Völd og ábyrgð.

landsbankinn_heia_jpg_550x400_q95.jpgNú mun síðasti útferðarvesalingurinn vera farinn út landi. Það mun vera snillingurinn sem keypti einbýlishúsið í Skerjafirðinum og reif. Þar ku nú vera uppfylltur grunnur. Flestir vesalingarnir eru víst búsettir í Englandi (því landi sem helst stendur fyrir því að Ísland sé að fara á hausinn) og lifa þeir þar, í vellystingum, af því fé er þeir sönkuðu að sér í hinu svokallaða góðæri. Við, aftur á móti, lítum fram á versnandi lífskjör og afkomu ef ekki hreint og beint skort.

Það er mikið talað nú um Icesave og þær skuldbindingar sem af þeim ósóma kunna að lenda á íslenska ríkinu. Icesave er, hins vegar, ekki nema brot af því sem útferðarvesalingarnir hafa rústað. Lífeyrissjóðirnir sitja uppi með milljarða tap. Almennir sparifjáreigendur sömuleiðis og þá ber að nefna erlenda banka og fjárfesta. Það er því ekki nema von að menn spyrji: Hvað varð um alla peningana?

Fyrir okkur hérna niðri á gólfi er dæmið voða einfalt. Peningar hverfa einfaldlega ekki, þeir skipta bara um hendur. Tökum Icesave sem dæmi. Landsbanki Íslands hf. ákveður að stofna netbankaútibú í Englandi og Hollandi og bjóða ofurkjör á innlánum til að plata fólk til að leggja inn sitt sparifé. Fjöldinn allur bítur á agnið og samtals eru lagðar inn einhverjar milljón Evrur. Í siðuðum löndum á bankinn að tryggja þetta sparifé. Bankanum ber skylda til að halda eftir í sínum kjöllurum ákveðinni prósentu af innlánum. Síðan ber bankanum að greiða í tryggingasjóð ákveðinn hluta sem á að tryggja innlánseigendum ákveðna lágmarksupphæð ef illa fer. Að lokum kemur svo ríki þess lands er bankinn hefur lögfesti í til skjalanna. Um þetta síðastnefnda eru þó deilur og setti Geir Haarde sérstök neyðarlög til að tryggja það að ríkið myndi greiða allt, sem hin fyrstnefndu úrræðin, næðu ekki yfir. Það er þetta síðastnefnda úrræði sem líklega mun draga íslenska ríkið á hausinn. En segjum svo að íslenska ríkið muni fara á höfuðið og lenda í gjaldþroti, hverjum mun það vera að kenna – bankanum eða stjórnvöldum?

Það er eðlilegt hverju fyrirtæki að starfa innan þeirra laga og ramma sem starfsemi þess er sett. Landsbanki Íslands, ásamt hinum einkabönkunum tveimur störfuðu, að þessu leiti, algerlega, að því er virðist, innan ramma settra laga og reglna. Við getum bölsóttast út í hversu illa þessum einkafyrirtækjum var stjórnað en á meðan allt er innan laganna þá nær það ekki lengra. Það gleymist oftast í þessari umræðu að líta til þess er sökina ber en það eru íslensk stjórnvöld og þeir einstaklingar sem stóðu við stjórnvölinn á þessum tíma. Í ljós er að koma að íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á því að innlánseigendur fái sparifé sitt greitt, en stjórnvöld gerðu ekkert til að tryggja það að til væru peningar til að standa við þá ábyrgð. Ekkert var gert, alls ekkert, til að tryggja ríkið gegn hugsanlegum áföllum. Bent hefur veið á að hægt hefði verið að aðskilja bankana í fjárfestinga- og viðskiptabanka. Talað var um að láta Landsbanka Íslands hf. setja á stofn dótturfélag með lögfesti í Englandi og Hollandi þar sem Icesave ævintýrið myndi heyra undir en það var ekki gert. Bindisskyldan svokallaða var lækkuð þegar þveröfugt hefði verið hið skynsamlega. Rök hafa verið fyrir því færð að óskynsamlegt hefði verið að ríkisvæða bankana, sérstaklega alla þrjá. Eðlilegra hefði sennilega verið að láta þá gossa og láta kröfuhafana um að taka þá yfir. Allt þetta er á ábyrgð ríkisvaldsins og þeirra einstaklinga sem fóru með það vald – ekki bankanna sjálfra og þeirra einstaklinga sem þar fóru með völd.

En þetta svarar ekki spurningunni: Hvað varð um peninganna? Þeim var að einhverjum hluta stungið undan, það er vitað en enn ekki sannað. Aftur er því spurt: Hver ber ábyrgðina á því að endurheimta féð? Svarið er - Ríkisvaldið og þeir einstaklingar sem þar eru með völd. Ég minni á að stór hluti þeirra einstaklinga sem voru við völd þegar bankarnir þöndust út og fóru í fjárfestingarfyllerí og Icesave óráðsíuna eru enn á þingi og einn stjórnarflokkanna sem var í ríkisstjórn þegar allt hrundi að lokum er enn í ríkisstjórn. Er það gæfulegt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Það virðist því miður vera fáránlega lítið gert í því að leita að ránsfengnum.

Offari, 23.6.2009 kl. 11:53

2 Smámynd: Elle_

Nei, það getur ekki verið gæfulegt að einn þeirra fyrri flokka sé enn við völd.  Hvað kom þeim þangað aftur skil ég ekki.  Og hví auðrónarnir eru enn í höllunum með horfnu milljarðana á meðan eldri borgarar landins eru dregnir um á asnaeyrunum í skatta-svaði er óskiljanlegt. 

Elle_, 23.6.2009 kl. 12:47

3 Smámynd: Fríða Eyland

það virðist vera sátt um að láta þá sleppa, allavega hjá stjórnvöldum.

Fríða Eyland, 24.6.2009 kl. 19:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband