Þrællinn sem ekki veit að hann er þræll en grunar samt.

Ég skrifaði hérna pistil í gær sem var tilraun til að varpa örlitlu ljósi á hvað vextir eiginlega væru. Ástæðan er sú að ég vil vekja fólk til umhugsunar um þá staðreynd að vextir eru í raun ekkert annað er gildisrýrnun gjaldmiðilsins og innibera í sér tilfærslu auðs frá einum aðila til annars. Í sumum menningarsamfélögum hefur hreinlega verið bannað að taka vexti en almenningur í dag er alinn upp í því að það sé algerlega eðlilegt, nánast náttúrulegt, að greiða vexti. Umræðan snýst einungis um hversu háa vexti eigi að taka. En er eðlilegt og réttlátt að greiða vexti? Til að svara þessu verður að átta sig á hvað peningar séu og hver sé raunverulegur eigandi þeirra.

Peningar eru ekkert annað en ávísun á verðmæti. Þeir eru hagræðingaruppfinning sem reyndist nauðsynleg þegar viðskipti jukust um of til að hægt væri með góðu móti að stunda viðskipti með því að borga með vörum eða þjónustu. Ef að litið er til þess að peningar eru ekkert annað en ávísun á verðmæti en ekki verðmæti í sjálfu sér er betra að átta sig hvernig mekanisminn á bak við vaxtatöku gengur fyrir sig.

Auðssöfnun hefst fyrst að ráði með tilkomu peninga. Það segir sig sjálft að bóndi sem lifir á því að selja kindur getur ekki safnað miklu af frosnum kindaskrokkum og lifað af vöxtunum af þeim.En hér gerist það merkilega; ef að þessi sami bóndi skiptir kindaskrokkunum fyrir peninga (selur þá) þá getur hann lánað peningana og fengið vexti fyrir þó að peningarnir séu í raun ekkert annað en ávísun á þessa sömu kindaskrokka. Þetta fer að minna örlítið á afbökun íslenska kvótakerfisins sem ætlað var til að vernda fiskinn í sjónum en varð fljótlega að varðmætum sem verslað er með. Peningar sem upphaflega gegndu því hlutverki að vísa á verðmæti og gera viðskipti auðveldari eru farnir að vera verðmæti í sjálfu sér og gefa af sér vexti.

Ég hef lýst því hvernig telja má að vextir hafi upphaflega til orðið í viðskiptum manna en sagan var þar einungis hálf sögð og ætla ég nú að bæta aðeins úr.

Það sem næst verður að lita á er tilkoma banka á sjónarsviðið. Það verður að líta alla leið til krossferðanna til Jerúsalem og musterisriddaranna svokölluðu. Þegar velmetandi einstaklingar fóru í pílagrímsferðir til landsins helga var yfir óvinalönd að fara og ýmsar hættur leyndust á þeirri löngu leið. Oft voru menn rændir aleigunni og jafnvel drepnir. Musterisriddararnir voru munkar sem lögðu áherslu á að þjálfa sig í bardagatækni með það að markmiði að vera stríðsmenn Krists og til varnar Jerúsalem og landinu helga. Pílagrímar á leið til Jerúsalem kusu eðlilega, ef þeir gátu, að ferðast með musterisriddurunum til að hljóta vernd þeirra og fljótlega fóru mesterisriddararnir að bjóða upp á verndarþjónustu gegn gjaldi. Musterisriddarareglan var vel skipulögð og auðug og að henni drógust margir aðalsmenn er ánöfnuðu reglunni allar eigur sínar því musterisriddararnir máttu engar persónulegar eigur hafa aðrar en þær er þeir gátu borið. Upp spruttu klaustur víða, bæði í Evrópu og Miðausturlöndum. Peningar á þessum tíma voru úr silfri eða gulli og þar af leiðandi þungir og fyrirferðamiklir. Það var erfitt að ferðast með mikla fjármuni og það var augljóst þjófum og ræningjum þegar miklir fjármunir voru fluttir í kistum á vögnum með halarófu af varðliðum. Í framandi landi var svo sífelld hætta á árásum þrátt fyrir að keypt væri vernd. Það var því svo að musterisriddararnir buðu auðmönnum í pílagrímsför upp á snilldar lausn. Þeir buðu auðmönnum að “leggja inn” auð sinn í einhverju af klaustrum sínum og fá dulkóðaða nótu sem auðmennirnir gátu síðan “leyst út” í hvaða öðru musterisriddara klaustri sem var. Þjófur sem rændi nótunni gat með engu móti, fyrir það fyrsta, vitað að hér var um ávísun á verðmæti að ræða né leyst hana út ef hann vissi svo. Fætt var kerfi ávísanapeninga svipað því og við þekkjum nú; sagt hefur verið að musterisriddararnir hafi gefið út fyrsta ferðatékkann en það á að ganga lengra og segja að þeir hafi fundið upp fyrsta peningaseðilinn og, það sem er hér mikilvægt – þeir upphófu bankastarfsemi og þau þjónustugjöld sem við öll nú greiðum með fýlusvip. Þar kom að auður musterisriddaranna varð svo mikill að þeir gátu lánað þjóðhöfðingjum fé og þeir urðu ógn við ríkjandi valdhafa. Þeim var því útrýmt eins og frægt er orðið og ekki verður farið út í hér.

Ég segi þessa sögu vegna þess að ég vildi benda á tilkomu ávísanapeninga og banka sem er nauðsynlegt ef að menn vilja átta sig á því fjármálaumhverfi er stjórnar nánast öllu í lífi manna í dag og (virðist!) að hruni komið.

Þegar bankar voru komnir fram á sjónarsviðið og þeir hófu útlánastarfsemi var fyrst einungis um gjaldtöku að ræða hjá þeim sem samsvara okkar þjónustugjöldum – þeir tóku ekki vexti af útlánum og þeir greiddu ekki vexti af innlánum. Það kostaði, þvert á móti (eins og hjá musterisriddurunum) að setja peningana inn, það var tekið gjald fyrir að passa upp á peninga viðkomandi. Upphaflega fer að bera á hugmyndum um bankavexti samfara endurreisninni í Evrópu (eftir að vaxtataka var bönnuð á miðöldum með tilskipun Karlamagnúsar) og þá sem rök hagspekinga og stjórnspekinga varðandi stjórnun hagkerfisins. Upp koma hugmyndirnar um að vextir séu verðmæling peninga og því sé hægt með, stjórnun vaxta, að hafa áhrif á verðgildi þeirra og vega þá upp á móti verðrýrnun sem stafaði af of mikilli útgáfu peningaseðla. Margir þekkja svo söguna um tilraunir til að “gullfesta” verðgildi gjaldmiðla sem síðan endaði í hinu svokallaða “fljótandi” gengi eða markaðsgengi.

Það eru sem sagt í dag tvær hliðar á vöxtum; í fyrsta lagi er um að ræða það að “ávaxta sitt fé” byggt á þeim rökum sem sagði frá um kaupmanninn í fyrri grein og svo hin að nota vexti sem stýrikerfi í hagkerfinu. Það er þessi hin seinni ástæða sem við Íslendingar erum að súpa seiðið af í dag; en hér verður að gæta varkárni. Ég reyndi að sýna fram á það að vextir rýra í raun verðgildi ávísanapeninga með því að auka alltaf peningamagn í umferð sem nemur vaxtagreiðslunum. Ég sýndi fram á það með tölum að það er samhengi á milli vaxtastigs og verðbólgu, þannig að annað hvort eru menn svo skyni gæddir að þeir skilja ekki þetta samhengi eða að annað liggur að baki.

Í samhengi þess er við Íslendingar nú erum að fást við er gott að minnast þess að við þurfum nú að fást við 18% stýrivexti og það ekki vegna sjálfsákvörðunar heldur vegna skipunar frá yfirþjóðlegri stofnun. Rökin eru að verið sé að halda verðgildi gjaldmiðilsins uppi. Það er samt ljóst öllum, á eigin efnahag, að verð gjaldmiðilsins hrapar stöðugt. Háir vextir hafa ekki skilað tilætluðum efnahagsáhrifum undanfarin ár en þau hafa verið stór útgjaldaliður heimilanna og fyrirtækjanna í landinu um árabil – hvert hafa þessi útgjöld farið og hvert eru þau að fara? Ef að íslenska ríkið væri að lána heimilunum og fyrirtækjunum fé á vöxtum þá væri það sök sér og ávöxtunin myndi nýtast ríkissjóði, en það er ekki svo, heldur hverfur þessi gjaldtaka úr landi og rýrir gjaldmiðilinn um leið. Þessi hagstjórnarleið (sem augljóslega ekki virkar) hefur sem sé þá hlið á sér aðra að vera auðskapandi fyrir þann aðila sem á fjármagnið en útgjaldaskapandi fyrir hinn sem ekki á, þ.e. íslendinga í okkar tilviki.

Það er svo gott að minna sig á hvernig umhverfið hefur verið útbúið síðustu misserin. Allt í einu, eins og hendi var veifað, var ofgnótt “ódýrs” fjármagns til reiðu á “fjármálamörkuðum”. Bankar sáu sér leik á borði (ekki síst hinir nýju íslensku bankar) og tóku lán í stórum stíl bæði til að endurútlána sem og fjárfesta. Jafn skyndilega og þetta “ódýra” fjármagn hafði birst hvarf það síðan á ný, en skuldin var nú til staðar í kerfinu. Skuldirnar þarf að borga og þær eru nú óðum að falla á gjalddaga. Blekkingarmyndin sem lánainnspýtingin hafði í för með sér í hagkerfunum var hagvöxtur sem lét menn halda að raunveruleg verðmæta aukning væri á ferðinni (ég mun við annað tækifæri reyna að útskýra nákvæmlega hvað hagvöxtur eiginlega er) Menn hugðu ekki að sér og tóku lán, grandvaralaust, sem þeir héldu að þeir gætu borgað. Nú er að endurfjármagna lánin og það verður ekki gert lengur með “ódýru” fjármagni heldur einungis með “dýru” fjármagni og snaran er kominn um hálsinn, bæði á einstaklingum sem og fyrirtækjum og ríkjum. Á leiðinni hefur allt í hagkerfinu blásið upp að sýndar verðgildi en kjörin lækkað. Það var dýrara að koma sér upp þaki yfir höfuðið, allt varð dýrara sem orsakaði verðbólgu eða það sem ég hef kallað verðrýrnun gjaldmiðilsins.

Það þarf ekki að vera mikill mannfræðingur til að átta sig á því sem er að gerast: Vextir lækka skyndilega samfara gnægð fjármagns en hækka svo jafn skyndilega samfara algerri fjármagnsþurrð. Það sem er sorglegast við þetta er að almenningur og allur þorri hinna svokölluðu sérfræðinga virðist líta á þetta ferli sem eins konar náttúrulegt eðlilegt fyrirbrigði.

Ég vil biðja þig, sem hefur haft þolinmæði og getu til að lesa þig alla leið hingað, til að athuga þá staðreynd að vextir hafa ekki einungis á sér þá hlið að rýra verðgildi ávísanagjaldmiðils heldur eru þeir sjálfkrafa auðsafnandi fyrir þann er auðinn á og hér kemur að því sem heitir raunvextir. Við íslendingar höfum andskotast út í verðtrygginguna, skiljanlega, en verðtrygging eður ei, þá er það krafa fjármagnseigenda að fá raunvexti, þannig að auður þeirra vex þrátt fyrir að ávísanapeningarnir rýrni að verðgildi. Þeir sem gaman hafa af stærðfæði hafa oft reiknað sér til skemmtunar hversu “exponentially” fjárhæð vex þegar vextir gefa af sér vaxtavexti og svo framvegis. Auðurinn getur ekki annað en vaxið þegar komið er á ákveðið stig og því er það svo í dag að meginþorri alls auðs á jörðinni er í höndum örfárra aðila. Það þarf því ekki að vera neitt sérstaklega vænisjúkur einstaklingur til að halda því fram að þetta skyndilega mikla framboð “ódýrs” fjármagns og jafn skyndilega þurrð þess hafi verið plönuð aðgerð með það í huga að ná einhverskonar völdum eða taki á þjóðunum. Staðreyndin  er allavega sú að eftir sitja þjóðir og einstaklingar með miklar skuldir sem greiða þarf af vexti (við rífumst m.a. um það hér á landi hversu marga milljarða! við þurfum að greiða í vexti til útlanda á ári). Þessar vaxtagreiðslur koma í öllum tilfellum úr vasa einstaklingsins; ríkið greiðir vexti með því að innheimta skatta af einstaklingum og fyrirtækjum, fyrirtækin greiða vexti og skatta með því að leggja það á vöruverð o.s.frv. Einstaklingurinn greiðir vexti, skatta og vöruverð úr eigin vasa.

Nú ættum við að vera farinn að skilja mekanismann er liggur á bak við vexti. Sú fullyrðing að vextir séu hagstjórnartæki fær ekki staðist nána skoðun en virkar ágætlega sem hylming yfir raunverulegan tilgang vaxtatöku. Vextir eru ekkert annað en yfirfærð mynd þrælahalds.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórbergur Torfason

Þetta er allt of löng ritgerð á vettvangi bloggsins. En að lesinni niðurstöðunni er alveg hægt að vera sammála þér.

Þ'u skilur,ég hefði ekki tíma og nennti ekki að lesa alveg til enda. Fyrirgefðu.

Þórbergur Torfason, 20.2.2009 kl. 00:15

2 Smámynd: Kjartan R Guðmundsson

Ég á skika til að rækta kartöflur, en ekkert útsæði. Ég fer til þín og fæ lánað fyrir einum poka af útsæði. Í haust á ég 10 poka af kartöflum. Ég hef ávaxtað peningana þína í mínum kartöfluskika.

Verður þú ánægður með að fá andvirði pokans í haust?  Heimtarðu ekki hluta af minni ávöxtun? Hvað þá ef verðið á kartöflum hefur lækkað vegna offramboðs!

Kjartan R Guðmundsson, 20.2.2009 kl. 01:01

3 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Já Þórbergur, ég veit að fæstir nenna að lesa hér á blogginu, en þetta er nú sá grundvöllur sem ég hef til að koma þessu á framfæri og get bara vonað að einhverjir hafi getu til að lesa - þó ekki væri nema einn ;)

krg - ég verð að viðurkenna að þú ert svolítið kryptískur. Mér þætti eðlilegt að fá til baka það sem ég lánaði þér. Ég myndi líklega ekki lána þér nema ég gæti það til að byrja með. Ef að ég lánaði þér útsæði, og myndi þar með minnka möguleika eigin uppskeru, væri hugsanlegt að ég myndi segja að eðlilegt væri að ég fengi hjá þér nokkrar auka kartöflur fyrir greiðann.  Það sem ég vil að menn líti til er spurningin: Af hverju á ég útsæði en ekki þú? Ef að þú hefur misst þitt vegna óheppni eða þurft að eta allt þá finnst mér óeðlilegt að níðast á þér með því að taka af þér vexti þegar þú ert ekkert að gera annað en að reyna að bjarga þér og átt ekkert fyrir. Sem sagt: er ég aflögufær eða ekki, um það snýst mitt svar. Ef ég er aflögufær og þig vantar þá er borgun mín sú ánægja er ég fæ við það að hjálpa þér - og trúðu mér, sú tilfinning verður ekki keypt fyrir peninga.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 20.2.2009 kl. 01:46

4 Smámynd: Hjalti Tómasson

Ég hef heyrt þá tilgátu áður að kreppur undanfariina áratuga séu að mestu leiti hannaðar atburðarásir, til þess gerðar að hámarka auðsöfnun og ná tangarhaldi á ymsum þáttum efnhagslífs þjóðar eða þjóða. Þetta kemur til dæmis fram í bókinni Falið vald eftir Jóhannes Björn Lúðvíksson. Þetta er reyndar hægt að gera með öðrum þætti eins og að efna til ófriðar milli þjóða eða jafnvel innan þjóða.

Ef við ætlum að losna út úr þeirri hringiðu sem manni virðist jaðra við náttúrulögmál, þarf þá ekki að ráðast að þeim aðilum sem setja atburðarásina af stað ? Og hvað þarf þá til stoppa þetta rugl ?

Hjalti Tómasson, 20.2.2009 kl. 09:22

5 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Hjalti ég vil benda þér á Zeitgeist myndirnar (það er linkur á síðunni minni) en þær fjalla um mekanismann á bak við kreppur og hverjir raunverulega ráða í heimi hér en það eru bankamenn og auðjöfrar. Ég hef svo einnig skrifað um þetta áður (sjá t.d. færsluna "Mamma - hvað er kreppa?").

Það sem ég vil leggja algera höfuðáherslu á er að kreppur eru EKKI eitthvað náttúrulegt fyrirbæri, nema þær séu afleyðing hamfara (uppskerubrests, farsóttar, óvenjulegra flóða o.s.frv.).

Svo er það satt hjá þér að Falið vald er ágæt bók sem varpar ljósi á það sem gerist bak við tjöldin og til eru margar fleiri góðar bækur er upplýsa fólk t.d. "Confessions of an Economic hit Man" eftir Perkins sem einnig er linkuð hérna á síðunni. Svo má ekki gleyma Marx og Engels en ég hef orðið var við að áhugi er að skapast á þeirra verkum nú þegar markaðshyggjan hefur sýnt að hún er ónýt sem hagstjórnarpólitík ekki síður en þær tilraunir sem gerðar voru í austrinu.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 20.2.2009 kl. 10:33

6 Smámynd: Þorgeir Ragnarsson

Þvílíkt kjaftæði og þvæla. Þegar tiltekinn aðili lánar eign vill hann fá tekjur af því, ekki bara endurgreiðslu skuldar vaxtalaust. Það voru ekki vextir sem slíkir sem settu þessa kreppu af stað. Vextir eru mjög mikilvægur hvati viðskipta, algjör forsenda eðlilegs lánamarkaðar.

Þorgeir Ragnarsson, 20.2.2009 kl. 11:06

7 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Þú ert svo sannarlega ekki að leggja málstað þínum lið og trúverðugleik með þessari athugasemd Þorgeir. Rök, komdu með rök ekki staðhæfingar út í bláinn. Ég skrifaði pistil (sem sagður er of langur á þessum vettvangi) til að færa rök fyrir máli mínu. Þú getur sagt það allt vera kjaftæði en mér sýnist þú vera að mála eigin mynd. Ég sagði ekkert um það að vextir settu þessa eða nokkra kreppu af stað - lastu pistilinn nokkuð?

Síðan þetta: "Vextir eru mjög mikilvægur hvati viðskipta, algjör forsenda eðlilegs lánamarkaðar."

Ég á í viðskiptum við þig vegna þess að mig skortir eitthvað sem þú átt en ég ekki, en ég á eitthvað sem þú átt ekki - það er hvati allra viðskipta - ekki vextir[sic]. Hvað er eðlilegur lánamarkaður? - kannski sá lánamarkaður sem við höfum vitnað hér á Íslandi undanfarin ár - ertu ekki búinn að fylgjast með fréttum?

Að lokum: "Þegar tiltekinn aðili lánar eign vill hann fá tekjur af því, ekki bara endurgreiðslu skuldar vaxtalaust." Ég var einmitt að benda á forsendu þess að hann vill tekjur af því og athuga forsendu þess að sumir eiga eignir til að lána en ekki aðrir. Þessi athugasemd þín hljómar eins og: "Af hverju að taka vexti? - Af því að mann taka vexti!"

Þór Ludwig Stiefel TORA, 20.2.2009 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband