Huglæg þráhyggja hræddrar þjóðar.
7.12.2009 | 14:31
Nú er komið að því.
Það er loks að renna upp fyrir fólki, svo kölluðum ráðamönnum sem öðrum, að vandinn sem hin Íslenska þjóð á við að etja verður ekki leystur með sömu meðölum og sköpuðu vandann. Að halda það að sama hugsun, sama aðferðafræði, sama fólkið, skili öðruvísi útkomu heitir á öðrum stað huglæg þráhyggja og er kennt við sjúkdóm.
Ég persónulega er fyrir löngu fallin frá því að reyna að leysa vandann. Fyrir það fyrsta þá kemst maður ekki að fyrir sömu frekjunum og besservisserunum sem mokuðu hvað mest undir sig undanfarinn áratug. Í öðru lagi er ég nú með sannfæringu fyrir því að vandinn verður ekki leystur; það verður ekki plástrað á sárin lengur. Einungis nýtt kerfi, með allt aðrar áherslur, önnur gildi og annað fólk getur tekið við. Því lengur sem menn þrjóskast við að sjá það og viðurkenna, því verra verður það fyrir þjóðina og þá einstaklinga sem hún samanstendur af.
Nú um stundir fylgist ég, þegar ég nenni og er í sjálfspíningarástandi, með þjóðfélagsumræðunni. Það þarf að bjarga heimilunum í landinu, það þarf að bjarga atvinnulífinu í landinu, unga fólkið og allir sem geta flytja af landi brott, það þarf að styrkja hér gengið, það þarf að greiða niður skuldir, það þarf að ganga frá Icesave, það þarf að endurvekja bankana, það þarf að einkavæða bankana, það þarf að virkja, það þarf að byggja fleiri álver, það þarf að... það þarf að. Hvílíkur eymdarkór, manna og kvenna sem voru það heimsk að þau sáu ekki hrunið fyrir, tóku virkan þátt í ákvörðunum sem beinlínis leiddu til skuldafangelsis þjóðarinnar og eiga, á einn eða annan hátt, beinan þátt í því hvernig komið er. Hvílík sjálfsblekking, hvílíkur hroki, hvílík heimska. Ef maður fylgist með þessu úr fjarlægð þá veit maður ekki hvort maður á að vorkenna þessum aumingjum eða fyrirlíta. Hvernig getur manneskja sem var í innsta hring stjórnsýslunnar, stjórnmálanna, viðskiptanna, mennta og vísinda, vogað sér að bjóða sig fram sem lausn við því ástandi sem hún óneytanlega átti þátt í að skapa? Hvernig getur þannig siðlaus manneskja komið fram og þóst taka þátt í því að auka siðgæði íslensks samfélags og komist upp með það?
Það er einungis mögulegt ef að einstaklingurinn og þjóðin sem heild er haldin huglægri þráhyggju og afneitun. Það er, úr því sem komið er, einungis eitt framundan fyrir hina íslensku þjóð og þeir sem hafa snefil af heiðarleik í sínu hjarta vita við hvað ég á. Ég vil, að lokum, beygja út frá orðum fyrrverandi forsætisráðherra þessarar þjóðar og segja, ekki Guð blessi Ísland heldur: Guð bjargi Íslandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:03 | Facebook
Athugasemdir
Hef verið að benda á þetta sama. Vandinn liggur í kerfinu sem við búum við. Bendi á www.umbot.org og þær hugmyndir sem þar koma fram.
Það er ekki hægt að leysa vanda sem tilkominn er með ofurskuldsetningu, með því að auka við skuldsetninguna.
Það er hægt að koma okkur út úr þessari vitleysu, en það verður ekki gert með núverandi hegðunarmynstri.
Jón Lárusson, 7.12.2009 kl. 16:46
Ég er líka til í að fleygja þessu kerfi. Það er samt hægt að laga kerfið með því að stokka spilin og gefa upp á nýtt. Hinsvegar er óvíst að sú viðgerð endist ef menn hafa ekkert lært af mistökum og finna ekki gallana.
Offari, 7.12.2009 kl. 23:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.