Göngugötu í Reykjavík - gerum það að kosningamáli
5.9.2009 | 18:16
Ég get svarið það, þvílík hræsni!
Nú líður að kosningum til sveitar- og borgarstjórnar og ÞÁ er ákveðið að loka Laugaveginum fyrir bílaumferð, eins og gert var í dag. Já ekkert hefur borið á þessu, sem þó var alltaf sett fram sem möguleiki að gera Laugaveginn að göngugötu á laugardögum; þegar einn vetur er til kosninga, ÞÁ fyrst er það gert. Það síður í mér vegna þessa gengdarlausa hroka; djöfulsins borgarstjórnarhræður!
Ég er búinn að vera með gangandi spurningu hér á blogginu í rúmlega hálft ár, um það hvort gera eigi Laugaveginn að göngugötu. Alveg frá upphafi hefur hlutfallið verið nokkurn veginn það sama 62% vilja gera Laugaveginn að göngugötu á meðan 38% vilja það ekki, 467 hafa svarað. Það er nákvæmlega sama tilfinningin sem ég hef þegar ég tala við fólk úti á götu, mikill meirihluti vill gera Laugaveginn að göngugötu.
Niðurstaða skoðanakönnunarinnar við spurningunni: "Á að gera Laugaveginn að göngugötu", er:
já 61% eða 288 atkvæði
nei 38% eða 179 atkvæði
Fólk skilur ekki að Reykjavík, ein höfuðborga í Evrópu, skuli ekki eiga bíllaust svæði þar sem fólk geti verslað, spókað sig, hist, drukkið kaffi og notið sín, eins og fyrirfinnst í öllum öðrum löndum Evrópu.
Það var yndislegt að sjá hvað fólk naut sín án þess að þurfa að troðast á mjóum gangstéttum innan um háværar, mengandi bíldruslur.
Eins og sést myndunum sem ég tók þá er virkilega þörf á því að fólk fái pláss til þess að athafna sig við Laugaveginn. Þið sem viljið veg verslunarinnar sem mestan við Laugaveginn skuluð einnig átta ykkur á því að fólk hópast í miðbæinn og gengur þar um þegar tækifæri er til þess. Það er fáránleg mýta og bull að halda því fram að fólk fari ekki í miðbæinn nema það geti lagt bíl sínum fyrir framan þá verslun sem það ætlar í.Við sjáum einnig á síðustu myndinni hvernig þar fólk er að troðast innan um bíldruslurnar og þar sést einnig vel, finnst mér allavega, hversu bílar og gangandi vegfarendur eigi akkúrat enga samleið.
Meirihluti borgarbúa vill gera Laugaveginn að göngugötu en það er bara ekki hlustað eftir því sem meirihlutinn vill og því skulum við breyta borgarbúar. Þetta borgarstjórnarlið sem hefur hagað sér eins og fábjánar á þessu kjörtímabili er komið í kosningabuxurnar. Það var hlægilegt að heyra Kjartan Magnússon borgarfulltrúa þvaðra um það að ekki ætti að fara að tala um lýðræðislegar ákvarðanir á kosningaári!!! það myndi dreifa umræðunni frá því sem skipti máli.
Munið, kæru Reykvíkingar, hvernig borgarstjórnarfulltrúarnir fóru með það vald sem þeim var veitt og hvernig framapot og hrossakaupmennska, einungis til að halda persónulegnum völdum, hefur verið dagskipunin á þessu kjörtímabili. Gleymum ekki því. Hvað hafa fulltrúarnir og embættismennirnir gert fyrir okkur? Horfið á Laugaveginn, horfið á miðbæinn. Er búið að byggja þar sem brann á horni Austurstrætis og Lækjargötu? Eftir að hafa eytt hálfum milljarði í að kaupa húsin á Laugavegi 2 til 4 hefur ekkert gerst, þar er enn slegið fyrir glugga og engin hreyfing. Það er búið að loka Sirkus en þar gerist ekkert enn, autt húsnæði - hvað lá á að loka Sirkus?
Miðbærinn er í molum eftir vanhæfa borgarstjórn og ónýta embættismenn - það þarf að taka verulega til í borginni okkar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.9.2009 kl. 05:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.