Ráðningar i opinberar stöður eru ekki einkamál.

Jæja þá ætla ég að tjá mig um embættisveitingar íslenska ríkisins og ekki vanþörf á þar sem þær eru í algerum ólestri og grafa alvarlega undan lýðræðinu og tiltrú almennings á því kerfi er við búum við.

 

Aðeins til að byrja með; skipan Þorsteins Davíðssonar er sérstaklega vandræðaleg og hefur vakið upp mikinn hita í umræðunni vegna þess að um son Davíðs Oddssonar er að ræða. Hér er ekkert verið að ráðast sérstaklega á son Davíðs Oddsonar heldur er hér á ferðinni svo augljós misnotkun á aðstöðu að mönnum ofbíður einfaldlega. Halda menn virkilega að einhver almennur lögfræðingur sem metinn var aftarlega hvað varðar hæfni hefði virkilega verið ráðinn umfram aðra hæfari einstaklinga? Eru virkilega einhverjir þarna úti sem halda því fram, að sú staðreynd að maðurinn hefur þessi ættartengsl hafi EKKERT haft með ráðningu hans að gera? Trúir einhver bætiflákaþvælum ráðherra um að Þorsteinn Davíðsson hafi einhverja reynslu sem aðstoðarmaður ráðherra og það geri hann sérstaklega hæfan. Er einhver svo barnalegur að halda að hægt sé að líta fram hjá þeirri staðreynd að Þorsteinn Davíðsson hafi tengsl inn í dýpsta kjarna Sjálfsæðisflokksins og að hann hafi ekki verið hæfasti aðilinn fyrir stöðuna að mati lögskipaðrar nefndar sem fjallar um málið. Það er svo, útaf fyrir sig, rök fyrir hagsmunatengslum að hann hafi verið aðstoðarmaður ráðherra og það eitt og sér séu rök fyrir að ráða hann ekki. Hvernig á nýráðinn dómari að dæma í hugsanlegu máli gegn núverandi dómsmálaráðherra? Hvernig sem á málið er litið hlýtur það að vekja grunsemdir um valdníðslu og klíkuskap og rýra álit manna á stjórnkerfinu.

Það verður að líta til þess að alltof lengi, og það er löngu viðurkennt, hafi verið ráðið í stöður hins opinbera eftir öðrum leiðum en þeim sem hlutlausar þykja. Ein aðalrökin fyrir einkavæðingu opinberra fyrirtækja og stofnanna er einmitt sú að stjórnmálamenn hafi verið að misnota aðstöðu sína og ráða fyrrverandi samstarfaðila, vini og ættingja í stöður innan þessara stofnanna. Má ég minna á að Davíð Oddson var ráðinn seðlabankastjóri, ekki sem hæfur maður, heldur sem fyrrverandi stjórnmálamaður; ætlar einhver að halda því fram að maður sem enga menntun hefur í viðskiptum eða hagfræðum sé bara ráðinn seðlabankastjóri af því að hann hafi almenna reynslu sem geti nýst í starfi? Við hugsum til þess flest með hálfgerðum hryllingi þegar afdankaðir stjórnmálamenn voru ráðnir bankastjórar ríkisbankanna hér á árum áður án þess að hafa nokkra sérstaka hæfileika til að stýra slíkum fyrirtækjum. Það var svo fyrst eftir að bankarnir voru einkavæddir sem sérmenntaðir aðilar og menn með sérþekkingu voru ráðnir í stjórnunarstöður í bönkunum og það var ekki að sökum að spyrja ... söguna þekkja allir.

 

Það sem verður að líta til í þessu sambandi er það hvernig best er að skipa í embætti á vegum hins opinbera. Ég vil meina að það þurfi að taka allar mannaráðningar á vegum hins opinbera til endurskoðunar frá grunni. Það er gersamlega óþolandi að menn geti vaðið uppi sem stjórnendur opinberra fyrirtækja og ráðið á grundvelli frændsemi og vinskapar og klíkuskapar í lausar stöður, oft án þess að, svo mikið sem að, auglýsa lausar stöður til umsóknar.

Tökum dæmi af Ríkisútvarpinu, og það áður en því var breytt í opinbert hlutafélag. Ég man ekki til þess að stöður t.d. í Kastljósinu hafi verið auglýstar lausar. Ég hef séð fyrrverandi fegurðardrottningu, óþekktan leikara og starfsmenn samkeppnisaðilans vera ráðna án þess að hafa orðið var við auglýsingar um lausar stöður, sem ég er viss um að þó er skilda þegar kemur að opinberum mannaráðningum. Hvenær varð það þannig að menn geti hagað sér, þegar kemur að opinberum fyrirtækjum, eins og um þeirra einka fyrirtæki væri að ræða?

 

Það er algert skilyrði, þegar kemur að opinberum mannaráðningum, að auglýsa lausar stöður og ráða í stöðurnar eftir almennum reglum og víkja mönnum úr sæti þegar grunur leikur á hagsmunatengslum, eins og stjórnsýslulög íslenska ríkisins gera ráð fyrir.

 

Þá að ráðningum dómara sérstaklega. Við búum í lýðræðisríki sem byggir á þrískiptingu valdsins: löggjafar- dóms- og framkvæmdarvaldi. Þetta er grundvallað í stjórnarskrá lýðveldisins og er hún æðstu lög lýðveldisins og ber að fara eftir í hvívetna. Allar gerðir opinberra aðila, veri það stjórnmálamanna, embættismanna eða annarra,  í nafni íslenska ríkisins, verða að vera þess eðlis að allur vafi um brot á stjórnarskránni falli stjórnarskránni í vil. Tilskipan þeirrar nefndar sem ráðherra er til álitsgjafar, varðandi dómararáðningar er tilorðin til þess að aðgreina framkvæmdarvaldið frá dómsvaldinu. Ég vil meina að mikill vafi leiki á því að ráðherraráðning dómara uppfylli skilyrði stjórnarskrárinnar um aðgreiningu og þrískiptingu ríkisvaldsins og í þeim anda að vera frekar réttum megin við línuna í vafaatriðum hefði Árni M. Mathiesen átt að fara eftir áliti þeirrar nefndar sem lögskipuð er til að fjalla um dómararáðningar.

Það er mjög mikilvægt að dómarar haldi hlutleysi sínu gagnvart einstaka alþingismönnum og ráðherrum. Það er sömuleiðis mjög mikilvægt að ekki séu einungis ráðnir dómarar sem séu einstaka ráðherrum þóknanlegir. Á það hefur verið bent af mér fróðari skrifurum hversu mikilvægt það sé að dómsvaldið sé óháð og aðskilið öðrum stjórnsýslustigum að ég ætla ekki að fjölyrða meira um það hér. Það sem ég vil hér segja, hins vegar, er að þegar ráða skal í stöður hjá hinu opinbera eigi í sem flestum tilfellum að láta vinnuveitendurna hafa eitthvað um það að segja hver sé ráðinn og þá meina ég almenning í landinu. Sérstaklega á þetta við um dómara. Ég er hér að benda á þá leið sem farin er í Bandaríkjum Norður Ameríku, en hún er sú að ráðið er í lausar stöður að undangenginni almennri kosningu. Menn þurfa, m.ö.o. að bjóða sig fram rétt eins og til Alþingis vilji menn verða dómarar. Menn sitja svo ákveðið kjörtímabil líkt og alþingismenn og þurfa að sækja um framlengingu umboðs til almennings vilji menn halda störfum áfram sem dómarar. Með þessu vinnst tvennt: Þetta veitir mikið aðhald og þetta virkjar hinn almenna borgara, hvort tveggja mjög svo mikilvægt þegar til lýðræðis lítur. Vestur í bandaríkjunum er svo víða einnig kosið um lögreglustjóra, presta og önnur mikilvæg embætti. Ég er ekki að segja hér að það þurfi að kjósa í allar stöður á vegum ríkisins en mér finnst sjálfsagt að kjósa í æðstu embætti allra þriggja þátta stjórnkerfisins, löggjafar- framkvæmdar- og dómsvalds. Það er lýðræðislegt í mínum huga og það eina sanngjarna. Það virkjar hinn almenna borgara og er lýðræðinu til framdráttar og veitir aðhald og valddreifingu og minnkar möguleika á misnotkun aðstöðu eins og hér hefur verið landlægt til allt of langs tíma. Það er augljóst að núverandi kerfi er meingallað og er ekkert annað en afturómur þess tíma þegar þeim sem við valdastóla sátu þótti sjálfsagt að misnota aðstöðu sína og fara með valdið eins og um persónuleg eignayfirráð væri að ræða yfir þeim stofnunum og fyrirtækjum sem þeim var treyst fyrir af almenningi.

 

Það er gersamlega óþolandi að ráðherrar geti hagað sér eins og Árni M. Mathiesen hefur gert í þessu máli. Það er aumkunarvert að sjá þennan mann vera að reyna að réttlæta þessa mannaráðningu sem sanngjarna og eðlilega. Það verður að koma í veg fyrir að stjórnmálamenn geti hagað sér á þennan hátt með því að breyta lögum um það hvernig ráðið er í stöður eins og dómara.

 

Ég vil nota hér tækifærið og minna almenning á þá leið sem við eigum, til að veita stjórnmálamönnum aðhald og er sú leið sem við höfum til að minna þá aðila á sem troðið hafa sér fram fyrir skjöldu og vilja fara með almannavald, hver það er sem raunverulega ræður, en það eru kosningar. Munið þetta við næstu kosningar, munið þessa valdníðslu og aðstöðumisnotkun. Kjósið ekki þá sem svo augljóslega misnota aðstöðu sína, því sá hefur sýnt að honum er ekki treystandi til að fara með almannavald. Notum kosningarréttinn til að veita nauðsynlegt aðhald og virkjum lýðræðið – til þess er það.

 

Þór Þórunnarson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir greinina. Það er svo sárgrætilegt að ástandið er svona á landinu.

Mér finnst það hreinlega svívirðing fyrir þjóðinni að svona er haldið að hlutum.

ee (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 10:01

2 Smámynd: haraldurhar

  Góð grein og er ég þér hjartanlega sammála.   Afglapinn Árni Matt. á að víkja úr embætti, ef ekki sjálviljur þá á ríkistjórnin að lýsa vantrausti á hann.

haraldurhar, 20.1.2008 kl. 16:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband