Mamma, hvað eru vextir?
18.2.2009 | 15:01
Maður verður að setja sig í spor barnsins ef að maður vill leifa sér að spyrja spurninga um atriði sem þykja svo sjálfsögð og eðlileg að allur þorri manna efast hvorki um réttmæti þeirra né tilgang. Hvað eru vextir og hvers vegna borgar maður vexti?
Æ, elskan mín byrjarðu nú enn og aftur að spyrja, nú jæja, byrjum á byrjuninni. Vextir eru leiga á peningum. Ef að maður fær peninga að láni hjá öðrum þá borgar hann til baka upphæðina sem hann fékk að láni ásamt leigugjaldi sem kallaðir eru vextir.
En, mamma, af hverju þarf að borga leigu fyrir peninga sem maður fær lánaða og borgar svo til baka að fullu?
Jú , lambið mitt, það er vegna þess að ... Hérna vefst móðurinni tunga um tönn og telur best að fara í örlitla söguskýringu til að útskýra tilkomu vaxta í mannlegu samfélagi.
Sjáðu til, fljótlega, þegar menningin fór að koma fram á sviðsljósið, fóru mennirnir að versla hverjir við aðra. Til urðu kaupmenn er ferðuðust til fjarlægra staða og keyptu þar vörur og fóru með heim og seldu. Kaupmennirnir seldu vöruna heimafyrir á hærra verði en þeir keyptu vegna þess að þeir þurftu að fá upp í þann kostnað sem þeir lögðu út fyrir til að ná í vöruna. Þeir ferðuðust um langan veg og þoldu oft á tíðum mikið harðræði og mættu ýmsum hættum á leiðinni. Ef að kaupmaðurinn fengi ekki meiri pening fyrir að selja vöruna en hann keypti hana á þá myndi hann ekki fara í kaupleiðangurinn og þar með fengju heimamenn ekki hina framandi vöru. Nú eldist kaupmaðurinn og á sinn pening en á erfitt sjálfur með að fara í verslunarferðir vegna hrumleika. Yngri maður með ævintýraþrá vill hins vegar gjarna fara en hann á engan pening til að versla fyrir. Yngri maðurinn fer því til hins aldna kaupmanns og biður hann að lána sér svo hann geti keypt vörur í framandi löndum og komið með heim til að selja löndum sínum. Gamli kaupmaðurinn hugsar sig um og segir svo: Ég vil gjarna lána þér pening en ef að ég geri það þá hef ég ekki efni á að fara sjálfur eins og ég hafði hugsað mér. Ef að ég færi sjálfur mundi ég versla fyrir hundrað peninga og selja fyrir tvöhundruð. Fimmtíu færu í kostnað og ég hefði ávaxtað fé mitt um fimmtíu peninga. Ef að ég lána þér peningana mína get ég ekki ávaxtað peningana mína en það munt þú gera. Mér þykir því sanngjarnt að ég fái einn tíunda af því sem þú ávaxtar peningana mína í vexti. Að þessu gekk hinn ungi maður þar sem hann hefði ekki getað farið í verslunarleiðangurinn félaus og þannig er ástæðan fyrir því, lambið mitt, að við borgum vexti af peningum sem við fáum að láni.
Já en mamma hvers vegna átti upphaflegi kaupmaðurinn peninga en ekki hinn ungi? Af hverju gat gamli kaupmaðurinn farið í sinn fyrsta leiðangur án þess að taka lán en hinn ungi þurfti að taka lán, af hverju það mamma?
Nei lambið mitt, hinn aldni kaupmaður tók á sínum tíma einnig lán og ávaxtaði fé sitt og koll af kolli hefur það gengið svo í ómunatíð.
En elsku mamma mín, einhver hefur farið í fyrsta verslunarleiðangurinn; hvernig fékk hann sinn pening til að versla með fyrstu vöruna?
Ja sjáðu til lambið mitt, einhver skeggjaður fræðimaður er sagður hafa látið frá sér fara að bak við sérhvern auð glitti í glæp og átti hann þar við að upphafleg auðsöfnun hafi átt sér stað með ránum og gripdeildum og þannig hafi fyrsti kaupmaðurinn geta fengið lánað hjá einhverjum sem rændi aðra og eignaðist þannig peninga við viljum hins vegar ekki trúa því og teljum algerlega óþarft að líta svo langt aftur. Okkur nægir, lambið mitt að líta á að menn taka fé að láni, hvernig svo sem það er tilkomið upphaflega, og borga af því vexti eins og ég hef útskýrt fyrir þér og hætti svo að spyrja þetta endalaust.
En mamma það er eitt sem ég skil ekki. Ef að hver kaupmaður ávaxtar fé sitt um fimmtíu peninga og þarf að borga fimm peninga fyrir að leigja peningana af gamla kaupmanninum eykst þá ekki alltaf peningamagn í umferð við hverja ferð?
Hvað í almáttugs bænum áttu nú við barn?
Jú sjáðu til mamma; það þarf að fá hundrað peninga til að fara í verslunarleiðangur til að kaupa vörur sem seldar eru fyrir tvöhundruð hvar af fimmtíu fara í kostnað og fimm í vexti. Þá á kaupmaðurinn fjörutíu og fimm peninga eftir en lánveitandinn hundrað og fimm sem gerir samanlagt hundrað og fimmtíu. Peningarnir eru nú orðnir helmingi fleiri en áður ekki satt mamma?
Jú það lítur út fyrir það.
Þannig að eftir rúmlega tvær ferðir getur þá sá kaupmaður sem þurfti að taka peninga að láni ekki farið af stað sjálfur án þess að taka lán?
Nei barnið mitt vegna þess að hann þarf að sjálfsögðu að lifa og það kostar hann peninga. Hann eyðir öllum sínum tíma í að versla með vörur og getur því ekki aflað sér matar og verður því að kaupa í matinn af bóndanum, það er hugsanlegt að hann geti lagt til hliðar tíu peninga í hverjum hring og farið lánalaust af stað eftir tíu ferðir.
Þannig að verðmætaaukningin í samfélaginu er tíu peningar plús fimm eða fimmtán peningar eftir hverja ferð ekki satt mamma?
Í almáttugs bænum barn hvaðan hefurðu þessi hugtök eiginlega, en já, það má segja það.
Með vinnu sinni hefur þá unga kaupmanninum tekist að gera sig ríkari um tíu peninga með hverri ferð ásamt því að gera gamla kaupmanninn ríkari um fimm það er sem sagt þannig mamma?
Já einmitt lambið mitt.
En mamma pabbi segir að ef eitthvað eykst þá verði það verðminna.
Hvað áttu nú við?
Jú, alla langar í súkkulaði og eru til í að borga peninga fyrir það, en ef súkkulaði mundi vaxa út í skógi og allir gætu týnt eins mikið af því og þeir vildu þá mundi enginn að sjálfsögðu borga fyrir það ekki satt?
Jú alveg rétt.
Menn borga bara fyrir eitthvað sem er í takmörkuðu magni segir pabbi.
Ohh hann pabbi þinn þykist allt vita, en satt er það og hvað eru nú að fara með þessu barn?
Jú þú sagðir áðan að vextir væri eins konar leiga fyrir afnot af peningum. Pabbi segir að leiga sé kaup á einhverju í fyrirfram tilgreindan tíma rétt eins og með íbúðina okkar. Við eigum hana ekki en við kaupum hana í mánuð í senn og því borgum við mánaðarhúsaleigu. Ef að við gætum bara farið í helli og búið þar og það væri meir en nóg af hellum fyrir alla þá mundi enginn borga leigu fyrir íbúðarhúsnæði frekar en að kaupa súkkulaði sem nóg væri af á trjánum ekki satt mamma?
Já en hvað með það?
Jú sjáðu til mamma, ef að peningamagnið í umferð eykst um fimmtán í hverri ferð kaupmannsins og það er kannski tíu kaupmenn að fara í ferðir á hverjum tíma þá eykst peningamagnið um hundrað og fimmtíu á hverjum tíma. Samkvæmt því sem pabbi segir ættu peningarnir því að lækka í verði eftir því sem meira verður af þeim.
Og það er líka satt hjá honum pabba þínum, við höfum meira að segja orð yfir það og það er verðbólga.
Verðbólga? Það hljómar eins og sjúkdómur, svona eins og lungnabólga ojbarasta.
Jæja lambið mitt leyfðu mér nú aðeins að útskýra fyrir þér. Peningar eru ekkert annað en mælikvarði á verðmæti. Sjáðu til, í dæminu okkar um kaupmanninn þá kostaði hundrað peninga að fara í verslunarferð og það gaf af sér fimmtán peninga. Ef að mikið er til af þessum peningum þá verða þeir vissulega verðminni eins og pabbi þinn hefur bent þér á en það kostar það sama að kaupa vörurnar í útlandinu. Segjum sem svo að kaupmaðurinn hafi keypt tíu teppi í fyrstu verslunarferðinni fyrir fimmtíu peninga. Heima hefði hann getað keypt hundrað kindur fyrir þessa sömu peninga. En heima fyrir, vegna aukins peningamagns í umferð vegna hagvaxtarins, þá getur hann einungis keypt sjötíu kindur nú fyrir fimmtíu peninga. Þetta breytir engu fyrir útlenda sölumanninn sem vill selja teppin, hann vill enn fá það sem samsvarar hundrað kindum og því fer hann nú fram á sjötíu peninga kaupmannsins okkar í stað fimmtíu áður; þetta elsku lambið mitt er kallað gengisfall peninganna.
Já mamma, ég skil, og gengisfall peninganna orsakaðist af auknu peningamagni í umferð í raun af hagvextinum?
Já það lítur út fyrir það lambið mitt. Raunveruleg verðmæti breytast ekki þó að hagvöxtur verði í einhverju hagkerfi.
En mamma við erum alveg búin að gleyma upphaflega gamla kaupmanninum, hann er búinn að taka vexti allan tímann og átt sinn þátt í verðbólgunni með því.
Já nú skilurðu elskan mín að vextir eru ekkert annað en hin hliðin á verðrýrnun gjaldmiðils. Við það eitt að gamli maðurinn tók fimm prósent í vexti jók það peningamagnið í umferð um fimm prósent og þar með verðbólguna um fimm prósent. Það er okkur mikil ógæfa, lambið mitt, að æðstu stjórnendur peningamála í okkar hagkerfi hafa ekki áttað sig á þessu. Þeir tala um verðbólgumarkmið og setja sér að halda verðbólgu lágri með því að hækka vexti en skilja ekki að háir vextir kalla á háa verðbólgu og öfugt.
En nú þurfum við lambið mitt að fara að útbúa í matinn, hann pabbi þinn fer að koma heim úr vinnunni og ekki trufla hann með spurningum hann hefur haft svo erfiðan dag í Seðlabankanum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
af hverju er himinninn blár(aravísur)
Bernharð Hjaltalín, 20.2.2009 kl. 04:32
Fæst orð hafa minnsta ábyrgð.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 20.2.2009 kl. 10:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.