Örlítil raunveruleika áminning.
10.2.2009 | 12:37
Það er hægt og rólega að renna upp fyrir mörgum hversu alvarlegt ástand efnahagsmála raunverulega er hér á landi núna. Ég fullyrði að ástandið sé þannig að það muni geta breytt þjóðarsálinni og þetta elskulega, en því miður barnalega, viðhorf: æ það reddast, muni hverfa.
Það kemur ýmislegt gott úr kreppum einnig; þeim fylgir hið óhjákvæmilega uppgjör. Ég sé að nú er þetta leiðindar og langvarandi tuð hafið enn á ný um þennan Davíð Oddson. Það er mér óskiljanlegt hversu mikla aðdáun og foringjafylgni þessi maður hefur en það er samt augljóst að margur hefur beygt af þeirri leið nú er þeir sjá hvaða afleiðingar stjórnmálaþátttaka þess mans hefur haft fyrir Ísland. Það er óumdeilt að Davíð Oddson sat lengst allra annarra íslendinga hingað til sem forsætisráðherra og það er einnig óumdeild að hann stóð fyrir þeirri samfélagsbreytingu sem við nú erum að upplifa á eigin skinni; á eigin efnahag. Ég hef haft samskipti við marga undanfarið sem segjast áður hafa fylgt Davíð en vilji hann nú burt og ég veit að þeim á eftir að fjölga eftir því sem ástandið versnar. Það er engum hollt að sitja of lengi að völdum og það er ekki gott fyrir þjóð að hafa sama leiðtoga of lengi en það gerðist hér. Það er dæmi um spillingu að menn geti komið sér fyrir í stjórnkerfinu og bara setið þar þar til þeir sjálfir vilja fara. Nú eru uppi háværar raddir um að tími Davíðs Oddsonar sé liðin og tími sé kominn til að hann dragi sig í hlé úr íslenskri stjórnsýslu. Fyrir mér eru það nægjanleg rök að maðurinn hafi verið þátttakandi eins lengi og raun ber vitni en hitt er svo ekki veigaminna að Davíð Oddsyni hættir mjög til (svo ekki sé sterkar að orði kveðið) gerræðis. Sömuleiðis er það mörgum augljóst að stjórnun peningamála undir hans forystu, sem formanns seðlabankastjórnar, hafi gersamlega mistekist og ekki þýði fyrir hann að fyrra sig ábyrgð með að vísa til þess að hann hafi varað við ástandinu; mörgum er það ljóst að slíkar fullyrðingar beri vott um tilraun til að bjarga eigin skinni fremur en að þær séu sannleikanum samkvæmar.
Það eru samt einstaklingar í samfélaginu sem hafa nánast trúarlega sannfæringu á ágæti Davíðs Oddsonar og eru tilbúnir að vaða eld og brennistein fyrir þann mann. Þessir einstaklingar trúa því blint að ákvörðun um að fá nýja yfirstjórn í Seðlabanka Íslands sé persónuleg aðför að Davíð Oddsyni. Engin rök virðast bíta á slíka einstaklinga en ég veit að einhverjir þeirra munu sjá að sér þegar ástand efnahagsmála virkilega fer að sýna sig. Í mars kemur stór hópur inn á atvinnuleysisskrá. Fleiri og fleiri fara af landi brott og farið er að tala um Íslendinga sem hina nýju Pólverja og er þar átt við að nú þurfa Íslendingar að leggjast í farandverkamennsku í fjarlægum löndum. Fleiri og fleiri fyrirtæki eru að komast í þrot. Strax á næsta fjárlagaári koma svo hinar óumflýjanlegu skattahækkanir og niðurskurður á þjónustu hins opinbera. Persónulegum gjaldþrotum mun fjölga ekki síður en fyrirtækja. Ekki sér fyrir endann á hvernig fjármagna eigi hina nýju ríkisbanka og líklegt að önnur bankakreppa muni skella á. Vextir eru hér glæpsamlega háir og ekki er fyrirsjáanleg breyting á því í náinni framtíð og líklegt að þegar og ef að þeir lækka muni það vera lítið og duga skammt. Já líkur eru til þess að ástandið muni versna að mun og vara lengi og það muni ekki bara reddast.
Ég er fylgjandi þeirri skoðun að íslenska þjóðin þurfi nú að taka höndum saman og vinna markvisst, og á samfélagslegan hátt, að því að koma sér út úr þessari kreppu. Ég er sömuleiðis á þeirri skoðun að það verði ekki gert nema með því að gera upp liðna tíma og breyta um stjórnunarhætti og áherslur. Við erum að læra ákveðna lexíu og það á eigin skinni. Ef að þjóðin þarf að fara í algert þrot áður en að lexían verður lærð þá það; eitt er víst að mínu mati: Það verður ekki haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist með sömu einstaklingum í brúnni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er hræddur um að við þurfum að fara á botnin áður en fólk áttar sig á nauðsyn þess að kasta burt fortíðini áður en hægt er að hefja framtíðina.
Offari, 10.2.2009 kl. 22:38
Ég verð, því miður, að segja að ég hallast æ meir að því einnig.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 10.2.2009 kl. 22:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.