Eru borgarstjórnarskipti í mína þágu eða borgarstjórnarmanna?
24.1.2008 | 11:52
Ég veit að það er að bera í bakkafullan lækinn að skrifa um borgarmálin, eins mikið og þau hafa brunnið á mönnum undanfarið og margir um þau ritað. Ég get samt sem áður ekki stillt mig, enda lýðræðissinni, reykvíkingur og maður með álit á málefnum líðandi stundar.
Þeir sem lesið hafa skrif mín þekkja að ég er einlægur talsmaður þess að afnema fulltrúalýðræðið, og á það við hvort heldur er á stigi ríkis- sem sveitastjórna. Ég er þess sannfærður að farsi sá er við höfum vitnað undanfarið í borgarstjórn Reykjavíkur, er enn einn vitnisburðurinn um það hversu meingallað og rotið fulltrúalýðræðið er. Ég ætla, hins vegar, ekki í þessum pistli að skrifa sérstaklega fyrir beinu lýðræði. Nú vil ég beina sjónum beint að borgarmálum í Reykjavík 2008, enda ærið tilefni til og mál þannig að eru þau lóð á vogarskál röksemda minna.
Það hefur komið fram, á fleiri en einum vettvangi, að málefnaágreiningur sé enginn á milli stjórnmálaflokka þegar kemur að borgarmálum, heldur sé einungir um að ræða lítilsháttar áherslumun. Þetta mun koma skýrt fram í málefnaplaggi því er núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og óháðra hefur undirritað og afhent fréttastofum, en fréttastofurnar hafa fullyrt að málefnasamningurinn sé svo almennt orðaður að allir flokkar hefðu vel getað skrifað undir hann (ég vil vekja athygli á því að, þrátt fyrir allnokkra leit á veraldarvefnum, gat ég ekki fundið þennan málefnasamning, sem mér finnst vera, argasta vanvirðing við okkur borgarbúa). Það er m.ö.o. ekki ágreiningur um að bæta velferð, draga úr mengun, gera úrbætur í samgöngumálum, bæta kjör hinna verst settu o.s.frv. Það eru, aftur á móti, ákveðin mál sem skilja frambjóðendur að.
Eitt aðalágreiningsmál undafarinna ára er staða innanlandsflugvallarins í Vatnsmýrinni. Í því máli gátu kjósendur tekið afstöðu; vil ég flugvöllinn burt, kýs ég m.a. Sjálfstæðisflokkinn, vil ég hann ekki burt kýs ég Frjálslynda og óháða. Þarna, loksins, gat kjósandinn tekið skýra afstöðu. Nú er svo komið að þau framboð sem voru á þessum öndverða meiði eru búin að mynda borgarstjórnarmeirihluta og hvað svo?
Margir hafa bent á það, í tengslum við nýjustu borgarstjórnarskiptin, að þau fáu grundvallaratriði sem þó aðskilja framboðin skipti akkúrat engu þegar til stykkisins kemur og virðast það orð að sönnu. Enn og aftur verður mér hugsað til þess hve úrelt og óþolandi fulltrúalýðræðið er.
Ég vil að lokum spyrja lesendur og kjósendur: Á stjórnun samfélagsmála, eins og borgarstjórnun, að vera vettvangur eiginhagsmunasemi og framapots gírugra einstaklinga, eða á það að ferli sem skilar mestri hagræðingu fyrir samfélagið og þar með þá einstaklinga sem samfélagið samanstendur af? Nú les maður að þrír borgarstjórar séu á launum hjá borginni, hver með ellefu hundruð þúsund á mánuði, og eflaust eru mun fleiri á biðlaunum vegna borgarstjórnarskiptanna. Sífelld breyting á áherslum, sífelldar mannabreytingar í ráðum og nefndum getur ekki talist hagkvæmt fyrir borgina. Það hlýtur að mega færa rök fyrir því að sjö borgarstjórar á átta árum og þrjár borgarstjórnir á tveim árum, jaðri við brot á skildum borgarstjórnarmanna um að bera hag borgarinnar í hvívetna fyrir brjósti.
Það sem er jákvætt við allt þetta brölt er það að þetta er, væntanlega og vonandi, einungis einn vegvísirinn í átt að beinu og raunverulegu lýðræði, því af þessu fengið höfum við nóg.
Þór Þórunnarson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.