Greiðsluverkfall - samstaða - bylting

Nú eru nýafstaðnar kosningar til Alþingis og allt við það að falla í sama horfið. Ég tjáði mig um það hér margoft að kosningar um sömu flokkana og sama fólkið, sama kerfið, myndi engu breyta. Það er alveg makalaust hversu fólk virðist grandvaralaust og barnalegt. Kannski ekki að furða þegar litið er til þess að fólk er uppalið í því að líta til þess kerfis sem það lifir í sem það eina rétta, sem það eina hugsanlega. Já, það er hægt að storma niður að Alþingi og berja þar bumbur og búsáhöld og krefjast breytinga þegar allt hrynur, en svo nær það ekki lengra. Breytingu fékk fólkið á yfirborðinu. Skipt var út fólki og ríkisstjórn og einhverjum embættismönnum en síðan á að halda áfram eins og vanalega. Lappa aðeins upp á kerfið sem hrundi. Þetta er eins og alkóhólistinn sem lofar sér að hætta að drekka eftir síðasta fyllerí en fer síðan að hugsa, þegar frá líður, að þetta hafi ekki verið svo slæmt og sagan endurtekur sig.

 

Nú eru menn farnir að tala um greiðsluverkfall. Algerlega réttmæt aðgerð að mínu áliti. Réttmæt vegna þess að forsendur eru algerlega brostnar fyrir þeim lánasamningum sem gerðir voru. Þegar stofnað er til skuldar þá er gert greiðslumat og lánarinn gengur úr skugga um að lántaki geti greitt. Nú hefur það, hins vegar, gerst að greiðslubyrðin, þ.e.a.s. mánaðarafborganir af lánunum, hefur hækkað hlutfallslega á kostnað greiðslugetunnar. Lánin hafa hækkað (eða öllu heldur haldið verðgildi sínu) á meðan að laun og kaupmáttur hefur lækkað. Við vitum öll hvað hefur gerst; fyrst og fremst hefur verð íslensku krónunnar hrapað, sem aftur hefur orsakað hærra verð á innfluttri vöru og erlendum lánum sem aftur kallar á hækkun verðlagsvísitölu sem kallast aukin verðbólga. Hérna liggur því hundurinn grafinn.

 

Ekki er hægt að sakast við lánastofnanir nema að litlu leiti, sökin liggur hjá stjórnanda peningamála íslendinga, þ.e. ríkisstjórn og endanlega Alþingi.

 

Það er grunnforsenda allra viðskipta að nokkurskonar stöðuleiki ríki í peningaumhverfinu svo að viðskiptasamningar geti haldist. Bæði einstaklingar sem og fyrirtæki verða að geta treyst því að verðlag ekki raskist svo að áætlanir geti staðist. Lán sem tekin eru af yfirvegun og af varfærni eiga að standast samkvæmt greiðsluætlunum, en það gera þau ekki í dag vegna óstjórnar peningamála. Vegna þeirrar óstjórnar geta samningar ekki staðist og því er það á ábyrgð ríkisvaldsins, sem fer með stjórnun peningamála, að ekki er hægt að standa við gerða samninga – það getur ekki verið á ábyrgð þess er tekur lán í góðri trú.

 

Seðlabanki Íslands fer með stjórnun peningamála fyrir hönd ríkisstjórnar íslands og hafði það eitt að meginmarkmiði að halda verðbólgu niðri. Verðbólgu markmið seðlabankans var 2,5%. Það gekk ekki eftir eins og menn vita, heldur var komin upp í um 20%. Annað markmið peningastjórnunar seðlabankans var að viðhalda stöðugu gengi krónunnar. Takið eftir að feitletrað er stöðugu, því að hvorki var það markmið að halda genginu háu né lágu. Stöðugleikamarkmiðið brást algerlega.

 

Ríkisstjórn fer með yfirstjórn efnahags- og atvinnumála. Það er verkefni ríkisstjórnar á hverjum tíma að fara með fjármál ríkissjóðs og haga því þannig að best sé fyrir þjóðarhag  til framtíðar. Nú lítum við fram á 200 milljarða króna halla á fjárlögum, sem kallar á gífurlegan niðurskurð á ríkisþjónustu sem og á hækkun skulda ríkissjóðs og vaxtagreiðslna og hækkun skatta. Ekki verður skýrar kveðið á um það að stjórnun ríkisfjármála hafi gersamlega brugðist. Það er ríkisstjórnar á hverjum tíma að sjá svo um að atvinna geti þrifist í landinu. Nú er prósentutala atvinnuleysis sú sama og vaxtastigsins eða um 20%, enn hefur ríkisstjórn og Alþingi algerlega brugðist.

 

Allt sem Alþingi og ríkisstjórn voru ráðin til að gera brást; halda verðbólgu lágri, halda stöðugu gengi, skila heilbrigðum ríkissjóði og tryggja atvinnu – allt brást. Það var því ekki að undra að fólk hefði fengið sig fullsatt af slíkri vanhæfni og ætt út á götur og sagt nú er nóg komið; en kæru landar, nóg af hverju? Nóg af þeirri ríkisstjórn sem þá sat? Nóg af því Alþingi sem þá sat? Nóg af þeim embættismönnum sem þá sátu? Haldið þið virkilega, mínir elskulegu landar, að það eitt að skipta úr andlitum muni einhverju breyta? Haldið þið að það að láta þá sem fóru með stjórnina fara, og það án þess að bera eina einustu ábyrgð, muni einhverju breyta?

 

Ég hef sagt það áður og segi það enn; það var kerfið sem brast. Það er ekki hægt að lappa upp á það. Ef að það er reynt þá mun allt fara í sama horfið fyrr en síðar.

 

Menn töluðu um byltingu en enga byltingu höfum við upplifað. Bylting er breyting á kerfi – ekki umskipting á einstaklingum. Við búum enn við sama kerfið. Sama flokkakerfið pólitíska, sama peningastjórnunarkerfið, sama ákvarðanatökukerfið – ekkert hefur breyst. Og nú, þegar menn tala um að fara í greiðsluverkfall, er það sama röddin er heyrist um það ekki megi, um að það sé ekki hægt, með undirliggjandi hótununum.

 

Að fara í greiðsluverkfall myndi vissulega vera raunveruleg bylting en forsendurnar yrðu að vera þær sem allar byltingar kalla á – samstaða. Ef að allir myndu hætta að borga yrði ekki hægt að fara eftir hverjum og einum og kerfið myndi hrynja. En hrunið væri ekki afleiðing greiðsluverkfallsins, heldur væri hrunið afleiðing peningaóstjórnunarinnar. Hrunið væri afleiðing hárrar verðbólgu, lágs gengis íslensku krónunnar, halla á ríkissjóði og atvinnuleysis. Það er ekki nóg að skipta út ríkisstjórn. Það er ekki nóg að skipta út fólki á Alþingi og það er ekki nóg að skipta út einstaka embættismönnum. Það þarf að skipta út kerfinu. Það er ljóst hverjum sem það vill sjá að hrun íslensks efnahags er kerfishrun. En kerfið reynir af öllum mætti að viðhalda sjálfu sér. Embættismenn, stjórnmálamenn og í raun þorri almennings vill viðhalda kerfinu því hann þekkir ekkert annað og menn eru alltaf hræddir við hið óþekkta. Margir geta ekki einu sinni hugsað sér annað fyrirkomulag. Því er það á ábyrgð okkar sem sjáum út fyrir hellismunann að benda á að til eru aðrar leiðir. Það þarf að sína alkóhólistanum fram á það að til er líf án áfengis og það í raun mun betra. Það er lífsnauðsynlegt að breyta um lífsstíl, breyta um kerfi. Ef að kerfið þrjóskast við og vill viðhalda sjálfu sér þarf að bylta því og það með öllum ráðum. Greiðsluverkfall er vissulega ein leið í því og þess vegna hrópa nú kerfiskallar úr öllum áttum gegn slíkri aðgerð. Þeir sjá að greiðsluverkfall myndi vissulega ganga af kerfinu dauðu og nýtt yrði að byggjast á rústum þess og eitthvað raunverulega yrði að gera – og það vilja þeir ekki.

 

Lifi byltingin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stjórnvöld hafa neytt almenning í greiðsluverkfall.

Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 11:04

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góður pistill. 

Byltingin var ekki bara í janúar, byltingin er alltaf.

http://thecrowhouse.com/aw1.html

Magnús Sigurðsson, 5.5.2009 kl. 17:00

3 Smámynd: Offari

Ég hef aldrei verið hlyntur því að auka vandamálin til að leysa vandann. Stjórnmálamenn hafa því miður ekki skilið vandann, Kerfinu var nauðgað gerendurnir sega kerfið hafa beðið sig um að nauðga því. Ég tel það erfitt að laga niðurbrotið kerfi en vill ekki sleppa því lausu fyrr en nýtt kerfi hefur komið fram.

Gallað kerfi er betra en ekkert kerfi. Það er hinsvegar spurning hvort leitin að nýju kerfi hefjist ekki fyrr en gamla kerfið er dautt og kerfislaust tímabil brúi bilið.

Offari, 13.5.2009 kl. 17:52

4 identicon

Offari þú ferð offari í vitleysu. Betra er að hafa ekkert kerfi en að hafa kerfi sem skaðar landsmenn kerfisbundið.

Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 00:44

5 Smámynd: Offari

Ég treysti mér ekki til að fullyrða hvað sé rétt og hvað sé rangt eða hvort við getun verið án kerfis eður ei. En ég er samt hræddur um að kerfisleysi valdi ennþá meiri ruglingi.

Offari, 16.5.2009 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband