Evrópusambandið

title_page_-_flags_of_eu_25.jpg

 

Ég er jarðarbúi. Ég get ímyndað mér heim án landamæra.Við, sem byggjum þessa jörð, erum jöfn og jafn mikilvæg. Þannig hefur hugmyndin um landamæralausa Evrópu höfðað til mín frá því ég kynntist henni fyrst. Hugmyndin um að geta farið hvert sem er innan Evrópu, sett sig þar niður og átt sama rétt og hver annar er mikilvæg og góð, algerlega eðlileg. En ég er líka Anarkisti.

 

Þegar ég fluttist til eins Evrópusambandslandsins og hóf þar nám var ég hlynntur Evrópusambandinu. Samþykkt EFTA samningsins var nýlega orðin og ég sá að ég hafði talsverð borgararéttindi en þó ekki alveg eins mikil og skólasystkin mín frá Evrópusambandinu. Af hverju gátum við ekki bara drullast til að fara alla leið?

 

Þegar á dvöl mína leið og náminu framgekk fóru að renna á mig tvær grímur. Námið var í alþjóðaviðskiptum og mikil áhersla lögð á Evrópusambandið. Ég fékk því að kynnast vel ESB, bæði í námi og daglegu lífi. Hugmyndin sem sýndist svo góð virtist ekki alveg eins í framkvæmd. Þegar dvöl minni erlendis lauk og ég fluttist til Íslands á ný eftir átta ár var ég á öndverðum meiði við það sem ég var er ég í upphafi. Ég ætla nú að segja ykkur af hverju.

 

Upphaflega var European Coal and Steel Community sett á stofn með Parísarsáttmálanum og undirritaður af Belgú, Hollandi, Lúxemborg, Frakklandi, Ítalíu og Vestur Þýskalandi. Þetta var í lok heimstyrjaldarinnar síðari og ber að hafa í huga að fólkið leið skort og Evrópa var í rúst. Samkomulagið var til að tryggja uppbyggingu og viðskipti. Til að gera langa sögu stutta þá hefur þetta samkomulag þróast og aðildarlöndum fjölgað hægt og örugglega í gegnum tíðina. Nú heitir það Evrópusambandið (European Union), hefur sitt eigið þing og framkvæmdarnefnd. Í dag er ESB yfirþjóðlegt vald og setur lög og reglur sem aðildarlöndum (bæði innan ESB sem og EFTA) ber að fara eftir og samþykkja. En, eins og áður sagði, var sambandið upphaflega sett á stofn til að bregðast við sulti og vosbúð sem voru afleiðingar heimstyrjaldarinnar. Þess vegna hefur alla tíð frá stofnun verið lögð megináhersla á landbúnaðarmál innan ESB; markmiðið var að Evrópa yrði sjálfu sér nóg í matvælaframleiðslu. Megnið af fjármagni ESB fer í landbúnaðarmál. Upphaflega var um að ræða styrki til að auka framleiðslu á skortvörum. Fljótlega fór því svo að bændur innan sambandsins gátu vel brauðfætt íbúana og fór að bera á offramleiðslu. Allar götur síðan hafa embættismenn og þingmenn á vegum ESB verið að reyna að hafa áhrif á landbúnaðarmarkaðinn innan sambandsins með, vægast sagt, hæpnum árangri. Nú er svo komið að bændum er greitt fyrir það að rækta ekki á landi sínu. Fræg er sagan um Evrópuþingmanninn sem náði ekki kjöri, keypti sér jörð og fór að rækta landbúnaðarstyrki frá Evrópusambandinu. Að lokum lifði hann mun betur en nágranninn sem ræktaði bygg á sinni jörð.

Til okkar í skólann kom fyrrverandi þingforseti Evrópusambandsins og sagði okkur að farið hefði um þriggja mánaða vinna í það að karpa um hversu bogin agúrkan mátti vera til að mega fara á markað. Niðurstaðan var, eftir mikil fundahöld og nefndarsetur að gúrkan mátti ekki fara yfir 20 gráðu boga, ef svo var var henni hent. Hann sagði okkur einnig frá því að vegna diplómatakarps um hvar höfuðstöðvar Evrópusambandsins ætti að staðsetja hefði náðst það samkomulag að höfuðstöðvarnar yrðu í Brussel Belgíu, nema einu sinni á ári í þrjá mánuði, þá komu heilu bílalestirnar með hundruðum flutningamanna og flutti alla starfsemina til Strassborgar í Frakklandi. Allt var flutt, skrifborð og stólar, möppur og skjöl, tölvur og prentarar – allt. Forsetinn fyrrverandi nefndi einhverjar svimandi háa tölu þegar hann sagði okkur hvað þetta allt saman kostaði. Þessi fyrrverandi þingforseti ESB er nú ráðherra í ríkisstjórn Danmerkur.

Við fórum einnig í námsferð til Brussel. Það var áhugaverð ferð. Þá fyrst maður fer inn í hjartað á bákninu áttar maður sig á því hversu gíganískt allt saman er. Maður áttar sig á hvílík embættismannaparadís hérna er á ferðinni. Þarna getur Jaques, John, Jörgen, Chavier og allir hinir embættismennirnir aðhafst eitthvað “mikilvægt” og engin er til að hafa þar nokkra yfirsjón. Eftirlitslausir blýantsnagarar að eyða tímanum í að karpa um hversu bognar agúrkur mega vera til að fara á markað á súperlaunum – frábært!

Í þessari námsferð tók á móti okkur einn bureaukratinn og var greinilega guðsfeginn að fá eitthvað að gera. Ég skal segja ykkur það, kæru landar; ef að þið hafið einhvern tíma látið það fara í taugarnar á ykkur að íslenska kerfið sé bákn, ef að þið hafið einhvern tíma fárast yfir sóun á almannafé hjá íslenska ríkinu, ef að þið hafið einhvern tíma reynt að ná “í gegn” þá skuluð þið bara reyna að eiga við ESB. Óhugnanlegra monster hef ég ekki á ævinni augum litið. Það er ekki til sá einstaklingur sem hefur nokkra yfirsýn yfir báknið. Ekkert eftirlitskerfi nær yfir stofnanirnar og spillingin er, í einu orði sagt, geigvænleg.

 

Landbúnaðarstefna ESB er kennd í kennslubókum í hagfræði sem dæmi um hvernig alls ekki á að bera sig að í hagstjórn. Ekki er til sá hagfræðingur með viti sem ekki furðar sig á, hlær eða grætur yfir þeirri óstjórn, þeirri eyðsluhít sem landbúnaðarstefna Evrópusambandsins er. Eitt svakalegasta dæmið er að ríkasta kona heims er stærsti styrkþegi landbúnaðarstyrkja Evrópusambandsins en það er Elísabet Englandsdrottning. Hún fær gríðarlega háa styrki vegna þess að hún á gríðarlega mikið land sem hún notar ekki til landbúnaðarframleiðslu og fær þar að auki skógarstyrk þar sem land hennar er að mestu leiti skógi vaxið.

 

Allt þetta og meira til af rugli og bulli gerði það að verkum að ég prísaði mig sælan fyrir að Ísland var ekki í Evrópusambandinu. EFTA samningurinn tryggði okkur fjórfrelsið margumtalaða og þar með var Ísland með allan ávinninginn af þeirri hugsun sem upphaflega var með stofnun kola- og stálsambandsins sem seinna varð ESB.

 

Nú er verið að reyna að telja fólki trú um að allar okkar raunir munu leysast með inngöngu í Evrópusambandið. Ég fullyrði að það er ekki svo. Ekkert af því sem við erum að fást við mun leysast við það. Okkar vandi er smá mynt. Það má leysa á grundvelli EFTA samningsins ef að menn það vilja, en það er kannski önnur saga, önnur grein.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Takk fyrir þennan pistil. mér var líka á tímabili sama hvort við færum í aðildarviðræður eður ei. En þegar átti að leysa kreppuna með því að fara í aðildarviðræður var ég alfarið á móti þeim.

Offari, 17.6.2009 kl. 22:48

2 Smámynd: Offari

Jón Frímann. ég veit ekkert um það hvort Toro bulli eða segi sína skoðun eftir söguburði eða sé réttur. En Esb er bara sameining eins og sveitarfélög og útgerðarfélög gerðu hérlendis. Niðurstaða þeirra sameiningar var að sameinuðu sveitarfélögin urðu skuldsett með þau litlu sem vildu ekki sameinast héldu velli því þau höfðu fulla sýn yfir því sem var að gerast.

Niðurstaða sameiningar útgerðarfélagana var að smærri fyrirtækin lögðust niður meðan þau stærri hirtu allt til sín. Ég tel að líkt muni gerast með Ísland ef við göngum í Esb.

Offari, 18.6.2009 kl. 10:32

3 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Þvílíkt rugl er þessi pistill. Pentagon eitt og sér er dýrara batterí en allt ESB. Varðandi landbúnaðarstyrkina, þú fylgist greinilega ekki með tískunni hjá anti-esb sinnum Þór. Landbúnaðarstyrkirnir eru rök sem anti-esb sinnar í Bretlandi eru vanir að nota og maður tók eftir að íslenskir anti-esb sinnar byrjuðu að apa þetta eftir þeim, voru þá íslenskir anti-esb sinnar allt í einu orðnir hugsjónarmenn fyrir Afríku, alltsvo að þessir miklu landbúnaðarstyrkir ESB væru að eyðileggja allt í Afríku, við yrðum að taka afstöðu með Afríku og svo framvegis. Þetta breyttist síðan allt og fór úr tísku þegar út kom viðamikil skýrsla um landbúnaðarstyrki í Evrópu frá OECD, og kom í ljós að Ísland er með miklu hærri niðurgreiðslur á haus til landbúnaðar en ESB, á eftir íslandi kom svo Noregur og Sviss. Nú er mottóið að ef Ísland fer í ESB þá fari bændur beint á hausinn því þá sé ekki hægt að dæla peningum í bændur. Skítt með Afríku semsagt.

Jón Gunnar Bjarkan, 18.6.2009 kl. 13:11

4 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Ég legg það ekki í vana minn að karpa um það sem vel er hægt að sannreyna en finn að það er hiti í mönnum þegar kemur að ESB. Það er eðlilegt þar sem málið er akkút á Íslandi í dag og ætla ég því að leggja nokkur orð í belg.

Að segja pistilinn rugl og bull dæmir sig sjálft þegar ég er að lýsa skoðun minni byggðri á staðreyndum og reynslu. Þegar ég var að læra (og grein mín vísaði til þess er ég reyndi þá og sem myndaði skoðun mína) þá var HELMINGUR fjárútláts ESB sem fór í landbúnaðarstyrki og mér stendur rétt á sama um einhverja tísku einhverra anti-esb sinna - þetta er staðreynd. Þetta var þá um 12.000 bresk pund á hvern bónda í sambandinu eða um 250 bresk pund á hvern neytenda. Einhverjir geta slegið höfðinu fast við steininn, mér er sama um það, en þetta ER STAÐREYND, ekki einhverjar tölur sem ég er að finna upp.

Pentagon getur verið dýrara en ESB - hvað kemur það málinu við? Svo skal böl bæta með því að benda á eitthvað verra.

Ég þarf ekki að athuga hvort betadrottning fær þessa styrki ég veit það - þú sem ekki trúir skalt athuga það.

Er hart tekið á spillingu innan ESB? Hvernig veist þú það? Hvers konar spillingu; hvað er spilling. Tvær höfuðstöðvar og flutningur á milli þeirra - er það spilling. Spilling tekur á sig ýmsar myndir við vitum það nú á Íslandi, sóun er vissulega spilling.

En annars þýðir víst lítið að karpa við fólk með fyrirfram mótaðar skoðanir, eða það sem kallast á íslensku: for-dóma.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 18.6.2009 kl. 22:05

5 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Sko. Þú ert að leggja dæmið upp eins og að stjórnarhættir þarna í ESB þekkist ekki á íslandi. Þú sagðir orðrétt:

"Landbúnaðarstefna ESB er kennd í kennslubókum í hagfræði sem dæmi um hvernig alls ekki á að bera sig að í hagstjórn. Ekki er til sá hagfræðingur með viti sem ekki furðar sig á, hlær eða grætur yfir þeirri óstjórn, þeirri eyðsluhít sem landbúnaðarstefna Evrópusambandsins er. " Ekki veit ég hvaða staðreyndir þú ert að vitna í, en STAÐREYND málsins er að eyðslan er meiri á Íslandi. Heldur þú að bændur á Íslandi væru ekki aðalstuðningsmenn ESB aðildar ef það væri staðreynd að þeir fengju einhverja rosa styrki frá ESB sem ekki eru í boði á Íslandi? Að sjálfsögðu, staðreyndin er bara sú að eyðsluhítin er meiri á Íslandi en í ESB. 

Það að hagfræðingar út í heimi hafa ekki hundsvit á íslenskri landbúnaðarstefnu og hafa ekki fyrir því að kynna sér hana og þannig taka ekki að sér að gagnrýna hana sérstaklega, gerir hana ekki sjálfkrafa að betri stefnu en landbúnaðarstefnu ESB, einungis vegna þess að sú síðarnefnda liggur undir ámæli þessara hagfræðinga.

Nú er það alveg rétt í sjálfu sér að það er skrifræði í ESB, en hver er ástæðan fyrir því? Það er ekki vegna þess eins og svo margir virðast gera sér í hugarlund að evrópskum stjórnmálamönnum þyki svo óskaplega gaman að skrifa á blað. Ástæðan er að þeir sem setja sig mest upp á móti þessu skrifræði eru einmitt þeir sem öskra einræði, fasismi, kommúnismi og þaðan af verra þegar á að fara einfalda kerfið, til dæmis með lissabon sáttmálanum. Það fer til dæmis allt á annan endann þegar lissabon sáttmálinn er borinn á góma í Bretlandi, nú eigi sko aldeilis að leyfa þessum helvítis bjúrókrötum að ganga af Bretum algjörlega dauðum með því að fjarlægja lífsnauðsynleg neitunarvöld breta. Þegar betur er skoðað þá eru þetta löngu úr sér genginn neitunarvöld og þjóna engum tilgangi. Eitt man ég að var neitunarvald Breta á sameiningu Vestur og Austur Þýskalands sem er löngu orðinn staðreynd og frágenginn. Því ætti frekar að spurja sig, hvorir eru meiri bjúrókratar, embættismenn ESB eða poplúlismarnir sem eru alltaf að gagnrýna þá?

Jón Gunnar Bjarkan, 19.6.2009 kl. 10:39

6 Smámynd: Fríða Eyland

Hæ ég spyr aftur má ég setja þetta á fésið mitt

Fríða Eyland, 20.6.2009 kl. 09:23

7 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Já Fríða það máttu vel :)

Þór Ludwig Stiefel TORA, 20.6.2009 kl. 19:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband