Um ófyrirséðar skuldbindingar Íslendinga

Það sem ég á bágt með að skilja og mig grunar að fleiri eigi við það vandamál að stríða er það hvernig það mátti verða að “ófyrirséðar skuldbindingar” gátu fallið á ríkissjóðs vegna einkafyrirtækja. Ég stóð alltaf í þeirri meiningu að Alþingi þyrfti að samþykkja skuldbindingar ríkissjóðs, um það snérist jú lýðræði. Er það ekki annars óeðlilegt að einhverjir aðilar út í bæ geti stundað sín viðskipti, oft með vafasömum hætti og vítaverðu kæruleysi, og við almenningur séum svo látin súpa seiðið af þegar illa fer?

 

Ég benti á það hér á blogginu mínu þegar ég skrifaði bréf til varaformanns Samfylkingarinnar fyrir ári og spurðist fyrir um það hvernig þetta mætti vera. Ekki fékk ég haldbært svar og hef ekki fengið enn. Það lítur út fyrir að Alþingismenn hafi ekki haft hugmynd um (eða neitað að horfast í augu við) þessa staðreynd: Ákveðin einka-fyrirtæki voru rekinn á ábyrgð ríkissjóðs án sérstaks samþykkis löggjafarsamkundunnar. Nú er ég ekki löglærður maður en einhverja menntun hef ég þó og er almennt alinn upp í lýðræðishefðum og get ég ekki séð hvernig þetta getur staðist lög né stjórnarskrá.

 

Hvernig má það vera að hundruðir milljarða geta fallið sem skuld á almenning án samþykkis almennings eða Alþingis?

Þetta getur ekki staðist lög. Þetta brýtur í raun beint gegn fertugustu grein, fjórða kafla, Stjórnarskrá Íslenska Lýðveldisins en þar segir orðrétt:

”Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.”

Ég fæ ekki betur séð en að markmið þessarar greinar sé að tryggja að það sé Alþingi, og einungis Alþingi, sem geti skuldbundið ríkið.

 

Sjötugasta og sjöunda greinin virðist einnig undirstrika það að það sé Alþingis – ekki stjórnvalda – að setja á skatt.

”Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.

Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.”

Ef að litið er til þessarar síðasttöldu greinar sést að skýrt er tekið á að engan skatt megi leggja á Íslendinga nema heimild hafi verið fyrir því í lögum ÁÐUR en atvik urðu sem ráða skattskyldu.  Hvað þýðir þetta?

Þetta getur ekki þýtt annað en að ekki sé hægt að leggja á mig, sem Íslending, skatt til að greiða eitthvað í dag nema heimild hafi verið fyrir því þegar til skuldbindingarinnar var stofnað. Nú ef að heimild var í lögum, t.d. í gegnum Samningin um evrópska efnahagssvæðið og lögum um banka og sparisjóði, til að gefa út óútfylltan ábyrgðartékka til handa einkafyrirtækjum þá verð ég að segja að það stríði gegn anda stjórnarskrárinnar og hafi því þeir Alþingismenn er standa því farið gegn Stjórnarskránni. Menn hafa talað um landráð af gáleysi og hlýtur það að teljast réttmæli í þessu tilviki.

 

Ef að Alþingismenn hafa ekki skilið hvað þeir voru að kalla á ríkissjóð þá bera þessir sömu Alþingismenn ábyrgð og verða að teljast vanhæfir og ófærir í að sinna sínu starfi. Hafi aðgerðir, eða aðgerðaleysi, þessara sömu aðila kallað hundruðir milljarða skuld yfir ríkissjóð Íslands hafa þessir aðilar farið gegn anda stjórnarskrárinnar og kallað mikið óréttlæti yfir Íslendinga. Þeir Alþingismenn sem þá ábyrgð hafa verða að sæta þeirri ábyrgð.

 

Menn munu spyrja: Hverju erum við bættari með því? Ekki geta þessir einstaklingar sjálfir greitt fyrir mistökin.

Á móti má segja: Menn buðu sig fram til Alþingis vegna þess að þeir töldu sig vera betur til þess fallna en aðra og sóttust eftir þeirri ábyrgð ásamt þeim fríðindum og launum sem því fylgir. Þau sögðu – treystið okkur til að bera ábyrgð á ríkissjóði og það var gert. Nú hafa þessir aðilar ekki reynst traustsins verðir og á þá bara að láta gott heita? Eigum við sem höldum þessu samfélagi uppi bara að borga milljarða með bros a vör og segja: æ, æ, þetta var nú mikil óheppni en hvað um það.

 

Það er klárt í mínum huga að hafi verið klásúla í lögum um það að ríkissjóður bæri ábyrgð á innistæðum sparifjáreigenda í bönkunum, þá hafi það verið skýr skylda Alþingismanna að tryggja ríkissjóð gagnvart því. Talað hefur verið um bindisskyldu eða skattlagningu á bankastarsemi sem leiðir til að tryggja ríkissjóð en slíkum aðgerðum var ekki beitt – þrátt fyrir viðvaranir! Í raun var bindisskylda lækkuð! Nú er ekki hægt að láta þessa einstaklinga greiða persónulega fyrir þessar skuldir sem fallið hafa á ríkissjóð en eðlilegt þykir mér að þeir einstaklingar sem svona vítavert athæfi hafi sýnt geti ekki, í það minnsta, framar gengt opinberum störfum.

 

Ég ætla í annarri grein að fjalla um það hvernig, ég sé, að hægt verði að komast út úr þessum skuldbindingum sem svo ósanngjarnt hafa fallið á almenna íslenska borgara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband