Far vel Framsóknarflokkur – farið hefur fé betra.

Það verður að segjast að ég hef enga samúð með Framsóknarflokknum, nú þegar hann virðist engjast í andarslitrunum. Þessi flokkur, hentistefnu- og tækifærissinnuflokkur helvítis, hefur vaðið hér uppi í valdastöðum íslenska lýðveldisins alltof lengi. Það er grátlegra en tali taki að fara yfir stjórnmálasögu Íslands síðustu áratuga og sjá hvernig Framsóknarflokkurinn hefur troðið sér í valdastöður í öllu ósamræmi við atkvæðamagn og ekki vílað fyrir sér að láta öll “prinsipp” lönd og leið þegar ráðherrastólar voru annars vegar.

Það má segja að þegar einræðistilburðir Halldórs Ásgrímssonar, valdahroki hans og óforskammfeilni, ekki síst í tengslum við innrásina í Írak, hafi orðið lýðum ljóst, hafi fólk loks áttað sig og því hylli nú loks undir lok þessa niðurlægingartímabils í sögu íslenska lýðveldisins sem einkennst hefur af ríkisstjórnarsetu framsóknarmanna.

Við sjáum nú að fólk virðist segja sig úr Framsóknarflokknum eins og rottur sem yfirgefa sökkvandi skip. Nú síðast gaf eini borgarfulltrúi Framsóknarflokksins það í skyn að hann íhugaði að yfirgefa flokkinn. Það er aumkunarvert að heyra talsmenn Framsóknarflokksins tala um ástæður úrsagna; að ekki sé vært í flokknum vegna gróusagna, innri ágreiningsmála o.s.frv. Hér fara framsóknarmenn, eins og jafnan, líkt og köttur í kring um heitan graut til að þurfa ekki að horfast í augu við raunveruleikann.

Hvers vegna er öll þessi innaflokksátök í flokknum? Það skyldi þó ekki eiga rætur sínar í valdaátökum?

Guðjón Ólafur Jónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við Björn Inga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og skyldi svo sem engan undra eftir að hafa séð framgöngu Björns Inga í REI-málinu svokallaða. Það sem er að gerast innan Framsóknarflokksins er ekkert annað en barátta um völd og er það ein miskunnarlausasta valdabarátta sem ég hef orðið vitni af í íslenskum stjórnmálum.

Í bók Guðna Ágústssonar formanns Framsóknarflokksins er þessi valdabarátta og “kúltúr” Framsóknarflokksins opinberaður. Sé Framsóknarflokkurinn svo skoðaður í ljósi íslenskrar stjórnmálasögu þarf engan að undra hvernig komið er. Hér er á ferðinni lítill flokkur sem til langs tíma hefur haft mun meiri völd en atkvæðamagn segir til um. Það hefur m.ö.o. verið tiltölulega greið leið metnaðarfullra aðila að komast til valda í íslensku samfélagi með því að ganga í Framsóknarflokkinn. Nú þegar aðgengi Framsóknarflokksins að völdum, blessunarlega, er takmarkað, sést vel úr hverju stór hluti framsóknarmanna er í raun gerður. Nú sjá menn ekki lengur tilgang í því að starfa innan flokksins, þar sem ekki lengur er að ræða um stutta, hentuga, leið á valdatopp íslenskra stjórnmála, heldur einungis um eðlileg félagsstörf í litlum stjórnmálaflokki með litla von um áhrif og völd.  Þegar svo saman fer að Framsóknarflokkurinn hefur enga raunverulega stefnu í stjórnmálum, eins og sést best af því að hann getur starfað með öllum og hefur einfaldlega engin grundvallarsjónarmið að beygja eða brjóta, þá geta menn bara farið í aðra flokka. Það hefur jú verið raunin margoft í gegnum tíðina. Er virkilega nokkur þarna úti sem getur sagt um hvaða grundvallarstefnu Framsóknarflokkurinn annars snýst?

Nei ég er ekki sá eini sem fagna því að Framsóknarflokkurinn, hugsanlega, sé að líða undir lok. Þessi flokkur hefur komið í veg fyrir það í áratugi að á Íslandi hafi verið hægt að kjósa um málefni og stefnur. Framsóknarflokkurinn hefur hoppað upp í sæng hjá frjálshyggjunni og félagshyggjunni eftir því hvar mestu völdin var að hafa tilhanda þeim eiginhagsmunapoturum sem fyrir flokknum fóru hverju sinni. Sjaldan hefur þessi taumlausa valdagræðgi opinberast meir en í REI-málinu. Það hlaut að koma að því að fólk fengi nóg af slíku, fólk vill skýrar línur og geta treyst því að það sé að kjósa ákveðna stefnu þegar það mætir á kjörstað. 

 

Far vel Framsóknarflokkur – farið hefur fé betra.

 

Þór Þórunnarson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Calvín

Far vel France.

Calvín, 20.1.2008 kl. 19:44

2 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Takk fyrir það Erlingur.
Ég kom að vísu við á kaffihúsinu síðastliðinn laugardag en komst að þessu of seint þannig að ekki hitti ég á þig eða aðra fundarmenn.
Ég styð eindregið undirbúningsnefnd um endurreisn lýðræðisins og mun leggja mitt lóð á vogarskálarnar hvar og hvenær sem þörf er á.
Endilega láttu mig vita um framvindu mála.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 20.1.2008 kl. 22:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband