Ríkissjóður í milljarða skuldbindingu - vegna einkabanka.
30.1.2008 | 12:05
Þegar einkavæðing bankanna stóð fyrir dyrum þá var ég örlítið efins.
Ekki það að ég væri ósammála flestum þeim rökum sem beitt var fyrir einkavæðingu. Aðallega fannst mér gott til þess að vita að afdanka stjórnmálamenn hefðu ekki áskrift að bankastjórastöðum þegar þeir nenntu ekki, eða fengu, að vera lengur á þingi. Einnig var ég sammála því að óþarfi væri, í sjálfu sér, að ríkið stæði í bankastarfsemi. Ég ætla ekki hér að rekja þá umræðu frekar, heldur benda á eitt atriði sem að, e.t.v. fleiri en ég, hafi ekki áttað sig á, í tengslum við einkavæðingu bankanna, en það er ríkisábyrgð.
Það var við lestur Fréttablaðsins þann 29. janúar síðastliðinn sem ég rakst á frétt sem bar yfirskriftina:
Krónan of lítil fyrir bankana.
Það sem fréttin gekk út á var að Moody´s (lánshæfis-mats-útgefandi) sagði blikur á lofti varðandi lánshæfni RÍKISSJÓÐS. Það er verið að ýja að því að stærð bankanna væri orðin það mikil að áföll einstakra banka gætu haft alvarleg áhrif fyrir ríkissjóð, eða eins og sagði orðrétt í fréttinni:
Áframhaldandi alþjóðlegur vöxtur bankakerfisins er sagður hafa leitt til þess að ófyrirséðar fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins hafi vaxið upp fyrir æskileg mörk.
Það sem ég verð að draga athygli að, í þessu sambandi, er tvennt: Í fyrsta lagi hvernig getur verið um að ræða ÓFYRIRSÉÐAR skuldbindingar ríkissjóðs, þegar um ræðir einkabanka; og í öðru lagi voru ekki ein aðalrökin fyrir einkavæðingu að losa ríkissjóð undan ábyrgðum af starfsemi bankanna? Er það virkilega svo að nú eftir að bankarnir hafa verið einkavæddir, þá má almenningur bera skaðann þegar illa árar í bankastarfsemi en fær engan arðinn þegar betur gengur?
Það hlýtur að teljast vægast sagt óeðlilegt að banki, sem hefur u.þ.b.70% af starfsemi sinni erlendis (og er þ.a.l. alþjóðlegur banki), geti sett ríkissjóð á hausinn ef hann er illa rekinn eða illa árar af einhverjum orsökum. Það hlýtur að orka tvímælis að starfsemi einkabanka geti rýrt lánskjör ríkissjóðs og þar með lífskjör í landinu.
Ríkissjóður er sjóður sem fer með sameignir landsmanna. Um ríkissjóð ríkir sátt vegna samfélagslegs hlutverks hans. Tilgangur ríkisins, og þar með ríkissjóðs, er að reka hér velferðarsamfélag, sjá um samgöngur og halda uppi lögum og reglu. Ég fullyrði það að það sé hvorki tilgangur ríkissjóðs, né almenn sátt um, að ríkissjóður sé ábyrgðarsjóður fyrir einkabanka. Hver er sá valdhafi eða fulltrúi almennings, sem hefur veitt leifi fyrir því að setja ríkissjóð í ófyrirséðar ábyrgðir fyrir einkabanka?
Ég vil hvetja almenning að kanna þetta mál, því vel gæti farið svo að slæmar ákvarðanir einhvers bankastarfsmannsins, líkt og við vitnum nú hjá Societé General, geti orðið til þess að milljarða skuldbinding dytti á ríkissjóð og þar með þig og mig.
Ég ákalla Íslendinga til að krefjast þess að tafarlaust verði ríkissjóður íslenska ríkisins fríaður, og gerður með öllu skuldbindingalaus, hvað varðar einkabanka af öllu tagi.
Þór Þórunnarson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.1.2008 kl. 09:51 | Facebook
Athugasemdir
Vandinn þarna er að þessi ábyrgð færir bönkunum betri lánshæfiseinkunn og þar með lægri vexti. Það er síðan fjármálaeftirlitsins að hafa eftirlit með bönkunum ef ég skil þetta rétt. Það þarf hins vegar að tryggja að það eftirlit sé ekki í skötulíki.
Calvín, 31.1.2008 kl. 22:25
Maður gæti haldið að þessi ábyrgð færði bönkunum betri lánakjör en það er ekki svo þar sem allir bankar a.m.k. svokallaðir kerfisbankar njóta ríkisábyrgðar af þessu tagi og þar með jafnast það út. Sko vextir geta ekki verið hærri (frekar en nokkuð annað) en markaðurinn ræður við að borga. Og vextir er verð á peningum. Það sem ákveður vaxtastig er tvennt: framboð á peningum og millibankavextir. M.ö.o. almenningur græðir ekkert á þessari ríkisábyrgð en blæðir, hins vegar, ef að illa fer hjá bönkunum.
Alltaf sama sagan - gróðinn fer til þeirra sem mikið eiga og tapið til þeirra sem lítið eiga.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 31.1.2008 kl. 22:40
Út á þetta gengur svikamyllan meðal annars, Bandaríkjamenn sofnuðu á verðinum 1913 með sinn seðlabanka og flestir vestra gera sér enga grein fyrir því að dæmið er í einkaeigu, enda nafnið Federal Reserve System notað til að slá ryki í augu fólks, blekking sem heldur að mestu leyti ennþá í dag.
Auðvitað er það út í hött að almenningur borgi brúsann við að bjarga einkafyrirtækjum þó að kannski mætti réttlæta að bjarga ríkisfyrirtækjum með almannafé ef mikið liggur við. En er þetta ekki kapítalisminn í hnotskurn...ekki jafn aðlaðandi og látið hefur verið, gírugir bankamenn búnir að gera sig og fyrirtæki sín ómissandi í gangverki heimsins með ríkisstjórnir flestra landa í vasanum...og soga til sín gríðalegan auð fyrir það að geyma og höndla fjármuni!
Það þarf að uppfræða almenning um það hvað bankar og ennþá frekar seðlabankar snúast um í raun, þetta er afar einfalt dæmi raunar þó að reynt sé gera afar flókið og aðeins " sérfræðingar" (eitthvað ofmetnasta fyrirbrigði ásamt ráðgjöfum sem til er) geti skilið hvernig þetta fúnkeri í grunninn. Fólk verður alltaf jafn hissa þegar því er bent á hvernig grunnpælingin sé...og frekar fúlt líka. Þetta er sett upp á einfaldan hátt á "mannamáli í bókinni Falið Vald þannig að auðskilið er hverjum með grunnskólapróf og hafa allir gott af því að skilja hvernig kaupin gerast á eyrinn í raun.
" Þegar við horfum á atburðarás líðandi stundar með það fyrir augum að greina valdaþræðina, þá verðum við að gera okkur grein fyrir tveim hindrunum sem verða á vegi okkar. Í fyrsta lagi skortir okkur sögulegan bakgrunn. Við búum við fjármálakerfi, eða öllu heldur fjárkúgun, sem tók á sig fast form á síðustu öld og hefur ekki breyst í neinum aðalatriðum síðan." ( Úr Falið Vald eftir Jóhannes Björn )
Georg P Sveinbjörnsson, 1.2.2008 kl. 04:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.