Ferðir, forgangur, bíldruslur og heimskulegar hindranir.

bila2.jpgÉg verð að minnast á eitt í tilefni kvöldfrétta RÚV í kvöld. Þar var verið að ræða forgangsröðun hjá ríki og borg í sambandi við þetta blessaða tónlistarhús. Á meðan borgin setur fleiri hundruð milljóna í bygginguna er verið að skera niður í menntastofnunum. Eðlilega setja menn spurningarmerki við slíka forgangsröðun og ekki á þetta lið sem situr í borgarstjórn sér farsæla sögu þegar kemur að trausti og trúverðugleik. En ég ætla ekki að fara út í þetta hér, heldur langar mig að minnast á aðra forgangsröðun og það í samgöngumálum. Nú, þegar vel viðrar, þá erum við mörg sem grípum til hjólhestsins eða bara kjósum að ganga allra okkar ferða. Það er svona almenn hvatning í heiminum um þessar mundir, til að menn hugi að umhverfisvænni ferðamátum en bílferðum sem spúa mengun og ryki út í umhverfið. Meira að segja einstaka fulltrúar Reykjavíkurborgar hafa viðrað það opinberlega að, hugsanlega, myndi það létta eitthvað á gatnakerfinu ef að menn litu til annarra leiða en einkabílismans. Gott og vel, margir kjósa hvort eð er reiðskjótann eða gönguna hreinlega heilsunnar vegna, og kemur þá að kjarna máls.

Það er litið til þess, hér í borginni, að notast við gangstéttir sem hjólastíga, vegna þess einfaldlega að ekki er gert ráð fyrir hjólreiðum í umferðinni í Reykjavík. Þetta er í rauninni enn einn molbúahátturinn í skipulagsmálum borgarinnar og með hreinum ólíkindum en látum það nú vera.

Það sem fer fyrir brjóstið á mér er að á gangstéttir borgarinnar, sem eru umferðaræðar gangandi og hjólandi, hjólastóla og barnavagna, líta sumir vesalingar á sem bílastæði. Þú hjólar ekki svo um eitt einast hverfi borgarinnar að þú sjáir ekki fleiri bíla lagða á miðri gangstétt, þannig að sú umferð sem ætluð er gangstéttinni neyðist til að fara út á götuna sem ætluð er bílaumferðinni (með tilheyrandi hættum og óþægindum) og þá er ekki minnst á þann fjölda bíla sem að stórum hluta er lagður upp á gangstéttarnar en maður kemst þó framhjá án þess að neyðast til að fara út á götuna til að komast fram hjá.

Það sem ég skil ekki, og þar kemur að forgangsatriðum yfirvalda, er þegar maður sér lögreglu aka framhjá svona klárlega ólöglega lögðum bílum upp á miðri gangstétt og gera ekkert í því; eins og þetta sé barasta allt í stakasta lagi. Sko, í fyrsta lagi eru gangstéttir ekki bílastæði heldur umferðaræð allrar annarrar umferðar en bílaumferðar, og ef að þessi umferð er heft, á þá ekki að fjarlæga það haft rétt eins og einhver hefði lagt bíl sínum á miðja götuna og heft þannig bílaumferðina?

Í öðru lagi þá eru lög, lög, og eftir þeim ber að fara og lögreglu ber að sjá til þess, hún á ekki bara að aka hjá og láta eins og ekkert sé. Virðing fyrir lögum er virðing fyrir ÖLLUM lögum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að menn fari að þeim lögum sem þeim hentar, en beri svo fulla virðingu fyrir einhverjum öðrum lögum. Ef að ekki er tekið hart á svona lögbroti, er þá ekki allt í lagi að aka undir áhrifum, gefa vel í o.s.frv.?

Í þriðja, og síðasta lagi, er nú það að ef að vilji er til þess að ýta undir það að almenningur notist við reiðhjól og tvo jafnfljóta til að komast milli staða innan borgarinnar, er þá ekki lágmarkskrafa að borgaryfirvöld sjái til þess að bíldruslueigendur séu ekki að hefta þær, þó takmörkuðu leiðir, sem í boði eru fyrir slíka umferð?

Hvernig væri það, kæru borgaryfirvöld, að setja það í forgang að koma bíldruslum af gangstéttunum, eða eru gangstígar og gangstéttir nokkuð bílastæði?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða Eyland

Vel mælt.

Þarna bendir þú á leið sem allavega í byrjun gæfi vel í kassann, allvega þangað til að bílafólkið áttar sig á að þetta er bannað og fær sektir.

Kveðja

Fríða Eyland, 25.6.2009 kl. 08:07

2 Smámynd: corvus corax

Tek undir þetta allt saman af öllu hjarta. Vil ég benda á eitt atriði í sambandi við lagningu bíla en það er að nú virðist í lagi, alla vega látið óátalið, að fólk leggi bílum öfugt miðað við akstursstefnu þrátt fyrir að umferðalög kveði á um að leggja skuli hægra megin miðað við akstursstefnu. Þetta getur valdið stórhættu fyrir þá sem reyna að fara eftir reglunum. Ég lenti í því á Skólavörðustígnum um daginn að þegar ég var að beygja inn í stæði hægra megin kom bíll aðvífandi á mót og tróð sér inn í stæðið framan við mig og munaði minnstu að ég keyrði á hann. Ég benti bílstjóranum á að hann mætti ekki leggja svona en hann sagði að mér kæmi það ekki við! Skrítið!

corvus corax, 25.6.2009 kl. 08:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband