Þegiðu bara og borgaðu.
16.2.2009 | 18:13
Snemma árs 2008 viðraði ég þær áhyggjur mínar við alþingismenn að í það stefndi að miklar skuldafjárhæðir legðust á ríkissjóð vegna stóru bankanna þriggja. Það sem var í fyrirrúmi hjá mér var spurningin:
Hvers vegna á ríkissjóður að standa í ábyrgðum fyrir einkafyrirtæki?
Ég fékk fáránleg svör frá Ágústi Ólafi varaformanni Samfylkingarinnar (sjá bloggfærslu frá 26.1.2009), ekkert svar fékk ég frá Ögmundi Jónassyni þingflokksformanni VG enda sendi ég honum ekki beina fyrirspurn heldur skrifaða grein er lýsti áhyggjum mínum og birti Ögmundur þá grein á heimasíðu sinni.
Nú þegar allt fór á versta veg og áhyggjur mínar reyndust réttmætar eru menn að fara yfir sviðið og kanna hvað fór úrskeiðis. Ágæt skýrsla þeirra Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega lýsir skorinort því er gerðist og hvað betur hefði mátt fara. Það er eitt atriði sem ég ætla að draga út og vekja enn og aftur athygli á en það er:
Hvers vegna á ríkissjóður að standa í ábyrgðum fyrir einkafyrirtæki?
Það er eins og menn annaðhvort geti ekki eða hreinlega neiti að svara þessari einföldu spurningu. Ég ætla að leifa mér að vitna í ofannefnda skýrslu hagfræðinganna:
Heimild til að opna innistæðureikninga í tilviki Icesave sýnir að misbrestir eru í
ákvarðanatökuferli eftirlitsaðila á Íslandi og í viðkomandi löndum, Bretland og Holland,
og í reglugerðum ESB/EES. Eftirlitsaðilum í löndunum þremur hefði mátt vera ljósar
hætturnar og áttu að bregðast við til að hindra hina öru útþenslu Icesave. Þegar upp er
staðið var það eftirlitið sem brást. Sú hugmynd að þjóð með 300.000 íbúa geti borið
ábyrgð á innlánatryggingu af þeirri stærðargráðu sem innlán Icesave fólu í sér er
fjarstæðukennd.
Hér þarf að kafa dýpra en svo að sætta sig við það svar að reglur og samningar kveði á um að ... Hvers vegna er ætlast til þess að ríkissjóður í því landi sem einkabanki á sér höfuðstöðvar sé bakhjarl þessa einkabanka? Hver vegna? Hvaða réttlæting er fyrir því? Ef að um ríkisbanka væri að ræða gildir öðru máli en - einkafyrirtæki? Af hverju á ég að sætta mig við, sem skattborgari, að greiða fyrir eitthvað sem einkaaðilar stóðu fyrir og mökuðu krókinn á í leiðinni? Getur einhver sagt mér það? Það virðist ekki vera að neinn geti svarað fyrir þetta atriði og hef ég vissu fyrir að líkt gildir um sömu spurningu borna upp af borgara annars lands. Það er búið að lauma þessum átkvæðum inn í reglufrumskóg fjármálkerfis landanna án samþykkis og almennrar vitundar borgaranna og er þetta, eins og ég hef bent á áður í mínum skrifum hér, einskonar þegjandi samkomulag fjármagnseigenda og stjórnmálaafla en á sér í raun enga lagalega stoð. Ég vil benda á 77. grein Stjórnarskrár íslenska lýðveldisins, en þar segir:
77. grein
Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.
Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.
Sömuleiðis vil ég benda á athyglisverðan punkt í opnu bréfi Ingimundar Friðrikssonar fyrrverandi Seðlabankastjóra um aðdraganda hruns íslenska fjármálakerfisins. Þar talar Ingimundur m.a. um það regluverk er gildi innan EES svæðisins varðandi tryggingar innlána og eftirlit og segir svo orðrétt:
Þær[reglurnar] kváðu á um að stjórnvöld skyldu koma á slíku kerfi en ekki er vikið að ábyrgð stjórnvalda á skuldbindingum þess og alls ekki í kerfisáfalli. Um það vitna opinber gögn stofnana í Evrópusambandinu.(feitletrun mín).
Það er sem sagt eitthvað málum blandið hvort ríkið eigi að bera ábyrgð á starfsemi bankanna, og því spyr ég enn og aftur: Af hverju á ríkissjóður að gangast í ábyrgðir fyrir einkafyrirtæki?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þörf athugasemd. Hvar fást svör við þessu? Er verið að lauma svona reglugerðum inn bakdyramegin?
Davíð Löve., 16.2.2009 kl. 19:26
Til upplýsingar þá eru lögin um Tryggingarsjóð innstæðueigenda hér. Sjóðurinn er fjármagnaður með gjaldi sem bankarnir greiða og nemur 1% af innlánum. Það er augljóslega allt of lítið í bankakerfi okkar þar sem eru fáir og hlutfallslega stórir bankar, tala nú ekki um þegar þeir eru farnir að sækja til útlanda. Að mínu mati var morgunljóst að sjóðurinn og/eða Seðlabankinn og/eða FME hefðu átt að grípa inn þróunina fyrir löngu, en það voru allir sofandi á verðinum.
En það er gott að muna að ábyrgð ríkisins nær aðeins til Tryggingasjóðs innstæðueigenda, ekki almennra krafna í þrotabú bankanna. Tap þeirra krafna lendir á lánardrottnum bankanna, ekki skattborgurum.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 16.2.2009 kl. 20:22
Rétt er það Vilhjálmur að einungis er verið að tala um innistæðutryggingar, en ábyrgðir fyrir innistæðum sem í stefnir að lenda munu á íslenska ríkinu bara vegna Icesave og Edge hljóða upp á 540 milljarða og hugsanlegt að eignir sem vegi upp á móti séu um 320 milljarðar sem gerir nettó skuld upp á 220 milljarða (tölur frá Tryggva Þór Herbertssyni hagfræðiprófessor). Þetta er bara vegna tveggja einkafyrirtækja. Svona til samanburðar eru allar erlendar skuldir heimilanna í landinu í dag um 156 milljarðar (tala frá Haraldi Haraldssyni hagfræðingi). Þess má svo geta að þessar skuldir verða ekki greiddar í íslenskum krónum sem gerir dæmið bara verra.Síðan á eftir að taka vaxtakostnað inn í dæmið.
Allavega hvernig sem dæmið er reiknað þá lítur út fyrir að stórar fjárhæðir lendi á ríkissjóði og spurningin stendur því en: Af hverju á íslenska ríkið, íslenskir skattgreiðendur, að gangast í ábyrgð fyrir einkafyrirtæki? Hvar er sú samþykkt frá Alþingi eða annarri stofnun, er skuldsett geti ríkið, fyrir slíku?
Þór Ludwig Stiefel TORA, 17.2.2009 kl. 00:23
Íslenska ríkið á að sjálfsögðu ekki að gangast í quasi-sósíalískar ábyrgðir fyrir einkafyrirtæki. Að minnsta kosti ekki samkvæmt almennri skynsemi eða ráðandi skoðunum og vald ríkisstjórnarinnar til slíks a.m.k. hvað varðar erlendar skuldir kemur í raun hvergi skýrt fram -- því ólíkt 21. grein þá segir 40. grein ekkert um erlenda samninga eða lán (en ekki er kleift að taka lán án lánasamnings).
Í fyrsta lagi er hluti af vandamálinu viðhorf stjórnvalda til þess hvaða vald framkvæmdavaldið hefur eða hefur ekki, en allir embættismenn og stofnanir innan ríkisins fá vald sitt úr stjórnarskránni. En í stað þess að túlka stjórnarskránna þröngt (eins og flestir lýðveldisfrömuðir ráðleggja) og taka sér aðeins það vald sem þeim er þar gefið hefur það verið túlkað þannig að allt sem er ekki hreinlega bókstaflega og ófrávíkjanlega bannað samkvæmt stjórnarskránni er leyfilegt og ýmsar æfingar jafnframt stundaðar á túlkun hennar til að færa til vald frá t.a.m. forseta til ráðherra - umfram það sem stjórnarskráin segir fyrir um. Þessu hefur því miður verið leyft að viðgangast að svo gengdarlausu marki að flestir innvígðir eru hættir að kippa sér upp við þetta. Þetta er engu að síður stjórnskipunarlega rangt og samræmist ekki hugmyndum réttarríkisins.
En aftur að valdi til að binda skattgreiðendur. Eins og ég útskýrði í pistli um samningaréttinn á blogginu mínu nýlega þá fer eignatilfærsla ekki fram öðruvísi en með samningum eða sambærilegum löggerningum - hvort sem það er kaupsamningur, launasamningur, lánasamningur, veð, gjöf, arfur o.s.frv. hvort heldur sem er munnleg eða skrifleg. Sama gildir um þjóðir og einstaklinga - þar skal skuldbindingum um greiðslur og réttindi skipað með samningum.
Einungis forseti hefur skýlausan rétt samkvæmt stjórnarskrá til þess að gera erlenda samninga fyrir hönd þjóðarinnar (skattgreiðenda)
Því miður virðist þetta þýða í almennri túlkun (nb. lýðræðislegra og stjórnskipunarlega rangri að minu mat) að ráðherrar hafi skv. 21 gr. í raun vald til að binda þjóðina.
En það er engu að síður mín skoðun að ráðherrar geta ekki fengið í hendur sínar vald sem sérstaklega og ótvírætt er tekið fram í æðstu lögum að sé forsetans, með lögskýringaæfingum á borð við þær sem hafa verið notaðar til að túlka nær allt hans vald upp í hendurnar á forsætisráðherra (sjá nánar umfjöllun um vald forseta á vala.blog.is). Að auki, skyldu þeir taka sér slíkt stjórnarskrárvald, ætti þar hvergi að víkja frá kvöðum um ráðherraábyrgð heldur ætti slíkri ábyrgð að fylgja strangari kvaðir ef eitthvað er.
Athyglisvert er að í fyrirtækjarétti BNA er það oft leyst þannig að þegar aðilar taka sér vald til að skuldbinda marga (s.s. framtíðarhluthafa) án heimildar þá verða lyktir málsins þannig að þeir binda í raun bara sjálfa sig. Þ.e.a.s. stofnandnn sem skrifaði undir í heimildaleysi fyrir hönd þá óstofnaðs fyrirtækis gengst sjálfur í persónulega ábyrgð. Ég er ekki að koma með neinar tillögur hérna þetta er bara áhugaverður samanburður.
Það er líka áhugavert að þarna í 21. grein er minnst á "kvaðir á landi" því að hægt er að túlka það sem veð á borð við þau sem tekin eru í fasteignum - frekar en að hér um ræði beinlínis mold og drullu - og hvað eru stjórnvöld að gera annað en að gefa erlendum aðilum veð í skattgreiðendum og eignum þeirra með því að skrifa upp á þessa skuldabagga? Það má því í ofanálag efast um að Alþingi hafi komið nægilega að þessu máli skv. 21 grein.
Annars veit ég ekki hversu ráðlegt það væri að undirstrika vald forseta til að binda þjóðina á alþjóðavettvangi eftir allar þær yfirlýsingar sem frá honum hafa komið undanfarið - en þó, hann hefur gefið margoft sterkt í skyn að við séum ekki að fara að borga alla fjárglæfrastarfsemina þannig kannski það væri bara betra ef honum væri leyft að sjá um þetta? Eða halda því bara fram að forseti sé búin að binda okkur munnlega til að borga ekki neitt og láta þar við sitja? Það stendur enda ekki í stjórnarskránni að forseti verði að gera þessa samninga skriflega eða undirritaða.
Það má vel um þetta deila en ég tel að skattgreiðendur eigi rétt til þess hið minnsta að þurfa ekki að borga neinar skuldir eða skatta nema til þeirra sé stofnað á skýrum stjórnarskrárlegum grundvelli, því hin sama stjórnarskrá verndar jú eignarrétt þeirra. Án slíks grundvölls ættu því allar slíkar tilraunir ómerkar - a.m.k. í ríkjum þar sem stjórnarskráin er ekki bara skúffuskraut.
Valan, 17.2.2009 kl. 12:16
Já Vala þú hittir algerlega naglann á höfuðið og Davíð það er einmitt verið að lauma þessu inn bakdyramegin. Það sem raunverulega er að gerast hér er að verið er að tryggja lánadrottna en ekki innistæðueigendur. Með neyðarlögunum svo kölluðu var krafa innistæðueigenda sett sem forgangskrafa á aðrar kröfur (hugsanlega hæpið út frá stjórnarskrá og öðrum lögum að mismuna kröfuhöfum en nóg um það í bili). Síðan hefur komið í ljós að skuld vegna Icesave er um 500 milljarðar og sagt að eignir á móti séu um 320 milljarðar! (fróðlegt verður að fá á hreint hvað varð um mismuninn) Ef að innistæðukröfur hafa forgang á allar aðrar kröfur þá á að selja ALLAR eignir gamla Landsbankans til að eiga fyrir kröfunum áður en aðrar kröfur eru borgaðar og ef að einungis eru til eignir á móti upp á 320 milljarða þá eru það heildareignir gamla Landsbankans. Í dag er erfitt fyrir utanaðkomandi að meta allar eignir gamla Landsbankans en mjög er ólíklegt að þær séu einungis 320 milljarðar. Þannig að verið er að setja á ríkið um 200 milljarða skuldaábyrgð - til hvers - til að tryggja að lánadrottnar gamla Landsbankans fái eitthvað upp í kröfur því að allar aðrar eigur gamla bankans munu væntanlega ganga upp í þær! Það er m.ö.o. verið að láta íslenska skattgreiðendur borga erlendum lánadrottnum gamla Landsbankans og líkt er farið með hina bankana.
Það er engum blöðum um það að fletta að, hvernig sem á málið er litið, þá er ALLTAF seilst í vasa lítilmagnans - skattborgarans - vaxtagreiðandans - neytandans á endanum. Það var fróðlegt á opnum borgarafundi í gærkveldi í Háskólabíói að fylgjast með erindi ákveðins læknis er hann fór yfir það hvað var að gerast að hans áliti. Hann benti skorinort á að bankarnir - einkafyrirtækin - voru reknir með tapi og endurfjárfestingar þeirra voru einungis 70% af því sem þeir fengu inn , annað var tekið út úr rekstrinum í formi arðgreiðslna eða notað í reksturinn. Málið var, sagði læknirinn réttilega, að skekkja ársreikninga með svokallaðri "goodwill" eignamyndun til að hylma yfir þann raunverulega taprekstur sem var í gangi. Síðan var dæmið að láta allt fljóta sem lengst með auknum lántökum út á falskar "goodwill"-eignir og skjóta eins miklu undan á meðan skipið hélst á floti og stinga svo af og láta svo aðra borga brúsann eða sitja uppi með tapið!
Ég get sætt mig við að þeir sem fjárfestu í þessari svikamyllu sitji uppi með tapið og geti farið dómstólaleiðina í að reyna að fá endurheimtir vegna sviksamlegra viðskiptahátta (menn taka jú áhættu með hlutabréfakaupum) - en ég get ekki sætt mig við að ríkissjóði sé á einhvern hátt skylt að sitja uppi með ábyrgðir einkafyrirtækja af nokkru tagi.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 17.2.2009 kl. 13:31
Athyglisverð umræða.
Villi Asgeirsson, 17.2.2009 kl. 20:26
Get ég sem Íslenskur þegn, lagt fram kæru sem byggir á áðurgreindum atriðum, þ.e. ríkið hafi án heimildar skuldsett mig til og stefnt mannréttindum mínum í hættu ?
Hjalti Tómasson, 18.2.2009 kl. 11:48
Það er spurning Hjalti hvern ætti að kæra. Það sem ég vil sjá er að farið sé í saumana á því hvaða alþingismenn berir ábyrgð á því að hafa sett ríkissjóð í ófyrirséðar ábyrgðir fyrir einkafyrirtæki - það eru einhverjir alþingismenn og ráðherrar sem bera ábyrgð á því. Síðan má draga þá aðila til ábyrgðar og kæra. Málið strandar einungis á því að í dag er að störfum rannsóknarnefnd á vegum Alþingis og nokkuð augljóst að hún mun ekki finna sök hjá Alþingi; samtryggingin sér um það. Þetta er sama vandamálið og þegar lögreglan er að rannsaka ásakanir á hendur sjálfri sér. Auðvitað þarf að setja hér á óháða rannsóknarnefnd, helst með erlendum aðilum sem vit hafa á stjórnsýslu, til að fara yfir málið.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 18.2.2009 kl. 12:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.