Fyrst og síðast
22.2.2009 | 06:32
Nú er það öllum ljóst að markaðskerfið virkar ekki, ekki frekar en áætlanakerfi sovétlýðveldanna forðum. Það var mínum barnshuga einhvern veginn alveg ljóst allt, frá því ég, sem barn, fyrst fór að hugsa um það, að hæfileg blanda af þessu tvennu væri leiðin til að fara. Við erum ekki nógu þroskuð sem tegund, held ég, til að geta eftirlátið einstaklingnum að taka ákvarðanir sem hafa áhrif út fyrir hans eigin hagsmunasvið. Við erum of eigingjörn til að geta séð, eða látið það okkur einhverju skipta, að gjörðir okkar snerta ekki bara okkur sjálf hér og nú. Markaðir þurfa að vera stýrðir til að græðgin fari ekki úr böndunum og útrými okkur ekki sem tegund. Hin ósýnilega hönd Adam Smith reyndist vera akkúrat það ósýnileg og óraunveruleg. Græðgin sem mærð hefur verið svo undanfarið reyndist ekki vera kostur heldur eyðileggjandi afl sem verður að hemja eins og kostur er ef ekki á illa að fara.
Ég sé þetta hrun fjármálakerfis heimsins sem óhjákvæmilega og þar af leiðandi eðlilega þróun. Karl Marx og Frederik Engels sáu þetta fyrir og fleiri hugsuðir hafa einnig bent á það sem nú verður að teljast staðreynd. Það er með öðrum orðum, ekki einungis siðferðilega ósanngjarnt, að auðsöfnun með slíkum öfgum sem við sjáum, heldur er slíkt ójafnvægi einkenni sjúkleika sem ekki fær staðist til lengdar. Ég gæti farið í að telja upp fjölda rannsókna og tölulegra staðreynda um slæmar samfélagslegar afleiðingar fátæktar eins og sóun mannlegra hæfileika, glæpi o.s.frv. en læt það vera þar sem ég veit að það er öllum í raun ljóst. Það væri einnig hægt að minnast á alþjóða samþykktir og yfirlýsingar sem fjalla um réttindi manna til mannsæmandi lífs að ekki sé talað um umhverfissamþykktir. Allt leiðir að sama brunni; eigingirni, sem er eðlileg og nauðsynleg kennd á ákveðnu þróunarstigi til varðveislu einstaklingsins, verður að temja með samfélagslegum hætti til varnar tegundinni.
Besta samfélagsmódel sem mannkynið þekkir í dag er hið norræna velferðarkerfi. Það sem er til fyrirmyndar í því kerfi er forgangsháhersla heildarinnar á kostnað einstaklingsins. Það var áhugavert að hlusta á fyrrverandi forsætisráðherra Íslands Geir Haarde, tala um það áherslur á síðustu dögum ríkisstjórnar sinnar. Í sjónvarpsviðtali talaði Geir um að fyrst kæmi þjóðin, síðan flokkurinn og síðast einstaklingurinn. Gott væri ef satt væri, en margt bendir, hins vegar, til að þessu sé öfugt farið hér á landi. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að halda, að á Íslandi sé það einstaklingurinn fyrst, síðan flokkurinn (og þá einungis til að frama einstaklingin) og síðast þjóðin.
Núna þegar fjármálakerfið er hrunið og einkafyrirtæki fá milljarða frá hinu opinbera út um allan heim eru menn að átta sig; einungis með sterkri heild getur einstaklingurinn vænst styrks.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.