Jóhönnu kannski en ekki varaformanninn
26.1.2009 | 15:47
Nú þegar fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar eru byrjaðir á þeim barnalegu látum að kenna hvorir öðrum um og tala eins og þetta stjórnarsamstarf hafi verið ómögulegt vegna þess að hinn flokkurinn vildi ekki ... og við gátum ekki vegna þess að hinn flokkurinn gat ekki ... o.s.frv., o.s.frv. Núna þegar menn eru komnir í kosningaham og við, fólkið í landinu, fáum eitthvað að segja um það hverjir eigi að fá tækifæri til að takast á við vandann sem fyrir liggur, þá tel ég tíma til að fara aðeins aftur í söguna. Það er kominn tími til að vinsa úr skemmdu eplin og fá heiðarlega dugandi einstaklinga inn á þing.
Fyrir ári síðan átti ég í tölvusamskiptum við Ágúst Ólaf Ágústson varaformann Samfylkingarinnar. Ástæðan var vegna þess uggs er ég bar í brjósti hvað varðaði stöðu bankanna sem mér voru þá ljósar og sú staðreynd að litið var svo á að ríkissjóður hlypi undir bagga með þeim ef illa færi (sem allt stefndi óneytanlega í).
Ég vil vekja athygli lesenda á dagsetningum tölvupóstanna og þeim sjálfumglaða tón sem greina má í svari varaformannsins. Ég birti hér með spurningu mína er ég upphaflega beindi til varaformannsins:
-----Original Message-----
Sent: 30. janúar 2008 13:40
To: Ágúst Ólafur Ágústsson
Subject: Krónan of lítil fyrir bankana
Blessaður Ágúst.
Nafn mitt er Þór Þórunnarson og ætla ég að taka þig á orðinu og skrifa þér tölvupóst. Ég skrifa þér þennan póst sem þingmanni, löglærðum manni og hagfræðingi.
Það er frétt í Fréttablaðinu 29. janúar síðastliðinn sem rekur mig til þessara skrifa. Fréttin fjallar um lánshæfis einkunn og horfur íslenska ríkisins að mati Moody´s. Í fréttinni segir m.a. orðrétt: Áframhaldandi alþjóðlegur vöxtur bankakerfisins er sagður hafa leitt til þess að ófyrirséðar fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins hafi vaxið upp fyrir æskileg mörk.
Mig langar að spyrja þig hvort:
a)
rétt sé að íslenska ríkið sé á einhvern hátt fjárhagslega skuldbundið varðandi einkabanka sem starfa hér á landi (reyndar að litlum hluta þegar á heildarstarfsemi íslensku bankanna er litið) og hvort eðlilegt sé að hægt sé að tala um "ófyrirséðar skuldbindingar" þegar snýr að ríkissjóði, og
b) ef rétt sé að ríkissjóður sé með skuldbindingar gagnvart einkabönkum, hvort það sé eðlilegt og hver sé ábyrgur fyrir þeirri ákvörðun.
Eins og ég hóf þennan póst þá er ég að skrifa þér vegna þess að þú hvetur fólk til að
skrifa þér, en einnig lít þannig á starf og tilgang alþingismannsins að hann eigi að vera
í tengslum við fólkið og vera talsmaður þess og málsvari.
Ég vona að þú getir varpað ljósi á þessar vangaveltur mínar.
Með fyrirfram þökk
Þór Þórunnarson
Hér kemur svo svar varaformannsins:
Sæll
Takk kærlega fyrir póstinn og spurningarnar.
Það er alveg ljóst að íslensku bankarnir hafa stöðu svokallaðra kerfisbanka. Þetta þýðir að þeir eru "too big to fail" eins og sagt er. Markaðurinn álítur þannig á að ef kerfisbankar lenda í vandræðum þá hlaupi hið opinbera (fyrst og fremst Seðlabankinn) undir slíkt. Slíkt getur haft áhrif á lánshæfismat íslenska ríkisins.
Ríkissjóður er hins vegar ekki með beina ríkisábyrgð á bönkunum eins og ríkissjóður hefur t.d. gagnvart Íbúðalánasjóði (sem er reyndar umdeilt í ljósi evrópskra regla og samkeppnisregla)
Bestu kveðjur,
Ágúst Ólafur
Eins og þið sjáið lesendur telur varaformaður Samfylkingarinnar bankana vera of stóra til að mega fara í þrot. Hann segir ekkert um það að þess vegna þurfi að hefta stærð þeirra. Hann virðist meira að segja svo blindur að hann einu sinni íhugi þann möguleika að þessir of stóru bankar fari á hausinn og dragi þannig ríkissjóð með sér í fallinu sem var þó áhyggja mín og ásæða fyrirspurnarinnar til þingmannsins. Ég var ekki ánægður með þetta svar og sendi því annan póst á varaformanninn:
-----Original Message-----
Sent: 31. janúar 2008 16:55
To: Ágúst Ólafur Ágústsson
Subject: Re: "Krónan of lítil fyrir bankana"
Þakka þér kærlega fyrir svarið.
Ég er vissulega nokkru nær varðandi ábyrgðarhlutverk ríkissjóðs gagnvart bönkunum og takk kærlega fyrir það.
Það er samt sem áður enn óskýrt, sem var þungamiðjan í fyrirspurn minni, s.s. það hvers vegna ríkissjóður eigi að bera ábyrgð á þessum þætti hagkerfisins umfram aðra, t.d. álbræðslur, eða flugrekstur. Er eitthvað lögmál sem segir að mér, sem skattgreiðenda, beri að hlaupa undir bagga með einstaka banka ef að hann er illa rekinn (eins og t.d. í tilfelli Societé General). Það er að sjálfsögðu ekkert lögmál, heldur ákvörðun og ég spyr því, aftur - ákvörðun hverra?
Ég vil síst af öllu misnota velvind þína og krefja þig svara, en verð að segja að ég skil ekki hvers vegna ríkissjóður þurfi að hlaupa undir bagga með einkafyrirtækjum þó svo að "markaðurinn", eins og þú orðar það (hvað svo sem það er), álíti svo.
- Einnig, ef að það liggur í spilunum, að ríkissjóður hlaupi undir bagga, ef að í illt stefnir hjá bönkunum, er þá ekki eðlilegt að ríkissjóður fái eitthvað í staðinn. Á það að gilda hér, en aðeins hér, að einhver fái eitthvað fyrir ekki neitt; eða fær ríkissjóður eitthvað í staðinn fyrir þessa kerfisbankaábyrgð?
Að setja reglur um lausafjárstöðu og hlutfall útlána/innlána og því um líkt, til að minnka líkur á áföllum í bankakerfinu, er eitthvað sem ég fæ vel skilið og tel eðlilegt að ríkið geri; enda eiga viðlíka reglur einnig við um ýmsan annan atvinnurekstur. En að þurfa að setja fé inn í einkafyrirtæki, við ákveðnar aðstæður, og þurfa að sæta því að fá verri kjör á alþjóðlegum lánamarkaði, vegna einkafyrirtækja - er það ekki eitthvað sem ber að athuga og helst útiloka? Má ég spyrja þig - finnst þér þetta eðlilegt og rétt tilhögun?
Þetta með Íbúðarlánasjóð skil ég vel. Íbúðarlánasjóður er í raun íslenska ríkið að lána einstaklingum til íbúðarkaupa og grundvallast fyrst og fremst á pólitík en ekki markaðs- eða gróðasjónarmiðum. Það er því ofureðlilegt, í mínum huga, að ríkissjóður ábyrgist hann.
Bestu kveðjur og enn og aftur þakkir fyrir skilmerkilegt svar.
Þór L. S. Þórunnarson
Og hér kemur svo ítarlegt svar varaformannsins:
Sæll
Bankar eru alls staðar taldir hafa sérstakt eðli þegar kemur að fyrirtækjaumhverfi. Löggjafinn setur t.d. ákveðnar kröfur á þessi fyrirtæki umfram önnur fyrirtæki t.d. um hver megi eiga ráðandi hluti ofrv.
Það eru viðurkennt, bæði í fræðunum og í praktíkinni, að áfall í bankakerfinu er langt um alvarlegra en áföll hjá öðrum fyrirtækjum. Þess vegna er álitið að ríkisvaldið grípi inn í ef stóráföll verða hjá "kerfisbönkum" þótt sú ákvörðun liggi hvergi fyrir. Það er eins og markaðurinn geri ráð fyrir því. Og þetta er eins um allan heim.
Mér finnst eðlilegt að hið opinbera sér hálfgerður bakhjarl gagnvart bönkunum sem hafa þessa stöðu. En þetta þýðir ekki að banki geti ekki farið á hausinn en öðru gegnir um kerfisbankana.
Bestu kveðjur,
Ágúst Ólafur
Eins og þið sjáið lesendur góðir finnst Ágústi varaformanni það eðlilegt að bankarnir hið opinbera sé hálfgerður bakhjarl einkabankanna. Hann svarar engu um það hvað ríkið (fólkið) eigi að fá í staðinn og hann minnist í engu á aðgerðir sem ríkið hafi gripið til, ætli að grípa til, eigi að grípa til, til að koma í veg fyrir að illa fari og tryggja muni sem best hag ríkissjóðs (þjóðarinnar) ef til þess þurfi að koma að ríkið þurfi að verða hálfgerður bakhjarl einkabankanna!!! Þetta er einfaldlega svona vegna þess að það sé eins og markaðurinn[sic] geri ráð fyrir því og það sé eins út um allan heim.
Ekki hefur varaformaðurinn farið hátt með þessa skoðun sína. Honum var s.s. ljóst að góðar líkur voru á því að ríkið yrði að hlaupa undir bagga með einkabönkunum en gerði engu að síður ekkert til að draga úr vexti þeirra, aðskilja erlenda starfsemi innlendri eða auka bindiskyldu. Þessi þingmaður getur ekki brugðið fyrir sig því að hann hafi ekki vitað af hættunni sem við blasti. Þessi þingmaður hefur orðið uppvís að vítaverðu kæruleysi í starfi og honum ber að segja upp!
Ég bendi enn og aftur á dagsetningar tölvupóstanna.
Lifi byltingin og Nýja Ísland!
Jóhanna næsti forsætisráðherra? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Varaformaðurinn hefur áttað sig á því að endurnyjunar er þörf.
Offari, 28.1.2009 kl. 18:00
Jamm og athugaðu hvenær hann segist hætta og hvenær þessi færsla birtist
Þór Ludwig Stiefel TORA, 29.1.2009 kl. 18:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.