Úthlutun fiskveiðikvóta

Þessi pistill er skrifaður í tilefni álits sem féll nýverið hjá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um kvótaúthlutun fiskveiðiheimilda á Íslandsmiðum.

 

Það sem umræðan snýst um er eignaréttur. Ég las nýverið í góðri bók að tilvist ríkisins hafi orðið í tengslum við eignaréttinn; það var, með öðrum orðum, til að vernda eignarréttinn sem þörf skapaðist á ríkisskipulagi. Til að vernda eignir þurfti skrásetningarkerfi sem sannað gat eignarrétt ákveðinna einstaklinga á ákveðnum eignum. Sömuleiðis þurfti löggæslu til að koma í veg fyrir stuld og yfirgang. Þetta er sem sagt nátengt, eignarrétturinn og ríkið og getur hvorugt án hins verið, sem er í rauninni hálf vandræðalegt þegar hugsað er til kennimanna frjálshyggjunnar sem vilja hlut ríkisins sem minnstan en hlut eignaréttarins sem mestan á sama tíma.

 

Lítum nú á kvótaúthlutun á Íslandi. Það var tekið fram í íslensku stjórnarkránni að fiskistofnar við Íslandsmið væru sameign þjóðarinnar en það er búið að strika það út (athugið það sjálf -  http://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html).

Þetta er gert, án efa, vegna þess að de facto eru fiskistofnarnir við Íslandsmið eign útgerðanna sem sölsað hafa undir sig þeim kvótum sem í boði eru. Umræðan í dag snýst aðallega um úthlutun hugsanlegrar aukningar kvóta. Eiga þeir sem misstu kvóta þegar kvótaskerðingin varð, að fá aftur úthlutað í hlutfalli við það sem þeir misstu eða á að úthluta eftir öðrum leiðum?

Til að svara þessari spurningu verðum við að svara spurningunni – hver á óveiddan fiskinn í sjónum og þá sérstaklega – hver á óúthlutaðan kvóta? Er það Íslenska ríkið eða einhver annar. Ég vil halda mig við það að auðlindir á borð við fiskistofna við Íslandsmið séu sameign þjóðarinnar og þá, í raun eign íslenska ríkisins. Fylgjandi almennri reglu um eignarrétt þá er það, í öllum aðalatriðum, þeim sem eignarrétt hefur að ráðstafa eign sinni eins og viðkomandi kýs. Það er þ.a.l. algerlega óþolandi að einhverjir aðilar úti í samfélaginu haldi sig geta gert einhverja kröfu, og eiga einhvern rétt á, að fá úthlutað kvóta fremur örðum, hvort sem sá hinn sami hafi misst spón úr aski sínum vegna kvótaskerðingar eður ei.

Ég tel það vera algerlega hafið yfir allan vafa að íslenska ríkið hafi eignarrétt og þar með yfirráðarétt yfir fiskistofnum við Íslandsmið og geti þar af leiðandi ákveðið hvernig fiskveiðikvótum sé úthlutað. Um þetta er meirihluti almennings sammála sem og stærstur hluti lögspekinga. Eftir stendur þá spurningin um hvernig best sé, og þá væntanlega réttlætanlegast, að úthluta fiskveiðikvótum. Ég vil sjá að úthlutun fiskveiðikvóta leysa mál sem uppi eru á borðinu, sé það mögulegt, og skuli það haft að leiðarljósi í öllum gjörðum hins opinbera. Ef að við lítum til fiskveiðistjórnunarkerfisins þá eru tvö atriði sem standa upp úr og kerfið hefur brugðist og gert ógagn. Í fyrsta lagi hefur kvótakerfið unnið gegn byggð í landinu. Ástæða þess er að kvóti getur með einni einfaldri ákvörðun einstaklings flust úr byggðarlagi og kippt stoðum undan öllu atvinnulífi og þar með grundvelli heils byggðarlags (haft áhrif á verð fasteigna, þjónustustig sveitarfélagsins og tekjur o.s.frv.).
Annað atriði er að eignarréttur fiskistofnanna hefur færst frá þjóðinni (ríkinu) til eigenda útgerða og aðila sem oft á tíðum eru ekki einu sinni í útgerð. Upp hefur komið hópur manna sem hefur tekjur af því að leigja þeim sem lifibrauð hafa af útgerð og vinnslu kvóta. Hér er rétt að hafa í huga að þegar talað hefur verið um svokallaðan auðlindaskatt er oft hamrað á því af hálfu útgerðanna að það skekki rekstrarstöðu útgerðanna að greiða skatt af auðlindinni en sjaldan heyrist nein gagnrýni á að greiða einstaklingum sem de facto eignarrétt hafa yfir auðlindinni leigu fyrir aðgang að auðlindinni, sem er ekkert annað en einskonar skattur, eða hefur
í það minnsta sömu rekstrarlegu áhrif fyrir fyrirtækin. Það eru svo óhrekjanleg rök, í mínum huga, að réttara sé, á allan hátt, að ríkið (samfélagið) fái leigutekjur af kvóta fremur en einhverjir einstaklingar.

 

Það er því tillaga mín að allur kvóti verði innkallaður og nýtt úthlutunarkerfi verði tekið upp. Ég legg það til að kvóta verði úthlutað til landsfjórðunganna og tekið mið af því hvar fiskimið eru þegar ákvörðun er tekin af samsetningu fiskitegunda kvótaúthlutunar. Síðan er sá kvóti sem til fellur hverjum landsfjórðungi einfaldlega boðin upp og seldur hæstbjóðanda. Skilyrði fyrir því að mega bjóða í kvótann sé að viðkomandi stundi útgerð og útgerðin eigi lögheimili í fjórðungnum. Þessi einfalda meðhöndlun gerir meira en að koma á meira réttlæti en núverandi kerfi bíður upp á, sem er eitt og sér nægjanleg rök til að koma þessu á, heldur hjálpar þessi tilhögun á öðrum sviðum einnig eins og á sviði byggðarmála. Þessi tilhögun myndi tryggja það að á meðan kvóta væri úthlutað af ríkinu þá væri sá kvóti innan fjórðungsins – ekkert gæti breytt því. Þegar talað er með núverandi kerfi, og það eru nær eingöngu útgerðarmenn sem það gera, þá eru gjarnan ein rökin þau að nauðsynlegt sé að hafa kerfi sem hægt sé að stóla á og fyrirtæki geti gert áætlanir eftir. Það heyrist, aftur á móti, sjaldnar að það sé ekki síður mikilvægt að fólk og sveitarfélög þurfi að geta gert framtíðaráætlanir og stólað á tekjur og atvinnu. Þessi tilhögun, að binda kvóta alfarið við landsfjórðunga, tryggir atvinnu og tekjur af föstu hlutfalli úthlutaðs kvóta í byggðum landsins og leysir þar með stærsta vandan sem núverandi kvótakerfi hefur skapað s.s. þann að kvóti geti fyrirvaralaust horfið úr byggðarlögum og kippt þar með stoðum undan atvinnu og lífsviðurværi fólks.

Það sem þetta gerir svo að auki er að þetta eykur valddreifingu. Heildarkvóti er ákveðinn af fiskistofu samkvæmt nákvæmustu mælingum og út frá ákvörðunum fiskifræðinga en úthlutun fjórðunganna er bundin ákvörðunum heimamanna og er á stjórnsýslustigi sveitastjórna. Það er þeirra að tryggja að sem best nýting fáist úr auðlindinni með því að bjóða aðgang að henni út og taka tilboðum hæstbjóðenda sem annars er líklegastur til að ná aflanum og landa landsfjórðungnum til heilla og mestra tekna.

Að lokum er þessi tilhögun tekjuuppspretta fyrir landsfjórðungana, sem svo aftur tengist inn á valddreifinguna. Það er sveitastjórnanna á hverjum stað að nota þær tekjur sem sala kvótans gefur, veri það til að lækka skatta, byggja og reka skóla, bæta samgöngur, eða setja í heilbrigðiskerfið svo eitthvað sé nefnt.

 

Ég held því fram að með því að innkalla alla úthlutunarkvóta til ríkisins og úthluta þeim upp á nýtt eins og ég hef útlistað hér myndi nást nákvæmlega sami ávinningur og er í núverandi kerfi varðandi fiskveiðistjórnun sem er aðalatriði og megintilgangur kerfisins en að auki myndi þessi tilhögun bæta úr annmörkum núverandi kerfis sem og ná fram öðrum markmiðum eins og í byggðarmálum. Það eru þrjú atriði sem ég tel að muni standa upp úr og réttlæta muni að taka upp þessa tilhögun á úthlutun fiskveiðikvóta:

 

1. Þessi tilhögun myndi útiloka það að til séu aðilar sem geti haft tekjur af því að leigja sjómönnum og útgerðarmönnum kvóta sem er eitthvað sem ég fullyrði að hafi aldrei verið meiningin og sé ekkert annað en klár og óréttlætanleg misnotkun á kerfinu.

 

2. Þessi tilhögun myndi styrkja byggðir landsins.

 

3. Þessi tilhögun myndi stuðla að valddreifingu.

 

Þór Þórunnarson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta eru afar þarfar ábendingar og fullrar athygli verðar. Það sem helst er talið núverandi kerfi til gildis er hin mikla hagræðing sem talin er fólgin í stórum rekstareiningum. Fátt vilja talsmenn þessa kerfis ræða um auknar skuldir útgerðarinnar sem margföldun nemur.

Aldrei hefur eyðing útbyggða ásamt verðlausum fasteignum verið reiknuð inn í hagkvæmnitölur. Aldrei hafa umræður heyrst þar sem leitað er svara við mikilvægustu spurningunni:

Eigum við að setja mannlíf, sjálfsvirðingu og hamingju fólks í jaðarbyggðum á vogarskálar hagvaxtarins?

Og: Er trúverðugt að fiskurinn sem veiddur er með minnstum kostnaði, veiddur á grunnmiðum af smábátaútgerð- skili minni arði en fiskur sem veiddur er á skip sem kosta milljarð og eru í eigu úrgerða sem greiða hundruð milljóna á ári í starfsmannahald, yfirstjórn og skrifstofuhúsnæði?

Mér sýnist tillögur þínar geta verið grunnur að nýrri skipan þessara mála í bland við nokkrar aðrar sem litið hafa dagsins ljós.

Hinu má svo ekki gleyma að sú vísindalega stjórnun sem Hafró hefur annast hefur sannað sig í að vera röng og alvarlegt slys í allri hagfræði þessa mikilvæga atvinnuvegar. 

Árni Gunnarsson, 18.1.2008 kl. 17:31

2 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Frábært að vita til þess að menn eins og þú Árni standið vaktina með mér, ekki veitir af og alltof margir láti sig þessi mál litlu skipta. Mér þætti vænt um að heyra þær aðrar tillögur er þú nefnir.

Varðandi vísindamennina og tillögur þeirra þá verð ég að segja að þessi vísindi eru frekar veik en aðalatriðið er að búa þarf svo um hnútana að sem mest vitneskja náist um lífríkið í hafinu í kring um landið og fara svo eftir þeim tillögum sem fiskifræðingar koma með. Það hefur aldrei verið gert og er það aðalástæða þess að fiskverndarsjónarmið kvótakerfisins hafa aldrei náðst fram.

Ég vona svo að við séum sammála um það að allt kapp verður að leggja á að ofveiða ekki fiskistofnana því allir tapa á því hvernig sem á það er svo litið. Ég held því svo fram að það besta sem við getum gert til að koma í veg fyrir ofveiði sé að rannsaka á vísindalegan hátt hversu mikla veiði fiskistofnarnir þola og fara svo eftir því en láta ekki stundarhagsmuni ráða.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 18.1.2008 kl. 17:48

3 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Já og Árni mér láðist að geta þess í fyrri athugasemd minni að landfjórðungsúthlutunarkerfið á ekki að hafa nein neikvæð áhrif rekstrarlega séð fyrir fyrirtækin hvað varðar hagvæmni stærðar of þvíumlíkt. í dag eru það 10 - 15 fyrirtæki sem hafa yfir að ráða mestum kvóta. Það að festa sig í ákveðnum landsfjórðungi með allan sinn rekstur yrði til þess að þau fyrirtæki sem ákveddu að setjast að í viðkomandi fjórðungi gætu vel dafnað á þeim kvótastærðum sem í boði væru. Ég fullyrði að rekstrarafkoma fyrirtækja í sjávarútvegi þyrfti ekkert að versna, nema síður sé, þó svo það fyrirkomulag sem ég mæli með myndi komast á.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 18.1.2008 kl. 18:04

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Áður en lengra er haldið vil ég upplýsa að álit mitt á Hafró er við frostmark. Svonefnt togararall er notað til ákvörðunar stofnstærðar þorsks ásamt að sjálfsögðu fleiri rannsóknarþáttum. Reyndir skipstjórar og reyndar fleiri gamlir togarasjómenn hafa tekið þátt í þessu og telja vinnubrögðin fráleit og hafa lýst þeim skoðunum með fálæti, svo ekki sé fastar að orði kveðið.´

Hafir þú ekki lesið bloggsíðu Kristins Péturssonar með hlutlausri athygli, hvet ég þig til þess. Fáir, ef nokkrir úr "leikmannahópnum" hafa lagt sig betur eftir þeim upplýsingum og rannsóknum Hafró sem birst hafa opinberlega en hann.

B. kv.  

Árni Gunnarsson, 18.1.2008 kl. 21:57

5 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Já ég tók það fram að vísindin eru frekar veik þegar kemur að hafrannsóknum. En sé bara ekki í svipinn aðra betri leið til að áætla þær stærðir sem hægt er að veiða úr stofnunum án þess að stofnarnir beri skaða að. Mun viða að mér allri þeirri þekkingu sem ég kemst yfir í þeim efnum og þar á meðal lesa síðu Kristins Péturssonar - takk fyrir ábendinguna.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 18.1.2008 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband