Eiga embættismenn ekki að vera ábyrgir gjörða sinna?
6.9.2009 | 05:29
Það þarf að skipta um áherslur í miðborginni.
Það þarf að skilgreina upp á nýtt þetta svo kallaða miðborgarsvæði. Embættismenn segja mér að sérstakar reglur gildi um miðborgarsvæði. Þar megi, til að mynda, reka vínveitingastaði. Þegar ég bendi á að miðborgin er fyrst og fremst íbúðarsvæði er fátt um svör. Mest öll verslun er farin úr miðborginni sem og flestar skrifstofur og önnur fyrirtæki. Það sem eftir er í miðborginni eru veitingastaðir og hótel. En miðborgin er fyrst og fremst, og hefur alltaf verið, íbúabyggð. Ekkert tillit var tekið til þeirra íbúa sem á svæðinu búa þegar ákveðið var að gera svæðið að sérstöku vínveitingasvæði. Gífurleg, nánast óheft, fjölgun hefur verið á vínveitingastöðum í miðborginni undanfarinn áratug, en löggæsla hefur engan veginn verið efld til mótvægis. Niðurstaðan er sú að lögreglusamþykktir Reykjavíkurborgar eru margbrotnar um hverja einustu helgi í miðborginni. Íbúar þurfa að þola hávaða, mannaþvag, slagsmál, glerbrot, ælur og eignaspjöll látlaust. Viðbrögð lögreglu eru nánast alltaf þau sömu, þegar íbúar kalla hana til vegna ástandsins; lögregla kemur seint á staðinn, ef hún þá kemur, og ber við manneklu og annríki.
Það þarf, og það á, að taka tillit til íbúa svæðisins, það er sanngirnisatriði. Ekki er eðlilegt að taka eitt hverfi út og setja alla þá hávaðamengandi og skemmandi atvinnustarfsemi, sem rekstur vínveitingahúsa er, í það, einungis af því að einhverjir einstaklingar í borgarkerfinu hafi ákveðið að það hverfi heiti miðborgarhverfi og um það gildi sérstakar reglur. Hvers vegna má bjóða íbúum þessa hverfis hávaðamengun og yfirgang sem öðrum íbúum er hlíft við? Þetta er gróf mismunun. Við skulum átta okkur á því að það er ekki lengur verið að tala um eðlilegt ástand. Þetta kaos, er orðið þekkt út um allan heim og menn furða sig á hvers vegna í ósköpunum þetta viðgangist. Geðveikin í miðbænum er, fyrir mörgum útlendingum, staðbundin lýsing á þeirri geðveiki sem átti sér stað í tengslum við hina svokölluðu útrás og bankasukkið. Þetta gengur ekki lengur og það þarf að breyta þessu ástandi.
Ég legg því til að rekstur vínveitingastaða megi ekki vara lengur en til miðnættis, nema í iðnaðarhverfum og því hverfi sem afmarkast af: Lækjargötu Vonarstræti Aðalstræti og gömlu höfninni (ég kalla það Kvosarsvæðið sjá kort).
Ástæðan fyrir því að ég legg til að á Kvosarsvæðinu megi reka vínveitingastaði lengur en til miðnættis, er sú að á þessu svæði er nánast engin íbúabyggð. Það svæði sem í dag býður upp á rekstur vínveitingastaða í miðborginni er að stórum hluta til fyrst og fremst íbúðabyggð.
Það eru líka önnur rök fyrir því að einskorða þá vínveitingastaði sem hafa opið fram eftir nóttu við Kvosarsvæðið, en það er að betra verður með alla löggæslu. Þar sem drukknir einstaklingar óneytanlega fylgja starfsemi vínveitingahúsa, sem opin eru langt fram eftir nóttu, og einstaklingar í þannig ástandi eru dómgreindarskertir, truflandi og jafnvel ógnandi, þá verður að auðvelda lögregluyfirvöldum að hafa eftirlit með slíkum og tryggja að slíkir aðilar haldi sig innan ramma laga og reglna sem hér á landi gilda.
Jafnframt væri unnið að því að beina starfsemi vínveitingahúsa, sérstaklega starfsemi næturklúbba, í iðnaðarhverfi borgarinnar, þar sem truflun af starfsemi þeirra væri í lágmarki.
Á þennan hátt væri hægt að sætta sjónarmið og hagsmuni beggja aðila, þ.e.a.s. íbúa miðborgarinnar og þeirra sem reka aðra starfsemi en vínveitingar annars vegar, og þeirra sem hafa hagsmuni af rekstri vínveitingahúsa hins vegar. Starfsemi vínveitingahúsanna, þyrfti ekki að hverfa algerlega úr miðbænum en íbúar myndu losna við þá truflun, sem óneytanlega fylgir rekstri vínveitingastaða langt fram eftir nóttu, úr sínu nánasta umhverfi. Við hefðum staði, eins og matsölustaði rétt eins og áður dreifða um miðbæinn. Við myndum halda í kaffihúsin og notalegu barina sem loka á skikkanlegum tíma. Þeir staðir sem vilja bjóða þjónustu alla nóttina myndu þurfa að færa sig í Kvosarreitinn eða í iðnaðarhverfin.Þannig gætu veitngamenn haldið áfram að reyna að græða, fólk áfram skemmts sér fram eftir nóttu í miðbænum og íbúar fengið eðlilegan frið á nóttunni.
Sá sem ferðast hefur til stórborga Evrópu og BNA mun vitna að álíka stefna, og hér er lögð til, tíðkast alls staðar. Hvergi, í siðuðum borgum, er miðborginni boðið upp á þvílíka nauðgun og miðborg Reykjavíkur er boðið upp á um hverja einustu helgi. Víðast, t.d. í London, Kaupmannahöfn og París, loka megnið af vínveitingastöðum á miðnætti. Vilji menn áfram fá vínveitingar þurfa menn að færa sig út fyrir miðborgina því í miðborgunum býr fólk! Miðborgir eru víðast hvar eftirsóknaverðar til búsetu, nema ef vera skyldi hér í Reykjavík og þá vegna þess geðveikisástands sem myndast um helgar.
Mig langar að vitna hérna beint í Markmið Þróunaráætlunar miðborgarinnar sem kjörnir fulltrúar hafa samþykkt fyrir hönd borgarbúa. Mig langar að sýna ykkur að kjörnir fulltrúar borgarbúa hafa ályktað gegn því ástandi sem skapast hefur í miðborginni. Ég mun svo í seinni pistlum sýna ykkur fram á að embættismenn skipulagsmála hjá Reykjavíkurborg fari hreint og beint gegn samþykktum og leiðbeiningum kjörinna fulltrúa Reykjavíkur.
Markmið Þróunaráætlunar miðborgar lúta að þremur þáttum:
Efnahagslegum vexti og uppbyggingu
- íbúðar-, atvinnu- og verslunarhúsnæðis,
- reksturs, fjárfestinga og atvinnusköpunar.
Lífsgæðum
- tryggja aðstæður fyrir smásöluverslun og þjónustu,
- bæta aðstöðu til tómstunda og útivistar,
- bæta aðgengi,
- stuðla að aðlaðandi íbúðasvæðum,
- tryggja örugga og aðlaðandi miðborg.
Bættu umhverfi sem felur í sér
- verndun og endurbætur á sögulegum byggingum og minjum,
- styrkingu almenningssvæða,
- að draga fram jákvæða sérstöðu miðborgarinnar.
Lítum aðeins á þessi markmið þróunaráætlunar miðborgarinnar. Það er ég sem hef feitletrað í textanum, til að draga fram það sem orkar verulega tvímælis að mínu mati, þegar kemur að framkvæmd þessara markmiða.
Byrjum á vexti og uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í miðborginni. Eins og mál hafa þróast með tilliti til offjölgunar vínveitingastaða þá virkar það fælandi á íbúaþróun miðborgarinnar. Sem dæmi þá get ég nefnt að þegar við íbúar á svæðinu kvörtum til lögreglu t.d. vegna eignarspjalla á grindverkum, þá er viðkvæðið oft: Af hverju býrðu þá í miðbænum? Þetta viðkvæði lýsir almennri afstöðu manna til búsetu í miðbænum. Þeir sem þar kjósa að búa, megi búast við því að frekar sé gengið á eigur þeirra og friðhelgi en íbúum annarra hverfa. Ég fullyrði að þetta var ekki viðkvæðið fyrir tuttugu árum eða svo; áður en fór að bera á offjölgun vínveitingastaða í miðborginni. Augljóslega fer það því ekki saman, fjölgun vínveitingastaða og uppbygging íbúðahúsnæðis. Framkvæmdin er í mótsögn við markmiðin sem sett eru af kjörnum fulltrúum borgarinnar.
Það er minnst á lífsgæði. Það er augljóslega túlkunum háð hvað falli undir lífsgæði, en ég fullyrði að öskrandi fyllibyttur, mígandi í dyragættir og ælandi í garða miðbæjarins eykur ekki lífsgæði þeirra sem í miðbænum búa þvert á móti.
Að bæta aðstöðu til útivistar og tómstunda. Það er ekki verið að bæta aðstöðu til útivistar barnanna okkar sem hér búum með þeirri stefnu í vínveitingamálum sem keyrð hefur verið. Hver sem fer niður í bæ snemma morguns um helgar getur sannfærst um það; rusl og glerbrot út um allt, ælur og hlandpollar hvívetna og slagandi eftirlegukindur leynast víða.
Það er sama hvar komið er niður í þessum markmiðum... stuðla að aðlaðandi íbúðarsvæðum?!? Bíðið við, hefur einhver embættismaðurinn, sem hefur með það að gera að framfylgja þessum markmiðum, hætt sér niður í miðbæinn nýlega? Er einhver til þarna úti sem er svo gerilsneyddur öllu raunsæi að hann getur haldið því fram að það fari samfara, vírusvöxtur vínveitingastaða í miðborginni, og aðlaðandi íbúðarsvæði????
Þetta finnst mér nú samt allra best: Að draga fram jákvæða sérstöðu miðborgarinnar. Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Það eru flestir sammála um að það eina sem embættismönnum skipulagsmála hjá Reykjavíkurborg hefur tekist er að draga fram neikvæða sérstöðu borgarinnar.
Það er augljóst hverjum manni, með heilbrigða skynsemi, að eitthvað þarf að gera. Það sem er sorglegast í því sambandi er að flestir eru algerlega sammála um að ástandið í miðborginni um helgar er gersamlega farið úr böndunum. Allt of margir vínveitingastaðir eru samþjappaðir í miðborginni en ekkert er gert í málinu. Alger óstjórn er varðandi fjölgun vínveitingahúsa í miðbænum. Það er sama hvar borið er niður, við hverja er talað: íbúa miðborgarinnar, íbúa annarra hverfa, íbúa annarra bæjarfélaga, lögreglu, starfsmenn borgarinnar, eigendur og starfsmenn annarrar atvinnustarfsemi en vínveitingahúsa, allir eru sammála um að þetta sé komið út í algerar öfgar en ekkert er gert? Það virðist einungis vera tekið tillit til þeirra sem vilja græða á því að selja ofurdrukknum viðskiptavinum áfegni alla liðlanga nóttina; starfsemi sem er í hæsta máta hæpin og, svo vitnað sé í fræga Hollywood mynd, síðasta löglega dópsalan í heimi. Það er því sorglegra, en orð fá almennilega lýst, að meirihluti borgarbúa er búinn að fá sig fullsaddan á þessu ógnarástandi. Vill ekki þessa stöðugu fjölgun vínveitingahúsa en samt heldur ástandið áfram að versna.
Nei, segi ég, og ég er ekki einn um það. Nú eru kosningar framundan og við verðum að taka höndum saman og fæla burtu þau fúlmenni sem hér hafa verið við völd í borgarskipulaginu. Við lítum yfir borgarmyndina og sjáum sviðna jörð: Skuggahverfi, Borgartún, Laugaveg, Gömlu höfnina, Slippsvæðið og svo mætti áfram telja. Nú á að rífa NASA og eyðileggja Ingólfstorg, til að koma til móts við verktaka en fara á móti borgarbúum.
Það verður að moka út skítnum í borgarskipulaginu. Þeir aðilar sem þar hafa komið sér fyrir mega ekki fela sig þar lengur á bak við skrifborð og eigin túlkanir. Á embættismannaafglöpum verður líka að bera ábyrgð. Nóg er um að embættismannaafglöp fjármálaeftirlits og annarra opinberra stofnanna hafi kostað íslenskt samfélag milljarða. Við sitjum nú uppi með misheppnað borgarskipulag og stríðsástand í miðborginni og hverfandi verslun þar. Allt virðist gert í mótstöðu við gildandi, yfirlýst markmið kjörinna fulltrúa. Ekkert hefur heppnast hjá þessu vesældarfólki sem sett hefur sig í hásæti og ákveðið fyrir okkur hin hvernig borgin á að vera og líta út. Það þarf að lofta til, því nályktin er kæfandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.