Sumum lögum þarf að fylgja, önnur má brjóta - eða hvað?
2.9.2009 | 20:42
Við lifum á viðsjárverðum tímum. Menn kvarta opinberlega yfir því að ekki sé farið að lögum í íslensku samfélagi í dag og að Siðrof hafi orðið. Það er nefnt að verið sé að rjúfa bankaleynd og eyðileggja eigur svokallaðra útrásarvíkinga. Samfélagið er að leysast upp og þetta er alvarlegra en fólk almennt er að gera sér grein fyrir.
Ég vil að menn átti sig á alvarleika þessa. Lög, reglur og samþykktir halda samfélögum saman. Við setjum lög einungis vegna þess að það er nauðsynlegt. Ef að lög eru brotin, ef að lögregla framfylgir ekki lögum, þá leysist samfélagið upp.
Það eru ákveðin atriði sem kalla fram Siðrof. Aðalatriðið er óréttlæti. Við erum flest að upplifa mikið óréttlæti tengt bankahruninu og Icesave þvingunarpakkanum. Þetta óréttlæti er, hins vegar, einungis veltipunkturinn; óréttlæti hefur verið í gangi hér mun lengur og er það undiralda þess óréttlætis og misskiptingar sem við höfum vitnað undanfarinn áratug eða svo.
Það er nefnilega engin tilviljun, ekkert undarlegt, að þessi ofurlaun skutu upp kollinum hér á landi. Óréttlæti og misskipting eru systkin. Ákveðin öfl skiptu á milli sín ríkisbönkunum og öðrum opinberum fyrirtækjum sem gáfu arð; nú er svo komið að orkufyrirtækjunum. En þetta ristir enn dýpra en það. Þetta hefur að gera með virðingu fyrir lögunum, virðingu fyrir náunganum, virðingu fyrir siðum.
Á Íslandi ber fólk ekki mikla virðingu fyrir lögum. Það er t.d. í lögum að menn eigi að greiða skatt til samfélagsins en litið er upp til þeirra sem komast hjá því að greiða skatt. Þannig var þetta ekki. Ég man þá tíð að skattakóngar voru stoltir yfir þeim titli. Það er ekki tilfellið lengur heldur eru þeir miklir menn í dag sem komast hjá því að greiða skatt, en takið eftir; löglega. Í dag eru það hetjur sem geta snúið á kerfið og komist hjá því að greiða skatt. En það sem gerist við þetta er óréttlætistilfinning, því hinn almenni launamaður getur ekki komist hjá því að greiða skatt. Þó svo að búið sé að pakka kjaftæðinu inn í lagapappír þá skilur almenningur kjarna málsins sem er lögin mismuna. Ef að lög mismuna, ef að allir eru ekki jafnir gagnvart lögunum, þá bera menn ekki virðingu fyrir lögunum. Alli reyna því að komast hjá því að greiða skatt og það er talað um skattsvik sem þjóðaríþrótt og þeir sem tekst að snúa á kerfið eru sigurvegararnir.
Þessi þjóðaríþrótt hefur, hins vegar alvarlegar afleiðingar; það er verið að grafa undan virðingu fyrir lögunum almennt. Það gerir það á þann hátt að menn taka sér sjálfsvald í því hvaða lögum þeir kjósa að framfylgja og þar með eru öll lög og tilgangur þeirra fokinn út í veður og vind. Ef að það er í lagi að brjóta einhver lög, þá er í lagi að brjóta öll lög.
Það er m.ö.o. alveg eins hægt að sleppa allri lagasetningu og lagaþvingunum eins og að leifa fólki að velja hvaða lögum það vill hlýða. Annað hvort eru lög lög og þeim ber að framfylgja eða ekki. Þess vegna er það mikilvægt að löggjafinn setji sem fæst lög en fylgi þeim eftir. Lög eiga að vera eitthvað sem mönnum ber að fylgja og þau eiga að byggja á réttlæti og jafnræði. Það hafa lög á Íslandi ekki gert í seinni tíð, því miður og því hefur myndast hér Siðrof. Löggjafinn og lögregla mega ekki gera upp á milli laga, það má ekki vera forgangsröðun á því hvaða lögum ber að framfylgja og hvaða lög má brjóta.
Það að efnamenn hér á landi hafi um árabil getað komist upp með að gefa upp lágmarkslaun en samt borist mikið á er dæmi um óréttlæti í löggjöfinni, sem grefur undan virðingu fyrir lögum almennt. Annað dæmi er þegar menn komast upp með að leggja bílum sínum upp á gangstéttir. Það er klárlega bannað með lögum, en yfirvöld gera ekkert og eru þar með að gefa þau skilaboð að ekki þurfi að fara eftir lögunum, borgurunum sé það í sjálfsvald sett hvort þeir fylgi þessum lögum eður ei.
Annars konar mismunun felur svo í sér mismunandi reglur eftir því hvar á landinu menn búa. Gott dæmi er að brugðist er við reglugerð um hávaða mismunandi eftir hverfum borgarinnar. Ég kvartaði t.d. um hávaða frá súludansstað í miðborg Reykjavíkur fyrir nokkrum nóttum síðan. Þetta var í miðri viku og ég hélt að það væri bannað að hafa skemmtistaði opna eftir klukkan eitt á nóttunni í miðri viku. Þegar ég fékk samband við lögreglu á vakt var ég spurður hvers vegna ég byggi í miðbænum og staðurinn lokaði klukkan ellefu um morguninn!!! Annað hvort má hafa staði opna allan sólarhringinn eða þeir þurfa ALLIR að fara eftir þeim reglum og samþykktum sem settar eru. Stöðunum á ekki að vera það í sjálfsvald sett hversu lengi þeir eru opnir og það á ekki að vera eftir hentisemi einstakra lögreglumann hvort eitthvað sé gert í þeim kvörtunarmálum sem inn á borð berast og það á EKKI að vera mismunandi hvort brugðist er við lagabrotum í miðbæ Reykjavíkur eða t.d. á Álftanesinu. Ef að þessi kemst upp með það að brjóta lögin þarna af hverju má ég þá ekki brjóta þau hérna? Þessu er að selja áfengi þegar staðir eiga að vera lokaðir, má ég þá ekki selja áfengi heima hjá mér? Eða selja fíkniefni? Eða gera út á vændiskonur? Eða reka spilavíti?
Ef að ekki er verið að framfylgja þeim lögum sem í þessu landi gilda, ekki einu sinni þegar verið er að benda þar til gerðum yfirvöldum á lögbrot er þá ekki alveg eins gott að sleppa bara þessum lögum og leyfa fólki að fara bara sínu fram?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Algerlega sammála höfundi.
Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 22:04
Siðlaus lög hafa alltaf verið til og það er ekki baráttulaust að fá þau afnumin. Ef fólk hefði alltaf fylgt lagasetningum hefðu konur t.d. ekki haft kosningarétt á Íslandi og víðar, eignir væru einkaréttur ákveðins þjóðfélagshóps og ákveðnir þjóðfélagshópar mundu njóta ákveðinna hlunninda en aðrir ekki eins og séraðgangs að fjármagni og undanþágu frá greiðslu skulda.
Rúnar Þór Þórarinsson, 4.9.2009 kl. 14:19
Já þetta er vissulega rétt sem þú heldur fram Rúnar. Það breytir þó ekki því (í raun styrkir þau rök) að löggjafinn á að setja sem fæst lög og fylgja því svo eftir að þau séu haldin. Ef að menn fá að ákveða sjálfir hvaða lög þeir kjósa að fylgja er alveg eins hægt að sleppa því að setja lög.Sömuleiðis er fáránlegt að setja lög sem ómögulegt er að fylgja eftir að séu haldin.
Þegar lög eru svo óréttlát eða siðlaus eins og þú orðar það Rúnar, samkvæmt áliti meirihluta þjóðar, þá er þeim lögum einfaldlega eytt eða breytt eins og t.d. var tilfellið varðandi kosningarétt kvenna.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 5.9.2009 kl. 01:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.