Færsluflokkur: Bloggar

Mikið hefur metnaðnum hrakað á fréttastofu moggans.

Ég hef áður tjáð mig hér á blogginu um síversnandi málfar og metnað í íslenskum netmiðlum. Þetta er óþolandi að verða og á við bæði fréttaskrif, auglýsingar og greinar. Ég er enginn öfgasinni þegar kemur að íslensku máli en ég styð það að um skýra framsetningu á íslensku sé að ræða þegar skrifað er í íslenska miðla. Svo er það alger lágmarkskrafa að menn hafi staðreyndirnar á hreinu - Gorbachev var aðalritari Sovétska Kommúnistaflokksins. Ætli fréttaritarinn sé ekki sá sami og skrifaði um "höfuðborg Moskvu" nú um daginn sem ég vakti athygli á hér á síðunni.

Ég legg til að mbl.is láti fréttaritara skrifa undir fréttir og svo væri allt í lagi að ritari þessarar fréttar finni sér aðra atvinnu. Hvað er að ykkur þarna hjá mbl.is? Þið eigið að standa vörð um íslenska tungu og svo hlýtur það að vera lágmarkskrafa að fréttaritarar hafi einhverja lágmarksþekkingu á því sem þeir eru að skrifa um. Hingað til hefur þessi miðill einkennst af meiri metnaði - vonandi er þetta ekki að koðna algerlega niður í FM hugsanahátt og hrognamál.

 

Þór Þórunnarson 


mbl.is Sakar Vesturveldin um að skapa hættulegt fordæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú, hvenær kemur að okkur?

Jæja, þá eru kjarasamningar loks lausir og mál til komið að við, vinnandi almenningur fáum að líta einhverjar launahækkanir líkt og þeir sem skammta sér sjálfir/sjálf launin. Undanfarið höfum við vitnað ótrúlega aukningu í bili þeirra sem vaða í velmegun og launafólks. Það er kominn tími til að menn átti sig á því hverjir það eru sem halda þessu samfélagi uppi - hverjir það eru sem borga vextina.

Ísland er dýrasta land í heimi þegar til matvöru, fatnaðar og flest þess er til daglegra nota lýtur. Við höfum vitnað ótrúlegar hækkanir á íbúðarverði og hér eru vextir þeir hæstu í heimi. Ekki bætir úr skák sögulegt met á verði olíu. Samt er því haldið fram að um stórkostlega kaupmáttaraukningu hafi verið að ræða síðastliðinn áratug eða svo. Ég hef aldrei séð þá útreikninga og þætti vænt um að geta fengið að sjá þær forsendur sem að baki þeim liggja; á t.d. einstaklingur á lágmarkslaunum (jafnvel bara á þessum meðallaunum) meira aflögu í dag eftir að hafa greitt alla reikninga sem nauðsynlegir eru um hver mánaðarmót? - Ég finn það ekki í minni buddu.
Meiri kaupmáttur ætti að öllu jöfnu að þýða að maður gæti unnið minna fyrir jafn miklu - er einhver þarna úti sem kannast við það?
Aukinn kaupmáttur ætti að öllu jöfnu að þýða að maður gæti leift sér meira fyrir sömu vinnu - býrð þú í stærra húsnæði nú? - Ekki ég.
Ég spyr: Hvar er allt þetta fólk sem hefur fengið þessa kaupmáttaraukningu? - Ég þekki það ekki. Ég les, hins vegar í slúðurblöðum, um fólk sem getur leift sér að kaupa nýleg einbýlishús til þess eins að rífa það og byggja nýtt. Ég les á sömu síðum um lið sem ferðast um á einkaþotum og þyrlum milli heimila og vinnu sem er á fleiri stöðum en ég á skópör.

Er ekki komin tími til að við hin vinnandi almenningur á Íslandi stöndum loksins upp og krefjumst þess að fá að búa við mannsæmandi kjör í stað þess að sætta okkur einungis við brauðmolana sem hrynja af gnægtaborðum auðmanna. Og það getur ekki bara verið okkar að koma í veg fyrir verðbólgu.

 

Þór Þórunnarson 


mbl.is Tugir þúsunda fá enga launahækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til Amsterdam með félögunum á kostnað skattborgaranna.

Ég var að lesa frétt í 24 stundum um ofbeldismann sem úrskurðaður hefur verið ósakhæfur sem fékk frá Tryggingarstofnun 600 þúsund krónur og ákvað að nota þær í að bjóða félögunum með sér til Amsterdam. Annars gekk fréttin út á það að móðir mannsins lýsti áhyggjum sínum yfir því að engin úrræði væru fyrir þennan ólánsmann í kerfinu. Nú verð ég að staldra aðeins við og spyrja nokkurra spurninga.

1.      Þessi ólánsmaður hefur sannanlega framið ofbeldisglæpi en fær samt að ganga um frjáls til að fremja aðra glæpi – hvaða réttlæti er það?

2.      Ef að maður er dæmdur ósakhæfur vegna geðveiki á þá ekki að sjá til þess að viðunandi úrræði séu til staðar fyrir slíka einstaklinga þannig að þeir fari sjálfum sér ekki né öðrum að voða?

3.      Á ekki að refsa mönnum fyrir ofbeldi sama hvort þeir eru heilir eða veikir á geði? (Hver er svo sem fullkomlega heill á geði sem fremur ofbeldisglæp?)

4.      Er það að gefa geðsjúkum dópista sem er á götunni 600 þúsund krónur einhver raunveruleg hjálp?

5.      Er það okkar hinna yfirleitt að hjálpa svona einstaklingum?

 

Ég held að þessi frétt sýni svo ekki verði um villst að samfélagið er ráðþrota þegar kemur að þessum einstaklingi og hans líkum, væntanlega vegna þess að umræðu um úrræði skortir, m.a. svör við þessum spurningum. Ég ætla að svara þeim á eftirfarandi hátt og vonast til að lesendur svari þeim svo fyrir sig og vonandi verður það til þess að við skattgreiðendur þurfum aldrei að lesa um það framar að peningum okkar sé sóað á jafn fáránlegan hátt og mátti lesa í þessari frétt.

1.      Sá sem brýtur gegn lögunum og samborgurum, sama hvort sá aðili er sakæfur dæmdur eður ei, á ekki frjáls maður að vera svo lengi sem aðilinn er líklegur til að brjóta af sér á ný og beita ofbeldi.

2.      Til að skapa fælingarmátt gegn afbrotum höfum við komið á refsilöggjöf sem kveður á um frelsissviptingu til handa þeim sem fremja ofbeldisglæpi. Þessu er ekki síst komið á til að vernda borgarana gegn ofbeldismönnum. Menn eru dæmdir til tukthúsvistar brjóti menn alvarlega af sér að mati dómstóla. Séu menn ósakhæfir dæmdir skulu menn dæmdir til meðferðar í óákveðinn tíma samkvæmt íslenskum lögum þar til menn, að mati lækna, eru hæfir til að vera úti í samfélaginu.

3.      Mér finnst það réttlætismál að ósakhæfum mönnum skuli refsað þar sem sannað þykir að þeir hafi beitt ofbeldi – það eitt að dæma menn til meðferðar er ekki nóg. Eitt skal yfir alla ganga; brjóti menn lög skal mönnum refsað sama um hvern verið sé að ræða. Síðan er hægt að ræða lengi um það hvort raunveruleg meðferðarúrræði séu til staðar fyrir ósakhæfa einstaklinga. Ég er nokkuð viss um að svo sé ekki í öllum tilfellum og hvað þá? Á að þvinga þá einstaklinga til að vera tilraunarottur fyrir hin og þessi lyf? Á að geyma þá á geðsjúkrahúsum í þeirri von að þeir lagist eða að læknisfræðin komi upp með úrræði? Eða eiga þeir að taka út sína refsingu eins og aðrir og eftir það fá geðlæknismeðferð eins og aðrir geðsjúkir sem ekki hafa brotið af sér? – Ég segi já við því.

4.      Nei! Það að gefa geðsjúkum dópista á götunni 600 þúsund krónur er glapræði og engan vegin til þess að hjálpa honum á nokkurn hátt – þvert á móti. Nær hefði verið að vista hann á geðsjúkrahúsi fyrir þennan pening eða veita honum pláss á sambýli.

5.      Ég vil svara þessu játandi en það verður að vera raunveruleg hjálp til sjálfshjálpar. Mér finnst það vera stór galli í öryrkjakerfi okkar að menn geti lagst á spenann og fengið bætur og fests þar. Það á að vera hlutverk samfélagsins að hjálpa mönnum á fætur en ekki að halda mönnum uppi. Það bíður upp á að menn misnoti kerfið og er letjandi fyrir einstaklingana að standa á eigin fótum. Vilji menn ekki sýna viðleitni í þá átt að fara aftur út í samfélagið og sjá sjálfir fyrir sér þá á það ekki að vera mitt hlutverk að sjá fyrir slíku fólki.

 

Jæja ég hef þá sagt mína skoðun á viðkvæmu máli. Það er nauðsynlegt að ræða þessi mál því að klárlega eru þau úrræði sem boðið er upp á í ólestri og virka hreinlega ekki. Þetta snertir svo víðara samhengi eins og öryrkja almennt og almannatryggingakerfið. Það sem ég vil segja að lokum er þetta: við eigum að hjálpa þeim sem raunverulega þurfa á hjálp að halda en við eigum ekki að þurfa að halda uppi þeim sem vilja á hjálp að halda. Því það er ekkert til sem er ókeypis – aðeins eitthvað sem aðrir borga fyrir.

 

Þór Þórunnarson


mbl.is Óttast hvað sonur minn gerir næst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju!

Jæja þá er sonurinn að útskrifast úr menntaskóla – stúdent 2007. Ótrúlegt hvað tíminn líður. Ég kynntist móður hans í menntaskóla og hann kom undir á lokaárinu þar – fyndið.

Allavega, á svona tímamótum lítur maður í kringum sig – hvað skyldi bíða nýútskrifaðs stúdents? Ég leit yfir Fréttablaðið í dag og verð að segja að lesturinn þar er ekki beint uppörvandi en kannski er þetta bara merki um að ég sé að verða gamall.

Seðlabankaráð hefur ákveðið óbreytta stýrivexti sem þýðir í raun að þeir hafi hækkað eins og sagt var í fréttinni. Ríkisstjórnin ætlar að koma á fót öryggisþjónustu sem hafi “heimild til að beita svokölluðum forvirkum rannsóknaraðferðum. Þá þurfi starfsmenn hennar ekki að hafa rökstuddan grun um að lögbrot hafi verið framið, eða til standi að fremja tiltekið afbrot.”!!! Sonur Davíðs Oddsonar fyrrverandi ráðherra og núverandi Seðlabankastjóra er valinn til dómara umfram aðra hæfari umsækjendur. Og, að lokum, þá á að fara að gera auglýsingahlé á Áramótaskaupi allra landsmanna í Ríkissjónvarpinu, allavega komin heimild til þess – Hvað er að gerast á þessu landi? Er allt að fara hérna til fjandans?

Þá er ég ekki búinn að minnast á þetta fáránlega háa húsnæðisverð sem gerir nýútskrifuðum stúdentum nær ómögulegt að flytjast að heiman, niðurskurðinn í heilbrigðiskerfinu, ósanngjarna misskiptingu gæða og ... Best að hætta núna áður en að þessi dagur, sem á að vera gleðidagur sonarins og fjölskyldunnar fer að bráðna niður.

Ég get bara vonað að hann leggist á sveif með mér og öðru góðu fólki sem berst fyrir betri heimi – betra Íslandi og ég veit að hann gerir það. Næg eru verkefnin fyrir ungan eldhuga með réttlæti í hjarta.

Ég segi því á þessum tímamótum, þegar unglingur er að verða að manni og sól fer snart að hækka á lofti:

Til hamingju og megi rísandi sólinn vera táknmynd um líf þitt, baðað í réttlæti og hamingju.   

 

Þór Þórunnarson 


Fræðsla eða áróður.

Einn bloggverji hefur farið mikinn undanfarið í trúarumræðunni hér á vefnum og að sjálfsögðu fer nú mikinn í sambandi við kynlífið og er með yfirskriftina “Er verið að kenna 14 ára börnum ósæmileg endaþarmsmök sem eðlileg?” núna á sinni síðu.

Kristinn maður sem slær fram áleitinni spurningu. Maðurinn stælir sig síðan af því hversu miklar umræður hafi skapast í kjölfar greinarinnar. Hann krefst þess í greininni að foreldrar viti um hvað sé verið að fræða börnin um. Hmmm.... Ég sé fyrir mér trúarofstækishópa sem ekki vilja kynlífsfræðslu yfirleitt til handa sínum börnum. “Ekkert kynlíf fyrir hjónaband” og “ekkert kynlíf nema með getnað að markmiði”.

Eru endaþarmsmök ósæmileg? Hvað er eðlilegt þegar kemur að kynlífi eða öllu heldur hvað er óeðlilegt? Hver ákveður það? Á það ekki að vera hvers og eins að ákveða það fyrir sig? Er verið að troða því upp á unglingana ef minnst er á þá staðreynd að til er eitthvað sem heitir endaþarmsmök? Á kynlífsfræðsla ekki að minnast á endaþarmsmök? Kannski heldur ekki munnmök? Hvað ætli aumingja manninum finnist um sjálfsfróun?

Hann bendir á, máli sínu til stuðnings, eitt dæmi þar sem kom “upp alvarleg tilfelli, þar sem unglingspiltar voru að hafa endaþarmsmök við ungar stúlkur og valda skemmdum á þeim í kjölfarið.” Er þetta ekki akkúrat rök fyrir því að það þarf að fræða unglingana um málið? Eða er greinarhöfundurinn að segja að fræðsla hafi orsakað þetta?

Síðan fullyrðir hann að endaþarmurinn sé ekki hannaður fyrir kynmök. Jú rétt er það en það er höndin ekki heldur né munnurinn – á þá alls ekki að nota þessa líkamsparta í kynferðislegum tilgangi? Er þetta ekki bara spurning um að gera það sem manni/konu finnst gott og bera virðingu fyrir makanum? Leifa svo siðapostulunum að sitja einum heima og ....

Fyrir mér snýr þetta að frelsi einstaklingsins. Kynlíf er hinn eðlilegasta og fallegasta athöfn sem til er. Það er siðmenningin svokallaða sem hefur kennt okkur að skammast okkar fyrir nekt okkar og sett kynlíf inn í myrkur og skömm. Það er allt í lagi að gera tilraunir í kynlífinu en aðalatriðið er FRÆÐSLA og það á ekki að ritskoða hana þannig að hún sé í samræmi við tepruskap foreldra. Fræðslan á að vera hlutlæg og fjalla um málið út frá veruleikanum, ekki einhverri draumaveröld. Endaþarmsmök tíðkast, hvort sem sumum líkar betur eða verr. Það á að minnast á þá staðreynd í kynlífsfræðslu svo að unglingar geti tekið sjálfstæða afstöðu til þess.

 

Þór Þórunnarson


Kom vel á vondan!

Það sem ég vil segja um þessa frétt er þetta: Auðvitað hata ég þjófa og vona að fíflið sem stal bílnum náist og honum verði refsað.
Aftur á móti finnst mér þetta gott á eigandann. Að skilja bíl eftir í gangi er bara að biðja um að bílnum verði stolið. Fyrir utan þá staðreynd að það er alger ÓÞARFI að skilja bíl eftir í lausagangi sérstaklega þegar maður er ekki einu sinni í bílnum. Bíll í lausagangi mengar og eyðir óþarfa orku með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið. Þeir sem gera slíkt bera enga virðingu fyrir umhverfinu eða okkur hinum. Verra lið en þeir sem reykja innan um aðra án tillits.

Þannig má segja að á kaldhæðinn hátt hafi þjófurinn verið að gera samfélaginu greiða.


Svo má velta því fyrir sér hvers konar mögnuð leti það er að bera út morgunblöð á bíl? Eru engin takmörk fyrir leti og aumingjaskap  fólks? Ég er viss um að þessi blaðberi vildi helst af öllu aka algerlega upp að bréfalúgunni og ekki þurfa að rísa upp af sínum lata rassi - er það nokkur furða að Íslendingar eru að verða eins feitir og Bandaríkjamenn - bjakk!

Þór Þórunnarson 

 


mbl.is Bílnum var stolið á þrjátíu sekúndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært, þá er hægt að setja fé í heilbrigðiskerfið.

Ég ætla bara að vísa í aðra pistla sem ég hef skrifað hér á blogsíðunni um það að verið sé að svelta heilbrigðiskerfið. Ég skil ekki, ef að til eru peningar, að þeir séu ekki notaðir í heilbrigðiskerfið sem klárlega þarf á auknu fjármagni að halda. Er það svo að það er mikilvægara að skera á þenslu sem reyndar er tilbúinn að hluta vegna ákvarðanna stjórnvalda, en heilsufar og þar með líf fólks?

 

Setjið þessar afgangskrónur í heilbrigðiskerfið. Gerum þá sjálfsögðu kröfu, eins og t.d. Danir hafa gert að útrýma biðlistum. Gerum þá kröfu að fólki sé sinnt þegar það fer á spítala. Gerum þá kröfu að menn þurfi ekki að liggja á göngum þegar þeir fara á spítala. Þetta þjónustustig sem þekkist hér á sjúkrahúsum er ekki bjóðandi og ástandið minnir um margt á eitthvert þróunarlandið - ekki land sem mælt hefur verið besta land í heimi.

 

Þór Þórunnarson 


mbl.is Afgangur af rekstri hins opinbera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brosandi með tárin í augunum.

Nú er heit umræðan um jafnrétti og hvítvoðungaliti. Fyrir ekki svo löngu síðan var mikið ritað og rætt um staðalímyndir, sérstaklega, kvenna og þá verið að ræða ofurmjóar fyrirsætur. Nú hefur nýfarið fram kjör (?) á ungfrú heim. Í þetta skiptið hlaut titilinn ungmey ein frá Kína. Ef að litið er á myndir af þessari stelpu get ég ekki betur séð en hér sé á ferðinni en ein vannæringin. Það er sem sagt enn verið að halda því að ungum stelpum, á hvaða aldi sem er, að fegurðin liggi í því að hægt sé að telja rifbein og rekast í mjaðmabein.

 bilde

Þetta fær mig allavega til að hugsa: Hver er það sem kýs? Hvaða keppni er þetta eiginlega? Allavega er þetta klárlega ekki almenn kostning. Er ekki líka til eitthvað sem heitir ungfrú alheimur? Nú tók ungfrú Ísland þátt í þessu held ég – hver borgar brúsann? Er ungfrúin að þvælast þetta til Kína á eigin vegum? Er til eitthvað fyrirtæki sem er til í að styðja þessa þvælu – virkilega?

Hafa menn ekkert betra að gera?

Nú er fita ekki neitt sem mér líkar og finnst mér feitt fólk útlitslega fremur ógeðfellt. Nú eru menn ofan í kaupið farnir að jarma um að offita sé sjúkdómur – æjæjæja. Frábær afsökun fyrir skorti á sjálfsaga og óhófi, leti og AUMINGJASKAP!

Það er vandratað meðalhófið vissulega en að vera að merkja allt sem ekki fellur þar sem sjúkdóm er að krambúlera hugtakið og gera það ónothæft.


Höfuðborg Moskvu ?!?

Er það bara ég eða finnst ykkur hinum líka að gott málfar og skýr hugsun sé á undanhaldi í fréttaskrifum á netinu?

Fyrir utan þetta með með höfuðborg Moskvu er margt í þessari frétt alveg út í hött; kíkið á þetta: "... en eftir að kosningarnar urðu að nokkurs konar þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Pútín ætti að halda völdunum virðist flokkurinn staðráðinn í að...".

Þór Þórunnarson 


mbl.is Kjörstaðir opnaðir í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf að gera eitthvað mjög, mjög róttækt varðandi aga hér á landi.

Ég á erfitt með að hemja mig. Ég á erfitt með að koma reiði minni frá mér. Ég þarf virkilega núna að gera eitthvað...

Tvær fréttir hér í morgunsárið: þessi og árás á unglinga þar sem reynt var að ræna unglingsstúlku. Hvað er að gerast á Íslandi?

Ég get ekki annað séð en að þetta sé tengt agaleysi og vanvirðingu gagnvart náunganum og lögum og reglu. Það er hægt að gera eitthvað í því og það ber að gera og það STRAX.

Í fyrsta lagi þarf að taka þá aðila úr umferð sem níðast á samborgurunum og þá meina ég að taka þá úr umferð. Ég er orðin þreyttur á þessum heilsuhælum hér á landi sem kallast fangelsi. Það er enginn fælingarmáttur í því að fara í fangelsi hér á landi. Þar fyrir utan eru dómar hér vægir. Það er líka eitthvað að réttlætiskennd íslendinga. Hér geta menn stolið af ríkinu (s.s. okkur öllum), farið í sumarbúðir í smástund og verið kosnir á Alþingi íslendinga á komandi kjörtímabili. Séu menn nappaðir fyrir að flytja inn dóp og selja fá menn dóm sem að hluta er skilorðsbundinn og þeir sem í lenda reikna bara sem fórnarkostnað. Síðan halda menn uppteknum hætti.

Sko, ég krefst þess að fólk fari hér að lögum. Lögum sem samþykkt eru á Alþingi. Ef að menn gera það ekki þarf að refsa fyrir það. Refsing þarf að svíða svo að menn virkilega hugsi sig um, ekki tvisvar, ekki þrisvar heldur oftar, áður en að menn hugleiða að brjóta gegn lögunum. Það að keyra niður fólk, að ekki sé talað um barn, og stinga af kallar nánast á aftöku. Látum vera að ekið sé á einstakling, jafnvel að ökumaður sé svo heimskur að hafa gert það drukkinn, mistök geta á sér stað, en að stinga af er OF MIKIÐ AF HINU GÓÐA. Djöfull þarf að ná í þetta kvikyndi!

Þessar nauðganir hér og árásir, ólæti í miðbænum og almenn vanvirðing fyrir umhverfinu og náunganum - þetta þarf að stöðva. Ein leiðin til þess er að herða refsingu fyrir brot og önnur leið er að refsingin virkilega svíði. Jú, jú það er gott og blessað að líta til fangelsa sem endurhæfingarstofnanna en það verður að líta til þess að til eru harðsvíraðir einstaklingar og siðblindir sem hreinlega þarf að taka úr umferð, óalandi aumingjar sem aka niður fólk og stinga af. Sömuleiðis þarf að líta til þess að fangelsisdómur hafi í sér virkilegan FÆLINGARMÁTT. Það skortir verulega á hér á landi. Tökum Kvíabryggju sem dæmi. Þar ganga menn inn og út eftir eigin þörfum og geta gert meira og minna það sem þeim sýnist - sumarbúðir og hvíldarhæli þar sem menn geta safnað kröftum, sér að kostnaðarlausu.   

Við almenningur hér á landi - segjum að nú sé nóg komið - tökum til í samfélaginu. Það er okkar að segja til og krefjast þess að mönnum sé virkilega refsað fyrir það að brjóta á náunganum!

 

Þór Þórunnarson


mbl.is Allar vísbendingar kannaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband