Hlutverk forseta íslenska lýðveldisins.

Það var fyrst með athöfnum Ólafs Ragnars Grímssonar í hlutverki forseta sem fólk fór að velta fyrir sér, í alvöru, stöðu forseta í stjórnskipan íslenska lýðveldisins. Forverar Ólafs í embætti höfðu fyrst og fremst verið samstöðutákn og haldið sig utan við stjórnmálin. Ólafur Ragnar hefur í tvígang neitað að skrifa undir lög sem Alþingi hefur samþykkt og hefur hann verið ötull í að hafa frumkvæðið í samskiptum við önnur ríki. Einhverjir hafa gagnrýnt forsetan fyrir að vera að skipta sér að stjórnarathöfnum og taka fram fyrir hendurnar á Alþingi og ríkisstjórn. Eitt er víst að Ólafur Ragnar fer í einu og öllu eftir Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Nú þegar framundan er stjórnlagaþing er áhugavert að velta því fyrir sér hvað Stjórnarskrá eiginlega er og sérstaklega stöðu forseta íslenska lýðveldisins. Sigurður Líndal lagaprófessor hefur til að mynda látið hafa eftir sér að nær væri að menn færu eftir Stjórnarskránni en að menn væru að ráðast í breytingar á henni. Það er einmitt þetta atriði sem mig langar að impra aðeins á í þessum pistli.

Eru menn að fara eftir Stjórnarskránni? Og ef ekki, hversu mikilvægt plagg er þá þessi Stjórnarskrá?

Við lestur Stjórnarkrárinnar er áberandi hversu stór partur fer í útlistun á hlutverki forseta lýðveldisins. Fyrsti kaflinn er einungis tvær greinar, hvar af önnur greinin segir að forseti fari með löggjafarvaldið ásamt Alþingi og að forseti fari með framkvæmdarvaldið ásamt öðrum stjórnvöldum. Síðan fjallar allur annar kaflinn í alls 26 greinum um forseta lýðveldisins. Grasrótarhreyfingar hafa undanfarið skorað á forseta að setja neyðarlög vegna ástandsins í þjóðmálunum og vísa þar til 25. greinarinnar en hún segir:

“Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta”

Hér er alveg kristaltært að vilji höfunda Stjórnarskrárinnar var að forseti gæti, rétt eins og alþingismenn og ráðherrar, lagt fram lagafrumvörp og tekið þannig beinan þátt í stjórnarathöfnum.

26. greinin fjallar svo um synjunarvald forseta og þjóðaratkvæðagreiðslur, sem flestum ætti að vera kunnugt um en fleiri greinar kveða skýrt á um hlutverk forseta í stjórnskipan lýðveldisins. Ég vil vekja sérstaklega athygli á 21. greininni en þar segir:

“Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki...”

Ég hef í annarri grein talað lítillega um fyrirmynd íslensku Stjórnarkrárinnar. Bandaríska Stjórnarkráin er fyrirmynd hinnar íslensku, rétt eins og hún er fyrirmynd flestra annarra lýðræðislegra stjórnarskráa. Það er mitt álit, eftir lestur íslensku stjórnarskrárinnar að höfundar hennar hafi haft þá meiningu að forseti lýðveldisins hefði veigameira hlutverk í stjórnarháttum en venja hefur skapast um. Það er auðvelt að lesa Stjórnarkránna og ætla af lestri hennar að hlutverk forseta sé mun meira í átt við bandaríkjaforseta en danakonung.

Það er sérstaklega 13. greinin sem menn hafa túlkað sem svo að vilji höfunda Stjórnarskrárinnar hafi verið að ráðherrar, en ekki forseti fari með framkvæmdarvaldið en hún segir:

“Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.”

Ég get allavega lesið þetta sem svo að valdið liggi hjá forsetanum sjálfum en hann skipar ráðherra til að fara með þetta vald sitt í daglegum rekstri. Sérstaklega þar sem forseti skipar ráðherra og veitir þeim lausn og ákveður fjölda þeirra (15. grein). Meira að segja er það forseti sem á að skipa embættismenn (20. grein).

Af þessu öllu er mér allavega ljóst að meining Stjórnarkrárinnar var og er að gera embætti forseta mikið og meira í þá átt sem bandaríkjaforseti er í Bandaríkjunum en þá hlutleysisfígúru sem forsetinn hefur verið í íslenskri stjórnskipan.

Við getum síðan velt því fyrir okkur hvort okkur þyki þetta æskilegt eður ei þegar við endurskoðum Stjórnarskránna, en mér er þetta kristaltært – meiningin var að forseti hefði veigameira hlutverk í stjórnsýslu lýðveldisins. Persónulega finnst mér það betra fyrirkomulag, vegna þess að það eitt og sér dreifir valdinu og er hin eiginlega skipting framkvæmdarvalds og löggjafarvalds – Alþingi fer þannig með löggjafarvaldið en forsetinn með framkvæmdarvaldið, rétt eins og skýrt er kveðið á um í bandarísku Stjórnarskránni.

 

Þá kemur að öðru mikilvægu atriði sem ég impraði á áðan en það er: Er farið eftir Stjórnarskránni? Og ef ekki – hvað er þá til ráða?

Mér er það ljóst að ný Stjórnarskrá þarf að innihalda ákvæði, skýrt og skorinort, sem tryggir það að allir þegnar, allir embættismenn, allir kjörnir fulltrúar, fari eftir Stjórnarskránni. Það er ákaflega bagalegt að ekki sé minnst á það einu orði hvað gera skuli ef að ágreiningur komi upp um að farið sé eftir Stjórnarskránni. Það þarf að leggja niður fyrirfram ákveðið ferli sem fer í gang ef að réttlátur grunur leikur á um Stjórnarskrárbrot. Við þekkjum ákveðin dæmi úr fortíðinni, sem endað hafa sem ágreiningur lögspekinga og stjórnmálamanna og ég minntist á orð lagaprófessorsins um að ekki væri farið eftir Stjórnarskránni. Þessu þarf að breyta í nýrri Stjórnarskrá að mínu mati.

Réttast væri að ný Stjórnarskrá hefðist á viðlíka orðum:

“Komi fram réttlátur grunur um að Forseti, Alþingi eða embættismenn fari ekki í einu og öllu eftir Stjórnarskrá þessari, skal leggja málið í dóm þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu. Forseti getur farið fram á slíka atkvæðagreiðslu, helmingur Alþingismanna getur farið fram á slíka atkvæðagreiðslu og meirihluti Hæstaréttar getur farið fram í slíka atkvæðagreiðslu ásamt einum tíunda hluta atkvæðabærra Íslendinga.”

Né er ég ekki að segja að einbeittur brotavilji hafi verið á Íslandi til að fara gegn Stjórnarskránni. En varnagla þarf að setja og hann þarf að vera skýr. En skýr Stjórnarskrá, sem tekur af sem mestan vafa um vilja þjóðarinnar til stjórnskipulags er alltaf fyrsta atriðið og það mikilvægasta þegar talað er um að farið verði eftir þeim grunnlögum sem Stjórnarskrá alltaf er.

 

Til hamingju íslendingar með Þjóðfundinn 2010 – Lifið heil!

Þór L. Stiefel / Tora Victoria

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Ég man nú ekki eftir neinu sérstöku stöðutákni hjá forverandi forsetum. Hitti  Ásgeir gamla í sundlaugunum nokkrum sinnum, en þeir hafa verið órafjarri almenningi þessir forsetar. En Ólafur Ragnar gerði eitthvað í málinu og fór það óskaplega í taugarnar á sumum sem höfðu kannski ætlað sér að vera forsetar í staðinn fyrir forsetan.

Eyjólfur Jónsson, 6.11.2010 kl. 15:19

2 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Já þegar ég tala um samstöðutákn er ég að vísa til þess sem oft hefur verið sagt um hlutverk og tilgang forsetaembættisins, þ.e. að forseti héldi sig utan við pólitíkina en væri fyrst og fremst sameiningartáknmynd þjóðarinnar. Ólafur Ragnar hefur hins vegar tekið Stjórnarskránna bókstaflega og tekið pólitíska afstöðu í ýmsum málum.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 6.11.2010 kl. 18:05

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Takk fyrir góða grein Ég get ekki séð að það eigi að vera vandræði þ.e. spurning hvað eigi að gera við menn sem brjóta stjórnaskránna. Þeim skal refsað og settir frá í ákveðin ár þ.e útskúfaðir frá Alþingi. Það þarf ekki þjóðaratkvæðagreiðslu með það.

Össur og Jóhanna sendu inn plagg um umsókn að aðild í ESB og létu forseta ekki sjá né skrifa unir skjalið samkvæmt 18 og 19 grein stjórnarskránni það gleymdu að umsóknin sjálf var ekki þingsályktun en þingsályktunina þurfti ekki að skrifa undir en Umsóknin sjálf var stjórnarerindi og þurfti undirskrift. Þetta var brot þeirra tveggja og engra annars.

Valdimar Samúelsson, 6.11.2010 kl. 19:55

4 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Já Valdimar, þau eru nokkur dæmin úr fortíðinni lík þeim sem þú nefnir. Málið er að ekki er til ákveðið ferli sem hægt er að setja af stað þegar ágreiningur er um brot á stjórnarskránni eins og í þínu dæmi.

Það getur ekki verið Alþingis að dæma, t.d. þegar Alþingismenn brjóta gegn Stjórnarskránni. Eins geta dómarar, forseti og embættismenn brotið gegn Stjórnarskránni, já og einstakir borgarar. Þess vegna verður að vera óháður dómstóll sem sker úr um sekt eða sýknu og ég sé ekki betri kost en þjóðina sjálfa.

Bæði þarf að úrskurða um hvort um raunverulegt brot sé að ræða og svo þarf að dæma refsingu fyrir brotið. Ég sé þetta fyrir mér að þjóðin fái að dæma um það hvort um brot sé að ræða og ef að svo reynist þá sé málinu vísað til dómstóla.

Í öllu falli þykir mér sýnt að ný Stjórnarskrá þarf að taka á þessu.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 6.11.2010 kl. 20:43

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Já tek reyndar undir þetta og svona brog eru svo augljós svo gott er að hafa flýtimeðferð í dómskerfinu og engar vöblur á því. Minnstu viðurlög eiga að vera 3 ár án afskifta í pólítík en það er vert að taka þetta upp á stjórnlagaþinginu. 

Valdimar Samúelsson, 6.11.2010 kl. 20:52

6 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Smá villur afsaka.

Valdimar Samúelsson, 6.11.2010 kl. 20:52

7 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Frábær grein! Takk fyrir. Tek heilshugar undir hamingjuóskirnar.  

Bergljót Gunnarsdóttir, 6.11.2010 kl. 23:26

8 Smámynd: Lýður Árnason

Sammála þér um greiningu vandans, þ.e. að tilgangslaust sé að hafa stjórnarskrá sem ekki er farið eftir og því þarf skýr ákvæði í þá nýju sem draga menn til ábyrgðar verði misbrestur á því.  Þakka hnitmiðaðan pistil.

Lýður Árnason, 7.11.2010 kl. 04:34

9 Smámynd: Guðjón Sigurbjartsson

Á þeim tíma sem lýðveldið var stofnað voru um 25% þjóðarinnar á því að við ættum að fara bandarísku leiðina, heyrði ég um daginn.

Það er ýmislegt sem bendir til þess að þeir sem unnu að aðlögun konungs stjórnarskrárinnar fyrir lýðveldisstofnunina hafi greint á um leiðir og textinn því orðið mótsagnakenndur á köflum.

Ég þakka góðan pistil og tek undir með þér að það er knýandi þörf að við tökum af skarið og aðgreinum valdþættina skýrt. Ólafur hefur þrátt fyrir allt opnað augu margra fyrir því að það er þörf á breytingum. Nú er lag.

Guðjón Sigurbjartsson #7473

Guðjón Sigurbjartsson, 7.11.2010 kl. 09:53

10 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Ég þakka góðar athugasemdir og uppbyggjandi umræðu

Þór Ludwig Stiefel TORA, 7.11.2010 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband