Að fljóta sofandi að feigðarósi.

 

Þegar ég var ungur og saklaus las ég mér oft til skemmtunar teiknimyndasögur um Lukku nokkurn Láka. Þar var á ferðinni kúreki nokkur sem skjótari var en skugginn sinn að skjóta. Ein er sú saga er mér er minnisstæðari en aðrar um Láka en það er sagan um Nefjólana og Eyrnalangana. Þetta voru svona sveitalúðar í vestrinu sem hötuðust hvorir út í aðra og voru fyrir löngu búnir að gleyma út af hverju. Þeir bara þoldu ekki hvorir aðra. Engin rök, engar ástæður, það var bara eins og þeir þrifust á þrasi og best leið þeim ef að þeirra litla egó gat á einhvern hátt fundið sér fróun í því að niðurlægja andstæðinginn.

 

Jæja, þrjátíuogeitthvað árum síðar er ég að upplifa þessa sögu þar sem ég er staddur mitt í atburðarásinni. Þetta, verð ég að segja, er ótrúlega óþægileg – hræðileg – veruleikatilfinning. Við erum stödd í alvarlegustu kreppu í manna minnum og það sem ber hæst er þrasið í Nefjólunum og Eyrnasneplunum um eigið ágæti og hinna fágæti. Sandkassinn er sandlaus að verða vegna sandkasts miður viturra manna á Alþingi sem og annarsstaðar í þjóðfélaginu. Akkúrat núna þegar við þurfum að nota kraftana í eitthvað uppbyggilegt eru nánast allar tillögur slegnar út af borðinu vegna gruns um flokkspólitíska undirlægju. Og hér þrasa men og þrátta um keisarans skegg og sjá ekki að þar stendur hann nakinn – hvílík eymd!

 

Skútan er að sökkva og Nefjólar og Eyrnalangir þessa lands tuða sem aldrei fyrr. Að koma höggi á pólitískan andstæðing er mikilvægara en að koma með tillögur til úrbóta. Framapotarar eru komnir í kosningaham og trúa því greinilega einlægt að kerfið geti gengið áfram eins og áður, maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta.

 

Hvernig væri nú að vakna kæru landar? Þetta hægri – vinstri kjaftæði, þessi fjórflokka pólitík ER LIÐIN UNDIR LOK. Henni lauk með efnahagshruninu og það eru liðnir upp nýir tímar. Þetta er ekki tími vonbiðla með alþingismann í maganum til að koma sér að. Þetta er tími til að afnema eiginhagsmuni og vinna að heildarhagsmunum, reynið að skilja það. Ef að þið gerið það ekki sökkvum við öll með manni og mús.

 

Vaknið nú, hættið að spóla í sama hjólfarinu og förum að vinna saman að því að sigla þjóðarskútunni. Við erum ein stór familí og förum að hegða okkur á ábyrgan hátt, nóg er nú komið af bullinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Mikið rétt hjá þér. Pólitíska taflborðið er orðin hindrun á úrbætum.

Offari, 12.2.2009 kl. 09:33

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vel mælt hjá þér Þór.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.2.2009 kl. 12:57

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Skýr og skorinort lýsing á ástandinu

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 12.2.2009 kl. 13:20

4 Smámynd: Hjalti Tómasson

Vel mælt

Hjalti Tómasson, 13.2.2009 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband