Hvað getum við gert?
18.1.2009 | 20:35
Það sem angrar mig mest við þetta íslenska efnahagshrun er aðgerðaleysið sem einkennir eftirmálann. Þessi doði og ráðaleysi almennings og hinna svo kölluðu ráðamanna og embættismann er algerlega óþolandi og ég verð að segja það - til SKAMMAR. Nú er svo komið að ég ætla að brjóta eigið loforð um að forðast það að skrifa framar á blog.is vegna auglýsingaborðanna sem settir voru inn. Já stundum neyðist maður til að brjóta odd af oflæti sýnu en hér hef ég, í gegnum tíðina náð til margra og það er nauðsynlegt eins og staðan er nú.
Jæja þá að aðalatriðinu Hvað getum við gert?
Ég strunsaði á útifundi Harðar Torfa þegar til þeirra var fyrst boðað og vildi með því sýna hug minn í verki og samstöðu. Ég er hættur því í dag, einfaldlega vegna þess að ég er ósáttur við hvernig þeir eru ræktir og sé engan tilgang í því að hlusta á misgóðar ræður misvitra einstaklinga um að það þurfi að breyta hér þjóðfélaginu; ég veit það og allir aðrir sem vilja vita. Ég vil AÐGERÐIR. ÉG vil vita: hverju á að breyta, hvernig og af hverju. Og hérna kemur mín sýn á það:
Hverju á að breyta?
Grundvallarstjórnskipan íslenska lýðsveldisins er meingölluð. Ekki einungis af því að fulltrúalýðræðið sem slíkt er meingallað, heldur er innibyggt í stjórnkerfið illa rotið samtryggingakerfi, auðmanna og stjórnmálaflokka. Flokkakerfið er þannig að ómögulegt er að vita, í raun hvað maður er að kjósa (eins og fleiri en ég hafa margoft bent á). Kjördæmaskipan á Íslandi er úrelt og óréttlát og hún ein og sér er ólýðræðisleg. Það er algert frumskilyrði að á bakvið einn einstakling sé eitt atkvæði og þau séu öll jafngild.
Gott og vel þetta er gömul ræða og ný og þessu þarf að breyta en hvernig og hvað á að koma í staðinn?
1. Byrjum á fulltrúalýðræðinu burt með það. Það er barn síns tíma og algerlega ónauðsynlegur hjákrókur í okkar tæknivædda samfélagi. Við sendum þessa 63 alþingismenn einfaldlega heim og segjum þeim að fá sér aðra vinnu. Takk fyrir unnin störf en ykkar er ekki þörf lengur; þið hafið einnig sýnt það og sannað að oftar er ekki var tilvist ykkar til að bæta gráu ofan á svart. Hugsið ykkur: Ef hægt er að kjósa um svo lítilvægt og ómerkilegt mál eins og hvaða dægurlag fer í undankeppni söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva af hverju í ósköpunum er ekki kosið um mál eins og: Kárahnjúka, gengismál, kjaramál, Evrópusambandsaðild, fjárlög og heilbrigðismál?
Það er tæknilega gerlegt (og tiltölulega auðvelt) að kjósa um öll meginmál er snerta þjóðina; tenging kennitölu, farsímanúmer og leyninúmer er allt sem þarf. Þetta er bara spurning um vilja og andstöðu eiginhagsmunasamra, sjálfumglaðra alþingismanna sem ærlega trúa því að allt sé betra í þeirra eigin höndum en vitlauss almennings.
2. Þá er það næsta hvernig er virkar þetta í framkvæmd? Hver sér um málin, ýtir þeim úr vör, fylgir þeim eftir o.s.frv. Beint lýðræði, segi ég þar sem almenning tekur allar meiriháttar ákvarðanir í beinni kostningu en framkvæmdarvaldið verður eftir sem áður að vera til staðar. Ég vil sjá ríkisstjórn sem fer með framkvæmdavaldið og sé skipuð færum einstaklingum innan þeirra sviða sem við á. Burt með dýralækna úr fjármálaráðuneytinu, þar á að vera einstaklingur sem er sérhæfður og framúrskarandi í stjórnun peningamála, í heilbrigðisráðuneyti vil ég sjá einstakling sem sérhæfður er í stjórnun heilbrigðismála o.s.frv. Ég vil fá sérfróða aðila til ráðherraembætta. Það sem ég vil ekki sjá, er að ráðherraembætti séu bitlingabeitingar til handa undirlægjum flokksforystu og oft á tíðum í embættinn einhverjir með ekkert vit á viðkomandi málefnum heldur eru í sínum embættum einvörðungu vegna framapots í stjórnmálum; m.ö.o. burt með ATVINNUstjórnmálamenn!.
Þessi ríkisstjórn færi með almenna stjórnun íslenska ríkisins og bæri undir þjóðina allar meiriháttar ákvarðanir í stað þess að bera það undir Alþingi. Hvað bera ætti undir atkvæði væri einfaldlega ákveðið í Stjórnarskrá.
Hverjir væru ráðnir til ráðherraembætta? Með reglulegu millibili, t.d. fjögurra ára, myndu menn bjóða sig fram (eða sækja um) til ráðherrasetu. Þjóðin myndi síðan ráða þann einstakling sem henni þætti hæfastur einfalt mál, svipað og gert er í BNA en þar bjóða menn sig fram til ýmissa embætta á borð við lögreglustjóraembætti, dómaraembætti o.fl.(já, við ættum að taka slíkan sið upp hér einnig).
Hafi menn staðið sig að mati þjóðarinnar og vilji gegna störfum áfram yrðu menn endurkjörnir.
Forsetinn væri eini þjóðkjörni fulltrúinn. Hlutverk forseta væri að vera öryggisventill og sjá til þess að ráðherrar sinntu skyldum sínum og legðu fram frumvörp o.þ.h. á tilskyldum tíma. Forseti væri eins konar framkvæmdastjóri íslenska ríkisins.
Hvernig á að breyta?
3. Jæja hvernig er hægt að koma þessum breytingum á? Í fljótu bragði sé ég tvær leiðir. Í fyrsta lagi að koma af stað framboði til Alþingis sem hefði það eitt á stefnuskránni að vinna að þessum breytingum og í öðru lagi með byltingu sem hefði óhjákvæmalega í för með sér ofbeldi. Í öllum bænum fullreynum fyrstu leiðina.
Af hverju á að breyta?
Að lokum er rétt að impra aðeins á því af hverju á að breyta? Ég hef haldið því fram í mörg ár að fulltrúalýðræðið sé meingallað og óþarft og því þyrfti að breyta; en í ljósi þess sem við nú köllum hið íslenska efnahagshrun er það æ fleirum ljóst að við búum við meingallað stjórnkerfi sem ekki einungis ætti að breyta heldur er það nú orðið óumflýjanleg nauðsyn. Allt kerfið brást: Alþingi, forseti, eftirlitsstofnanir, Seðlabanki allt kerfið brást. Við sáum hvernig kvótakerfið komst á og til hvers það hefur leitt (sjá t.s. Silfur Egils 18. jan. 2009). Einkavæðingarferli bankanna og annarra ríkisfyrirtækja, um það er óþarft að tíunda, hvílík spillingarforapyttir það eru er öllum ljós. Ég fullyrði að ekkert af þessu var í samræmi við vilja þjóðarinnar; Af hverju á t.d. að selja ríkisfyrirtæki sem þjóðin hefur byggt upp á löngum tíma og skilar arði í þjóðabúið?
Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að breyta til að koma réttlæti á. Þeir sem sigldu þjóðaskútunni í gjaldþrot eiga að fara frá og þeir eiga að SÆTA ÁBYRGÐ; þau eiga að sæta þeirri ábyrgð sem þau segja að réttlæti þeirra laun svo einfalt er það. Það þarf að breyta vegna þess að vanhæfni einstaklinga, eiginhagsmunasemi þeirra og siðblinda skapaði ríkjandi ástand og það er fáránlegt og fjarstæðukennt að sömu einstaklingarnir og orsökuðu efnahagshrun Íslands séu á einhvern hátt færir í að lagfæra ástandið. Það verður aldrei rannsakað til fulls hvað gerðist, hvers vegna og hvað orsakaði þetta allt saman ef að sömu aðilar og bera ábyrgð á þessu sitja við stjórnvölinn.
Þannig að lesandi góður; ég auglýsi eftir viðbrögðum, ég auglýsi eftir framboði til alþingis sem hefur það á stefnuskránni að breyta að koma hér á raunverulegu lýðræði.
Ég vil aðgerðir af rausi hefi ég fengið nóg. Ef að eins er með þig, settu inn athugasemd og stattu með mér í því að gera eitthvað að breyta.
Lifið heil krefjist breytinga og aðhafist í þá átt.
Þór Þórunnarson.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.