Hvað þarf ný ríkisstjórn að gera?
23.1.2009 | 15:23
Fyrsta grein:
Þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum eftir 9. maí þarf hún að byrja á því að skilgreina efnahagsvandann og upplýsa almenning um stöðu mála.
Hverjar eru raunverulegar skuldir ríkisins?
Það eina sem almenningur veit er að þær eru líklega gífurlegar og að ríkissjóður var skuldlaus fyrir hrun bankanna í september. Það er augljóst að skýr mynd af skuldastöðu ríkissjóðs fæst ekki fyrr en gengið hefur verið frá uppgjöri gömlu einkabankanna. Það hefur reynst flókið að uppfæra eignastöðu vegna ástands markaða og þeirra fölsku eignamyndunarveða sem tíðkuðust í viðskiptum bankanna. Talað er um að sala eigna þurfi að eiga sér stað fyrst eftir að jafnvægi hefur náðst á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og vel á vera að það muni reynast skynsamlegt. Eitt er þó ljóst að mat eigna hefur oftar en ekki verið fullkomlega óraunhæft og í mörgum tilfellum standa lítil sem engin raunveruleg verðmæti að baki veðum.
Ofan á þetta leggst að greiðslugeta skuldara hefur snarversnað vegna hinnar alþjóðlegu efnahagskreppu og óstöðugleiki og hrun íslensku krónunnar hefur gert íslenskum fyrirtækjum og heimilum ómögulegt að fylgja greiðsluáætlunum og allt greiðsluhæfismat er ónýtanlegt.
Það mun því vera ófrávíkjanlegt að leggja ofuráherslu á ganga frá uppgjöri bankanna. Það þarf að stofna sjóð er fari með allar veðeignir gömlu bankanna og reyni eftir megni að fá sem hæst verð fyrir sölu þeirra.
Samkvæmt reglum evrópska efnahagssvæðisins ber þjóðríki það er banki á lögheimili í ákveðna lágmarksábyrgð á bankainnistæðum sparifjáreigenda; einnig setja neyðarlögin frá því í haust innistæður sparifjáreigenda á Íslandi forgang á aðrar kröfur. Fara þarf yfir hvaða nettóskuldbindingar þetta hefur fyrir ríkissjóð og hvaða kröfur sitja eftir og færa þær kröfur á eignasjóð gömlu bankanna sem áðan var á minnst.
Það þarf að taka öll íbúðaveð gömlu bankanna og setja inn í Íbúðalánasjóð. Það þarf að ganga frá íbúðalánaskuldbindingum þannig að skuldbindingar einstaklinga séu sem næst því er var um mitt sumar 2008 og færa öll erlend íbúðarlán í íslenskar krónur á því gengi.
Með þessu móti ætti að vera hægt að fá nokkuð skýra mynd af skuldastöðu ríkissjóðs er varðar gömlu einkabankana.
Eftir að komin er skýrari mynd af skuldastöðu ríkissjóðs er hægt að fara að huga að greiðsluháttum. Það mun reynast óhjákvæmilegt að auka skattheimtu til að greiða niður þær skuldir sem fallið hafa á ríkissjóð. Ekki má hrófla meira við velferðarkerfinu en vel má athuga að skera niður annarsstaðar hjá ríkinu, má þar nefna utanríkisþjónustuna og í æðstu stjórnun. Koma verður á hátekjuskattþrepi; það er sanngirnisatriði að þeir sem meira mega sín beri meiri kostnað af viðreisn efnahagskerfisins. Auknar tekjur þarf til og það er nánast útilokað að auka skattbyrgði hins almenna launamanns. Ekki skal auka beinan þátt almennings í rekstri almannaþjónustunnar og stefnt skal að því að til langframa verði afnumin með öllu ósanngjarnir skattar eins og komugjöld
heilbrigðisþjónustunnar.
Rétt er að taka það fram að lántökur þær er núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir er ekki hugsuð sem neyslulántaka. Hugsunin er fyrst og fremst sú að efla gjaldeyrisvaraforða og stuðla þar með að eflingu íslensku krónunnar og hafa þannig áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs og efnahagskerfisins í heild. Að einhverju marki mun væntanlega reynast nauðsynlegt að létta á ríkissjóði með greiðslujöfnun í gegnum erlenda lántöku og skal það skoðað. Sérstaklega þarf að huga að erlendri lántöku þeirri er fellur undir hin svo kölluðu Jöklabréf. Óhjákvæmilegt mun reynast að taka erlend lán til að greiða þau eftir því sem tími þeirra rennur út. Leggja þarf því áherslu á að, í samræmi við aðgerðir í gjaldeyrismálum, sé hægt að endurnýja hluta þeirra og dreifa þar með álagi því er þau skapa á gjaldeyrisstöðu íslensku krónunnar.
Það er deginum ljósara að íslenskur gjaldmiðill er of veikburða til að geta þjónað tilgangi sínum. Verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður því að vera að beita einhverjum af þeim erlendu lántökum til að styrkja krónuna á gjaldeyrismarkaði og stefna á upptöku annars gjaldmiðils. Hefur Evra og bandarískur Dollar helst komið til álita í því sambandi. Upptaka Evru hefur haft á sér þann annmarka að hún er sögð skilyrt inngöngu í Evrópusambandið. Það hefur verið á það minnst en ekki litið alvarlegum augum að reyna að ná samningum við Evrópusambandið um upptöku Evrunnar á grundvelli hins evrópska efnahagssvæðis. Það eru haldgóð rök að halda því fram að tilgangur evrópsks efnahagssvæðis sé að auðvelda viðskipti milli landa og veigamikill þáttur í því er að hafa sameiginlegan gjaldmiðil á evrópsku efnahagssvæði. Því ætti aðildarlöndum evrópsks efnahagssvæðis að vera frjálst að taka upp Evru sem er sameiginleg mynt Evrópusambandsins án þess að þurfa að ganga í Evrópusambandið. Þetta gæti þýtt þann annmarka að hafa ekki evrópska seðlabankann sem bakhjarl og missa að einhverju leiti stýringu á peningamagni í umferð en kostir stöðugleika munu vega þungt á móti þessum annmörkum. Ný ríkisstjórn á að reyna til þrautar að ná fram samningum er ganga í þessa átt.
Gangi það ekki á að leggja áherslu á að fara í samningaumræður um inngöngu í ESB. Augljóst er að við núverandi efnahagsástand er ekki hægt að ganga í myntbandalagið en líklegt má þykja að aðildarviðræður og hugsanleg aðild myndi stuðla að hækkandi gengi íslensku krónunnar og efnahags stöðugleika. Augljóst má þykja að aðild að ESB án aðildar að myntbandalaginu leysir ekki þann vanda er íslendingar standa frammi fyrir. Innganga í ESB þyrfti því að snúast um aðild að myntbandalaginu. Stefna á upptöku Evru myndi þýða sársaukafullar aðgerðir til að draga hér úr verðbólgu, auka stöðugleika og draga úr halla á ríkissjóði, sem væri nær ómögulegt eins og staðan er nú. Því er óraunhæft að ætla að upptaka Evru myndi vera möguleg í náinni framtíð og þar með að innganga í ESB myndi vinna á þeim bráða vanda sem íslendingar standa fyrir. Það er því rétt að fara, samhliða aðildarviðræðum um ESB, í viðræður og athugun á upptöku bandaríkjadollars. Vera má að upptaka þeirrar myntar geti átt sér stað án mikilla fyrirvara og innan skamms tíma. Einnig má hugsa sér að slíkar viðræður gæti haft áhrif á samningsstöðu íslendinga gagnvart ESB og ekki síst aukið möguleika á jákvæðri niðurstöðu úr viðræðum um upptöku Evru innan evrópska efnahagssvæðisins.
Einnig hefur verið rætt um myntbandalag við Norðmenn og Svisslendinga. Skal farið í tafarlausar viðræður við þessar þjóðir um möguleika á slíku.
Ekki tel ég fýsilegt í ljósi stöðunnar og undangenginna atburða að viðra hugmyndir um myntbandalag við breska konungsveldið.
Myntbandalag við danska konungsveldið er hæpið vegna stöðu krónunnar gagnvart Evru en það er allra skoðunar vert og ber að athuga með alvöru.
Niðurstaða:
Þessir grein fjallaði einungis um bráðavanda þann er íslenska þjóðin stendur fyrir, aðallega er varðar skuldastöðu einstaklinga, fyrirtækja sem og ríkissjóðs.
Grundvallaratriði er að fá skýra yfirsýn yfir skuldastöðu ríkisins og koma á aukinni skattheimtu til að bregðast við því og greiða niður sem fyrst.
Íbúðalán einstaklinga verður að endurmeta þannig að greiðslubirgði sé sem næst því og hún var rétt fyrir hrun gjaldmiðilsins um mitt sumar 2008.
Tryggja þarf atvinnulífinu þolanlegra starfsumhverfi með stöðugri og áreiðanlegri gjaldmiðli.
Í síðari greinum mun ég fara í gegnum hugmyndir mínar er ég sé varðandi eflingu atvinnulífs og verðmætaaukningu í þjóðarbúinu sem myndu verða næstu skref verðandi ríkisstjórnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.