Feigðarsigling hinnar íslensku þjóðar

bankar.jpgÉg horfði með eftirvæntingu á fyrsta hluta sjónvarpsþáttaraðarinnar Hrunið í kvöld. Já það var gott og þarft að rifja upp atburðarás undanfarins árs. Það fór illa og mun fara illa fyrir þessari þjóð. Þetta er ekki sagt af neinni illgirni, öðru nær, heldur er þetta raunhæft mat eftir að hafa fylgst með þessari þjóð undanfarna áratugi og sérstaklega undanfarið ár.

 

Nú erum við hér stödd, ári eftir hrun íslensks efnahagslífs, eftir stórvægilegustu atburði íslandssögunnar, eitthvað sem maður myndi ætla að kalla myndi á breytingu, en við erum samt  stödd í nákvæmlega sömu stöðu og við vorum í - ekkert hefur í raun breyst. Það er í raun dapurlegt að horfa upp á feigðarsiglingu þjóðarinnar, en þannig fer þetta bara.

 

Þessi þjóð á sér ekki viðreisnar von ef að hún áttar sig ekki á því að þetta “hrun” er ekkert annað en ákveðinn punktur í löngu ferli og viðbrögðin verða að snúast um allt annað og meira en að reisa við bankana, styrkja gegnið, taka lán og semja um Icesave; í raun er þau viðbrögð einungis áframhald á því ferli sem leiddi okkur þangað sem við nú erum og viðhalda þannig þessu ástandi sem flestum er orðið ljóst að er vont ástand.

 

Það sló mig mest í þessum þætti þegar var verið að fara yfir tilvitnanir stjórnmálaleiðtoga þjóðarinnar vikurnar áður en bankarnir endanlega voru yfirteknir gjaldþrota af ríkinu og haft var eftir þeim að ríkið myndi “að sjálfsögðu” hlaupa undir bagga með bönkunum ef illa færi, því bankakerfi þjóðarinnar væri of mikilvægt til að það mætti fara á hliðina eða stöðvast. Það var og viðleitni Seðlabankans til að bjarga bankakerfinu sem var aðalhvati þess að taka bankana yfir. Það sem er sorglegast í þessu er að enginn virðist koma auga á þessa augljósu blekkingu og innbyggðu skekkju sem í þessari staðreynd felst.

Athugið það lesendur góðir að undanfarna áratugi er búið að hamra á því að ríkið ætti ekki að vasast í bankarekstri, það væri einfaldlega ekki hlutverk ríkisins. Nú má endalaust rífast og rökræða um hlutverk ríkisins og hvaða rekstur það eigi að hafa með höndum. Eitt eru þó flestir sammála um og það er að ríkið á að reka löggæslu og dómsgæslu og yfirleitt allt það sem hefur með almannaheill að gera. Í raun á ríkið að reka það sem nauðsynlegt er að sé til staðar svo að samfélagið virki. Nú, þar hafið þið það: Allir leiðtogar þjóðarinnar staðhæfðu að ríkið myndi koma bönkunum til hjálpar vegna þjóðhagslegs mikilvægis bankakerfisins og allar aðgerðir eftir hrun eru viðleitni til að viðhalda bankakerfinu.

 

Er þá eitthvað óeðlilegt að maður spyrji sig: Ef bankakerfið er svo mikilvægt fyrir samfélagið – er þá ekki óráðlegt að einkaaðilar reki og eigi bankakerfið?

Ef að allt þjóðfélagið stöðvast og getur ekki starfað án bankakerfis, er þá ekki eðlilegra að ríkið, þ.e. samfélagið sem heild, sjái um rekstur banka og tryggi að rekstur þeirra sé til staðar?

Ef að mikilvægi bankakerfisins er svo mikið fyrir samfélagið er þá ekki réttast að reka kerfið með öryggishagsmuni heildarinnar fremur en gróðahagsmuni?

Ef að bankakerfið er svo mikilvægt og það er svo hættulegt að það skuldsetji sig svo að það, hafi ekki einungis áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs og þar með afkomu þjóðarinnar, heldur geti bankarnir hreinlega dregið þjóðina sem heild með sér í gjaldþrot – er þá ekki algerlega óeðlilegt að þessir sömu bankar séu reknir af einstaklingum með einstaklingsgróðasjónarmið að leiðarljósi?

Er það bara ég; eða finnst einhverjum öðrum grátbroslegt að heyra, hina svokölluðu ráðamenn, jarma um það að ríkið þurfi sem fyrst að einkavæða bankana á ný?

Ef að bankakerfið er þjóðinni lífsnauðsyn þá þykir mér hægt að leggja bankakerfið og t.d. dómskerfið að jöfnu. Ef að það á að einkavæða svo mikilvægan þátt í samfélagsgerðinni sem bankakerfi virðist vera, þá er allt eins hægt að einkavæða dómskerfið, nú eða löggæsluna.

Já þessi þjóð er glötuð ef að hún getur ekki einu sinni lært af kerfishruni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband