Klækjarefur eða lúið lamb?
25.1.2008 | 11:13
Á fyrsta degi í borgarstjórnarandstöðu hættir Björn Ingi og það hefur, að sjálfsögðu [sic], ekkert með áhrifaleysi að gera. Hvers vegna er Björn Ingi þá að segja sig úr borgarstjórn?
Nú þegar Björn Ingi er búinn að stofna til eins meirihluta, með sárafá atkvæði á bak við sig, splundra þessum sama meirihluta og stofna til annars og er orðin valdalaus í borgarstjórn, sér hann engan ávinning af því að starfa í borgarstjórn. Hann velur að segja af sér sem borgarstjórnarfulltrúi, og ástæðuna, segir hann vera, árásir á sig innan Framsóknarflokksins. Það verður því að teljast nokkuð undarlegt að hann velji, samt sem áður, að halda áfram að vera í Framsóknarflokknum!
Guðjón Ólafur Jónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í viðtali í Silfri Egils sunnudaginn 20.01.08, að hótun Björns Inga, í fjölmiðlum, um úrsögn úr Framsóknarflokknum væri ekkert annað en "skúespil", hún væri gerð til að vekja samúð hins almenna flokksmanns.
Ég er fullkomlega sammála þessu mati Guðjóns Ó, Björn Ingi er að spila. Hann er, líklega, að búa sig undir næstu Alþingiskosningar og ráðamennsku í Framsóknarflokknum; þess vegna velur hann að segja sig ekki úr Framsóknarflokknum. Það hefði þó verið rökrétt ef hann fylgdi eigin sannfæringu og fullyrðingum að best væri að hann væri ekki lengur fyrir, m.ö.o. öll rök hans fyrir úrsögn úr borgarstjórn ættu einnig að eiga fullkomlega við um úrsögn hans úr Framsóknarflokknum.
Björn Ingi hyggst slátra andsæðingum sínum innan Framsóknarflokksins með þessum leik. Andstæðingarnir eiga að fá stimpilinn "eyðileggingarseggir". Hann ætlar að láta líta svo út að andstæðingar sínir, innan flokks, séu ómögulegir aðilar sem dragi stjórnmálin niður á persónulegt plan. Þannig vill hann fá hinn almenna flokksmann upp á móti þeim og, þar með, inn í stuðningslið sitt. Hann ætlar að vægja eins og sá er vitið hefur. Það hefur þó ekki alltaf átt við og hafa sumir aðilar beinlínis sagt sig úr Framsóknarflokknum vegna Björns Inga. Ásrún Kristjánsdóttir tjáir sig t.d. um úrsögn úr Framsóknarflokknum vegna starfshátta Björns Inga í Fréttablaðinu 25.01.2008 og menn hafa bent á ákvörðun Önnu Kristinsdóttir, um að taka ekki sæti á lista fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, megi rekja til starfshátta Björns Inga. Guðjón Ó hefur lýst því yfir hvernig honum finnst Björn Ingi hafa komið fram við sig og bent á að fleiri flokksmenn segi farir sínar ekki sléttar eftir samskipti við Björns.
Ef að við lítum á feril Björns Inga út frá klækjastjórnmálum, og setjum upp gleraugu spindoktorsins, þá sjáum við að þetta síðasta útspil ætti að veita honum góða stöðu fyrir næstu Alþingiskosningar og, ekki síst, næsta landsfund Framsóknarflokksins. Björn Ingi dregur upp þessa mynd: Andstæðingar mínir eru þeir sem ekki vægðu og ekki höfðu vitið meira. Það geri ég aftur á móti. Andsæðingar mínir er fólkið sem kemur í veg fyrir að Framsóknarflokkurinn geti sótt fram og náð fram góðum málum. Þetta fólk setur allt púður fór í að rógbera eigin flokksfélaga og er að rífa flokkinn innanfrá. Andstæðingarnir mínir hafa hrakið mig úr borgarstjórn með tárin í augunum. Það er þeim að kenna að Framsóknarflokkurinn er að veslast upp og þurrkast út. Það er þeim að kenna að ungum upprennandi stjórnmálaleiðtogum, á borð við mig, er ekki vært í flokknum.
Hann getur svo farið fram í næsta formannsslag með slagorð um að kjósi menn sig muni allt þetta breytast og nýir tímar séu í vændum fyrir Framsóknarflokkinn ná hann kjöri. Hann mun, í öllu falli, geta stefnt á þægilegt sæti í næsta prófkjöri til Alþingis og líklega skreiðast inn á þing eins og hann skreið inn í borgarstjórn og valda þar jafn miklum usla og hann olli í borgarstjórn Reykjavíkur.
Síðasta uppákoman varðandi fatapeningana sýnir, svo ekki verður um villst, hvaða mann Björn Ingi hefur að geyma. Hann fullyrðir að það sé viðtekin venja hjá íslenskum stjórnmálaflokkum að gefa fatastyrki og því um líkt. Þessu hefur formaður Vinstri grænna Steingrímur J. mótmælt harðlega fyrir hönd síns framboðs og raunar hafa allir flokkar, nema Samfylkingin, svarið slíkt af sér. Málsmetandi menn hafa tjáð sig um að styrkir af þessu tagi séu án efa skattskyldir, en á meðan ekki hefur verið lagður á það beinn dómsúrskurður, vill Björn Ingi halda því fram að það sé álitamál; allavega hugðist hann ekki gefa þennan styrk upp til skatts og hefði aldrei gert hefði hann komist upp með það. Það að honum datt ekki svo mikið sem í hug að kanna hvort gefa ætti slíkt upp, af sjálfsdáðum, hlýtur að setja spurningarmerki við heiðarleik hans og siðferði, að ekki sé minnst á hvort honum sé treystandi fyrir að fara með opinbert embætti.
Við erum að vitna harkaleg innaflokksátök innan Framsóknarflokksins, átök um völd og stöður. Í þessu stríði er engu hlíft og líklega munu fleiri en einn tapa sínu pólitíska lífi í þessum átökum. Þetta er stríð upp á pólitískt líf eða dauða. Björn Ingi er að skapa meðaumkun og heyja tilfinningastríð, í eigin þágu, til bjargar eigin pólitíska lífi - ekkert annað er hér á ferðinni. Þetta hefur ekkert með það að gera að hann hafi orðið fyrir óréttmætum ásökunum eigin flokksmanna og góður drengur neyðist til að hrökklast frá vegna níðingsskapar.
Þór Þórunnarson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:12 | Facebook
Athugasemdir
Björn Ingi er ekkert að hætta í stjórnmálum. Nennir ekki að vera í stjórnarandstöðu, telur sig afla betur svona.
Hólmdís Hjartardóttir, 25.1.2008 kl. 11:37
Og svo vælir hann svo mikið
Hann bingó er ekki að hverfa hann elskar sviðsljósið (yfirþyrmandi kjörþokki hans er tálsýn), ef hér væri alvöru lýðræði væri hann búinn í pólitík og kominn á spenann hjá sambandinu.
Fríða Eyland, 28.1.2008 kl. 22:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.