Kjaramál og ... önnur mál?

Nú, loksins, fara kjaraviðræður af stað. Ekki það að ég bindi miklar vonir við að þær skili árangri frekar en fyrri daginn. Það er allt eitthvað svo vonlaust þegar þessir aumingjas verkalýðsforingjar eru annars vegar. VR gerir t.d. þá "kröfu" að laun 60% aðildarfélaga hækki ekki neitt næsta samningstímabil. Svolítið furðulegt í ljósi þess að laun margra hafa hækkað ótrúlega undanfarið, t.d. alþingismanna, ráðherra, dómara, útvarpsstjóra og diplómata og þá er ég bara að tala um opinbera starfsmenn sem, eins og sagt er, sitja alltaf á hakanum í samanburði við almenna markaðinn.

Annað finnst mér aumkunarvert. Í Silfri Egils um daginn var formaður Rafiðnaðarsambandsins og kvartaði undan broti á ýmsu þegar kemur að erlendu verkafólki hér á landi. Sagði menn vera á unglingatöxtum, þó iðnmenntaðir væru, menn útselda á fullum töxtum. Hann  talaði um aðbúnað á vinnustað og hvernig þessu farandfólki var gert að búa - slæm mynd þar dregin upp. Það fáránlegasta við þetta var, hins vegar, það að þegar aðspurður um hvað verkalýðshreyfingin gerði í málinu kom einhver afkáraleg samlíking um lögreglu og stúta undir stýri - það væri ekki lögreglunni að kenna ef að menn kæmust upp með það að aka undir áhrifum áfengis?!?

Ég verð bara að spyrja: Er það ekki EINA hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að standa vörð um réttindi og kjör launafólks? Er það orðið svo á vorum tímum að verkalýðshreyfingin lætur sér nægja að klaga brot á vinnulöggjöf og ómannúðlega meðferð á verkafólki til yfirvalda og lætur þar með sitja ef að ekkert er að gert að hálfu þessara yfirvalda?

Sú var tíðin, og ég man vel eftir því, að það þýddi EKKERT fyrir einhvern atvinnurekanda að einu sinni reyna að beygja lög og reglur á vinnumarkaðnum. Sú var tíðin að menn hreinlega óttuðust að fá verkalýðshreyfinguna upp á móti sér. Ef að svo varð var vinna einfaldlega stöðvuð og ef ekki dugði að stöðva bara á viðkomandi vinnustað var samstundis farið í samúðarverkfall og allt sett í bið þangað til að leyst hefði verið úr málum. Þá voru dugandi menn í verkalýðsforystunni - nú eru þetta skvattar, kerfiskallar sem eru til einskis nýtir annars en að hanga á fundum og dreyma fyrir framan tölvuskjáinn.

Að lokum; Feitur kall frá verkalýðshreyfingunni sat á móti alþingismanni í Kastljósi Ríkissjónvarpsins um daginn. Verið var að ræða fjölgun skattþrepa. Eitt fyrir fátæklinga og annað fyrir hina. Alþingismaðurinn, Pétur Blöndal, opnaði - ætlaði örugglega að vera svakalega klár og sniðugur -  með því að segja að verkalýðsfrömuðurinn ætti að halda sig við kjaraumræðuna. Ef að hann ætlaði að fara að blanda sér í skattamál, sem væru ákveðin með lögum, ætti hann að bjóða sig til þings - hmrbl.... Sko, nú vil ég taka það skýrt fram að eitt skattþrep er meira en nóg og vil ég ekki breyta því. Hitt er svo annað mál að ríkið á og verður að taka þátt í því að bæta kjör - að sjálfsögðu - hvers konar þvæla er þetta. Ákvörðun skattleysismarka er kjaramál en er, að sjálfsögðu innan skattalaga.

Við getum tekið önnur mál; heilbrigðisþjónustuna. Aðkomugjöld eður ei og ef þá hversu há. Á að setja peninga í að byggja tónlistarhús eða bæta kjör heilbrigðisstarfsfólks sem er forsenda þess að geta tekið á móti fleiri sjúklingum og þjónustað þá betur.

Þessi, svokallaði, verkalýðsforingi lét vaða yfir sig á skítugum skónum og það með fáránlega hæpnum málflutningi, fattaði ekki hvaðan á sig stóð veðrið og opinberaði sig sem þann sem hann er: ofurfeitur og dofinn kyrrsetukarl sem er einskis nýtur til að breyta nokkrum sköpuðum hlut, hvorki fyrir sjálfan sig né aðra. 

 

Er það furða að maður er hættur að vera í verkalýðsfélagi og tekur málin bara í sínar eigin hendur - gallinn er bara sá að: Sameinuð stöndum vér - sundruð föllum vér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband