Kreppukennsla

Fólk er tregt, ég bara verð að segja það – heimskt! Ég er ekki að segja þetta af því að ég sé að reyna að setja mig á einhvern stall. Ég segi þetta í þeirri einlægu viðleitni minni til að vekja fólk til meðvitundar um hlutskipti sitt. Það er nefnilega ekki hægt að vaða ofaní fólk eða kúga nema það sé ósamstíga, óupplýst og ómeðvitað; með öðrum orðum: Það er ekki hægt nema fólk sé heimskt.

 

Við erum nú að ganga í gegnum kreppu, segja menn – segja menn. Hvaða menn segja það? Erum við raunverulega að ganga í gegnum kreppu? Hvað er kreppa? Hvers vegna verða kreppur? Það eru fáir sem geta svarað því, og það þó menn skarti menntatitlum. Það er með hreinum ólíkindum að ekki einn einasti fjölmiðill íslenskur, hafi gert svo mikið sem tilraun til að svara því hvað kreppa sé og hverjar séu ástæður fyrir því að kreppa skellur á. Það er engin upplýsing í gangi. Allt er hjúpað dulúðugri hulu. Það er eins og enginn viti neitt og, minn kæri lesandi, það er vissulega nokkuð til í því.

 

Að vísu sýndi ríkisútvarpið heimildamynd sem útskýrði eðli peningakerfisins um daginn, en annað hef ég ekki séð, sem gerir tilraun til að útskýra fyrir fólki, hvað við erum raunverulega að ganga í gegnum.

 

Mikið hefur verið rætt og ritað um ástæður þess að við íslendingar nú erum í efnahagsvanda. Ástæðan er alltaf rakin til íslensku bankanna og útrásarvíkina, annars vegar, og svo heims-kreppunnar, hins vegar.  Vissulega eru aðstæður á Íslandi mun verri en annars þyrftu að vera vegna þessara útrásardrengja sem óðu hér uppi í taumlausri græðgi, og ekki síður erum við Íslendingar í vondum málum vegna gersamlegra vanhæfra embættismanna og kerfisspillingar. En allt átti íslenska efnahagshrunið rætur sínar úti í hinum stóra heimi. Það er aumkunarverð heimska, og fásinna, að halda því fram að Ísland hafi hrunið vegna örfárra einstaklinga. Einhverjir sjá, sem betur fer, tengsl bankahruns á alþjóðavísu og hruns hinna svokölluðu Íslensku banka. Á hinu stóra alþjóða hruni eru svo engar útskýringar gefnar. Einungis er á það bent að heimskreppa hafi áhrif hér sem og annarsstaðar. Þetta er svona svipað eins og að útskýra fyrir einfeldningi að það rigni hér vegna þess að rigningin komi yfir hafið. Hægt og bítandi er búið að koma því inn hjá almenningi að kreppa sé einhverskonar náttúrufyrirbæri, svona rétt eins og aftaka fárviðri. Kreppa sé eitthvað sem við verðum að láta yfir okkur ganga og að baki liggi einhverjir óútskýranlegir náttúrukraftar og duttlungar.

 

Það eru einhverjir sannleiksleitandi einstaklingar hér, sem og erlendis, er bent hafa á tengsl heimskreppunnar og hinna svokölluðu undirmálslána í bandaríkjunum. 

 

Nú ætla ég að gera mitt til að upplýsa almenning – kreppa er ekki náttúrulegt fyrirbæri og ástæður kreppunnar eru ekki háðar duttlungum náttúrunnar.

 

Ég ætla nú að gera heiðarlega tilraun til að varpa ljósi á hverjar séu orsakir efnahagskreppunnar.

 

Við lifum í kapítalískum heimi. Það þýðir að fjármagnið ræður för og krafan, og hvatinn, er alltaf sá að hámarka ávöxtun þess fjármagns sem maður hefur yfir að ráða.

Þegar ég var yngri furðaði ég mig oft á því að land virtist alltaf vera það sem menn fóru í stríð útaf. Það er land sem allt snýst um – land og afleiða þess fjármagn. Lítum aðeins nánar á þetta.

 

 

Nú skulum við byrja á byrjuninni. Ég ætla að segja ykkur sögu; sögu um mann.

 

Maður þessi hefur augastað á óbyggðu landi vestur í Bandaríkjum Norður Ameríku. Maðurinn, sem við skulum kalla Dole Are, sér að ef að hann byggir húseignir á landinu þá megi margfalda verðmæti landsins. Dole fer í bankann og sækir um lán til að kaupa landið og til að geta farið að byggja íbúðarhúsnæði á landinu. Bankastjórinn sem tekur á móri Dole Are er menntaður maður í hagfræðum og áttar sig á því að það er ekki mikill markaður fyrir þessum húseignum eins og staðan er. Þessi vel menntaði bankastjóri þekkir vel driftekningu peninga og veit að aðgengi  að lánsfé hefur áhrif á markaðseftirspurn eftir íbúðarhúsnæði. Það er, með öðrum orðum, ekki verð á íbúðarhúsnæði sem hefur áhrif á eftirspurnina, heldur verðið og magnið á lánsfé; þ.e. vextir!

 

Bankastjórinn svarar því framkvæmdamanninn Dole Are og útskýrir fyrir honum áform sem geti gert bæði honum og bankanum kleift að græða vel á hugmyndinni.

Hugmyndin er einföld og bankastjórinn útskýrir fyrir Dole Air, á grafi, að markaðsverð íbúðarhúsnæðis sé í jafnvægi og miðað við það sé ekki hægt að græða neitt á hugmyndinni. Það sé ekki hægt nema að auka eftirspurn eftir húsnæði. Vanaleg sé ekki hægt að auka eftirspurn eftir neinu nema að lækka verðið, þannig að þetta sé erfitt mál.

 

Hann hafi nú hugsað málið og séð leið til að leysa það með því að auka eftirspurnina og  hækka verðið á íbúðarhúsnæði. Hann hafi fundið leið til að ná umtalsverðum hagnaði, bæði fyrir Dole Are og bankann.

 

Hvernig?

 

Jú, sjáðu til; þetta hefur allt með aðgengi að lánsfé að gera. Nánast enginn hefur efni á að kaupa sér húsnæði. Fólk þarf því að taka lán og þar komi bankinn, þar eð fjármagnseigendur, inn í dæmið. Sé auðvelt að fá lán, þá eykst eftirspurn eftir húsnæði og verð á húsnæði eykst. Ef verð á húsnæði eykst, þegar þú ert búinn að byggja, græðir þú og bankinn einnig, þar sem fleiri koma til með að taka lán og hærri lán (vegna hækkandi íbúðarverðs) en áður. Snjallt ekki satt?

 

Við búum við ofurtrú manna á markaðslögmálin, segir bankastjórinn. Menn sjá ekki samhengi hlutanna og hafa ekki tíma eða nennu til að hugsa. Menn halda það að seðlabankar eða ríkisstjórnir ákveði verð á fjármagni eða það sem við köllum í daglegu tali vexti. Það er ekki svo, minn kæri Dole Are. Það sem ræður verði á fjármagni, eða það sem ræður vaxtastigi, svo talað sé bankamál, er peningamagn í umferð.  Sé mikið um peninga, eru þeir að sjálfsögðu ódýrir, en ef að þeir eru sjaldséðir eru þeir dýrir. Bara rétt eins og með allt annað á markaði. Það sem menn flaska á er hvort kemur á undan eggið eða hænan. Margur heldur að vextir séu ákveðnir og þeir hafi síðan áhrif á peningamagnið. Hitt er sannleikanum nærri, að magn peninga, það sem við köllum aðgegni að fjármagni, er það sem ákvarðar vaxtastig. Ef að ég eyk peningamagn í umferð þá lækka ég vextina og þar með hækka ég fasteignaveð og við getum í sameiningu, minn kærri lærlingur, grætt vel á hugmynd þinni að byggja íbúðarhús. Ég vil vitna í minn mikla lærimeistara Amstel Rothschild:

 

“Give me control of a nation's money supply

and I care not who makes the laws."

 

Ég kemst alltaf við þegar ég tek mér þessi orð í munn! Sjáðu nú til, segir bankasjórinn, ég skal nú útskýra fyrir þér hvernig við berum okkur að.

 

Í upphafi höfum við jafnvægispunkt á markaði, þar sem framboð og eftirspurn gefur ákveðið verð – jafnvægisverð.

 

 

Þetta er það sem allir læra í hagfræði 101, dull, leiðinlegt og ekkert hægt að græða; markaður í jafnvægi er markaður sem ekki gefur gróða, einungis ströggl.

 

Til að geta grætt á því að byggja nýtt íbúðarhverfi þarf að auka eftirspurnina og skapa þannig nýjan jafnvægispunkt sem gefur hærra verð, altso svona:

 

 

 

Það eru einungis tvær leiðir til að auka eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði: fjölga íbúum eða lækka vexti! Já, eða það sem heitir að auka aðgengi almennings að lánsfé. Við aukum aðgegni almennings að lánsfé og höfum þar með áhrif á eftirspurnina eftir íbúðarhúsnæði, snjallt ekki satt? 

Til að byrja með, lána ég þér herra Dole Are, fyrir kaupum á óbyggðu landinu og byggingarframkvæmdunum, allt á þægilegum vöxtum. Þú færð svokallað kúlulán (lán sem borgast allt í lok lánstímans) og borgar mér þegar þú ert búinn að ná “break even”.

 


Þetta graf sýnir hvernig aðgerðin þróast.

Með því að auka aðgengi almennings að lánsfé (lækka vexti) , þá eykst eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði og þar með hækkar verðið. Þú sérð að bilið frá jafnvægisverði að hæsta mögulega verði hefur normaldreifingu sem sýnir sölu húsnæðisins á aðgerðartímabilinu. Mesta salan á íbúðarhúsnæði er á miðjubilinu og eftir það dregur úr henni þar til hún stöðvast alfarið þegar verð er í hámarki og þróunin snýst við. Þá hefur þú, hins vegar, grætt heilmikið fé og bankinn einnig.

 

Við gerum ráð fyrir að þú sért á sléttu þegar þú ert búinn að selja helming heimilanna (strikaða svæðið), þá er fær bankinn einnig endurgreitt frá þér og þar með báðir aðilar búnir að gera góðan “bisness”. Eftir það átt þú helming heimilanna. Verð mun halda áfram að hækka og þú átt von á miklum gróða. Sömuleiðis mun bankinn græða áfram þar sem allir kaupendur munu snúa sér að bankanum til að fá lán. Þar sem íbúðarverð er stöðugt að hækka í verði mun bankinn einnig fá stöðugt hærri vaxtagreiðslur. Bankinn græðir í rauninni margfalt þar sem hækkandi íbúðarverð mun einnig hvetja fólk, sem á fyrir húsnæði, til að “endurfjármagna” íbúðarhúsnæði sín og veðsetja “frívirðið” (þ.e. muninn milli þess er fólk keypti hús sín á og þess sem fengist ef að fólk myndi selja nú eftir að verð hefur hækkað).

 

 

En, herra bankastjóri, fólk er að ströggla nú þegar við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Eftir að verð hefur almennt hækkað af íbúðarhúsnæði en ekki laun, getur fólk greitt af lánunum?

 

Nei, en þú skalt ekki hafa áhyggjur af því, herra Dole. Það sem við gerum er að selja lánin á alþjóðlegum markaði. Lánin þykja ágætis fjárfestingakostur þar sem á bak við þau liggur veð í fasteignunum. Við búum til lánapakka og vitlausir fjárfestar úti í hinum stóra heimi munu kaupa vegna stærðar dæmisins (já, þú ert ekki einn um að vera að byggja herra Dole Are). Erlendir fjárfestar munu treysta á að alríkisstjórnin muni koma fólki til bjargar. Í raun er ég feginn því að þú hafðir samband við mig herra Dole Are, vegna þess að það er forsenda þess að hægt sé að selja lánapakkana á alþjóðlegum markaði, og að dæmið yfir höfuð geti gengið upp, að það sé nógu stórt í sniðum. Ef að nógu margir bankar, vogunarsjóðir, lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar, hoppa á vagninn, munu ríkin koma til hjálpar þar sem annað myndi þýða algert fjármálahrun. Það mun því verða ófrávíkjanlegt að ríkin hlaupi undir bagga til að koma í veg fyrir kreppu.

 

En, herra bankastjóri, eru ekki alltaf einhverjir sem tapa þegar einhver (í þessu tilfelli ég og þú) græða?

 

Jú, að sjálfsögðu, herra Dole. Eftir að snúningurinn þinn er yfirstaðinn og þú situr með milljóna gróða á einhverri sólríkri strönd, þá mun koma í ljós að markaðurinn var snöggur að bregðast við hækkandi íbúðarverði og svaraði með gífurlegri aukningu á framboði. Allir fóru að byggja sem óðir væru. Það myndaðist eins konar íbúðarhúsnæðisgullæði. Verðið mun lækka á ný og verða það sama og áður, en þá ert þú að sjálfsögðu sloppinn og búinn að ávaxta þitt fé. Eftir stendur auðvitað alltof mikið af íbúðarhúsnæði og gífurlega mikið fjármagn bundið í steinsteypu. En það er það sem ríkið mun á endanum fjármagna með “bail-out” aðgerðum þegar allt verður gert upp.

Autt íbúðarhúsnæði sem ekki selst mun koma verktökum í greiðsluþrot. Fólk mun missa vinnuna og ekki geta greitt af lánum sínum. Þetta mun að sjálfsögðu sliga bankakerfið. Sem er hluti áætlunarinnar því ríkisstjórnirnar munu ekki láta það gerast og koma bankakerfinu til bjargar. Eftir standa því endurfjármagnaðir bankar (af ríkinu) sem eiga allar fasteignirnar. Á einn eða annan hátt mun það vera heimskur almúginn sem ber tapið, borgar brúsann, fjármagnar gróðann þinn, herra Dole, og minn.

 

Þegar fólksfjölgunin hefur elt uppi fjölgun fasteignanna munum við svo endurtaka leikinn. Fólk er meira að segja svo vitlaust, svo heimskt, að það fattar ekki að verið sé að taka það í görnina. Við ráðum öllu þar sem við ráðum peningamagninu.

 

 

 

En, herra bankastjóri, hvaðan kemur allt þetta aukna lánsfé til að byrja með?

 

Það, minn kæri herra Dole Are, er fyrir lengra komna og mun ég segja þér frá því síðar þegar við ræðum um peningamagn í umferð. Það er einnig skemmtilegur og valdamikill leikur. Tökum eitt skref í einu, herra Dole. Eitt skref í einu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband