Ég fagna baráttu þinni Ólafur F. Magnússon!
26.1.2008 | 12:56
Þegar ég var að alast upp þá var að vakna upp meðvitund um sögu og verndun gamalla húsa í Reykjavík. Sjálfur hef ég nær alla mína tíð búið í gömlum húsum. Mér finnst, og hefur alltaf fundist gömul hús ákaflega fallegar byggingar. Þær höfða til fegurðarskyns míns á miklu meiri hátt en nýlegar byggingar úr stáli, steinsteypu og gleri.
Mér er það ákaflega minnistætt, úr æsku, þegar við fjölskyldan, sem þá bjuggum í Grjótaþorpinu, gerðum allt sem í okkar valdi stóð til að koma í veg fyrir niðurrif Fjalakattarins. Fjalakötturinn var ákaflega falleg og söguleg bygging, þó hún hafi verið látin drabbast niður, þegar hér var komið sögu. Ég man að í einum mótmælum okkar félaganna tók eigandi hússins okkur inn og leiddi okkur í gegnum ganga og sali þessa stórfenglega húss. Markmið hans var að sýna okkur allt sem var að; signir bitar, fúi, brotnar spýtur, ónýtar raflagnir. Ég sá allt annað. Ég var staddur í ævintýraveröld, fullri af spennandi rangölum og skúmaskotum. Inni í húsinu var meira að segja GARÐUR. Þetta var rosalegt, stórir salir með svalir, mjóir gangar og endalausar tröppur.
Söguna þekkja víst allir, Fjalakötturinn var jafnaður við jörðu. Þessi sögufræga og fallega bygging var hreinlega rifin í tætlur af jarðýtum og gröfum. Í staðinn reis svo ljótur steinsteypukassi sem engum er augnayndi og er beinlínis ljótur.
Nú stendur mikill styr um tvö hús á Laugaveginum. Núverandi borgarstjóri, Ólafur F. Magnússon, hefur látið það í veðri vaka, að niðurrif þessara húsa hafi átt stóran þátt í að ákvörðun hans um að hætta meirihlutasamstarfi með tjarnarkvartettnum svo kallaða.
Á Ólaf hefur harkalega verið ráðist undanfarið, og ekki er ég alls kostar sáttur við þau vinnubrögð sem höfð eru uppi í ráðhúsi Reykjavíkur um þessar mundir. En hattinn tek ég, aftur á móti, ofan fyrir nýjum borgarstjóra í húsafriðunarmálum vel gert Ólafur!
Jú þetta kostar borgarbúa peninga en hverjum er það að kenna? Ég fór á almennan borgarafund þegar R-listinn, sem þá var í borgarstjórn, kynnti hið víðfræga deiliskipulag sem hefur með miðborgina að gera. Það fór hátt, á sýnum tíma, hversu mörg hús mátti rífa. Á áðurnefndum fundi tönglaðist Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi á því að það mætti, en ekki ætti, að rífa öll þessi hús. Við vorum allnokkur þarna á fundinum sem vissum, sem var, að ef að það má rífa, þá verður það gert. Það hefur alltaf verið árátta hjá íslendingum að rífa gömul hús og byggja ný í stað þess að gera upp. Afleyðingar þessa deiliskipulags blasa nú við á Laugaveginum. Auðvitað er allt þetta mál hið versta klúður en Ólafur er einungis að standa á sínu og reyna að bjarga því sem bjargað verður.
Ég bý í gömlu húsi og ég elska að gera gömul hús upp. Fátt þykir mér fallegra en að sjá fallega uppgerð gömul hús í gömlum grónum hverfum. Það er eins og endurfæðing, gamalt en samt nýtt. Ég er þess fullviss að byggingar þessar verða hin mesta prýði, og Reykjavík til sóma, þegar þær hafa verið gerðar upp. Hugsið ykkur að fara út að borða í fallegu umhverfi í húsinu sem (svo ömurlega) kennt hefur verið við Nike.
Man einhver eftir því hvernig Lækjarbrekka og Humarhúsið litu út þegar ákveðið var að rífa þau hús? Blessunarlega var barist fyrir verndun þeirra og stofnuð samtök í kjölfarið hin einu sönnu Torfusamtök. Skildi einhverjum detta í hug að rífa þessi hús í dag?
Ég fagna baráttu þinni Ólafur F. Magnússon og styð þig heilshugar í verndun nítjándu aldar götumyndar Lagavegarins. Það þarf að gefa þeim hryðjuverka-verktökum skýr skilaboð, sem kaupa eignir með það að markmiði að láta þær drabbast niður til að geta fengið leyfi til að rífa þær, um að slíkar aðfarir dugi ekki lengur.
Miðborgin lítur út eins og slömm-hverfi í dag. Hvert sem farið er gefur á að líta auð hús, brotnar rúður og heilu húsin undirlögð veggjakroti. Klámbúllur á hverju götuhorni er eitthvað sem ekki sæmir miðborg með virðingu. Víða í heiminum eru eigendur bygginga skyldaðir til að halda þeim við og er það eitthvað sem við þurfum að koma upp hér. Það er nefnilega ekki einkamál viðkomandi ef að fasteign byrjar að drabbast niður. Hinn svo kallaði "broken vindow effect", eða það að einn brotinn gluggi kallar fljótlega á annan brotinn ef ekkert er að gert, gerir það að verkum að eitt hús í niðurníðslu rýrir verðgildi eigna í kring og er ekkert annað en skemmdarstarfsemi sem ekki á að líðast.
Byggjum upp miðborgina með virðingu fyrir sögunni. Höldum í þessi gömlu fallegu hús og gerum þau upp svo sómi sé að. Látum þau skilaboð skýrt út ganga að það sé ekkert pláss fyrir nútíma steypustykki innan um gömlu fallegu timburhúsin okkar miðborgin er fyrir timbur, steypan getur átt heima annars staðar!
Þór Þórunnarson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:47 | Facebook
Athugasemdir
HEYR - HEYR k.kv. E.
Edda (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 13:26
Nýr meirihluti lætur strax til sín taka. Það eru jákvæð teikn.
Calvín, 26.1.2008 kl. 18:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.