Æ það reddast – skál!
24.2.2009 | 11:23
Nú er að verða útséð með að engra raunverulegra breytinga er að vænta með komandi kosningum. Fjórflokkurinn virðist ætla að halda velli. Það er ekki einu sinni háværar kröfur innan flokkanna um mannabreytingar. Sama gamla prófkjörs/uppstillinganefnda kjaftæðið er hafið. Menn að ota sínum tota og allir að hugsa um eigin hag.
Ekkert nýtt framboð hefur komið fram. Einu lausnirnar sem bent hefur verið á eru að lappa upp á ónýtt kerfi. Enn á ný er allt farið að snúast um hægri vinstri og vont flokkakerfi. Fólk er farið að kyrja sama sönginn eins og á áhorfendapöllum íþróttaleikvangs. Áfram VG, áfram Sjálfstæðisflokkur, koma svo Samfylking, þið getið það Frjálslyndir og svo framvegis. Svanasöngurinn heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist; eins og það sé í raun ekkert að. Svæfingamáttur orðagjálfurs og ættflokkaundirgefni ætlar að ná yfirtökunum enn á ný. Kosningar í vor með loforði um óbreytt ástand. Slegið á hendur einhverra vegna bankahrunsins til málamynda og allt í sama farveg. Stjórnlagaþing sem kemur með útþynntar tillögur eftir tvö ár; stjórnlagaþing sett samskonar kerfisköllum og hafa komið sér vel fyrir í kerfinu og engan hug hafa á að breyta neinu nema í samkvæmt forskrift pólitískra hagsmunaafla.
Á meðan situr almenningur dofinn heima og hyggur á landflótta. Fólk er búið að fá nóg, allt er betra en þetta. Hugsunin eins og alkóhólistans sem finnur að nú verði að koma til breytt ástand, annars sé ekkert framundan annað en geðveiki eða dauði. Ég verð að fara í meðferð, hugsa menn. Valið stendur á milli norðurlandanna eða Kanada. Þeir sem vilja gera eitthvað í sínum málum hugsa þannig. Hinir sem ekki eru búnir að skrapa botn niðurlægingarinnar setja sig í stellingarnar og taka afstöðu með eða á móti Davíð Oddsyni, með eða móti Evrópusambandinu og halda áfram að styðja sitt lið af sjúklegri þráhyggju sem engin rök bíta á; KR, Valur Fram, Keflavík VG, Sjálfstæðis, Samfylking, Frjálslyndir Vodka, bjór, hass, spítt.
Ég kalla eftir, nei ég grátbið stöndum saman almenningur og setjum á fót framboð sem getur og vill breyta hér. Breiðfylkingu Íslendinga, venjulegra Íslendinga, með fjölbreyttar skoðanir, hægri vinstri, róttækt íhald, gamalt nýtt, skiptir ekki máli. Við getum sameinast um það eitt að vilja breytt ástand allt er betra en þetta! Við getum sameinast um að endurreisa Ísland og við getum sameinast um að vera Íslendingar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Því miður hef ég ekki trú á breytingum í næstu kosningum. Fólk vaknar ekki !
Gamla ráðherra-og flokksvaldið verður ráðandi áfram. Það verður ekki fyrr en fólk fer að hrynja niður úr hungri að það fer að hugsa, ef það hefur þá orku til þess.
Páll A. Þorgeirsson, 24.2.2009 kl. 12:22
Ég tek undir hvert orð sem þú segir Þór. Ef við ekki knýjum fram breytingar nú þá er alveg eins gott að koma sér til siðaðra þjóða og byrja upp á nýtt.
Menn hljóta að vera komnir með upp í háls af fjórflokkunum og framkomu þeirra.
Manni heyrist að einhver framboð séu að fæðast svo guð gefi að gott á viti.
Eins og staðan er í dag þá ætti ég erfitt með að velja á milli simpansa og einhvers af gamla liðinu. Í það minnsta yrði ég að taka mér góðan tíma í að bera saman kosti og galla. Samt held ég að simpansinn hefði vinninginn því ég veit þó fyrir hvað hann stendur og þeir hafa líka þann kost að geta lært.
Hjalti Tómasson, 24.2.2009 kl. 12:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.