Þetta má ekki fara að snúast um persónu Davíðs Oddsonar!

Ég er að verða vitni að einum fáránlegasta farsa íslandssögunnar og er þó af nógu að taka, sérstaklega á síðari tímum. Aðalpersónan, sem oft og endranær, Davíð Oddsson, ætlar að sitja sem fastast í því embætti er hann skipaði sig sjálfan í því: vandfundinn er einstaklingur með víðtækari reynslu af stjórn peninga- og efnahagsmála, eins og hann segir um sjálfan sig í nýlegu bréfi til forsætisráðherra.

 

Ég varð illur þegar þessi persóna neitaði að víkja til hliðar úr stóli bankastjóra Seðlabanka Íslands. Ég ákvað að sýna andstöðu mína með því að mæta fyrir framan húsnæði Seðlabankans við Arnarhól. Ég hafði vonast eftir því að þar yrði fjölmenni samankomið til að mótmæla þessari valdníðslu seðlabankastjóra og til að styðja ríkisstjórn Íslands en mér til sárra vonbrigða var fámennur hópur mótmælenda mættur. Það rann svo skyndilega upp fyrir mér hversu fáránlegur farsi var hér á ferðinni: Davíð Oddsyni hefur tekist það, enn og aftur, að gera sjálfan sig að aðalsögupersónu atburðarrásarinnar. Hann hefur komið því inn hjá mörgum að þetta snúist um ofsóknir gagnvart sér og það að mæta upp í Seðlabanka sé að taka persónulega afstöðu gagnvart sér – hvílík sorgarsena! Nú er meira að segja svo komið að Davíð vinnur hvort sem mæta margir eða fáir til að mótmæla. Ef mæta fáir getur hann sagt: Sjáið fólkið vill ekki að ég fari. Ef að mæta margir getur hann aftur á móti sagt: Svakalega hef ég mikil áhrif, fólk hópast að til að segja álit sitt á MÉR.

 

Ég ákvað að snúa heim og hugsa málið upp á nýtt. Ég hef orðið var við að þó nokkrir eru bara sáttir við svar Davíðs Oddsonar og hafa hugsanlega keypt það að hann eigi enga sök á efnahagsniðurlægingu þjóðarinnar og að hann hafi varað við en ekkert hafi verið gert. Hversu stór þessi hópur er veit ég ekki, get bara vonað að hann sé ekki stór. En það kusu margir þennan mann á sínum tíma og hann var jú forsætisráðherra og borgarstjóri  Reykjavíkur í fleiri kjörtímabil en nokkur annar. Já hann á sinn hundtrygga stuðningshóp en það getur ekki útskýrt það hversu fámennt var við Seðlabankann í morgun. Það er jú sagt að fólk eigi skilið þá leiðtoga sem það kýs sér og þar af leiðandi á það væntanlega skilið það ástand sem tilvera þeirra á valdastól hefur skapað. Einhver hluti þjóðarinnar á vissulega, samkvæmt þessu skilið að þjást og þjáningarnar eru rétt að byrja, trúið mér, en við erum jú líka mörg sem höfum ekkert með Davíð eða frjálshyggju hans viljað hafa. Nei ég er sannfærðari um að flestir vilja þennan mann af leiksviðinu, hann hefur fengið sín tækifæri og hann hefur klúðrað miklu; hann ber vissulega sök. Margur vill væntanlega láta ríkisstjórnina einfaldlega koma þeirri lagabreytingu í gegnum Alþingi sem kveður á um endurskipulagningu á stjórn peningamála og tryggir þar með útskiptingu núverandi seðlabankastjóra. Sömuleiðis vil ég trúa því að margur vill ekki, fremur en ég, gera Davíð Oddsyni það til geðs að þetta snúist um hans ómerkilegu persónu. Það að mæta upp í Seðlabanka til að mótmæla er vissulega að gefa hans persónu vægi, vægi sem hann á í engu skilið.


mbl.is Mótmælt við Seðlabankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Þetta fór reyndar betur en ég bjóst við. Ég reiddist Davíð líka en er einn af þeim sem trúði á hann á sínum tíma. Þessi mótmæli voru stuðnigsyfirlísing við aðgerðir ríkisstjórnar svo ég átti von á blendnum hóp þarna. Ég er þér sammála að þetta má ekki snúast um Davíð eða stuðning við ríkisstjórnina. Þetta á að snúast um nýtt og betra Ísland. Það þarf að henda fortíðinu burt og láta nýtt fólk(ekki flokka) um endurreisnina.

Offari, 9.2.2009 kl. 11:14

2 Smámynd: Stefán Óli Sæbjörnsson

Ég botna eki upp né niður í þessum mótmælum, kallinn er að fara innan skamms það vita allir, hverju er verið að mótmæla. Ég mótmælti á austurvelli nokkrum sinnum og fagnaði stjórnarslitum en sú ríkisstjórn er enn að störfum í gegnum samfylkinguna, þar hefur ekkert breyst. Ég verð bara að viðurkenna það að ég skil ekkert upp né niður í þessu lengur. Það er engin að tala um lausnir heimilanna né peningaleysi bankanna sem orsakar staðnaðan atvinnuveg.Getur þú upplýst mig um það Þór, hvað í andskotanum er í gangi hérna, til hvers var verið að eyða tímanum í þessar breytingar, sem skipta engu máli en verða bara til þess að van er komið á millu íhaldsins fyrir næstu kosningar.

Stefán Óli Sæbjörnsson, 9.2.2009 kl. 12:14

3 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Ja, kæri Stefán, hvað er eiginlega í gangi hérna? Góð spurning, en ég er hræddur um að mitt svar sé einungis mitt álit en það máttu gjarna fá.

Það sem ég held að sé í gangi er fyrst og fremst ráðaleysi og afneitun. Það er búið að vera alger afneitun í gangi hjá þeim ráðamönnum er stóðu vaktina þegar allt fór hér í rúst. Menn neita að horfast í augu við þá staðreynd að sama hversu mörg viðvörunarljós blikkuðu þá var ekkert gert - ekkert. Menn héldu bara áfram í partíinu eins og enginn væri morgundagurinn en upplifa nú hina verstu þynnku. Þeir einstaklingar sem tróðu sér fram fyrir skjöldu og buðu sig til ábyrgðarstarfa vegna þess að þeir töldu sjálfa sig hæfari en aðra geta ekki viðurkennt þá staðreynd að þeir voru einfaldlega ekki störfum sínum vaxnir, þeir brugðust einfaldlega.

Svo er það ráðaleysið sem leggur af eðli málsins samkvæmt framansögðu. Menn vita einfaldlega ekki hvað gerðist, hvers vegna og enn síður vita menn hvernig á að bregðast við; hvernig geta menn, sem voru svo vitlausir að horfa á þjóðarskútuna sökkva , fyrir framan nefið á sér og með ótal aðvörunarljós logandi, gerandi ekkert vegna þess að þeir vita ekki að skútan er að sökkva - hvernig geta slíkir einstaklingar gert eitthvað til að laga ástandið nú? Þeir vita einfaldlega ekki hvað á til bragðs að taka.

 Það, minn kæri Stefán er í gangi hérna, að mínu áliti.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 9.2.2009 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband