið sem foreldrar mínir gáfur mér. Ég hef síðan valið mér nafnið Tora Victoria. Það má kalla það listamannanafn. Ástæðan fyrir því að það lítur alþjóðlega út er einfaldlega sú að ég er listamaður sem fyrst og fremst einbeiti mér að því að koma list minni á framfæri á erlendri grundu. Ég er á þeirri skoðun að hver og einn ætti, ef hann svo kýs, að finna sér sitt eigið nafn, þar sem við berum jú þessi nöfn. Þess vegna segir efst hér á síðunni - Þór L. Stiefel - Tora Victoria.

Ef að þú vilt vita enn meira um mig og minn bakgrunn þá er undir Tenglaflokknum kynningarefni hlekkur á mína persónulegu heimasíðu: www.toravictoria.com.

Ættarnafn mitt Stiefel er frá Sviss hvaðan faðir minn er ættaður, ég skil að það gætið valdið misskilningi varðandi mig sem þegn landsins og ætla ég því að skella upplýsingum um foreldra mína í hlekkinn - takk fyrir ábendinguna.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 9.11.2010 kl. 11:55

3 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll og takk fyrir góðan pistil. Ég er líka með hugmyndir um að takmarka það hvað ráðamenn geta leikið sér með ríkisfjármuni eins og spilapeninga. Ég er alveg sammála þér um það sem þú ert að skrifa um.

Varðandi verðtryggingu þá væri einfalt að annaðhvort afnema hana eða verðtryggja allt. Það er bara mismunun og eignatilfærsla að verðtryggja sumt en annað ekki. Svo er líka verið að nota margar gerðir af verðtryggingu sem er líka umhugsunarefni.

Ég vil nota þjóðaratkvæðagreiðslur og ströng skilyrði um allar ríkisábyrgðir og fjárhagsaðstoð ríkisins til einkafyrirtækja.

Það má sjá meira um þetta á mínu bloggi ef þú vilt reyna að nýta þér mínar hugmyndir. Það er velkomið.

Kveðja,

Jón P. Líndal, frambjóðandi nr. 6791

Jón Pétur Líndal, 9.11.2010 kl. 12:38

4 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Takk fyrir það Jón og gangi þér vel!

Þór Ludwig Stiefel TORA, 9.11.2010 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband