Uppgjör og ný hugsun

 

Nú stöndum við Íslendingar frammi fyrir óhjákvæmilegu uppgjöri. Margir eru hálf dofnir og skilja hvorki upp né niður í því hvað gerðist eiginlega, né hvernig. Sumir neita einfaldlega að horfast í augu við ástandið og enn aðrir geta það einfaldlega ekki. Ég hef heyrt að sumum finnist ekki tímabært nú að kalla eftir stjórnlagaþingi eða einhverju því um líku á þessari stundu, nú eigi að einbeita sér að því að endurreisa efnahaginn og síðan megi snúa sér að því að endurgera stjórnarskránna. Þetta viðhorf, ætla ég að fullyrða, ber í sér rótina að þeim vanda sem við eigum við að stríða og allar aðgerðir sem við grípum til, á meðan stjórnunarhættir eru hér samir og áður, munu ekki vera neitt annað en plástur á sárið.

 

Það sem fór úrskeiðis, og það ekki bara hér á Íslandi, orsakaðist af samþjöppun. Samþjöppun valds – samþjöppun fjármagns. Mun merkari menn en ég hafa bent á þennan innbyggða sjálfseyðingarþátt þess kerfis er við búum við og hefur verið nefndur kapítalismi. Nú er því ekki bara lag heldur nauðsyn að fara rækilega í saumana á því hvaða kerfi við búum við og hvaða kerfi við viljum búa við. Því miður hefur fólki verið haldið í gíslingu vanþekkingar þegar kemur að öðru fyrirkomulagi en því sem nú er ríkjandi og eru mín skrif hér ætluð sem tilraun til að bæta úr því.

 

Ég ætla að byrja á því að leggja höfuð áherslu á að ekki er til neitt sem heitir “frjáls markaður” en eins og flestum ætti að vera kunnugt byggir efnahagskerfi heimsins á þeirri forsendu að hinn frjálsi markaður sjái til þess að takmörkuðum auðlindum sé best varið í höndum hins frjálsa markaðar. Þessi kenning stemmir frá hagfræðingnum og heimspekingnum Adam Smith og hefur stundum verið kennd við hina ósýnilegu hönd. Í stuttu máli gengur hún út á það að í frjálsri samkeppni beinist viðskipti til þess aðila á markaðnum sem á hagstæðastan hátt sinnir sínum rekstri og þar með nýtist hinar takmörkuðu auðlindir best fyrir fjöldann veri það vinnuafl, fjármagn, jarðnæði eða hrávara, jafnvel þó að hver og einn aðili á markaðnum vinni í hreinni eigingirni. Þessi kenning er góð svo langt sem hún nær en þetta er kenning sem ekki fær staðist í raunveruleikanum. Á henni eru þeir annmarkar að hin ósýnilega hönd virkar ekki nema á því sem kallað er í hagfræðunum algerlega frjáls markaður og hann góðir hálsar fyrirfinnst ekki. Um þetta eru hagræðingar algerlega sammála um og þarf ekki hagfræðing til að sjá. Frjáls markaður er í besta falli útópískt markmið sem beri að stefna að en að byggja samfélagsstrúktúr á slíku er blekking ein. Blekking til þess fallinn að réttlæta auðsöfnun og þar með vald.

Nú höfum við búið við það hér á vesturlöndum alveg frá Thatcherismanum að nánast allri starfsemi samfélagsins væri betur borgið í höndum einkaaðila vegna þess að markaðurinn sæi til þess að auðlindunum væri best borgið á þann hátt. Þessu var haldið fram af krafti samhliða hruni kommúnismans í austur-Evrópu og á það hrun bent sem staðfestingu á yfirburði hins “frjálsa” markaðshagkerfis. Eftirmálann þekkja svo flestir – einkavæðing.

 

Við Íslendingar erum nú að sjá hvílíkar hörmungar afleiðingar þessi einkavæðing og hin svokallaða “laizzes faire” (fra.: látum vera)  stjórnunarstefna hefur á samfélagið. Jafnvel harðir sjálfstæðismenn eru nú farnir að láta í sér heyra og segja að stjórnarstefna undanfarinna ára og áratuga hafi verið mistök. Menn eru sem sagt farnir að átta sig á því að það þarf að stjórna markaðnum og ég get ekki undirstrikað það nóg hversu mikilvægt þetta atriði er! Þetta þýðir, með öðrum orðum, að samfélagið sem heild, sem aðili, þarf að ákveða hvernig markaðurinn vinnur; hin ósýnilega hönd er ófær um það. Ef að það er rétt þá er, að sjálfsögðu, alveg eins hægt að segja að samfélagið sem heild eigi að starfa á markaðnum, á því er jú einungis stigs munur en ekki eðlis. Það er hægt að orða þetta á þennan hátt: Ef bankar geti ekki starfað á markaði án ríkisafskipta þá geta bankar rétt eins verið ríkisbankar; ef fyrirtæki á markaði verða að starfa undir eftirliti samfélagsins (ríkisins) þá er hugsanlega eðlilegra að fara alla leið og reka þessi sömu fyrirtæki einfaldlega á samfélagslegum forsendum. Það stórkostlega í þessu efnahagshruni sem við erum að upplifa nú og það ekki einungis hér á landi, er að menn eru að átta sig á að hinum takmörkuðu auðlindum er ekki betur komið í höndunum á einkaaðilum og það er nauðsynlegt að samfélagið, ríkið, sé í raun með yfirhöndina í því hvernig auðlindunum best verður varið.

 

Þá stöndum við frammi fyrir þeim vanda er kommúnistastjórnir austur-Evrópu lentu í og við þekkjum svo sem hér á landi en það er spilling. Ég undraði mig oft á þeirri mótsögn að stjórnmálamenn á Íslandi börðust margir hverjir hatrammri baráttu gegn ríkisrekstri af þeirri aðalástæðu að stjórnálamönnum væri ekki treystandi fyrir rekstri ríkisfyrirtækja. Það má hugsanlega til sanns vegar færa en hvernig staðið er að stjórnun ríkisfyrirtækja er annað mál en spurningin um ríkisfyrirtæki eður ei. Í stað þess að kasta hugmyndinni um ríkisfyrirtæki fyrir róða vegna þess að þau voru svo illa rekin væri allt eins eðlilegt að fara að reka þau betur. Af hverju getur ríkið ekki sem eignaraðili gert sömu kröfur um góðan rekstur og einkaaðili? Síðan hefur það jú sýnt sig hér á Íslandi, sem og víðar, að stór hluti fyrirtækja er ansi illa rekin, eins og met taprekstur sýnir óneytanlega fram á. Í hlutafélögum er kosin stjórn sem síðan ræður stjórnunarteymi; þetta form getur að sjálfsögðu átt beint við ríkisfyrirtæki. Að einhverju leiti var þessi háttur á, en þar kom að í þessar stjórnir réðust flokksgæðingar og spillingin raktist upp frá því. Meinið í okkar kerfi var því flokkakerfið sem rekja má til kosningakerfisins - og því, kæru hálsar, er það nauðsynlegt nú – ekki gæluverkefni – að losa okkur við flokkakerfið; það sem kallað hefur verið fjórflokkurinn á Íslandi.

 

Það er forsenda allrar uppbyggingar á Íslandi að auka vægi almennings í almennri stjórnun samfélagsins og taka hana úr höndum atvinnustjórnmálamanna. Ekki með því að afhenda þessa stjórnun einkaaðilum á markaði heldur með beinni ákvarðanatöku almennings. Nú kemur aftur að uppfræðslu og skilyrðingu kynslóðanna. Ég hef orðið var við að margir eiga einfaldlega erfitt með að hugsa sér að hægt sé að koma á nýju stjórnkerfi. Fjöldinn allur trúir því að núverandi kerfi sé best einfaldlega vegna þess að núverandi kerfi er núverandi kerfi. Þetta er hin svokallaða dýragarðshugsun og henni er erfitt að breyta og tekur í raun kynslóð. Þess vegna töluðu mætir menn um byltingu og tímabundið alræði; alræði sem væri svo vand með farið að ólíklegt væri að byltingin tækist sem og varð raunin. Við stöndum því frammi fyrir því að reyna í staðinn að breyta samfélagsstrúktúrnum í skrefum. Það þarf að venja fólk við þá tilhugsun að þetta kerfi sem við búum við er ekki náttúrulögmál heldur mannanna verk og sem slíkt bæði gallað og breytanlegt. Það þarf að kenna fólki að lifa í lýðræði og það þarf að ala fólk upp í því að segja skoðun sína. Ekkert af þessu er í lagi í dag. Allt og margir eru vanir því að láta taka fyrir sig ákvarðanir og allt of margir treysta á “sérfræðingaveldið” sem er ekkert annað en stjórntæki ráðandi afla í samfélaginu; tæki til að fá fólk til að hlíta ákveðnum vilja.

 

Ég tel því að eftirfarandi tvær tillögur séu raunhæfur kostur sem breytingar á íslenskri stjórnskipan og það innan skamms tímaramma.

 

1) Mér virðist sú lausn að gera þjóðaratkvæðagreiðslur veigameiri í íslenskri stjórnsýslu vera leiðin sem beri að fara. Það myndi venja fólk við þá hugsun að það bæri sjálft ábyrgð og þeirra skoðun væri ekki verri en hinna svokölluðu sérfræðinga. Ég vil sjá að ef einn þriðji hluti réttkjörinna Alþingismanna fer fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál þá beri að leggja þau mál fyrir þjóðina. Ég vil einnig sjá að ef tíuþúsund ríkisborgarar fari fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál þá beri að leggja það mál undir þjóðina.

 

2) Ég vil einnig sjá að ráðherrar séu kosnir beint af þjóðinni líkt og forseti er nú. Við eigum að geta valið einstaklinga til að stjórna einstökum ráðuneytum. Menn eiga að bera persónulega ábyrgð á sínum málaflokkum og fólk á að geta tekið afstöðu til verka ákveðinna aðila - ekki flokka.

 

Ég sé þetta einungis sem skref í átt að algeru afnámi fulltrúalýðræðisins sem ég tel vera barn síns tíma og sé að líða undir lok.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Góð pæling.

hilmar jónsson, 11.2.2009 kl. 22:15

2 Smámynd: Hjalti Tómasson

Sammála í meginatriðum nema ég hefði viljað ganga lengra.

a)  Ég vil láta kjósa ákveðna embættismenn, svo sem forstöðumenn ríkisstofnanna eða þá í versta falli láta þá gangast undir hæfnismat við ráðningu. Þó þeir séu flokksbræður eða skyldmenni ráðherra geta þeir verið færir í sínu starfi. Standist þeir hæfnisprór óvilhallrar nefndar eru þeir velkomnir hvað mig varðar. Næsti liður ætti að tryggja að menn starfi eftir eðlilegri forskrift

b) Lögfesta ramma að siðareglum sem hver og einn sem vinnur í almannaþágu er lagaður að og skikkaður til að fylgja. ( þetta á við um alla kjörna fulltrúa okkar ) Það viðrist allavega ekki vera hægt að treysta því að menn þekki sinn vitjunartíma ef upp kemur grunur um eitthvað misjafnt. Það eru ákveðnir þættir eins í starfi allra sem vinna fyrir almenning. Fyrst og fremst snúast þeir með einum eða öðrum þætti um heiðarleika og hlutleysi. Þessa þætti þarf að festa með þeim hætti að ekki sé um túlkunaratriði hvers og eins að ræða í hvert skipti sem ágreiningur eða grunur rís. Ein stétt allavega býr við það í dag að þurfa að víkja tímabundið úr starfi meðan mál eru rannsökuð en það eru lögreglumenn. Af hverju ekki aðrir ?

c) Taka upp millidómsstig ( sem áætlanir voru uppi um ) Allt of mörg mál koma upp sem meiða réttlætiskennd almennings og þó dómstólar eigi umfram allt að vera sjálfstæðir og blindir í réttlæti sínu þá held ég að ljóst sé að mál enda oft eftir því hver persónuleg túlkun dómara er í það og það skiptið. Ef lögum er áfátt þá þarf að laga þau. Eins tel ég ekki fráleitt að ræða hvort sú tegund dómsfars sem hér er við lýði er sú besta ( aðeins lagðir fram skriflegir vitnisburðir osfr.)

Hjalti Tómasson, 12.2.2009 kl. 00:16

3 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Já Hjalti ég er sammála þér að þessar mínar tillögur eru einungis lágmarks- og byrjunarkrafa er varða breytingar á okkar stjórnskipulagi.

Ég viðraði í bloggfærslunni "Um lýðræði" (sjá Janúar 2009) ítarlegar hvernig ég vil sjá íslenska stjórnskipan og þá sem algerlega fulltrúalaust lýðræði. Þar talaði ég um að eðlilegt væri að kosnir væru helstu embættismenn þjóðarinnar eins og dómarar og lögreglustjórar eins og gert er vestanhafs í BNA. Vel má hugsa sér að útfæra þá hugsun þannig að kosið sé um forstjóra ríkisfyrirtækja einnig.

Þú þarft að sannfæra mig betur um að tilkoma millidómsstigs muni bæta réttarstöðu. Ég held að það eitt og sér að dómarar þurfi að leggja störf sín undir dóm kjósenda sé það aðhald sem vanti til að dómarar sinni sínu starfi af fullkominni réttvísi og hlutleysi.

Varðandi lið b) sem þú nefnir þá get ég ekki verið meira sammála. Ég vil þó segja að oft eru til staðar siðareglur, reglugerðir og lög sem taka á þessu en þau virka ekki vegna þess að aðhald hins almenna borgara og áhrif eru eins takmörkuð og raun ber vitni. Svo er þetta með lögregluna - ef lögreglan brýtur af sér í starfi - hver á að rannsaka það?

Þór Ludwig Stiefel TORA, 12.2.2009 kl. 06:47

4 Smámynd: Offari

Ég tel að ríkisvaldið sé ekki fært um að stjórna öllu. Því þá er hætt við að sumt gleymist og annað verði í uppáhaldi. Ég tel að fyrirtækjum sé best komið í smærri einingum með eigaraðild starfsmanna. Stórfyrirtæki hættir til að bola út þeim minni í krafti stærðar. Það er kominn tími til breytinga og óstandið er einmitt tækifæri til að gera slíkar breytingar.  Nýfrjálshyggjan er búinn og tími nýlýðræðisins er kominn.

Offari, 12.2.2009 kl. 10:01

5 Smámynd: Hjalti Tómasson

Ég held að réttarstaðan sem slík sé í lagi. Það sem vantar er að dómstólar komi sér saman um túlkun laganna og samræmi og færi til nútímans, þau gildi sem almennt gilda í samfélaginu. Til dæmis finnst mér athyglisvert misræmi sem gætir í refsigleði dómstóla milli málaflokka. Að menn skuli fá harðari dóma fyrir auðgunarbrot ýmiskonar en tiltölulega væga dóma fyrir að misnota börn eða drepa einhvern ( þess má geta að ef maður ætlar að drepa einhvern þá skiptir meginmáli hvaða vopn maður notar. Ef maður notar bílinn sinn þá fær maður vægari dóm en ef maður notar til að mynda hníf eða byssu og virðist þá ekki skipta máli hvort maður er landsfrægur ökuníðingur sem verið hefur undir mannahöndum aftur og aftur eins og dæmin sanna ) Hvort það lagast með milidómstigi er kannski ekki öruggt en þó tel ég að líkurnar séu meiri á sanngjarnri niðurstöðu mála eftir því sem farið er ítarlegar í málin. Ég hef sjálfur reynt á eigin skinni hvað núverandi kerfi getur gert

Í sambandi við það sem Offari segir:

Ég tel að ríkið eigi tvímælalaust að sinna ákveðinni þjónustu sem ekki á að reka með hagnaðarhugsjónina að leiðarljósi svo sem í heilbrigðiskerfinu og samgöngumálum. Sé ríkinu gert að starfa eftir sömu leikreglum og aðrir sé ég ekkert því til fyrirstöðu að hægt sé að reka þessa málaflokka á eðlilegann hátt.

Hjalti Tómasson, 12.2.2009 kl. 12:29

6 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Já Offari ég ætla ekki að halda því fram að ríkið eigi að vera í öllu eða sé eitt fært um að standa að rekstri - öðru nær. Það sem ég vil meina, hins vegar, er að ríkið eigi fullt erindi í ýmiskonar rekstur og má bæta þar við upptalningu Hjalta t.d. bankastarfsemi sem og alla þá starfsemi sem kalla má nauðsynlega þjóðinni og hagkerfinu. Við gætum nefnt millilandasamgöngur, að sjálfsögðu samskiptarekstur, auðlindanýtingu af öllu tagi og menntastofnanir. Ég er einungis að svara þeirri árás sem ríkisrekstur (per ce) hefur orðið fyrir á undanförnum misserum. Eftir sem áður er að sjálfsögðu nauðsynlegt að ýta undir að einstaklingar geti starfað á eigin forsendum og staðið að rekstri eigin fyrirtækja stórra sem smárra.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 12.2.2009 kl. 15:38

7 Smámynd: Villi Asgeirsson

Er að gera athugasemd löngu eftir að aðrir eru farnir, en hvað um það. Ég er sammála því að fólkið á að hafa mikið meira um málin að segja. Atkvæðagreiðslur um mikilvæg mál eiga að fara fram. Það er liðin tíð að ekki megi minnast á það því þá sé einhver hefð brotin.

Það er óraunhæft að halda 2-3 þjóðaratkvæðagreiðslur á ári með sama hætti og þær eru nú. Tæknin gæti hjálpað við að gera þetta raunhæft. Allir landsmenn með atkvæðisrétt fengju lykil (eða notuðu heimabankalykilinn og kennitölu) og gætu kosið á netinu. Þannig er hægt að kjósa með skömmum fyrirvara og á ódýran hátt.

Villi Asgeirsson, 17.2.2009 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband