Ef ég væri forsætisráðherra.

 

 

Ef ég væri forsætisráðherra, með ótakmörkuð völd, hvað myndi ég gera nú?

Ég held að öllum væri hollt nú að spyrja sig þessarar spurningar og reyna sig við að svara. Hvað myndi ég gera?

Það er nú flestum að verða ljóst að tiltölulega fáir eiga sök á efnahagshruni því er við stöndum frammi fyrir. Það kerfi er við höfum búið við er hrunið og augljóst öllum sem það vilja sjá að ekki verður um neina endurreisn að ræða heldur verður að skapa nýtt fjármálkerfi frá grunni og það gildir ekki bara á Íslandi.

Það sem aflaga hefur farið á sér eina orsök og hún er samþjöppun fjármagns og valds. Þessi þróun var fyrirséð af mörgum vegna þess að var innbyggð í fjármálakerfið. Það eina sem hægt er að gera er að snúa þessari þróun við og það verður ekki gert með tilmælum eða með því að höfða til góðra kennda – það þarf valdboð til.

 

Ég myndi tafarlaust kalla þá sem stjórnuðu stærstu bönkunum og aðra er stærstan þátt áttu í hinni svokölluðu útrás til yfirheyrslu fyrir viðskiptanefnd Alþingis. Í kjölfarið myndi ég láta þá aðila, sem þurfa þykir, fá réttarstöðu sakbornings og hugsanlega frysta þeirra persónulegu eigur. Ég myndi fyrirskipa skattstjóra að rannsaka viðskipti Íslendinga í svokölluðum skattaskjólum og höfða til allra að gera hreint fyrir sínum dyrum er það varðar að viðurlagðri harðri refsingu og upptöku eigna.

 

Ég myndi krefjast þess að innan einnar viku myndi sérskipaður saksóknari svara því: - Hvað varð um alla fjármunina? Peningar hverfa bara ekki. Því næst myndi ég nota þær niðurstöður sem fengjust með yfirheyrslum, rannsókn skattstjóra og saksóknara, ef að tilefni er til, til að höfða mál og, eftir atvikum, láta menn sæta refsingum með fangelsisvistun og  eignaupptöku eða sektum. Einnig myndi ég kalla á tafarlausar niðurstöður sérstakrar rannsóknarnefndar þingsins strax og hugsanlega auka umboð þeirrar nefndar eða breyta lagaákvæðum þannig að nefndin gæti skilað endanlegum niðurstöðum innan mánaðar. Ef að satt reynist að efnahagsbrotadeild situr aðgerðalaus þá þarf tafarlaust að bæta úr því, annað hvort með nýrri stjórn eða auknu umboði.

 

Miklar líkur virðast á að ákveðnir aðilar hafi stungið undan svo stórum upphæðum að það eitt og sér hafi átt veigamikinn þátt í bankahruninu og gæti innheimting slíkra upphæða í ríkiskassann skipt miklu fyrir ríkissjóð og þjóðarbúið.

 

Ég myndi innkalla allan kvóta, tengja hann við landsfjórðunga og innheimta leigugjald sem bæjarfélög viðkomandi fjórðungs fengju til ráðstöfunar. Leiga væri mishá eftir fullvinnslu afla innanlands þannig að leiga fyrir kvóta sem fullunninn yrði innanlands yrði lægri en annars.

 

Ef að líkum lætur myndu þessar aðgerðir rétta af ríkissjóð og myndi ég þá setja fé í framkvæmdir til að koma lífi í atvinnulífið. Ráðast strax í gerð Sundabrautar og tvöföldun Suðurlandsvegar milli Reykjavíkur og Selfoss. Sveitarfélög ættu svo með kvótatekjum að geta farið í staðbundnar framkvæmdir. Til að létta á með fyrirtækjum og heimilum myndi ég láta lækka raforkukostnað um 10 – 20%.

 

Samfara þessu myndi ég láta íbúðarlánasjóð taka yfir íbúðarlán einstaklinga til að tryggja að fólk yrði ekki borið út úr eigin húsnæði. Bjóða þarf fólki að íbúðarlánasjóður taki yfir íbúðarhúsnæði þess og fólk geti svo leigt áfram af íbúðarlánasjóði og hafi óskoraðan rétt til að búa í húsnæðinu og hafi forkaupsrétt á því. Gæta verður sanngirnis og réttlætis í þessu þannig að tryggt sé að ekki sé verið að hjálpa þeim er reistu sér óhófshallir heldur á markmiðið að vera að tryggja öllum íbúðarhúsnæði. Hægt væri að miða við þak á fermetrafjölda og verð á einstakling sem Íbúðarlánasjóður tæki yfir.

 

Þetta er svona það sem ég myndi gera á fyrstu vikunni, seinna myndi ég svo leggja áherslu á að finna þá sem sök eiga á ástandinu pólitískt og láta þá svara til saka fyrir það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Tómasson

Í framboð, strax !

Ég pant vera dómsmálaráðherra

Hjalti Tómasson, 16.2.2009 kl. 12:27

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ef allt þetta kæmist í framkvæmd, væri framtíðin björt.

Villi Asgeirsson, 17.2.2009 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband